Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1600, 144. löggjafarþing 692. mál: veiðigjöld (veiðigjald 2015--2018).
Lög nr. 73 10. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012 (veiðigjald 2015–2018).


1. gr

     1. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi gilda um ákvörðun, álagningu og innheimtu veiðigjalds.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „fiskveiðiár, veiðiheimild, þorskígildi og þorskígildisstuðull“ í 1. málsl. kemur: og fiskveiðiár.
  2. 5. tölul. fellur brott.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sérstakt veiðigjald, sbr. 9. gr., og gera tillögur um lækkun sérstaks veiðigjalds eða undanþágur frá greiðsluskyldu þess, sbr. 3. mgr. 9. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: veiðigjald, sbr. II. kafla.
  2. Orðin „sérstaks og almenns“ í 2. mgr. falla brott.
  3. Í stað orðsins „rentu“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: veiðigjalds.
  4. Orðið „sérstaks“ í 2. málsl. 4. mgr. fellur brott.
  5. 5. mgr. orðast svo:
  6.      Veiðigjaldsnefnd skal kynna ákvörðun veiðigjalds fyrir samráðsnefnd um veiðigjöld, sbr. 5. gr.


4. gr.

     Í stað orðanna „til að fjalla um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um sérstakt veiðigjald“ í 5. gr. laganna kemur: til að kynna sér ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um veiðigjald.

5. gr.

     Í stað II. kafla laganna (6.–12. gr.) kemur nýr kafli, Ákvörðun veiðigjalds o.fl., með fimm nýjum greinum, 6.–10. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (6. gr.)
Gjaldskyldir aðilar.
     Eigendur íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar skulu greiða veiðigjald svo sem segir í lögum þessum.
     Til nytjastofna sjávar samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð, hvort sem er innan eða utan íslenskrar fiskveiðilögsögu.
     
     b. (7. gr.)
Reiknuð framlegð við veiðar og afkomuígildi.
     Veiðigjaldsnefnd skal ákvarða reiknaða framlegð við veiðar á hverjum nytjastofni eigi síðar en 1. júlí ár hvert, fyrir komandi fiskveiðiár, þannig að frá aflaverðmæti stofnsins skv. a-lið sé dreginn launakostnaður skv. b-lið og breytilegur úthaldskostnaður skv. c-lið. Byggja skal á eftirgreindum gögnum og upplýsingum sem skulu vera svo nærri í tíma sem mögulegt reynist:
  1. Um aflamagn og aflaverðmæti skal byggt á skráðu magni og verðmæti afla eftir ólíkum nytjastofnum, reiknuðum til óslægðs afla, úr hverri veiðiferð fiskiskips, samkvæmt gögnum sem Fiskistofa safnar með heimild í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Þessi gögn skulu vera fyrir 12 mánaða tímabil.
  2. Launakostnað skal ákvarða sem hlutfall af aflaverðmæti skv. a-lið. Hlutfallið skal vera það sama og aflahlutir, annar launakostnaður og launatengd gjöld áhafna eru sem hlutfall af aflaverðmæti á heilu almanaksári samkvæmt upplýsingum sem aflað er með skattframtölum með heimild í 10. gr.
  3. Til breytilegs úthaldskostnaðar telst kostnaður fiskiskipa við veiðar á viðkomandi nytjastofni vegna eldsneytis eða annars orkugjafa, viðhalds, veiðarfæra, frystingar og umbúða um borð í skipum auk flutnings- og löndunarkostnaðar. Þennan kostnað skal reikna fyrir heilt almanaksár samkvæmt upplýsingum sem aflað er með skattframtölum skv. 10. gr. Þessi kostnaður tekur breytingum samkvæmt meðaltalsvísitölu neysluverðs frá því almanaksári sem er til viðmiðunar til meðaltals sama tíma og byggt er á í a-lið. Reikna skal meðalkostnað á hvern dag sem skip er við veiðiúthald, þ.e. á sjó. Þeim kostnaði skal jafnað niður á einstaka nytjastofna miðað við hlutfall aflaverðmætis hvers þeirra í hverri veiðiferð viðkomandi skips. Um fjölda veiðidaga fiskiskipa skal byggt á gögnum sem Fiskistofa safnar með heimild í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, vegna heils almanaksárs. Heimilt er að leiðrétta dagafjölda með samanburði við upplýsingar sem getur í a-lið fyrir sama tímabil.

     Um vanrækslu á skilum til Fiskistofu á upplýsingum sem um getur í a-lið 1. mgr. fer skv. 3. mgr. 12. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Sé upplýsingum ekki skilað eða ef upplýsingar sem látnar eru í té reynast ófullnægjandi, óglöggar, eða frekari þörf er talin á upplýsingum um einstök atriði, er Fiskistofu heimilt að líta til meðalverða samkvæmt innsendum upplýsingum skv. a-lið 1. mgr. Þá er heimilt, ef ástæða er talin til, að áætla aflaverðmæti sjávarafla fyrir einstaka nytjastofna. Við slíka áætlun er Fiskistofu heimilt að líta til verðmyndunar afla á uppboðsmörkuðum sjávarafurða yfir það tímabil sem um er að ræða, enda telji Fiskistofa að nægilegt aflamagn hafi farið um markaði til að gefa mynd af aflaverðmæti nytjastofnsins. Í þessu skyni getur Fiskistofa einnig aflað upplýsinga um ætlað meðalaflaverðmæti viðkomandi nytjastofns frá a.m.k. tveimur óháðum aðilum. Veiðigjaldsnefnd getur beint því til Fiskistofu að grípa til þessara aðgerða.
     Um slægingar- og nýtingarstuðla fer samkvæmt því sem segir í lögum um stjórn fiskveiða og lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, og reglugerðum sem settar eru með heimild í þessum lögum.
     Samtímis ákvörðun reiknaðrar framlegðar við veiðar á nytjastofni skal veiðigjaldsnefnd reikna afkomuígildi fyrir hvern nytjastofn. Afkomuígildi skal vera hlutfallið milli reiknaðrar framlegðar við veiðar á hverju kílógrammi óslægðs afla úr stofninum og reiknaðrar framlegðar við veiðar á hverju kílógrammi óslægðs þorsks. Við útreikninga skal byggja á sama aflamagni og byggt var á við ákvörðun reiknaðrar framlegðar skv. a-lið 1. mgr. Afkomuígildi nytjastofns skal þó aldrei ákveðið lægra en 0.
     
     c. (8. gr.)
Reiknigrunnur veiðigjalds.
     Reiknigrunnur veiðigjalds skal ákvarðaður á grundvelli upplýsinga í nýjustu útgáfu skýrslunnar Hagur veiða og vinnslu hverju sinni sem Hagstofa Íslands gefur út á grundvelli skattframtala rekstraraðila og ársreikninga fyrirtækja í sjávarútvegi. Reiknigrunnurinn skal vera sem hér segir:
  1. Fyrir botnfisk:
    1. allur hreinn hagnaður botnfiskveiða (EBT) að viðbættum
    2. 5% af eftirfarandi: öllum hreinum hagnaði (EBT) í söltun og herslu, og ferskfiskvinnslu og 78% af hreinum hagnaði (EBT) í frystingu (landfrystingu).
  2. Fyrir uppsjávarfisk:
    1. allur hreinn hagnaður uppsjávarveiða (EBT) að viðbættum
    2. 25% af eftirfarandi: 22% hreins hagnaðar (EBT) í frystingu og öllum hreinum hagnaði (EBT) af mjöl- og lýsisvinnslu.

     
     d. (9. gr.)
Ákvörðun veiðigjalds.
     Veiðigjaldsnefnd skal, eigi síðar en 1. júlí ár hvert, ákvarða veiðigjald á hvern nytjastofn sem krónur á kílógramm óslægðs afla til að gilda fyrir komandi fiskveiðiár með þeim hætti sem hér segir:
  1. Fyrir botnfiskstofna: 33% af reiknigrunni botnfisks skv. a-lið 8. gr. skal jafnað niður á alla botnfiskstofna samkvæmt afkomuígildum þeirra á grundvelli aflamagns sem lagt er til grundvallar við ákvörðun afkomuígildanna skv. a-lið 1. mgr. 7. gr.
  2. Fyrir uppsjávarstofna: 33% af reiknigrunni uppsjávarfisks skv. b-lið 8. gr. skal jafnað niður á alla uppsjávarstofna samkvæmt afkomuígildum þeirra á grundvelli aflamagns sem lagt er til grundvallar við ákvörðun afkomuígildanna skv. a-lið 1. mgr. 7. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal veiðigjald hvers nytjastofns aldrei ákvarðað lægra en sem nemur jafngildi 5,50 kr./kg landaðs óslægðs afla í þorski, reiknað með afkomuígildum. Veiðigjald hvers nytjastofns skal að auki aldrei ákvarðað lægra en 1 kr./kg landaðs óslægðs afla.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skal fella niður álagningu veiðigjalds á eftirgreinda nytjastofna:
  1. þorsk og meðafla hans í rússneskri og norskri lögsögu,
  2. úthafskarfa sem veiddur er á ICES-svæði I og II (í Síldarsmugunni).

     Ákvarða skal veiðigjald fyrir hval sem hér segir: Langreyður 50.000 kr. og hrefna 8.000 kr.
     Hver gjaldskyldur aðili á rétt á því að veittur sé 20% afsláttur af fyrstu 4,5 millj. kr. álagðs veiðigjalds og 15% afsláttur af næstu 4,5 millj. kr. álagningarinnar. Þeir aðilar sem njóta réttar til lækkunar veiðigjalds skv. 6. mgr. eiga ekki rétt á þessum afslætti fyrr en sá réttur er uppurinn og reiknast afsláttur af því veiðigjaldi sem lagt er á eftir þann tíma.
     Um rétt til lækkunar veiðigjalds vegna kvótakaupa frá og með fiskveiðiárinu 2015/2016 fer samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II með þeim breytingum sem hér segir: Hámarkslækkun hvers greiðsluskylds aðila skal nema 50% af rétti hans til lækkunar eins og hann er ákveðinn fyrir sérstakt veiðigjald samkvæmt ákvæðinu. Þá getur rétturinn að hámarki numið helmingi álagðra veiðigjalda hvers almanaksmánaðar. Fiskistofa ákvarðar hámarksrétt hvers greiðsluskylds aðila til lækkunar veiðigjaldsins fyrir upphaf fiskveiðiárs.
     Fjárhæðir skv. 2., 4. og 5. mgr. taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs frá septembermánuði 2015 fram að ákvörðunardegi skv. 1. mgr.
     
     e. (10. gr.)
Upplýsingaöflun með skattframtölum.
     Til þarfa útreikninga sem um getur í 7. gr. skulu eigendur, útgerðaraðilar og rekstraraðilar íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar skila sérgreindum upplýsingum um þá afkomuþætti sem greinir í a–c-lið 1. mgr. 7. gr., sundurgreint á einstök fiskiskip, með skattframtölum samkvæmt reglum sem ráðherra setur í samráði við embætti ríkisskattstjóra. Ráðherra og embætti ríkisskattstjóra skulu gera með sér þjónustusamning um söfnun og miðlun þessara upplýsinga.
     Ákvæði 90. og 92.– 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gilda um öflun og skil þeirra upplýsinga sem greinir í 1. mgr. eftir því sem við á. Sé upplýsingum ekki skilað eða ef upplýsingar sem látnar eru í té reynast ófullnægjandi eða óglöggar, eða frekari þörf er talin á upplýsingum um einstök atriði skal ríkisskattstjóri skora á viðkomandi að bætt sé úr. Verði áskorun um úrbætur ekki sinnt skal Fiskistofa áætla tekjur og kostnað skv. 1. mgr. og skal áætlun miðast við að kostnaðurinn sé ekki hærri en ætla má að hann sé í raun. Við þessa áætlun er heimilt að taka mið af gögnum og upplýsingum sem aflað er frá opinberum stofnunum og einkaaðilum.
     Þrátt fyrir ákvæði 117. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóra heimilt að láta Fiskistofu í té þær upplýsingar sem greinir í 2. mgr.
     Veiðigjaldsnefnd er heimilt að beina því til Fiskistofu að ráðast í áætlun skv. 2. mgr.

6. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Fiskistofa leggur á veiðigjöld. Gjaldskyldir aðilar skulu greiða veiðigjöld fyrir landaðan afla fyrir hvert greiðslutímabil samkvæmt upplýsingum um skráningu afla í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Við álagningu skal leiðrétta fyrir slægingu eða annarri aflanýtingu fyrir löndun ef við á, sbr. 3. mgr. 7. gr.
     Greiðslutímabil veiðigjalda er almanaksmánuður. Gjalddagi veiðigjalda er 1. hvers mánaðar vegna veiða þar síðasta mánaðar.

7. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Skráður eigandi skips við álagningu veiðigjalds er ábyrgur fyrir greiðslu þess. Ef fleiri en einn eigandi er að skipi bera allir eigendur þess óskipta ábyrgð á greiðslu veiðigjalds og er heimilt að ganga að hverjum þeirra sem er.
     Innheimtumenn ríkissjóðs innheimta veiðigjald og fer tollstjóri með samræmingar- og eftirlitshlutverk við innheimtu þess, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     Sé veiðigjald ekki greitt innan 14 daga frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Þá skal Fiskistofa jafnframt fella almennt veiðileyfi hlutaðeigandi skips niður.
     Kröfum um greiðslu veiðigjalds fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi skipi í fjögur ár frá gjalddaga. Lögveðið nær einnig til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.
     Fiskistofa birtir árlega upplýsingar um álagningu veiðigjalds. Upplýsingar um álagningu og innheimtu veiðigjalds á hvern og einn greiðanda eru opinberar upplýsingar sem öllum er heimill aðgangur að.
     Veiðigjald rennur í ríkissjóð.

8. gr.

     Í stað orðanna „Almennt og sérstakt veiðigjald“ í 15. gr. laganna kemur: Veiðigjald.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Við ákvörðun reiknaðrar framlegðar við veiðar á hverjum nytjastofni á fiskveiðiárunum 2015/2016 og 2016/2017 skal um launakostnað og breytilegan úthaldskostnað skv. b- og c-lið 1. mgr. 7. gr. byggja á upplýsingum um meðaltalskostnað skipaflokka, fengnum úr skattframtölum rekstraraðila í sjávarútvegi og endurskoðuðum ársreikningum sem aflað er frá aðilum í fiskveiðum og birtar eru í nýjustu útgáfu af skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu.
     Við mat á rétti hvers aðila til lækkunar veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2015/2016 skv. 5. mgr. 9. gr. skal byggt á upplýsingum Fiskistofu um greiðslu almenns og sérstaks veiðigjalds fiskveiðiárið 2014/2015.

10. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um veiðigjald.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2015/2016 sem hefst 1. september 2015. Um álagningu og innheimtu veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2014/2015 fer þó samkvæmt ákvæðum gildandi laga óbreyttum. Ákvæði 3. mgr. d-liðar 5. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2015.
     Fyrirmælum laga þessara um ákvörðun veiðigjalds, álagningu þess og innheimtu verður beitt fyrir fiskveiðiárin 2015/2016, 2016/2017 og 2017/2018, auk almanaksáranna 2016– 2018 í tilviki stofna sem stjórnað er með aflamarki sem gefið er út í upphafi árs.
     Lög um veiðigjald falla úr gildi 31. desember 2018.
     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. skal fyrsta greiðslutímabil veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2015/2016 vera frá 1. september 2015 til 31. desember 2015 og fyrsti gjalddagi 1. febrúar 2016.

Samþykkt á Alþingi 2. júlí 2015.