Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 53  —  53. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum
(staða ríkisstarfsmanna).

Flm.: Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá gilda lögin ekki um ákvarðanir skv. III., IV., VIII. og IX. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum, þess efnis að ákvarðanir á grundvelli III., IV., VIII. og IX. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, falli utan gildissviðs stjórnsýslulaga. Ekki eru lagðar til breytingar á stöðu embættismanna sem fjallað er um í II. kafla laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tilgangur breytingarinnar er að einfalda ákvarðanatöku forstöðumanna ríkisstofnana um upphaf, breytingar og lok starfa hjá ríkisstofnunum og ráðuneytum.
    Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum gefið út skýrslur um mannauðsmál ríkisins og hefur ein megintillaga stofnunarinnar verið að hvetja til þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið beiti sér fyrir lagabreytingum í þá veru að málsmeðferð við uppsagnir ríkisstarfsmanna verði einfölduð. Ráðuneytið hefur tekið undir ýmsar ábendingar Ríkisendurskoðunar, m.a. nauðsyn þess að starfsumhverfi ríkisstarfsmanna og lög sem um þá giltu væru þannig að stjórnsýslan gæti sinnt hlutverki sínu á skilvirkan og árangursríkan hátt.
    Rökin fyrir hinni sérstöku vernd í starfi sem ríkisstarfsmenn njóta hafa einkum verið þau að nauðsynlegt sé að ríkisstarfsmenn geti sinnt starfsskyldum sínum án þess að þurfa að óttast það að valdhafar á hverjum tíma beiti þá þrýstingi sem kunni að leiða til þess að starfsmaður telji sig óöruggan í starfi eða komist að rangri niðurstöðu í málum til að þóknast valdhöfum hverju sinni. Þróun undanfarinna ára er að veita ríkisstarfsmönnum sífellt meiri vernd sem felst m.a. í fjölmörgum álitum umboðsmanns Alþingis þar sem hvers kyns ákvarðanir um starfsskyldur ríkisstarfsmanna, launakjör þeirra, starfsstöð og fleira eru taldar vera stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Afleiðing þess er að öll ákvarðanataka sem lýtur að störfum ríkisstarfsmanna er afar þung í vöfum vegna reglna um málsmeðferð, andmælarétt og rökstuðning ákvarðana. Eins og fram hefur komið hjá Ríkisendurskoðun og fjármála- og efnahagsráðuneytinu er starfsemi stjórnsýslunnar því ekki eins skilvirk og hún gæti verið. Nauðsynlegt er að mati flutningsmanna að bæta úr þessu og auka skilvirkni og sveigjanleika í starfsmannahaldi stjórnsýslunnar og stuðla með því að markvissri nýtingu opinberra fjármuna og skapa skilyrði fyrir góðri opinberri þjónustu við borgarana. Á mörgum stöðum í ríkisrekstrinum á ekki við sú sérstaka vernd sem ríkisstarfsmenn hafa í starfi með þeim rökum sem áður voru nefnd. Annars staðar í stjórnsýslunni þarf að vera hægt að auka sveigjanleika forstöðumanna til að laga starfsmannaumhverfi ríkisstofnana að þeim verkefnum sem þeim er falið að sinna með lögum. Einfaldari reglur um ráðningar, starfskjör og lok starfa hjá hinu opinbera er fyrsta skref í átt að bættri opinberri þjónustu, betri nýtingu fjármuna og meiri árangri í starfi ríkisins.
    Frumvarpið felur það í sér að undanskildar stjórnsýslulögum eru ákvarðanir á grundvelli III., IV., VIII. og IX. kafla laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í því felst að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga munu ekki gilda um ákvarðanir sem efnislega eiga undir ákvæði áðurnefndra kafla. Eftir sem áður munu gilda ákveðnar ólögfestar reglur um ákvarðanir um málefni starfsmanna ríkisins, t.d. réttmætisreglan en í henni felst að stjórnvöld verða að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Með því er m.a. komið í veg fyrir geðþóttaákvarðanir í starfsmannamálum ríkisins þó svo slakað sé á hinum ítarlegu kröfum um málsmeðferð sem nú gilda um ríkisstarfsmenn. Þá munu eftir sem áður gilda reglur laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þó svo stjórnsýslulög gildi ekki um tilteknar ákvarðanir.