Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 227  —  219. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum (uppbygging ferðamannastaða).

Flm.: Róbert Marshall, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Brynhildur Pétursdóttir, Páll Valur Björnsson.


1. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Uppbygging ferðamannastaða.

    Heimilt er sveitarstjórnum að leyfisskylda og innheimta leyfisgjald fyrir fénýtingu náttúrufyrirbrigða og ferðamannastaða enda renni féð til uppbyggingar ferðaþjónustuinnviða sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu þeirra staða sem leyfisskyldir eru.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd leyfisveitingarinnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilað að leyfisskylda og innheimta leyfisgjald fyrir fénýtingu náttúrufyrirbrigða og ferðamannastaða innan þeirra marka.
    Frumvarpið felur í sér að ábyrgð á ferðamannastöðum og náttúrufyrirbrigðum er færð til sveitarstjórnanna, þ.e. til þeirra sem næst þeim búa. Sveitarstjórnir eru ekki skyldugar til að leyfisskylda fénýtingu slíkra staða en fari þær út í aðgerðir af því tagi verður innheimt fé við leyfisútgáfu að renna til uppbyggingar á stöðunum sjálfum. Sveitarstjórnir verða sjálfar að meta hvaða áhrif innheimta slíks gjalds hefur á þá atvinnustarfsemi sem um ræðir.
    Framangreind lagabreyting mundi leysa markmið frumvarps til laga um náttúrupassa, sem lagt var fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015 en náði ekki afgreiðslu, sem og leysa markmið frumvarps til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum sem lagt var fyrir Alþingi á sama þingi, auk þess sem það hefur verið endurflutt á yfirstandandi þingi. Þá leysir lagabreytingin þann vanda að ekki hefur reynst gerlegt að nýta það fjármagn sem hefur verið eyrnamerkt uppbyggingu náttúrufyrirbrigða og ferðamannastaða, m.a. vegna skorts á áætlunum, teikningum og verktökum. Frumvarpinu er ætlað að fela sveitarfélögunum sjálfum að meta vandann, gera samninga við þá sem skipuleggja hópferðir á staðina og standa að uppbyggingu. Þá þyrfti gjaldið ekki að vera varanlegt, það gæti staðið yfir tímabundið á meðan uppbygging stendur yfir og tekið mið af stöðu þeirra fyrirtækja sem um ræðir og eins atvinnusköpun þeirra í sveitarfélögunum sjálfum. Verði frumvarpið að lögum má því gera ráð fyrir að yfirgripsmikill og umdeildur vandi verði leystur. Frumvarpið felur ekki í sér heimild til gjaldtöku á ferðamannastöðum heldur beinist fyrst og fremst að skipulögðum hópferðum á tiltekna staði þar sem þriðji aðili hagnast á nýtingu staðar sem hann á ekki beina aðild að, eins og t.d. landeigandi eða sveitarfélag.