Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 19  —  19. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012 (kaup á vörum og þjónustu).

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Brynjar Níelsson.


1. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu.

    Stjórnvöldum og lögaðilum sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera er skylt að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu yfir 150.000 kr. í hverjum almanaksmánuði, nema ákvæði 10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna eigi við. Skulu upplýsingarnar vera öllum aðgengilegar og birtar sem mánaðarlegt yfirlit á vef viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar. Þar skal kaupfjárhæð koma fram, ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu. Þá skulu einnig fylgja upplýsingar um hver seljandi er.
    Fjárhæðir skv. 1. mgr. skulu breytast annað hvert ár í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, í fyrsta sinn 1. janúar 2018.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 143. og 144. löggjafarþingi.
    Megintilgangur frumvarps þessa er að tryggja aðgang almennings, fjölmiðla, fræðimanna og félagasamtaka að upplýsingum um hvernig opinberir aðilar, jafnt á vegum ríkis sem sveitarfélaga, verja sameiginlegum fjármunum. Aðgangur almennings að slíkum upplýsingum er sjálfsagður og eðlilegur. Þá mun birting þeirra leiða til aukins aðhalds með hinu opinbera og þar með tryggja betur að hið opinbera verji fjármunum af skynsemi og ráðdeild.
    Kaup ríkis og sveitarfélaga á vörum og þjónustu á árinu 2013 voru tæp 28% af heildartekjum sem námu tæpum 797 milljörðum kr. Þá eru ótalin kaup fyrirtækja sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila.
    Með samþykkt frumvarpsins munu ekki eingöngu ráðuneyti, undirstofnanir þeirra og sveitarfélög þurfa að birta mánaðarlega yfirlit yfir keyptar vörur og þjónustu heldur einnig öll fyrirtæki sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila.
    Hér er ekki lagt til að félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir sem byggja rekstur sinn að mestu eða öllu leyti á framlögum frá ríki eða sveitarfélögum falli undir ákvæðið. Flutningsmenn telja hins vegar að í náinni framtíð sé nauðsynlegt að setja í lög ákvæði um slíka almenna upplýsingaskyldu aðila sem þiggja opinbert fé. Þannig verði fjárveitingar opinberra aðila bundnar þeim skilyrðum að viðkomandi upplýsi með sundurgreindum hætti hvernig þeim fjármunum hefur verið varið.
    Á síðustu árum hafa verið stigin ákveðin skref í Bretlandi við að opna opinbera stjórnsýslu og gera fjármál ríkis og sveitarfélaga gagnsærri en áður. Árangurinn er aukið aðhald og sparnaður í innkaupum en ekki síður hefur orðið til jarðvegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki með nýjar og ódýrari vörur og þjónustu fyrir opinbera aðila. Þannig hefur samkeppni um viðskipti við opinbera aðila aukist sem hefur leitt til lægra verðs á aðföngum og keyptri þjónustu.
    Reynslan í Bandaríkjunum hefur verið svipuð en árið 2006 samþykkti Bandaríkjaþing lög (The Federal Funding Accountability and Transparency Act of 2006) þar sem alríkinu og stofnunum þess er gert skylt að birta opinberlega upplýsingar um hvernig fjármunum ríkisins er varið. Í samræmi við lögin var komið á fót sérstakri vefsíðu – USASpending.gov – þar sem skattgreiðendur geta nálgast upplýsingar um það hvernig alríkið ver fjármunum sínum. Nú hafa a.m.k. 46 ríki Bandaríkjanna opnað svipaðar vefsíður þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um útgjöld viðkomandi ríkis, m.a. um kaup á vörum og þjónustu. Þá hafa margar borgir og sveitarfélög í Bandaríkjunum farið svipaðar leiðir.
    Upplýsingakerfi og gagnsæisgáttir alríkisins og einstakra ríkja Bandaríkjanna hafa aukið aðhald að fjárveitingarvaldinu og embættismönnum. Ábendingar almennings og fjölmiðla hafa leitt til þess að milljónir dollara hafa sparast. Aukinn þrýstingur hefur orðið til þess að opinberir aðilar fara betur með skattfé og sóun hefur minnkað.
    Markmið frumvarpsins er ekki aðeins að tryggja betri meðferð opinbers fjár og draga úr sóun heldur ekki síður að vinna gegn hvers konar spillingu sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður. Gagnsæi við kaup opinberra aðila á vörum og þjónustu hamlar því að óeðlilega sé staðið að verki og eykur þar með traust á opinberum aðilum.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að á eftir 13. gr. upplýsingalaga um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda komi ný grein er verði 13. gr. a með fyrirsögninni: Upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu. Markmiðið með greininni er að skylda stjórnvöld og lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu yfir 150.000 kr. í hverjum almanaksmánuði. Lagt er til að fjárhæðin hækki miðað við neysluvísitölu annað hvert ár, í fyrsta sinn 1. janúar 2018.
    Í greininni felst jafnframt að upplýsingarnar skuli vera öllum aðgengilegar og birtar á vef viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar. Þannig skuli birtur listi yfir kaup hvers mánaðar innan 40 daga frá kaupum sem voru samþykkt 1. dag mánaðar. Kaupfjárhæð komi fram ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu. Þá fylgi einnig upplýsingar um hver seljandi er, þ.e. nafn og kennitala.
    Nauðsynlegt er að leggja til takmarkanir á þessari skyldu stjórnvalda og lögaðila, sbr. 10. gr. laganna, en samkvæmt þeirri grein er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast. Meta þarf því í hverju tilfelli hvort heimildin til takmörkunar eigi við en hana ber að túlka þröngt út frá meginreglunni sem lögð er til í greininni. Komi fram krafa um aðgang að upplýsingum sem hafa ekki verið birtar samkvæmt greininni og sem lögaðili ásamt æðra stjórnvaldi synjar um aðgang að á grundvelli 10. gr. laganna yrði unnt að bera slíka synjun stjórnvalds undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.