Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 122  —  122. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aukna lýðræðisvitund barna og ungmenna.


Flm.: Róbert Marshall, Brynhildur S. Björnsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Freyja Haraldsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Páll Valur Björnsson.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að koma á fót starfshópi til að setja saman áætlun sem miði að því að auka vitund og virkni barna og ungmenna í lýðræðisferli samfélagsins. Áætlunin hafi það markmið að auka kosningaþátttöku, bæta stjórnmálamenningu, undirstrika gildi skoðanaskipta í lýðræðissamfélagi og undirbúa þjóðfélagsþegna undir þátttöku í ákvarðanatöku í samfélaginu. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í mars 2017.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 144. löggjafarþingi (556. mál) en kom ekki til umræðu og er nú endurflutt óbreytt.
    Tillagan felur í sér þá grunnhugmynd að virkja börn og ungmenni til þátttöku í lýðræðisferlinu í samfélaginu. Markmið verkefnisins er að hjálpa börnum og ungmennum að skilja hvernig ákvarðanir eru teknar og vandamál leyst í lýðræðissamfélagi, kenna þeim hvernig hægt er að hafa áhrif, sýna þeim mikilvægi þess að hver og einn láti rödd sína heyrast og ala á þann hátt upp virka þátttakendur í lýðræði. Það að virkja börn og ungmenni og auka lýðræðisvitund þeirra er til þess fallið að stuðla að aukinni kosningaþátttöku sem er nauðsynlegt og þá sérstaklega hjá yngri kjósendum. Rannsóknir hafa sýnt að kosningaþátttaka almennt hefur dregist saman. Sem dæmi má nefna að heildarkjörsóknin í sveitarstjórnarkosningum hefur fallið úr 83,2% árið 2002 í 66,5% árið 2014. Fram kemur hjá Hagstofu Íslands að kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2014 hafi verið sú dræmasta í sveitarstjórnarkosningum til þessa. Af tölulegum gögnum má ráða að á heildina litið eykst kosningaþátttaka með aldri. Um 45,4% einstaklinga á aldrinum 20–24 ára greiddu atkvæði í kosningunum en hæst var hlutfallið á aldursbilinu 65–69 ára, eða 82,8%. 1 Ljóst er að nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til að auka kosningaþátttöku.
    Í áætlun fyrir verkefnið sem hér er lagt til mætti leggja áherslu á að setja upp vettvang í tengslum við sveitarstjórnarkosningar, alþingiskosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, eins konar gervikosningar, þar sem í fordyri kjörstaða verði komið fyrir kjörklefum fyrir börn og þau fái að kjósa þegar þau koma á kjörstað með foreldrum sínum. Úrslitin verði svo tilkynnt í skólum fyrsta dag eftir kosningar. Að sama skapi má sjá fyrir sér þann möguleika að börn geti tekið þátt í raunverulegum kosningum um ákveðna hluti, t.d. dagskrárliði í Ríkisútvarpinu, mat í skólum eða tiltekin atriði í námskrá skóla. Samhliða fyrrgreindum kosningum er nauðsynlegt að skipulögð sé markviss fræðsla á grunnskólastigi um stjórnmál, stjórnmálaflokka, hinar ýmsu stofnanir ríkisins, samræðuhefð, ólíkar skoðanir, umburðarlyndi, réttarríki og lýðræðishefð.
    Verkefni af þessu tagi eru þekkt erlendis og má þar til að mynda nefna verkefni í Bandaríkjunum sem nefnist „Generation Nation“ 2 sem byggist á svipuðum hugmyndum og raktar eru hér að framan. Unicef hefur einnig unnið ötullega að því að fræða börn um réttindi sín sem borgara, má þar sem dæmi nefna barnaþing Sameinuðu þjóðanna sem fyrst var haldið árið 2002 og markaði tímamót þar sem einungis var fjallað um börn og málefni þeirra, ekki síst þar sem börnin sjálf tóku í fyrsta skipti virkan þátt. Innlent dæmi af vettvangi Unicef er verkefnið stjórnlög unga fólksins þar sem markmiðið var að tryggja að skoðanir íslenskra barna og ungmenna heyrðust við endurskoðun stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. 3 Endurskoðun stjórnarskrárinnar var álitið grundvallarmál sem hefði víðtæk áhrif á skipulag samfélagsins í heild. Því væri mikilvægt að leitað væri eftir skoðunum barna og ungmenna.
    Sem dæmi um velheppnað verkefni sem hefur að markmiði að fræða börn um hvernig samfélagið virkar má nefna hið svokallaða skólaþing Alþingis sem er sérsniðið kennsluver fyrir 8.–10. bekk grunnskólans þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku nemenda. Leitast er við að efla skilning og þekkingu nemenda á stjórnskipulagi ríkisins, störfum Alþingis og lýðræðislegum vinnubrögðum. Einnig má nefna sem dæmi hinar dönsku skólakosningar (d. skolevalg) þar sem settar eru upp gervikosningar og umgjörð og aðdragandi kosninga nýttur til að auka lýðræðisvitund nemenda með því að fara ítarlega yfir hvernig hægt er að koma baráttumálum áfram og hafa áhrif á samfélagið.
    Ljóst er að meðal ungmenna er vilji til að hafa meiri áhrif en raunin er nú. Þannig má t.d. nefna að á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði, sem var haldin á Ísafirði 9.–11. apríl 2014, var skorað á stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög, að leita í auknum mæli til ungmenna og taka tillit til skoðana þeirra á málefnum samfélagsins, einkum þeim er varði ungmennin sjálf. Hér er leitast við að verða við þessu ákalli.
    Þegar börn og ungmenni öðlast betri skilning á hvernig samfélagið virkar og hvernig borgararnir geta sett mark sitt á úrlausn mála á hinum ýmsu stigum stjórnkerfisins fá þau mikilvæga þekkingu sem er nauðsynleg til að ná árangri, hvort heldur er í námi, þegar út á vinnumarkaðinn er komið eða í lífinu sjálfu. Fræðsla sem þessi er gríðarlega mikilvæg af því að börn og ungmenni dagsins í dag eru framtíðarleiðtogar, stjórnmála- og embættismenn þjóðarinnar.
    Í tillögunni felst að starfshópi verði falið að útfæra hugmyndir með hliðsjón af fyrrgreindum markmiðum. Nauðsynlegt er að verkefnið sé kostnaðarmetið strax í upphafi til að hægt sé að stilla upp raunhæfri áætlun og að kannað verði hvar umsjón með verkefninu sé best fyrir komið. Til að mynda væri hægt að fela kjörstjórnum umsjón með gervikosningahluta verkefnisins samhliða annarri undirbúningsvinnu, en fræðsluhluti verkefnisins væri á herðum þar til bærra aðila.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=10992
Neðanmálsgrein: 2
2     www.generationnation.org/index.php
Neðanmálsgrein: 3
3     www.stjornlogungafolksins.is