Ferill 707. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1633  —  707. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um sameiningu fram­haldsskóla .


     1.      Hefur ráðherra áætlanir um að sameina fram­haldsskóla á yfirstandandi kjörtímabili?
     2.      Um hvaða fram­haldsskóla væri þá að ræða?
    Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 segir m.a.:
             Á fjárlagaárinu 2015 verður áfram unnið að endurskipulagningu náms á fram­haldsskólastigi í samræmi við lög um fram­haldsskóla, nr. 92/2008, nýja aðalnámskrá og markmið Hvítbókar um umbætur í menntun. Það felur í sér breytingar á námsframboði og styttingu náms í fram­haldsskólum til lokaprófs. Gert er ráð fyrir því að rekstrarfyrirkomulag og skipulag einstakra skólastofnana breytist.
    Þá segir einnig í frumvarpinu að ekki sé lagt upp með fyrirfram mótuð sameiningaráform en metið verði með tilliti til nemendaþróunar hvar slík úrræði geti nýst „til þess að stuðla að því að viðhalda breidd í námsframboði, tryggja aðgengi að námi og skapa grundvöll fyrir faglegt starf“.
    Í samræmi við ofangreint hafa verið skoðaðir möguleikar á samstarfi skóla í flestum landshlutum. Má nefna að ákveðið hefur verið að sameina Tækniskólann og Iðnskólann í Hafnarfirði frá og með 1. ágúst 2015. Sú niðurstaða fékkst eftir fýsileikakönnun þar sem allir aðilar máls komu að. Unnið er að viðauka við þjónustusamning við Tækniskólann þar sem fjallað er um með hvaða hætti efla og bæta á starfsnám í Hafnarfirði. Með sameiningunni á að skapast svigrúm til að efla starfsnám í Hafnarfirði, nýta fjármuni betur í þágu nemenda og bæta þjónustu og efla faglegt um­hverfi nemenda og kennara. Þá hafa verið unnar greinargerðir um fleiri valkosti í ráðuneytinu hvað varðar samstarf skóla, m.a. á Norðurlandi eystra og á Vesturlandi.

     3.      Við hvern hefur verið haft samráð ef ætlunin er að sameina fram­haldsskóla?
    Umræða um samstarf og/eða sameiningu fram­haldsskóla hefur komið ítrekað upp á fundum ráðuneytis og skólastjórnenda og var m.a. unnin greining á kostum og göllum slíkra hugmynda á haustfundi samstarfsnefndar þessara aðila. Í júní sl. var m.a. ákveðið að setja á laggirnar starfshóp um stöðu og framtíð fram­haldsskóla á norð­austursvæðinu til að efla samráð með þeim sem málið er skylt. Hópnum er ætlað að kortleggja grunnþætti skólanna á svæðinu, svo sem mannauð og námsframboð og leggja fram sam­eigin­lega tillögu að framtíð fram­haldsskólastarfs á norð­austursvæðinu með það að markmiði að nemendur hafi jafnan og greiðan aðgang að lögbundnu og fjölbreyttu námsframboði, fullburða stoðþjónustu og sjálfbærum rekstri.
    Í starfshópnum eru fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, Eyþings – Sambands ­sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Atvinnuþróunarfélags Eyja­fjarðar og skólameistarar fram­haldsskóla á norð­austursvæði. Ráðinn hefur verið sérstakur verkefnastjóri. Hópurinn á að skila tillögum sínum um miðjan desember 2015.