Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 236  —  224. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum um happdrætti og talnagetraunir
(framlenging starfsleyfis).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.
1. gr.

    1. málsl. e-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Leyfi til að reka happdrættið má veita til 1. janúar 2034.

II. KAFLI
Breyting á lögum um happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og
brjóstholssjúklinga, nr. 18/1959, með síðari breytingum.
2. gr.

    1. málsl. 3. gr. laganna orðast svo: Heimild þessi gildir til 1. janúar 2034.

III. KAFLI
Breyting á lögum um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, nr. 16/1973, með síðari breytingum.
3. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Heimild þessi gildir til 1. janúar 2034.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um talnagetraunir, nr. 26/1986, með síðari breytingum.
4. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Heimild þessi gildir til 1. janúar 2034.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Frumvarpið er liður í þeim áformum innanríkisráðherra að heimila Happdrætti Háskóla Íslands, Happdrætti SÍBS, Happdrætti DAS og Íslenskri getspá að starfrækja áfram happdrætti og talnagetraunir sem þau hafa nú starfsleyfi fyrir, en leyfi þessi renna út um áramótin 2018/2019.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við þau félög sem frumvarpið varðar og m.a. tekið mið af ábendingu frá Íslenskri getspá um nauðsyn þess að framtíðarhorfur félagsins væru skýrar vegna mikilla fjárfestinga við endurnýjun sölu- og upplýsingakerfa.
    Vegna skipulagningar og rekstraröryggis getur verið nauðsynlegt að framlengja heimildir til happdrættisrekstrar tímanlega. Það auðveldar þeim félögum sem starfrækja happdrætti að horfa til lengri tíma og er til hagræðingar við gerð viðskipta- og rekstraráætlana og við endurnýjun tæknibúnaðar. Happdrætti og talnagetraunir sem hér um ræðir eru öll starfrækt í þágu mikilvægra málefna, sbr. athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins, og eru að miklu leyti fjárhagslegur bakhjarl þeirrar starfsemi sem þau styðja. Verði leyfin ekki endurnýjuð er hætt við að sú starfsemi verði fyrir töluverðum fjárskorti og eigi erfitt með að gegna hlutverki sínu. Til hagræðingar er lagt til að heimildir allra þeirra happdrætta og talnagetrauna, sem eru starfrækt á grundvelli sérlaga með tímabundinni heimild, verði framlengdar á sama tíma um 15 ár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Háskóli Íslands hefur haft einkarétt til rekstrar peningahappdrættis hér á landi frá árinu 1934, sbr. lög nr. 44 19. júní 1933. Hefur happdrættið síðan að langmestu leyti staðið undir öllum byggingarframkvæmdum og tækjakaupum Háskóla Íslands og þannig verið honum ómetanleg lyftistöng, en jafnframt hefur happdrættið sparað ríkissjóði útgjöld. Með þessu ákvæði er lagt til að Happdrætti Háskóla Íslands verði gert kleift að vera áfram fjárhagslegur bakhjarl Háskóla Íslands.
    Sá háttur hefur verið hafður á að lagaheimild til einkaleyfisveitingarinnar hefur verið bundin til 10 eða 15 ára í senn. Núgildandi heimild, sem var endurnýjuð til 15 ára með lögum nr. 127 16. desember 2003, rennur út 1. janúar 2019. Er talið tímabært að hún verði endurnýjuð nú og lagt er til að það verði gert til 15 ára, til 1. janúar 2034, til samræmis við tillögur frumvarpsins um gildistíma leyfis fyrir önnur happdrætti.

Um 2. gr.

    Með lögum nr. 13 16. mars 1949, sbr. nú lög nr. 18 22. apríl 1959, var Sambandi íslenskra berklasjúklinga (nú Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga) heimilað að stofnsetja og reka vöruhappdrætti og gilti heimildin í 10 ár. Var sú heimild framlengd um 10 ár í senn að undanskilinni síðustu framlengingu sem var til 11 ára, til ársloka 2018, sbr. lög nr. 146 19. desember 2007, til samræmis við gildistíma heimildar Happdrættis Háskóla Íslands.
    Ágóða af happdrættinu skal varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir Reykjalundar, endurhæfingarmiðstöðvar, til byggingar og rekstrar vinnustofu fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga.
    Með þessu ákvæði er lagt til að heimild Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga til rekstrar happdrættis verði framlengd um 15 ár, til 1. janúar 2034. Slík framlenging væri í samræmi við tillögur frumvarpsins um gildistíma leyfis fyrir önnur happdrætti.

Um 3. gr.

    Með lögum nr. 71 24. apríl 1954, sbr. nú lög nr. 16 13. apríl 1973, var Dvalarheimili aldraðra sjómanna heimilað að stofna og reka vöruhappdrætti. Hefur sú heimild verið framlengd nokkrum sinnum, síðast um 11 ár til ársloka 2018, með lögum nr. 147 19. desember 2007, til samræmis við gildistíma heimildar Happdrættis Háskóla Íslands.
    Ágóða af happdrættinu skal varið til byggingarframkvæmda fyrir aldraða á vegum Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Þá er stjórn samtakanna, sem sér um stjórn og daglegan rekstur happdrættisins, heimilt að veita styrk eða lán til annarra bygginga um land allt í þágu aldraðra, svo sem verndaðra þjónustuíbúða, umönnunar- og hjúkrunarheimila og þjónustumiðstöðva fyrir aldraða.
    Með þessu ákvæði er lagt til að heimild Dvalarheimilis aldraðra sjómanna til rekstrar happdrættis verði framlengd um 15 ár, til 1. janúar 2034. Slík framlenging væri í samræmi við tillögur frumvarpsins um gildistíma leyfis fyrir önnur happdrætti.

Um 4. gr.

    Með lögum nr. 26 2. maí 1986 var Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) veitt leyfi til þess að starfrækja saman, í nafni félags sem samtökin mundu stofna, talna- eða bókstafagetraunir. Starfsemin er rekin í nafni félagsins Íslensk getspá. Heimildin var upphaflega veitt til tæplega 20 ára og gilti til ársloka 2005. Með lögum nr. 126 16. desember 2003 var heimild ráðherra til að veita félaginu leyfi til að reka getraunastarfsemi framlengd til 1. janúar 2019.
    Ágóða af getraunastarfseminni skal varið til eflingar íþrótta- og ungmennastarfi í landinu og til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja eða til að standa undir annarri starfsemi Öryrkjabandalagsins í þágu öryrkja. Reksturinn hefur haft mikla fjárhagslega þýðingu fyrir eigendurna.
    Með þessu ákvæði er lagt til að heimild ráðherra til að veita félaginu leyfi til að reka getraunastarfsemi verði framlengd um 15 ár, til 1. janúar 2034, til samræmis við tillögur frumvarpsins um gildistíma leyfis fyrir önnur happdrætti.
    Brýnt er fyrir félagið að frumvarpið nái fram að ganga þar sem nú standa m.a. yfir miklar fjárfestingar í nýjum sölu- og upplýsingakerfum og í því sambandi er nauðsynlegt að framtíðarhorfur félagsins séu skýrar.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um happdrætti og talnagetraunir (framlenging starfsleyfis).

    Í frumvarpi þessu er lagt til að leyfi Happdrættis Háskóla Íslands, Happdrættis SÍBS, Happdrættis DAS og Íslenskrar getspár til að starfrækja happdrætti og talnagetraunir verði framlengt til 1. janúar 2034 en leyfin hefðu að öllu óbreyttu átt að renna út 1. janúar 2019. Vegna skipulagningar og rekstraröryggis er talið nauðsynlegt að framlengja heimildir til happdrættisrekstrar tímanlega. Samkvæmt lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, er gert ráð fyrir að Happdrætti Háskólans greiði 20% af nettóársarði í leyfisgjald til Innviðasjóðs, á fjárlagalið 02-238, sem geti að hámarki numið 150 m.kr. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir 106 m.kr. framlagi til sjóðsins vegna tekna af leyfisgjaldinu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér áhrif á afkomu ríkissjóðs.