Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 116  —  116. mál.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944,
með síðari breytingum (kosningaaldur).

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason.


1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 33. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo: Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 16 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram til að styðja við lýðræðislega þátttöku ungs fólks og auka hana í kosningum og stjórnmálastarfi. Það var fyrst flutt á 144. löggjafarþingi (652. mál) af Katrínu Jakobsdóttur og þremur þingmönnum öðrum úr tveimur stjórnmálahreyfingum en varð ekki útrætt og er því endurflutt.
    Tvisvar áður fluttu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þingmál sem eru efnislega samhljóða fyrirliggjandi frumvarpi. Hið fyrra er þingsályktunartillaga sem Hlynur Hallsson flutti á 133. löggjafarþingi (514. mál) en hið síðara frumvarp Árna Þórs Sigurðssonar á 141. löggjafarþingi (418. mál).
    Þá samþykkti Samfylkingin á landsfundi sínum í mars 2015 ályktun um að hafin yrði vinna sem miðaði að því að lækka kosningaaldur í 16 ár til að efla lýðræðisvitund ungs fólks, en þó þannig að aldurstakmark kjörgengis héldist óbreytt (18 ár).
    Báðir flokkar hafa samþykkt stefnu um að efla lýðræðisvitund barna og ungmenna allt frá leikskólaaldri, enda er lýðræði einn af grunnþáttum nýlegrar aðalnámskrár. Mikilvægt er að vinna að því markmiði á sem flestum vígstöðvum, í samvinnu stjórnvalda, menntastofnana og félagasamtaka, og kanna möguleika á svokölluðum „prufukosningum“ meðal ungmenna í grunn- og framhaldsskólum í tengslum við almennar kosningar eins og þekkist annars staðar á Norðurlöndum.
    Þar sem rýmkun kosningaaldurs er meðal brýnna umræðuefna samtímans og allvíða hafa verið stigin skref í þá átt að lækka kosningaaldur er enn á ný flutt þingmál með þetta að markmiði.
    Dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþinga og sveitarstjórna er víða staðreynd og veldur áhyggjum af framtíð lýðræðis. Þykja líkur til þess að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og snúist af braut lýðræðislegrar stefnumótunar og ákvarðanatöku, þar sem málum er ráðið til lykta með umræðu og síðan kosningum, ef ekki gefst kostur á þátttöku jafnskjótt og vitund einstaklingsins um áhrifamátt sinn og ábyrgð á eigin velferð og samfélagsins hefur vaknað. Að sjálfsögðu eiga hér einnig við hin almennu sjónarmið um lýðræðislega framkvæmd, þ.e. að mikil og víðtæk þátttaka í kosningum gefi traustasta vitneskju um vilja borgaranna og því mikilvægt að sem allra flestir njóti atkvæðisréttar.
    Það var í þessum anda sem þing Evrópuráðsins samþykkti árið 2011 ályktun 1826 um aukið lýðræði með lækkun kosningaaldurs í 16 ár þar sem því er beint til aðildarríkja Evrópusambandsins að gera ráðstafanir til að efla þátttöku ungmenna á vettvangi samfélagsins, m.a. með því að kanna hvort rétt sé að lækka kosningaaldur í 16 ár í öllum kosningum í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins. 1
    Hingað til hefur aðeins Austurríki stigið þetta skref til fulls en þar var kosningaaldur lækkaður í 16 ár árið 2007 og kjörgengisaldur í 18 ár nema í forsetakosningum þar sem hann er 35 ár. 2 Þá er kosningaaldur til ríkisþings (Landtagswahl) 16 ár í fjórum þýsku sambandsríkjanna (Brandenburg, Bremen, Hamborg og Schleswig-Holstein). 3 Í nokkrum ríkjum á Balkanskaga, þ.e. Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, hafa ungmenni á vinnumarkaði sem eru orðin 16 ára einnig kosningarrétt. Þá er kosningarréttur í þingkosningum bundinn við 16 ár á bresku sjálfstjórnarsvæðunum Mön, Jersey og Guernsey. Kosningaaldur til héraðs- og sveitarstjórna hefur og verið lækkaður í 16 ár í nokkrum Evrópulöndum. Þeirra á meðal er Noregur en þar var 16 ára aldurstakmarki í kosningum til sveitarstjórna komið á í tilraunaskyni í 20 sveitarfélögum. 4
    Meðal ríkja utan Evrópu sem hafa innleitt 16 ára aldurstakmark við þingkosningar eru Suður- og Mið-Ameríkuríkin Argentína, Brasilía, Kúba, Ekvador og Níkaragva.
    Mjög vel heppnað dæmi um lækkun kosningaaldurs var við þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2014. Gríðarleg þátttaka var í atkvæðagreiðslunni þó að kosningaþátttaka væri almennt dræm á sama tíma um alla Evrópu. Almennt þótti hún mjög vel heppnuð út frá lýðræðislegum sjónarhóli.
    Óhætt er að fullyrða að þróunin gengur almennt í þá átt að lækka kosningaaldur. Margar stjórnmálahreyfingar hafa sett þetta markmið á stefnuskrá sína, ýmis skref hafa verið stigin í þessa átt og fylgi við lækkun kosningaaldurs fer vaxandi víða um heim. Yfirleitt vaknar krafa um slíkar umbætur á sveitarstjórnarstigi eða vegna almennra kosninga um staðbundin málefni og beinist svo að kosningum til löggjafarþings.
    Segja má að sú þróun sem leiðir til lækkunar kosningaaldurs og umræða um þetta málefni endurspegli í senn þá staðreynd að ungt fólk á nú kost á fjölbreyttri vitneskju um samfélagsmál sem það nýtir sér til að taka afstöðu til málefna samtíðarinnar og áhyggjur af því að hinn hefðbundni stjórnmálavettvangur höfði ekki nægilega vel til ungs fólks. Hvernig sem á þetta er litið virðist afar mikilvægt að ungt fólk komist í kallfæri við stjórnmálin, geti látið rödd sína heyrast á þeim vettvangi og verði meðal þeirra sem taka þátt í hinni margradda umræðu um samfélagsmál sem ávallt þarf að hljóma á lýðræðislegum stjórnmálavettvangi. Með því að veita ungu fólki á aldrinum 16–18 ára kosningarrétt fær það tækifæri til að móta líf sitt og framtíð á sama hátt og aðrir borgarar og verður að fullu gjaldgengt í umræðu um stjórnmál og samfélagsmálefni.
Neðanmálsgrein: 1
1     „Resolution 1826 (2011). Expansion of democracy by lowering the voting age to 16.“
     assembly.coe.int/nw/xml/XRef/Xref-XML2HTML-en.asp?fileid=18015&lang=EN
Neðanmálsgrein: 2
2     „Wahlrecht.“ www.help.gv.at/Portal.Node/hlpd/public/content/32/Seite.320210.html
Neðanmálsgrein: 3
3     „Landtagswahlrecht.“ www.wahlrecht.de/landtage/
Neðanmálsgrein: 4
4     Regjeringen.no. „Har du stemmeret?“
     www.regjeringen.no/nb/tema/valg-og-demokrati/valgportalen-valg-no/kommunestyrevalg/stemmerett-lokalvalg/id457098/