Ferill 643. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1540  —  643. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990,
með síðari breytingum (erfðaefni holdanautgripa).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur að mikil áhætta felist í því fyrir íslenskan landbúnað að flytja inn erfðaefni, hvort sem um er að ræða fósturvísa eða sæði. Telur minni hlutinn að ekki eigi að taka slíka áhættu enda mikil hætta á smitsjúkdómum hjá íslensku búfé sem hefði ófyrirséðan skaða í för með sér.
    Minni hlutinn telur brýnt að fram fari lýðræðisleg umræða um efni frumvarpsins sem sérfræðingar, bændur og fulltrúar Bændasamtaka Íslands taki þátt í.
    Með þeim innflutningi sem lagður er til í frumvarpinu er opnað á innflutning á nýju kúakyni. Minni hlutinn bendir á að íslenska kúakynið hefur sérstöðu á heimsvísu og má benda á að mikil andstaða var árið 2003 þegar flytja átti inn fósturvísa úr norskum mjólkurkúm af hálfu þáverandi landbúnaðarráðherra. Við umfjöllun um málið barst nefndinni erindi þar sem fram kemur að íslenska sauðfjárkynið og íslenska mjólkurkúakynið hafi hátt verndargildi m.a. vegna mikils erfðafjölbreytileika og því þurfi að taka tillit til heildarhagsmuna íslensks landbúnaðar.
    Þar sem ekki er útilokað að einangrunarstöðvar verði fleiri en ein eykst hættan á smitsjúkdómum umtalsvert og ítrekar minni hlutinn að óásættanlegt er að taka viðlíka áhættu. Benda má á að hagsmunir allra bænda eru undir, ekki aðeins þeirra sem hyggjast stunda nautgriparækt. Minni hlutinn telur tækifæri felast í því að auka gæði þeirra afurða nautgriparæktar sem þegar er til staðar í landinu og auka vöxt þeirrar greinar.
    Þó svo að meiri hlutinn hafi ákveðið að hnykkja á varúðarsjónarmiðum í áliti sínu þá er um að ræða stórt og umdeilt mál meðal þjóðarinnar, bænda, sérfræðinga í erfðaefnum og smitsjúkdómum og dýralækna. Einnig má benda á að kveðið er á um skilyrði fyrir einangrunarstöðvar í reglugerð og þar sem meiri hlutinn leggur ekki til breytingu á texta frumvarpsins verður unnt að slaka á kröfunum síðar.
    Minni hlutinn telur öll rök mæla með því að mun víðtækari umræða eigi sér stað og að málið hljóti ekki afgreiðslu á Alþingi á slíkri hraðferð og telur minni hlutinn rétt að þingið flýti sér hægt í þessum efnum. Ekki er stætt á því að líta aðeins til hagsmuna þeirra sem hyggjast nýta sér þá möguleika sem frumvarpið felur í sér og ítrekar minni hlutinn að miklir hagsmunir eru undir fyrir heilbrigði íslensks búfjár og bændastéttina í heild.

Alþingi, 30. júní 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.