Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 120  —  120. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um forritun í aðalnámskrá grunnskóla.

Flm.: Brynhildur S. Björnsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Freyja Haraldsdóttir,
Heiða Kristín Helgadóttir, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að efla hlut forritunar í aðalnámskrá grunnskóla við næstu endurskoðun hennar með það að markmiði að nemendur grunnskóla læri í auknum mæli að forrita í stað þess að vera eingöngu óvirkir notendur tölvutækninnar.

Greinargerð.

    Forritun er tungumál tækninnar og samskiptamiðill milli manns og tölvu. Hagkerfi framtíðarinnar byggist á tækniþekkingu, -ritun og -læsi. Skortur á tæknikennslu gerir það að verkum að nemendur útiloka snemma tæknigreinar sem hefur þau keðjuverkandi áhrif að viðvarandi skortur er á tæknimenntuðu vinnuafli. Vitundarvakning um mikilvægi tæknikennslu hefur skilað sér inn í aðalnámskrár margra nágrannalanda okkar en mikið vantar upp á að hlutur forritunarkennslu í aðalnámskrá íslenskra grunnskóla sé í samræmi við mikilvægi slíkrar kennslu.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að því að forritun verði hluti af grunnnámi og þar með að menntun grunnskólabarna verði í takt við tækniþróun og þarfir atvinnulífsins. Sem fyrr segir byggist hagkerfi framtíðarinnar á tækniþekkingu og tæknilæsi og því er tölvumenntun grunnskólabarna einn af lykilþáttum árangurs íslensks samfélags og atvinnulífs. Rannsóknir og reynslan sýna að börn hafa alla þá rökfræðilegu getu sem nauðsynleg er til að tileinka sér forritunarhæfni og eykur það samkeppnishæfni þeirra á síbreytilegum atvinnumarkaði sem krefst sífellt meiri tölvukunnáttu og tæknilæsis. Nú á dögum krefjast flest störf talsverðrar tölvukunnáttu og mikil eftirspurn er eftir kunnáttu í forritun. Ásókn í menntun á sviðinu hefur ekki dugað til að anna hinni miklu eftirspurn eftir kunnáttu á sviðinu. Því skiptir sköpum að kynna nemendur grunnskóla fyrir forritun og kenna þeim skapandi nálgun í faginu snemma á skólagöngunni.
    Þó að upplýsinga- og tæknimenntar sé getið í aðalnámskrá grunnskóla skipar hún ekki eins háan sess og „hefðbundin“ fög. Þannig skal hlutfall upplýsinga- og tæknimenntar aðeins nema 2,68% af vikulegum kennslutíma í 1.–10. bekk samkvæmt viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá. Kunnátta í forritun er auk þess aðeins eitt af mörgum markmiðum sem kennslu í upplýsinga- og tæknimennt er ætlað að ná. Af þessu má ljóst vera að markviss forritunarkennsla er afar fyrirferðarlítil, ef nokkur, í grunnskólum landsins.
    Sérfræðingar á sviðinu hafa margsinnis bent á að tæknikennsla á grunnskólastigi sé ófullnægjandi og atvinnurekendur bent á að eftirspurn eftir forriturum sé meiri en framboð. Nú á dögum krefst flestöll nýsköpun forritunar og því er verulega hamlandi fyrir íslensk sprotafyrirtæki að íslenskt vinnuafl skortir þekkingu á sviðinu. Lykilspurningin fyrir menntakerfið er hvort það anni eftirspurn atvinnulífsins um tæknimenntun. Nemendur hafa nú þegar tileinkað sér góða færni í að nýta sér þau tól og tæki sem eru í boði en hafa ekki öðlast færni í að vinna og skapa sjálf út frá tækninni. Upplýsingatæknigeirinn vex hratt og fáar atvinnugreinar þrífast án tækni.
    Eins og rakið hefur verið hér að framan yrði mikill samfélagslegur ávinningur að því að efla hlut forritunar í aðalnámskrá grunnskóla. Þannig sköpuðust gríðarleg verðmæti fyrir íslenskt atvinnulíf, bæði í formi aukinnar aðsóknar í tækninám á háskólastigi og með því að uppfylla þarfir atvinnulífsins. Líkur mundu aukast á að íslenskum tæknifyrirtækjum tækist að manna verkefni sín með íslensku vinnuafli, með tilheyrandi vexti og jákvæðum áhrifum fyrir íslenskt hagkerfi og atvinnulíf.