Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1488  —  605. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála,
lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum
um dómstóla (einföldun réttarfars).

(Eftir 2. umræðu, 29. júní.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „dómsuppsögu“ í 1. málsl. kemur: samningu dóms.
     b.      Á eftir orðunum „gefur út kvaðningar og tilkynningar“ í 2. málsl. kemur: heldur þing til uppkvaðningar dóms.

2. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    6. Nú er meðferð máls endanlega lokið fyrir héraðsdómi og tekur þá dómstjóri ákvörðun um afhendingu eftirrits skv. 1. mgr. eða kveður upp úrskurð skv. 5. mgr.

3. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    1. Við hvern héraðsdómstól skal haldin skrá yfir þau mál sem koma þar til úrlausnar samkvæmt lögum þessum.
    2. Dómstólaráð setur nánari reglur um:
     a.      málaskrár,
     b.      þingbækur, þar á meðal rafræna færslu þeirra,
     c.      búnað til hljóðritunar og myndupptöku í þinghöldum,
     d.      dómabækur,
     e.      varðveislu málsskjala, hljóðritana og myndupptaka,
     f.      aðgang að endurritum af dómum og úr þingbók, svo og að framlögðum skjölum, þ.m.t. brottnám upplýsinga úr þeim,
     g.      form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd stefnu og greinargerðar stefnda.

4. gr.

    1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    1. Dómari getur ákveðið að eigin frumkvæði eða eftir ósk annars aðila eða beggja að skipta sakarefni þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um tiltekin atriði máls meðan önnur atriði þess hvíla og bíða þess að verða dæmd.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í lok 1. mgr. kemur: 3. mgr.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      2. Ef matsbeiðandi óskar getur dómari ákveðið að matsmaður þurfi ekki að semja skriflega matsgerð skv. 1. mgr. heldur skuli hann mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð fer fram, leggja þar fram skrifleg svör við matsspurningum sem til hans er beint í matsbeiðni og gefa skýrslu um niðurstöðu matsins, sbr. 2. mgr. 65. gr. Áður en matsmaður afhendir matsbeiðanda svörin og kemur fyrir dóm er honum rétt að krefjast greiðslu skv. 3. mgr.

6. gr.

    65. gr. laganna orðast svo:
    1. Að kröfu aðila ber matsmanni að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni. Ef matsmaður hefur ekki skilað skriflegri matsgerð er honum skylt að koma fyrir dóm að kröfu matsbeiðanda, leggja þar fram skrifleg svör við matsspurningum án rökstuðnings og skýra frá niðurstöðu mats, svo og að svara spurningum um atriði sem tengjast því. Nú hefur dómari kvatt til meðdómsmenn eftir að matsmaður kom fyrir dóm og getur aðili þá krafist þess að matsmaður komi að nýju fyrir dóm til skýrslugjafar.
    2. Ákvæðum VIII. kafla verður beitt um skýrslugjöf matsmanns eftir því sem þau geta átt við.

7. gr.

    Við 2. mgr. 99. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Krefjist stefndi þess að máli verði vísað frá dómi er honum heimilt að leggja fram greinargerð einungis um þá kröfu, enda sé hún lögð fram innan fjögurra vikna frá þingfestingu málsins. Nú verður máli ekki vísað frá dómi og ber þá dómara að veita stefnda sérstakan frest til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir.

8. gr.

    Við 3. mgr. 112. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í stað skriflegs úrskurðar getur dómari látið við það sitja að skrá úrskurðarorð í þingbók og færa munnlega rök fyrir niðurstöðu sinni nema úrskurður feli í sér lokaniðurstöðu máls. Ef úrskurður er kærður til æðra dóms skal dómari semja skriflegan úrskurð samkvæmt framansögðu.

9. gr.

    1. mgr. 113. gr. laganna orðast svo:
    1. Ef útivist hefur orðið af hálfu stefnda, hann hefur ekki skilað greinargerð, kröfur stefnanda eru þess efnis að unnt er að fullnægja þeim með aðför og dómari telur málatilbúnaði stefnanda í engu áfátt þannig að taka megi kröfur hans til greina, sbr. 1. mgr. 96. gr., má dómari ljúka máli með því að rita á stefnu að dómkröfurnar séu aðfararhæfar, svo og ákvörðun um málskostnað. Á sama hátt má dómari með áritun fallast á að lögveðréttur verði staðfestur til tryggingar kröfunum. Dómari getur um leið leiðrétt augljósar villur í stefnu til samræmis við þau skjöl sem stefnandi byggir á í málinu. Einnig getur dómari vísað málinu frá með áritun á stefnu ef gallar eru á því sem varða án nokkurs vafa frávísun þess án kröfu. Ef stefnandi unir ekki þeirri ákvörðun dómara getur hann krafist þess innan tveggja vikna að úrskurður gangi um frávísunina. Verði máli ekki lokið með framangreindum hætti skal kveðinn upp dómur eða úrskurður eftir almennum reglum.

10. gr.

    Við e-lið 1. mgr. 114. gr. laganna bætist: þó aðeins að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máli.

11. gr.

    Í stað orðsins „uppkvaðningu“ í 2. málsl. 2. mgr. 115. gr. laganna kemur: samningu.

12. gr.

    Í stað orðanna „Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 157. gr.“ í 5. mgr. 137. gr. laganna kemur: endurupptökunefndar samkvæmt lögum um dómstóla, sbr. 1. mgr. 167. gr.

13. gr.

    147. gr. laganna orðast svo:
    1. Héraðsdómari sendir kæruna til Hæstaréttar og gagnaðila þess sem kærir svo ­fljótt sem verða má nema hann kjósi sjálfur að fella kærðan úrskurð úr gildi.
    2. Ef héraðsdómari hefur ekki samið úrskurð skriflega, sbr. 3. mgr. 112. gr., skal hann gera það innan viku og afhenda þeim sem kærir. Dómara er jafnan heimilt að láta skriflegar athugasemdir sínar um kæruefni fylgja málsgögnum til Hæstaréttar.
    3. Sá sem kærir úrskurð eða dómsat­höfn skal senda Hæstarétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins í fjórriti sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Hann skal þá einnig, ef hann kýs, afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Hann skal samtímis afhenda gagnaðila eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Gögnum skal fylgja skrá um þau og skulu þau vera í því horfi sem Hæstiréttur mælir fyrir um.
    4. Nú afhendir sá er kærir úrskurð eða dómsat­höfn ekki greinargerð, ef því er að skipta, og kærumálsgögn til Hæstaréttar innan þess frests sem greinir í 3. mgr. þessarar greinar og verður þá ekki frekar af máli.
    5. Kæranda er heimilt að byggja á nýjum sönnunargögnum og skal þá farið að svo sem segir í 2. mgr. 145. gr.
    6. Hæstiréttur setur nánari reglur um frágang málsgagna í kærumálum.

14. gr.

    148. gr. laganna orðast svo:
    Þegar sá sem kærir úrskurð eða dómsat­höfn hefur afhent Hæstarétti málsgögn skal gagnaðilinn eiga þess kost að skila innan viku til Hæstaréttar skriflegri greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Telji hann skorta á að kærandi hafi afhent Hæstarétti þau gögn máls sem þörf sé á til að leysa úr kæruefninu getur hann látið fylgja greinargerð sinni þau málsgögn sem hann telur vanta. Kjósi gagnaðili að afhenda gögn af sinni hálfu skal það gert í því horfi sem Hæstiréttur mælir fyrir um.

15. gr.

    1. mgr. 149. gr. laganna orðast svo:
    1. Þegar vika er liðin frá því að kærumálsgögn bárust Hæstarétti getur rétturinn lagt dóm á kæruefnið, en jafnan skal þó athuga skjöl sem berast síðar frá aðilum svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið.

16. gr.

    2. mgr. 167. gr. laganna orðast svo:
    2. Aðili getur ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. nema einu sinni. Að öðru leyti getur aðili ekki afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
17. gr.

    Í stað orðsins „dómsuppsögu“ í 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: samningu dóms.

18. gr.

    Í stað 3. málsl. 9. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú þarf að taka skýrslu af brotaþola, yngri en 15 ára, og skal það þá gert í sérútbúnu húsnæði fyrir skýrslutöku af börnum nema hagsmunir brotaþolans krefjist þess að annar háttur verði á hafður. Enn fremur getur dómari ákveðið að skýrsla skuli tekin af vitni, yngra en 15 ára, í slíku sérútbúnu húsnæði.

19. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú er meðferð máls endanlega lokið fyrir héraðsdómi og tekur þá dómstjóri ákvörðun um afhendingu afrits skv. 1. og 3. mgr. eða kveður upp úrskurð skv. 6. mgr.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 17. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „færslu þeirra á tölvu“ í b-lið kemur: rafræna færslu þeirra.
     b.      Í stað orðsins „myndbandsupptöku“ í c-lið kemur: myndupptöku.
     c.      Í stað orðanna „myndbanda og mynddiska“ í e-lið kemur: og myndupptaka.
     d.      Orðin „birtingu dóma og annarra dómsúrlausna, til dæmis á vefsíðum dómstóla“ í f-lið falla brott.
     e.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi: form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd ákæru og greinargerðar ákærða.

21. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 38. gr. laganna orðast svo: Dómstólaráð skal setja reglur um tímagjald sem tekið skal mið af við ákvörðun þóknunar.

22. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 48. gr. laganna orðast svo: Dómstólaráð skal setja reglur um tímagjald sem tekið skal mið af við ákvörðun þóknunar.

23. gr.

    Á eftir orðunum „innan 30 daga eftir að það hefur“ í 1. málsl. 3. mgr. 150. gr. laganna kemur: sannanlega borist honum eða.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 161. gr. laganna:
     a.      Á undan orðunum „og má þá leggja dóm á málið“ í 1. málsl. kemur: eða hann sækir ekki þing á síðari stigum þess.
     b.      Í stað orðsins „sekt“ í a-lið kemur: sex mánaða fangelsi.
     c.      Í stað orðanna „sex mánaða“ í b-lið kemur: eins árs.

25. gr.

    Við 3. mgr. 181. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í stað skriflegs úrskurðar getur dómari látið við það sitja að skrá úrskurðarorð í þingbók og færa munnlega rök fyrir niðurstöðu sinni nema úrskurður lúti að aðgerðum skv. IX.–XIV. kafla eða feli í sér lokaniðurstöðu máls. Ef úrskurður er kærður til æðra dóms skal dómari semja skriflegan úrskurð samkvæmt framansögðu.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 183. gr. laganna:
     a.      Við d-lið bætist: án þess að gerð sé grein fyrir framburði ákærða og vitna nema að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máls.
     b.      E-liður orðast svo: við hvaða sönnunargögn og rök ákæra sé studd og andsvör ákærða við þeim eftir því sem þörf krefur.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 185. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó nægir að lesa upp dómsorð ef mál hefur verið dæmt skv. 1. mgr. 164. gr. en þá skal endurrit dómsins liggja fyrir innan viku frá uppkvaðningu hans.
     b.      Í stað orðsins „þann“ í 2. málsl. kemur: framangreindan.

28. gr.

    Í stað 1. málsl. 1. mgr. 194. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef héraðsdómari hefur ekki samið úrskurð skriflega, sbr. 3. mgr. 181. gr., skal hann gera það innan viku eftir að hann fær vitneskju um kæru. Telji dómari annmarka vera á kæru getur hann gefið kæranda skamman frest til að lagfæra hana.

29. gr.

    Við 211. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú er dómfelldi látinn og getur þá endurupptökunefnd orðið við beiðni maka, barna, foreldra eða systkina hins látna um endurupptöku máls enda sé einhverju skilyrða 1. mgr. fullnægt og sérstaklega standi á. Sá sem fer fram á endurupptöku nýtur eftir því sem við á sömu réttarstöðu og dómfelldi við meðferð beiðninnar hjá nefndinni.

30. gr.

    1. mgr. 213. gr. laganna orðast svo:
    Ef beiðni um endurupptöku er ekki hafnað þegar í stað samkvæmt því sem í 3. mgr. 212. gr. segir skulu hún og gögnin, sem henni fylgdu, send til gagnaðila og hann krafinn um skriflega greinargerð um viðhorf sín til hennar innan tiltekins frests. Hafi dómfelldi borið fram beiðnina og staðið sjálfur að henni getur endurupptökunefnd þó fyrst skipað honum lögmann og gefið honum kost á að gera beiðni á nýjan leik. Við frekari meðferð beiðni um endurupptöku er nefndinni skylt að skipa dómfellda eða ákærða lögmann til að gæta réttar hans ef hann óskar eftir því. Nefndin ákveður þóknun lögmanns vegna starfa hans fyrir henni og er sú ákvörðun endanleg.

III. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.
31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á sama hátt má dómari ljúka máli með ákvörðun ef aðfararbeiðni er að öllu leyti tekin til greina.
     b.      Á eftir orðunum „ályktunarorð úrskurðar“ í 2. mgr. kemur: eða ákvörðun.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.
32. gr.

    Við 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna bætist: enda berist héraðsdómara krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti innan þriggja mánaða frá því áskorunin var birt skuldara.

V. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.
33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: ásamt þeim úrlausnum héraðsdómstóla sem við eiga hverju sinni.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við útgáfu dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða við­skipta­hagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari eftir reglum sem rétturinn setur.

34. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, svohljóðandi:
    Dómar héraðsdómstóla skulu gefnir út, sbr. þó 2. mgr. Um tilhögun útgáfunnar fer eftir ákvörðun dómstólaráðs að fengnu samþykki ráðherra.
    Héraðsdómar í einkamálum sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengni við þau, skulu ekki gefnir út. Við útgáfu annarra dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða við­skipta­hagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Í því skyni skal í dómum í sakamálum gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur, nema um sé að ræða börn. Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða er til. Þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið. Dómstólaráð skal setja nánari reglur um hvaða dómar skuli ekki gefnir út og hvernig standa skuli að brottnámi upplýsinga úr öðrum dómum.

35. gr.

    1. mgr. 34. gr. laganna orðast svo:
    Endurupptökunefnd er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tekur ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði eða Hæstarétti.

36. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2015. Ákvæði 32. gr. skal beitt um kröfur um gjaldþrotaskipti sem berast héraðsdómi eftir gildistöku laganna. Ákvæðum 13.–15. gr. skal beitt um kærur sem afhentar eru héraðsdómara eftir gildistöku laganna.