Ferill 628. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1474  —  628. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl.


Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson, Matthías Geir Pálsson, Axel Nikulásson og Pétur G. Thorsteinsson frá utanríkisráðuneyti, Jón B. Guðnason frá Landhelgisgæslu, Glóeyju Finnsdóttur og Karl Alvarsson frá Isavia og Auði Lilju Erlingsdóttur og Stefán Pálsson frá Samtökum hernaðarandstæðinga. Þá hafa borist umsagnir um málið frá Isavia og Samtökum hernaðarandstæðinga.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum á tveimur meginsviðum, annars vegar um aðgang erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og hins vegar innleiðingu alþjóðaskuldbindinga varðandi frystingu fjármuna og skyld mál sem varða þvingunaraðgerðir.
    Nánar tiltekið eru í frumvarpinu í fyrsta lagi reglur varðandi aðgang erlendra ríkisfara, sjófara jafnt sem loftfara, að íslensku yfirráðasvæði sem taki við af úreltri tilskipun frá 24. júlí 1939 sem verið hefur grundvöllur slíkra heimilda hingað til.
    Í öðru lagi eru í frumvarpinu ákvæði um ­fljótvirkari birtingu lista yfir hryðjuverkamenn og samtök þegar frysta þarf fjármuni þeirra. Meginalþjóðaskuldbindingar Íslands varðandi frystingu fjármuna hryðjuverkasamtaka stafa frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Á undanförnum árum hefur innleiðing á Íslandi á þessum skuldbindingum tekið um það bil þrjá mánuði að meðaltali. Peningaþvættisstofnunin, FATF, hefur ákveðið að þegar öryggisráðið breytir listum sínum yfir hryðjuverkamenn og samtök sem skylt er að frysta fjármuni hjá verði að innleiða þá breytingu í landslög umsvifalaust og í það minnsta innan tveggja til þriggja daga. Aðildarríki Peningaþvættisstofnunarinnar, t.d. Noregur, hafa leyst þetta með þeim hætti að vísa í löggjöf sinni beint á vefsíðu öryggisráðsins hvað varðar uppfærslu hryðjuverkalistanna, en birta þá ekki endilega í eigin stjórnartíðindum. Með frumvarpinu eru lagðar til hliðstæðar lagaheimildir.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að heimildir verði rýmkaðar til þess að beita þvingunaraðgerðum í samvinnu við samstarfsríki Íslands. Samkvæmt gildandi lögum getur ríkisstjórnin framkvæmt þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, alþjóðastofnunum eða ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Lagt til að þessi heimild verði útvíkkuð til þess að hægt sé að innleiða þvingunaraðgerðir samstarfsríkja og er þá átt við samstarfsríki Íslands innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Norður-Atlantshafsbandalagsins, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.
    Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að heimilað verði að takmarka viðskipti með hrádemanta frá átakasvæðum (svokallaða blóðdemanta), svo og viðskipti með tól sem nota má til pyntinga eða við framkvæmd dauðarefsingar. Vísað er til Kimberley-ferlisins, alþjóðasamstarfs um að vinna gegn viðskiptum með demanta frá átakasvæðum og koma í veg fyrir að þeir séu notaðir til þess að fjármagna ofbeldisverk af hálfu uppreisnarhópa eða hryðjuverkasamtaka. Þar sem Ísland er aðili að samningum sem banna dauðarefsingu og pyntingar þykir rétt að banna viðskipti með tól sem nota má til pyntinga eða dauðarefsinga á sama hátt og hefur verið gert í nágrannalöndunum.
    Í fimmta lagi er með frumvarpinu lagt til að takmarka megi fjárfestingar í fyrirtækjum sem veita þjónustu eða framleiða hluti sem mætti nota í hernaðarlegum tilgangi. Í gildi eru lög sem kveða á um að leyfi þurfi fyrir útflutningi á þjónustu og vörum sem nota mætti í slíkum tilgangi. Þá gildir útflutningsbann til fjölda ríkja á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Eðlilegt þykir að setja takmarkanir á að erlendir aðilar, fyrst og fremst utan Evrópska efnahagssvæðisins, geti eignast meiri hluta í þeim fyrirtækjum á Íslandi sem framleiða umræddar vörur eða veita þjónustu sem bannað er að veita í tilteknum löndum. Að öðrum kosti er aukin hætta á að hægt verði að komast fram hjá gildandi lögum um eftirlit með útflutningi.
    Á fundum nefndarinnar með gestum var nokkuð fjallað um þá breytingu sem felst í rýmkuðum heimildum til þátttöku í þvingunaraðgerðum þannig að Ísland geti tekið þátt í þvingunaraðgerðum í samvinnu við samstarfsríki. Samkvæmt gildandi lögum getur ríkisstjórnin, eins og fyrr segir, framkvæmt þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, alþjóðastofnunum eða ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/ eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Fram kom dæmi um aðstæður þar sem til álita kom að samstarfsríki Íslands gripu til slíkra aðgerða en sú ákvörðun hefði ekki verið tekin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins eða annarrar alþjóðastofnunar. Ef til hefði komið hefði skort lagastoð fyrir þátttöku Íslands. Meiri hlutinn leggur áherslu á það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að þegar rætt er um samstarfsríki í þessu samhengi sé átt við samstarfsríki Íslands innan EES eða NATO.
    Í tengslum við umfjöllun nefndarinnar um aðgang ríkisloftfara að íslenskri lögsögu var nokkuð rætt um lagaleg úrræði vegna svokallaðs fangaflugs, sem dæmi eru um frá síðari árum. Fram kom að ákvæði frumvarpsins varðandi ríkisloftför fælu ekki í sér breytingar frá núgildandi framkvæmd en styrktu hins vegar lagalegan grundvöll þeirrar framkvæmdar. Möguleikar íslenskra yfirvalda til að bregðast við ólögmætu fangaflugi með ríkisloftförum væru undir því komnir að viðkomandi ríki veitti fyrir fram fullar upplýsingar um flugið, farþega og tilgang flugs eða að ábendingar bærust um slíkt eftir öðrum leiðum. Væri ekki um slíkt að ræða væru það helst lögreglu- og tollyfirvöld sem hefðu möguleika til eftirlits á flugvöllum, þó að teknu tilliti til hugsanlegs úrlendisréttar. Slíkar heimildir lögreglu og tollgæslu væru hins vegar ríkari gagnvart borgaralegu flugi, en dæmin um bandarísku fangaflugin snúast einmitt um flutning fanga með flugvélum sem voru skráðar á einkafyrirtæki. Í lagalegum skilningi var þar því ekki um ríkisloftför að ræða og féllu tilvik af því tagi því utan gildissviðs þessa frumvarps.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 9. júní 2015.

Birgir Ármannsson,
form., frsm.
Vilhjálmur Bjarnason. Anna María Elíasdóttir.
Elín Hirst. Frosti Sigurjónsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.