Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1594, 144. löggjafarþing 434. mál: Stjórnarráð Íslands (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.).
Lög nr. 82 13. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.).


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum. Áður en ákvörðun um flutning á aðsetri stofnunar er tekin skal ráðherra gefa Alþingi skýrslu um fyrirhugaðan flutning.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Við 2. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast jafnframt m.a. upplýsingar um fundi sem ráðherrar eiga um mikilvæg málefni með aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess eða þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt mikilsverð málefni sem ástæða er til að ætla að eigi erindi við ríkisstjórnina í heild sinni.
  2. 2. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Auk ráðherranefnda sem starfa á hverjum tíma samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra, sbr. 1. mgr., skulu ávallt vera starfandi ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um efnahagsmál. Forsætisráðherra og sá ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins eiga fast sæti í ráðherranefnd um ríkisfjármál. Forsætisráðherra og sá ráðherra sem fer með málefni hagstjórnar og fjármálastöðugleika eiga fast sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál. Að öðru leyti gilda sömu reglur um ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál og um aðrar ráðherranefndir skv. 1. mgr.

4. gr.

     1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.

5. gr.

     Í stað orðanna „ráðuneyti hans“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: hann.

6. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skal skipuleggja aðalskrifstofu ráðuneytis með því að skipta henni upp í fagskrifstofur og skal hverri skrifstofu stýrt af skrifstofustjóra undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra. Jafnframt er heimilt að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem eru starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Slíkum starfseiningum stýrir embættismaður, í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.

7. gr.

     Á eftir 2. mgr. 21. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
     Við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta, sbr. 1. mgr. 4. gr., skal flytja fjárheimildir og starfsmenn milli ráðuneyta að því marki sem eðlilegt er talið að teknu tilliti til umfangs verkefna og aðstæðna. Viðkomandi ráðuneyti skulu gera með sér samkomulag um flutning fjárheimilda og starfsmanna milli ráðuneyta skv. 1. málsl. Ráðherra sem fer með fjármál ríkisins setur viðmið um fjárhæðir vegna flutnings stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Takist samkomulag ekki innan tveggja vikna frá því að forsetaúrskurður skv. 1. mgr. 4. gr. er gefinn út sker forsætisráðherra úr.

8. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.
     Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal ráðuneytið hafa reglulegt samráð við þau embætti.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal síðari málsliður 1. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. september 2015.

10. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Upplýsingalög, nr. 140/2012, með síðari breytingum: 1. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo: Stjórnvöld skulu að öðru leyti gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða.
  2. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum: Á eftir 1. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Heimilt er, án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður sem er ráðinn ótímabundið til starfa flytjist um afmarkaðan tíma eða varanlega milli stjórnvalda enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs.


Samþykkt á Alþingi 1. júlí 2015.