Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1455  —  127. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fríverslunarsamning við Japan.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, utanríkisráðuneyti og Verslunarráði Íslands í Japan. Þá barst sam­eigin­leg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli yfirlýsinga japönsku ríkisstjórnarinnar um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum.
    Japan er mikilvægur markaður fyrir íslenskar afurðir, ekki síst á sviði sjávarútvegs. Þá flytja Íslendingar inn margvíslegar vörur frá Japan. Fríverslunarsamningur milli landanna mundi því bæta lífskjör þjóðanna beggja með lægra vöruverði og aukinni framleiðslu og veltu í viðskiptum.
    Japönsk stjórnvöld hafa á síðasta áratug opnað viðskipti sín við útlönd smám saman með því að ráðast í gerð fríverslunarsamninga. Þá hefur núverandi ríkisstjórn Japans lagt fram skýr og víðtæk áform um opnun á viðskiptum við umheiminn. Er þar sérstaklega vísað til þjóða sem hafa yfir miklum auðlindum að ráða.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að íslensk stjórnvöld hafi lengi falast eftir fríverslunarviðræðum við Japan án árangurs. Einnig hefur verið unnið að slíkum samningum á vettvangi EFTA, en niðurstaðan af þeim umleitunum var gerð tvíhliða samnings milli Japans og Sviss. Nefndin tekur undir þau rök að breyttar aðstæður feli í sér tækifæri fyrir Ísland sem beri að láta á reyna af fullum þunga. 60 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna á næsta ári er gott tilefni og hvatning til að hefja viðræður við fyrsta tækifæri.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. júní 2015.

Birgir Ármannsson,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Anna María Elíasdóttir.
Elín Hirst. Frosti Sigurjónsson. Katrín Jakobsdóttir.
Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Össur Skarphéðinsson.