Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1596  —  417. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Fiskistofu
og ýmsum öðrum lögum (gjaldskrárheimild).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson, Ástu Einarsdóttur, Baldur P. Erlingsson og Margréti Sæmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurjón Ingvason frá Fiskistofu og Kolbein Árnason og Friðrik Friðriksson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fiskistofu, Hafnasambandi Íslands, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum atvinnulífsins, og Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gjaldtökuheimildum Fiskistofu vegna eftirlits og veittrar þjónustu stofnunarinnar en gjaldtökuheimildir hennar er nú að finna víða í lögum. Lagðar eru til einfaldari og skýrari gjaldtökuheimildir og að gjöld verði ákvörðuð í meira mæli en áður með gjaldskrá auk þess sem til grundvallar ákvörðun gjaldanna liggi raunverulegur kostn­aður sem hlýst af starfrækslu verkefna stofnunarinnar í samræmi við almenn sjónarmið um innheimtu þjónustugjalda. Þá eru lagðar til nokkrar nýjar gjaldtökuheimildir sem vikið er að í athugasemdum, sbr. 1., 2., 6., 9. og 11.–15. tölul. 2. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins, en þar er um að ræða gjöld vegna úttekta, útgáfu leyfa og vottorða og gjöld vegna sérvinnslu upplýsinga og aðgangs að gagnasöfnum. Aðrar gjaldtökuheimildir er þegar að finna í lögum og lúta breytingar frumvarpsins annars vegar að því að fella þær inn í lög um Fiskistofu eða vísa til gjaldskráa skv. a-lið 1. gr. frumvarpsins (5. gr. laganna) í viðeigandi lögum.
    Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið og kom einnig fram fyrir nefndinni munu nýjar gjaldtökuheimildir 2. mgr. a-liðar 1. gr., sem áður er vísað til, leiða til aukins kostnaðar fyrir aðila starfandi í sjávarútvegi. Að mati nefndarinnar ber að fara varlega í að leggja auknar opinberar álögur á sjávarútveginn líkt og aðrar atvinnugreinar ef hægt er en hins vegar liggur fyrir í þessu máli að ekki hafa verið til staðar gjaldtökuheimildir fyrir alla þá þjónustu og eftirlit sem Fiskistofu ber að sinna lögum samkvæmt. Hefur það leitt til þess að kostn­aður vegna þessa hefur verið greiddur með fé sem tekið hefur verið frá öðrum verkefnum stofnunarinnar. Fiskistofa gegnir mikilvægu hlutverki og nauðsynlegt er að starfsemi stofnunarinnar sé fullfjármögnuð miðað við þau verkefni sem henni eru falin af löggjafanum. Að öðru leyti er skýrari framsetning og afmörkun á kostnaðarliðum sem falla undir gjaldtökuheimildir til bóta.
    Nefndin leggur til nokkrar tæknilegar orðalagsbreytingar auk breytingar á gildistökugrein frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      B-liður 9. gr. orðist svo: Í stað orðanna „sjö daga eða sjö veiðiferðir samtals“ í 2. málsl. og „sjö daga eða sjö veiðiferðir“ í 4. málsl. kemur: einn dag eða eina veiðiferð.
     2.      Í stað orðanna „og er vísað til gjaldskrár Fiskistofu varðandi fjárhæðir“ í 10. gr. komi: samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu.
     3.      Í stað orðanna „vísast til gjaldskrár“ í 11. gr. komi: fer samkvæmt gjaldskrá.
     4.      15. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.

    Kristján L. Möller og Eldar Ástþórsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júlí 2015.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson.
    Jóhanna María Sigmundsdóttir.