Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 3  —  3. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007
(hækkun lífeyris í 300 þús. kr.).

Flm.: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller,
Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. skulu bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., hækka um 8,86% frá 1. maí 2015, um 6,12% 1. maí 2016 og um 7,14% 1. maí 2017.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna í samræmi við kjarasamninga og verði 300 þús. kr. árið 2018. Greiðslurnar fari stighækkandi fram til 2018 með hliðstæðum hætti og lægstu laun samkvæmt kjarasamn­ingum. Í nýgerðum kjarasamningum hefur verið lagt til grundvallar að 300 þús. kr. séu hæfi­leg lágmarkslaun af því að það sé sú fjárhæð sem sé launafólki nauðsynleg til mannsæmandi framfærslu. Hið sama hlýtur að gilda um aldraða og öryrkja sem reiða sig á lífeyri almanna­trygginga til að sjá sér farborða. Markmið þessa frumvarps er að þeim hópi verði jafnframt tryggðar lágmarkstekjur til mannsæmandi framfærslu.
    Ljóst er að stór hópur aldraðra og öryrkja býr við fátækt. Tæplega fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands frá júlí 2015 og voru öryrkjar sá hópur sem verst stendur þegar þátttakendur eru greindir eftir atvinnustöðu. Öryrkjum sem búa við verulegan skort á efnislegum gæðum fer fjölgandi, eða úr 5% í 11% milli áranna 2013 og 2014, en á árunum 2013–2015 hækkaði lífeyrir almannatrygginga á bilinu 3–3,9%, sem þýddi um 5.000 kr. hækkun ráðstöfunartekna hverju sinni.
    Staðan er nú þannig að 10.685 lífeyrisþegar ná ekki viðmiðum um lágmarkslífeyri og fá þar af leiðandi sérstaka uppbót til framfærslu. Þar af eru 4.199 ellilífeyrisþegar, 5.553 örorku­lífeyrisþegar og 955 sem fá endurhæfingalífeyri. Sá hópur býr við kröpp kjör en í viðhorfs­könnun sem gerð var meðal eldri borgara árið 2012 kom fram að 4% höfðu frestað lyfjakaup­um á síðustu fimm árum, tæp 7% sögðust hafa frestað læknisheimsókn og 14% sögðust hafa tíðar fjárhagsáhyggjur. Meðal örorkulífeyrisþega höfðu 42% neitað sér um læknisþjónustu á árinu 2013, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunnar. Konur eru jafnframt í sérstökum áhættuhópi, þar sem þær eru í meiri hluta örorkulífeyrisþega, fá frekar sérstaka uppbót til framfærslu og fá almennt lægri greiðslur úr lífeyrissjóðum. Árið 2014 voru konur 63% þeirra örorkulífeyrisþega sem fengu sérstaka uppbót til framfærslu og á meðal ellilífeyrisþega voru konur 68% þeirra sem fengu sérstaka uppbót til framfærslu.
    Til grundvallar þeim hækkunum sem lagðar eru til í frumvarpinu liggja hækkanir sam­kvæmt kjarasamningi milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 29. maí 2015, sem ætlað er að gilda til ársloka 2018. Í samningnum er miðað við stighækkandi laun á samningstímanum og 300 þús. kr. lágmarkslaun frá 1. maí 2018
    Lægstu laun voru hækkuð um samkvæmt kjarasamningum um 31.000 kr. 1. maí 2015 og eiga að hækka um 15.000 kr. árið 2016, eða um samtals um 46.000 kr. Boðuð hækkun lífeyris almannatrygginga nær ekki fyrrgreindum markmiðum og gerir raunar ráð fyrir helmingi lægri hækkun lífeyris almannatrygginga en lágmarkslauna, auk þess sem hækkun lágmarkslauna kemur átta mánuðum fyrr til framkvæmda.
    Framfærsluviðmið elli- og örorkulífeyris var 225.070 kr. fyrir einstakling með heimilis­uppbót í byrjun árs 2015. Sú upphæð mundi þróast með eftirfarandi hætti:
    1. maí 2015 kr. 245.000 á mánuði.
    1. maí 2016 kr. 260.000 á mánuði.
    1. maí 2017 kr. 280.000 á mánuði.
    1. maí 2018 kr. 300.000 á mánuði.
    Samhliða breytingum sem lagðar eru til þarf að draga úr vægi tekjuskerðingar vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri (krónu á móti krónu) sem kveðið er á um í lögum um félagslega aðstoð (nr. 99/2007). Gert er ráð fyrir að breytingar á fjárhæðum til samræmis við frumvarpið verði birtar í reglugerðum.