Ferill 688. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1454  —  688. mál.

Síðari umræða.


Fram­haldsnefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019.


Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Fjárlaganefnd hefur fengið fjármála- og efnahagsráðherra til fundar við sig í kjölfar umræðna um tillöguna í þingsal. Ljóst er að athugasemdir og ábendingar minni hlutans um gildi tillögunnar áttu við rök að styðjast.
    Að mati minni hlutans munu nýgerðir kjarasamningar, ákvarðanir um skattalækkanir og áætlun um losun hafta hafa umtalsverð áhrif á ríkisfjármálin næstu árin. Því er nauðsynlegt að draga tillöguna til baka og leggja fram nýja og vandaðri ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019.
    Minni hlutinn ítrekar þá gagnrýni á ríkisfjármálaáætlunina sem sett var fram í fyrra nefndaráliti. Að mati minni hlutans er ekki ljóst af hvaða forsendum ríkisfjármálaáætlunarinnar ráðherra fjármála er bundinn og þar með liggur vægi áætlunarinnar ekki skýrt fyrir. Auðvelt er að draga í efa gildi samþykktrar tillögu og færa fyrir því rök að í raun sé það geðþóttaákvörðun ráðherra hvaða forsendur hann velur að leggja sem grunn að fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016.
    Að mati minni hlutans þarf að skýra forsendur fyrir útreikningum á tekjum og gjöldum mun betur til að styrkja tillöguna og færa ályktunina í það form sem lög um þingsköp Alþingis gera ráð fyrir. Fyrr verður umræðan og afgreiðsla tillögunnar ekki í því formi sem æskilegt er. Mikilvægt er að með skýrari tillögu setji þingið ráðherrum skorður og viðmið í fjárlagagerðinni sem enginn vafi er um að þeim beri að fylgja. Minni hlutinn leggur því til að málið komi ekki til atkvæðagreiðslu á yfirstandandi þingi, en verði lagt fram að nýju í haust með nýrri og skýrari áætlun til næstu fjögurra ára.

Alþingi, 16. júní 2015.

Oddný G. Harðardóttir,
frsm.
Brynhildur Pétursdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.