Ferill 774. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1636  —  774. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um nýtingaráætlanir veiðifélaga .


     1.      Hversu mörg veiðifélög eða veiðiréttarhafar skv. 19. gr. laga um lax- og silungsveiði eru í landinu?
    Um veiðifélög og veiðiréttarhafa sem um getur í 19. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, er ekki haldin sérstök skrá með vísan til þeirrar greinar laganna eins og ráða má af fyrirspurn þeirri sem liggur fyrir.
    Samkvæmt 2. gr. laga um lax- og silungsveiði er veiðifélag skilgreint sem félag allra veiðiréttarhafa í sama fiskihverfi, veiðivatni eða landsvæði, sbr. 38. gr. laganna og veiðiréttarhafi sá einstaklingur sem á hverjum tíma fer með rétt fasteignar til veiði, sbr. fyrirmæli II. kafla laganna.
    Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um lax- og silungsveiði skal Fiskistofa skrá öll veiðivötn og veiðiréttarhafa. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar skal ráðherra með reglugerð setja nánari ákvæði um skráningu veiðivatna og þær upplýsingar sem við slíka skráningu skulu liggja fyrir. Reglugerð þessi hefur ekki verið sett.
    Fiskistofa heldur skrá um veiðifélög samkvæmt framangreindu ákvæði og samkvæmt skrá stofnunarinnar eru veiðifélög í landinu 212 talsins. Sambærileg tala um veiðiréttarhafa liggur ekki fyrir hjá stofnuninni. Í Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi eftir Lárus Ágúst Gíslason, útg. 1982, sem byggð er á fasteignamati frá 1932, 1942 og 1972 koma fram tilteknar upplýsingar en af þeim má ráða að fjöldi veiðiréttarhafa sé um 2.650 jarðir. Þessar upplýsingar eru byggðar á upplýsingum úr fasteignamati en eru með þeim fyrirvara að langt er um liðið síðan þær voru teknar saman og einnig kann að vera að þær hafi breyst að einhverju leyti, m.a. vegna þess að netaveiði í sjó hefur minnkað frá þeim tíma sem þar er byggt á.

     2.      Hversu mörg/margir þeirra hafa skilað nýtingaráætlun til Fiskistofu?
    Gildar nýtingaráætlanir veiðifélaga og þekktra veiðiréttarhafa eru 43 talsins.

     3.      Hefur Fiskistofa í einhverjum tilvikum notað heimild samkvæmt framangreindri lagagrein til að setja að eigin frumkvæði slíka áætlun eða reglur sem samsvara henni?

    Fiskistofa hefur ekki að eigin frumkvæði sett veiðifélagi eða veiðiréttarhafa nýtingaráætlun eða reglur.