Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1452  —  389. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996,
með síðari breytingum (mannanafnanefnd, ættarnöfn o.fl.).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Heiða Björg Pálmadóttir frá Barnaverndarstofu, Guðrún Kvaran frá Íslenskri málnefnd, Ágústa Þorbergsdóttir, Helgi Áss Grétarsson og Jóhannes Bjarni Sigtryggsson frá mannanafnanefnd, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Margrét María Sigurðardóttir og Elísabet Gísladóttir frá umboðsmanni barna. Umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, Íslenskri málnefnd, mannanafnanefnd, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökunum ´78, Trans-Íslandi, Q – félagi hinsegin stúdenta, Intersex Íslandi, HIN – Hinsegin Norðurlandi, Félagi ungra jafnréttissinna á Íslandi, umboðsmanni barna og Þjóðskrá Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að undirstrika þá meginreglu varðandi nöfn og nafngiftir að almennt skuli gert ráð fyrir að nöfn séu leyfð, að foreldrum sé treyst til að velja börnum sínum nafn og að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé virt. Í frumvarpinu felst að mannanafnanefnd verði lögð niður og að þær kvaðir sem lög um mannanöfn fela í sér varðandi ættarnöfn verði felldar brott. Þá felst í frumvarpinu að ákvæði um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn verði felld brott og jafnframt ákvæði um að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að ákvæði þess efnis að nafn megi ekki vera nafnbera til ama verði felld brott.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að nafn einstaklings sé nátengt sjálfsmynd og sjálfsvitund fólks og að hagsmunir einstaklinga af því að fá að heita nafninu sínu séu ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að fólk fái ekki að heita ákveðnu nafni.
    Almennt voru umsagnaraðilar hlynntir því að auka frjálsræði og rýmka reglur um mannanöfn og nafngiftir barna. Íslensk málnefnd, mannanafnanefnd og Þjóðskrá Íslands telja hins vegar nauðsynlegt að ráðist verði í heildarendurskoðun á lögum um mannanöfn.
    Við meðferð málsins í nefndinni var fjallað um hvort þörf væri á að hafa eftirlit með nafngiftum, m.a. með tilliti til þess hvort nafn geti verið börnum til ama eða ekki. Fram komu sjónarmið um að nauðsynlegt væri að hafa einhvers konar eftirlit með nafngiftum barna. Almennt ætti svigrúm foreldra til að velja nöfn barna sinna að vera mikið, en þó gætu komið upp tilvik þar sem nafn gæti haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd og sjálfsvitund einstaklings og þá væri nauðsynlegt að hið opinbera gæti gripið inn í nafngiftina. Ljóst er þó að slík tilvik eru fá, auk þess sem ekki er auðveldlega hægt að afmarka hvenær nafn getur verið einstaklingi til ama. Í tengslum við umræðu um nafngiftir barna komu jafnframt fram sjónarmið um að nauðsynlegt væri að tryggja að barn hefði tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á mögulegum breytingum á nafni þess og að tekið yrði réttmætt tillit til skoðana þess, í samræmi við aldur barnsins og þroska. Ætti það jafnt við um breytingar er varða eiginnöfn og kenninöfn barna.
    Fyrir nefndinni var einnig rætt um þá tillögu frumvarpsins að fella brott ákvæði um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn. Að baki breytingunni liggja þau sjónarmið að slík regla sé tímaskekkja og með henni takmarki löggjafinn frelsi einstaklingsins til að skilgreina sig og sitt kyn. Þannig geta lög um mannanöfn útilokað hluta transfólks og intersexfólks þegar kemur að möguleikum á nafnbreytingum, t.d. ef einstaklingur upplifir sig hvorki sem karl eða konu eða hefur verið úthlutað röngu kyni á barnsaldri. Það geti haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks ef það getur ekki valið sér nafn í samræmi við kynvitund sína og að nauðsynlegt sé að huga að því að auðvelda trans- og intersexfólki að bera nafn við hæfi. Við meðferð málsins í nefndinni var jafnframt bent á að viss eiginnöfn væri bæði hægt að gefa dreng eða stúlku en vegna ákvæðis mannanafnalaga um að drengjum skuli gefin karlmannsnöfn og stúlkum kvenmannsnöfn hefur mannanafnanefnd þurft að synja beiðnum einstaklinga um að bera tiltekin nöfn þar sem ekki hefur verið hefð fyrir að gefa nafn báðum kynjum. Fyrir nefndinni var rætt um möguleika þess að rýmka reglur um karlmannsnöfn og kvenmannsnöfn. Við umfjöllun málsins var þó varað við að fella ákvæðið brott þar sem um væri að ræða grundvallarbreytingu á nafnakerfinu, þ.e. að hægt verði þá að nefna drengi kvenmannsnöfnum og stúlkur karlmannsnöfnum.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ættarnöfn verði gefin frjáls. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að leita ætti leiða til að viðhalda hinu germanska nafnakerfi, þ.e. þeirri hefð að kenna sig við föður eða móður. Þessi hefð er einstök fyrir íslenskt mál og menningararfur sem þarf að hlúa að, en mikilvægt er að það sé gert þannig að jafnræðis sé gætt. Þá væri óljóst hvernig fara skyldi með millinöfn yrðu ættarnöfn gefin frjáls, en á þau hefur verið litið sem ígildi ættarnafna þar sem millinöfn má hvort heldur er gefa stúlku eða dreng sem hafa almennt ekki unnið sér hefð sem eiginnafn karla eða kvenna. Bent var á að ættarnöfnum sé ætlað að fylgja ættum en verði þau gefin frjáls án nokkurra takmarkana gætu ótengdir aðilar borið sama ættarnafn. Mögulega þyrfti að setja frekari skilyrði um heimild til að bera eða taka upp ættarnafn, hvort sem um ræðir ættarnöfn sem nú eru í notkun eða ný ættarnöfn.
    Við meðferð málsins í nefndinni var bent á að skilgreina þyrfti hugtök í mannanafnalögum og mikilvægt væri að til staðar væru einhver skilyrði um hvað teldist vera nafn. Vakin var athygli á að í frumvarpinu er ekki skilgreint hvaða nöfn geti talist ættarnöfn, auk þess sem ekki er að finna skilyrði sem nafn þarf að uppfylla til að geta talist eiginnafn. Þá er einnig fellt brott skilyrði um að nafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðru. Þannig er álitamál hvort t.d. tákn, tölur eða stafarugl geti verið nafn.
    Á fundum nefndarinnar komu fram upplýsingar um fjölda skráðra nafnbreytinga sem framkvæmdar hafa verið í þjóðskrá á árunum 2005–2014. Á þessu tímabili hafa verið framkvæmdar 25.170 nafnbreytingar en heildarfjöldi nafnbreytinga á ári er á bilinu 2.000–3.000. Á tímabilinu voru framkvæmdar 17.360 kenninafnsbreytingar, en slíkar breytingar geta t.d. falið í sér að kenning til föður verður kenning til móður og öfugt, ættleitt barn er kennt til kjörforeldris eða ættarnafn er tekið upp eða fellt niður. Eiginnafnsbreytingar á sama tímabili voru 1.728 talsins, en m.a. getur verið um að ræða að eiginnafn er tekið upp til viðbótar öðru nafni eða að eiginnafn er tekið upp og annað fellt niður. Á tímabilinu sem um ræðir voru jafnframt framkvæmdar 1.473 millinafnsbreytingar, t.d. að eiginnafn foreldris í eignarfalli er gert að millinafni, ættarnafn sem borið er í þjóðskrá er gert að millinafni eða ættarnafn maka er gert að millinafni. Skráðar voru 3.342 nafnbreytingar sem fengnar voru erlendis vegna búsetu þar. Aðrar nafnbreytingar eru t.d. nafnbreytingar fólks af erlendum uppruna eða niðurfelling nafns sem ekki var skráð í þjóðskrá. Athygli vekur að flestar skráðar nafnbreytingar varða breytingar á kenninafni einstaklinga. Nefndin telur framangreindar upplýsingar veita ákveðnar vísbendingar um ástæður nafnbreytinga og að þær séu mikilvægar í umræðu um nauðsyn þess að rýmka reglur um nöfn og nafngiftir.
    Lög um mannanöfn voru síðast tekin til heildarendurskoðunar fyrir um 20 árum. Ljóst er að úrskurðir mannanafnanefndar hafa sætt gagnrýni, en nefndin er bundin af ákvæðum laganna í störfum sínum. Skiptar skoðanir eru meðal nefndarmanna um hversu langt eigi að ganga varðandi breytingar á lögunum. Þar vegast á sjónarmið um frelsi einstaklingsins, möguleikar íslenskrar tungu á að taka breytingum og þróast varðandi nafngiftir, mikilvægi þess að mannanöfn falli að íslensku máli og málkerfi og að sátt ríki um nöfn og nafngiftir. Nefndarmenn eru þó allir sammála um það líkt og allir gestir nefndarinnar að a.m.k sé full þörf á því að ráðast í endurskoðun laganna með það að markmiði að auka frjálsræði.
    Í mars 2015 tilkynnti innanríkisráðuneytið að það athugaði nú hvort þörf væri á að endurskoða lög um mannanöfn og kallaði af því tilefni eftir sjónarmiðum um hugsanlega endurskoðun mannanafnalaga. Þá hefur verið greint frá því að innanríkisráðuneytið muni á næstunni kanna í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands viðhorf almennings til löggjafar um mannanöfn. Nefndin fagnar þessari vinnu ráðuneytisins og telur framtakið vera til fyrirmyndar. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að nauðsynlegt sé að gera breytingar á lögum um mannanöfn. Nefndin telur að við heildarendurskoðun laganna skuli hafa að leiðarljósi rétt hvers manns til nafns, sem nýtur verndar skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og verður aðeins takmarkaður með sérstakri lagaheimild og ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Þörf er á að breyta lögum um mannanöfn til að þau séu í sem bestu samræmi við ríkjandi viðhorf og aðstæður í samfélaginu. Við heildarendurskoðun laganna telur nefndin rétt að höfð sé hliðsjón af þeim ólíku sjónarmiðum sem lýst er í áliti þessu.
    Samkvæmt framangreindu leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 15. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Hanna Birna Kristjánsdóttir.