Ferill 770. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1556  —  770. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára sam­gönguáætlun fyrir árin 2015–2018.


Frá minni hluta um­hverfis- og sam­göngunefndar.



    Minni hlutinn er sammála áliti meiri hluta nefndarinnar en telur að ekki sé nægilega að gert. Minni hlutinn harmar það að sam­gönguáætlun skuli koma inn til þingsins til umræðu svo seint sem raun ber vitni. Ekki hefur verið í gildi sam­gönguáætlun fyrir árið 2015 sem er í andstöðu við 3. gr. laga um sam­gönguáætlun, nr. 33/2008. Sam­gönguinnviðir landsins eru samfélagslega mikilvægir og því afar brýnt að í gildi sé á hverjum tíma sam­gönguáætlun í samræmi við lög. Minni hlutinn gagnrýnir einnig að ekki sé varið meira en ríflega 20 milljörðum kr. ár hvert til sam­göngumála. Nú þegar betur árar í ríkisfjármálum er mikilvægt að setja meiri fjármuni til uppbyggingar og viðhalds innviða, ekki síst í ljósi mikillar fjölgunar ferðamanna með tilheyrandi aukinni umferð um sam­göngukerfi landsins. Lítið er um nýframkvæmdir og ekki er heldur nægt fjármagn til viðhalds og þjónustu. Þá er ekki síður gagnrýnisvert að ekki er að sjá að mikilvæg aukning til málaflokksins sé fyrirhuguð á næstu árum ef farið er yfir ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir þinginu og ætla má að verði samþykkt á þessu þingi. Minni hlutinn lýsir því áhyggjum af skorti á framtíðarsýn.
    Í athugasemdum við tillöguna segir eftirfarandi um ástand þjóðvegakerfisins: „Þjóðvegakerfið er byggt upp á löngum tíma og misvel í stakk búið til að gegna hlutverki sínu. Stöðug aukning umferðar, aukinn umferðarhraði og ekki síst aukin þungaumferð á þjóðvegum leiðir af sér sífellt meiri þörf fyrir örugga og vel gerða vegi. Vegir sem lagðir voru fyrir 20–30 árum uppfylla ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til burðarþols, breiddar og umferðaröryggis. Kröfur vegfarenda eru einnig sífellt að aukast og ætlast er til að umferð geti gengið greiðlega allan sólarhringinn árið um kring.“ Um fjárþörf vegna viðhalds kerfisins segir eftirfarandi í athugasemdunum: „Árleg fjárþörf til viðhalds og þjónustu þjóðvega er metin um 11.000 millj. kr. ef horft er til lágmarksaðgerða í styrkingum og endurbótum. Markmiðin voru að hægt væri að hverfa frá þungatakmörkunum á Hringvegi, fyrst á leiðinni Reykjavík- Akureyri, og síðan á öllum Hringveginum. Núverandi fjárveitingar nægja varla til að verja vegakerfið skemmdum og halda uppi viðunandi þjónustu. Frekari endurbótum er því frestað um sinn. […]“ Um ástand á bundnu slitlagi kemur eftirfarandi fram í athugasemdunum: „Fram til ársins 2010 svaraði árleg endurnýjun bundinna slitlaga til 10–12% af flatarmáli eða 3,4–3,5 milljónum m 2. Það samsvaraði því að slitlag væri endurnýjað á 8–10 ára fresti. Hækkun á verði asfalts umfram annað verðlag hefur gert það að verkum að fjárveitingar til viðhalds á bundnu slitlagi nægja nú einungis til endurnýjunar á um 6–7% af flatarmáli á hverju ári og því einungis til endurnýjunar á 12–14 ára fresti, en það er langt umfram endingartíma slitlaganna. Niðurstaða árlegrar ástandsskoðunar sýnir að ástand slitlags hefur versnað undanfarin ár. […]“
    Til viðhaldsverkefna á þessu ári fara 5.850 millj. kr., samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir 6 milljörðum kr. árlega 2016–2018. Af þessu má sjá að aðeins er veittur rúmlega helmingar af því fé í viðhald vegakerfisins sem nauðsynlegt er. Viðhaldsþörfin mun því hlaðast upp sem er slæmt í ljósi þess að þjónusta hins opinbera á landsbyggðinni, bæði ríkis og ­sveitarfélaga, er sífellt að þjappast saman á færri staði og gerir það enn mikilvægara en ella að sam­göngur séu greiðar. Þá bendir minni hlutinn á að ýmis umferðaröryggisverkefni munu þurfa að bíða á meðan framlög til vegamála eru jafn lítil og raun ber vitni. Enn eru margar einbreiðar brýr í vegakerfinu sem geta skapað mikla hættu auk þess sem margar eru orðnar mjög gamlar og þarf að endurnýja. Landshlutasamtök ­sveitarfélaga og mörg ­sveitarfélög benda á þetta atriði í umsögnum sínum og mikilvægt að bregðast við.
    Hið sama má segja um framlög til hafnamála og flugmála. Til hafnamála á þessu ári er aðeins varið 147 millj. kr. ef frá eru talin framlög til Landeyjahafnar og Húsa­víkurhafnar. Lagðar eru til nokkru hærri fjárhæðir árin 2016–2018 en það mun þó sennilega duga skammt þar sem margar hafnir landsins þurfa mikið viðhald. Mikilvægt er að bregðast við uppsafnaðri viðhaldsþörf á næstu árum og hækka framlög til hafnamála enda eru hafnir margra ­sveitarfélaga á landsbyggðinni lífæð þeirra og þeirra mikilvægasta atvinnusvæði. Til flugmála er aðeins varið því sem nauðsynlega þarf til að halda flugvöllum landsins opnum. Ekki eru lagðar til neinar nýframkvæmdir. Árleg viðhaldsþörf núverandi flugvallakerfis er 600 millj. kr. en aðeins er varið um 370 millj. kr. til þess. Það er því einnig mikilvægt að auka fé til viðhalds flugvalla í landinu.
    Minni hlutinn leggur til nokkrar breytingar á áætluninni. Í fyrsta lagi er lagt til að lokið verði við gerð Detti­fossvegar strax á næsta ári. Á þessu ári er varið til verkefnisins 612 millj. kr. en heildarkostn­aður er 2,4 milljarðar kr. Hönnun vegarins er lokið og hann er tilbúinn til útboðs. Um fjölfarinn ferðamannaveg er að ræða sem mikilvægt er að lokið verði við. Þessi framkvæmd er liður í því að byggja upp gott aðgengi að nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Ferðamönnum þarf að dreifa betur um landið, um það er ekki deilt. Þessi sam­gönguframkvæmd er einn af lyklum þess að styrkja ferðaþjónustu á Norð­austurhorninu ásamt því að skapa tækifæri til að minnka ágang á fjölsóttustu náttúruperlum okkar. Það eru því að mati minni hlutans lítil sem engin rök að bíða með þessa framkvæmd. Minni hlutinn telur að samræma þurfi betur stefnumótun í ferðaþjónustu og uppbyggingu vegakerfisins og hvetur til þess að svo verði. Minni hlutinn leggur því til að þeir fjármunir sem upp á vantar fari til verkefnisins á næsta ári. Í öðru lagi leggur minni hlutinn til að lokið verði við að leggja bundið slitlag á Skálafellsveg og að veittar verði 120 millj. kr. til verksins á næsta ári. Í þriðja lagi leggur minni hlutinn til að framkvæmdir við Veiðileysu­háls á Strandavegi hefjist strax að loknum framkvæmdum við Bjarnar­fjarðar­háls eða árið 2017 og þeim ljúki árið 2018. Í fjórða lagi leggur minni hlutinn til breytingu í samræmi við ósk ­sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu um að kanna fýsileika léttlestakerfis á höfuð­borgar­svæðinu en slíkt kerfi er mikilvægt til að auka hagkvæmni sam­göngukerfisins þar og til að fjölga ferðum með almennings­sam­göngum. Samtök ­sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu eru í samvinnu við Vegagerðina um útfærslu á rannsóknarverkefninu sem er að hálfu fjármagnað. Leggur minni hlutinn því til að á næsta ári verði veittar 25 millj. kr. til verkefnisins. Breytingartillögurnar eru lagðar til í sérstöku þingskjali.


Alþingi, 18. júní 2015.

Katrín Júlíusdóttir,
frsm.
Svandís Svavarsdóttir.