Ferill 813. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1640  —  813. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála.


     1.      Hvenær stendur til að starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála ljúki vinnu sinni?
    Í skipunarbréfi velferðarráðuneytisins til fulltrúa í starfshóp um mótun tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, dags. 5. desember 2014, er ekki óskað eftir að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum til félags- og húsnæðismálaráðherra innan tiltekins tímafrests. Ráðherra gerir þó ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum á komandi vetri.

     2.      Hvenær kom starfshópurinn fyrst saman og hversu oft hefur hann fundað síðan? Hverjir eru í starfshópnum? Þiggja þau laun fyrir vinnu sína í starfshópnum?
    Starfshópurinn kom fyrst saman á fundi 3. febrúar 2015 en alls hefur hann fundað níu sinnum.
    Eftirtaldir aðilar hafa verið skipaðir fulltrúar í starfshópnum:
              Birkir Jón Jónsson, formaður, skipaður án tilnefningar,
              Álfheiður M. Sívertsen, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins,
              Friðrik Hjörleifsson, tilnefndur af Bandalagi háskólamanna,
              Hallgrímur Guðmundsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti,
              Karen E. Halldórsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
              Leifur Eysteinsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti,
              Maríanna Traustadóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, og
              Sonja Ýr Þorbergsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Starfsmenn starfshópsins eru Bjarnheiður Gautadóttir, starfsmaður velferðarráðuneytis, og Unnur Sverrisdóttir, starfsmaður Vinnumálastofnunar.
    Í skipunarbréfi velferðarráðuneytisins til fulltrúa í starfshópnum, dags. 5. desember 2014, kemur m.a. fram að ekki sé gert ráð fyrir að greidd verði þóknun fyrir setu í starfshópnum af hálfu ráðuneytisins og greiðir ráðuneytið því ekki þóknun til fulltrúa í starfshópnum. Þetta á þó ekki við um formann starfshópsins en hann fær greidda þóknun frá ráðuneytinu fyrir störf sín með hópnum og er sú þóknun í samræmi við þær þóknanir sem ráðuneytið greiðir til formanna annarra sambærilegra nefnda og starfshópa á vegum ráðuneytisins.

     3.      Hvaða önnur vinna hefur farið fram í ráðuneytinu frá því í maí 2013 sem ætlað er að bæta fæðingarorlofskerfið og koma þannig til móts við barnafjölskyldur?
    Í ljósi aðhaldsstefnu stjórnvalda í tengslum við fjármál ríkisins hefur á undanförnum missirum verið lítið svigrúm til að auka fjármagn innan fæðingarorlofskerfisins. Í því skyni að koma sem best til móts við foreldra ungra barna innan þess fjárhagsramma sem fjármál ríkisins hafa leyft hafa hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þó verið hækkaðar í tvígang frá 1. janúar 2013. Í fyrra skiptið voru hámarksgreiðslur úr sjóðnum hækkaðar úr 300.000 kr. í 350.000 kr. vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2013 eða síðar. Enn fremur voru hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar enn frekar eða í 370.000 kr. vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2014 eða síðar.
    Þá var fyrrnefndur starfshópur skipaður í desember 2014 en samkvæmt því sem fram kemur í skipunarbréfi fulltrúa í hópnum hefur hópurinn það hlutverk að móta tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum hér á landi þar sem sérstaklega verði hugað að því hvernig unnt sé að tryggja að markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína verði sem best náð á sama tíma og foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þurfi m.a. að líta til þess hvernig endurheimta megi þann megintilgang fæðingarorlofskerfisins að stuðla að því að röskun á tekjuinnkomu heimila verði sem minnst þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingarorlofi til að annast börn sín ásamt því að tryggja samfellu milli fæðingarorlofs og þeirra dagvistunarúrræða sem eru fyrir hendi þegar fæðingarorlofi lýkur. Í því sambandi má jafnframt geta þess að ráðherra er kunnugt um að mennta- og menningarmálaráðuneyti hafi nýverið gefið út skýrslu starfshóps á vegum þess ráðuneytis vegna þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi.