Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 104  —  104. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (mannréttindi).

Flm.: Páll Valur Björnsson, Óttarr Proppé, Guðmundur Steingrímsson,
Brynhildur Pétursdóttir, Róbert Marshall, Heiða Kristín Helgadóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Össur Skarphéðinsson,
Steinunn Þóra Árnadóttir, Katrín Jakobsdóttir.


1. gr.

    Á eftir orðunum „sögu þess og sérkennum“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: mannréttindum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 er sá grundvöllur sem alþjóðlegir mannréttindasamningar byggjast á. Íslendingar hafa gerst aðilar að öllum mikilvægustu samningum á þessu sviði og tekið virkan þátt í gerð þeirra. Það má fullyrða að meðal landsmanna ríkir mikill einhugur um að alþjóðlega viðurkennd mannréttindi eigi að vera ein meginstoð íslensks samfélags. Grundvallarmannréttindi fólks eru einnig varin í íslensku stjórnarskránni.
    Í nýrri aðalnámskrá frá 2011 eru lýðræði og mannréttindi ein sex grunnstoða aðalnámskrár. Grunnstoðirnar byggjast á þeim markmiðum sem þegar eru í lögum um virðingu fyrir manngildi og þátttöku í lýðræðissamfélagi en líka miklu samráði við skólafólk um land allt. Það er því nauðsynlegt að tryggja að íslenska skólakerfið leggi áherslu á að efla skilning nemenda á mannréttindum og hvað í þeim felst, virðingu þeirra fyrir mannréttindum annarra og getu þeirra til að standa vörð um eigin mannréttindi.
    Virðing fyrir fólki, jöfnum tækifærum og margbreytileika mannlífsins er rauður þráður í öllum mannréttindasamningum. Það má m.a. glöggt sjá í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1989 sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1992 og var innleiddur í íslenska löggjöf árið 2013. Þar segir m.a. í 42. gr. samningsins að aðildarríki skuldbindi sig til að kynna meginreglur og ákvæði samnings þessa víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum og fullorðnum. Það er því nauðsynlegt að íslenska skólakerfið tryggi að öll íslensk börn geti öðlast skilning á þeim mikilvægu réttindum og skyldum sem þessi samningur kveður á um.
    Í markmiðsákvæði grunnskólalaga er mælt fyrir um að grunnskólinn skuli stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Með frumvarpi þessu er lagt til að mannréttindi verði meðal þess sem þarna er sérstaklega tilgreint. Þannig fá mannréttindi þá stöðu í lögunum sem eðlilegt er að þau hafi og þannig verður áréttað og tryggt að allir grunnskólar stuðli að skilningi nemenda sinna á mannréttindum og virðingu fyrir þeim.