Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 245  —  229. mál.



Frumvarp til laga

um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að vandaðri framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni til að tryggja hag og réttindi barns sem fæðist eftir staðgöngumæðrun, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og farsæla aðkomu væntanlegra foreldra.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök svofellda merkingu:
     1.      Staðgöngumæðrun: Þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á staðgöngumóður sem hefur fallist á að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra enda hyggist staðgöngumóðirin afhenda barnið væntanlegum foreldrum eftir fæðingu þess og þau skuldbundið sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga.
     2.      Staðgöngumóðir: Einstaklingur sem óskar eftir leyfi nefndar skv. 6. gr. til að takast á hendur staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
     3.      Væntanlegir foreldrar: Hjón, sambúðarfólk eða einstaklingar sem óska eftir leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að taka við og annast barn sem tiltekin staðgöngumóðir elur og skuldbinda sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga.
     4.      Velgjörðarskyn: Þegar vilji staðgöngumóður stendur til þess að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra af fúsum og frjálsum vilja og án þess að þiggja peningagreiðslu eða aðra umbun að launum umfram endurgreiðslu á útlögðum kostnaði hennar sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barnsins.
     5.      Hagnaðarskyn: Þegar vilji staðgöngumóður stendur til þess að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra af fúsum og frjálsum vilja gegn því að peningagreiðsla eða önnur umbun renni til hennar eða aðila sem er henni nákominn.
     6.      Yfirfærsla á foreldrastöðu: Staðfesting sýslumanns eða dómara um að barn öðlist sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum eins og það væri þeirra eigið barn og um leið falli niður lagatengsl barnsins við staðgöngumóður og maka hennar.
    Skilgreiningar hugtaka í 1. gr. laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna gilda samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á.

4. gr.
Hagsmunir barns.

    Ekki má veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni nema sýnt þyki eftir könnun á högum og aðstæðum staðgöngumóður og maka hennar og væntanlegra foreldra að andleg og líkamleg heilsa, fjárhagsstaða og félagslegar aðstæður þeirra allra séu góðar og ætla megi að barnið sem til verður muni búa við þroskavænleg uppeldisskilyrði.

5. gr.
Hagsmunir staðgöngumóður.

    Staðgöngumóðir hefur fullt sjálfræði um allar ákvarðanir tengdar meðgöngu og fæðingu. Staðgöngumóðir nýtur sömu þjónustu og aðrar þungaðar konur, svo sem mæðraverndar og annarrar heilbrigðisþjónustu.

6. gr.
Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

    Ráðherra skipar nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til fjögurra ára í senn. Nefndarmenn skulu vera þrír og jafnmargir til vara. Skal einn nefndarmaður vera lögfræðingur og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar læknir og þriðji sálfræðingur eða félagsráðgjafi. Þess skal gætt að nefndarmenn hafi sérþekkingu á þeim málefnum sem nefndin fjallar um.
    Hlutverk nefndarinnar er að veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Nefndin skal sjá til þess að þeir sem sækja um staðgöngumæðrun eigi aðgang að faglegri ráðgjöf sérfræðinga, svo sem lögfræðinga og félagsráðgjafa eða sálfræðinga. Nefndin ákvarðar jafnframt um foreldrastöðu barns sem fæðist í samræmi við erlend lög um staðgöngumæðrun skv. 26. gr. Ráðherra getur falið nefndinni fleiri verkefni, enda tengist þau staðgöngumæðrun.
    Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skal árlega skila ráðherra skýrslu um störf sín.

7. gr.
Heilbrigðisstofnun.

    Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni má einungis framkvæma á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur leyfi ráðherra til að framkvæma tæknifrjóvgun skv. 2. gr. laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.
    Heilbrigðisstofnun skv. 1. mgr. veitir að beiðni nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni umsögn skv. 14. gr. vegna umsóknar um staðgöngumæðrun.
    Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni má aðeins framkvæma að fengnu leyfi nefndar skv. 6. gr.

II. KAFLI
Skilyrði staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.
8. gr.
Skilyrði er varða staðgöngumóður og maka hennar.

    Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er því aðeins heimil að hún samræmist hagsmunum barns skv. 4. gr. og eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Staðgöngumóðir og maki hennar, ef við á, séu lögráða.
     2.      Staðgöngumóðir eigi lögheimili og hafi haft samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu fimm árin fyrir umsókn og hafi búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar. Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er heimilt að víkja frá þessu skilyrði þegar sérstaklega stendur á.
     3.      Fyrir liggi samþykki staðgöngumóður. Sé staðgöngumóðir í hjúskap eða sambúð skal samfelld sambúð hafa varað eigi skemur en í þrjú ár, þar af skal hjúskapur eða skráð sambúð hafa varað í eitt ár hið minnsta. Í því tilviki þarf samþykki maka hennar fyrir staðgöngumæðruninni að liggja fyrir.
     4.      Staðgöngumóðir eða maki hennar sé ekki systir eða bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu skv. 1. mgr. 10. gr.
     5.      Staðgöngumóðir hafi náð 25 ára aldri og sé ekki eldri en 39 ára.
     6.      Staðgöngumóðir eigi að baki fæðingu a.m.k. eins fullburða barns eftir eðlilega meðgöngu og fæðingu.
     7.      Staðgöngumóðir hafi andlega og líkamlega burði og fullnægjandi heilsu til að takast á við það álag sem fylgir staðgöngumæðrun, meðgöngu og fæðingu barns. Tekið skal mið af því að ekki megi búast við skaðlegum áhrifum meðgöngu eða fæðingar á staðgöngumóður eða barn með hliðsjón af almennum læknisfræðilegum og fæðingarfræðilegum viðmiðum.
     8.      Liðin séu að lágmarki tvö ár frá fæðingu barns staðgöngumóður og að síðasta meðganga hennar hafi ekki endað með fósturmissi eftir fyrsta þriðjung meðgöngunnar eða fæðingu andvana barns.
     9.      Hafi staðgöngumóðir eða maki hennar misst barn skulu hafa liðið að lágmarki tvö ár frá andláti barnsins.

9. gr.
Skilyrði er varða væntanlega foreldra.

    Hjón eða einstaklingar í sambúð sem er skráð í þjóðskrá skulu standa saman að umsókn um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og þeim einum er heimilt að leita staðgöngumæðrunar saman.
    Þegar umsókn um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er lögð fram skal samfelld sambúð væntanlegra foreldra hafa varað eigi skemur en í þrjú ár, þar af skal hjúskapur eða skráð sambúð hafa varað í eitt ár hið minnsta.
    Einhleypir geta fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ef sérstaklega stendur á og ótvírætt þykir að hagsmunir barns verði tryggðir og að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara.
    Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er því aðeins heimil að hún samræmist hagsmunum barns skv. 4. gr. og eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Væntanlegir foreldrar séu lögráða, eigi lögheimili og hafi haft samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu fimm árin fyrir umsókn og hafi búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar. Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er heimilt að víkja frá þessu skilyrði þegar sérstaklega stendur á.
     2.      Fyrir liggi samþykki væntanlegra foreldra og þeir hafi skuldbundið sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga.
     3.      Væntanlegir foreldrar hafi náð 25 ára aldri og séu ekki eldri en 45 ára.
     4.      Væntanlegir foreldrar hvorki eigi barn undir tveggja ára aldri né beri ábyrgð á uppeldi svo ungs barns.
     5.      Væntanlegir foreldrar geti af læknisfræðilegum ástæðum ekki tekist á við það álag sem fylgir meðgöngu og fæðingu barns eða líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu. Miða skal við alvarleg, skaðleg áhrif meðgöngu og fæðingar með hliðsjón af almennum læknisfræðilegum og fæðingarfræðilegum viðmiðum.

10. gr.
Notkun kynfrumna og fósturvísa.

    Við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er skylt að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra, eftir því sem við á. Eingöngu er heimilt að nota gjafakynfrumu við staðgöngumæðrun hjá einhleypum einstaklingi eða ef frjósemi annars væntanlegs foreldris er skert, um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar eða líffræðilegar ástæður mæla með eða krefjast notkunar gjafakynfrumu.
    Við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er óheimilt að nota kynfrumur staðgöngumóður, maka hennar eða þeirra sem eru skyldir staðgöngumóður, maka hennar eða væntanlegum foreldrum í beinan legg. Jafnframt er óheimilt að nota kynfrumu frá systkini þess væntanlega foreldris sem leggur til kynfrumu.
    Við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skal nota stýrðan meðferðarhring við uppsetningu fósturvísis. Óheimilt er að setja upp fleiri en einn fósturvísi í senn.
    Heimilt er að geyma fósturvísa væntanlegra foreldra í þeim tilgangi að nota þá við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í þeirra þágu. Um geymslu og eyðingu fósturvísa gilda að öðru leyti ákvæði laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

III. KAFLI
Meðferð og úrlausn mála um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
11. gr.
Umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

    Væntanlegir foreldrar sem óska staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og staðgöngumóðir, ásamt maka hennar, skulu snúa sér til nefndar skv. 6. gr. með umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Umsóknin skal rituð á eyðublað sem nefndin lætur útbúa.
    Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni kannar hvort uppfyllt eru skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.

12. gr.
Gögn sem fylgja eiga umsókn.

    Eftirtalin gögn skulu fylgja umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni:
     1.      Almennar upplýsingar um umsækjendur, þar á meðal um fjölskylduaðstæður þeirra, fjárhagsstöðu með staðfestum afritum tveggja síðustu skattframtala, húsnæðisstöðu, annan aðbúnað og getu til að veita barni þroskavænleg uppeldisskilyrði.
     2.      Upplýsingar um heilsufar umsækjenda.
     3.      Vottorð frá Þjóðskrá Íslands um búsetu auk hjúskapar- og sambúðarvottorðs, eftir því sem við á.
     4.      Samþykki fyrir því að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem meðal annars komi fram hvort umsækjendur eða heimilismenn sem náð hafa 15 ára aldri hafi nokkurn tíma hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.
     5.      Samþykki fyrir því að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni afli upplýsinga frá barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi umsækjenda.
    Ef framlögð gögn gefa tilefni til getur nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni lagt fyrir umsækjendur að afla frekari upplýsinga eða gagna.
    Gögn sem fylgja eiga umsókn mega ekki vera eldri en sex mánaða, en skylt er umsækjendum að upplýsa nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ef breytingar hafa orðið á högum þeirra.

13. gr.
Ráðgjöf.

    Áður en leyfi er veitt er umsækjendum skylt að sækja ráðgjöf þar sem veittar eru meðal annars ítarlegar upplýsingar um þau læknisfræðilegu, lögfræðilegu, siðferðilegu og félagslegu áhrif sem staðgöngumæðrun kann að hafa.
    Umsækjendur skulu jafnframt hitta ráðgjafa að lágmarki tvisvar á meðan á tæknifrjóvgunarmeðferð og meðgöngu staðgöngumóður stendur og einu sinni eftir fæðingu barns.

14. gr.
Umsögn heilbrigðisstofnunar.

    Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni aflar umsagnar heilbrigðisstofnunar skv. 7. gr. um hvort skilyrðum 6.–8. tölul. 8. gr. og 5. tölul. 4. mgr. 9. gr. sé fullnægt. Ef framlögð gögn umsækjenda um heilsufar gefa tilefni til getur heilbrigðisstofnun lagt fyrir umsækjendur að afla þeirra gagna sem eru nauðsynleg til að gefa umsögn.

15. gr.
Form og efni samþykkis.

    Samþykki til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni skal vera skriflegt og staðfest fyrir nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eða starfsmanni hennar sem vottar að hverjum og einum umsækjenda hafi verið leiðbeint um réttaráhrif samþykkis og staðgöngumæðrunar. Samþykki er ekki gilt nema tilgreind séu nöfn staðgöngumóður, maka hennar þegar við á og væntanlegra foreldra. Nú er samþykki til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni meira en tólf mánaða gamalt og skal það þá staðfest að nýju áður en tekin er afstaða til umsóknar sömu aðila um staðgöngumæðrun.

16. gr.
Gagnkvæm viljayfirlýsing.

    Áður en leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni er veitt og að fenginni ráðgjöf skv. 1. mgr. 13. gr. skulu umsækjendur ganga frá gagnkvæmri viljayfirlýsingu um samskipti á meðgöngu, endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, sbr. 17. gr., viðveru væntanlegra foreldra við fæðingu barns, tilhögun afhendingar barns eftir fæðingu, umsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu, samskipti eftir afhendingu barns eftir atvikum og annað er máli skiptir.
    Ekki er unnt að krefjast efnda á þeim atriðum sem fram koma í gagnkvæmri viljayfirlýsingu. Staðgöngumóðir, og maki hennar eftir atvikum, geta þó krafist endurgreiðslu á þeim kostnaði skv. 17. gr. sem þau hafa lagt út fyrir hverju sinni og gert er ráð fyrir í gagnkvæmri viljayfirlýsingu.

17.      gr.
Heimild til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna
staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

    Væntanlegum foreldrum er heimilt að inna af hendi og staðgöngumóður, og maka hennar eftir atvikum, að taka við endurgreiðslu á hæfilegum útlögðum kostnaði sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barnsins, svo sem vegna nauðsynlegra lyfja, heilbrigðisþjónustu, ferðakostnaðar, fatnaðar, líkamsræktar eða stuðningsbúnaðar.

18. gr.
Mat nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

    Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni metur hvort hagsmunir barns verði tryggðir og öllum skilyrðum staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni samkvæmt lögum þessum sé fullnægt.
    Hver staðgöngumóðir getur að hámarki þrisvar sinnum fengið leyfi til staðgöngumæðrunar.
    Óheimilt er veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni hjá fleiri en einni staðgöngumóður fyrir hverja væntanlega foreldra á hverjum tíma.
    Óheimilt er að veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ef væntanlegir foreldrar eiga von á barni, eru í tæknifrjóvgunarmeðferð eða í virku ættleiðingarferli.
    Óheimilt er að veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni hafi umsækjendur hlotið dóm fyrir brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga eða hlotið refsidóm sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að veita barni gott uppeldi.

19. gr.
Leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

    Um meðferð umsókna um leyfi til staðgöngumæðrunar hjá nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
    Leyfi gildir ekki lengur en tólf mánuði frá útgáfudegi. Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er heimilt að afturkalla leyfi, allt fram til þess að getnaður á sér stað, komi í ljós að aðstæður umsækjenda hafi breyst verulega frá útgáfu leyfisins eða upplýsingar er máli skipta hafi reynst rangar.

20. gr.
Synjun umsóknar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

    Ef umsókn um staðgöngumæðrun er hafnað skal það gert með ákvörðun nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í ákvörðun skal greina úrlausnarefni, helstu gögn málsins, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, þar á meðal lagaatriði er niðurstaða byggist á, og önnur atriði sem máli skipta. Umsækjendum er sameiginlega heimilt að kæra synjun til ráðherra innan þriggja mánaða.

21. gr.
    Þagnarskylda.

    Öllum þeim sem koma að meðferð máls um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ber að gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem leynt skal fara.
    Þagnarskyldan nær ekki til atvika sem er skylt að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum, t.d. ákvæðum barnaverndarlaga. Í þeim tilvikum ber viðkomandi skylda til að koma upplýsingum á framfæri við þar til bær yfirvöld.

IV. KAFLI
Fæðing barns og yfirfærsla á foreldrastöðu.
22. gr.
Foreldri barns við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

    Staðgöngumóðir telst móðir þess barns sem hún elur, sbr. ákvæði barnalaga. Maki staðgöngumóður telst faðir eða foreldri barnsins samkvæmt sömu lögum.

23. gr.
Réttur til fæðingar- og foreldraorlofs.

    Um rétt staðgöngumóður og maka hennar, ef við á, sem foreldra barns, og væntanlegra foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs gilda ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof.

24. gr.
Forsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu.

    Staðgöngumóðir og eftir atvikum maki hennar, sem foreldrar barns, fara með forsjá þess fram að yfirfærslu á foreldrastöðu nema um annað sé sérstaklega samið samkvæmt ákvæðum barnalaga.

25. gr.
Yfirfærsla á foreldrastöðu.

    Um yfirfærslu á foreldrastöðu barns sem fætt er af staðgöngumóður samkvæmt lögum þessum gilda ákvæði barnalaga.

26. gr.
Foreldrastaða barns sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun.

    Þegar stendur til að koma eða komið er með barn hingað til lands sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun ber að vísa málinu til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til ákvörðunar um foreldrastöðu.
    Staðfesti nefndin erlenda ákvörðun um foreldrastöðu barns skal hún tilkynna það til Þjóðskrár Íslands.
    Nefndin synjar um staðfestingu hinnar erlendu ákvörðunar þjóni hún ekki hagsmunum barns eða gangi hún í berhögg við grunnreglur íslensks réttar (allsherjarreglu). Synjun nefndarinnar er ekki kæranleg til ráðherra en unnt er að bera hana undir dómstóla.
    Ef nefndin synjar um staðfestingu á foreldrastöðu skal hún tilkynna til barnaverndarnefndar í umdæmi þar sem barnið dvelst um aðstæður barnsins.

V. KAFLI
Réttur barns til að þekkja uppruna sinn.
27. gr.
Upplýsingaskylda foreldra.

    Foreldrar barns sem fætt er af staðgöngumóður skulu skýra barni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé fætt af staðgöngumóður. Skal það að jafnaði ekki gert síðar en er barn nær sex ára aldri.
    Foreldrar eiga rétt á ráðgjöf á vegum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni við upplýsingagjöf skv. 1. mgr.

28. gr.
Skylda heilbrigðisstofnunar til varðveislu gagna.

    Heilbrigðisstofnun skv. 7. gr. ber skylda til að varðveita upplýsingar um framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, m.a. hvaðan kynfrumur koma og upplýsingar um kynfrumugjafa, þegar það á við.

29. gr.
Upplýsingaréttur barns.

    Barn sem fætt er af staðgöngumóður getur er það nær 16 ára aldri óskað eftir aðgangi að upplýsingum skv. 28. gr.
    Barn sem fætt er af staðgöngumóður á rétt á ráðgjöf og stuðningi á vegum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni vegna beiðni um aðgang að upplýsingum.

VI. KAFLI
Bannákvæði og refsingar.
30. gr.
Bann við staðgöngumæðrun.

    Óheimilt er að framkvæma staðgöngumæðrun sem fer í bága við markmið og skilyrði laga þessara.
    Óheimilt er að bjóða, inna af hendi eða taka við eða njóta hagsbóta af peningagreiðslum eða annarri umbun í tengslum við staðgöngumæðrun umfram endurgreiðslu á útlögðum kostnaði staðgöngumóður sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barnsins skv. 17. gr.

31. gr.
Auglýsingar um staðgöngumæðrun.

    Hvers konar auglýsingar vegna staðgöngumæðrunar eru óheimilar.

32. gr.
Milliganga um staðgöngumæðrun.

    Óheimilt er að hafa milligöngu um staðgöngumæðrun. Milliganga um ólögmætar greiðslur milli aðila er óheimil.

33. gr.
Staðgöngumæðrun yfir landamæri.

    Óheimilt er leita eftir eða gera ráðstafanir hér á landi til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laga þessara.
    Óheimilt er að hafa milligöngu hér á landi um staðgöngumæðrun í útlöndum.

34. gr.
Refsingar.

    Það varðar sektum að lágmarki 500.000 kr., eða fangelsi allt að þremur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      3. mgr. 7. gr. um framkvæmd staðgöngumæðrunar með leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
     2.      30. gr. um bann við staðgöngumæðrun.
     3.      31. gr. um bann við auglýsingu á staðgöngumæðrun.
     4.      32. gr. um bann við milligöngu um staðgöngumæðrun.
     5.      33. gr. um staðgöngumæðrun yfir landamæri.
    Lágmarksfjárhæð sekta skal taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs.
    Hlutdeild í broti er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
35. gr.
Eftirlit.

    Embætti landlæknis hefur eftirlit með störfum heilbrigðisstofnunar skv. 7. gr., sbr. ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu.

36. gr.
Gjaldtaka.

    Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni innheimtir gjald úr hendi væntanlegra foreldra vegna umsóknar um leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldinu er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum:
     1.      Ráðgjöf sérfræðinga skv. 13. gr. til væntanlegra foreldra, staðgöngumóður og maka hennar.
     2.      Framkvæmd mats fagaðila skv. 18. gr. á högum og aðstæðum væntanlegra foreldra, staðgöngumóður og maka hennar, sem nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ræður til verksins.
    Heimilt er að ákveða að gjaldið verði innheimt í áföngum.

37. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara. Ráðherra er skylt að setja reglugerð þar sem fjallað er nánar um:
     1.      Störf nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skv. 6. gr.
     2.      Skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla skv. 4., 8. og 9. gr.
     3.      Ráðgjöf skv. 13. gr. og mat skv. 18. gr.
     4.      Heimild til endurgreiðslu hæfilegs útlagðs kostnaðar staðgöngumóður, og maka hennar eftir atvikum, skv. 17. gr.

38. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.
    Ráðherra ber að meta reynsluna af framkvæmd laga þessara og leggja skýrslu fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2021. Gefi skýrslan tilefni til endurskoðunar laganna skal það gert.

VIII. KAFLI
Breytingar á öðrum lögum.
39. gr.
Breytingar á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna
og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996:
     1.      7. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
                   Staðgöngumæðrun: Þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á staðgöngumóður sem hefur fallist á að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra enda hyggist staðgöngumóðirin afhenda barnið væntanlegum foreldrum eftir fæðingu þess og þau skuldbundið sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga.
     2.      2.–4. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                  Stofnunin skal varðveita upplýsingar um gjafa í sérstakri skrá. Verði til barn vegna kynfrumugjafarinnar skal varðveita upplýsingar um það og einstaklinginn eða parið sem fékk gjafakynfrumurnar í sömu skrá.
                  Foreldrar barns sem fæðist eftir kynfrumugjöf skulu skýra barni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til. Skal það að jafnaði gert ekki síðar en er barn nær sex ára aldri.
                  Barn sem verður til vegna kynfrumugjafar getur er það nær 16 ára aldri óskað eftir aðgangi að skrá skv. 2. mgr. til að fá upplýsingar um gjafann. Nú fær barn upplýsingar um kynfrumugjafa hjá stofnuninni og ber henni þá eins fljótt og auðið er að tilkynna honum um upplýsingagjöfina.
     3.      4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
                  Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er óheimil. Um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gilda lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
     4.      1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
                  Fósturvísa má geyma í þeim tilgangi að koma þeim fyrir í konu þeirri sem lagði eggfrumurnar til eða fékk þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun eða til að nota þá við staðgöngumæðrun samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Geymsla fósturvísa í öðrum tilgangi er óheimil.

40. gr.
Breytingar á barnalögum, nr. 76/2003.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á barnalögum, nr. 76/2003:
     1.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 3. gr. laganna:
              a.      Við 1. málsl. bætist: og um foreldri barns við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gilda ákvæði 6. gr. a.
              b.      Við 2. málsl. bætist: sbr. þó 6. gr. a.
     2.      4. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
                  Einstaklingur sem gefur eða leggur til kynfrumur í þeim tilgangi að þær verði notaðar við tæknifrjóvgun á öðrum en maka hans, sbr. 3. mgr., samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun og laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, verður ekki talinn móðir eða faðir barns sem getið er með kynfrumu hans, nema ákvæði 6. gr. a eða III. kafla A eigi við.
     3.      Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Foreldri barns í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

                  Ákvæði 6. gr. um foreldri barns við tæknifrjóvgun gildir um réttarstöðu barns sem staðgöngumóðir elur samkvæmt ákvæðum laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
                  Væntanlegir foreldrar skulu snúa sér til sýslumanns innan tveggja mánaða frá fæðingu barns og óska skriflega eftir yfirfærslu á foreldrastöðu barns sem staðgöngumóðir hefur alið samkvæmt ákvæðum laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
                  Væntanlegir foreldrar sem fengu leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni skulu standa saman að ósk um yfirfærslu á foreldrastöðu barns. Ef annað væntanlegra foreldra óskar ekki eftir yfirfærslu á foreldrastöðu getur hitt væntanlegra foreldra óskað eftir því að leyst verði úr málinu fyrir dómi skv. III. kafla A. Ef hvorugt væntanlegra foreldra óskar eftir yfirfærslu á foreldrastöðu er unnt að leysa úr málinu fyrir dómi skv. III. kafla A.
                  Ef annað væntanlegra foreldra andast áður en ósk um yfirfærslu á foreldrastöðu er komið á framfæri eða meðan málið er til meðferðar hjá sýslumanni skal skipa barni sérstakan lögráðamann sem gætir hagsmuna barnsins og stendur að beiðni ásamt eftirlifandi væntanlegu foreldri, ef við á. Ef báðir væntanlegir foreldrar eru látnir geta foreldrar barnsins óskað eftir yfirfærslu á foreldrastöðu. Skipa skal barni sérstakan lögráðamann sem gætir hagsmuna barnsins og stendur að beiðni ásamt foreldrum, ef við á. Ef einhver framangreindra aðila óskar ekki eftir yfirfærslu á foreldrastöðu er unnt að leysa úr málinu fyrir dómi skv. III. kafla A.
                  Sýslumaður getur ekki orðið við ósk um yfirfærslu á foreldrastöðu til væntanlegra foreldra án samþykkis foreldra barnsins skv. 6. gr. og sérstaks lögráðamanns þess, eftir atvikum. Samþykki foreldra skal vera skriflegt og skulu viðkomandi staðfesta það fyrir sýslumanni sem leiðbeinir þeim um réttaráhrif samþykkis. Samþykki er ekki gilt nema það hafi verið staðfest a.m.k. tveimur mánuðum eftir fæðingu barns, nema alveg sérstaklega hagi til. Ef högum annars foreldris er svo háttað að það getur ekki látið uppi marktækt samþykki, er látið eða það er horfið nægir samþykki hins. Ef þannig er ástatt um báða foreldra eða þeir eru báðir látnir þarf samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns barns og þess sem fer með forsjá barnsins.
                  Ef foreldrar skv. 6. gr. eða sérstakur lögráðamaður barns neita að samþykkja ósk væntanlegra foreldra eða foreldris eða sýslumaður telur yfirfærslu á foreldrastöðu andstæða hag og þörfum barnsins verður leyst úr málinu fyrir dómi skv. III. kafla A.
                  Yfirfærsla á foreldrastöðu í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns með réttaráhrif frá fæðingu barnsins. Við staðfestingu sýslumanns öðlast barn frá fæðingu sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum eða foreldri og ættmennum þeirra eins og það væri þeirra eigið barn. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barns við foreldra skv. 6. gr. Sýslumaður skal senda Þjóðskrá Íslands upplýsingar um yfirfærslu á foreldrastöðu.
                  Eftir yfirfærslu á foreldrastöðu telst sá sem lagði til kynfrumu skv. 2. mgr. 10. gr. laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni móðir eða faðir barns eftir því sem við á en sá sem ekki lagði til kynfrumu telst foreldri viðkomandi barns.
     4.      Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði þetta getur aldrei átt við um barn sem er alið af staðgöngumóður samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
     5.      Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli A, Dómsmál vegna yfirfærslu á foreldrastöðu í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, með sjö nýjum greinum, 24. gr. a – 24. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
              a.      (24. gr. a.)
        

Lögsaga og varnarþing.


                      Um lögsögu og varnarþing í málum samkvæmt þessum kafla fer skv. 8. og 9. gr.
              b.      (24. gr. b.)

Málsaðild.


                     Dómsmál vegna yfirfærslu á foreldrastöðu í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni skal höfða innan sex mánaða frá fæðingu barns.
                      Slík mál geta höfðað barnið sjálft, foreldrar, annar eða báðir, og væntanlegir foreldrar barns, annar eða báðir.
                     Máli barns skal beint gegn foreldrum og væntanlegum foreldrum.
                      Í öðrum tilvikum skal máli beint gegn foreldrum og væntanlegum foreldrum sem skulu verða bundnir af niðurstöðu dóms um yfirfærslu á foreldrastöðu. Ef einhver þessara aðila er látinn skal einnig stefna barninu sjálfu og skipa því sérstakan lögráðamann til að gæta hagsmuna þess í málinu.
              c.      (24. gr. c.)
        

Málsmeðferð o.fl.


                      Ákvæði 11., 13., 14., 15., 18., 38., 40., 41., 4. mgr. 43. og 44. gr. eiga við um mál sem eru rekin samkvæmt þessum kafla.
                      Ákvæði 11. gr. um málskostnað á einnig við í þeim tilvikum þegar foreldrar eru málsaðilar í málum vegna staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni samkvæmt kafla þessum.
              d.      (24. gr. d.)

Úrskurður til bráðabirgða.


                      Í ágreiningsmáli um yfirfærslu á foreldrastöðu barns hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða hver af aðilum málsins fara skuli um forsjá þess eða lögheimili eftir því sem barni er fyrir bestu. Í sama úrskurði getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða.
                       Ákvæði 3.–9. mgr. 35. gr. eiga hér við.
              e.      (24. gr. e.)

Gagnaöflun dómara.


                       Dómari getur, ef nauðsynlegt þykir, aflað sjálfur sönnunargagna. Um gagnaöflun dómara gilda ákvæði 42. gr. eftir því sem við á.
              f.      (24. gr. f.)

Dómur um yfirfærslu á foreldrastöðu.


                     Dómari kveður á um hvernig foreldrastöðu verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Dómari getur fallist á kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu þó að samþykki foreldra skorti ef barnið er eða hefur verið í umsjá væntanlegra foreldra og hagir þess mæla eindregið með því.
                       Niðurstaða í máli um yfirfærslu á foreldrastöðu getur annars vegar orðið sú að hafna því alfarið að yfirfæra foreldrastöðu barnsins eða hins vegar að færa foreldrastöðu barnsins til beggja þeirra væntanlegu foreldra sem fengu sameiginlega leyfi eða þess væntanlega foreldris sem fékk eitt leyfi til staðgöngumæðrunar samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
                       Ef staðgöngumóðir og maki hennar annars vegar, eða væntanlegir foreldrar hins vegar, hafa skilið eða slitið sambúð eftir að leyfi var gefið út til staðgöngumæðrunar er dómara í ágreiningsmáli um yfirfærslu á foreldrastöðu heimilt, að kröfu aðila máls sem á beinna hagsmuna að gæta hverju sinni, að kveða á um forsjá, lögheimili barns og meðlag, sem og um inntak umgengnisréttar barns og foreldris í samræmi við niðurstöðu um foreldrastöðuna.
              g.      (24. gr. g.)

Réttaráhrif dóms.


                       Dómur um yfirfærslu á foreldrastöðu barns samkvæmt þessum kafla hefur réttaráhrif frá fæðingu barns. Dómari skal senda Þjóðskrá Íslands upplýsingar um dóma þar sem fallist er á kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu. Við dóminn öðlast barn frá fæðingu sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum eða foreldri og ættmennum þeirra eins og það væri þeirra eigið barn. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barns við foreldra skv. 6. gr.

41. gr.

Breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.


    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000:
     1.      Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
              a.      Orðið „eða“ í b-lið 1. mgr. fellur brott.
              b.      Við c-lið 1. mgr. bætist: eða.
              c.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: afhendingu barns frá foreldrum til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              d.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                       Staðgöngumóðir er einstaklingur sem óskar eftir leyfi nefndar skv. 6. gr. laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að takast á hendur staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
                       Væntanlegir foreldrar eru hjón, sambúðarfólk eða einstaklingar sem óska eftir leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að taka við og annast barn sem tiltekin staðgöngumóðir elur og skuldbinda sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga, sbr. lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
     2.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti öðlast væntanlegir foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs við afhendingu barns frá foreldrum í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              b.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama gildir einnig um væntanlega foreldra eða einhleypt væntanlegt foreldri sem eignast barn með aðstoð staðgöngumóður samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
              c.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein er verður 6. mgr., svohljóðandi:
                     Í kjölfar staðgöngumæðrunar skal afhending barns miðast við þann tíma þegar væntanlegir foreldrar taka við umsjá barns frá foreldrum enda staðfesti læknir, ljósmóðir eða aðrir til þess bærir aðilar afhendinguna. Réttur til fæðingarorlofs vegna afhendingar barnsins til væntanlegra foreldra fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.
              d.      Í stað orðanna „7. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 8. mgr.
              e.      2. málsl. 8. mgr. orðast svo: Þegar um ættleiðingu, varanlegt fóstur eða afhendingu barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar er að ræða skal miða við 24 mánuði eftir að barn kom inn á heimilið eða var afhent.
              f.      Í stað orðanna „eða töku í varanlegt fóstur“ í 2. málsl. 9. mgr. kemur: töku í varanlegt fóstur eða afhendingu þess til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     3.      Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
                  a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við vegna afhendingar barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar, sbr. 6. mgr. 8. gr.
                  b.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: eða þann mánuð sem barn er afhent væntanlegum foreldrum í kjölfar staðgöngumæðrunar.
                  c.      Í stað orðanna „eða töku í varanlegt fóstur“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: töku í varanlegt fóstur eða afhendingu barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
                  d.      Við 11. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við vegna afhendingar barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     4.      Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um væntanlega foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     5.      Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
                  a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti skulu væntanlegir foreldrar sækja um sex vikum fyrir áætlaðan afhendingardag barns.
                  b.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein er verður 6. mgr., svohljóðandi:
                     Ákvæði 2., 3. og 5. mgr. eiga einnig við um væntanlega foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     6.      Við 15. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði þetta á einnig við um greiðslur til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     7.      Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um væntanlega foreldra sem fá afhent fleiri börn en eitt í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     8.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama rétt eiga væntanlegir foreldrar sem hafa fengið afhent barn í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     9.      Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti öðlast væntanlegir foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks við afhendingu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar.
                  b.      Í stað orðanna „eða tekið barn í varanlegt fóstur“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: tekið barn í varanlegt fóstur eða eignast barn með aðstoð staðgöngumóður samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
                  c.      Í stað orðanna „eða varanlegt fóstur“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: varanlegt fóstur eða afhendingu barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
                  d.      Í stað orðanna „eða töku barns í varanlegt fóstur“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: töku barns í varanlegt fóstur eða afhendingar barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
                  e.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein er verður 7. mgr., svohljóðandi:
                     Í kjölfar staðgöngumæðrunar skal afhending barns miðast við þann tíma þegar væntanlegir foreldrar taka við umsjá barns frá foreldrum enda staðfesti læknir, ljósmóðir eða aðrir til þess bærir aðilar afhendinguna. Réttur til fæðingarstyrks vegna afhendingar barnsins til væntanlegra foreldra fellur niður 24 mánuðum eftir að barn kom inn á heimilið.
                  f.      Í stað orðanna „8. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 9. mgr.
                  g.      Á eftir 2. málsl. 11. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar um staðgöngumæðrun er að ræða skal miða við tímamark 7. mgr.
                  h.      Í stað orðanna „eða töku í varanlegt fóstur“ í 2. málsl. 12. mgr. kemur: töku í varanlegt fóstur eða afhendingu þess til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     10.      Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti öðlast væntanlegir foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks við afhendingu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              b.      Í stað orðanna „eða töku barns í varanlegt fóstur“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: töku barns í varanlegt fóstur eða afhendingu barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              c.      Í stað orðanna „eða tekið barn í varanlegt fóstur“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: tekið barn í varanlegt fóstur eða eignast barn með aðstoð staðgöngumóður samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
              d.      Í stað orðanna „eða varanlegt fóstur“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: varanlegt fóstur eða afhendingu barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              e.      Í stað orðanna „eða varanlegs fósturs“ í 5. málsl. 3. mgr. kemur: varanlegs fósturs eða afhendingar barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              f.      Í stað orðanna „eða töku barns í varanlegt fóstur“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: töku barns í varanlegt fóstur eða afhendingar barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              g.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein er verður 7. mgr., svohljóðandi:
                     Í kjölfar staðgöngumæðrunar skal afhending barns miðast við þann tíma þegar væntanlegir foreldrar taka við umsjá barns frá foreldrum enda staðfesti læknir, ljósmóðir eða aðrir til þess bærir aðilar afhendinguna. Réttur til fæðingarstyrks vegna afhendingar barnsins til væntanlegra foreldra fellur niður 24 mánuðum eftir að barn kom inn á heimilið.
              h.      Í stað orðanna „8. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 9. mgr.
              i.      Í stað orðanna „eða varanlegt fóstur“ í 11. mgr. kemur: varanlegt fóstur eða afhendingu barns til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
              j.      Á eftir 2. málsl. 14. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar um staðgöngumæðrun er að ræða skal miða við tímamark 7. mgr.
              k.      Í stað orðanna „eða töku í varanlegt fóstur“ í 2. málsl. 15. mgr. kemur: töku í varanlegt fóstur eða afhendingu þess til væntanlegra foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     11.      Við 2. mgr. 21. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um væntanlega foreldra sem fá afhent fleiri börn en eitt í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     12.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama rétt eiga væntanlegir foreldrar sem fengið hafa afhent barn frá foreldrum í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     13.      Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti skulu væntanlegir foreldrar sækja um þremur vikum fyrir áætlaðan afhendingardag barns.
              b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæðið á einnig við um væntanlega foreldra í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     14.      Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Réttur væntanlegra foreldra til foreldraorlofs.


                  Ákvæði þessa kafla eiga einnig við um væntanlega foreldra í tilviki staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og skal réttur til foreldraorlofs stofnast við afhendingu barns frá foreldrum í kjölfar staðgöngumæðrunar.
     15.      Í stað orðanna „eða fósturs“ í 1. málsl. 1. mgr. 32. gr. laganna kemur: fósturs eða afhendingar í kjölfar staðgöngumæðrunar samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
     16.      Við 33. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði þetta á einnig við um væntanlega foreldra vegna staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.
     17.      Við 1. málsl. 33. gr. a laganna bætist: eða væntanlegra foreldra.

42. gr.

Breyting á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962.


    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962: Á eftir 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur nýr töluliður sem verður 7. tölul., svohljóðandi: Tilkynning sýslumanna og dómstóla um yfirfærslu á foreldrastöðu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og tilkynning um staðfestingu erlendrar ákvörðunar um foreldrastöðu barns skv. 2. mgr. 26. gr. laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

43. gr.

Breyting á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996.


    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996: Við 7. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir, að breyttu breytanda, um yfirfærslu á foreldrastöðu samkvæmt ákvæðum barnalaga í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

44. gr.
Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á erfðalögum, nr. 8/1962: Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Barn sem fæðist samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og niðjar þess, þar á meðal kjörniðjar, erfa væntanlega foreldra og ættingja þeirra og gagnkvæmt eftir ákvæðum 2.–4. gr. enda fari yfirfærsla á foreldrastöðu fram samkvæmt ákvæðum barnalaga.
    Lögerfðatengsl milli barns skv. 1. mgr. og ættingja þess falla niður frá fæðingu, enda fari yfirfærsla á foreldrastöðu fram samkvæmt ákvæðum barnalaga.

45. gr.

Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952.


    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952: Á eftir 2. gr. a laganna kemur ný grein, 2. gr. b, svohljóðandi:
    Barn sem er fætt af staðgöngumóður með erlent ríkisfang, samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, öðlast íslenskt ríkisfang við yfirfærslu á foreldrastöðu samkvæmt ákvæðum barnalaga ef væntanlegir foreldrar, annar eða báðir, eru íslenskir ríkisborgarar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 144. löggjafarþingi (671. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið er samið af starfshópi um undirbúning frumvarps til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samræmi við þingsályktun um staðgöngumæðrun sem Alþingi samþykkti 18. janúar 2012. Þáverandi velferðarráðherra skipaði starfshópinn 10. september 2012. Í hópinn voru skipuð Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, formaður, Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Sigurður Kristinsson, heimspekingur og prófessor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Vegna starfsanna óskaði Kristrún eftir lausn frá störfum í hópnum í mars 2014. Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík, var skipuð formaður í hennar stað hinn 9. apríl 2014. Laufey Helga Guðmundsdóttir lögfræðingur vann með starfshópnum frá fyrri hluta árs 2013 og var ritari starfshópsins frá þeim tíma. Þá var Svanhildur Þorbjörnsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneyti, tilnefnd af innanríkisráðuneyti í desember 2013 til að starfa með starfshópnum.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur starfshópurinn leitast við að raungera markmið Alþingis eins og þau birtast í þingsályktuninni frá 18. janúar 2012 og lögskýringargögnum hennar ásamt því að fella staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem best að íslensku lagaumhverfi. Starfshópurinn hefur viðað að sér gögnum víðs vegar að, fengið gesti á fund sinn, staðið fyrir samráði við helstu hagsmunaaðila sumarið 2013, farið ítarlega ofan í val á löggjafarleið, undirbúið munnlega skýrslu heilbrigðisráðherra sem rædd var á Alþingi 29. janúar 2014, staðið fyrir fundi norrænna sérfræðinga um staðgöngumæðrun í október 2014, kynnt frumvarpsdrög á fundum með hagsmunaaðilum og velferðarnefnd Alþingis í nóvember 2014 og staðið fyrir formlegu umsagnarferli, að beiðni heilbrigðisráðherra, í lok árs 2014.
    Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ásamt skilabréfi starfshópsins var afhent heilbrigðisráðherra 2. febrúar 2015. Frumvarpið er lagt fram nánast óbreytt frá tillögum starfshópsins en við yfirferð í ráðuneytinu voru gerðar á því minni háttar breytingar.

II. Hvað er staðgöngumæðrun?
    
Í umræðu um staðgöngumæðrun er annars vegar talað um hefðbundna staðgöngumæðrun eða staðgöngumæðrun að hluta og hins vegar fulla staðgöngumæðrun.
    Staðgöngumæðrun að hluta er þegar staðgöngumóðir leggur til eggfrumu og gengur með barn í þeim tilgangi að afhenda það væntanlegu foreldri eða foreldrum. Barnið getur verið getið með samförum, heimasæðingu með fersku eða frosnu sæði eða tæknisæðingu. Sé ekki hægt að nota sæði frá væntanlegum föður er notað gjafasæði. Ábending fyrir notkun gjafasæðis getur til dæmis verið vöntun á sæðisfrumum eða erfðagalli hjá væntanlegum föður, væntanlegir foreldrar eru báðir konur eða væntanlegt foreldri er einhleyp kona.
    Full staðgöngumæðrun er þegar staðgöngumóðirin hefur enga erfðafræðilega tengingu við barnið. Í slíku tilfelli geta báðar kynfrumur komið frá væntanlegum foreldrum. Einnig geta báðar kynfrumur komið frá egg- og sæðisgjöfum vegna vöntunar á kynfrumum beggja væntanlegra foreldra eða vegna alvarlegs erfðagalla þeirra. Loks getur önnur kynfruman komið frá öðru foreldranna og hin kynfruman frá kynfrumugjafa. Í öllum tilvikum fullrar staðgöngumæðrunar er glasafrjóvgun nauðsynleg. 1
    Staðgöngumæðrun sem úrræði fyrir pör sem vilja eignast barn hefur verið þekkt um langan tíma og þá alltaf sem staðgöngumæðrun að hluta. Einnig þekktist áður fyrr að kona gæfi barn sitt til barnlausrar konu eða pars, oft vegna fjölskyldutengsla. Staðgöngumæðrun með tæknifrjóvgun var fyrst framkvæmd í Bandaríkjunum í kringum 1980 og er þróun og útbreiðsla staðgöngumæðrunar á síðari tímum nátengd þróun glasafrjóvgunar.
    Hugtakið staðgöngumæðrun, eins og það er skilgreint í lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, felur í sér að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu, staðgöngumóðurinni, sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og að staðgöngumóðirin hafi fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu þess. Með tæknifrjóvgun er átt við getnað sem verður í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Staðgöngumæðrun, eins og hún er skilgreind í íslenskum lögum, er óheimil. Undir þetta falla öll tilvik fullrar staðgöngumæðrunar ásamt þeim tilvikum staðgöngumæðrunar að hluta þar sem notuð er tæknifrjóvgun. Staðgöngumæðrun að hluta þar sem ekki er notuð tæknifrjóvgun fellur hins vegar utan gildissviðs laganna.

III. Tilefni lagasetningar – þingsályktun um staðgöngumæðrun, nr. 3/140.
    Undanfarin ár hefur staðgöngumæðrun verið til umfjöllunar í íslensku þjóðfélagi. Hinn 28. janúar 2009 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra vinnuhóp til að „skoða siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi.“ Áfangaskýrsla vinnuhópsins lá fyrir 5. febrúar 2010. Þar voru helstu læknisfræðilegu og siðferðilegu álitaefni staðgöngumæðrunar rakin og yfirlit gefið um lagalega stöðu málsins hérlendis og í ýmsum löndum. Hvatt var til frekari umfjöllunar og var áfangaskýrslunni ætlað að vera grundvöllur upplýstrar umræðu um málið.
    Opinn fundur um staðgöngumæðrun var haldinn 26. mars 2010 á vegum heilbrigðisráðuneytisins þar sem áfangaskýrslan var rædd og mismunandi sjónarmið reifuð. Vinnuhópurinn skilaði svohljóðandi áliti og lokaniðurstöðu 7. júní 2010:

    Álit vinnuhópsins:
         Helstu rök fyrir að leyfa staðgöngumæðrun eru þau að hún geti verið farsæl lausn á vanda pars (eða einstaklings) sem á við ófrjósemisvanda að stríða. Helstu rök gegn staðgöngumæðrun eru að hætta sé á að litið sé á staðgöngumóðurina sem hýsil utan um barn (konan „smættuð í æxlunarfæri“). Almenn samstaða virðist vera um að ekki eigi að heimila staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Reynsla annarra þjóða svo sem Breta hefur sýnt að erfitt er að koma í veg fyrir slíkt og þannig skapist möguleiki á að kúga konur til að selja afnot af líkama sínum með nýjum hætti. Misnotkun hinna vel stæðu á þeim sem búa við fátækt. Einnig sé hætta á því að farið verði að líta á börn sem söluvöru.
         Vinnuhópurinn telur að áður en staðgöngumæðrun verði leyfð hér á landi þurfi að ná almennri samfélagslegri sátt um málið og um þann ramma sem settur verði um staðgöngumæðrun. Á þessu stigi sé ekki hægt að segja að slík sátt hafi náðst hvað sem síðar verður.
         Þá bendir vinnuhópurinn á að áður en staðgöngumæðrun verði leyfð þurfi að setja skýran lagaramma. Gæta þurfi jafnræðis varðandi það hverjir fái að nota þjónustuna, tryggja þurfi hagsmuna allra aðila og kveða skýrt á um réttindi þeirra og skyldur. Taka þurfi afstöðu til fjölda atriða, svo sem:
     *      Hvernig velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar verði tryggð.
     *      Hvernig á að afmarka þann hóp sem heimilt verður að eignast barn með staðgöngumæðrun (aðeins konur án legs, allar konur sem stríða við ófrjósemi, einhleypa karla, samkynhneigða karla?).
     *      Á að gera kröfu um að bæði staðgöngumóðir og verðandi foreldrar séu búsett hér á landi?
     *      Hvernig á að koma í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni?
     *      Hvernig á að tryggja réttindi barna, t.d. til að vita uppruna sinn?
     *      Hvað ef staðgöngumóðir eða verðandi foreldrar skipta um skoðun?
     *      Hver á að bera kostnað af staðgöngumæðrun.

     Niðurstaða:
         Með vísan til framangreinds telur vinnuhópurinn ekki tímabært að heimila staðgöngumæðrun að svo stöddu. Undirbúningur löggjafar á þessu sviði og síðar framkvæmd hennar mundi óhjákvæmilega fela í sér talsverðan kostnað. Við þær erfiðu efnahagsaðstæður sem nú ríkja hlýtur að verða að leggja megináherslu á að verja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ef taka eigi upp nýja þjónustu sé það gert að vandlega athuguðu máli og þannig að tryggt sé að hagsmuna allra aðila sé gætt. Vinnuhópurinn hvetur til frekari umræðu um staðgöngumæðrun og leggur áherslu á nauðsyn þess að almenn sátt ríki um málið. Jafnframt telur hópurinn rétt að við fylgjumst með þróun þessara mála annars staðar á Norðurlöndum og að æskilegt sé að við eigum samleið með þeim um hvort, hvenær og með hvaða takmörkunum staðgöngumæðrun verður leyfð hér á landi.

     Í nóvember 2010 lögðu átján þingmenn fram svohljóðandi tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (sjá þskj. 376, 310. mál á 139. löggjafarþingi):

         Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun. Við vinnuna skuli m.a. lögð áhersla á að:
          a.      staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni,
          b.      sett verði ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í því augnamiði að tryggja sem best réttindi, skyldur og hagsmuni staðgöngumæðra og væntanlegra foreldra og réttindi og hag þeirra barna sem hugsanlega verða til með þessu úrræði,
          c.      verðandi staðgöngumæður og verðandi foreldrar verði skyldugir til að gera með sér bindandi samkomulag um staðgöngumæðrun.
         Frumvarpið verði lagt fram eins fljótt og mögulegt er, þó ekki síðar en 31. mars 2011.

     Meiri hluti heilbrigðisnefndar skilaði nefndaráliti þar sem lagt var til að tillagan yrði samþykkt en tillögugreininni breytt á þann veg að staðgöngumæður og væntanlegir foreldrar mundu ekki gera með sér bindandi samkomulag um staðgöngumæðrun. Einnig lagði meiri hlutinn áherslu á að ekki yrði hróflað við þeirri skilgreiningu að sú kona sem fæðir barn teljist móðir þess. Minni hluti heilbrigðisnefndar lagðist gegn samþykkt tillögunnar í nefndaráliti sínu. Umræðu um þingsályktunartillöguna á Alþingi lauk ekki fyrir þinglok og dagaði hún því uppi.
    Í október 2011 stóðu 23 þingmenn að því að leggja fram öðru sinni tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (sjá þskj. 4, 4. mál á 140. löggjafarþingi). Tillagan var nú með breyttu sniði þar sem tekið hafði verið tillit til þeirrar umræðu sem fram fór á 139. löggjafarþingi:

         Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
         Við vinnuna verði m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða lögð til grundvallar.
         Frumvarpið verði lagt fram svo fljótt sem verða má.

    Í greinargerð með tillögunni var áhersla lögð á að ekki skyldi heimila staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og að skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrðu að lögum ströng. Framkvæma ætti ítarlega könnun á aðstæðum væntanlegra foreldra og staðgöngumóður og hæfniskröfur sem gerðar yrðu til þessara aðila þyrftu fyrst og fremst að þjóna hagsmunum barnsins. Einnig kom fram að huga þyrfti vandlega að réttindum, skyldum og hagsmunum staðgöngumóðurinnar og að aðilum máls yrði veittur réttur til fæðingarorlofs. Skoða þyrfti skilyrði fyrir því að staðgöngumóðir og væntanlegir foreldrar væru íslenskir ríkisborgarar eða búsett á Íslandi í tiltekinn lágmarkstíma.
    Meiri hluti velferðarnefndar skilaði nefndaráliti þar sem lagt var til að tillagan yrði samþykkt óbreytt. Í álitinu sagði meðal annars að leggja þyrfti aukna áherslu á hag og réttindi barnsins, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, svo og farsæla aðkomu hinna væntanlegu foreldra. Áfram var rætt um að setja þyrfti ströng skilyrði um staðgöngumæðrun og hún einungis heimiluð í velgjörðarskyni. Eftirfarandi atriði voru einnig dregin fram:
     *      Meiri hlutinn taldi mikilvægt að við frumvarpsvinnuna yrði sett í forgang að tryggja hag barnsins og rétt þess til kærleiksríkra foreldra, verndar, umönnunar og góðra uppeldisskilyrða. Mikilvægt væri að barn ætti skilyrðislausan rétt til að þekkja uppruna sinn.
     *      Lögð var áhersla á að aldrei yrði heimilt að greiðsla kæmi fyrir staðgöngumæðrun. Skoða þyrfti lögfestingu reglna sem fælu í sér að staðgöngumæðrun gegn greiðslu yrði ólögleg og hvort viðurlög skyldu vera við brotum á lögum þar um.
     *      Setja þyrfti skýrar reglur um staðgöngumæðrun hér á landi til að draga úr líkum á því að pör leiti til úrræða erlendis.
     *      Mikilvægt væri að staðgöngumæðrun yrði fundinn staður innan hins opinbera heilbrigðiskerfis svo að kostnaði yrði mætt af kerfinu en ekki kæmu til sérstakar greiðslur væntanlegra foreldra til staðgöngumóður.
     *      Áhersla var lögð á að sett yrði sem skilyrði fyrir væntanlega foreldra að þeir gætu eingöngu nýtt sér staðgöngumæðrun ef konan gæti ekki eignast barn af læknisfræðilegum ástæðum.
     *      Skoða ætti skipun sérstakrar nefndar sem hefði það hlutverk að kanna ítarlega forsendur umsóknar um staðgöngumæðrun, aðstæður parsins og staðgöngumóður og fjölskyldu hennar áður en leyfi fyrir staðgöngumæðrun yrði veitt. Aðgreina þyrfti slíka nefnd frá þeim aðila sem framkvæmdi tæknifrjóvgunina.
     *      Brýnt væri að eftirlit yrði haft með ferlinu og öllum aðilum máls meðan á því stæði.
     *      Mikilvægt væri að hrófla ekki við þeirri grunnskilgreiningu laga að sú kona sem elur barn telst móðir þess.
     *      Áríðandi væri að allar reglur sem settar yrðu um staðgöngumæðrun virtu skilyrðislausan rétt staðgöngumóður til að ráða yfir eigin líkama.
    Í nefndaráliti 1. minni hluta velferðarnefndar var lagst gegn tillögunni og í nefndaráliti 2. minni hluta nefndarinnar var lögð áhersla á að málið yrði unnið frekar áður en ákvörðun yrði tekin um að fela ráðherra smíði frumvarps sem heimilaði staðgöngumæðrun.
    Hinn 18. janúar 2012 var þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun samþykkt óbreytt á Alþingi. Afgreiðsla Alþingis á ályktuninni og þau lögskýringargögn sem fyrir liggja tilgreina markmið með lagasetningu og hafa því verið leiðbeinandi fyrir starfshópinn við gerð þessa frumvarps.

IV. Staða og þróun íslenskrar tæknifrjóvgunarlöggjafar.
    Fyrstu íslensku lögin um tæknifrjóvgun voru sett árið 1996 og tóku þau mið af þeim reglum sem gilt höfðu um framkvæmd tæknisæðingar, sem hófst hér á landi 1980, og glasafrjóvgunar, sem hófst hér á landi 1991. Með lögunum varð heimilt að nota bæði gjafasæði og gjafaegg við tæknifrjóvgun en jafnframt voru tæknisæðing og glasafrjóvgun skilgreind og settar reglur um hvort tveggja. Í lögunum var opnað á að veita barni upplýsingar um kynfrumugjafa hafi hann ekki óskað nafnleyndar.
    Í 1. gr. laganna er sem fyrr segir staðgöngumæðrun skilgreind sem tæknifrjóvgun framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu. Skv. 3. mgr. 6. gr. er staðgöngumæðrun óheimil. Þessi ákvæði hafa haldist óbreytt síðan 1996. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram að byggt væri á þeirri almennu reglu að kona sem fæðir barn telst ætíð móðir þess án tillits til uppruna eggfrumnanna. Í sérstakri umfjöllun um staðgöngumæðrun var eftirfarandi dregið fram í athugasemdum frumvarpsins (þingskjal 184 í 154. máli 120. löggjafarþings):
    
         Með staðgöngumæðrun er átt við þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og láta það af hendi til hennar strax eftir fæðingu. Við staðgöngumæðrun er fósturvísum með kynfrumum parsins sem ætlar að fá barnið að fæðingu lokinni ýmist komið fyrir í staðgöngumóður eða staðgöngumóðirin leggur til eigin eggfrumu en sæðisfrumur koma frá eiginmanni eða sambýlismanni konunnar sem á að fá barnið eftir fæðingu. Margvísleg siðfræðileg álitamál koma upp við staðgöngumæðrun. Aðalálitaefnið er móðerni barnsins, einkum í þeim tilvikum þegar fósturvísum með kynfrumum parsins sem fá á barnið eftir fæðingu er komið fyrir í staðgöngumóðurinni. Í meginreglum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um tæknifrjóvgun er gert ráð fyrir að kona sem fæðir barn skuli ætíð teljast móðir þess, án tillits til uppruna eggfrumnanna. Rétt þykir að leggja til að staðgöngumæðrun verði óheimil.

     Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, er ekki að finna frekari rökstuðning fyrir banni við staðgöngumæðrun.
    Árið 2006 var tæknifrjóvgunarlögum breytt, sbr. lög nr. 65/2006, til að heimila kvenpörum að fara í tæknifrjóvgun með sömu rökum og skilmálum og varða tæknifrjóvgun almennt. Árið 2008 voru aftur gerðar breytingar á tæknifrjóvgunarlögum. Lutu þær annars vegar að nýtingu stofnfrumna til rannsókna og lækninga, sbr. lög nr. 27/2008, og hins vegar að heimild einhleypra kvenna með sömu skilyrðum og pörum til að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð hér á landi, sbr. lög nr. 54/2008. Nafni laganna var þá einnig breytt og hefur síðan verið lög um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, þó að áfram sé vísað til laganna sem tæknifrjóvgunarlaga. Í athugasemdum við breytingalagafrumvarpið 2008 kom fram að nefndin sem undirbjó frumvarpið hefði rætt þann möguleika að heimila staðgöngumæðrun og eftir atvikum gjöf fósturvísa hér á landi. Niðurstaða nefndarinnar hafi hins vegar orðið sú að slíkar breytingar þyrftu að fá vandaða og ítarlega umræðu og umfjöllun í samfélaginu áður en farið yrði fram með tillögur að slíkum breytingum fyrir Alþingi. Taldi nefndin tímabært að sú umræða yrði hafin og var af því tilefni vikið að álitaefnum um staðgöngumæðrun í sérstökum kafla frumvarpsins (þingskjal 992 í 620. máli 135. löggjafarþings):

          Með staðgöngumæðrun er átt við þær aðstæður þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og láta það af hendi til hennar strax eftir fæðingu, sbr. 7. mgr. 1. gr. tæknifrjóvgunarlaga, en skv. 3. mgr. 6. gr. laganna er staðgöngumæðrun alfarið óheimil hér á landi.
         Við staðgöngumæðrun er aðstaðan oftast sú að fósturvísi sem búinn hefur verið til með kynfrumum þeirra sem teljast munu foreldrar barnsins við fæðingu er komið fyrir í legi staðgöngumóður. Ekki er hins vegar útilokað að notaðar séu gjafakynfrumur eða að staðgöngumóðirin sjálf leggi til eigin eggfrumu en sæðisfrumur komi frá eiginmanni eða sambýlismanni konunnar sem á að fá barnið eftir fæðingu. Hjá flestum pörum sem óska eftir staðgöngumæðrun eru aðstæður þær að konan á ekki möguleika á ganga með barn, t.d. vegna meðfædds galla á legi eða að legið hafi verið numið brott vegna fæðingaráverka, krabbameins eða annarra líkamlegra þátta.
         Margvísleg siðfræðileg álitamál koma upp við staðgöngumæðrun en þeir einstaklingar sem taka þarf tillit til í því sambandi eru í fyrsta lagi parið sem eiga að teljast foreldrar barnsins við fæðingu þess. Í öðru lagi er það staðgöngumóðirin og í þriðja lagi barnið sem fæðist.
         Helsta álitaefnið sem vaknar við staðgöngumæðrun er hvernig skilgreina beri móðerni barnsins. Samkvæmt núgildandi reglum telst kona sem fæðir barn sjálfkrafa móðir þess og skiptir þá ekki máli þótt gjafaeggfruma hafi verið notuð. Ef staðgöngumæðrun yrði leyfð þyrfti að víkja frá þeirri reglu, en reynslan annars staðar sýnir að kona sem gengur með barn myndar tengsl við það jafnvel þótt það sé líffræðilega óskylt henni. Hefur þetta í einhverjum tilvikum skapað erfiðar og [flóknar] aðstæður.
         Staðgöngumæðrun fylgir mikið álag fyrir þá konu sem tekur slíkt hlutverk að sér og er ólíklegt að margar konur séu tilbúnar til að lána líkama sinn með þeim hætti. Hvað gjafaegg varðar þá hefur reynslan sýnt að algengast er að ættingjar gefi eggfrumu, t.d. systir viðkomandi konu. Ekki er ólíklegt að þetta yrði eins í sambandi við staðgöngumæðrun. Þarf að gæta að því að slíkur þrýstingur, bæði beinn og óbeinn, á nákomin ættingja skaði ekki samband fólks.
         Ef staðgöngumæðrun yrði leyfð þyrfti að gæta vel að hagsmunum barnsins. Rétt eins og með barn sem getið er með gjafaeggfrumu verður að hafa í huga að barnið á í tilteknum skilningi tvær mæður sem eru jafnvel innan sömu fjölskyldu og verður að veita foreldrum ráðgjöf um hvernig hægt er að ræða þau mál við barnið á þann hátt að það geti skilið það og sætt sig við það. Hafa flestar rannsóknir reyndar sýnt fram á að tengsl milli barna sem staðgöngumæður hafa borið og fætt og foreldra þeirra eru að jafnaði yfir meðallagi góð.

    Árið 2010 var tæknifrjóvgunarlögum breytt í tvígang. Annars vegar var gerð sú breyting að einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi varð heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun, sbr. lög nr. 55/2010. Sama gildir um pör þar sem frjósemi beggja maka er skert. Hins vegar var lögunum breytt í tengslum við niðurfellingu laga u staðfesta samvist og frumvarps um ein hjúskaparlög fyrir alla, sbr. lög nr. 65/2010.
    Við setningu nýrra barnalaga, nr. 76/2003, voru tekin upp ný ákvæði um faðerni og móðerni við tæknifrjóvgun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er tekið fram að efni laga um tæknifrjóvgun og ákvæði barnalaga skarist að nokkru en í lögunum um tæknifrjóvgun sé þó fyrst og fremst kveðið á um hvar, hvenær og hvernig tæknifrjóvgun megi fara fram. Eðlilegt þótti að ákvæðum sem vörðuðu móðerni og faðerni barns sem getið er við tæknifrjóvgun væri skipað í barnalögum. Í eldri barnalögum var að finna ákvæði um faðerni barns sem getið er við tæknifrjóvgun en í nýju lögunum var ákvæðið gert fyllra, auk þess sem lögfest var ákvæði um móðerni barns. Hin nýju ákvæði voru að danskri fyrirmynd og þótt ætla mætti að ekki reyndi oft á ákvæði af þessum toga þótti engu síður rétt að lögfesta þau til að taka af öll tvímæli í þessum efnum.
    Breytingum á tæknifrjóvgunarlögum hafa iðulega fylgt frekari breytingar á barnalögum. Þannig var barnalögum breytt árið 2006, sbr. lög nr. 65/2006, vegna réttar kvenpara til tæknifrjóvgunarmeðferða og árið 2008, sbr. lög nr. 54/2008, á þann veg að ekki þurfi að feðra barn sem getið er við tæknifrjóvgun þegar um einhleypa konu er að ræða. Þessari aðferð er enn á ný fylgt í fyrirliggjandi frumvarpi þar sem ný heildarlög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni kalla á allnokkrar breytingar á barnalögum.

V. Val á löggjafarleið.
    Starfshópur um staðgöngumæðrun ræddi ítarlega með hvaða hætti staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni félli best að íslenskum lögum. Í fyrstu voru annars vegar uppi hugmyndir um að staðgöngumæðrun yrði sett fram sem sérstök tegund af ættleiðingu og hins vegar að staðgöngumæðrun yrði komið fyrir í löggjöf með öðrum tæknifrjóvgunarúrræðum ásamt tilheyrandi breytingum á barnalögum.
    Eðlismunur er á þessum tveimur úrræðum við fjölskyldustofnun. Á ættleiðingu reynir fyrst og fremst þegar kona sem þegar er þunguð, eða foreldrar barns sem þegar er fætt, treysta sér ekki til þess að ala upp barnið og ákveða að gefa það til ættleiðingar. Áður en til úrræðis eins og ættleiðingar er gripið er reynt eftir fremsta megni að styðja foreldrana til að ala upp barn sitt og gefa það ekki frá sér. Ættleiðing og fjölskylduskiptin sem í henni felast stefna að því marki að búa barni sem þegar er fætt vandað og traust uppeldisumhverfi sem það hefði að jafnaði ekki átt kost á að njóta ella. Það er því barnið sem er í forgrunni þessa úrræðis sem hefur það að leiðarljósi að gera skuli það sem barni er fyrir bestu. Ættleiðing er því ekki úrræði við ófrjósemi enda er ekki gerð krafa um að væntanlegum kjörforeldrum sé ókleift að eignast barn án aðstoðar. Tæknifrjóvgun er í eðli sínu annars konar úrræði við stofnun fjölskyldu en ættleiðing. Hér er ákvörðun tekin fyrir fram um að bj óða upp á úrræði innan heilbrigðiskerfisins til að ráða bót á ófrjósemi. Framförum á sviði læknavísinda hafa fylgt miklar framfarir á sviði tæknifrjóvgunarmeðferða og er tilgangurinn einkum sá að hjálpa einstaklingum eða pörum að eignast barn.
    Í upphafi þótti starfshópnum fýsilegt að koma lagaákvæðum um staðgöngumæðrun fyrir í þeim lagaramma sem þegar er til staðar. Kostir þess að tengja staðgöngumæðrun við lög um ættleiðingar þóttu nokkrir. Ættleiðing er þekkt úrræði sem leiðir til þess að barn slítur tengsl við foreldra sína og stofnar til nýrra lagalegra tengsla. Með því að mæla fyrir um sérstaka ættleiðingu barns væri einnig hægt um vik að uppfylla markmið Alþingis um að virða rétt og sjálfræði staðgöngumóður þar sem ættleiðing, sem sifjaréttarlegt úrræði, fer ávallt fram eftir fæðingu barns (svokölluð ex-poste yfirfærsla).
    Ættleiðingarleiðin þótti þó við nánari skoðun óheppileg. Grundvallarmunur er á eðli ættleiðinga og staðgöngumæðrunar. Þetta sést best þegar borið er saman annars vegar það undirstöðumarkmið ættleiðingalaga að styðja foreldra til að ala upp barnið sitt og gefa það ekki frá sér og hins vegar það markmið staðgöngumæðrunar að barnið verði látið af hendi. Þá er ljóst að þau börn sem ættleidd eru hér á landi koma oftast frá öðrum löndum. Í lögum um ættleiðingar er einungis gert ráð fyrir mati á hæfi væntanlegra kjörforeldra á fyrstu stigum ferils, eða svokölluðu forsamþykki, þegar um er að ræða ættleiðingar barns milli landa. Þá er Ísland aðili að alþjóðasamningi Haag-stofnunarinnar frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa. Í þessum samningi er áréttað að gera beri ráðstafanir til að börn geti fyrst og fremst notið umsjár upprunalegrar fjölskyldu sinnar. Þá er lögð áhersla á ýmsar öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir mansal eða sölu á börnum, m.a. um bann við beinum og milliliðalausum samskiptum milli upprunaforeldra og væntanlegra kjörforeldra. Á erlendum vettvangi hefur síðustu árin verið reynt að standa vörð um Haag-samninginn um ættleiðingar og koma í veg fyrir að honum verði beitt með einum eða öðrum hætti um staðgöngumæðrun. Í ljósi þess þykir óæskilegt að fjalla um ættleiðingar og staðgöngumæðrun í sömu lögum í innlendum rétti. Að lokum má nefna að þar sem hugmyndir hafa verið uppi um að endurskoða löggjöf um ættleiðingar í kjölfar skýrslu um endurmat á skipan ættleiðingarmála hér á landi var ekki talið heppilegt að koma fyrir viðamiklum lagabreytingum um staðgöngumæðrun í gildandi ættleiðingalög. 2
    Starfshópurinn skoðaði einnig þann kost að frumvarp þetta yrði í formi breytingalaga þar sem lögum um tæknifrjóvgun og barnalögum yrði breytt. Þessi leið er að mörgu leyti eðlileg þar sem gert er ráð fyrir að tæknifrjóvgun fari fram við framkvæmd staðgöngumæðrunar og leitast við að nota kynfrumur væntanlegra foreldra. Við nánari skoðun og vinnu þótti það þó óheppileg leið að breyta lögum um tæknifrjóvgun, fyrst og fremst vegna þeirrar sérstöðu sem staðgöngumæðrun hefur sem úrræði við fjölskyldustofnun, þótt vissulega megi færa rök fyrir því að hún sé ein tegund tæknifrjóvgunarmeðferða. Ferill mála við staðgöngumæðrun er talsvert annar en þegar verðandi foreldrar óska tæknifrjóvgunarmeðferðar. Nauðsynlegt er að gera kröfur bæði til staðgöngumóður og maka hennar og til verðandi foreldra og tryggja málsmeðferð stjórnvalda áður en meðferð fer fram. Hér skiptir einnig máli að lög nr. 55/ 1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, eru komin nokkuð til ára sinna og þarfnast endurskoðunar. Var því, líkt og með ættleiðingalagaleiðina, talið óheppilegt að koma fyrir viðamiklum lagaákvæðum um staðgöngumæðrun í gildandi tæknifrjóvgunarlög.
    Niðurstaða starfshópsins varð því sú að semja frumvarp til heildarlaga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ásamt tillögum að nauðsynlegum breytingum á barnalögum og öðrum lögum þar sem breytinga er þörf vegna lögleiðingar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.
    Við smíði frumvarpsins hefur um margt verið höfð hliðsjón af lögum um ættleiðingar og tilheyrandi reglugerðum, t.d. hvað varðar skilyrði sem staðgöngumóðir, maki hennar eftir atvikum, og væntanlegir foreldrar þurfa að uppfylla, hvaða gögn eigi að fylgja með umsókn um staðgöngumæðrun og um mat nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Sömuleiðis hafa tiltekin ákvæði tæknifrjóvgunarlaganna verið nýtt við gerð frumvarpsins, t.d. varðandi skilyrði sem aðilar þurfa að uppfylla en einnig er vísað beint til skilgreininga tæknifrjóvgunarlaga til viðbótar við skilgreiningar á hugtökum í fyrirliggjandi frumvarpi.
    Með vísan til framangreinds má því segja að við smíði frumvarpsins hafi verið fylgt því sjónarmiði að staðgöngumæðrun sé hvorki sérstakt tilvik ættleiðingar né eingöngu útfærsla á tæknifrjóvgun. Í frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er því farin ný leið við stofnun fjölskyldu, nokkurs konar millileið milli þeirra tveggja leiða sem hingað til hafa ráðið ferðinni þegar ófrjósemi er til staðar, tæknifrjóvgunar og ættleiðingar.

VI. Markmið og meginefni frumvarpsins.
    Markmiðsákvæði frumvarpsins endurspeglar þingsályktun um staðgöngumæðrun frá 2012 þar sem markmiðið er að stuðla að vandaðri framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Samkvæmt þingsályktuninni skal fyrst og fremst tryggja hag barnsins sem fæðist, því næst sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar og að lokum farsæla aðkomu hinna væntanlegu foreldra. Ákvæði 4. gr., um að ekki mega veita leyfi til staðgöngumæðrunar nema aðstæður allra aðila séu góðar og að ætla megi að barnið sem til verður muni búa við þroskavænleg uppeldisskilyrði, og ákvæði 5. gr., um sjálfræði og hagsmuni staðgöngumóður, er meðal annars ætlað að tryggja að þessu markmiði laganna verði framfylgt.
    Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skiptist í eftirtalda átta kafla: Almenn ákvæði, skilyrði staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, meðferð og úrlausn mála um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, fæðing barns og yfirfærsla á foreldrastöðu, réttur barns til að þekkja uppruna sinn, bannákvæði og refsingar, ýmis ákvæði og loks breytingar á öðrum lögum.
    Meginatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til ný skilgreining staðgöngumæðrunar, svohljóðandi: Staðgöngumæðrun er þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á staðgöngumóður sem hefur fallist á að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra enda hyggist staðgöngumóðirin afhenda barnið væntanlegum foreldrum eftir fæðingu þess og þau skuldbundið sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga.
     2.      Sérstök nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er sett á fót. Hlutverk hennar er að veita leyfi til staðgöngumæðrunar og sjá til þess að þeir sem sækja um staðgöngumæðrun eigi aðgang að faglegri ráðgjöf sérfræðinga. Nefndin hefur einnig það hlutverk að úrskurða um foreldrastöðu barna sem fæðast í samræmi við erlenda löggjöf um staðgöngumæðrun.
     3.      Sett eru skilyrði sem staðgöngumóðir þarf að uppfylla. Þau eru að staðgöngumóðir sé lögráða, eigi lögheimili og hafi haft samfellda, löglega, fimm ára dvöl á Íslandi og hafi búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar. Þá hafi hún, og maki hennar ef við á, veitt samþykki sitt, hún sé á aldrinum 25–39 ára, hafi andlega og líkamlega burði og fullnægjandi heilsu til að takast á hendur staðgöngumæðrun, eigi að baki eðlilega meðgöngu og fæðingu eins barns og liðin séu að lágmarki tvö ár frá fæðingu þess. Hafi staðgöngumóðir eða maki hennar misst barn skulu hafa liðið að lágmarki tvö ár frá andláti barnsins. Staðgöngumóðir eða maki hennar mega ekki vera systir eða bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu.
     4.      Gert er ráð fyrir að væntanlegir foreldrar séu hjón eða einstaklingar í sambúð með að minnsta kosti þriggja ára sambúð að baki. Önnur skilyrði sem væntanlegir foreldrar þurfa að uppfylla eru lögheimili og samfelld, lögleg, fimm ára dvöl á Íslandi. Að auki er gerð krafa um búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar. Þá er gerð krafa um samþykki og skuldbindingu um að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu, lögræði og að vera á aldrinum 25–45 ára, eiga ekki barn undir tveggja ára aldri og að geta ekki af læknisfræðilegum ástæðum tekist á við það álag sem fylgir meðgöngu og fæðingu barns eða líffræðilegar ástæður útiloka meðgöngu.
     5.      Einhleypir geta fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ef sérstaklega stendur á og ótvírætt þykir að hagsmunir barns verði tryggðir og læknisfræðilegar eða líffræðilegar ástæður útiloka meðgöngu.
     6.      Óheimilt verður að nota kynfrumur staðgöngumóður og tiltekinna ættmenna aðila og skylt verður að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra.
     7.      Gengið er út frá að framgangur mála um staðgöngumæðrun verði eftirfarandi:
              a.      Væntanlegir foreldrar og staðgöngumóðir og maki hennar eftir atvikum leggja inn umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni til nefndar um staðgöngumæðrun skv. 6. gr. ásamt viðeigandi gögnum (almennar upplýsingar um umsækjendur, heilsufar, fjölskylduaðstæður, húsnæðisstöðu, fjárhagsstöðu, aðbúnað og getu til að veita barni þroskavænleg uppeldisskilyrði, vottorð um búsetu auk hjúskapar- og sambúðarvottorðs og samþykki fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá og frá barnaverndarnefnd).
              b.      Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni aflar umsagnar um tiltekin atriði frá heilbrigðisstofnun sem fengið hefur leyfi ráðherra til að framkvæma tæknifrjóvgun.
              c.      Ef framangreint leiðir ekki til þess að umsókn er þegar hafnað, fá umsækjendur ráðgjöf og ítarlegar upplýsingar um þau læknisfræðilegu, lögfræðilegu, siðferðilegu, félagslegu og önnur áhrif sem staðgöngumæðrun kann að hafa. Ráðgjöf skal veitt áður en leyfi til staðgöngumæðrunar er gefið út, á meðan á tæknifrjóvgunarmeðferð og meðgöngu staðgöngumóður stendur og eftir fæðingu barnsins.
              d.      Mat á vegum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á högum og aðstæðum umsækjenda, sbr. 4. gr., fer fram.
              e.      Gengið er frá skriflegu og vottuðu samþykki allra aðila til staðgöngumæðrunar.
              f.      Að fenginni ráðgjöf og áður en leyfi til staðgöngumæðrunar er veitt ganga umsækjendur frá gagnkvæmri viljayfirlýsingu um samskipti á meðgöngu, endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, viðveru væntanlegra foreldra við fæðingu barns, tilhögun afhendingar barns eftir fæðingu, umsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu, samskipti eftir afhendingu barns eftir atvikum og annað er máli skiptir.
              g.      Væntanlegum foreldrum er heimilt að endurgreiða útlagðan kostnað staðgöngumóður sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barnsins, svo sem vegna nauðsynlegra lyfja, heilbrigðisþjónustu, ferðakostnaðar, fatnaðar, líkamsræktar eða stuðningsbúnaðar.
              h.      Nefnd um staðgöngumæðrun skv. 6. gr. veitir leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni eða synjar um leyfi. Synjun nefndar er kæranleg til ráðherra.
              i.      Glasafrjóvgun fer fram á heilbrigðisstofnun. Staðgöngumóðir gengur með og fæðir barnið. Staðgöngumóðir telst móðir þess barns sem hún elur samkvæmt ákvæðum barnalaga og maki hennar, sé hann til staðar, telst faðir eða foreldri barnsins.
              j.      Barnið fer í umsjá væntanlegra foreldra á þeim tíma sem aðilar hafa sammælst um, annaðhvort strax eftir fæðingu eða fljótlega eftir hana. Staðgöngumóðir og eftir atvikum maki hennar, sem foreldrar barnsins, fara með forsjá þess fram að yfirfærslu á foreldrastöðu nema um annað verði sérstaklega samið samkvæmt ákvæðum barnalaga.
              k.      Yfirfærsla á foreldrastöðu barns fer fram hjá sýslumanni eða dómstólum í fyrsta lagi tveimur mánuðum eftir fæðingu barns. Ef fallist er á yfirfærslu á foreldrastöðu barns öðlast það frá fæðingu sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum og ættmennum þeirra eins og það væri þeirra eigið barn. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barns við staðgöngumóður og maka hennar.
     8.      Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á barnalögum þar sem fjallað er um yfirfærslu á foreldrastöðu barns. Reynt er að taka á ólíkum aðstæðum sem upp geta komið, t.d. vegna andláts eða skilnaðar væntanlegra foreldra eða staðgöngumóður og maka hennar. Gert er ráð fyrir að vafatilvik og tilvik þar sem aðilar neita að samþykkja yfirfærslu verði leyst fyrir dómstólum samkvæmt nýjum kafla III A í barnalögum um dómsmál vegna yfirfærslu á foreldrastöðu í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Ber dómara að leggja til grundvallar þá niðurstöðu sem talin er barni fyrir bestu.
     9.      Barni er tryggður réttur til að vita um uppruna sinn í kjölfar staðgöngumæðrunar og er sú skylda lögð á foreldra að upplýsa barnið eigi síðar en það verður sex ára um að það sé fætt af staðgöngumóður. Barn getur þegar það nær 16 ára aldri óskað eftir aðgangi að upplýsingum um framkvæmd staðgöngumæðrunar, m.a. hvaðan kynfrumur koma og upplýsingar um kynfrumugjafa, hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun.
     10.      Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tæknifrjóvgunarlögum þar sem gert er ráð fyrir að afnema með öllu nafnleynd kynfrumugjafa. Þykir tímabært að leggja til þessar breytingar sem eru í samræmi við 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013, og tryggir börnum rétt til að þekkja uppruna sinn. Í þessu sambandi má geta þess að nafnleynd kynfrumugjafa er ekki heimil í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi en í Danmörku er heimilt að velja á milli þekkts eða óþekkts kynfrumugjafa.
     11.      Frumvarpið bannar staðgöngumæðrun sem fer í bága við markmið og skilyrði laganna og þar með staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Væntanlegum foreldrum verður þó eins og áður sagði heimilt að endurgreiða staðgöngumóður útlagðan kostnað sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu eða fæðingu barnsins.
     12.      Í frumvarpinu er lagt til að auglýsingar um staðgöngumæðrun verði óheimilar sem og öll milliganga um staðgöngumæðrun.
     13.      Í frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að leita eftir eða gera ráðstafanir til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laganna. Þar sem í frumvarpinu er lagt til að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er líklegt að erlendir dómar og ákvarðanir um yfirfærslu á foreldrastöðu í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni muni ekki þykja stangast á við allsherjarreglu og verði því viðurkenndir hér á landi.
     14.      Innheimt verður gjald úr hendi væntanlegra foreldra vegna ráðgjafar sem er veitt í tengslum við staðgöngumæðrun skv. 13. gr. og framkvæmd mats skv. 18. gr. á högum og aðstæðum umsækjenda um leyfi til staðgöngumæðrunar.
     15.      Gert er ráð fyrir að reynsla af framkvæmd laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, verði þau samþykkt á Alþingi, verði metin eftir fimm ár og skýrsla lögð fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2021. Gefi skýrslan tilefni til endurskoðunar laganna skal það gert.
     16.      Aðrar lagabreytingar sem frumvarpið felur í sér eru: a) breytingar á skilgreiningu í tæknifrjóvgunarlögum; b) breytingar á fæðingar- og foreldraorlofslögum til að tryggja staðgöngumóður, maka hennar og væntanlegum foreldrum fæðingarorlof; c) breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu vegna yfirfærslu á foreldrastöðu; d) breytingar á lögum um mannanöfn vegna nafnbreytinga; e) breytingar á erfðalögum vegna erfðaréttar og f) breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt vegna ríkisfangs barnsins.

VII. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Markmið frumvarpsins tekur skýrt mið af 3. og 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem áhersla er lögð á að hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi og að tryggja rétt barns til lífs og þroska. Er þetta einnig í samræmi við 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 97/1995, um að börnum skuli í lögum tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Einnig er tryggður réttur barns til að þekkja uppruna sinn skv. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Í tengslum við umræðu um staðgöngumæðrun hefur því oft verið velt upp hvort fólk eigi afdráttarlausan rétt á því að eignast barn. Við setningu tæknifrjóvgunarlaga var því slegið föstu að einstaklingar ættu ekki rétt á tæknifrjóvgun og þar af leiðandi ekki skilyrðislausan rétt á því að fá þessa aðstoð til að eignast barn. Við útfærslu á þeirri aðstoð sem ákveðið var að veita yrði réttur fullorðinna að víkja fyrir hagsmunum sem vörðuðu uppeldisaðstæður barns, svo og margvíslegum þjóðfélagslegum hagsmunum eins og þeim að koma í veg fyrir að kynfrumur yrðu nýttar í hagnaðarskyni eða tæknifrjóvgun beitt til að ná fram tilteknum eiginleikum hjá barni. Enn sem komið er hafa hvorki íslenskir dómstólar né alþjóðadómstólar slegið því föstu að einstaklingar eigi óskoraðan rétt á að fá aðstoð til þess að eignast barn.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið til umfjöllunar álitaefni á sviði tæknifrjóvgunarmeðferða. Í máli S.H. o.fl. gegn Austurríki háttaði þannig til að kærendum var neitað um glasafrjóvgun með gjafakynfrumum þar sem austurrísk lög bönnuðu glasafrjóvgun með gjafakynfrumum. Kærendur töldu brotið á rétti þeirra til friðhelgi fjölskyldu skv. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og banni við mismunun, sbr. 14. gr. sáttmálans. Undirdeild dómstólsins komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu með því að banna að kærendur fengju glasafrjóvgun með gjafakynfrumum. Austurríska ríkið skaut málinu þá til yfirdeildar dómstólsins. Yfirdeild Mannréttindadómstólsins tók fram í dómi sínum að greina mætti skýra þróun í þá átt hjá aðildarríkjum Evrópuráðsins að leyfa glasafrjóvganir með gjafakynfrumum en sú þróun takmarkaði ekki hið víða svigrúm sem ríki hefðu til mats um það atriði. Dómstóllinn taldi ekki hægt að líta framhjá því að glasafrjóvganir með gjafakynfrumum væru almennt mjög umdeildar í austurrísku samfélagi og að sú staða að barn ætti tvær líffræðilegar mæður væri afar sérstök. Í dómnum var lögð áhersla á að sum úrræði væru heimil, eins og til dæmis tæknisæðing með gjafasæði og auk þess væri austurrískum ríkisborgurum heimilt að ferðast til annarra landa og fá þar glasafrjóvgun með gjafakynfrumum. Þótti þetta benda til þess að löggjafinn hefði nálgast viðfangsefnið af varfærni gagnvart þeim andstæðu sjónarmiðum sem vægjust á í málinu. Taldi dómstóllinn að austurríska ríkið hefði ekki farið út fyrir það svigrúm sem það hefði til mats. Niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu var því sú að ekki hefði verið brotið gegn réttindum kærenda skv. 8. gr. sáttmálans. 3 Í ljósi dómsins verður að telja að aðildarríki mannréttindasáttmála Evrópu hafi vítt svigrúm til mats við val á því hvernig löggjöf um tæknifrjóvgun er háttað, hvaða tæknifrjóvgunarmeðferðir eru heimilaðar eða hvaða opinbera aðstoð er veitt til að koma til móts við þá sem óska þess að eignast barn.
    Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um áðurnefnda tillögu til þingsályktunar frá 2012 kemur fram að mikilvægt sé að sett verði sem skilyrði fyrir væntanlega foreldra að þeir geti eingöngu nýtt sér staðgöngumæðrun ef konan geti ekki eignast barn af læknisfræðilegum ástæðum (þingskjal 551 í 4. máli 140. löggjafarþings). Þessi leiðsögn meiri hluta velferðarnefndar gefur sérstakt tilefni til að skoða rétt einhleypra karlmanna og karlpara til staðgöngumæðrunar í ljósi jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
    Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er að finna hina almennu jafnræðisreglu og kveður 1. mgr. ákvæðisins á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Eins og áður sagði þá hefur ekki verið talið að einstaklingar eigi óskoraðan rétt til þess að eignast barn eða að ríki beri skylda til að veita einstaklingum hverja þá aðstoð sem telja mætti í boði í þessu skyni. Þá þykja úrræði eins og ættleiðingar, tæknifrjóvgun og staðgöngumæðrun ekki sambærileg með þeim hætti að það mundi teljast brot á jafnræðisreglu að lögfesta eitt þeirra en ekki annað. Það að veita til dæmis einhleypum konum og kvenpörum í skráðri sambúð eða hjónabandi rétt til tæknifrjóvgunar þykir því ekki eitt og sér gera þá kröfu til löggjafans að lögfesta ákvæði um staðgöngumæðrun sem úrræði fyrir karlmenn. Ef hins vegar er tekin ákvörðun um að lögleiða staðgöngumæðrun sem aðstoð við þá sem óska þess að eignast barn verður að gæta þess að málefnalegar ástæður búi að baki þeim skilyrðum sem sett verða fyrir því að njóta þessa úrræðis. Erfitt er að sjá að nokkur rök standi til þess að gera greinarmun á annars vegar læknisfræðilegum og hins vegar líffræðilegum ástæðum þess að einstaklingar geta ekki sjálfir gengið með og fætt barn. Í frumvarpinu eru gerðar ríkar kröfur til þess að væntanlegir foreldrar geti mætt þörfum barns sem verður til með staðgöngumæðrun. Ljóst er að samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum skuldbindingum er almennt óheimilt að gera greinarmun á foreldrahæfni eftir kynferði eða kynhneigð og hefur löggjafinn hér á landi lagt sérstaka áherslu á að jafna réttarstöðu einstaklinga með tilliti til þessa. Með framangreint í huga er því lagt til í frumvarpinu að þegar skilyrði eru uppfyllt að öðru leyti þá standi staðgöngumæðrun karlmönnum til boða án tillits til kynhneigðar og sambúðarstöðu.
    Engir alþjóðlegir samningar um staðgöngumæðrun hafa verið gerðir. Staðgöngumæðrun hefur þó verið til sérstakrar umfjöllunar hjá Haag-stofnuninni um alþjóðlegan einkamálarétt. Í tveimur bráðabirgðaskýrslum stofnunarinnar frá 2011 og 2012 er rætt um þann möguleika að skoða gerð Haag-samnings um tilhögun staðgöngumæðrunar milli ríkja. 4
    Árið 2013 gaf Evrópuþingið út skýrslu um staðgöngumæðrun að beiðni þingnefndar um lagaleg málefni. Skýrslan, sem nefnist A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, er í raun þverfagleg athugun á staðgöngumæðrun í Evrópusambandsríkjunum. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að ómögulegt sé að greina eina tiltekna stefnu í lagaumhverfi aðildarríkja um staðgöngumæðrun. Í niðurstöðunum segir einnig að skoða verði staðgöngumæðrun í hnattrænu samhengi og er gefið í skyn að fýsilegra sé að leita alþjóðlegra lausna, t.d. með nýjum alþjóðlegum samningi, heldur en að leysa vandamál staðgöngumæðrunar yfir landamæri í svæðisbundnu ríkjasambandi eins og Evrópusambandinu.

VIII. Umfjöllun um erlenda löggjöf.
Norðurlöndin.
Almennt.
    Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er óheimil í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Á Norðurlöndum er einnig óheimilt að framkvæma tæknifrjóvgun, samkvæmt ákvæðum þeirra laga sem um hana gilda, þegar konan sem fæðir barnið (staðgöngumóðir) gengur með það fyrir aðra og hyggst afhenda það eftir fæðingu. Þessi takmörkun var leidd í lög viðkomandi landa í Noregi 1987, í Svíþjóð 1988, í Danmörku 1997 og í Finnlandi 2007. Óhætt er að segja að rökin fyrir þessu banni eru sambærileg við þau sem komið hafa fram hér á landi. Töluverð umræða hefur farið fram um staðgöngumæðrun í þessum löndum og í Svíþjóð er nefnd að störfum um úrræði vegna barnleysis. Á öllum Norðurlöndum gildir sú regla að kona sem fæðir barn telst móðir þess, þ.e. mater est reglan, en hún er þó ekki lögfest í Finnlandi.

Danmörk.
    Samkvæmt 13. gr. dönsku tæknifrjóvgunarlaganna er bannað að veita tæknifrjóvgun í aðstæðum þar sem talið er að samningur um staðgöngumæðrun liggi að baki. Í 31. gr. dönsku barnalaganna er sá samningur ólöglegur sem mælir fyrir um að kona sem fæðir barn skuli afhenda það öðrum eftir fæðingu þess. Skv. 33. gr. dönsku ættleiðingalaganna er óheimilt að hafa milligöngu um eða auglýsa í þeim tilgangi að koma á sambandi konu og aðila sem vill að konan ali barn fyrir sig.
    Siðfræðiráð Danmerkur (Det Etiske Råd) er 17 manna ráð sem var stofnað 1987 til að vera ráðgefandi fyrir þingið og stjórnvöld um lífsiðfræðileg málefni. Ráðið hefur ályktað í tvígang um staðgöngumæðrun. Í tilmælum sínum frá 2008 mælti siðfræðiráðið með því að halda banni við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni óbreyttu og sömuleiðis banni við því að auglýsa eftir staðgöngumóður. Ekki ætti að vera hægt að knýja á um efndir samninga um afhendingu barna eftir fæðingu og yfirfærsla á foreldrastöðu barna og ættleiðing og stjúpættleiðing skyldu eingöngu samþykkt væri það barni fyrir bestu.
    Árið 2013 tók siðfræðiráðið alþjóðleg viðskipti með eggfrumur, staðgöngumæðrun og líffæri sérstaklega til skoðunar. Allir meðlimir ráðsins töldu í áliti frá 2014 staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni vera siðferðilegt álitamál en meiri hlutinn var þeirrar skoðunar að staðgöngumæðrun sem slík skyldi ekki afdráttarlaust bönnuð. Naumur meiri hluti siðfræðiráðsins mælti með því að löggjafinn kannaði möguleika á því að auðvelda aðgengi að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að aðstoða barnlaus pör. Í þeim tilvikum ætti ekki að heimila greiðslur milli aðila, tryggja ætti staðgöngumóðurinni rétt til að halda barninu eftir fæðingu og banna ætti milligöngu eingöngu ef peningar skiptu um hendur. Í séráliti eins ráðsmanns kom fram að gera ætti meira til að aðstoða barnlaus pör og væri hægt að nota staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni, með tilteknum skilyrðum, sem neyðarúrræði vegna þess. Í séráliti tveggja ráðsmanna sagði að leyfa ætti tímabundið, og sem neyðarúrræði, staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni ef aðstæður staðgöngumóður væru ásættanlegar.
    Talið er að nokkur fjöldi danskra para hafi leitað til útlanda eftir staðgöngumæðrun. Svo virðist sem tilviljanakennt sé hvernig gangi að skrá þau börn sem koma með foreldrum frá útlöndum.

Finnland.
    Finnsku tæknifrjóvgunarlögin leggja bann við tæknifrjóvgun ef ástæða er til að ætla að barnið sem verður til verði ættleitt. Þetta þýðir að staðgöngumæðrun framkvæmd með tæknifrjóvgun er bönnuð, einnig staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Að auki má benda á að finnsku ættleiðingalögin banna ættleiðingu hafi verið greitt fyrir hana eða gefið loforð um greiðslu.
    Áður en gildandi tæknifrjóvgunarlög voru sett árið 2007 var tómarúm í finnskri löggjöf sem leyfði tæknifrjóvgunarstofum að framkvæma staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Staðgöngumæðurnar voru að jafnaði ættingjar væntanlegra foreldra, vinir eða sjálfboðaliðar. Á árunum 1991–2006 var gengið frá um það bil tuttugu viljayfirlýsingum um staðgöngumæðrun. Þær leiddu til ellefu þungana og tíu fæðinga (níu einbirni, einir tvíburar og eitt fósturlát). Í einu tilfelli var deilt um móðerni og í einu tilfelli var deilt um faðerni barns meðan á meðgöngu stóð. Fjögur paranna komu frá öðrum Norðurlöndum (Svíþjóð, Noregi og Danmörku).
    Í Svíþjóð var höfðað dómsmál vegna staðgöngumæðrunar sem átti sér stað í Finnlandi á þessum tíma. Málavextir voru þeir að par fór í staðgöngumæðrunarmeðferð þar sem systir væntanlegs föður gerðist staðgöngumóðir parsins. Kynfrumur beggja væntanlegra foreldra voru notaðar við glasafrjóvgunina. Samkvæmt sænskum rétti var væntanlegur faðir talinn faðir barnsins en væntanleg móðir þurfti að fara í gegnum ættleiðingarferli til að teljast móðir barnsins. Samkvæmt sænsku ættleiðingalögunum þurfa báðir foreldrar að samþykkja ættleiðingu, fyrir utan sérstök undanþágutilvik sem áttu ekki við í málinu. Í dómi héraðsdóms var ættleiðing barnsins heimiluð. Síðar gerðist það að væntanlegu foreldrarnir skildu og faðirinn áfrýjaði málinu þar sem hann afturkallaði samþykki sitt fyrir ættleiðingu barnsins. Staðgöngumóðirin afturkallaði einnig samþykki sitt. Málið fór fyrir Hæstarétt Svíþjóðar sem komst að þeirri niðurstöðu að ættleiðingin gæti ekki farið fram þar sem foreldrar barnsins hefðu ekki samþykkt ættleiðinguna. Það væri grundvallaratriði sem ekki væri hægt að víkja frá og að auki í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Niðurstaða málsins leiddi því til þess að skráðir foreldrar barnsins eru systkini.
    Í áliti finnsku ráðgjafanefndarinnar um siðfræði velferðar- og heilbrigðisþjónustu frá 2011 var komist að þeirri niðurstöðu að staðgöngumæðrun gæti verið siðferðilega ásættanleg í afmörkuðum tilfellum. Eftir víðtækt umsagnarferli um þrjá mögulega kosti (viðhalda banni við staðgöngumæðrun, leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í afmörkuðum tilfellum eða heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni án takmarkana) ákvað dómsmálaráðherra árið 2013 að ekki yrðu lagðar til breytingar á tæknifrjóvgunarlögum á yfirstandandi kjörtímabili í þá veru að heimila staðgöngumæðrun.
    Í skýrslu vinnuhóps finnska dómsmálaráðuneytisins frá 13. nóvember 2014, sem hafði það aðalverkefni að koma með tillögur að lagaákvæðum um móðerni, er fjallað um staðgöngumæðrun. Þar er lagt til að kona sem samkvæmt framlögðum, erlendum vottorðum er skráð móðir barns sem önnur kona hefur fætt, geti fengið foreldrastöðu sína viðurkennda í Finnlandi hafi hún verið búsett í viðkomandi erlenda ríki samfellt í að minnsta kosti eitt ár áður en barnið fæddist. Tillagan hefur það að markmiði að koma í veg fyrir sniðgöngu finnskra laga sem banna staðgöngumæðrun.
    Finnar hafa ekki farið varhluta af alþjóðlegri þróun þessara mála og hefur áðurnefnd ráðgjafarnefnd um siðfræði velferðar- og heilbrigðisþjónustu áætlað að um það bil fimm pör fari ár hvert til útlanda í leit að staðgöngumóður. Engar sérstakar reglur gilda um foreldrastöðu þessara barna og er því gripið til almennra meginreglna alþjóðlegs einkamálaréttar um faðerni. Rétt er að ítreka að mater est reglan um að sú kona sem fæðir barnið teljist móðir þess er ekki lögfest í Finnlandi.

Noregur.
    Samkvæmt 2. gr. norskra barnalaga er samningur um að fæða barn fyrir aðra konu ógildur. Af 2. og 15. gr. II. kafla norsku líftæknilaganna leiðir að staðgöngumæðrun með aðferð tæknifrjóvgunar er ekki heimil í Noregi.
    Í umsögn norska líftækniráðsins (Bioteknologirådet, sjálfstæð nefnd skipuð á grundvelli líftæknilaganna til að fjalla um einstök álitamál á þessu sviði) frá 2011 segir að meiri hluti ráðsins mæli með áframhaldandi banni við staðgöngumæðrun. Kom fram í umsögninni að þar sem svo mörg siðferðileg álitaefni vakni í tengslum við staðgöngumæðrun, og þá helst þau að staðgöngumóðir selji aðgang að líkama sínum og að hún og barnið séu hlutgerð, ætti ekki að heimila hana í Noregi sem leið fyrir fólk til að eignast barn. Minni hluti líftækniráðsins taldi þörf á reglusetningu um staðgöngumæðrun, bæði vegna innlendrar og erlendrar framkvæmdar. Framangreind umsögn hefur ekki leitt til breytinga á norskum lögum á þessu sviði.
    Sérákvæði um foreldrastöðu barna sem alin eru af staðgöngumóður í útlöndum er ekki að finna í norskum lögum. Yfirfærsla á foreldrastöðu fer fram samkvæmt meginreglum gildandi laga. Eins og vikið verður að hér síðar hafa norsk yfirvöld gefið út sérstakt leiðbeiningarbréf vegna barna sem fædd eru af staðgöngumæðrum í útlöndum og staðið fyrir setningu bráðabirgðalaga og reglugerða sem gilda tímabundið um börn sem dvelja í Noregi með væntanlegum foreldrum án þess að yfirfærsla á foreldrastöðu þeirra hafi farið fram samkvæmt norskum lögum. Að lokum má nefna að árið 2013 tóku gildi breytingar á viðurlagakafla norsku líftæknilaganna þannig að framvegis verði fólki ekki refsað fyrir að gera ráðstafanir í Noregi til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum.

Svíþjóð.
    Samkvæmt 3. gr. sænsku líftæknilaganna er bannað að koma fyrir fósturvísi í konu ef báðar kynfrumur koma frá gjöfum. Almenn bannákvæði um staðgöngumæðrun er ekki að finna í sænskum lögum en löggjöfin leggur þó bann við staðgöngumæðrun innan sænskrar heilbrigðisþjónustu. Vegna þess að staðgöngumæðrun er ekki heimil leita barnlaus pör eftir henni út fyrir landsteinana og er talið að á hverju ári komi um það bil hundrað börn til Svíþjóðar sem fædd eru af staðgöngumóður í öðru landi. Grunnreglur um móðerni og faðerni gilda í þessum tilvikum og getur væntanlegur faðir fengið faðerni sitt staðfest sé hann líffræðilegur faðir barns sem fætt er af staðgöngumóður erlendis og ættleiðing er möguleg fyrir maka hans.
    Meiri hluti sænska siðfræðiráðsins (Statens Medicinsk-Etiska Råd) komst að því í áliti frá 2013 (Smer Rapport 2013:1) að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, með sérstökum skilyrðum, gæti verið ásættanleg út frá siðferðilegum sjónarmiðum sem ein tegund tæknifrjóvgunarmeðferðar. Eitt skilyrði væri að einhvers konar persónuleg tengsl væru milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra. Var staðgöngumæðrun nefnd sem möguleiki til að eignast barn fyrir konur sem ekki geta gengið með barn og samkynhneigða karlmenn. Meiri hluti siðfræðiráðsins ályktaði gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni.
    Sænska ríkisstjórnin hefur falið sérstakri nefnd að fjalla um mismunandi leiðir til að auka möguleika barnlausra til að verða foreldrar (Utredningen om utökade möjligheter till behandling av ofrivillig barnlöshet). Nefndin á meðal annars að fjalla um hvort og þá með hvaða hætti mögulegt væri að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Nefndin hefur einnig það hlutverk að meta hvort setja eigi sérstakar reglur vegna barna sem fædd eru af staðgöngumóður í útlöndum. Áætlað er að nefndin ljúki störfum 2015.
    Í október 2014 kvað áfrýjunardómstóllinn í Stokkhólmi upp úr um viðurkenningu bandarísks dóms þar sem staðfest var að tveir sænskir karlmenn teldust foreldrar barns sem fætt var af staðgöngumóður á Rhode Island í Bandaríkjunum. Í dómnum kom fram að þó að engin lög gildi um staðgöngumæðrun í Svíþjóð væri enginn vafi á því að annar mannanna væri líffræðilegur faðir barnsins þar sem sæði hans hafi verið notað við tæknifrjóvgun sem leiddi til getnaðarins og hinn maðurinn gæti samkvæmt sænskum ættleiðingalögum ættleitt barn maka síns og orðið faðir barnsins. Dómstóllinn vísaði einnig til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þeirrar staðreyndar að það væri barninu fyrir bestu að hinn erlendi dómur yrði viðurkenndur þar sem barnið ætti annars ekki foreldra samkvæmt sænskum lögum.

Önnur Evrópuríki.
Almennt.
    Í þessum kafla hefur að meginstefnu verið stuðst við upplýsingar úr skýrslu Evrópuþingsins, A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, en heimilda hefur þó einnig verið aflað víðar. Réttarstaða þeirra ríkja í Evrópu sem leyfa staðgöngumæðrun var könnuð en eins og umfjöllunin hér á eftir ber með sér er framkvæmd þessara mála með misjöfnum hætti.

Belgía.
    Engin löggjöf um staðgöngumæðrun er til staðar í Belgíu og samningar um staðgöngumæðrun eru ekki aðfararhæfir. Nokkur sjúkrahús bjóða upp á fulla staðgöngumæðrun (þ.e. með glasafrjóvgun) í velgjörðarskyni fyrir pör (konu og karl) þar sem læknisfræðileg ábending er fyrir notkun úrræðisins. Staðgöngumóðirin er álitin móðir barnsins sem fæðist og í meiri hluta tilvika eru kynfrumur beggja væntanlegra foreldra notaðar við tæknifrjóvgunina í þessum tilfellum. Af belgískri dómaframkvæmd má ráða að staðgöngumæðrun er einnig stunduð með heimasæðingu og að auki leita barnlaus pör til útlanda eftir staðgöngumæðrum.
    Væntanlegur faðir getur ef staðgöngumóðirin er ógift, og með samþykki hennar, gengist við barninu með faðernisviðurkenningu. Sé staðgöngumóðirin í hjúskap þarf væntanlegur faðir að ættleiða barnið eða fara í vefengingarmál vegna faðernis barnsins, þar sem maki staðgöngumóður er þá talinn faðir þess. Væntanleg móðir þarf svo að óska eftir því að stjúpættleiða barnið. Rétt er að geta þess hér að pörum af sama kyni og einhleypum er heimilt að ættleiða í Belgíu.
    Fjögur lagafrumvörp um staðgöngumæðrun hafa verið lögð fyrir belgíska þingið. Þau hafa öll lotið að því að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og eiga það sameiginlegt að úrræðið verði eingöngu í boði sé um læknisfræðilega nauðsyn að ræða og að barnið sem til verður sé erfðafræðilega skylt væntanlegu foreldrunum. 5

Bretland.
    Í Bretlandi er staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni leyfð og hefur reglum um úrræðið verið komið fyrir í tveimur lagabálkum. Annars vegar er um að ræða lög um ráðstafanir á sviði staðgöngumæðrunar (The Surrogacy Arrangements Act 1985) þar sem kveðið er á um að samningar um staðgöngumæðrun séu ekki aðfararhæfir að lögum og viðurlög sett við ákveðnum brotum er tengjast staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni, eins og til dæmis auglýsingum og milligöngu. Hins vegar er um að ræða ákvæði um úrskurð um foreldrastöðu (e. parental order) í lögum um tæknifrjóvgun (The Human Fertilisation and Embryology Act 2008) sem mæla fyrir um yfirfærslu á foreldrastöðu barns frá staðgöngumóður, og maka hennar ef við á, til væntanlegra foreldra. Við þetta má bæta að breska innanríkisráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um útlendingaeftirlit og staðgöngumæðrun yfir landamæri.
    Tveir möguleikar eru fyrir hendi til að færa foreldrastöðu barns frá staðgöngumóður, og maka hennar ef við á, til væntanlegra foreldra. Annars vegar er hægt að fara í gegnum ættleiðingarferli, og er það gert í þeim tilfellum þegar barnið er ekki erfðafræðilega skylt væntanlegum foreldrum. Hins vegar er hægt að sækja um að úrskurðað verði um foreldrastöðu barnsins. 6 Úrskurður um foreldrastöðu kveður á um yfirfærslu á foreldrastöðu barns eftir fæðingu og hefur honum verið lýst sem nokkurs konar ættleiðingu með flýtimeðferð. Ósk um yfirfærslu á foreldrastöðu verður að leggja fyrir dómara sem metur hvort skilyrði eru til að samþykkja hana. Dómari nýtur aðstoðar félagsráðgjafa (svokallaðir „Parental Order Reporters“) sem gætir þess að skilyrði foreldraúrskurðar séu uppfyllt, framkvæmir nokkurs konar hæfnismat á væntanlegum foreldrum, athugar hvort einhverjar ástæður séu fyrir því að yfirfærsla skuli ekki fara fram og gætir þess að hagsmunir barnsins séu í fyrirrúmi. 7 Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt fyrir að hæfnismat væntanlegra foreldra fari fram eftir að barn sé komið í heiminn. 8 Mater est reglan gildir á Bretlandi, þ.e. sú kona sem fæðir barn telst móðir þess, sbr. 33. gr. tæknifrjóvgunarlaganna. Þangað til úrskurðað hefur verið um foreldrastöðu eru því staðgöngumóðirin og maki hennar, ef honum er til að dreifa, foreldrar barnsins. Staðgöngumóðirin getur ákveðið að halda barninu.
    Til að fá yfirfærslu á foreldrastöðu þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði, sbr. 54. gr. bresku tæknifrjóvgunarlaganna:
     *      Staðgöngumæðrun í Bretlandi er leyfð fyrir hjón, pör í sambúð og einnig fyrir pör af sama kyni. Úrræðið er ekki í boði fyrir einhleypa.
     *      Staðgöngumæðrun verður að framkvæma með tæknifrjóvgun og verður að minnsta kosti önnur kynfruman að koma frá væntanlegum foreldrum.
     *      Væntanlegir foreldrar verða að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu innan sex mánaða frá fæðingu barns og verður barnið að búa hjá þeim þegar umsóknin er lögð fram.
     *      Að minnsta kosti annað væntanlegra foreldra verður að eiga lögheimili í Bretlandi þegar umsókn um yfirfærslu á foreldrastöðu er lögð fyrir dómstóla.
     *      Báðir væntanlegra foreldra verða að hafa náð 18 ára aldri en ekkert aldurshámark er tilgreint. Engin aldursmörk gilda fyrir staðgöngumóðurina fyrir utan vinnureglur sem tæknifrjóvgunarstofurnar setja sér.
     *      Staðgöngumóðirin verður að veita samþykki sitt fyrir yfirfærslu á foreldrastöðu sex vikum eftir fæðingu barnsins. Einnig er nauðsynlegt að fá samþykki maka staðgöngumóður, sé hann til staðar.
     *      Engar greiðslur mega hafa farið á milli aðila aðrar en endurgreiðslur vegna réttmætra útgjalda (t.d. vinnutap, ferðakostnaður og fatnaður).
     *      Meginreglan um að gera skuli það sem barni er fyrir bestu hefur grundvallarþýðingu.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að þegar staðgöngumæðrun hefur farið fram erlendis gilda einnig framangreindar reglur um úrskurð um yfirfærslu á foreldrastöðu barns frá staðgöngumóður til væntanlegra foreldra. 9
    Í október 2013 breytti breska tæknifrjóvgunarstofnunin (e. Human Fertilisation Embryology Authority) vinnureglum sínum þannig að nú er mögulegt fyrir annað væntanlegra foreldra að verða viðurkennt sem foreldri barns ásamt staðgöngumóður strax eftir fæðingu þess, að því tilskildu að staðgöngumóðirin sé ekki í hjúskap eða sambúð og viðeigandi samþykki sé til staðar. 10 Sem dæmi um þetta má nefna að sé staðgöngumóðirin einhleyp og hafi kynfrumur væntanlegs föður verið notaðar við tæknifrjóvgunina telst hann faðir barnsins strax við fæðingu þess og áður en úrskurður um foreldrastöðu er kveðinn upp. Rétt er að geta þess að framangreindar breytingar hafa ekki áhrif á feril mála að því er varðar úrskurði um foreldrastöðu og er enn gerð krafa um yfirfærslu á foreldrastöðu barns með slíkum úrskurði.

Grikkland.
    Grikkland er eina landið innan Evrópusambandsins sem hefur sett heildstæðan lagaramma um staðgöngumæðrun þar sem ferlinu er lýst frá upphafi til enda. Löggjöf um tæknifrjóvgun var sett árið 2002 sem meðal annars heimilaði staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Tilefni laganna var dómur sem féll þremur árum fyrr þar sem ættleiðing væntanlegra foreldra á tvíburum sem höfðu verið fæddir af staðgöngumóður var samþykkt. Lögunum var síðan breytt árið 2005 til að skýra tiltekin atriði nánar og setja viðurlög við ákveðnum brotum gegn lögunum. Áhugavert er að geta þess að gríska stjórnarskráin mælir fyrir um réttinn til að auka kyn sitt. Að auki er hægt að segja að grísku tæknifrjóvgunarlögin leggi áherslu á félagslegt foreldrahlutverk þar sem ekki er gert að skilyrði að barnið sé erfðafræðilega skylt væntanlegu foreldrunum og fjölskyldubönd byggjast því eingöngu á ásetningi fólks.
    Markmið grísku tæknifrjóvgunarlaganna er að vernda í fyrsta lagi réttindi og hagsmuni barna sem til verða og í öðru lagi friðhelgi einstaklingsins og sjálfræði og rétt hans til að auka kyn sitt. Staðgöngumæðrun er eingöngu heimil á grundvelli læknisfræðilegra ástæðna. Úrræðið er í boði fyrir gift sem ógift pör og einhleypar konur. Úrræðið er ekki í boði fyrir pör af sama kyni og hefur það verið gagnrýnt í Grikklandi. Eingöngu full staðgöngumæðrun er leyfð, þ.e. óheimilt er að nota eggfrumur staðgöngumóðurinnar. Eins og áður sagði er ekki gerð krafa um að væntanlegir foreldrar noti sínar eigin kynfrumur við tæknifrjóvgunina.
    Samningar um staðgöngumæðrun eru gildir og aðfararhæfir að lögum. Samningurinn er gerður fyrir getnað og skal staðfestur af dómstólum. Litið er á samninginn sem nokkurs konar þjónustusamning. Eingöngu væntanlegri móður er heimilt að leggja inn umsókn til dómstóla um staðfestingu samnings um staðgöngumæðrun. Hefur þetta skilyrði verið gagnrýnt og hafa nýlega verið kveðnir upp dómar þar sem umsóknir einhleypra karlmanna um staðfestingu samnings um staðgöngumæðrun hafa verið samþykktar. Umsókn um að dómstóll staðfesti samning um staðgöngumæðrun þarf að bera eftirfarandi með sér:
     *      Væntanleg móðir þarf að sanna að læknisfræðilegar ástæður liggi að baki samningnum; þ.e. hún þarf að sanna að hún geti ekki orðið ófrísk og gengið með barn. Væntanleg móðir má ekki vera eldri en 50 ára.
     *      Leggja þarf fram læknisvottorð um að staðgöngumóðir sé við góða heilsu og að hún geti tekist á hendur meðgöngu og fæðingu barns og sálfræðimat um að hún sé við góða andlega heilsu. Engin aldursskilyrði gilda fyrir staðgöngumóðurina og hafa dómstólar meðal annars samþykkt 52 ára staðgöngumæður. Ekki er gert að skilyrði að staðgöngumóðir eigi barn fyrir.
     *      Eggfruman má ekki koma frá staðgöngumóður. Sé um að ræða kynfrumugjöf er hún undir nafnleynd.
     *      Tæknifrjóvgunina verður að framkvæma á heilbrigðisstofnun sem hefur leyfi og af þar til bærum sérfræðingum.
     *      Væntanleg móðir og staðgöngumóðir verða að eiga lögheimili í Grikklandi.
     *      Skriflegur samningur um staðgöngumæðrun þarf að vera til staðar og er hann undirritaður af væntanlegum foreldrum og staðgöngumóður og maka hennar, ef við á.
    Staðgöngumóður í Grikklandi er heimilt að afturkalla samþykki sitt áður en getnaður verður. Eftir getnað er óheimilt að rifta samningnum. Staðgöngumóðir hefur fullan sjálfsákvörðunarrétt og rétt yfir eigin líkama meðan á meðgöngu stendur og hefur meðal annars rétt á að fara í fóstureyðingu. Eru samningsákvæði sem brjóta á þessum rétti ógild.
    Liggi fyrir staðfesting dómstóla á samningi um staðgöngumæðrun fer yfirfærsla á foreldrastöðu barns frá staðgöngumóður til væntanlegrar móður fram sjálfkrafa strax eftir fæðingu þess. Eiginmaður væntanlegrar móður er álitinn faðir barnsins. Engin krafa er um ættleiðingu eða frekari úrskurði dómstóla. Þó getur staðgöngumóðir vefengt móðerni barnsins fyrir dómstólum ef hún sýnir fram á að barnið sé erfðafræðilega skylt henni og maka hennar.
    Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er bönnuð í Grikklandi en heimilt er að greiða sanngjörn útgjöld, t.d. vegna meðgöngufatnaðar staðgöngumóður, lyfja og heilbrigðisþjónustu hennar sem og vinnutaps vegna meðgöngu og fæðingar barns. Óheimilt er að framkvæma staðgöngumæðrun án staðfestingar dómstóla á samningi um staðgöngumæðrun og eru lögð viðurlög við því broti. Loks er milliganga um staðgöngumæðrun einnig bönnuð. 11

Holland.
    Um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með notkun tæknifrjóvgunarmeðferðar er fjallað í hollensku tæknifrjóvgunarlögunum frá 1998 og er þar kveðið á um að við notkun staðgöngumæðrunar skuli fylgt leiðbeiningum félags hollenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna. Í lögunum segir einnig að staðgöngumóðir skuli hafa átt að minnsta kosti eitt barn, upplýsingar um sálfræðileg, félagsleg og lögfræðileg áhrif staðgöngumæðrunar skuli gefnar öllum hlutaðeigandi og læknisfræðilegar ástæður verði að liggja baki þess að væntanleg móðir getur ekki gengið með barn. Ekki er að finna ákvæði í lögum sem banna staðgöngumæðrun að hluta eða heimasæðingar.
    Í framangreindum leiðbeiningum fæðinga- og kvensjúkdómalækna er það gert að skilyrði að væntanlegir foreldrar útvegi báðar kynfrumurnar sem útilokar pör af sama kyni og einhleypa. Í framkvæmd er staðgöngumæðrun í Hollandi eingöngu aðgengileg fyrir gift pör (konu og karl) sem koma á tæknifrjóvgunarstofu ásamt staðgöngumóður. Í leiðbeiningunum er einnig kveðið á um eftirfarandi atriði:
     *      Staðgöngumóðir skal ekki vera eldri en 44 ára.
     *      Öllum hlutaðeigandi skulu gefnar munnlegar og skriflegar upplýsingar um möguleg áhrif staðgöngumæðrunar, læknisfræðileg, sálfræðileg og lögfræðileg, til að hægt sé að staðfesta frjálst og upplýst samþykki staðgöngumóður sem verður staðfest í sérstöku samkomulagi (t.d. um hve margar tæknifrjóvgunarmeðferðir hún er tilbúin að undirgangast og um afhendingu barnsins eftir fæðingu).
     *      Staðgöngumóðir skal undirgangast læknisskoðun og sálfræðimat.
     *      Allir hlutaðeigandi skulu fá sálfræðiaðstoð fyrir og eftir staðgöngumæðrun.
     *      Eingöngu er heimilt að setja upp tvo fósturvísa hjá staðgöngumóður.
     *      Væntanleg móðir má ekki vera eldri en 40 ára.
     *      Sérstakar ráðstafanir eru gerðar til að koma í veg fyrir að væntanlegir foreldrar afturkalli samþykki sitt.
     *      Ekki er fjallað um búsetu- eða ríkisborgararéttarskilyrði í leiðbeiningunum en tæknifrjóvgunarstofur geta sett sín eigin skilyrði um þetta atriði.
    Yfirfærsla á foreldrastöðu frá staðgöngumóður og maka hennar, sé honum til að dreifa, til væntanlegra foreldra fer fram með dómi um ættleiðingu barnsins. Í Hollandi gildir mater est reglan svo staðgöngumóðirin telst móðir barnsins við fæðingu þess. Ef staðgöngumóðirin er ógift getur væntanlegur faðir fengið faðerni viðurkennt með samþykki hennar og að því gefnu að náið samband sé á milli hans og barnsins. Í framkvæmd virkar „ættleiðingar-staðgöngumæðrunin“ í Hollandi á þann hátt að væntanlegir foreldrar gera sveitarfélagi sínu viðvart um ráðstöfunina sem þá vísar málinu til viðeigandi barnaverndaryfirvalda (þau sjá meðal annars um að gefa út ættleiðingarleyfi í Hollandi). Samþykki barnaverndaryfirvöld umsókn væntanlegu foreldranna mæla þau með því við dómstóla að staðgöngumóðirin, og maki hennar ef það á við, verði svipt forsjá barnsins og væntanlegum foreldrum falin umsjá þess. Í flestum dómsmálum er staðgönguparið svipt forsjá barnsins vegna þess að þau geta ekki séð um barnið þar sem vilji þeirri stóð ekki til þess að eignast það. Eftir að væntanlegu foreldrarnir eru búnir að hafa umsjá barnsins í eitt ár er hægt að hefja ættleiðingarferli. Rétt er að geta þess hér að skilyrði ættleiðingar eru meðal annars þau að væntanlegu foreldrarnir eigi þriggja ára sambúð að baki. Ættleiðing er einnig möguleg fyrir einhleypa í Hollandi.
    Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er bönnuð og getur varðað refsingu í Hollandi. Samningar um staðgöngumæðrun eru andstæðir allsherjarreglu, ordre public, og því ekki aðfararhæfir að lögum. 12

Rússland.
    Rússnesk löggjöf um tæknifrjóvganir og staðgöngumæðrun er brotakennd en um málið gilda lög um fjölskyldur, heilbrigðislög, lög um almannaskráningu ásamt sérstökum reglum um tæknifrjóvgun. Staðgöngumæðrun er heimil í Rússlandi sem hluti tæknifrjóvgunarmeðferðar og að því tilskildu að læknisfræðileg ábending sé til staðar fyrir notkun úrræðisins. Gerður er samningur milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra sem geta verið hjón, par í sambúð eða einhleyp kona. Nýleg dómaframkvæmd sýnir að einhleypir karlar geta einnig nýtt sér staðgöngumæðrun í Rússlandi. 13 Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er ekki bönnuð og má segja að lagaumhverfi staðgöngumæðrunar í Rússlandi hafi yfir sér frjálslynt yfirbragð.
    Staðgöngumóðirin telst móðir barnsins við fæðingu þess og hún hefur rétt á að halda barninu og ala það upp sjálf kjósi hún að gera það. Þau skilyrði eru sett í heilbrigðislögum að staðgöngumóðirin sé á aldrinum 20–35 ára, hún eigi að minnsta kosti eitt heilbrigt barn, sé við góða heilsu og samþykki skriflega tæknifrjóvgunarmeðferðina. Sé staðgöngumóðir í hjúskap er það gert að skilyrði að eiginmaður hennar samþykki staðgöngumæðrunina. Samkvæmt lögum skulu kynfrumurnar sem notaðar eru við tæknifrjóvgunina koma frá væntanlegum foreldrum en í framkvæmd eru gjafakynfrumur notaðar í tilfelli einhleypra kvenna og ófrjórra para. 14
    Ekki er hægt að yfirfæra foreldrastöðu barns sem alið er af staðgöngumóður með því að óska eftir ættleiðingu í Rússlandi og ekki er þörf á að leita úrskurðar dómstóla. Staðgöngumóðirin veitir einfaldlega skriflegt samþykki sitt fyrir skráningu barnsins sem barns væntanlegra foreldra í fæðingarskrá og á fæðingarvottorði barnsins. Síðan er barnið skráð í þjóðskrá eins og önnur börn en í tilfelli staðgöngumæðrunar þarf að leggja fram sérstakt læknisvottorð gefið út af tæknifrjóvgunarstofunni sem staðfestir að staðgöngumóðirin samþykki skráningu væntanlegra foreldra sem lögformlegra foreldra barnsins. Mögulegt er að ljúka skráningu nokkrum dögum eftir fæðingu barns. Kjósi staðgöngumóðirin að halda barninu veitir hún ekki framangreint samþykki og er þá skráð í þjóðskrá sem móðir barnsins. Ef hún er í hjúskap telst eiginmaður hennar faðir barnsins. Áhugavert er að geta þess hér að ekki er hægt að vefengja móðerni og faðerni fyrir dómstólum í tilfelli staðgöngumæðrunar í Rússlandi. 15

Úkraína.
    Staðgöngumæðrun er leyfð í Úkraínu, hvort sem hún er gerð í velgjörðar- eða hagnaðarskyni. Um málið er fjallað í 123. gr. laga um fjölskyldur og í reglum heilbrigðisráðherra Úkraínu nr. 24 og 771. Þar er þó aðallega fjallað um tæknifrjóvgunina sem slíka en hún getur eingöngu farið fram á viðurkenndri heilbrigðisstofnun.
    Þar sem mater est reglan gildir ekki við staðgöngumæðrun í Úkraínu telst barn sem fætt er af staðgöngumóður þar vera barn væntanlegra foreldra allt frá fæðingu þess. Þannig eru væntanlegir foreldrar tilgreindir sem foreldrar í fæðingarvottorði barns sem alið er af staðgöngumóður. Allir aðilar að samningi um staðgöngumæðrun, þ.e. staðgöngumóðirin og væntanlegu foreldrarnir, verða að samþykkja fyrirkomulagið skriflega. Staðgöngumóðir getur ekki ákveðið að afturkalla samþykki sitt og halda barninu eftir fæðingu þess. Rétt er að geta þess að barn öðlast ekki úkraínskan ríkisborgararétt við fæðingu. Engin takmörk eru á greiðslum milli aðila. 16

Önnur ríki.
Ísrael.
    Árið 1996 voru sett lög um staðgöngumæðrun í Ísrael og var það eitt af fyrstu ríkjunum í heiminum til að setja ítarlega löggjöf um málefnið (Surrogacy Agreements Law (Approving an Agreement and Status of Newborn) nr. 5756/1996). Í lögunum er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar og staðgöngumóðir geri með sér samkomulag um staðgöngumæðrun sem staðfest er af sjö manna nefnd, skipaðri af heilbrigðisráðherra. Staðgöngumóðirin skal vera ógift, óskyld væntanlegum foreldrum og sömu trúar og væntanleg móðir. Óheimilt er að nota eggfrumu frá staðgöngumóður og sæðið verður að koma frá væntanlegum föður.
    Ítarleg ákvæði er finna í lögunum um hvaða gögn eigi að fylgja með samkomulagi um staðgöngumæðrun. Gerð er krafa um framlagningu læknisvottorðs um að væntanleg móðir geti ekki gengið með barn og að allir aðilar að samkomulaginu séu hæfir, sálfræðimats um alla aðila að samkomulaginu og staðfestingar félagsráðgjafa eða sálfræðings um að væntanlegir foreldrar hafi fengið faglega ráðgjöf, m.a. um aðra valkosti vegna barnleysis. Nefndin staðfestir samkomulag um staðgöngumæðrun að því tilskildu að allir aðilar hafi af fúsum og frjálsum vilja gefið samþykki sitt, engin hætta sé á að heilsu staðgöngumóður eða hagsmunum barnsins sé stefnt í hættu og samkomulagið innihaldi ekki ákvæði sem feli í sér mismunun eða skerði réttindi barnsins, staðgöngumóður eða væntanlegra foreldra. Getur nefndin samþykkt samningsskilmála sem kveða á um mánaðarlegar greiðslur til staðgöngumóður fyrir kostnaði sem tengist samkomulaginu, t.d. lögfræðikostnaði, tryggingariðgjöldum ásamt bótum fyrir þjáningu eða vinnutap. Óheimilt er að framkvæma staðgöngumæðrun nema á heilbrigðisstofnun og að undangengnu samkomulagi sem staðfest hefur verið af nefnd um staðgöngumæðrun.
    Strax eftir fæðingu barns fá væntanlegir foreldrar umsjá þess. Innan sjö daga frá fæðingu sækja væntanlegir foreldrar um breytta foreldrastöðu hjá dómstólum. Ef umsóknin samræmist hagsmunum barnsins er hún samþykkt og væntanlegu foreldrarnir verða foreldrar barnsins. Staðgöngumóðir getur afturkallað samþykki sitt fyrir dómstólum áður en úrskurður um breytta foreldrastöðu er kveðinn upp, séu aðstæður breyttar og ef það þjónar hagsmunum barnsins.
    Samkvæmt ísraelsku lögunum hefur staðgöngumóðirin fullan sjálfsákvörðunarrétt um hvaða heilbrigðisþjónustu hún þiggur, þar á meðal fóstureyðingu. Refsivert er að framkvæma staðgöngumæðrun nema að baki liggi samkomulag um staðgöngumæðrun staðfest af nefnd samkvæmt lögunum. Greiðslur milli aðila sem ekki hafa verið samþykktar af nefndinni eru óheimilar og refsiverðar.
    Ísraelska þingið fjallar nú um frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að pörum af sama kyni og einhleypum verði leyfður aðgangur að staðgöngumæðrun.

Bandaríkin.
    Löggjöf um staðgöngumæðrun er mismunandi milli ríkja Bandaríkjanna þar sem engin alríkislög gilda um efnið. Í meiri hluta ríkjanna er ekki að finna neinar reglur sem snerta staðgöngumæðrun. Efni löggjafar um staðgöngumæðrun, þar sem hana er að finna, er mjög mismunandi; allt frá því að banna staðgöngumæðrun að viðlagðri refsingu til frjálslyndari viðhorfa gagnvart samningum um staðgöngumæðrun.
    Ríki Bandaríkjanna hafa verið flokkuð í fjóra flokka sem gefa til kynna afstöðu þeirra gagnvart staðgöngumæðrun (einhver ríki geta fallið í fleiri en tvo flokka):
     1.      Algjört bann við staðgöngumæðrun í lögum eða bann við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Þetta eru ríkin Arizona, District of Columbia, Indiana, Michigan, Nebraska og Norður-Dakóta.
     2.      Ríki sem hafa ekki leitt bann við staðgöngumæðrun í lög en viðurkenna ekki samninga um staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Þetta eru ríkin Kentucky, Louisiana, New Jersey, New York, Norður-Karólína, Oregon og Washington.
     3.      Lög um staðgöngumæðrun eða annars konar reglur eru til staðar sem heimila samninga um staðgöngumæðrun sem hafa verið samþykktir af dómstólum. Þetta eru Flórída, Illinois, Nevada, New Hampshire, Utah og Virginía. Ríkin Texas, Arkansas og Tennessee hafa sett takmarkaðar reglur um staðgöngumæðrun þar sem óljóst er hvort hægt sé að krefjast efnda á slíkum samningum.
     4.      Réttarástand þar sem aðilum er frjálst að semja um réttindi sín og skyldur í samningi um staðgöngumæðrun. Þau 28 ríki sem hér falla undir hafa ekki sett löggjöf um samninga um staðgöngumæðrun. 17
    Þau ríki sem með skýrum hætti leyfa staðgöngumæðrun af einhverju tagi eru Arkansas, Kalifornía, Flórída, Illinois, Nevada, New Hampshire, New Jersey, Norður-Dakóta, Tennessee, Texas, Utah, Virginía og Washington. Athyglisvert er að geta þess að í New-Hampshire og New Jersey getur staðgöngumóðirin ákveðið að halda barninu eftir fæðingu þess en þarf að taka þá ákvörðun innan 72 klst. frá fæðingu barnsins. Kalifornía og Illinois hafa oft verið nefnd meðal ríkja Bandaríkjanna sem hafa frjálslynd viðhorf í garð staðgöngumæðrunar. Í báðum þessum ríkjum er staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni heimil. Lagaumhverfi staðgöngumæðrunar í Kaliforníu byggist á dómaframkvæmd og hefur réttur einhleypra og para, þ.m.t. para af sama kyni, til staðgöngumæðrunar verið viðurkenndur. Nauðsynlegt er að afla dómsúrskurðar um breytingu á foreldrastöðu barns og breytingu á fæðingarvottorði þess þar með. 18 Illinois setti árið 2004 sérstök lög um fulla staðgöngumæðrun. Fullnægi samningur gerður á grundvelli laganna öllum skilyrðum þeirra er litið á væntanlega foreldra sem foreldra barnsins strax frá fæðingu þess. Lögmenn aðila hafa það hlutverk að staðfesta að öllum skilyrðum laganna hafi verið mætt með framlagningu þar til gerðra gagna hjá Illinois Department of Public Health. Að auki verður læknir að staðfesta að barnið sé ekki erfðafræðilega skylt staðgöngumóður eða maka hennar. Yfirfærsla á foreldrastöðu fer síðan fram með undirritun fæðingarvottorðs barnsins og þarf því ekki að fara með mál þessi fyrir dómstóla. 19

Kanada.
    Í Kanada er staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni bönnuð samkvæmt alríkislögum. Öll fylki nema Quebec, þar sem samningar um staðgöngumæðrun eru ógildir, heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í öllum fylkjum Kanada gildir mater est reglan, þ.e. ekki skiptir máli við hvaða aðstæður barn er getið, sú kona sem elur barn telst ætíð móðir þess. Í flestum fylkjum geta væntanlegir foreldrar sótt um yfirfærslu á foreldrastöðu barns sem alið er af staðgöngumóður strax eftir fæðingu barnsins.
    Algengt er að skriflegur samningur sé gerður fyrir getnað milli væntanlegra foreldra og staðgöngumóður. Löggjöfin tiltekur ekki hvað eigi að vera í slíkum samningi. Þetta eru því ekki formfastir samningar en fela í sér sameiginlegan skilning samningsaðila. Dómstólar geta vikið samningunum til hliðar telji þeir það barni fyrir bestu.
    Yfirfærsla foreldraréttar barns sem alið er af staðgöngumóður til væntanlegra foreldra fer fram með þrennum hætti í mismunandi fylkjum Kanada. Fyrst ber að nefna svokallaða skráningarleið. Fjölskyldulög Bresku-Kólumbíu, sem tóku gildi á árinu 2013, mæla fyrir um mjög einfalda málsmeðferð í staðgöngumæðrunarmálum. Væntanlegir foreldrar og staðgöngumóðir gera skriflegan samning fyrir getnað um þrennt: Að við fæðingu barnsins verði staðgöngumóðirin ekki talin móðir barnsins, staðgöngumóðirin afhendi barnið til væntanlegra foreldra og væntanlegir foreldrar verði foreldrar barnsins. Þegar þessi skilyrði eru uppfyllt er gengið út frá því að væntanlegu foreldrarnir verði foreldrar barnsins eftir fæðingu þess enda samþykki staðgöngumóðirin það skriflega að afhenda þeim barnið og væntanlegu foreldrarnir taka það í sína umsjá. Hægt er að ganga frá þessu skriflega samþykki staðgöngumóður á fæðingardegi barnsins. Í fjölskyldulögunum segir einnig að komi upp ágreiningur eða óvissa sé hægt að leita til dómstóla eftir ákvörðun um foreldrastöðu barns. Samkvæmt almannaskráningarlögum í Bresku-Kólumbíu verða foreldrar barns að skrá fæðingu þess innan 30 daga.
    Í öðru lagi ber að nefna dómstólaleið með leiðbeiningum í löggjöf. Kanadísku fylkin Alberta, Nýfundnaland og Labrador og Nova Scotia hafa gert breytingar á löggjöf að því er varðar staðgöngumæðrun. Er krafist dómsúrskurðar í þessum fylkjum, venjulega innan 30 daga frá fæðingu barns, til að staðfesta foreldrastöðu barns sem alið er af staðgöngumóður. Í Alberta er ekki krafist skriflegs samnings en samþykki staðgöngumóður verður að vera óyggjandi. Skylt er að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra vilji menn fara einfalda leið með yfirlýsingu um yfirfærslu á foreldrastöðu (annars er eingöngu ættleiðing í boði). Í Nova Scotia er þess krafist svo dómsúrskurður verði kveðinn upp að væntanlegu foreldrarnir hafi átt frumkvæði að samkomulagi um staðgöngumæðrun, samkomulagið hafi verið gert fyrir getnað, staðgöngumóðirin ætli sér ekki að verða móðir barnsins, væntanlegu foreldrarnir ætli að verða foreldrar barnsins og kynfruma að minnsta kosti annars væntanlegra foreldra hafi verið notuð við getnaðinn. Í Nýfundnalandi og Labrador mæla lög fyrir um að hægt sé að skrá barn sem alið er af staðgöngumóður sem barn væntanlegra foreldra hafi ættleiðing farið fram eða yfirfærsla á foreldrastöðu samkvæmt úrskurði dómara.
    Í þriðja lagi hafa dómstólar í þremur fylkjum Kanada viðurkennt breytta foreldrastöðu barna sem fædd eru af staðgöngumæðrum þótt ekki hafi verið sett löggjöf um hvernig fara skuli með mál er tengjast staðgöngumæðrun. Ontario, Saskatchewan og New Brunswick hafa ekki sett löggjöf um staðgöngumæðrun, tæknifrjóvgun eða yfirfærslu á foreldrastöðu en dómstólar hafa staðfest yfirfærslu á foreldrastöðu barns sem alið er af staðgöngumóður til væntanlegra foreldra.
    Af framangreindu má ráða að ekkert fylki í Kanada gerir kröfu um að staðgöngumæðrunarfyrirkomulagið verði skoðað formlega af dómstólum eða stjórnvöldum fyrir getnað. Áhugavert er að geta þess að ekki skiptir máli vegna yfirfærslu á foreldrastöðu hvar barn er fætt svo framarlega sem foreldrar þess eigi lögheimili í því fylki þar sem umsókn um yfirfærslu er lögð fram.
    Samkvæmt alríkislögum Kanada er eingöngu heimilt að endurgreiða staðgöngumóður útlagðan kostnað samkvæmt reglugerð, en sú reglugerð hefur enn ekki verið sett. Ýmislegt bendir til að þessi kostnaður sé engu síður greiddur staðgöngumæðrum, þar á meðal bætur vegna vinnutaps. 20

Indland.
    Á Indlandi gilda ekki nein lög um staðgöngumæðrun en hún hefur verið leyfð í hagnaðarskyni síðan 2002. Óhætt er að segja að starfsemi tæknifrjóvgunarstofa á Indlandi hafi vaxið hratt og þjónusta indverska staðgöngumæðra verið eftirsótt af pörum og einstaklingum hvaðanæva frá. Árið 2005 gaf indverska ráðið um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði út leiðbeiningar fyrir læknastofur sem framkvæma tæknifrjóvgunarmeðferðir (Indian Council of Medical Research: National Guidelines for Accrediation, Supervision and Regulation of ART Clinics in India). Samkvæmt leiðbeiningunum er staðgöngumóðirin ekki talin móðir barnsins sem hún elur og fæðingarvottorð barnsins ber nafn kynforeldra þess.
    Árið 2008 komust í hámæli tvö dómsmál um börn fædd af indverskum staðgöngumæðrum og varpaði það ljósi á hve flókin álitaefni geta komið upp í tengslum við staðgöngumæðrun. Í ágúst 2009 gaf lagaráð Indlands síðan út skýrslu þar sem lögð var áhersla á þörf fyrir heildstæða löggjöf um læknastofur sem framkvæma tæknifrjóvgunarmeðferðir og réttindi og skyldur aðila að staðgöngumæðrun. Mælt var með því að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni en banna hana í hagnaðarskyni. 21 Með skýrslunni fylgdu drög að frumvarpi um tæknifrjóvgun (Draft Assisted Reproductive Technology (Regulation) Bill, 2008). Ný drög að indverskum tæknifrjóvgunarlögum litu síðan dagsins ljós árið 2010 (The Assisted Reproductive Technologies (Regulation) Bill – 2010). Meginefni þeirra draga er að settar verði á fót stofnanir til að koma reglu á tæknifrjóvgunarmeðferðir og taka við kvörtunum vegna staðgöngumæðrunar. Lagt er til að rekstur læknastofa á þessu sviði verði leyfisskyldur og að þær verði undir sérstöku eftirliti og fjallað er ítarlega um réttindi væntanlegra foreldra, kynfrumugjafa, staðgöngumæðra og barna. 22 Samkvæmt upplýsingum fengnum frá sendiráði Indlands á Íslandi hafa lög um staðgöngumæðrun ekki verið samþykkt á Indlandi.

IX. Staðgöngumæðrun yfir landamæri.
    Eins og áður hefur komið fram er staðgöngumæðrun óheimil hér á landi samkvæmt tæknifrjóvgunarlögum. Þó er vitað um tilvik þar sem konur hafa gengið með barn fyrir aðra og gefið það síðan frá sér (staðgöngumæðrun að hluta). Sömuleiðis hafa komið upp tilvik þar sem Íslendingar hafa leitað aðstoðar staðgöngumóður erlendis og óskað í kjölfarið eftir skráningu barnanna í þjóðskrá. Í frétt á vef þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðuneytis frá 29. desember 2010 um ýmis álitaefni um réttarstöðu barns við staðgöngumæðrun er fjallað með nákvæmum hætti um þá óvissu sem ríkir um réttarstöðu barna sem fæðast í kjölfar staðgöngumæðrunar erlendis. 23
    Í þeim tilfellum sem komið hafa upp hér á landi má gera ráð fyrir að yfirfærsla á foreldrastöðu barnanna hafi verið með mismunandi hætti. Þegar um hefur verið að ræða börn fædd erlendis er mismunandi eftir ríkjum þar sem staðgöngumæðrunin fór fram hvernig ríkisborgararétti er háttað og með hvaða hætti yfirfærsla á foreldrastöðu hefur verið staðfest, þó oftast sé það gert með dómi eða ákvörðun stjórnvalds. Réttarstaða barna sem fædd eru af staðgöngumóður erlendis getur verið mismunandi eftir því hvar barnið er fætt, t.d. hvort það öðlast sjálfkrafa ríkisfang í því ríki sem það er fætt í og geti því ferðast til Íslands. Réttarstaða barns getur einnig verið mismunandi eftir því hvort staðgöngumóðir er í hjúskap eða ekki, en ef staðgöngumóðir er í hjúskap eða skráðri sambúð er maki hennar samkvæmt íslenskum lögum faðir barnsins. Þá getur réttarstaða barns verið mismunandi annars vegar þegar væntanlegur faðir er líffræðilegur faðir barnsins, og þá sérstaklega ef staðgöngumóðir er ógift, og hins vegar þegar væntanleg móðir barnsins er einhleyp eða væntanlegir foreldrar barnsins eru af sama kyni eða væntanlegur faðir er ekki líffræðilegur faðir barnsins.
    Svo virðist sem framan af hafi verið tilviljanakennt hvort grunsemdir íslenskra stjórnvalda hafi vaknað um staðgöngumæðrun við ósk um skráningu barnsins í þjóðskrá. Á síðustu missirum hefur Þjóðskrá Íslands hins vegar tekið upp breyttar reglur um skráningu barna sem fæðast erlendis. Stofnunin hefur áskilið sér rétt til þess að óska eftir nánari gögnum um fæðingu og meðgöngu móður ef tilefni er talið til. Í þeim tilvikum sem barn öðlast ekki sjálfkrafa íslenskt ríkisfang við fæðingu er barn ekki skráð í þjóðskrá og málinu vísað til ákvörðunar Útlendingastofnunar.
    Engar öruggar tölur eru til um þessi tilvik en þó er kunnugt um fimm tilvik þar sem foreldrar hafa komið með börn til landsins eftir að hafa nýtt sér staðgöngumæðrun erlendis (varðar þó fleiri en fimm börn þar sem einhver tilfellanna varða tvíbura). Fjölmörg erfið álitamál hafa vaknað í kjölfarið svo sem um kennitölur, sjúkratryggingu og fleira og enn er ýmsum spurningum ósvarað um réttarstöðu einhverra þessara barna á Íslandi. Eðlilegt er að stjórnvöld leggi sig fram um að leysa þann vanda.
    Mörg ríki hafa glímt við þennan sama vanda nú um nokkurt skeið. Vert er að víkja að tímabundinni úrlausn norskra yfirvalda á staðgöngumæðrun yfir landamæri. Norska barna- og jafnréttismálaráðuneytið (Barne-, likestillings- og inkluderingsdepartementet) gaf út leiðbeiningarbréf árið 2011 þar sem fram kemur að beðið verði niðurstöðu Haag-stofnunarinnar áður en tekin verði frekari afstaða til nýrrar heildarlöggjafar um foreldrastöðu barna sem alin eru af staðgöngumóður. Í leiðbeiningarbréfinu, sem sent var stofnunum sem koma að staðgöngumæðrun, er norskur réttur um móðerni og faðerni í tilvikum staðgöngumæðrunar yfir landamæri útskýrður til að tryggja samræmda framkvæmd þessara mála innan stjórnsýslunnar. Þar kemur meðal annars fram að dómar eða ákvarðanir sem ákvarða að kona sem ekki hefur fætt barnið sé lögformleg móðir þess verði ekki lagðir til grundvallar að norskum rétti. Norðmenn settu svo árin 2012 og 2013 tímabundin lög og reglugerð um yfirfærslu á foreldrastöðu til væntanlegra foreldra sem giltu eingöngu um börn sem dvöldu í Noregi með væntanlegum foreldrum án þess að yfirfærsla á foreldrastöðu þeirra hefði farið fram samkvæmt norskum lögum. Var markmiðið að útbúa lagalegan grundvöll fyrir viðurkenningu á því að væntanlegir foreldrar væru raunverulegir foreldrar barns í þeim tilvikum sem norsku barnalögin eða ættleiðingalögin ná ekki til. Umsókn um þessa viðurkenningu þurfti að leggja inn fyrir 1. janúar 2014. 24
    Tvö nýleg dómsmál í Finnlandi, annað er varðaði tvíbura fædda af staðgöngumóður í Rússlandi og hitt um barn fætt af indverskri staðgöngumóður, sýna glöggt hve vandasöm dómsmál geta risið vegna staðgöngumæðrunar yfir landamæri. Í fyrra málinu, sem reyndar var röð dómsmála, viðurkenndu finnskir dómstólar faðerni tvíbura, sem fæddir voru í Rússlandi, á grundvelli fæðingarvottorðs sem tilgreindi væntanlegu foreldrana sem foreldra barnanna. Síðar í öðru dómsmáli var væntanlega móðirin viðurkennd sem kjörmóðir barnanna á þeim grundvelli að það væri börnunum fyrir bestu. Í síðara málinu, er fjallaði um barn sem alið var af indverskri staðgöngumóður, var faðerni væntanlegs föður sem lagt hafði til kynfrumur viðurkennt þrátt fyrir að staðgöngumóðir hafi verið í hjúskap, engin lög séu í gildi á Indlandi um staðgöngumæðrun, pater est reglan gildi hvort tveggja í Indlandi og Finnlandi og vitað var að greiðslur höfðu farið á milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra. Eins og sjá má af þessum tveimur dómum hafa finnskir dómstólar gengið langt í viðurkenningu á foreldrastöðu barna með hliðsjón af hagsmunum barnsins. Í öðru þessara mála er í forsendum dómsins sérstaklega tiltekið að ekki megi refsa eða mismuna barni fyrir gjörðir foreldra sinna.
    Í tveimur nýlegum dómum undirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu er vikið að réttarstöðu barna sem fædd voru af staðgöngumæðrum í Bandaríkjunum. 25 Um var að ræða tvö frönsk pör sem eignuðust börn með aðstoð staðgöngumæðra í Kaliforníu og Minnesota. Staðgöngumæðrun er óheimil og refsiverð í Frakklandi en heimil í framangreindum ríkjum. Í báðum málunum lá fyrir að væntanlegu feðurnir tveir voru líffræðilegir feður barnanna og bandarískir dómstólar höfðu viðurkennt með dómi að frönsku pörin væru í reynd foreldrar þeirra þriggja barna sem um ræddi. Þegar komið var til Frakklands neituðu yfirvöld að skrá börnin í þjóðskrá og franskir dómstólar vísuðu málum hjónanna frá þar sem samningar um staðgöngumæðrun væru ógildir enda stríddu þeir gegn allsherjarreglu ( ordre public).
    Í dómi undirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Mennesson gegn Frakklandi kemur fram að ríki hafi víðtækt svigrúm til mats þegar kemur að staðgöngumæðrun enda um erfitt siðferðilegt mál að ræða og skortur á samræmdri framkvæmd innan Evrópu. Niðurstaða dómsins var að ekki hefði verið brotið gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu hvað varðaði friðhelgi foreldranna til fjölskyldulífs, enda hefðu þau ekki sýnt fram á að erfiðleikar þeirra við skráningu barnanna væru óyfirstíganlegir eða komið hefði verið í veg fyrir að þau nytu fjölskyldulífs í reynd í Frakklandi. Dómurinn hélt því hins vegar fram að brotið hefði verið gegn 8. gr. hvað varðar rétt barnanna til friðhelgi einkalífs enda væri réttarstaða þeirra háð óvissu, t.d. hvað varðaði ríkisborgararétt og erfðarétt. Að auki hefðu frönsk stjórnvöld farið út fyrir það svigrúm til mats sem þau hefðu með því að neita að viðurkenna málsaðila sem líffræðilega feður barnanna og þar með hefðu hagsmunir barnanna ekki verið hafðir að leiðarljósi. Dómstóllinn komst að sömu niðurstöðu í máli Labassee gegn Frakklandi.
    Málavextir voru með nokkuð öðru sniði í nýjasta dómi undirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu á þessu sviði. 26 Í málinu reyndi á réttarstöðu ítalsks pars sem nýtti sér staðgöngumæðrun í Rússlandi þar sem það var skráð foreldrar barnsins á fæðingarvottorði. Ítölsk yfirvöld neituðu að staðfesta fæðingarvottorð barnsins. Mannerfðafræðileg rannsókn leiddi í ljós að maðurinn var ekki faðir barnsins þvert á væntingar þeirra. Í kjölfarið var barnið sem orðið var sex mánaða gamalt tekið frá þeim og komið í fóstur. Niðurstaða meiri hluta dómsins var sú að óháð líffræðilegum tengslum hefði stofnast fjölskyldulíf á þeim tíma sem parið annaðist barnið. Ítalska ríkið þótti ekki hafa fært nægilega skýr rök fyrir nauðsyn þess að fjarlægja barnið og var ákvörðunin því talin hafa brotið á rétti kærenda til friðhelgi fjölskyldulífs skv. 8. gr. mannréttindasáttmálans.
    Samkvæmt meginreglum alþjóðlegs einkamálaréttar eru erlendar ákvarðanir á sviði fjölskylduréttar viðurkenndar hér á landi nema þær brjóti gegn allsherjarreglu ( ordre public), þ.e. grunnreglum íslensks réttar eða almennu siðferði. Þar sem staðgöngumæðrun samkvæmt skilgreiningu tæknifrjóvgunarlaga hefur verið óheimil hér á landi hefur þótt eðlilegt að líta svo á að erlendar ákvarðanir um foreldrastöðu barns í tengslum við staðgöngumæðrun brjóti gegn allsherjarreglu.
    Í frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að leita eftir eða gera ráðstafanir til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laganna að viðlagðri refsingu. Þar sem í frumvarpinu er á hinn bóginn lagt til að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er líklegt að erlendir dómar og ákvarðanir um yfirfærslu á foreldrastöðu í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni muni ekki sjálfkrafa þykja stangast á við allsherjarreglu og verði því viðurkenndir hér á landi. Er nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni falið að úrskurða um foreldrastöðu barns sem fæðist í samræmi við erlend lög um staðgöngumæðrun. Gert er ráð fyrir að nefndin synji um staðfestingu hinnar erlendu ákvörðunar gangi hún gegn hagsmunum barnsins eða ef hún gengur í berhögg við grunnreglur íslensks réttar (allsherjarreglu). Hér á landi hafa dómstólar ekki fjallað um viðurkenningu erlendra ákvarðana um foreldrastöðu barns með hliðsjón af öðrum leiðum sem eru til þess fallnar að tryggja réttarstöðu og hagsmuni barnsins í íslenskum rétti. Í ljósi þess má gera ráð fyrir að nefndin viðurkenni ekki ákvörðun um foreldrastöðu barns ef augljóst þykir af málsatvikum að staðgöngumæðrunin hafi farið fram í hagnaðarskyni.
    Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um seinni tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (þingskjal 551 í 4. máli 140. löggjafarþings) segir: „Þá telur meiri hlutinn að með því að setja skýrar reglur um staðgöngumæðrun hér á landi dragi úr líkum á því að pör leiti til úrræða erlendis sem hugsanlega geti brotið í bága við alþjóðasáttmála um vernd barna eða fallið undir misnotkun á líkama og sál konu sem gengur með barn. Meiri hlutinn bendir á að nú þegar hafa íslensk pör leitað til staðgöngumæðra á erlendri grund og eru til dæmis þekkt dæmi um slíkt frá Indlandi.“ Í frumvarpinu er eins og áður sagði gert ráð fyrir að foreldrar geti fengið viðurkenningu á foreldrastöðu hafi staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni farið fram erlendis. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á lögum sem hafa það að markmiði að mæla fyrir um skráningu og réttarstöðu barna sem fæðast með aðstoð staðgöngumæðra erlendis þar sem greiðslur fara milli aðila. Þar sem í frumvarpinu er lagt til að leggja bann við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni yrði um leið mótsagnakennt að leggja til breytingar á lögum til að greiða götu fólks sem farið hefur til útlanda gagngert til að sniðganga bann við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni.

X. Samráð.
    Starfshópurinn hefur lagt áherslu á að leita víðtæks samráðs um gerð frumvarpsins. Verður hér tæpt á helstu atriðum þess. Á það skal einnig bent að við meðferð þingsályktunartillagnanna tveggja, sem áður hefur verið minnst á, var leitað umsagnar fjölmargra aðila um málið.
    Í júlí 2013 sendi starfshópurinn fyrirspurnarbréf til tæplega 40 hagsmunaaðila, þ.e. stjórnvalda, félagasamtaka, fyrirtækja, rannsóknarstofnana og ýmissa sérfræðinga sem með einum eða öðrum hætti láta sig varða málefni sem tengst geta staðgöngumæðrun. Í erindinu var ýmsum spurningum er varða hag og réttindi barnsins, staðgöngumóður og væntanlegra foreldra varpað fram, spurt var út í staðgöngumæðrun yfir landamæri, velgjörðar- og hagnaðarskyn, móðurhlutverkið og fleiri atriði. Svör bárust frá liðlega helmingi þeirra sem fengu erindið, eða 22 aðilum. Meiri hluti umsagnaraðila lýsti því yfir að rannsaka þyrfti frekar staðgöngumæðrun og mælti ekki með lögleiðingu staðgöngumæðrunar að svo stöddu. Þrátt fyrir þá skoðun gaf meiri hluti umsagnaraðila sér tíma til að svara fyrirspurnum starfshópsins með ítarlegum hætti þar sem bent var á fjölmörg gagnleg atriði.
    Í meiri hluta umsagnanna var lögð mikil áhersla á að hagsmunir barns væru ætíð í fyrirrúmi, virða ætti fullt sjálfræði staðgöngumóður og að ekki ætti að hrófla við þeirri grunnskilgreiningu að kona sem fæðir barn teljist ætíð móðir þess. Í því sambandi var einnig nefnt að ekki ætti að vera hægt að þvinga fram efndir samnings eða viljayfirlýsingar um staðgöngumæðrun. Margir umsagnaraðila nefndu að allir hlutaðeigandi ættu að eiga kost á ráðgjöf og stuðningi í gegnum allt ferlið og einhverjir lögðu til að sú þjónusta yrði ekki valkvæð heldur skyldubundin. Þónokkrir lögðu til að taka ætti mið af núgildandi ferli ættleiðinga og væntanlegir foreldrar og staðgöngumæður ættu að gangast undir hæfnismat áður en leyfi til staðgöngumæðrunar væri gefið út. Margir umsagnaraðila tiltóku að ættleiðing eða yfirfærsla á foreldrastöðu ætti að fara fram eftir fæðingu barns en aldrei fyrir fæðingu.
    Ítrekað kom fram í samráðsferlinu að virða ætti rétt barns til að þekkja uppruna sinn. Nokkrir umsagnaraðila nefndu að gera ætti breytingar á tæknifrjóvgunarlögum á þann veg að banna ætti nafnlausar kynfrumugjafir og var vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, í því tilliti. Margir lýstu áhyggjum yfir hættunni á staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og að hætta væri á að óeðlilegur þrýstingur yrði settur á konur sem eru nákomnar pari sem leitar að staðgöngumóður. Einhverjir bentu á að gera ætti kröfu um einhvers konar tengsl staðgöngumóður og væntanlegra foreldra til að koma í veg fyrir að greiðslur fyrir staðgöngumæðrun færu á milli aðila. Loks var á það bent að ekki væri hægt að útiloka karlpör í hjónabandi eða sambúð og einhleypa karlmenn frá úrræðinu vegna jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Sama gilti einnig um fatlað fólk. Af framangreindu má sjá að sjónarmið umsagnaraðila fara að mörgu leyti saman við leiðarljós Alþingis í þingsályktun um staðgöngumæðrun og hefur starfshópurinn leitast við að fara að ábendingum umsagnaraðila eins og kostur var við smíði frumvarpsins.
    Í janúar 2014 flutti heilbrigðisráðherra munnlega skýrslu á Alþingi um stöðu vinnu við frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni (sjá 446. B-mál á 143. löggjafarþingi, 29. janúar 2014, 59. þingfundur). Heilbrigðisráðherra fór meðal annars yfir leiðarljós þingsályktunarinnar frá 2012 og kynnti hugmyndir starfshópsins um val á löggjafarleið og útfærslu frumvarpsins. Í umræðu um skýrslu ráðherra fögnuðu þingmenn þeirri málsmeðferð ráðherra að kynna fyrir nýkjörnu Alþingi stöðu vinnu við frumvarpið og lýstu flestir þeirra sem tóku til máls yfir vilja til þess að sjá frumvarpið líta dagsins ljós.
    Starfshópurinn hefur í vinnu sinni fengið fjölmarga gesti á sinn fund. Má þar nefna Guðmund Arason og Þórð Óskarsson, lækna hjá Art Medica, Ástríði Stefánsdóttur, lækni og heimspeking, Helgu Sól Ólafsdóttur félagsráðgjafa, Þyrí Höllu Steingrímsdóttur, hrl. og fulltrúa innanríkisráðuneytisins, Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar. Þá átti starfshópurinn símafund með Karen Busby, lagaprófessor við Háskólann í Manitoba, en hún hefur meðal annars birt fræðigreinar um staðgöngumæðrun.
    Í byrjun október 2014 stóð starfshópurinn fyrir norrænni málstofu um staðgöngumæðrun með stuðningi velferðarráðuneytisins. Á fundinn mættu sérfræðingar allra Norðurlandanna á þessu sviði fyrir utan Noreg. Staða og þróun staðgöngumæðrunar á öllum Norðurlöndunum var tekin fyrir á fundinum og meginatriði draga að fyrirliggjandi frumvarpi voru kynnt. Miklar og gagnlegar umræður sköpuðust á fundinum og fjöldi ábendinga kom fram sem starfshópurinn hefur tekið afstöðu til. Telur starfshópurinn mikilvægt að tekist hafi að halda slíkan fund þar sem Ísland er lengst komið í lögleiðingu staðgöngumæðrunar af Norðurlöndunum. Ómetanlegt var að fá álit sérfræðinganna á fundinum en það er ekki síður þýðingarmikið að undirbúa nágrannaþjóðir okkar fyrir hugsanlega lögleiðingu úrræðisins hér á landi.
    Kynningarfundur um drög að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni var haldinn 12. nóvember 2014 að beiðni heilbrigðisráðherra. Var fulltrúum frá alls 40 opinberum aðilum, rannsóknastofnunum, félagasamtökum og fyrirtækjum boðið ásamt nokkrum sérfræðingum sem hafa látið sig mál þetta varða. Alls mættu rúmlega 30 manns á fundinn sem haldinn var í velferðarráðuneytinu. Fulltrúar frá eftirtöldum aðilum sátu fundinn: forsætisráðuneyti, velferðarráðuneyti, velferðarnefnd Alþingis, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Landspítala, Jafnréttisstofu, sýslumanninum í Reykjavík, Þjóðskrá Íslands, Tilveru – samtökum um ófrjósemi, Staðgöngu, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, embætti landlæknis, Ljósmæðrafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kvenréttindafélagi Íslands, Barnaheillum, Fæðingarorlofssjóði, Félagi íslenskra barnalækna, Útlendingastofnun, Art Medica og RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum. Helsta athugasemdin sem gerð var við frumvarpið varðaði kostnað við staðgöngumæðrunarferlið, þ.e. ráðgjöf, ferðakostnað, fæðingarorlof o.s.frv., og sérstaklega hver ætti að bera kostnað við þá ráðgjöf sem ferlið felur í sér. Einnig var nefnt að aldursmörk væntanlegra foreldra í frumvarpinu væru ekki í samræmi við tæknifrjóvgunarlög, spurt var út í efri mörk útlagðs kostnaðar staðgöngumóður, hvernig banni við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni verði framfylgt, athugasemdir voru gerðar við hugtakanotkunina afhending barns, spurt var um hvernig gengið yrði úr skugga um að barn verði upplýst fyrir sex ára aldur að það sé fætt af staðgöngumóður, óskað var skýringa á auglýsingabanni við staðgöngumæðrun, kallað eftir röksemdum fyrir því að maki staðgöngumóður verði talinn faðir eða foreldri barnsins og því velt upp hvort rétt væri að leggja afdráttarlaust bann við því að staðgöngumóðir leggi til kynfrumu í ljósi þess að það er áhættuminni meðganga en við fulla staðgöngumæðrun.
    Starfshópur um staðgöngumæðrun fór skipulega í gegnum þær athugasemdir sem bárust á kynningarfundinum. Ákvæði frumvarpsins um ráðgjöf var endurskoðað til að aðskilja ráðgjöf sem fer fram áður en leyfi til staðgöngumæðrunar er gefið út og ráðgjöf sem fer fram eftir útgáfu þess. Ákveðið var að leggja til nýtt ákvæði í frumvarpið um gjaldtöku vegna umsóknar um leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni vegna framkominna athugasemda um kostnað við staðgöngumæðrunarmeðferð. Ekki var talið tilefni til að aðhafast vegna athugasemdar um aldursmörk væntanlegra foreldra þar sem starfshópurinn telur að setja verði ákveðin mörk í þessu skyni til að tryggja barni þroskavænleg uppeldisskilyrði. Vísað er til nánari umfjöllunar við 9. gr. frumvarpsins vegna þessa. Að öðru leyti voru athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins útfærðar með ítarlegri hætti til að skýra nánar tiltekin atriði.
    Starfshópi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni var boðið á fund velferðarnefndar Alþingis 17. nóvember 2014 til að kynna drög að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og svara spurningum nefndarmanna um það.
    Opið umsagnarferli um drög að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hófst 18. nóvember 2014 þar sem drögin voru kynnt á vef velferðarráðuneytisins og áhugasömum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, Fjólu Dögg Blomsterberg og Kára Ragnarssyni, Fæðingarorlofssjóði, Guðnýju Ástu Ragnarsdóttur, dr. Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðingi, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum, Samtökunum 78, Staðgöngu – stuðningsfélagi staðgöngumæðrunar á Íslandi, starfshópi sem vinnur að flutningi stjórnsýsluverkefna til embætta sýslumanna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III við lög nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, Tilveru – samtökum um ófrjósemi, Útlendingastofnun og Þjóðskrá Íslands.
    Margar athugasemdanna sem bárust vörðuðu atriði sem nú eru útskýrð sérstaklega í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins. Efnislegar athugasemdir sem bárust í umsagnarferlinu og leiddu til breytinga á frumvarpinu eru teknar til sérstakrar umfjöllunar í skýringum við viðeigandi ákvæði. Algengustu athugasemdirnar vörðuðu skipun og störf nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, útfærslu og kostnað við veitingu ráðgjafar í tengslum við staðgöngumæðrun, takmörkun vegna skyldleika skv. 4. tölul. 8. gr. frumvarpsins, skilyrði er varða einhleypa skv. 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins, aldursskilyrði staðgöngumóður og væntanlegra foreldra, notkun kynfrumna skv. 10. gr. frumvarpsins, foreldrastöðu barns sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun skv. 26. gr., eftirlit með framkvæmd laganna, og þá sérstaklega útlögðum kostnaði, og gildistökuákvæði frumvarpsins.

XI. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu verður barnlausum einstaklingum og pörum gert kleift að nýta staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að eignast barn en hingað til hefur nýting úrræðisins með tæknifrjóvgun verið óheimil hér á landi. Í áfangaskýrslu vinnuhóps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun frá 2010 segir að líklega muni ekki fleiri en fimm pör eða einstaklingar hér á landi hafa þörf fyrir staðgöngumóður ár hvert. Er þá eingöngu miðað við tilvik þar sem kona getur ekki eignast barn af læknisfræðilegum ástæðum. 27 Ljóst er að um fleiri tilvik verður að ræða enda tekur frumvarpið einnig til karlmanna án tillits til hjúskaparstöðu eða kynhneigðar. Að auki verður að benda á að gera þarf ráð fyrir uppsafnaðri þörf í byrjun þar sem staðgöngumæðrun hefur verið óheimil á Íslandi. Hefur verið rætt um tíu tilvik í því sambandi. Óvissa ríkir þó um hvort nægilega margar staðgöngumæður muni taka þetta hlutverk að sér til að svara framangreindri þörf.
    Helstu áhrif á opinbera stjórnsýslu, verði frumvarpið að lögum, eru að sett verður á fót ný lögbundin nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem mun veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Einnig munu sýslumannsembætti og dómstólar fá aukin verkefni vegna yfirfærslu á foreldrastöðu barna sem alin eru af staðgöngumæðrum. Önnur minni háttar áhrif verða til dæmis skráningar hjá Þjóðskrá Íslands, eftirlit embættis landlæknis með heilbrigðisstofnunum sem framkvæma tæknifrjóvganir og afgreiðsla umsókna um fæðingarorlof og fæðingarstyrk hjá Fæðingarorlofssjóði. Gert er ráð fyrir að staðgöngumæðrunarmeðferðin sjálf verði framkvæmd hjá einu læknastofunni á Íslandi sem hefur leyfi til að framkvæma tæknifrjóvganir skv. 2. gr. tæknifrjóvgunarlaga, Art Medica.
    Helstu kostnaðarþættir frumvarpsins eru þrír. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ríkið beri kostnað af störfum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, þ.e. nefndarþóknunum, launum starfsmanns og aðstöðu nefndar og kostnað við aukin verkefni sýslumanna og dómstóla. Í öðru lagi er gert ráð fyrir auknum kostnaði ríkisins vegna fæðingarorlofs og/eða fæðingarstyrks staðgöngumóður, maka hennar og væntanlegra foreldra. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar greiði glasafrjóvgunarmeðferð hjá heilbrigðisstofnun og njóti þá greiðsluþátttöku ríkisins í meðferðinni eins og hún verður ákveðin á hverjum tíma. Væntanlegir foreldrar munu einnig þurfa að greiða gjald fyrir umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar vegna ráðgjafarferils og mats nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni samkvæmt gjaldskrá ráðherra. Um ferðakostnað umsækjenda um staðgöngumæðrun og greiðsluþátttöku ríkisins vegna þess fer samkvæmt almennum reglum.
    Önnur áhrif frumvarpsins eru að auka valmöguleika fólks, bæði para og einstaklinga, sem vilja eignast barn og hafa ekki haft tækifæri til þess með þeim úrræðum sem nú bjóðast. Sérstaklega eykur þetta möguleika karlmanna á Íslandi þar sem þeim verður heimilt að nýta sér staðgöngumæðrun til að eignast barn. Einnig er bent á að með frumvarpinu er réttur allra barna til að þekkja uppruna sinn tryggður þar sem lagt er til að banna nafnlausar kynfrumugjafir við tæknifrjóvgun. Ekki er talið að afnám nafnleyndar kynfrumugjafa muni hafa teljandi áhrif á eftirspurn eftir kynfrumugjöf. Hugsanlegt er að kynfrumugjöfum fækki eitthvað við breytinguna en framboð á þekktum kynfrumugjöfum hefur aukist síðastliðin ár.
    Í 16. gr. reglna nr. 11/2013 um starfshætti ríkisstjórnar segir að við undirbúning stjórnarfrumvarpa skuli þegar tilefni er til meta sértæk áhrif frumvarpa, m.a. áhrif frumvarpa á jafnrétti kynjanna. Starfshópur um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni leggur áherslu á að með frumvarpinu sé viðurkennt að óskir kvenna og karla um að eignast og annast barn séu að öllu leyti sambærilegar. Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að stuðla að jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna möguleika einstaklinga til að þroska hæfileika sína óháð kyni. Gengið er út frá því að foreldrahæfni sé óháð kyni eða kynhneigð og með því unnið gegn staðalímyndum um hlutverk karla og kvenna. Tillit til jafnréttissjónarmiða endurspeglast einnig í eftirfarandi atriðum. Gerðar eru samsvarandi kröfur um hámarksaldur beggja væntanlegra foreldra og með því reynt að tryggja sameiginlega ábyrgð þeirra og að barn sem fæðist muni njóta stuðnings þeirra beggja. Lögð er rík áhersla á að einstaklingar í hjónabandi eða sambúð standi ætíð saman að ákvörðunum er tengjast staðgöngumæðrun. Ákvarðanir sem þessar hafa bein áhrif á fjölskyldulíf fólks óháð kyni eða kynhneigð, er því gert ráð fyrir upplýstu samþykki allra aðila og í athugasemdum við 13. gr. er tekið fram um rétt hvers og eins til að hætta við án þess að þurfa að rökstyðja þá ákvörðun. Sérstök áhersla er lögð á afstöðu hvers og eins eftir fæðingu barnsins og aðilum gert kleift að bera mál undir dómstóla. Með afdráttarlausu lagaákvæði um hvernig hægt verði að standa að yfirfærslu á foreldrastöðu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar er komið í veg fyrir að væntanlegir feður geti viðurkennt faðerni barns eða höfðað faðernismál og þannig staðið betur að vígi en væntanlegar mæður sem hafa aldrei slík úrræði.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla frumvarpsins er að finna almenn ákvæði eins og markmiðsákvæði, gildissvið frumvarpsins og skilgreiningu sex hugtaka. Í kaflanum er einnig að finna grundvallarákvæði frumvarps til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni um hagsmuni barns og staðgöngumóður sem og reglur um þá aðila sem helst munu koma að framkvæmd staðgöngumæðrunar; nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og heilbrigðisstofnun sem framkvæmir tæknifrjóvgunina.

Um 1. gr.


    Markmiðsákvæði laganna endurspeglar orðalag þingsályktunar nr. 3/140 um staðgöngumæðrun þar sem segir að við vinnu að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði „… m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra.“ Við túlkun laganna ber því að hafa í huga þessa forgangsröðun hagsmuna.

Um 2. gr.


    Lagt er til að gildissvið laganna verði afmarkað við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eins og hugtökin eru skilgreind í frumvarpinu. Þetta er í samræmi við það leiðarljós sem lagt var upp með í þingsályktun nr. 3/140 um að gera ætti skýran greinarmun á hagnaði og velgjörð í þessu samhengi og eingöngu að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Skv. 2. mgr. 30. gr. frumvarpsins er staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni bönnuð að viðlagðri refsingu skv. 34. gr. Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni vekur mun erfiðari siðferðilegar spurningar en staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Helstu rök gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni eru þau að börn séu þar með gerð að söluvöru, að staðgöngumæður séu notaðar í þágu markmiða sem ekki eru þeirra eigin, að staðgöngumóðir selji aðgang að líkama sínum og að bæði hún og barnið séu hlutgerð. 28 Öll þessi rök skírskota beint til þess að staðgöngumæðrunin er í formi viðskipta gegn greiðslu og eiga því ekki við um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Um 3. gr.


    Sex grundvallarhugtök eru skilgreind í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er jafnhliða lagt til að skilgreiningu á hugtakinu staðgöngumæðrun í tæknifrjóvgunarlögum verði breytt.
    Í 1. tölul. er skilgreining á hugtakinu staðgöngumæðrun. Í 1. gr. tæknifrjóvgunarlaga er staðgöngumæðrun nú skilgreind sem tæknifrjóvgun framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu. Lagt er til í frumvarpinu að staðgöngumæðrun verði skilgreind sem tæknifrjóvgun framkvæmd á staðgöngumóður sem hefur fallist á að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra enda hyggst staðgöngumóðirin afhenda barnið væntanlegum foreldrum eftir fæðingu þess og þau hafa skuldbundið sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga.
    Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. tæknifrjóvgunarlaga er glasafrjóvgun skilgreind sem aðgerð þegar eggfruma, sem numin hefur verið úr líkama konu, er frjóvguð með sæðisfrumu utan líkamans. Þar sem óheimilt verður að nota kynfrumur staðgöngumóður skv. 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins (og skylt verður að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra) er ljóst að staðgöngumæðrun samkvæmt lögunum verður ávallt framkvæmd með aðferð glasafrjóvgunar og telst þá vera svokölluð full staðgöngumæðrun. Þar sem lögunum er eingöngu ætlað að gilda um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sbr. 2. gr. laganna, er óþarft að taka það fram í skilgreiningu á staðgöngumæðrun. Eitt hugtaksskilyrða er að staðgöngumóðir hafi í hyggju að afhenda barnið væntanlegum foreldrum sem hafa skuldbundið sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins í samræmi við ákvæði barnalaga þar um. Mikilvægt er að forsendur og ætlan allra aðila sé skýr frá upphafi. Sérstaklega er mikilvægt að væntanlegir foreldrar lýsi sig skilyrðislaust reiðubúna til að takast á við það hlutverk að verða foreldrar barns sem staðgöngumóðirin mun ala.
    Í 2. tölul. er staðgöngumóðir skilgreind sem einstaklingur sem óskar eftir leyfi nefndar um staðgöngumæðrun skv. 6. gr. til að takast á hendur staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Skv. 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar og staðgöngumóðir og maki hennar séu öll umsækjendur um leyfi til staðgöngumæðrunar. Hugtakið staðgöngumóðir er því notað frá því að umsókn kemur fram og allt þar til barn fæðist í kjölfar staðgöngumæðrunar. Í frumvarpinu er gengið út frá þeirri grunnskilgreiningu að sú kona sem elur barn telst móðir þess og er það í samræmi við þann vilja Alþingis að hrófla ekki við grunnskilgreiningu laga um móðurhugtakið, eins og fram kemur í lögskýringargögnum með þingsályktun um staðgöngumæðrun. Er því gert ráð fyrir að staðgöngumóðirin verði móðir barnsins og maki hennar faðir eða foreldri barnsins frá og með fæðingu þess og þar til yfirfærsla á foreldrastöðu fer fram. Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um þau skilyrði sem staðgöngumóðir og maki hennar þurfa að uppfylla vegna staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.
    Skilgreiningu staðgöngumóður var breytt í kjölfar athugasemda sem bárust í umsagnarferli um frumvarpsdrög síðla árs 2014 þannig að staðgöngumóðir er skilgreind sem einstaklingur, en ekki sem kona, sem óskar eftir leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í ljósi örrar þróunar réttinda ýmissa hópa hinsegin fólks þykir ekki rétt að útiloka að einstaklingur sem gengið hefur í gegnum kynleiðréttingarferli, sbr. lög nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, geti tekið að sér hlutverk staðgöngumóður ef viðkomandi einstaklingur er með leg. Að þessu sögðu þykir orðið „staðgöngumóðir“ hafa unnið sér sess þegar málefni staðgöngumæðrunar eru til umfjöllunar svo lagt er til að sú orðanotkun haldi sér. Þá er ekki gert ráð fyrir að breyta þeirri hugtakanotkun að sá sem fæðir barn verði talinn móðir barnsins, sbr. 6. gr. barnalaga.
    Í 3. tölul. eru væntanlegir foreldrar skilgreindir sem hjón, sambúðarfólk eða einstaklingar sem óska eftir leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að taka við og annast barn sem tiltekin staðgöngumóðir elur og skuldbinda sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga. Væntanlegir foreldrar geta verið hjón eða sambúðarfólk eða einhleypir einstaklingar. Í 9. gr. frumvarpsins er fjallað um þau skilyrði sem væntanlegir foreldrar þurfa að uppfylla. Af skilgreiningunni leiðir að hugtakið er notað frá því að umsókn er lögð fram og allt þar til gengið er formlega frá yfirfærslu á foreldrastöðu barns. Samkvæmt skilgreiningunni skuldbinda væntanlegir foreldrar sig, frá því að umsókn um leyfi er lögð fram, til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu og er þannig reynt að koma í veg fyrir þær aðstæður að enginn vilji annast barn sem alið er af staðgöngumóður. Strangari kröfur eru gerðar að þessu leyti til væntanlegra foreldra en staðgöngumóður, sem þarf ekki að skuldbinda sig fyrir fram til þess að afhenda barn sem hún mun ala, enda eru það væntanlegir foreldrar sem hefja staðgöngumæðrunarferlið. Ekki er um lagalega skuldbindingu að ræða heldur siðferðilega skuldbindingu fólks sem óskar eftir að eignast barn með aðstoð staðgöngumóður.
    Í 4. tölul. er hugtakið velgjörðarskyn skilgreint út frá vilja staðgöngumóður, þ.e. þegar vilji staðgöngumóður stendur til þess að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra af fúsum og frjálsum vilja og án þess að þiggja peningagreiðslu eða aðra umbun að launum umfram endurgreiðslu á útlögðum kostnaði hennar sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barns. Það verður hlutverk nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni að tryggja að skilyrðum staðgöngumæðrunar samkvæmt lögunum verði fullnægt, þ.m.t. að ganga úr skugga um að vilji konu til að gerast staðgöngumóðir samrýmist markmiðum frumvarpsins, sbr. 1. mgr. 18. gr. frumvarpsins. Um endurgreiðslu á útlögum kostnaði staðgöngumóður er fjallað í 17. gr. frumvarpsins en gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um þessar heimildir skv. 4. tölul. 37. gr. Fari greiðslur út fyrir þessar heimildir má líta svo á að staðgöngumæðrunin fari þá fram í hagnaðarskyni sem er bannað skv. 2. mgr. 30. gr. frumvarpsins og refsivert skv. 34. gr.
    Í 5. tölul. er hugtakið hagnaðarskyn einnig skilgreint út frá vilja staðgöngumóður og þá þegar vilji hennar stendur til þess að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra af fúsum og frjálsum vilja gegn því að peningagreiðsla eða önnur umbun renni til hennar eða aðila sem eru henni nákomnir. Eins og sjá má nær skilgreiningin einnig til þess að aðili eða aðilar nákomnir staðgöngumóður taki við greiðslu eða umbun í tengslum við staðgöngumæðrun og er þá til dæmis átt við maka staðgöngumóður, börn hennar, skyldmenni eða aðra aðila þannig að staðgöngumóðir njóti beins fjárhagslegs ávinnings.
    Í 6. tölul. er yfirfærsla á foreldrastöðu skilgreind sem staðfesting sýslumanns eða dómara um að barn öðlist sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum eins og væri þeirra eigið barn og um leið falli niður lagatengsl barnsins við staðgöngumóður og maka hennar. Eins og áður hefur komið fram telst staðgöngumóðirin móðir barnsins og maki hennar faðir eða foreldri barnsins þar til yfirfærsla á foreldrastöðu til væntanlegra foreldra fer fram, sbr. IV. kafla frumvarpsins. Samkvæmt breytingum á barnalögum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, sbr. 40. gr., getur yfirfærsla á foreldrastöðu barns frá staðgöngumóður og maka hennar til væntanlegra foreldra farið fram með staðfestingu sýslumanns eða með dómi sem hefur réttaráhrif frá fæðingu barnsins.
    Í 2. mgr. 3. gr. segir að skilgreiningar hugtaka í 1. gr. laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna gildi eftir því sem við á. Er hér átt við hugtökin tæknifrjóvgun sem merkir getnað sem verður í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun, glasafrjóvgun sem merkir aðgerð þegar eggfruma, sem numin hefur verið úr líkama konu, er frjóvguð með sæðisfrumu utan líkamans, kynfrumur sem eru eggfrumur og sæðisfrumur og fósturvísir sem er frjóvgað egg á öllum þroskastigum þess, allt frá því að það er frjóvgað með sæðisfrumu og þar til það kemst á fósturstig.

Um 4. gr.


    Hér er fjallað um hagsmuni barns. Er þetta í samræmi við markmið frumvarpsins um að fyrst og fremst skuli tryggja hag og réttindi barnsins sem fæðist eftir staðgöngumæðrun og einnig er höfð hliðsjón af 3. og 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Hér er að finna grunnskilyrði þess að veita megi leyfi til staðgöngumæðrunar. Eins og sjá má af 8. og 9. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um frekari skilyrði sem staðgöngumóðir og maki hennar og væntanlegir foreldrar þurfa að uppfylla, sem og III. kafla frumvarpsins um meðferð og úrlausn mála um staðgöngumæðrun, er reynt að tryggja að hagir og aðstæður allra aðila séu eins og best verður á kosið til að ætla megi að barnið sem til verður muni alast upp við þroskavænleg uppeldisskilyrði.
    Ákvörðun um að veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni felur í sér ráðagerð um ráðstöfun á lífi og réttarstöðu barns til frambúðar. Eigi hagsmunir barnsins að vera í fyrirrúmi verða stjórnvöld að tryggja eins og framast er unnt að barni sem til verður séu búnar bestu mögulegu aðstæður með hliðsjón af því hvernig mál kunni að verða til lykta leidd. Er því nauðsynlegt að kanna annars vegar hagi og aðstæður staðgöngumóður og maka hennar enda gæti komið til þess að þau veittu ekki samþykki sitt eftir fæðingu barns og yfirfærsla á foreldrastöðu yrði ekki talin barninu fyrir bestu, og hins vegar væntanlegra foreldra sem ráðgert er að taki við foreldrastöðu barnsins.
    Samkvæmt 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, ber að tryggja eftir fremsta megni að barn fái að lifa og þroskast við örugg, uppbyggjandi og þroskavænleg skilyrði. Flestir eru sammála um nokkur lykilsjónarmið sem þykja til þess fallin að tryggja börnum þroskavænlegar uppeldisaðstæður. Börn hafi þannig meðal annars þörf fyrir trygga umönnun, jákvæð tengsl, stöðugleika og öryggi. Til að tryggja að barn, sem til verður við staðgöngumæðrun, alist upp við bestu mögulegu aðstæður er mikilvægt að kanna andlega og líkamlega heilsu allra aðila, sem og fjárhagsstöðu og félagslegar aðstæður, svo að hægt sé að meta hvort þessir aðilar geti uppfyllt skyldur sínar sem foreldrar. Umsækjendur skulu í fyrsta lagi vera svo andlega og líkamlega heilsuhraustir að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að þörfum barns sem verður til við staðgöngumæðrun sé mætt. Því mega umsækjendur ekki vera haldnir sjúkdómi eða þannig á sig komnir að það dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma þar til barn verður sjálfráða, eða minnki möguleika þeirra til að annast vel um barn . Í öðru lagi skal efnahagur umsækjenda vera traustur. Ganga verður úr skugga um að fjárhagsstaða allra aðila sé trygg til að forðast að fjárhagslegir hagsmunir hafi áhrif á ákvarðanir sem teknar verða. Einnig verður að tryggja að allir umsækjendur búi við traustan fjárhag þannig að þeir geti séð fyrir fjölskyldu með fullnægjandi hætti til frambúðar og boðið upp á öruggar aðstæður að þessu leyti. Við mat á þessu skilyrði verður meðal annars höfð hliðsjón af skattframtölum umsækjenda, sbr. 1. tölul. 12. gr. frumvarpsins. Í þriðja lagi kemur fram að umsækjendur skuli búa við góðar félagslegar aðstæður. Almennt má segja um þetta skilyrði að gerð sé meðal annars krafa um að umsækjendur búi við stöðugleika og fyrirsjáanleika hvað varðar parsamband þeirra og atvinnuaðstæður, hafi yfir að ráða fullnægjandi húsnæði og öðrum aðbúnaði og njóti góðs tengslanets ættingja og vina.
    Samkvæmt 12. gr. frumvarpsins skulu umsækjendur um leyfi til staðgöngumæðrunar (staðgöngumóðir og maki hennar, ef við á, og væntanlegu foreldrarnir) láta fylgja með umsókn upplýsingar um heilsufar, fjárhagsstöðu, húsnæðisstöðu og annan aðbúnað og getu til að veita barni þroskavænleg uppeldisskilyrði. Skv. 18. gr. skal nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni meta hvort hagsmunir barns verði tryggðir og öllum skilyrðum staðgöngumæðrunar samkvæmt frumvarpinu fullnægt. Þetta mun nefndin meðal annars gera með athugun framangreindra gagna auk þess sem gert er ráð fyrir að fram fari sérstök könnun á högum og aðstæðum umsækjenda, í samræmi við nánari útfærslu í reglugerð, sbr. 3. tölul. 37. gr. frumvarpsins. Árétta ber að ekki er talið gerlegt að útfæra skilyrði um heilsufar, félagslegar aðstæður, húsnæðisstöðu og fjárhagsstöðu umsækjenda með tæmandi hætti í lögum eða reglugerð enda er hér um að ræða matskennd skilyrði.

Um 5. gr.


    Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun, þar sem vitnað er til fyrri málsmeðferðar á þinginu um sama efni (þingskjal 551 í 4. máli 140. löggjafarþings), segir: „Ekkert samkomulag getur tekið frá konu þann skýlausa rétt að ráða yfir eigin líkama. Á meðgöngunni geta komið upp fjölmargir ófyrirséðir þættir sem ekki er mögulegt að semja um fyrir fram. Það er mikilvægt að standa vörð um rétt staðgöngumóðurinnar yfir þeim ákvörðunum sem taka þarf á meðgöngu og í fæðingarferlinu öllu án íhlutunar annarra.“
    Í samræmi við forgangsröðun hagsmuna í þingsályktun nr. 3/140 og 1. gr. frumvarpsins er tiltekið í 5. gr. frumvarpsins að staðgöngumóðir hafi fullt sjálfræði um allar ákvarðanir tengdar meðgöngu og fæðingu. Það er því staðgöngumóðirin sem tekur ákvörðun um hvaða heilbrigðisþjónustu hún þiggur á meðgöngu, t.d. fósturskimun, legvatnsástungu og þess háttar, hvort hún láti eyða fóstri, hvernig hún hagar lífi sínu á meðgöngunni, hvernig fæðingu barnsins verður háttað. Þrátt fyrir að við leyfisveitingu sé gert ráð fyrir þeirri ætlan staðgöngumóður, og maka eftir atvikum, að láta barnið af hendi er einnig gert ráð fyrir sérstöku samþykki þeirra fyrir yfirfærslu á foreldrastöðu að liðnum tilteknum tíma eftir fæðingu barnsins. Skv. 13. gr. frumvarpsins er umsækjendum um leyfi til staðgöngumæðrunar gert skylt að gangast undir viðamikla ráðgjöf áður en sjálft leyfið er veitt og í kjölfarið ber þeim að ganga frá gagnkvæmri viljayfirlýsingu skv. 16. gr. frumvarpsins. Einnig gangast umsækjendur undir sérstakt hæfnismat fagaðila skv. 18. gr. á vegum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þessi grundvallaratriði eru til þess fallin að fyrirbyggja ágreiningsmál á síðari stigum. Skv. 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir að staðgöngumóðir og væntanlegir foreldrar hitti ráðgjafa að lágmarki tvisvar sinnum á meðan á tæknifrjóvgunarmeðferð og meðgöngu staðgöngumóður stendur. Komi upp ágreiningur milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra í ferlinu er gert ráð fyrir að þarna skapist aðstæður til að finna ásættanlegar lausnir. Árétta ber að ekki er gert ráð fyrir í frumvarpinu að úrskurðað verði um ágreiningsefni sem geta komið upp milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra enda kemur skýrt fram í 5. gr. að staðgöngumóðir hafi fullt sjálfræði um allar ákvarðanir tengdar meðgöngu og fæðingu.
    Gert er ráð fyrir að staðgöngumóðir njóti sömu þjónustu og aðrar þungaðar konur, svo sem mæðraverndar og annarrar heilbrigðisþjónustu. Óþarft er að breyta lögum eða reglugerðum á sviði sjúkratrygginga sérstaklega vegna þessa þar sem staðgöngumóðir telst móðir þess barns sem hún gengur með og nýtur allrar almennrar þjónustu eins og aðrar þungaðar konur. Loks er gert ráð fyrir að staðgöngumóðir njóti tiltekins réttar til fæðingarorlofs samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 23. og 41. gr. frumvarpsins. Í síðarnefnda ákvæðinu er tiltekið að móðir og maki hennar eigi sameiginlegan rétt til tveggja mánaða fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks afhendi þau væntanlegum foreldrum barnið eftir fæðingu þess. Afhendi þau ekki barnið á staðgöngumóðir, og maki hennar ef við á, sama rétt og aðrir foreldrar til töku fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks, þ.e. þrjá mánuði hvort um sig og þrjá mánuði sameiginlega.

Um 6. gr.


    Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (þingskjal 551 í 4. máli 140. löggjafarþings) segir: „Meiri hlutinn telur mikilvægt að sérstök nefnd skipuð fjölbreyttum hópi fagfólks skoði ekki aðeins ítarlega forsendur umsóknarinnar heldur einnig aðstæður bæði parsins sem óskar eftir barninu sem og staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og veiti leyfi fyrir staðgöngumæðrun. Án slíks leyfis verði fólki ekki unnt að nýta sér staðgöngumæðrun. Enn fremur áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að verði frumvarp um staðgöngumæðrun samþykkt megi sá aðili sem framkvæmir tæknifrjóvgunina ekki vera sá sami og veitir eða fjallar um slíka leyfisveitingu.“ Í frumvarpsgreininni er fjallað um skipan, hlutverk og störf nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samræmi við framangreind tilmæli Alþingis. Vakin er athygli á því að ekki er til staðar í dag sérstök nefnd sem veitir leyfi til tæknifrjóvgunar eða notkunar kynfrumna og það er ekki í verkahring þessa starfshóps að fjalla um þörf á slíku. Úrræðið staðgöngumæðrun þykir siðferðilega flóknara og vandasamara en sú tæknifrjóvgunarmeðferð sem framkvæmd er í dag sem getur réttlætt vandaðri málsmeðferð að þessu leyti.
    Lagt er til í 1. mgr. að ráðherra skipi þriggja manna nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til fjögurra ára í senn þar sem einn nefndarmanna verði lögfræðingur og skal hann vera formaður, annar læknir og þriðji sálfræðingur eða félagsráðgjafi. Skal þess gætt að nefndarmenn hafi sérþekkingu á þeim málefnum sem nefndin fjallar um, t.d. þörfum og þroska barna, réttindum og skyldum foreldra, andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu, ófrjósemi, kvensjúkdóma- og fæðingarfræðum og þess háttar.
    Hlutverki nefndarinnar er lýst í 2. mgr. Þar segir í fyrsta lagi að nefndin veiti leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni en í því felst að nefndin metur hvort öllum lagaskilyrðum er fullnægt. Í öðru lagi er það hlutverk nefndarinnar að tryggja umsækjendum um staðgöngumæðrun faglega ráðgjöf sérfræðinga, sbr. 13. gr. frumvarpsins. Í þriðja lagi skal nefndin úrskurða um foreldrastöðu barns sem fæðist í samræmi við erlend lög um staðgöngumæðrun skv. 26. gr. frumvarpsins. Í fjórða lagi ber nefndinni að skila ráðherra árlega skýrslu um störf sín. Loks getur ráðherra falið nefndinni fleiri verkefni sem tengjast staðgöngumæðrun. Til að tryggja nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni viðunandi starfsskilyrði er nauðsynlegt að leggja henni til almennan starfsmann sem aðstoðar hana í daglegum störfum sínum. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður standi undir þóknun nefndarmanna og kostnaði vegna almenns starfsmanns, aðseturs nefndarinnar og fleira. Um kostnað vegna ráðgjafar og mats á hæfi vísast til umfjöllunar um 36. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Í greininni er lagt til að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði einungis framkvæmd á heilbrigðisstofnunum (eða læknastofum) sem fengið hafa leyfi ráðherra til að framkvæma tæknifrjóvganir. Er fyrirmynd ákvæðisins að finna í 1. mgr. 2. gr. tæknifrjóvgunarlaga. Á Íslandi er einungis um eina heilbrigðisstofnun að ræða sem hefur leyfi ráðherra til að framkvæma tæknifrjóvganir og er það Art Medica. Áður en til staðgöngumæðrunar kemur er það einnig hlutverk heilbrigðisstofnunarinnar, sbr. 2. mgr. 7. gr., að veita nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni umsögn vegna umsóknar um staðgöngumæðrun, sjá einnig 14. gr. frumvarpsins. Í 3. mgr. er síðan áréttað að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, eins og hún er skilgreind í frumvarpinu, megi aðeins framkvæma að fengnu leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, að viðlagðri refsingu skv. 34. gr. frumvarpsins.

Um II. kafla.


    Í öðrum kafla frumvarpsins er fjallað um skilyrði staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni fyrir staðgöngumóður, maka hennar ef við á, og væntanlega foreldra og loks skilyrði er varða notkun kynfrumna og fósturvísa. Eru þau skilyrði sem tiltekin eru í II. kafla til viðbótar við skilyrði 4. gr. frumvarpsins, þ.e. að ekki megi veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni nema sýnt þyki eftir könnun á högum og aðstæðum staðgöngumóður og maka hennar að andleg og líkamleg heilsa, fjárhagsstaða og félagslegar aðstæður þeirra séu góðar og að ætla megi að barnið sem til verður muni búa við þroskavænleg uppeldisskilyrði. Uppfylla þarf skilyrðin þegar umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar er lögð fram hjá nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sbr. 11. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Hér er vikið að níu skilyrðum er varða staðgöngumóður og maka hennar sem eru til viðbótar þeim skilyrðum sem 4. gr. frumvarpsins setur. Skv. 1. tölul. skulu staðgöngumóðir og maki hennar, ef við á, vera lögráða. Eðlilegt er að staðgöngumóðir og maki hennar séu sjálfráða og fjárráða til að takast á hendur þær skyldur sem fylgja staðgöngumæðrun.
    Samkvæmt 2. tölul. skal staðgöngumóðir eiga lögheimili og hafa haft samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu fimm árin fyrir umsókn. Rök sem liggja að baki framangreindu skilyrði um lögheimili og dvöl hér á landi eru fyrst og fremst þau að á meðan staðgöngumæðrun er enn þá einungis viðurkennd í lögum fárra ríkja sé rétt að krefjast þess að aðilar hafi ákveðin tengsl við ríki sem tryggir slík réttindi með lögum. Einnig er ljóst að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ætti erfitt um vik við að meta skilyrði 4. gr. ef einstaklingar eru búsettir erlendis eða nýlega fluttir hingað til lands. Þá þykir mikilvægt að koma í veg fyrir að einstaklingur sem búsettur er í öðru ríki verði fenginn hingað til lands til að undirgangast staðgöngumæðrun þar sem aukin hætta þykir á að slíkur einstaklingur mundi ákveða að fara úr landi meðan á meðgöngu stæði eða eftir fæðingu barns sem gæti stefnt réttarstöðu barns og hagsmunum þess í hættu. Gert er ráð fyrir að staðgöngumóðir leggi fram vottorð frá Þjóðskrá Íslands til að sýna fram á að hún hafi verið skráð með lögheimili í skilningi laga nr. 21/1990, um lögheimili, í fimm ár. Ef um erlenda ríkisborgara er að ræða þá er, auk skilyrðisins um lögheimili og löglega dvöl, einnig gert ráð fyrir að viðkomandi hafi búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar á Íslandi samkvæmt lögum nr. 96/2002, um útlendinga. Nauðsynlegt þykir að koma í veg fyrir að dvalarleyfi staðgöngumóður kunni að renna út meðan á ferlinu stendur og mikilvægt að draga úr líkum á að staðgöngumóðir fari eða verði vísað úr landi sem og að hún sé háð væntanlegum foreldrum um lögmæta dvöl í landinu. Skv. 2. málsl. 2. tölul. er nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimilt að víkja frá skilyrði 2. tölul. þegar sérstaklega stendur á. Þetta undanþáguákvæði getur einkum átt við í tilfelli íslensks ríkisborgara sem dvalið hefur langdvölum erlendis við nám eða störf, en flyst síðan búferlum til landsins og vill gerast staðgöngumóðir áður en full fimm ár eru liðin. Með framangreindum skilyrðum er tryggt að staðgöngumóðir sé alltaf sjúkratryggð samkvæmt lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
    Í 3. tölul. er gerð krafa um samþykki staðgöngumóður og maka hennar, ef hann er til staðar, fyrir staðgöngumæðrun. Óþarft er að fjölyrða um nauðsyn þess að fyrir liggi skýrt og skriflegt samþykki þessara aðila fyrir staðgöngumæðrun enda verða þau foreldrar barnsins við fæðingu þess. Einnig er gerð sú krafa að sambúð hafi varað í að minnsta kosti þrjú ár og þar af hjúskapur eða skráð sambúð í eitt ár hið minnsta. Skilyrði er varðar sambúðartíma staðgöngumóður og maka er sett til að tryggja stöðugleika og auka líkur á samstöðu þeirra og gagnkvæmum stuðningi til að gera þeim kleift að takast á við það álag sem staðgöngumæðrun getur valdið. Þá er nauðsynlegt að góð reynsla sé komin á sambandið ef til þess kemur að ekki verði af yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins eftir fæðingu.
    Í 4. tölul. er gert ráð fyrir að staðgöngumóðir eða maki hennar megi ekki vera systir eða bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu skv. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Tilgangur þessa ákvæðis er að gæta ákveðinnar varfærni. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að koma í veg fyrir óæskilegan þrýsting sem talið er líklegra að geti skapast milli blóðtengdra aðila en þegar slík tengsl eru ekki fyrir hendi. Í öðru lagi verður að taka tillit til þess að staðgöngumæðrun skapar vissa spennu þegar kemur að hugtökunum móðir og faðir. Þannig ber að forðast þá stöðu að staðgöngumóður, sem hugsanlega verður móðir barns til frambúðar, finnist hún til dæmis ganga með og eiga barn móður sinnar, föður síns eða bróður sem lagði fram kynfrumu og sem jafnframt gæti litið á sig sem einhvers konar foreldri barnsins. Þess má geta að í umsagnarferli um frumvarpsdrög sem fór fram síðla árs 2014 voru skiptar skoðanir um þetta skilyrði. Annars vegar var bent á að ekki væri nógu langt gengið og lagt til að skilyrðið yrði útvíkkað þannig að skyldleiki staðgöngumóður og maka hennar yrði bannaður við báða væntanlega foreldra, en ekki eingöngu það væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu. Hins vegar var lagt til að skilyrðið félli brott þar sem fagfólk mæli með því að náin fjölskyldu- eða vinatengsl séu á milli aðila og eðlilegt væri að þetta kæmi til skoðunar í hæfnismati á umsækjendum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Starfshópurinn ákvað að skilyrðið skyldi vera óbreytt þar sem með því væri farinn ákveðinn millivegur milli þess að útiloka ekki alla ættingja væntanlegra foreldra og þess að gera nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og ráðgjafa á hennar vegum að axla ábyrgð á því hvernig skuli fara með þessi vandasömu tilvik.
    Samkvæmt 5. tölul. skal staðgöngumóðir hafa náð 25 ára aldri og er þessi lágmarksaldur settur til að hún hafi náð ákveðnum þroska sem auðveldi henni að taka ákvörðun um hvort hún geti tekið þetta hlutverk að sér. Í ákvæðinu er lagt til að staðgöngumóðir sé ekki eldri en 39 ára þegar umsókn er lögð fram og hún verði þá að jafnaði ekki mikið eldri en 40–41 árs þegar kemur að fæðingu barnsins. Nauðsynlegt þykir að draga sem allra mest úr þeirri áhættu að nokkuð geti farið úrskeiðis við staðgöngumæðrun. Jafnvel þó að konur eldri en 40 ára eigi börn í einhverjum mæli með eðlilegum hætti þá er hafið yfir vafa að ýmsir óvissuþættir eru líklegri til að vera til staðar við framkvæmd tæknifrjóvgunar eftir því sem konan er eldri.
    Samkvæmt 6. tölul. skal staðgöngumóðir eiga að baki fæðingu að minnsta kosti eins fullburða barns eftir eðlilega meðgöngu og fæðingu. Er það samdóma álit sérfræðinga og umsagnaraðila að nauðsynlegt sé að kona eigi barn fyrir áður en hún tekur ákvörðun um hvort hún taki að sér hlutverk staðgöngumóður. Einnig er nauðsynlegt að hún hafi ekki á fyrri meðgöngu þjáðst af alvarlegum meðgöngusjúkdómum eða fylgikvillum eða átt í verulegum erfiðleikum með fæðingu. Ákveðið var að ganga ekki svo langt að setja sem skilyrði að staðgöngumóðir hafi eignast þau börn sem hún vill eignast, þ.e. lokið barneignum. Bent var á í samráðsferli árið 2013 að nauðsynlegt væri að staðgöngumóðir ætti fyrir eitt barn og að hún hefði forsjá þess. Ekki er vikið berum orðum að þessu í ákvæði 8. gr. þar sem í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um bakgrunnsathugun á félagslegum aðstæðum staðgöngumóður. Verður að telja að ef kona hefur alið barn, misst forsjá þess en vilji síðar gerast staðgöngumóðir, vakni spurningar í staðgöngumæðrunarferlinu.
    Samkvæmt 7. tölul. er það gert að skilyrði að staðgöngumóðir hafi andlega og líkamlega burði og fullnægjandi heilsu til að takast á við það álag sem fylgir staðgöngumæðrun, meðgöngu og fæðingu barns. Tekið skal mið af því að ekki megi búast við skaðlegum áhrifum meðgöngu eða fæðingar á staðgöngumóður eða barn með hliðsjón af almennum læknisfræðilegum og fæðingarfræðilegum viðmiðum. Fyrirmynd ákvæðisins er sótt í c-lið 1. mgr. 3. gr. tæknifrjóvgunarlaga, sbr. lög nr. 54/2008.
    Í 8. tölul. er gerð krafa um að liðin séu að lágmarki tvö ár frá fæðingu barns staðgöngumóðurinnar og að síðasta meðganga hennar hafi ekki endað með fósturmissi eftir fyrsta þriðjung meðgöngunnar eða fæðingu andvana barns. Með þessu skilyrði er reynt að tryggja að viðkomandi sé í andlegu jafnvægi til að taka ákvörðun um hvort hún taki að sér að vera staðgöngumóðir og hún sé í stakk búin til að fara í gegnum staðgöngumæðrunarferli. Uppfylla þarf skilyrðið þegar umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar er lögð inn hjá nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
    Í 9. tölul. er það gert að skilyrði að hafi staðgöngumóðir eða maki hennar misst barn skulu hafa liðið að lágmarki tvö ár frá andláti barnsins. Er þessi krafa gerð til að staðgöngumóðir og maki hennar séu betur í stakk búinn til að taka ákvörðun um staðgöngumæðrun auk þess sem kringumstæður sem þessar eru taldar auka líkur á því að staðgöngumóður og maka hennar snúist hugur. Eins og með önnur skilyrði 8. gr. þarf að uppfylla það þegar umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar er lögð inn hjá nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
Heilbrigðisstofnun sem framkvæmir staðgöngumæðrun kannar hvort skilyrðum 6.–8. tölul. 8. gr. sé fullnægt og fjallar um það í umsögn sinni til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sbr. 14. gr. Önnur skilyrði er varða staðgöngumóður og maka hennar eru metin af nefnd um staðgöngumæðrun skv. 6. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.


    Í greininni er vikið að átta skilyrðum er varða væntanlegt foreldri eða væntanlega foreldra sem eru þá til viðbótar þeim skilyrðum sem 4. gr. frumvarpsins gerir, þ.e. að ekki megi veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni nema sýnt þyki eftir könnun á högum og aðstæðum væntanlegra foreldra að andleg og líkamleg heilsa, fjárhagsstaða og félagslegar aðstæður þeirra séu góðar og að ætla megi að barnið sem til verður muni búa við þroskavænleg uppeldisskilyrði. Uppfylla þarf skilyrðin þegar umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar er lögð fram hjá nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sbr. 11. gr. frumvarpsins.
    Fyrsta skilyrðið skv. 1. mgr. er að hjón eða einstaklingar í sambúð sem er skráð í þjóðskrá skuli standa saman að umsókn um staðgöngumæðrun og þeim einum er heimilt að leita staðgöngumæðrunar saman. Er með þessu skilyrði gerð krafa um samstöðu hjóna og para um að leita staðgöngumæðrunar. Má geta þess að samsvarandi krafa er gerð í ættleiðingalögum, nr. 130/1999.
    Samkvæmt 2. mgr. er það gert að skilyrði að samfelld sambúð væntanlegra foreldra hafi varað eigi skemur en í þrjú ár, þar af skal hjúskapur eða skráð sambúð hafa varað í eitt ár hið minnsta. Eins og vikið var að í skýringum við 8. gr. er skilyrði um lágmarkssambúðartíma sett til að tryggja stöðugleika sambands væntanlegra foreldra og til að auka líkur á að fyrir hendi sé nægileg samstaða og gagnkvæmur stuðningur sem þarf til að takast á við það álag sem fylgir staðgöngumæðrun og uppeldi barns.
    Ákvæði 3. mgr. varðar einhleypa einstaklinga. Gert er ráð fyrir að einhleypir geti fengið leyfi til staðgöngumæðrunar ef sérstaklega stendur á og ótvírætt þyki að hagsmunir barns verði tryggðir og að uppfylltum öðrum skilyrðum frumvarpsins. Orðalag ákvæðisins sækir fyrirmynd í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 130/1999, um ættleiðingar. Þar sem í frumvarpinu er lagt til að lögleiða staðgöngumæðrun sem aðstoð við þá sem óska þess að eignast barn og í ljósi þess að einhleypum konum hefur þegar verið veittur réttur til tæknifrjóvgunar verður ekki séð með hliðsjón af jafnræðisreglu að rétt sé að takmarka úrræðið staðgöngumæðrun við hjón og pör eingöngu. Eins og sjá má af orðalagi ákvæðisins er gert ráð fyrir að einhleypur umsækjandi um staðgöngumæðrun sé sérstaklega hæfur umfram aðra til að taka að sér barn vegna eiginleika sinna eða reynslu, t.d. að umsækjandi hafi mikla reynslu af umönnun og uppeldi barna. Verður hæfni einstaklings til að ala barn upp án þess að annað foreldri sé til staðar tekin til sérstakrar skoðunar af nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og fagaðila á vegum hennar í hæfnismati sem framkvæmt verður á grundvelli 18. gr. frumvarpsins. Rétt er að taka fram að ekki er gerður greinarmunur á þeim sem aldrei hafa verið í hjúskap eða sambúð og þeim sem hafa skilið, slitið sambúð eða misst maka sinn. Gert er ráð fyrir að áhrif skilnaðar og andláts maka komi til skoðunar við hæfnismat, m.a. hversu langur tími er liðinn og hvernig viðkomandi hefur tekist á við áfallið.
    Samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. skulu væntanlegir foreldrar vera lögráða, eiga lögheimili og hafa haft samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu fimm árin fyrir umsókn og hafa búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar. Vísað er til skýringa við 1. og 2. tölul. 8. gr. vegna þessa skilyrðis um væntanlega foreldra, eftir því sem við getur átt. Rétt er að árétta að skilyrði 1. tölul. 4. mgr. er sett til að koma í veg fyrir að fólk komi til landsins eingöngu til að nýta sér staðgöngumæðrun og fari strax úr landi eftir afhendingu barns. Samkvæmt ákvæðinu er nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimilt að víkja frá skilyrði 1. tölul. 4. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Þetta undanþáguákvæði getur einkum átt við í tilfelli íslenskra ríkisborgara, sem dvalið hafa langdvölum erlendis við nám eða störf, en flytjast síðan búferlum til landsins og óska þess eindregið að nýta sér staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni áður en liðin eru full fimm ár frá flutningum, t.d. með tilliti til aldurs.
    Samkvæmt 2. tölul. 4. mgr. skulu væntanlegir foreldrar samþykkja staðgöngumæðrunina og skuldbinda sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga. Skuldbinding væntanlegra foreldra um að þeir sæki um yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins er mikilvæg til að leitast við að afstýra því að þær aðstæður komi upp að enginn vilji annast barn sem alið er af staðgöngumóður. Skuldbinding þessi er af siðferðilegum toga en ekki lagalegum og eru strangari kröfur gerðar að þessu leyti til væntanlegra foreldra en staðgöngumóður, sem þarf ekki að skuldbinda sig til þess að afhenda barn sem hún elur, enda eru það væntanlegir foreldrar sem hefja staðgöngumæðrunarferlið.
    Í 3. tölul. 4. mgr. er fjallað um aldursmörk væntanlegra foreldra. Gerð er krafa um að þeir hafi náð 25 ára aldri og séu ekki eldri en 45 ára. Lágmarksaldur er ákveðinn 25 ára til að tryggja að væntanlegir foreldrar hafi náð ákveðnum þroska til að taka ákvörðun um staðgöngumæðrun. Það er nýmæli að mæla fyrir um hámarksaldur í lögum við aðstæður sem svipar til þessara. Við setningu laga um tæknifrjóvgun var gert ráð fyrir í 3. gr. að aldur pars yrði að teljast eðlilegur, m.a. með tilliti til velferðar barnsins á uppvaxtarárum. Samkvæmt eldri reglugerð um tæknifrjóvgun, nr. 568/1997, var meginreglan sú að kona skyldi ekki vera eldri en fullra 42 ára þegar tæknifrjóvgunarmeðferð hæfist, heimilt var að víkja frá því við sérstakar aðstæður en kona mátti þó ekki vera eldri en 45 ára þegar fósturvísir var settur upp. Hámarksaldur karlmanns þegar um par var að ræða miðaðist við 50 ár. Ákvæði 3. gr. tæknifrjóvgunarlaga var breytt með lögum nr. 54/2008. Er nú gerð krafa um að kona sé á eðlilegum barneignaaldri og hafi líkamlega burði og fullnægjandi heilsufar til að takast á við það álag sem fylgir meðferð, meðgöngu og fæðingu barns og er samsvarandi ákvæði að finna í núgildandi reglugerð um tæknifrjóvgun, nr. 144/2009. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til breytingalaganna frá 2008 var áréttað að áfram væri gert ráð fyrir því skilyrði fyrir tæknifrjóvgunarmeðferð að par, eða að minnsta kosti annar aðilinn, gæti sinnt foreldrahlutverki sínu þar til barnið hefði náð þroska og sjálfræði. Ákvæði um hámarksaldur hefur ekki heldur verið að finna í ættleiðingalögum, nr. 130/1999. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ættleiðingalaga kemur fram að við ættleiðingu sé stefnt að fjölskylduskiptum. Ættleiðendur gangi barni í foreldra stað og staða barnsins eigi að vera sem svipuðust því að það væri eigið barn ættleiðenda. Frá því sjónarmiði sé æskilegast að ekki sé öllu meiri aldursmunur á kjörbarni og kjörforeldrum en tíðast sé hjá börnum og kynforeldrum. Skv. 11. gr. reglugerðar um ættleiðingar, nr. 238/2005, er gengið út frá því að umsækjendur megi ekki vera eldri en 45 ára þegar umsókn um frumættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni er lögð fram. Heimilt er að víkja frá þessu í afmörkuðum tilvikum. Í nýlegri skýrslu um ættleiðingar á Íslandi kemur fram að Norðurlöndin eigi það öll sammerkt að talsverð umræða hafi farið fram um hámarksaldur við ættleiðingu barns. Tekið er fram að öll Norðurlöndin séu samstiga um nauðsyn þess að tiltaka skýr aldursmörk í lögum og hafni því að meta aldur út frá hæfni eða færni í hverju tilviki. Segja má að staðan í kjölfar staðgöngumæðrunar sé að nokkru leyti sambærileg við stöðu þeirra sem óska eftir því að ættleiða barn enda er hér stefnt að fjölskylduskiptum þar sem væntanlegir foreldrar vilja ganga barni í foreldra stað. Í þessu frumvarpi er lagt til að lögfesta ákvæði um hámarksaldur í tilfelli staðgöngumæðrunar til að hafa skilyrði skýr í samræmi við vilja Alþingis eins og hann birtist í lögskýringargögnum með þingsályktun nr. 3/140 um staðgöngumæðrun. Hámarksaldur er ákveðinn 45 ára með hliðsjón af ákvæðum reglugerðar nr. 238/2005, um ættleiðingar. Þar sem staða væntanlegra foreldra gagnvart barni sem alið er af staðgöngumóður á að vera sem líkust stöðu annarra barna gagnvart foreldrum sínum er æskilegt að ekki sé öllu meiri aldursmunur á barninu og væntanlegum foreldrum en tíðast er hjá börnum og foreldrum almennt í samfélaginu. Auk þess verða væntanlegir foreldrar að hafa hæfni, getu og úthald til að taka fullan þátt í leik og starfi og til að annast barn fram á fullorðinsár. Möguleikar til þessa minnka almennt með hækkandi aldri. Einnig er mikilvægt að tryggja að barn njóti annarra ættingja, svo sem ömmu og afa, í uppvextinum. Í þessu tilliti verður að telja að hagsmunir barns verði að ganga framar hagsmunum væntanlegra foreldra, sbr. 1. og 4. gr. frumvarpsins. Árétta ber að krafan um hámarksaldur nær til beggja væntanlegra foreldra. Þegar par stendur saman að umsókn um úrræði eins og staðgöngumæðrun er mikilvægt að stefna að því að barn sem fæðist muni njóta stuðnings þeirra beggja. Ekki er síður mikilvægt að benda á hve mikið álag alvarleg veikindi og andlát annars foreldris hefði í för með sér fyrir barn á viðkvæmum aldri. Slíkt áfall í fjölskyldu er einnig til þess fallið að draga úr þrótti og getu hins eftirlifandi foreldris til að annast barnið með fullnægjandi hætti.
    Samkvæmt 4. tölul. 4. mgr. skulu væntanlegir foreldrar hvorki eiga barn undir tveggja ára aldri né bera ábyrgð á uppeldi svo ungs barns og er það sett til að tryggja að þeir hafi nægjanlegt svigrúm til að veita barni sem fætt er af staðgöngumóður þroskavænlegt uppeldi. Er hér átt við öll börn væntanlegra foreldra, þ.m.t. stjúpbörn, fósturbörn og kjörbörn.
    Í 5. tölul. 4. mgr. er það gert að skilyrði að væntanlegir foreldrar geti ekki af læknisfræðilegum ástæðum tekist á við það álag sem fylgir meðgöngu og fæðingu barns eða líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu. Miða skal við alvarleg, skaðleg áhrif meðgöngu og fæðingar með hliðsjón af almennum læknisfræðilegum og fæðingarfræðilegum viðmiðum. Tilgangur þessa skilyrðis er að útiloka staðgöngumæðrun fyrir hjón eða einstaklinga þegar það liggur fyrir að konan sé fær um að takast á hendur meðgöngu og fæðingu barns. Felur skilyrðið í sér tvennt. Annars vegar útiloka læknisfræðilegar ástæður væntanlega foreldra frá barneignum. Í þessu sambandi er vanalega rætt um að sex læknisfræðilegar ábendingar séu fyrir staðgöngumæðrun:
     *      meðfæddur skortur á legi,
     *      legnám vegna fylgikvilla á meðgöngu eða fæðingar,
     *      legnám vegna sjúkdóma í legi, leghálsi eða eggjastokkum,
     *      vanskapanir á legi,
     *      endurtekin slæm útkoma úr þungunum,
     *      sjúkdómar sem valda konu mikilli áhættu á meðgöngu.
    Eins og 5. tölul. 4. mgr. er orðaður er ljóst að þessi sex tilvik rúmast innan skilyrðis er varðar væntanlega foreldra. Hins vegar er um það að ræða að líffræðilegar ástæður útiloka væntanlega foreldra frá barneignum. Er hér átt við karlpör í hjónabandi eða sambúð og einhleypa karlmenn og er vísað til umfjöllunar í VII. kafla almennra athugasemda vegna þess.
    Heilbrigðisstofnun sem framkvæmir staðgöngumæðrun kannar hvort skilyrðum 5. tölul. 4. mgr. 9. gr. sé fullnægt og fjallar um það í umsögn sinni til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sbr. 14. gr. frumvarpsins Önnur skilyrði er varða væntanlega foreldra eru metin af nefnd um staðgöngumæðrun skv. 6. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.


    Í greininni er fjallað um notkun kynfrumna og fósturvísa. Skv. 1. mgr. ákvæðisins er skylt að við staðgöngumæðrun komi önnur kynfruman frá öðru væntanlegra foreldra. Eingöngu verður heimilt að nota gjafakynfrumu hjá einhleypum einstaklingi eða ef frjósemi annars væntanlegs foreldris er skert, um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar eða líffræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumu. Orðalag þetta sækir fyrirmynd í 2. mgr. 5. gr. tæknifrjóvgunarlaga. Þó er bætt við að heimilt sé að nota gjafakynfrumu vegna líffræðilegra ástæðna til að útiloka ekki pör af sama kyni frá staðgöngumæðrun. Af þessu skilyrði leiðir að lagt er til að barn sem verður til við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eigi alltaf líffræðilega tengingu við væntanlegt foreldri sem þykir auka líkur á að væntanlegir foreldrar standi við skuldbindingu sína um að ganga barni í foreldrastað. Af þessari ástæðu stendur staðgöngumæðrun ekki til boða einstaklingi sem ekki getur lagt fram kynfrumu eða pari sem nota þarf bæði gjafaegg og gjafasæði.
    Í 2. mgr. er lagt bann við því að staðgöngumóðir noti eigin kynfrumur við staðgöngumæðrun. Af því leiðir að eingöngu full staðgöngumæðrun verður leyfð samkvæmt frumvarpinu. Er þetta gert jafnvel þótt sérfræðingar telji að minni læknisfræðileg áhætta fylgi því að staðgöngumóðir gangi með fóstur sem er erfðafræðilega skylt henni. Sú áhætta sem fylgir því að ganga með fóstur sem er ekki erfðafræðilega skylt móður, t.d. hættan á utanlegsfóstri og óþægindum vegna hliðarverkana lyfja, er þó ekki talin mikil. Hér er talið að annar áhættuþáttur vegi þyngra, þ.e. áhrif á tilfinningatengsl móður og barns á meðgöngu, sem mæla gegn því að staðgöngumóðir leggi til eggfrumu, þ.e. staðgöngumæðrun að hluta. Reynsla annarra ríkja þykir sýna að það dragi úr líkum á ágreiningsmálum ef staðgöngumóðir er ekki líffræðilega tengd barninu. Einnig verður óheimilt, verði frumvarpið samþykkt, að nota kynfrumur maka staðgöngumóður eða þeirra sem eru skyldir staðgöngumóður, maka hennar eða væntanlegum foreldrum í beinan legg. Markmið ákvæðisins er í fyrsta lagi að koma í veg fyrir líffræðilegan skyldleika barns við maka staðgöngumóður og tiltekin ættmenni þeirra og draga þannig úr líkum á þrýstingi og hagsmunaárekstrum. Í öðru lagi er talið óæskilegt að kynfrumur geti komið frá nánustu ættmennum aðila til að koma í veg fyrir að kynfrumugjafi verði til dæmis jafnframt systkini, amma eða afi barns sem fæðist eftir staðgöngumæðrun. Með svipuðum rökum er jafnframt óheimilt að nota kynfrumu frá systkini þess væntanlega foreldris sem leggur til kynfrumu.
    Eitt af þeim atriðum sem starfshópurinn kannaði var hvort mögulegt væri að staðgöngumóðir yrði þunguð eftir samfarir en ekki af uppsettum fósturvísi væntanlegra foreldra í samræmi við útgefið leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Að mati sérfræðinga í tæknifrjóvgun er hægt að koma í veg fyrir egglos hjá staðgöngumóður með lyfjum og byggja síðan upp slímhúð í legi sérstaklega fyrir fósturvísi sem ætlunin er að setja upp. Þetta kallast að stýra meðferðarhringnum hjá staðgöngumóður og er þá útilokað að hún verði þunguð eftir samfarir á sama tíma og þessi meðferð fer fram. Hægt væri að nota náttúrulegan hring við tæknifrjóvgun staðgöngumóður en ekki er mælt með því verklagi í þessum aðstæðum. Er þess vegna tekið fram í 3. mgr. ákvæðisins að við staðgöngumæðrun skuli nota stýrðan meðferðarhring við uppsetningu fósturvísis. Í sama ákvæði er einnig lagt til að við staðgöngumæðrun verði óheimilt að setja upp fleiri en einn fósturvísi í senn hjá staðgöngumóður. Markmiðið með reglunni er að tryggja ásættanlega áhættu á meðgöngu staðgöngumóður, sbr. 1. gr. frumvarpsins, en fjölburameðgöngum fylgir viss áhætta bæði fyrir móður og barn.
    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. tæknifrjóvgunarlaga er eingöngu heimilt að geyma fósturvísa í þeim tilgangi að koma þeim fyrir í konu þeirri sem lagði eggfrumurnar til eða fékk þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun. Geymsla fósturvísa í öðrum tilgangi er óheimil. Í 4. mgr. 10. gr. er þess vegna kveðið á um heimild til að geyma fósturvísa væntanlegra foreldra í þeim tilgangi að nota þá við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í þeirra þágu. Að öðru leyti gilda tæknifrjóvgunarlög um geymslu og eyðingu fósturvísa.

Um III. kafla.


    Í III. kafla er fjallað um meðferð og úrlausn mála um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ferill staðgöngumæðrunar verður í grófum dráttum eftirfarandi: Staðgöngumóðir, og maki hennar ef við á, og væntanlegir foreldrar leita til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar og leggja fram tilskilin gögn, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins. Því næst aflar nefndin umsagnar um tiltekin atriði frá heilbrigðisstofnun skv. 14. gr. frumvarpsins. Ef framangreint leiðir ekki til þess að umsókn er þegar hafnað, fá umsækjendur ráðgjöf og ítarlegar upplýsingar, sbr. 1. mgr. 13. gr. Mat á vegum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á högum og aðstæðum umsækjenda fer fram skv. 18. gr. Gengið er frá samþykki allra aðila til staðgöngumæðrunar, sbr. 15. gr., ásamt gagnkvæmri viljayfirlýsingu um samskipti á meðgöngu og eftir fæðingu barnsins, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Því næst tekur nefndin ákvörðun um hvort leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni verði veitt.

Um 11. gr.


    Ákvæði greinarinnar lýtur að umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar. Þar er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar, ásamt staðgöngumóður og maka hennar, sé hann til staðar, snúi sér í sameiningu til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með umsókn um leyfi til staðgöngumæðrunar. Gefur auga leið að þessir aðilar verða því að þekkjast og hafa myndað traust áður en til umsóknar kemur en í frumvarpinu eru ekki gerðar sérstakar kröfur til þessara tengsla að öðru leyti. Vert er þó að minna á að skv. 31. og 32. gr. frumvarpsins eru hvers konar auglýsingar og milliganga um staðgöngumæðrun óheimil. Ákvæðið hefur einnig í för með sér að einstaklingur getur ekki fengið leyfi til að gerast staðgöngumóðir fyrir ótilgreinda væntanlega foreldra og væntanlegir foreldrar geta ekki heldur tryggt sér opið leyfi til staðgöngumæðrunar án þess að tiltekin staðgöngumóðir sé fundin. Skal umsóknin rituð á eyðublað sem nefndin lætur í té og skulu tilheyrandi gögn fylgja með umsókn, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. er það hlutverk nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni að kanna hvort uppfyllt eru skilyrði til staðgöngumæðrunar, sbr. 4., 8. og 9. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Í greininni eru þau gögn talin upp sem fylgja eiga umsókn um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og var við smíði ákvæðisins höfð hliðsjón af 3. gr. reglugerðar nr. 238/2005 um ættleiðingar. Í 1. tölul. segir að almennar upplýsingar um umsækjendur, sem eru væntanlegir foreldrar og staðgöngumóðir og maki hennar, ef við á, skuli fylgja með umsókn. Þarna er átt við að umsækjendur taki saman og leggi fram greinargerð um fjölskylduaðstæður sínar, fjárhagsstöðu sína með staðfestum afritum tveggja síðustu skattframtala, húsnæðisstöðu, annan aðbúnað og getu til að veita barni þroskavænleg uppeldisskilyrði. Gert er ráð fyrir að umsækjendur taki mið af þeim kröfum sem gerðar eru í 4. gr. frumvarpsins og vísast til umfjöllunar við 4. gr. vegna þessa. Í 2. tölul. kemur fram að umsækjendur þurfi að láta fylgja með gögn um heilsufar sitt og er þá gert ráð fyrir að almennar upplýsingar um heilsufar verði veittar, sem og fyrirliggjandi heilsufarsupplýsingar er varða skilyrði 8. og 9. gr. Gert er ráð fyrir að umsækjendur geti almennt aflað þessara upplýsinga hjá heimilislækni eða heilsugæslustöð. Í 3. tölul. er tiltekið að vottorð Þjóðskrár Íslands um búsetu auk hjúskapar- og sambúðarvottorðs þurfi að fylgja með umsókn til að fullnægja skilyrðum 2. og 3. tölul. 8. gr., 1. og 2. mgr. 9. gr. og 1. tölul. 4. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Skv. 4. tölul. þarf að láta fylgja með umsókn samþykki umsækjenda og heimilismanna þeirra sem náð hafa 15 ára aldri fyrir því að aflað verði upplýsinga úr sakaskrá um þá. Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni aflar síðan upplýsinga í samræmi við samþykkið, annars vegar almennra upplýsinga sem að jafnaði koma fram á sakavottorði og hins vegar upplýsinga um hvort þessir aðilar hafi nokkurn tíma hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Í 5. tölul. 12. gr. er þess krafist að samþykki umsækjenda liggi einnig fyrir því að aflað verði upplýsinga frá barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi umsækjenda. Er þetta talið nauðsynlegt við mat nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni um hvort skilyrðum 4. gr. frumvarpsins sé fullnægt. Hér er ekki gert ráð fyrir mati eða umsögn barnaverndarnefndar heldur fyrst og fremst upplýsingum um hvort barnaverndarnefnd sjái nokkuð því til fyrirstöðu að viðkomandi aðilar fái leyfi til staðgöngumæðrunar. Gert er ráð fyrir að afstaða barnaverndarnefndar byggist fyrst og fremst á því hvort, hvenær og með hvaða hætti umsækjendur hafi komið við sögu við meðferð barnaverndarmála í umdæmi barnaverndarnefndarinnar.
    Í 2. mgr. segir að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni geti lagt fyrir umsækjendur að afla frekari upplýsinga eða gagna en talin eru upp í 1. mgr. Eru það þá umsækjendur sem bera kostnað af slíkri gagnaöflun en ekki nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að gögn megi ekki vera eldri en sex mánaða þegar umsókn er lögð fram hjá nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Sérstök skylda hvílir á umsækjendum að upplýsa nefndina ef breytingar verða á högum þeirra, t.d. varðandi heilsufar, húsnæðisstöðu, fjárhagsstöðu eða annan aðbúnað. Eru þessi skilyrði sett til að tryggja að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni geti byggt ákvörðun um hvort leyfi til staðgöngumæðrunar verði veitt á réttum og viðeigandi upplýsingum og gögnum.

Um 13. gr.


    Í greininni er fjallað um ráðgjöf við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og kveðið á um að umsækjendum um leyfi til staðgöngumæðrunar sé skylt að sækja ráðgjöf þar sem veittar eru ítarlegar upplýsingar um þau læknisfræðilegu, lögfræðilegu, siðferðilegu, félagslegu og önnur áhrif sem staðgöngumæðrun kann að hafa. Ljóst er að vönduð ráðgjöf til allra aðila er koma að staðgöngumæðrun er grundvallaratriði þess að staðgöngumæðrun verði farsæl leið við stofnun fjölskyldu. Skv. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins skal nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sjá til þess að þeir sem sækja um staðgöngumæðrun eigi aðgang að faglegri ráðgjöf sérfræðinga, svo sem lögfræðinga og félagsráðgjafa eða sálfræðinga. Tryggja þarf að vel sé til ráðgjafar stofnað og að hún sé í höndum vel þjálfaðra og hæfra sérfræðinga. Einnig er mikilvægt að tryggja ákveðið hlutleysi ráðgjafa þannig að þeir til dæmis dragi ekki taum annars aðilans eða séu tengdir heilbrigðisstofnun sem framkvæmir tæknifrjóvgunina. Gert er ráð fyrir að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni annaðhvort ráði sérstaka starfsmenn til nefndarinnar sem sinni ráðgjöfinni eða fái sérstaka verktaka til þess. Skv. 3. tölul. 37. gr. frumvarpsins skal framkvæmd ráðgjafar útfærð nánar í reglugerð. Sæki umsækjendur um leyfi til staðgöngumæðrunar ekki ráðgjöf skv. 1. mgr. 13. gr. er staðgöngumæðrunarferlinu sjálfhætt þar með.
    Sérfræðingar í ráðgjöf um tæknifrjóvgun hafa mælt með að ráðgjöf félagsráðgjafa eða sálfræðinga sé í boði í gegnum allan feril staðgöngumæðrunar. Einnig er ljóst að ólíkir fagaðilar þurfa að koma að veitingu ráðgjafar vegna staðgöngumæðrunar á mismunandi stigum ferilsins. Ráðgjöfin er þrískipt. Í fyrsta lagi ráðgjöf og upplýsingar áður en leyfi til staðgöngumæðrunar er veitt. Á þessu stigi er mikilvægt að ræða við alla aðila í einrúmi en einnig saman í hóp. Hér er reynt að tryggja að allir aðilar skilji þau læknisfræðilegu, lögfræðilegu, siðferðilegu, félagslegu og önnur áhrif sem staðgöngumæðrun hefur til að þeir átti sig á hvað hún feli í sér fyrir þá sem einstaklinga, sem par og loks áhrif á fjölskyldu og vini. Er því gert ráð fyrir að umsækjendur njóti ráðgjafar sérfræðinga á framangreindum sviðum. Á þessu stigi er mikilvægt, að fengnum upplýsingum um áhrif staðgöngumæðrunar, að staðgöngumóðir og maki hennar, ef við á, og væntanlegir foreldrar ræði ýmis atriði er snerta tæknifrjóvgunarmeðferðina, meðgönguna, fæðinguna og samskipti eftir fæðingu barnsins. Hér þarf til dæmis að ræða hvort væntanlegir foreldrar komi með staðgöngumóður í tæknifrjóvgunina eða aðrar heimsóknir til lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks, hvort væntanlegu foreldrarnir eigi að hafa aðgang að sjúkraskrá staðgöngumóður, hvernig staðgöngumóðir hyggist haga lífi sínu á meðgöngu, hvaða heilbrigðisþjónustu staðgöngumóðir hyggist þiggja (fósturskimun, legvatnsástunga o.s.frv.), hvaða viðhorf staðgöngumóðir hafi til fóstureyðinga, útlagðan kostnað á meðgöngu, hvernig staðgöngumóðir hyggist haga fæðingu barnsins (heimafæðing eða á sjúkrahúsi, lyfjagjafir o.s.frv.), hverjir verði viðstaddir fæðinguna, hver haldi fyrst á barninu sem staðgöngumóðirin elur, tilhögun afhendingar barns eftir fæðingu, umsjá barnsins fram að yfirfærslu á foreldrastöðu og samskipti eftir afhendingu barns (t.d. umgengni eða samskipti staðgöngumóður og fjölskyldu hennar við barnið og/eða væntanlega foreldra, hvað staðgöngumóðirin verður kölluð o.s.frv.). Mikilvægt er að umsækjendur um staðgöngumæðrun fái sérstaka ráðgjöf um þau áhrif sem löggjöf um staðgöngumæðrun felur í sér, t.d. um hagsmuni barns og sjálfsákvörðunarrétt staðgöngumóður. Grundvallaratriði er að miðla upplýsingum um þau áhrif sem afhending barns eftir fæðingu getur haft en afhending barns mun alltaf vera ákveðinn skurðpunktur í þessum málum með hliðsjón af tengslamyndun barnsins við nána umönnunaraðila. Afhendi foreldrar barnið minnka líkur á því að þau hafi möguleika á að fá barnið aftur því að þá geta hagsmunir barns og tengslamyndun þess við væntanlega foreldra farið að vega þungt á vogarskálunum, sérstaklega hafi einhver tími liðið. Gera má ráð fyrir að einhverjir kjósi að hætta í staðgöngumæðrunarferlinu eftir að hafa fengið viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf um staðgöngumæðrun. Er það meðal annars hlutverk ráðgjafa að benda á rétt hvers og eins til að hætta við án þess að þurfa að rökstyðja þá ákvörðun. Ef allir aðilar eru samstiga má gera ráð fyrir að margt af því sem umsækjendur ræða í ráðgjöf á þessu stigi geti síðan nýst við gerð gagnkvæmrar viljayfirlýsingar, sbr. 16. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi er í 2. mgr. 13. gr. gert að skilyrði að umsækjendur hitti ráðgjafa að lágmarki tvisvar sinnum á meðan á tæknifrjóvgunarmeðferð og meðgöngu staðgöngumóður stendur. Á þessu stigi ráðgjafar getur þurft að svara erfiðum spurningum og takast á við ýmis samskiptavandamál og því eðlilegt að staðgöngumóðir og maki hennar, ef við á, séu með annan ráðgjafa en væntanlegir foreldrar. Árétta ber að tveir ráðgjafatímar eru lágmarkið fyrir staðgöngumóður og maka hennar og tveir ráðgjafatímar að sama skapi lágmark fyrir væntanlega foreldra.
    Í þriðja lagi er loks gert ráð fyrir ráðgjöf eftir fæðingu barnsins en skv. 2. mgr. 13. gr. er umsækjendum skylt að sækja ráðgjöf að minnsta kosti einu sinni eftir fæðingu barnsins til að stuðla að farsælum endalokum málsins. Er þá, líkt og varðandi ráðgjöfina meðan á meðgöngu stendur, eðlilegt að staðgöngumóðir og maki hennar og væntanlegir foreldrar séu ekki með sama ráðgjafann og ráðgjöfin fari fram með aðskildum hætti.
    Í umsagnarferli um frumvarpsdrög sem fór fram síðla árs 2014 var ein algengasta athugasemd umsagnaraðila hver bæri kostnað af staðgöngumæðrunarferlinu og þá sérstaklega ráðgjöfinni. Í tilefni þessara athugasemda er að finna sérstaka gjaldtökuheimild í frumvarpinu. Skv. 36. gr. frumvarpsins er þannig lagt til að innheimt verði gjald úr hendi væntanlegra foreldra vegna umsóknar um leyfi til staðgöngumæðrunar sem ætlað er að standa undir ráðgjöf skv. 13. gr. og mati skv. 18. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir ráðherra setji gjaldskrá vegna þessa. Má hugsa sér að væntanlegir foreldrar greiði fyrir sérstakan „ráðgjafapakka“ í samræmi við framangreinda þrískiptingu ráðgjafar. Árétta ber að framkvæmd ráðgjafar verður útfærð nánar í reglugerð, sbr. 3. tölul. 37. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.


    Í greininni er fjallað um umsögn heilbrigðisstofnunar sem framkvæmir staðgöngumæðrunina. Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni aflar umsagnar heilbrigðisstofnunarinnar um hvort skilyrðum 6.–8. tölul. 8. gr., að því er varðar staðgöngumóður, og 5. tölul. 4. mgr. 9. gr., að því er varðar væntanlega foreldra, sé fullnægt. Um nánari skýringar er vísað til umfjöllunar um þessi ákvæði. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisstofnun fái þau gögn um heilsufar umsækjenda sem fylgdu umsókn þeirra og skipta máli við mat á þeim atriðum sem umsögnin tekur til. Telji heilbrigðisstofnunin þörf á frekari gögnum, t.d. frá áhættumeðgönguteymi Landspítala, getur hún lagt fyrir umsækjendur að afla slíkra gagna. Eru það þá umsækjendurnir sem bera kostnað af slíkri gagnaöflun.

Um 15. gr.


    Hér er vikið að formreglum samþykkis til staðgöngumæðrunar og er þar átt við samþykki umsækjenda. Er mælt fyrir um að samþykkið skuli vera skriflegt og staðfest fyrir nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eða fulltrúa hennar sem vottar að hverjum og einum umsækjenda hafi verið leiðbeint um réttaráhrif samþykkis og staðgöngumæðrunar. Leiðbeiningar um réttaráhrif samþykkis og staðgöngumæðrunar verða veittar í ráðgjöf, sjá umfjöllun við 13. gr. frumvarpsins. Með því að gera að skilyrði að samþykki sé ekki gilt nema tilgreind séu nöfn staðgöngumóður, maka hennar, þegar það á við, og væntanlegra foreldra er komið í veg fyrir að veitt sé opið samþykki fyrir staðgöngumæðrun. Loks er gerð krafa um að samþykki sé ekki eldra en ársgamalt. Renni leyfi til staðgöngumæðrunar út án þess að getnaður verði þurfa umsækjendur að leggja inn nýja umsókn um leyfi og fara í gegnum umsóknarferil öðru sinni.

Um 16. gr.


    Í greininni er kveðið á um að áður en leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni er veitt og að fenginni ráðgjöf skv. 1. mgr. 13. gr. skuli umsækjendur um leyfi til staðgöngumæðrunar ganga frá gagnkvæmri viljayfirlýsingu um samskipti á meðgöngu, endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, sbr. 17. gr., viðveru væntanlegra foreldra við fæðingu barns, tilhögun afhendingar barns eftir fæðingu, umsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu, samskipti eftir afhendingu barns eftir atvikum og annað er máli skipti. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða í ákvæðinu og getur því viljayfirlýsing aðila tekið á fleiri þáttum en þar eru nefndir.
    Undir samskipti á meðgöngu fellur til dæmis aðkoma væntanlegra foreldra að mæðraskoðunum og aðgangur að sjúkraskrá staðgöngumóður, afstaða aðila til fósturrannsókna og fóstureyðinga o.s.frv. Gert er ráð fyrir að umsækjendur útfæri í viljayfirlýsingu fyrirkomulag endurgreiðslu útlagðs kostnaðar staðgöngumóður á meðgöngu og þar sé til dæmis tiltekið hvaða kostnaður er fyrirséður í hverju tilfelli fyrir sig. Mikilvægt er að tryggja að búið sé að ræða fyrirkomulag fæðingar barnsins, eins og til dæmis hverjir verði viðstaddir fæðingu, hver fái barnið fyrst í fangið, tilhögun afhendingar barnsins og þess háttar.
    Mikilvægt er að í viljayfirlýsingu komi fram hver skuli fara með umsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu og heimildir umsjáraðila til að taka ákvarðanir á þessu tímabili. Þar sem staðgöngumóðir telst móðir barnsins fram að yfirfærslu á foreldrastöðu, og maki hennar faðir eða foreldri þess, fara þau með forsjá barnsins fram að yfirfærslu á foreldrastöðu nema um annað sé samið samkvæmt barnalögum, sbr. 24. gr. frumvarpsins. Þessi tilhögun forsjárinnar er til þess fallin að styrkja stöðu staðgöngumóðurinnar og maka hennar fyrst eftir fæðingu barnsins og þykir ekki til þess fallin að stefna hagsmunum barnsins í hættu. Þess ber að geta að skv. 3. mgr. 32. gr. barnalaga geta foreldrar falið öðrum forsjá barns síns með samningi. Jafnvel þótt ekki sé gerð breyting á forsjánni samkvæmt barnalögum geta aðilar samið um að barnið fari eigi að síður í umsjá væntanlegra foreldra strax eftir fæðingu. Mikilvægt er að ráðgjöfin sem aðilar fá leggi áherslu á þann skurðpunkt sem afhending barnsins er þar sem gera verður ráð fyrir að afhending og tengslamyndun barnsins við umönnunaraðila í kjölfarið geti dregið úr möguleikum staðgöngumóður og maka hennar á að halda barninu ef þau neita síðar að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu, sbr. nánari umfjöllun um f-lið 5. tölul. 40. gr. frumvarpsins. Ef gert er ráð fyrir að væntanlegir foreldrar taki við umsjá barns áður en kemur að yfirfærslu á foreldrastöðu er mikilvægt að ræða hver muni hafa heimildir til að taka ákvarðanir í þeim málum sem upp geta komið á tímabilinu. Hér getur reynt á ákvarðanir svo sem um eiginnafn barnsins, úrsögn og inngöngu þess í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag, lögheimili þess, för með barnið úr landi og um æskilega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, svo sem rannsóknir, lyfjagjöf eða aðra meðferð. Stefna verður að því að aðilar gangi frá þessu með eins skýrum hætti og unnt er samhliða afhendingu barnsins þegar að henni kemur. Loks verður að telja mikilvægt að í viljayfirlýsingu komi fram hvaða hátt aðilar vilji hafa á samskiptum eftir afhendingu barns, t.d. hvort staðgöngumóðir og fjölskylda hennar umgangist barnið og/eða væntanlega foreldra eða fái ljósmyndir og fréttir sendar af barninu o.s.frv.
    Lögð er rík áhersla á að hér er einungis um viljayfirlýsingu að ræða en ekki bindandi samning eða samkomulag milli aðila. Eðli máls samkvæmt er því ekki hægt að krefjast efnda á viljayfirlýsingunni enda verður hún að skoðast í ljósi hagsmuna barns og staðgöngumóður, sbr. 4. og 5. gr. frumvarpsins. Í 2. mgr. er þó gerð ein undantekning frá þessu. Þar er tekið sérstaklega fram að staðgöngumóðir, og maki hennar eftir atvikum, geti krafist endurgreiðslu á þeim útlagða kostnaði skv. 17. gr. sem þau kunna að hafa lagt út fyrir hverju sinni, að því marki sem gert er ráð fyrir þessum kostnaði í viljayfirlýsingunni. Nauðsynlegt þykir að gera þennan þátt hinnar gagnkvæmu viljayfirlýsingar bindandi fyrir væntanlega foreldra til að koma í veg fyrir að þau geti hætt við og staðgöngumóðir, og maki hennar, setið uppi með kostnað sem þau ætluðu aldrei að bera. Árétta ber að væntanlegir foreldrar geta aldrei krafið staðgöngumóður, eða maka hennar, um endurgreiðslu þess sem innt hefur verið af hendi, eins og nánar er vikið að í athugasemdum við 17. gr.
    Með því að gera kröfu um að umsækjendur um leyfi til staðgöngumæðrunar fari í gegnum viðamikla ráðgjöf áður en sjálft leyfið er veitt skv. 1. mgr. 13. gr. og að þeir útfæri vilja sinn í yfirlýsingu skv. 16. gr., auk þess sem nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni stendur fyrir skilmerkilegu mati á högum og aðstæðum væntanlegra foreldra og staðgöngumóður og maka hennar, er reynt að koma í veg fyrir að ágreiningur rísi milli aðila síðar í ferlinu. Skv. 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir að staðgöngumóðir og væntanlegir foreldrar hitti ráðgjafa að lágmarki tvisvar sinnum á meðan á tæknifrjóvgunarmeðferð og meðgöngu staðgöngumóður stendur. Komi upp ágreiningur milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra í ferlinu er gert ráð fyrir að þarna skapist aðstæður til að finna ásættanlegar lausnir.

Um 17. gr.


    Í 17. gr. er að finna heimild til handa væntanlegum foreldrum til að endurgreiða staðgöngumóður, og maka hennar eftir atvikum, hæfilegan útlagðan kostnað hennar sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barnsins, svo sem vegna nauðsynlegra lyfja, heilbrigðisþjónustu (þ.e. sjúklingahluti þess kostnaðar), ferðakostnaðar, meðgöngufatnaðar, líkamsræktar eða stuðningsbúnaðar (t.d. snúningslak, meðgöngubelti og þess háttar) án þess að það verði talið staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Ekki er hægt að útiloka að maki staðgöngumóður beri kostnað í tengslum við staðgöngumæðrunarferlinu, eins og til dæmis ferðakostnað við fylgd staðgöngumóður þegar hún sækir læknisaðstoð, svo tekið er fram í ákvæðinu að væntanlegir foreldrar megi endurgreiða slíkan kostnað. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð skv. 4. tölul. 37. gr. um framangreindar heimildir til endurgreiðslu kostnaðar. Eins og sjá má af orðalagi ákvæðisins er upptalning á kostnaðarliðum einungis í dæmaskyni og kemur ekki í veg fyrir að væntanlegum foreldrum verði heimilt að endurgreiða staðgöngumóður annan kostnað sem tiltekinn verður í reglugerð. Hér mætti til dæmis hugsa sér að staðgöngumóðir vilji kaupa sérstaka líf- eða sjúkdómatryggingu og biðji væntanlega foreldra að standa straum af iðgjöldum hennar þann tíma sem tæknifrjóvgunarmeðferð og meðganga standa yfir. Þá getur komið til álita útfararkostnaður ef staðgöngumóðir andast af völdum meðgöngu eða fæðingar.
    Rétt er að vekja athygli á því að heimildin nær eingöngu til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar staðgöngumóður, og maka eftir atvikum, og því verður hugsanlegt vinnutap þeirra ekki bætt heldur munu þau þurfa að nýta sín eigin réttindi á vinnumarkaði, veikindarétt og sjúkratryggingarétt til að bæta það upp. Er heldur ekki gert ráð fyrir greiðslu væntanlegra foreldra á óþæginda- eða þjáningabótum til þeirra. Greiðslur umfram það sem er heimilt skv. 17. gr. og reglugerð settri samkvæmt henni, verða þess valdandi að staðgöngumæðrun telst í hagnaðarskyni og gerir frumvarpið ráð fyrir að refsa megi fyrir slíka háttsemi samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í 2. mgr. 30. gr. frumvarpsins.
    Komi til þess að staðgöngumóðir óski þess að halda barninu og neiti að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu er ekki gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar eigi rétt til endurkröfu á staðgöngumóðurina vegna þeirra greiðslna sem þeir hafa reitt af hendi í tengslum við 17. gr.
    Í samráðsferli sumarið 2013 var það nefnt að í frumvarpi um staðgöngumæðrun þyrftu að vera ákvæði um bótaábyrgð og bótaskyldu, t.d. ef staðgöngumóðir andast í kjölfar fæðingar. Að mati starfshópsins er ekki þörf á sérstökum ákvæðum um þessi atriði enda gilda almennar reglur þar um. Ef til dæmis staðgöngumóðir bíður líkamstjón við fæðingu vegna mistaka í heilbrigðisþjónustu taka lög nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, á slíkum tilvikum. Ef um bótaskylt atvik er að ræða gilda um það almennar reglur skaðabótaréttarins. Ef staðgöngumóðir lendir í líkamstjóni eða andast eftir fæðingu barns og um hreint óhappatilvik er að ræða þá telst það hluti af áhættutöku hennar við að takast á hendur staðgöngumæðrun. Í samráðsferli í lok árs 2014 var bent á að nauðsyn þess að setja þak á mögulegan útlagðan kostnað staðgöngumóður. Ekki er talið æskilegt að setja slíkar reglur í lagaákvæðið en telja verður að ráðherra geti í reglugerð afmarkað frekar ýmsa kostnaðarliði ef þörf krefur.

Um 18. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. frumvarpsins metur nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hvort hagsmunir barns verði tryggðir og öllum skilyrðum staðgöngumæðrunar samkvæmt lögunum fullnægt. Er hér um að ræða skilyrði er varða aðila að staðgöngumæðrun, þ.e. 4., 5., 8., 9. og 10. gr. og einnig þau skilyrði sem fram koma í III. kafla frumvarpsins. Auk þeirra gagna sem frumvarpið gerir ráð fyrir að aflað hafi verið og gengið frá er gert ráð fyrir að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni feli fagaðila, t.d. félagsráðgjafa eða sálfræðingi sem nefndin ræður, að gefa umsögn um hagi og aðstæður umsækjenda um staðgöngumæðrun. Hlutverk fagaðilans er fyrst og fremst að gefa umsögn um hvort staðgöngumóðir og maki hennar og væntanlegir foreldrar uppfylli skilyrði 4. gr. frumvarpsins um hagsmuni barnsins. Gert er ráð fyrir að fagaðilinn fari yfir gögn og taki viðtöl við umsækjendur um fyrirhugaða staðgöngumæðrun, þar sem meðal annars verði ræddar ástæður þess að umsækjendur leita úrræðisins, rætt um menntun, störf og áhugamál umsækjenda, parsambandið, persónulega eiginleika þeirra og afstöðu til barna og uppeldis og aðra þætti sem varða félagslegar og fjárhagslegar aðstæður þeirra sem og líkamlega og andlega heilsu. Gengið er út frá því að farið verði að minnsta kosti einu sinni á heimili allra umsækjenda. Eftir því sem við á má hér hafa til hliðsjónar umsagnir barnaverndarnefnda í ættleiðingarmálum, sbr. 16. gr. laga um ættleiðingar og reglugerð nr. 238/2005, um ættleiðingar. Gert er ráð fyrir að ráðherra útfæri nánar fyrirkomulag umsagnar og mats nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í reglugerð, sbr. 3. tölul. 37. gr. frumvarpsins. Auk þess er æskilegt að móta vinnubrögðin frekar í verklagsreglum eða handbók.
    Í 2. mgr. kemur fram að hver staðgöngumóðir geti að hámarki þrisvar sinnum fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Ákvæðið er afmarkað við leyfi til staðgöngumæðrunar og gildir því hvort sem af þungun verður í öll þrjú skiptin eða ekki. Útgefið leyfi til staðgöngumæðrunar gildir í eitt ár, sbr. 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins, og á gildistíma leyfis getur því aldrei orðið nema ein meðganga sem endar með fæðingu barns. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að hvert umsóknarferli staðgöngumóður er háð mati á högum og aðstæðum hennar.
    Í 3. mgr. ákvæðisins segir að óheimilt verði að veita leyfi til staðgöngumæðrunar hjá fleiri en einni staðgöngumóður fyrir hverja væntanlega foreldra á hverjum tíma. Er hér um varúðarreglu að ræða til að tryggja að væntanlegir foreldrar hafi nægjanlegt svigrúm til að veita barni sem fætt er af staðgöngumóður þroskavænlegt uppeldi.
    Í 4. mgr. segir að óheimilt sé að veita leyfi til staðgöngumæðrunar eigi væntanlegir foreldrar von á barni, séu í tæknifrjóvgunarmeðferð eða í virku ættleiðingarferli. Umsækjandi um ættleiðingu telst vera í virku ættleiðingarferli frá því að umsókn um ættleiðingu eða forsamþykki til ættleiðingar barns erlendis er lögð fram þar til barn er komið til kjörforeldra eða ættleiðingarmálinu er lokið með öðrum hætti. Hér er um varúðarákvæði að ræða í þágu hagsmuna barnsins til að tryggja að væntanlegir foreldrar beini kröftum sínum óskipt að því að annast það barn sem til verður í kjölfar staðgöngumæðrunar. Ef sú staða kemur upp að væntanlegir foreldrar vænta barns eftir að leyfi er gefið út en áður en getnaður verður hjá staðgöngumóður er nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimilt að afturkalla leyfið skv. 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins enda verði talið að þetta hafi í för með sér verulegar breytingar á aðstæðum umsækjenda. Ef getnaður hefur á hinn bóginn tekist hjá staðgöngumóður verður staðgöngumæðrunarferlið ekki stöðvað.
    Samkvæmt 5. mgr. er óheimilt að veita leyfi til staðgöngumæðrunar hafi staðgöngumóðir, maki hennar eða væntanlegir foreldrar hlotið dóm fyrir brot gegn kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Gert er ráð fyrir að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni meti hvort annars konar refsidómar sem umsækjendur kunna að hafa hlotið gefi tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að veita barni gott uppeldi. Hér mætti nefna sem dæmi refsidóma fyrir manndráp, líkamsárásir, frelsissviptingar og fíkniefnabrot.

Um 19. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um leyfi til staðgöngumæðrunar. Lagt er til að um meðferð umsókna um leyfi til staðgöngumæðrunar hjá nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gildi ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, enda telst ákvörðun um leyfi til staðgöngumæðrunar vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi laganna.
    Í 2. mgr. er lagt til að leyfi gildi ekki lengur en eitt ár frá útgáfudegi þess. Væntanlegir foreldrar og staðgöngumóðir hafa því eitt ár frá því að leyfi til staðgöngumæðrunar er gefið út til að láta framkvæma glasafrjóvgun. Rétt er að geta þess að ekki er sett hámark á fjölda glasafrjóvgunarmeðferða sem staðgöngumóður er heimilt að gangast undir á tímabilinu heldur ræðst fjöldi meðferða á gildistíma leyfis af læknisfræðilegu mati í hverju tilfelli.
    Í ákvæðinu er einnig gert ráð fyrir að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði heimilt að afturkalla leyfi, allt fram til þess að getnaður á sér stað, komi í ljós að aðstæður umsækjenda hafi breyst verulega frá útgáfu leyfis eða upplýsingar er máli skipta hafi reynst rangar. Er hér um að ræða úrræði sem nefndin getur gripið til ef á reynir, fyrst og fremst til að gæta hagsmuna barns og staðgöngumóður, sbr. 4. og 5. gr. frumvarpsins, ef í ljós kemur að einhver umsækjenda uppfyllti ekki eða uppfyllir ekki lengur einhver þeirra skilyrða sem gilda um staðgöngumæðrun. Sem dæmi um verulega breyttar aðstæður umsækjenda má nefna alvarlegan heilsubrest eða andlát einhvers umsækjenda, skilnað eða sambúðarslit eða ákæru eða uppkvaðningu refsidóms fyrir alvarlegt afbrot. Þetta ákvæði 19. gr. verður að skoða í samhengi við 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins en þar er tekið fram að umsækjendum sé skylt að upplýsa nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði breytingar á högum þeirra.

Um 20. gr.


    Í greininni er fjallað um þær formreglur sem gilda sé umsókn um staðgöngumæðrun hafnað. Synjun skal gerð með sérstakri ákvörðun nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og skal í henni gerð grein fyrir úrlausnarefni málsins, helstu gögnum, niðurstöðu og rökstuðningi fyrir henni. Staðgöngumóður og maka hennar, ef við á, og væntanlegum foreldrum er heimilt að kæra synjun til ráðherra innan þriggja mánaða, sem er venjulegur kærufrestur stjórnvaldsákvarðana. Ber þeim að standa sameiginlega að kæru enda verður að liggja fyrir samþykki þeirra allra til að heimila megi staðgöngumæðrun. Ráðherra getur metið að nýju bæði lagahlið máls og sönnunargögn. Í því felst að ráðherra getur endurskoðað mat nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skv. 18. gr. og málsmeðferð nefndarinnar eftir atvikum.

Um 21. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um þagnarskyldu allra sem koma að meðferð mála um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Gildir þagnarskyldan um nefndarmenn skv. 6. gr., starfsmenn þeirrar nefndar, ráðgjafa sem nefndin ræður til verka skv. 13. gr. frumvarpsins, fagaðila sem koma að mati skv. 18. gr., starfsmenn heilbrigðisstofnunar skv. 7. gr. frumvarpsins og aðra þá aðila sem aðkomu hafa að meðferð mála um staðgöngumæðrun. Árétta ber að þagnarskyldan kemur ekki í veg fyrir að framangreindir aðilar skiptist á upplýsingum með þeim hætti sem frumvarpið gerir beinlínis ráð fyrir og eru nauðsynlegar til að taka ákvörðun um staðgöngumæðrun og framkvæmd hennar. Þá nær þagnarskyldan ekki til atvika sem skylt er að tilkynna samkvæmt öðrum lögum og má hér taka sem dæmi 17. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Um IV. kafla.


    Í IV. kafla frumvarpsins er vikið að réttindum sem leiðir af fæðingu barns og yfirfærslu á foreldrastöðu. Er þar að finna skýringarákvæði og tilvísanir til annarra laga en einnig reglur um hvernig beri að standa að staðfestingu á foreldrastöðu barns sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun.

Um 22. gr.


    Í 22. gr. er lagt til að grundvallarreglan mater semper certa est, hin svokallaða mater est regla, sem merkir að kona sem elur barn telst móðir þess, gildi við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Er þetta í samræmi við nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (þingskjal 551 í 4. máli 140. löggjafarþings) þar sem segir: „Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að huga þyrfti að lagalegri skilgreiningu móðurhugtaksins en samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, telst sú kona sem elur barn móðir þess. Meiri hlutinn telur mikilvægt að frumvarp um staðgöngumæðrun hrófli ekki við þessari grunnskilgreiningu laga enda ber öðru fremur að tryggja rétt barns til foreldra svo og rétt staðgöngumóðurinnar.“ Í 22. gr. er því lagt til að staðgöngumóðir teljist móðir þess barns sem hún elur, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og 1. mgr. nýrrar 6. gr. a, sbr. 3. tölul. 40. gr. frumvarpsins. Af þessu leiðir að ef staðgöngumóðir er í hjónabandi eða í sambúð telst maki staðgöngumóður foreldri eða faðir barnsins skv. 2. og 3. mgr. 6. gr. barnalaga, sbr. einnig 1. mgr. nýrrar 6. gr. a, sbr. 3. tölul. 40. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. segir að um rétt staðgöngumóður og maka hennar, sé hann til staðar, sem foreldra barns, og væntanlegra foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs fari samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 41. gr. frumvarpsins. Vísað er til skýringa við það ákvæði.

Um 24. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um forsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu. Í forsjá barns skv. 5. mgr. 28. gr. barnalaga felst meðal annars réttur og skylda foreldris til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns. Þar sem staðgöngumóðirin, og maki hennar ef við á, teljast foreldrar barnsins fara þau einnig með forsjá þess. Skv. 3. mgr. 32. gr. barnalaga geta foreldrar falið öðrum forsjá barns síns með samningi og gætu staðgöngumóðir og maki hennar, sé hann til staðar, falið væntanlegum foreldrum forsjá barnsins með þessum hætti. Í 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að umsækjendur um staðgöngumæðrun gangi frá gagnkvæmri viljayfirlýsingu þar sem meðal annars er fjallað um umsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu og heimildir sem því fylgja. Vísað er í athugasemdir við 16. gr. varðandi nánari umfjöllun. Við yfirfærslu á foreldrastöðu færist forsjá í öllu falli með formlegum hætti frá staðgöngumóður, og maka hennar ef við á, yfir til væntanlegra foreldra.

Um 25. gr.


    Gert er ráð fyrir að yfirfærsla á foreldrastöðu barns sem fætt er af staðgöngumóður fari fram samkvæmt barnalögum, eins og lagt er til að þeim verði breytt með frumvarpi þessu, og er því vísað til athugasemda við 40. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um breytingar á barnalögum.
    Rétt er að geta þess hér að þar sem leiðarljós Alþingis er að staðgöngumóðirin teljist ávallt móðir barnsins sem hún elur verður alltaf um svokallaða ex-poste yfirfærslu á foreldrastöðu að ræða, þ.e. yfirfærslan fer fram eftir fæðingu barns. Í sumum löndum þekkist svokölluð ex- ante yfirfærsla á foreldrastöðu við staðgöngumæðrun, þ.e. gengið er frá því fyrir fæðingu, með til dæmis samningi eða úrskurði dómara, að væntanlegu foreldrarnir teljist foreldrar barnsins strax við fæðingu þess.

Um 26. gr.


    Foreldrastaða barns sem fæðst hefur samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun og óskað er eftir að koma með hingað til lands hefur verið afar óljós og ótrygg. Í dag eru það Þjóðskrá Íslands og Útlendingastofnun sem taka afstöðu til ríkisfangs, dvalarleyfis og skráningar slíkra barna eftir atvikum hvers máls. Nauðsynlegt þykir að beina þessum málum í skýrari farveg og skapa skilyrði fyrir því að komist verði að niðurstöðu um réttarstöðu barns í hverju tilviki. Í ákvæðinu er því lagt til að vísa beri þessum málum til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem fái það hlutverk að ákvarða um foreldrastöðu barnsins. Telja verður nefnd um staðgöngumæðrun skv. 6. gr. vel færa um að sinna þessu hlutverki vegna sérhæfingar sinnar í málaflokknum.
    Eins og vikið var að í almennum athugasemdum hafa íslenskir dómstólar ekki fjallað um viðurkenningu erlendra ákvarðana um foreldrastöðu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar með hliðsjón af öðrum leiðum sem eru til þess fallnar að tryggja réttarstöðu og hagsmuni barnsins samkvæmt íslenskum rétti. Hér á landi eru erlendar ákvarðanir á sviði fjölskylduréttar viðurkenndar samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar nema þær brjóti gegn allsherjarreglu (ordre public), þ.e. grunnreglum íslensks réttar eða almennu siðferði. Þar sem staðgöngumæðrun samkvæmt skilgreiningu tæknifrjóvgunarlaga hefur verið óheimil hér á landi hefur þótt eðlilegt að líta svo á að erlendar ákvarðanir um foreldrastöðu barns í tengslum við staðgöngumæðrun brjóti gegn allsherjarreglu. Í frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að leita eftir eða gera ráðstafanir til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laganna að viðlagðri refsingu, sbr. 33.–34. gr. Þar sem í frumvarpinu er á hinn bóginn lagt til að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er líklegt að erlendir dómar og ákvarðanir um yfirfærslu á foreldrastöðu í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni muni ekki sjálfkrafa þykja stangast á við allsherjarreglu. Sérstakt álitamál er hvernig meta skuli foreldrastöðu barna þeirra einstaklinga sem búsettir hafa verið erlendis og nýtt hafa sér rétt sinn í því ríki til að eignast barn með aðstoð staðgöngumóður en óska síðar að flytja hingað til lands. Hér verður það hlutverk nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni að leggja mat á hvort skilyrði laganna þykja nægilega uppfyllt þannig að staðfesta megi foreldrastöðu barnsins hér á landi.
    Í 26. gr. er þetta verkefni nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni útfært nánar. Í 1. mgr. segir að þegar til standi að koma eða komið sé með barn hingað til lands sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun beri að vísa málinu til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til ákvörðunar um foreldrastöðu. Skv. 2. mgr. skal nefndin tilkynna staðfestingu erlendrar ákvörðunar um foreldrastöðu barns til Þjóðskrár Íslands og skal stofnunin þá skrá barn í þjóðskrá. Skv. 3. mgr. ber nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni að synja um staðfestingu hinnar erlendu ákvörðunar um foreldrastöðu þjóni hún ekki hagsmunum barns eða gangi hún í berhögg við grunnreglur íslensks réttar (allsherjarreglu). Vegna eðlis þessara ákvarðana og þar sem mikilvægt er að fá sem fyrst endanlega niðurstöðu er lagt til að ákvarðanir nefndarinnar verði ekki kæranlegar til ráðherra heldur verði unnt að bera synjun um staðfestingu erlendrar ákvörðunar um foreldrastöðu barns beint undir dómstóla. Synji nefndin um staðfestingu á foreldrastöðu þykir rétt að nefndin tilkynni barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barnið dvelst um aðstæður barnsins, sbr. 4. mgr. Barnaverndarnefnd metur til hvaða úrræða þurfi að grípa, m.a. með hliðsjón af því hvort barnið njóti tryggrar forsjár hér á landi eða ekki.
    Í umsagnarferli um frumvarpsdrög sem fór fram síðla árs 2014 var oftast gerð athugasemd af hálfu umsagnaraðila við 26. gr. Þótti skjóta skökku við að í frumvarpi þar sem ætlunin væri að koma í veg fyrir að fólk leitaði staðgöngumæðrunar erlendis væri fjallað um rétt barns sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun. Gæti ákvæðið opnað á viðurkenningu á foreldrastöðu barns sem fætt væri í kjölfar staðgöngumæðrunar þar sem farið væri framhjá skilyrðum og reglum sem gilda um staðgöngumæðrun og erfitt yrði að fylgja því eftir að um sambærilegt ferli væri að ræða og hér yrði í boði. Ákveðið var að hrófla ekki við ákvæði 26. gr. þar sem ljóst er að til eru lönd sem leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og nauðsynlegt er að tryggja að til sé leið til að viðurkenna foreldrastöðu barns sem fæðist í kjölfar slíks ferils erlendis. Ef nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni kemst að þeirri niðurstöðu að um staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hafi verið að ræða í máli sem hún tekur fyrir skv. 26. gr. yrði að öllum líkindum synjað um staðfestingu á foreldrastöðu.
    Athyglisvert er að geta þess hér að í finnskri skýrslu um móðerni, sem gefin var út í nóvember 2014, er lagt til að kona sem er skráð, samkvæmt erlendri ákvörðun, móðir barns sem önnur kona hefur fætt, geti fengið þá skráningu viðurkennda í Finnlandi hafi hún verið búsett í viðkomandi erlenda ríki samfellt í að minnsta kosti eitt ár áður en barnið fæddist. Markmiðið er að koma í veg fyrir sniðgöngu finnskra laga um bann við staðgöngumæðrun.

Um V. kafla.


    Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um rétt barns til að þekkja uppruna sinn í þremur ákvæðum um upplýsingaskyldu foreldra, um skyldu heilbrigðisstofnunar til varðveislu gagna og upplýsingarétt barns.

Um 27. gr.


    Í greininni er lagt til að foreldrar barns sem fætt er af staðgöngumóður verði skyldaðir til að skýra barni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé fætt af staðgöngumóður. Skal það að jafnaði gert áður en barnið nær sex ára aldri. Er ákvæðið sama efnis og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 130/1999, um ættleiðingar. Er hér fjallað um afar mikilvægan rétt barns til að þekkja uppruna sinn í samræmi við 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og 1. gr. a barnalaga. Rannsóknir hafa sýnt að farsælast sé að ala upp barn, sem til dæmis hefur verið ættleitt eða orðið til með gjafakynfrumum, með sannleikanum um tilurð sína og er ekki ástæða til að ætla að annað gildi í tilfelli staðgöngumæðrunar. Vert er að benda á að framangreind upplýsingaskylda foreldra gildir jafnt fyrir væntanlega foreldra, þar sem yfirfærsla á foreldrastöðu barns hefur verið samþykkt, og staðgöngumóður og maka hennar, hafi yfirfærslu á foreldrastöðu verið hafnað.
    Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins eiga foreldrar rétt á ráðgjöf á vegum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að uppfylla framangreinda upplýsingaskyldu sína og er það í samræmi við það meginstef frumvarpsins að aðilar máls eigi kost á víðtækri ráðgjöf og upplýsingum um áhrif staðgöngumæðrunar. Gert er ráð fyrir að ráðgjöf þessi verði ekki umfangsmikil og að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni annist hana endurgjaldslaust.
    Rétt er að geta þess hér að skv. 39. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að tæknifrjóvgunarlögum verði breytt í þá veru að nafnleynd við kynfrumugjöf verði framvegis óheimil og lagt til að lögfesta samsvarandi ákvæði um upplýsingaskyldu foreldra og upplýsingarétt barns.

Um 28. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um skyldu heilbrigðisstofnunar, sbr. 7. gr., til að varðveita upplýsingar um framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Að efninu til er ákvæðið sambærilegt skyldu heilbrigðisstofnunar skv. 4. gr. laga um tæknifrjóvgun þar sem stofnunin skal varðveita skrá með upplýsingum um kynfrumugjafa sem ekki hefur óskað eftir nafnleynd. Nauðsynlegt þykir að mæla fyrir um þessa skyldu í frumvarpinu þar sem barn sem fætt er af staðgöngumóður getur skv. 29. gr. óskað eftir aðgangi að upplýsingum um framkvæmd staðgöngumæðrunar. Heilbrigðisstofnun ber að lágmarki að varðveita þær upplýsingar um alla umsækjendur um staðgöngumæðrun og kynfrumugjafa, eftir atvikum, sem barni eru nauðsynlegar til að leita uppruna síns.

Um 29. gr.


    Í greininni er lagt til að barn sem fætt er af staðgöngumóður geti er það nær 16 ára aldri óskað eftir þeim upplýsingum um framkvæmd staðgöngumæðrunar sem varðveittar hafa verið skv. 28. gr. frumvarpsins. Skv. 1. gr. barnalaga og 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, ber að tryggja börnum stigvaxandi réttindi miðað við aldur þeirra og þroska. Í ljósi þess hve mikilvæg réttindi er um að ræða fyrir barnið telur starfshópurinn við hæfi að miða aldursmarkið hér við 16 ára aldurinn. Rétt er að leggja áherslu á að einungis er um að ræða rétt barns til að fá upplýsingar en ekki rétt til að grípa til ráðstafana til að breyta foreldrastöðunni, enda er ekki gefinn kostur á því í frumvarpinu. Aldursmarkið er í samræmi við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, þar sem fram kemur að upplýsingar um heilsufar og meðferð skuli veittar sjúklingum eldri en 16 ára og 1. mgr. 26. gr. sömu laga en þar kemur fram að 16 ára og eldri geti samþykkt læknismeðferð.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að barn sem alið er af staðgöngumóður eigi rétt á ráðgjöf og stuðningi á vegum nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni vegna upplýsingabeiðni skv. 1. mgr. og er það í samræmi við það meginstef frumvarpsins að aðilar máls eigi kost á víðtækri ráðgjöf og upplýsingum um áhrif staðgöngumæðrunar. Gert er ráð fyrir að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni annist þessa ráðgjöf enda ólíklegt að hún verði umfangsmikil og því ekki lögð til gjaldtökuheimild vegna hennar.

Um VI. kafla.


    Í VI. kafla frumvarpsins er að finna fjögur bannákvæði, um staðgöngumæðrun sem fer í bága við markmið og skilyrði laganna eða fer fram í hagnaðarskyni, auglýsingar, milligöngu og staðgöngumæðrun yfir landamæri, ásamt refsiákvæði frumvarpsins.

Um 30. gr.


    Ákvæði 30. gr. kveður á um bann við staðgöngumæðrun. Í 1. mgr. er að finna almennt bannákvæði þar sem segir að óheimilt sé að framkvæma staðgöngumæðrun sem fer í bága við markmið og skilyrði laganna. Er hér átt við markmið laganna eins og þau eru tiltekin í 1. gr. ásamt skilyrðum staðgöngumæðrunar skv. 4., 8., 9. og 10. gr. frumvarpsins. Þar sem skv. 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins verður óheimilt að nota kynfrumur staðgöngumóður er ljóst að staðgöngumæðrun samkvæmt frumvarpinu verður ávallt framkvæmd með glasafrjóvgun. Leiðir því af framangreindu að óheimilt verður að framkvæma staðgöngumæðrun með tæknisæðingu. Skv. 3. mgr. 7. gr. má einungis framkvæma staðgöngumæðrun að fengnu leyfi nefndar um staðgöngumæðrun skv. 6. gr. og eingöngu á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur sérstakt leyfi til að framkvæma tæknifrjóvgun.
    Í 2. mgr. er sérstaklega kveðið á um bann við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni en það var eitt af leiðarljósum Alþingis við samþykkt þingsályktunar um staðgöngumæðrun. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar (þingskjal 4 í 4. máli 140. löggjafarþings) sagði: „Flutningsmenn tillögunnar leggjast alfarið gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og telja mikilvægt að gerður sé skýr greinarmunur á hagnaði og velgjörð í þessu samhengi.“ Nánari skýringar er að finna í umfjöllun um 2. gr. frumvarpsins. Einnig er vísað til skilgreiningar á hagnaðarskyni í 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins og skýringa við 17. gr. um heimild til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Þá er vísað til 4. tölul. 37. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð þar sem þeir kostnaðarliðir sem heimilt verður að endurgreiða verði taldir upp með nokkuð nákvæmum hætti.
    Árétta ber að lög þessi taka eingöngu til staðgöngumæðrunar sem fer fram með tæknifrjóvgun á heilbrigðisstofnun sem hefur til þess tilskilin leyfi. Ef aðilar hlutast sjálfir til um að þungun verði með það að markmiði að konan sem fæðir barnið láti það af hendi til annarra verður móðerni barns ekki breytt með öðrum hætti en samkvæmt ákvæðum ættleiðingalaga. Ef markmið aðila er að tengja frjóvgun, meðgöngu og ættleiðingu með þessum hætti auk greiðslu eða annarrar umbunar kemur væntanlega til kasta bannákvæðis 14. gr. ættleiðingalaga þar sem segir að ættleiðingarleyfi verði ekki veitt ef einhver sá sem samþykkja á ættleiðingu innir af hendi eða veitir viðtöku gjaldi eða fríðindum í tengslum við samþykkið, þar á meðal vegna missis atvinnutekna.

Um 31. gr.


    Í greininni er lagt til að hvers konar auglýsingar vegna staðgöngumæðrunar verði óheimilar. Nánar tiltekið er átt við að óheimilt verði að auglýsa eftir aðstoð staðgöngumóður og óheimilt verði að auglýsa sem staðgöngumóðir. Bannið nær til hvers konar fjölmiðla, þ.e. dagblaða og tímarita, netmiðla, hljóð- og myndmiðla og annarra sambærilegra miðla. Markmið ákvæðisins er að koma í veg fyrir að staðgöngumæðrun í atvinnuskyni verði stunduð með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Er því reynt að raungera leiðarljós Alþingis um bann við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni meðal annars með banni við auglýsingum um staðgöngumæðrun.

Um 32. gr.


    Í greininni er kveðið á um að óheimilt verði að hafa milligöngu um staðgöngumæðrun og um ólögmætar greiðslur milli aðila, þ.e. staðgöngumóður og maka hennar og væntanlegra foreldra. Með milligöngu er hér átt við starfsemi sem hefur þann megintilgang að koma á sambandi milli þeirra sem óska eftir staðgöngumóður til að ganga með barn fyrir sig og einstaklinga sem óska eftir að gerast staðgöngumæður, ásamt annarri aðstoð sem milligangan krefst. Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst sá að koma í veg fyrir að milliganga um staðgöngumæðrun verði stunduð í hagnaðar- og atvinnuskyni og hugsanlega verði þar með hægt að hagnýta þá viðkvæmu stöðu sem aðilar að staðgöngumæðrun eru í.

Um 33. gr.


    Í greininni er lagt til að óheimilt verði að leita eftir eða gera ráðstafanir til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laganna að viðlagðri refsingu. Einnig verður óheimilt að hafa hér á landi milligöngu um staðgöngumæðrun í útlöndum. Vakin er athygli á því að ekki er um útvíkkaða refsilögsögu að ræða samkvæmt ákvæðinu. Aftur á móti ef einhver gerir beinlínis ráðstafanir hér á landi til að leita eftir staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laga þessara er það óheimilt og refsivert skv. 34. gr. frumvarpsins.

Um 34. gr.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um refsingar við brotum á tilteknum ákvæðum frumvarpsins eða reglum settum samkvæmt þeim. Kveðið er á um að viðurlög verði sektir eða fangelsi allt að þremur árum og er það í samræmi við nýlega löggjöf á sviði heilbrigðismála, t.d. lög nr. 55/2009, um sjúkraskrár, lög nr. 44/2014, um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, og lög nr. 110/2000, um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga. Einnig er viðurlagaákvæðið í samræmi við lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Mælt er fyrir um lágmarksfjárhæð sekta til að tryggja viðunandi fælingaráhrif og skal lágmarksfjárhæð sekta taka breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Var höfð hliðsjón af lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd, sem taka eiga gildi 1. júlí 2015, vegna þessa. Vísað er til almennra hegningarlaga hvað varðar hlutdeild í broti og ef brot er framið í starfsemi lögaðila.
    Rétt er að benda á að sé farið út fyrir heimildir 17. gr. frumvarpsins um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni tekur ákvæði 2. mgr. 30. gr. við og teldist viðkomandi þá stunda staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sem er refsiverð skv. 2. tölul. 1. mgr. 34. gr. frumvarpsins.

Um VII. kafla.


    Í VII. kafla frumvarpsins er að finna ýmis ákvæði um eftirlit, gjaldtöku, reglugerðarheimildir og gildistöku frumvarpsins.

Um 35. gr.


    Í samræmi við e-lið 4. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þar sem segir að landlæknir hafi eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, er lagt til í 35. gr. að landlæknir hafi eftirlit með störfum heilbrigðisstofnunar sem framkvæmir staðgöngumæðrun, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Um eftirlitið gilda ákvæði II. kafla (eftirlit með heilbrigðisþjónustu) og III. kafla (eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum) laga um landlækni og lýðheilsu.

Um 36. gr.


    Í greininni er lagt til að innheimt verði gjald úr hendi væntanlegra foreldra vegna umsóknar um leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldinu er ætlað að standa undir tveimur kostnaðarliðum sem eru í fyrsta lagi ráðgjöf sérfræðinga skv. 13. gr. frumvarpsins sem veitt er umsækjendum um staðgöngumæðrun og í öðru lagi framkvæmd mats á högum og aðstæðum væntanlegra foreldra, staðgöngumóður og maka hennar, sem gert verður á grundvelli 18. gr. Gjaldið skal ekki vera hærra en nemur raunkostnaði. Árétta ber að staðgöngumóðir og maki hennar bera hvorki kostnað af ráðgjöf sem veitt er í tengslum við staðgöngumæðrun né kostnað við framkvæmd mats. Heimilt er að ákveða að gjaldið verði innheimt í áföngum. Gjald skv. 36. gr. telst vera þjónustugjald. Auk þess má taka sérstakt gjald samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, verði það lagt til í sérstöku frumvarpi þar um.
    Í þessu sambandi skal þess getið að gert er ráð fyrir að væntanlegir foreldrar standi straum af kostnaði við glasafrjóvgunarmeðferð vegna staðgöngumæðrunar með þátttöku ríkissjóðs í þeim kostnaði eins og hún verður ákveðin samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Um 37. gr.


    Í ákvæðinu er vikið að reglugerðarheimildum ráðherra. Annars vegar er um að ræða almenna heimild til setningar reglugerða um nánari framkvæmd laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Verður að telja nauðsynlegt að ráðherra hafi almenna heimild til útfærslu laganna, verði frumvarpið að lögum, þar sem ekki er hægt að sjá fyrir öll tilvik við setningu laga sem þessara. Hins vegar er um að ræða skyldu ráðherra til setningar reglugerðar um fjögur nánar tiltekin atriði.
    Samkvæmt 1. tölul. skal sett reglugerð þar sem störf nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eru nánar útfærð. Hér mætti til dæmis nefna atriði eins og starfshætti nefndarinnar, fundi hennar, fundargerðir, málaskrá, kröfur um eyðublöð og útfærslu á málsmeðferð.
    Í öðru lagi skal skv. 2. tölul. kveða nánar á um skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla í reglugerð. Þetta eru til dæmis atriði er snerta heilsufar og hæfni umsækjenda.
    Í þriðja lagi skal skv. 3. tölul. setja reglugerð um ráðgjöf skv. 13. gr. og mat nefndar skv. 18. gr. Hér mætti til dæmis nefna eftirfarandi atriði: Hvaða skilyrði ráðgjafar þurfa að uppfylla, hversu mikil ráðgjöf verður í boði á hvaða stigi málsins, við hvaða aðstæður aðilar verði í sameiginlegri ráðgjöf og hvenær rétt er að taka aðila í einkaráðgjöf. Einnig hverjum verði falið mat skv. 18. gr., hvernig matið fari fram og hvað umsögn fagaðila eigi að innihalda.
    Loks er ráðherra skylt skv. 4. tölul. að setja reglugerð um heimild væntanlegra foreldra til endurgreiðslu hæfilegs útlagðs kostnaðar staðgöngumóður, og maka hennar eftir atvikum. Er þar nauðsynlegt að tilgreina þá kostnaðarliði sem standa í beinum tengslum við umsóknarferil, glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barnsins og væntanlegum foreldrum verður heimilt að endurgreiða staðgöngumóður. Hér getur verið um að ræða greiðsluþátttöku sjúklings (staðgöngumóður) vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja, meðgöngufatnað, ferðakostnað staðgöngumóður og maka til og frá heilbrigðisstofnun eða ráðgjafa, líkamsrækt eða stuðningsbúnað, svo sem meðgöngubelti, snúningslak og þess háttar. Frekari umfjöllun um þetta atriði er að finna í skýringum við 17. gr.

Um 38. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, ásamt breytingum á öðrum lögum, taki gildi 1. janúar 2017. Verði frumvarpið samþykkt þarf að gera ráð fyrir rúmum tíma frá samþykkt Alþingis þar til lögin taka gildi svo að nægur tími gefist meðal annars fyrir vandaðan undirbúning ráðgjafar, sbr. 13. gr. frumvarpsins, reglugerða skv. 37. gr. og skipun nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skv. 6. gr. Verður að telja sex mánuði nægjanlega fyrir undirbúning gildistöku frumvarpsins verði það samþykkt.
    Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun árið 2011 (þingskjal 551 í 4. máli 140. löggjafarþings) segir: „Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að reynsla verði metin nákvæmlega með rannsóknum og eftirliti ef frumvarp um staðgöngumæðrun verður samþykkt á Alþingi. […] Meiri hlutinn telur eðlilegt að í frumvarpi um staðgöngumæðrun verði kveðið á um slíka endurskoðun en telur líklegt að ekki verði unnt að meta reynslu fullnægjanlega að tveimur árum liðnum og því þurfi að miða við lengri tíma. Skýrist það meðal annars af því að samkvæmt áfangaskýrslu vinnuhóps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun frá 5. febrúar 2010 er áætluð þörf fyrir staðgöngumæðrun á Íslandi um 0–5 tilfelli á ári.“ Í ljósi framangreinds er lagt til að ráðherra meti reynslu af framkvæmd laganna og leggi skýrslu fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2021, eftir fimm ára gildistíma laganna. Gefi sú skýrsla tilefni til endurskoðunar laganna skal ráðherra sjá til þess að það verði gert. Rétt er að geta þess að áætluð þörf fyrir staðgöngumæðrun samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi er eflaust meiri en 0–5 tilfelli á ári sé miðað við að úrræðið verði í boði fyrir fleiri hópa fólks en áætlunin sem vísað var til gerði ráð fyrir, sbr. einnig umfjöllun í VII. og XI. kafla almennra athugasemda og í athugasemdum við 9. gr.
    Í fyrri frumvarpsdrögum var lagt til að lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði afmarkaður sex ára gildistími hefðu þau ekki verið endurskoðuð og ný lög samþykkt fyrir niðurfellingu þeirra. Horfið var frá þessari fyrirætlan vegna athugasemda sem bárust í umsagnarferli sem fór fram í lok árs 2014. Lög með afmarkaðan gildistíma hefðu vakið upp fjöldamargar spurningar, eins og til dæmis hvað yrði um gildandi leyfi um staðgöngumæðrun eftir að lögin féllu niður en getnaður hefði ekki tekist og hvað yrði um ráðgjöf skv. 29. gr. frumvarpsins væru lög um staðgöngumæðrun ekki í gildi þegar barn næði 16 ára aldri. Þykir heppilegra að mæla fyrir um gildistöku frumvarpsins og sérstaka endurskoðun laganna í 38. gr.

Um VIII. kafla.


    Í VIII. kafla er fjallað um breytingar sem gera þarf á öðrum lögum vegna frumvarps til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Gera þarf breytingar á alls sjö lagabálkum vegna frumvarpsins: tæknifrjóvgunarlögum, barnalögum, fæðingar- og foreldraorlofslögum, lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, lögum um mannanöfn, erfðalögum og lögum um íslenskan ríkisborgararétt.

Um 39. gr.


    Í ákvæði 39. gr. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, verði staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimiluð.
    Í 1. tölul. ákvæðisins er skilgreining staðgöngumæðrunar aðlöguð að skilgreiningu hugtaksins í 1. tölul. 3. gr. frumvarpsins og er því vísað til skýringa við það ákvæði.
    Í 2. tölul. eru lagðar til breytingar á 4. gr. tæknifrjóvgunarlaga þannig að 2. mgr. ákvæðisins fellur brott og verður kynfrumugjafa því ekki lengur heimilt að óska eftir nafnleynd. Þykir tímabært að leggja til þessar breytingar sem eru í samræmi við 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/ 2013, og tryggir börnum rétt til að þekkja uppruna sinn. Undanfarin ár hefur vaxandi hluti þeirra sem nota gjafakynfrumur hér á landi valið þekkta kynfrumugjafa og hefur framboð á þekktum kynfrumugjöfum aukist síðastliðin ár. Því er ekki talið að afnám nafnleyndar kynfrumugjafa muni hafa teljandi áhrif á eftirspurn eftir kynfrumugjöf. Í þessu sambandi má geta þess að nafnleynd kynfrumugjafa er ekki heimil í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi en í Danmörku er heimilt að velja á milli þekkts eða óþekkts kynfrumugjafa. 29 Ákvæði 3. mgr. 4. gr. tæknifrjóvgunarlaga verður 2. mgr. gangi breytingarnar eftir. Lögð er til ný málsgrein, sem verður 3. mgr. 4. gr. tæknifrjóvgunarlaga, þannig að foreldrum barns sem fæðist eftir kynfrumugjöf verður skylt að skýra barni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til og skal það að jafnaði eigi gert síðar en barn nær sex ára aldri. Er ákvæðið í samræmi við 27. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við það ákvæði. Rétt er að vekja athygli á þeirri tillögu að breytingu á 4. mgr. að færa aldursmarkið sem upplýsingaréttur barnsins er miðaður við niður um tvö ár, þ.e. miða við 16 ára aldur en ekki 18 ára. Skv. 1. gr. barnalaga og 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, ber að tryggja börnum stigvaxandi réttindi miðað við aldur þeirra og þroska. Enn fremur er þetta aldursmark að finna í 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Í ljósi þess hve mikilvæg réttindi er um að ræða fyrir barnið telur starfshópurinn við hæfi að miða aldursmarkið hér við 16 ára aldur. Ítrekað kom fram í samráðsferli sumarið 2013 að virða ætti rétt barns til að þekkja uppruna sinn. Nokkrir umsagnaraðila nefndu að gera ætti breytingar á tæknifrjóvgunarlögum á þann veg að banna ætti nafnlausar kynfrumugjafir og var vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins í því tilliti.
    Í 3. tölul. eru gerðar breytingar á 4. mgr. 5. gr. laganna þannig að ekki verður lengur mælt fyrir um að staðgöngumæðrun sé óheimil heldur að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé óheimil í samræmi við fyrirliggjandi frumvarp, sjá nánar skýringar við 30. gr.
    Loks er í 4. tölul. gerð viðeigandi breyting á ákvæði 9. gr. tæknifrjóvgunarlaga svo að heimilt verði að geyma fósturvísa þegar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er að ræða en óheimilt er í dag að geyma fósturvísa nema til að koma þeim fyrir í þeirri konu sem lagði til eggfrumurnar eða fékk þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun. Sjá einnig 4. mgr. 10. gr. frumvarpsins og skýringar við það ákvæði.

Um 40. gr.

    Í 40. gr. frumvarpsins er að finna tillögur að þeim breytingum sem þykja nauðsynlegar á ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003, í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Í IV. kafla í almennum athugasemdum um stöðu og þróun íslenskrar tæknifrjóvgunarlöggjafar er vikið að tengslum barnalaga og laga um tæknifrjóvgun. Eins og þar kemur fram hefur stefna löggjafans verið sú að í tæknifrjóvgunarlögum sé að finna ákvæði um hvar, hvenær og hvernig tæknifrjóvgun megi fara fram en í barnalögum sé að finna ákvæði um faðerni og móðerni við tæknifrjóvgun og úrlausn ágreiningsmála. Í V. kafla í almennum athugasemdum um val á löggjafarleið er rökstutt hvers vegna þótti heppilegast að leggja til lögfestingu nýrra laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Gert er ráð fyrir að í þeim lögum verði að finna ítarleg ákvæði um skilyrðin fyrir því hvar, hvenær og hvernig framkvæma megi staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Til að tryggja lagasamræmi þykir nauðsynlegt að barnalög hafi samhliða að geyma ákvæði um móðerni, faðerni, breytingar og úrlausn ágreiningsmála í tengslum við staðgöngumæðrun.
     Um 1. tölul. Í a-lið er lögð til breyting á 3. gr. barnalaga sem fjallar um ákvörðun um faðerni barns er ákvæði 2. gr. taka ekki til o.fl. Í þessu ákvæði barnalaga er gerður greinarmunur á feðrunarreglum sem byggjast á pater est (2. gr.) og feðrunarreglum þegar barn er getið við tæknifrjóvgun (6. gr.). Samkvæmt núgildandi 2. mgr. 3. gr. er tekið fram að um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun gildi ákvæði 6. gr. og lagt er til að áréttað verði að um foreldri barns við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gildi ákvæði nýrrar 6. gr. a. Í 6. gr. a verður þannig að finna heildstætt ákvæði sem fjallar um foreldrastöðu barns sem verður til með staðgöngumæðrun og nánar verður fjallað um í skýringum við 3. tölul.
    Í b-lið er lögð til breyting á 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. barnalaga. Samkvæmt núgildandi lögum verður barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun ekki feðrað. Í frumvarpinu er hnykkt á því að hér verði að taka sérstakt tillit til nýrrar 6. gr. a. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að einhleypir geti fengið leyfi til að gerast staðgöngumæður að öðrum skilyrðum uppfylltum og að unnt verði að staðfesta faðerni barns í kjölfarið með yfirfærslu á foreldrastöðu. Árétta ber að ef staðgöngumóðir er einhleyp og ekki verður fallist á kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins eftir fæðingu þess þá verður barnið ekki feðrað með öðrum hætti og verður það barn því ófeðrað.
     Um 2. tölul. Hér er lögð til breyting á 4. mgr. 6. gr. barnalaga sem fjallar um réttarstöðu manns sem gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun á annarri konu en eiginkonu sinni eða sambúðarkonu. Í ákvæðinu í núgildandi mynd er því slegið föstu að slíkur sæðisgjafi verði aldrei dæmdur faðir barns sem getið er með sæði hans. Þetta ákvæði á eðli málsins samkvæmt ekki að öllu leyti við um staðgöngumæðrun. Við þær aðstæður má gera ráð fyrir að væntanlegur faðir leggi í einhverjum tilvikum til sæðið sem notað verður við frjóvgun á staðgöngumóður og nauðsynlegt er að taka fullt tillit til þess að tilgangurinn er gagngert að væntanlegur faðir geti orðið faðir barnsins á síðari stigum. Einnig kemur þó til álita að notaðar verði gjafafrumur. Lagt er til að taka skýrt fram að einstaklingur sem gefur eða leggur til kynfrumur í þeim tilgangi að þær verði notaðar við tæknifrjóvgun á öðrum en maka hans, þ.e. maka í hjúskap eða sambúð, sbr. 3. mgr. 6. gr., verði ekki talinn móðir eða faðir barns sem getið er með kynfrumu hans nema að ákvæði 6. gr. a eða III. kafla A eigi við. Árétta ber að hér er átt við tæknifrjóvgun sem fer fram í samræmi við ákvæði laga um tæknifrjóvgun og laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Vert er að leggja áherslu á sérstaka þýðingu ákvæðisins þegar staðgöngumóðir sem verður foreldri barnsins er einhleyp og barnið því ófeðrað þegar hún neitar að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu. Ákvæðið kemur í fyrsta lagi í veg fyrir að barnið verði feðrað með faðernisviðurkenningu skv. 4. gr. barnalaga. Þá kemur ákvæðið alfarið í veg fyrir að væntanlegur faðir sem lét í té kynfrumu geti gripið til þess ráðs að höfða faðernismál skv. II. kafla barnalaga og krafist þess að verða talinn faðir barns á grundvelli niðurstöðu mannerfðafræðilegra rannsókna, sbr. 17. gr. barnalaga. Hér er lagt til grundvallar að í þeim tilvikum þegar kveða þarf upp dóm í kjölfar staðgöngumæðrunar megi gera ráð fyrir að svo djúpstæður ágreiningur hafi komið upp milli móður og væntanlegra foreldra að það þjóni ekki hagsmunum barnsins að foreldrastaða ráðist með þessum hætti. Einnig verður að benda á að samkvæmt núgildandi barnalögum er útilokað að hagga við foreldrastöðu sem þegar liggur fyrir, þ.e. sá sem telur sig föður barns getur ekki höfðað faðernismál ef barnið er þegar feðrað. Mikilvægt þykir að tryggja jafnræði væntanlegra foreldra í þessum efnum með því að koma í veg fyrir að væntanlegur faðir geti sem kynfrumugjafi höfðað faðernismál þegar barn er ófeðrað meðan væntanleg móðir sem kynfrumugjafi hefði aldrei þennan möguleika þar sem barnið á móður fyrir. Með því að beina öllum málum í kjölfar staðgöngumæðrunar í farveg 6. gr. a eða III. kafla A er tryggt að niðurstaða máls um yfirfærslu á foreldrastöðu verður annaðhvort sú að staðgöngumóðir, og maki hennar eftir atvikum, verði áfram foreldrar barnsins eða að væntanlegir foreldrar taki alfarið við foreldrastöðunni.
     Um 3. tölul. Hér er að finna nýtt ákvæði sem verður 6. gr. a um foreldri barns í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Er hér um að ræða nýmæli sem tekur á þeirri sérstöku stöðu sem leiðir af eðli staðgöngumæðrunar. Í ákvæðinu er fjallað um móðerni og faðerni barns við fæðingu, hvernig megi breyta foreldrastöðu barnsins ef allir hlutaðeigandi eru sammála og vikið að því hvernig skuli með fara ef einhver neitar að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu barns. Þá er því slegið föstu hvaða réttaráhrif yfirfærsla á foreldrastöðu hafi fyrir barnið, foreldra þess og væntanlega foreldra.
    Í 1. mgr. er lagt til að ákvæði 6. gr. um foreldri barns við tæknifrjóvgun gildi í grunninn um réttarstöðu barns sem verður til samkvæmt ákvæðum laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Með þessu er lögð áhersla á að staðgöngumóðir verður móðir barns sem hún elur skv. 1. mgr. 6. gr. Árétta ber að ákvæði 1. mgr. 6. gr. er gagngert ætlað að eiga við um allar konur sem ala barn óháð því hvort þær leggja til eggfrumu eða ekki. Ef staðgöngumóðir á maka verður viðkomandi jafnframt annaðhvort foreldri barnsins skv. 2. mgr. 6. gr. eða faðir barnsins skv. 3. mgr. 6. gr., enda verður ekki veitt leyfi til staðgöngumæðrunar nema samþykki maka liggi fyrir. Til að taka af öll tvímæli er hér átt við þann maka staðgöngumóður sem tekur þátt í umsókn og fær leyfi til staðgöngumæðrunar enda er talið að í samþykki viðkomandi felist jafnframt samþykki fyrir því að glasafrjóvgun fari fram á staðgöngumóðurinni. Maki staðgöngumóður sem síðar kann að koma til verður því þessu ferli óviðkomandi. Verður að telja skýrt að hagsmunir barns verði best tryggðir með þessu fyrirkomulagi enda á barn þá í öllum tilvikum tiltekna foreldra frá fæðingu sem bera margvísleg réttindi og skyldur gagnvart barninu. Þá þykir þessi leið einnig í bestu samræmi við hagsmuni staðgöngumóðurinnar. Eins og áður hefur komið fram er þetta einnig í samræmi við þann vilja Alþingis að hrófla ekki við grunnskilgreiningu laga um móðurhugtakið, og vísast til skýringa við 22. gr. frumvarpsins. Í þeim ákvæðum barnalaga sem tengjast staðgöngumæðrun er því orðið foreldrar notað um staðgöngumóður sem ól barnið, og maka hennar eftir atvikum, en væntanlegir foreldrar eru þeir sem skuldbundu sig til að taka við barninu og að óska eftir yfirfærslu á foreldrastöðu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
    Um leið og þessu er slegið föstu verður að móta með hvaða hætti foreldrastaða barnsins geti færst frá foreldrum (staðgöngumóður, og maka hennar eftir atvikum) yfir til væntanlegra foreldra barnsins. Mikilvægt er að ákvörðun um þetta liggi fyrir eins og fljótt og unnt er með hliðsjón af hagsmunum aðila. Um þessar breytingar á móðerni og faðerni barns í kjölfar staðgöngumæðrunar er lagt til í frumvarpinu að nota nýtt hugtak sem kallast yfirfærsla á foreldrastöðu. Í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er yfirfærsla á foreldrastöðu skilgreind sem staðfesting sýslumanns eða dómara um að barn öðlist sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum eins og væri þeirra eigið barn og um leið falli niður lagatengsl barnsins við staðgöngumóður og maka hennar. Er þetta í grunnatriðum sambærilegt við réttaráhrif ættleiðingar. Ekki þarf að hafa mörg orð um þá réttarstöðu sem fylgir því að vera foreldri barns en til áréttingar má nefna að barn á almennt rétt á forsjá foreldra sinna sem felur í sér víðtækar skyldur skv. 28. gr. barnalaga, barn og foreldri sem býr ekki með barninu njóta gagnkvæms umgengnisréttar skv. 46. gr. barnalaga og foreldrar bera auk þess óháð forsjánni ábyrgð á framfærslu barna sinna, sbr. 53. gr. sömu laga. Þá njóta börn og foreldrar gagnkvæms erfðaréttar á grundvelli erfðalaga, nr. 8/1962.
    Ætlast er til að sýslumaður leysi úr máli ef allir aðilar samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu. Ef einhver neitar að samþykkja eða sýslumaður telur yfirfærslu ekki í samræmi við hagsmuni barns er á hinn bóginn gert ráð fyrir að unnt verði að höfða mál fyrir dómi.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar snúi sér til sýslumanns og óski skriflega eftir yfirfærslu á foreldrastöðu barns sem staðgöngumóðir hefur alið samkvæmt ákvæðum laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Er þetta í samræmi við það sem væntanlegir foreldrar hafa skuldbundið sig til að gera með því að sækja um leyfi til staðgöngumæðrunar. Með hliðsjón af hagsmunum aðila sem taka þátt í staðgöngumæðrun er útilokað að koma í veg fyrir ákveðna óvissu um framtíð barns á tímabilinu frá fæðingu þess og þar til tekin hefur verið ákvörðun um yfirfærslu á foreldrastöðu. Hagsmunir staðgöngumóður krefjast þess að hæfilegur tími líði frá fæðingu barns og þar til hún samþykkir yfirfærslu á foreldrastöðu en hagsmunir barnsins kalla á að þessi tími verði eins stuttur og kostur er. Er hér lagt til að væntanlegir foreldrar snúi sér til sýslumanns innan tveggja mánaða frá fæðingu barns. Hér vísast einnig til skýringa við 5. mgr.
    Í 3. mgr. er áréttað að væntanlegir foreldrar, ef um er að ræða fleiri en einn, verði að standa saman að ósk um yfirfærslu á foreldrastöðu. Einnig er fjallað um hvað gera skuli ef væntanlegir foreldrar eru ekki sammála um að óska yfirfærslu á foreldrastöðu. Með væntanlegum foreldrum er hér átt við þau pör sem sóttu í sameiningu um og fengu leyfi nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni þar sem parið skuldbatt sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga. Lögð er áhersla á að ákvæðið á við um þessa aðila þrátt fyrir að þeir kunni að skilja eða slíta sambúð sinni frá því að leyfi var gefið út og hvor um sig kunni að hafa stofnað til nýrrar sambúðar eða gengið í hjúskap að nýju. Eðlilegast þykir að réttarstaða barnsins taki mið af skuldbindingu og vilja þeirra sem óskuðu eftir staðgöngumæðrun í upphafi og ekki er gert ráð fyrir að nýir makar verði með beinum hætti aðilar að ósk um yfirfærslu á foreldrastöðu. Af 3. mgr. má einnig ráða að samstaða væntanlegra foreldra er eitt af grunnskilyrðum fyrir því að sýslumaður geti leyst úr málinu. Ef annað væntanlegra foreldra óskar ekki eftir yfirfærslu á foreldrastöðu getur hitt væntanlega foreldrið óskað eftir að leyst verði úr málinu fyrir dómi. Ef hvorugt væntanlegra foreldra óskar eftir yfirfærslu á foreldrastöðu er einnig gert ráð fyrir að unnt verði að leysa úr máli fyrir dómi, þá að kröfu foreldra barnsins og/eða sérstaks lögráðamanns þess eftir atvikum. Nauðsynlegt þykir að hafa ákvæði af þessu tagi í lögum þótt gengið sé út frá því að afar sjaldan reyni á það. Þrátt fyrir að staðgöngumóðir og maki hennar teljist foreldrar barnsins þykir þannig nauðsynlegt að taka tillit til þess að þau ætluðu ekki að verða foreldrar barnsins til frambúðar með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja, t.d. um framfærslu og erfðarétt. Þau verða því að geta krafist þess að væntanlegir foreldrar taki formlega við foreldrastöðunni í samræmi við þá skuldbindingu sem lá fyrir í upphafi og er tilgangur staðgöngumæðrunar. Rétt er að leggja áherslu á að foreldrastaða barns er ekki það sama og forsjá þess eða umönnun. Ef foreldrar krefjast yfirfærslu á foreldrastöðu og væntanlegir foreldrar neita þar sem þau treysta sér ekki til að axla ábyrgð á forsjá barnsins geta dómstólar gert ráð fyrir að í framhaldinu komi til kasta barnaverndaryfirvalda. Við slíkar aðstæður þykir almennt mega gera ráð fyrir að rofin verði lagatengsl við foreldra og væntanlegum foreldrum gert að þola yfirfærslu á foreldrastöðu. Barnið muni því formlega njóta framfærslu þeirra og erfðaréttar og væntanlegum foreldrum verði með þessu gert að axla ábyrgð á að taka þátt í ráðstöfunum sem felast í að koma barni í fóstur eða ættleiðingu.
    Í 4. mgr. er fjallað um hvað gera skuli ef annað eða bæði væntanlegra foreldra andast áður en kemur að yfirfærslu á foreldrastöðu barns. Í þessum tilvikum þarf ekki skilyrðislaust að leita til dómstóla heldur þykir óhætt að skipa barni sérstakan lögráðamann samkvæmt lögræðislögum sem getur staðið að beiðni til sýslumanns um yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins, þ.e. ef hann telur hagsmuni barnsins best tryggða með þeim hætti. Ef einhleypt væntanlegt foreldri eða báðir væntanlegir foreldrar eru látnir er gert ráð fyrir að foreldrar barnsins geti óskað eftir yfirfærslunni. Hér verður barni einnig skipaður sérstakur lögráðamaður sem gætir hagsmuna barnsins og stendur að beiðni ásamt foreldrum, ef við á. Við þessar aðstæður er einnig gert ráð fyrir að unnt verði að leysa úr máli fyrir dómi ef einhver framangreindra aðila neitar að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu. Rétt er að árétta sérstaklega að gert er ráð fyrir að færa megi foreldrastöðu barns til væntanlegs foreldris sem er látið, annars eða beggja, og bent á að réttaráhrif yfirfærslu teljast frá fæðingu barns, sbr. 7. mgr. Eins og segir í skýringum við 3. mgr. eru foreldrar barns sem verður til með staðgöngumæðrun í mjög sérstakri stöðu þar sem þeir ætluðu ekki að vera foreldrar til frambúðar. Þá verður að líta til þess að að minnsta kosti önnur kynfruma kom frá væntanlegu foreldri og jafnvel báðar. Hér kunna hagsmunir barnsins að vera best tryggðir með því að yfirfæra foreldrastöðuna formlega til væntanlegra foreldra þrátt fyrir að þeirra njóti ekki við til að tryggja að barnið njóti erfðaréttar eftir þá og til að styðja við þau fjölskyldutengsl sem af yfirfærslu á foreldrastöðu leiðir, svo sem tengsl við önnur börn væntanlegra foreldra og aðra nákomna þeim. Árétta ber að ef fallist er á yfirfærslu og báðir væntanlegir foreldrar eru látnir þá tekur barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barnið á fasta búsetu við forsjá barnsins, sbr. 65. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og gerir nauðsynlegar ráðstafanir í framhaldinu.
    Í 5. mgr. er fjallað um upplýst samþykki foreldra barnsins skv. 6. gr. og sérstaks lögráðamanns ef foreldra nýtur ekki við. Samþykki foreldra er, rétt eins og ósk væntanlegra foreldra, eitt grundvallarskilyrði þess að sýslumaður geti leyst úr máli. Hér nægir ekki samþykki staðgöngumóður og maka hennar sem gefið var skv. 15. gr. frumvarpsins áður en leyfi til staðgöngumæðrunar var veitt heldur verða þau sem foreldrar barnsins að samþykkja sérstaklega yfirfærslu á foreldrastöðu eftir að barnið er fætt. Ber sýslumanni að leiðbeina þeim um réttaráhrif samþykkisins. Samkvæmt ákvæðinu er það einnig skilyrði fyrir gildi samþykkis að það sé ekki staðfest fyrr en hið fyrsta tveimur mánuðum eftir fæðingu barns, nema alveg sérstaklega standi á. Hér er fyrst og fremst verið að árétta ógildi samþykkis sem gefið er fyrir fæðingu eða rétt eftir fæðingu barns. Markmiðið er að vernda hagsmuni staðgöngumóður, og maka hennar eftir atvikum, enda þykir hætta á að foreldri sé ekki í þeirri stöðu eða hafi nægilega yfirsýn á þessum tíma til að geta metið ákvörðun sína á skynsamlegan hátt. Höfð er hliðsjón af sambærilegu skilyrði í ættleiðingalögum. Að teknu tilliti til markmiðs með staðgöngumæðrun og þeirrar víðtæku ráðgjafar sem foreldrar hafa fengið á fyrri stigum, skv. 13. gr. frumvarpsins, þykir óhætt að gera hér ráð fyrir tveimur mánuðum í stað þriggja eins og gert er í ættleiðingalögum. Árétta ber að sýslumaður getur ekki vikið frá kröfunni um upplýst samþykki en hann getur fallist á að samþykki sem gefið er áður en fullir tveir mánuðir eru liðnir frá fæðingu barns teljist gilt ef alveg sérstaklega stendur á. Með sama hætti og gildir um ættleiðingu nægir samþykki annars foreldris ef högum hins er svo háttað að það getur ekki látið uppi marktækt samþykki eða það er horfið. Kemur í hlut sýslumanns að meta hvenær þetta á við. Einnig nægir hér samþykki annars foreldris ef hitt er látið. Vert er að benda á að staðan er hér önnur en þegar annað væntanlegra foreldra er látið þar sem í þeim tilvikum ber að skipa barni sérstakan lögráðamann sem gætir hagsmuna barns. Ef högum beggja foreldra er svo háttað að þeir geti ekki látið uppi marktækt samþykki, þeir eru báðir horfnir eða báðir látnir þá þarf samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns og þess sem fer með forsjá barnsins. Gera má ráð fyrir að forsjá yrði oftast í höndum barnaverndarnefndar en þó er sá möguleiki fyrir hendi að foreldrar hafi falið öðrum forsjá barns áður en umræddar aðstæður sköpuðust.
    Í 6. mgr. er fjallað um synjun foreldra eða sérstaks lögráðamanns barns og tekin afstaða til þess erfiða álitaefnis hvort heimila eigi væntanlegum foreldrum að krefjast yfirfærslu á foreldrastöðu barns við þessar aðstæður. Samkvæmt ákvæðum barnalaga í núverandi mynd geta einungis barnið og foreldrar þess haggað við faðerni sem þegar hefur verið ákveðið. Staðan í kjölfar staðgöngumæðrunar þykir svo einstök og óvenjuleg að rétt sé að heimila hér aðkomu væntanlegra foreldra. Skv. 6. mgr. kemur synjun foreldra, eða sérstaks lögráðamanns barns, þannig ekki endanlega í veg fyrir að yfirfærsla á foreldrastöðu barns geti átt sér stað. Gera má ráð fyrir að sjaldan reyni á þetta en í þessari viðkvæmu og erfiðu stöðu verður að leggja á vogarskálar hagsmuni allra þeirra aðila sem komið hafa að ferlinu. Hér er í fyrsta lagi horft til réttaröryggissjónarmiðsins og mikilvægis þess að aðilar í þessum sporum geti lagt ágreining sinn í hendur dómstóla. Í öðru lagi er óeðlilegt að afstaða annars foreldris geti alfarið komið í veg fyrir yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins enda getur staða foreldra verið afar mismunandi á þessu tímamarki. Sem dæmi má nefna þá stöðu að foreldrar hafi skilið eða slitið sambúð fyrir fæðingu barnsins, móðir sem fer ein með forsjá barnsins sé reiðubúin til að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu en að maki hennar neiti. Í þriðja lagi þykir ekki unnt að líta fram hjá því að afstaða foreldranna geti stangast á við hagsmuni barnsins, t.d. ef væntanlegir foreldrar hafa verið aðalumönnunaraðilar barnsins frá fæðingu. Niðurstaðan er því sú að ef foreldrar, annar eða báðir, eða sérstakur lögráðamaður barns þegar það á við, neita að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu má leysa úr málinu fyrir dómi skv. III. kafla A. Sama gildir ef dráttur sýnist verða á að foreldrar láti uppi afstöðu sína til yfirfærslu á foreldrastöðu og minnt er á að mál verður að höfða innan sex mánaða frá fæðingu barns samkvæmt nýrri 24. gr. b, sbr. b-lið 5. tölul. 40. gr. Einnig þykir nauðsynlegt að gera ráð fyrir að leyst verði úr máli fyrir dómi ef sýslumaður telur yfirfærslu á foreldrastöðu andstæða hag og þörfum barns. Árétta ber að samkvæmt tillögu að nýrri 24. gr. f, sbr. f-lið 5. tölul. 40. gr. frumvarpsins, er gert ráð fyrir að dómari kveði á um hvernig foreldrastöðu verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Tekið er fram að dómari geti fallist á kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu þó að samþykki foreldra skorti ef barnið er eða hefur verið í umsjá væntanlegra foreldra og hagir þess mæla eindregið með því.
    Í 7. mgr. er fjallað um gildi og réttaráhrif yfirfærslu á foreldrastöðu barns. Gert er ráð fyrir að yfirfærslan öðlist gildi við staðfestingu sýslumanns. Réttaráhrifin af yfirfærslunni skulu þó gilda frá fæðingu barnsins. Hið sama á við um réttaráhrif dóms samkvæmt nýju ákvæði 24. gr. g barnalaga, sbr. g-lið 5. tölul. 40. gr. frumvarpsins. Um leið og yfirfærslan tekur gildi verður því litið svo á að barn hafi frá fæðingu öðlast sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum/foreldri og ættmennum þeirra eins og það væri þeirra eigið barn. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barns við foreldra skv. 6. gr. Ákvæði þetta er sérstaklega mikilvægt ef foreldri og/eða væntanlegt foreldri fellur frá áður en kemur að yfirfærslu á foreldrastöðu. Í fyrsta lagi getur viðkomandi fallið frá áður en barnið fæðist. Þá reynir á 21. gr. erfðalaga þar sem segir að barn sem getið er áður en arfleifandi fellur frá taki arf eftir hann ef það fæðist lifandi. Túlkun á orðinu arfleifandi mun hér ráðast af því hvort af yfirfærslu á foreldrastöðu verður eða ekki, jafnvel þótt ákvörðun verði ekki tekin fyrr en að liðnum tilskildum tíma eftir fæðingu barnsins. Í öðru lagi getur viðkomandi fallið frá eftir að barnið fæðist en áður en yfirfærsla á foreldrastöðu tekur gildi. Í báðum tilvikum mun barnið taka arf eftir þann/þá sem teljast móðir, faðir eða foreldri barnsins eftir atvikum, samkvæmt þeirri ákvörðun sem tekin verður um foreldrastöðu og erfðatengsl við aðra rofna að sama skapi. Gera verður ráð fyrir að arfsskiptum verði frestað þegar svona stendur á þar til endanleg ákvörðun um yfirfærslu á foreldrastöðu liggur fyrir. Í ákvæðinu er að endingu tekið fram að sýslumaður sendi Þjóðskrá Íslands upplýsingar um yfirfærslu á foreldrastöðu barns.
    Í 8. mgr. er tekin afstaða til þess hvað skuli kalla þá sem taka við foreldrastöðu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar. Við setningu laga nr. 65/2006 og nr. 65/2010, sem breyttu ákvæðum barnalaga, var tekist á um hugtakanotkun í kjölfar þess að tvær konur fengu leyfi til að nýta sér tæknifrjóvgun. Ekki þótti tæk leið að þær yrðu báðar mæður barns heldur varð niðurstaðan sú, skv. 6. gr. barnalaga, að konan sem elur barnið telst móðir þess en maki hennar sem samþykkir tæknifrjóvgun telst foreldri barnsins. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu er hér lagt til að eftir yfirfærslu á foreldrastöðu verði sá sem lagði til kynfrumu skv. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins talinn móðir eða faðir barns eftir því sem við á en sá sem ekki lagði til kynfrumu verði talinn foreldri barnsins. Það hefur í för með sér að hafi báðir væntanlegir foreldrar lagt fram kynfrumu verða þau talin móðir og faðir barnsins. Eins og tekið var fram við setningu laga nr. 65/2010 er lögð áhersla á að orðið foreldri nær almennt yfir það réttarsamband sem orðin móðir og faðir fela í sér og því er ekki talinn leika vafi á því hvað felst í réttarstöðu foreldrisins eða barnsins. Einnig ber að árétta að sú skilgreining sem notuð er í barnalögum hefur fyrst og fremst þann tilgang að skýra réttarstöðu barns að lögum en hefur lítið að segja þegar kemur að því hvernig barn ávarpar foreldra sína.
     Um 4. tölul. Hér er lagt til að ákvæði 23. gr. barnalaga geti aldrei átt við um barn sem alið er af staðgöngumóður samkvæmt ákvæðum laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í 23. gr. er að finna eina ákvæðið sem getur átt við um breytingar á því hver telst faðir eða foreldri barns sem getið er í tengslum við tæknifrjóvgun. Skv. 23. gr. getur sá sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu þannig einungis krafist vefengingar á því að viðkomandi teljist faðir eða foreldri barns ef ljóst þykir að barnið hafi ekki verið getið við tæknifrjóvgunina. Tekur það mið af vilja og forsendum þeirra einstaklinga sem freista þess að verða foreldrar með aðstoð tæknifrjóvgunar. Ákvæðið þykir ekki eiga við í kjölfar staðgöngumæðrunar samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í fyrsta lagi er tekið fram í 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins að við staðgöngumæðrun skuli nota stýrðan meðferðarhring. Er ákvæðinu gagngert ætlað að koma í veg fyrir að staðgöngumóðir verði þunguð eftir samfarir á þeim tíma sem glasafrjóvgun er reynd. Um þetta vísast nánar til skýringa við 10. gr. Í öðru lagi þykir nauðsynlegt að ákvæði 6. gr. a og III. kafla A gefi tæmandi mynd af því hvernig móðerni og faðerni barns sem fæðist í kjölfar staðgöngumæðrunar verði háttað, svo og hvernig verði unnt að standa að fullri og endanlegri yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins.
     Um 5. tölul. Í þessum tölulið er að finna nýjan III. kafla A um dómsmál vegna yfirfærslu á foreldrastöðu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Er þetta í samræmi við þá framsetningu barnalaga að aðgreina efnisákvæði og ákvæði um málsmeðferð við úrlausn ágreiningsmála. Lagt er til að kaflinn hafi að geyma sjö nýjar greinar ásamt fyrirsögnum.
     Um a-lið (24. gr. a).
    Í ákvæðinu er fjallað um lögsögu og varnarþing og gert ráð fyrir að um þetta gildi ákvæði 8. og 9. gr. barnalaga um lögsögu og varnarþing í dómsmálum til feðrunar barns. Ákvæðin hafa verið lengi í lögum lítið breytt og fela í sér rúmar heimildir til að höfða mál hér á landi.
     Um b-lið (24. gr. b).
    
Í ákvæðinu er fjallað um aðild að málum um yfirfærslu á foreldrastöðu barns.
    Í 1. mgr. er lagt til að dómsmál vegna yfirfærslu á foreldrastöðu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni verði að höfða innan sex mánaða frá fæðingu barns. Telja verður að barn hafi augljósa hagsmuni af því að endanleg niðurstaða um foreldrastöðu liggi fyrir sem allra fyrst. Ef leitað er til sýslumanns eftir staðfestingu á yfirfærslu á foreldrastöðu er afar mikilvægt að sýslumaður hraði meðferð málsins og að niðurstaða hans liggi fyrir tímanlega svo aðilum gefist kostur á að taka ákvörðun um hvort höfða skuli mál eða ekki.
    Samkvæmt 2. mgr. geta höfðað mál barnið sjálft, foreldrar, annar eða báðir, og væntanlegir foreldrar barns, annar eða báðir. Ljóst er að foreldrar geta höfðað mál í nafni barns. Hið sama á við um sérstakan lögráðamann barns sem kann að hafa aðra skoðun á yfirfærslu á foreldrastöðu en væntanlegt foreldri.
    Samkvæmt 3. mgr. skal máli barns beint gegn foreldrum og væntanlegum foreldrum. Hugsanlegt er að einhverjir úr þessum hópi séu samþykkir yfirfærslunni þannig að málshöfðun megi rekja til andstöðu tiltekins aðila. Eigi að síður þykir nauðsynlegt að krafa barns um yfirfærslu á foreldrastöðu beinist að öllum þeim sem verða bundnir af niðurstöðu málsins óháð því hver afstaða hvers og eins til yfirfærslunnar kunni að vera. Hver og einn metur í kjölfar málshöfðunar að hve miklu leyti viðkomandi tekur til varna eða tekur þátt í meðferð málsins.
    Í 4. mgr. er tekið fram að þegar aðrir en barn höfði mál skuli því beint gegn foreldri/um eða væntanlegu/m foreldri/um sem skuli verða bundnir af niðurstöðu dóms um yfirfærslu á foreldrastöðu. Með þessu er átt við alla þá aðila sem fengu leyfi til staðgöngumæðrunar. Þannig er til dæmis óheimilt að beina máli einungis að öðru væntanlegra foreldra ef maki þess tók þátt í umsókn og fékk leyfi til staðgöngumæðrunar. Tekið er fram að ef einhver þessara aðila er látinn skuli einnig stefna barninu sjálfu og skipa því sérstakan lögráðamann til að gæta hagsmuna þess í málinu. Ákvæðið er af sama meiði og ákvæði 3. mgr. og vísast til skýringa við það.
     Um c-lið (24. gr. c).
    Í 1. mgr. eru talin upp þau ákvæði barnalaga sem þykja eiga við um mál skv. III. kafla A. Er hér fyrst og fremst átt við ýmis ákvæði II. kafla laganna um dómsmál til feðrunar barns en einnig nokkur ákvæði VI. kafla um dómsmál vegna ágreinings um forsjá eða lögheimili barns. Með þessu er farin sambærileg leið og í 22. gr. laganna, að breyttu breytanda. Rétt er að gefa stutt yfirlit yfir þau ákvæði sem gilda um dómsmál um yfirfærslu á foreldrastöðu barns.
    Fyrst er talin upp 11. gr. barnalaga sem fjallar um gjafsókn barns sem er stefnandi máls. Eðlilegt þykir að þetta ákvæði gildi um þau mál sem hér er fjallað um og rétt að minna á að það eru fyrst og fremst foreldrar og/eða sérstakur lögráðamaður barns sem geta höfðað mál í nafni barnsins. Hið sama á þó einnig við um væntanlega foreldra hafi þeir fengið forsjá barnsins. Einnig gilda ákvæði 13. og 14. gr. um málsvara og aðilaskýrslur en ákvæðin þarfnast ekki skýringa. Vakin er athygli á því að rétt þykir að ákvæði 15. gr. gildi í málum um yfirfærslu á foreldrastöðu. Í 15. gr. er fjallað um heimild dómara til að kveða á um að blóðrannsókn og aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir, verði gerðar á aðilum máls. Með hliðsjón af ákvæðum frumvarpsins þykir nánast útilokað annað en að uppruni kynfruma liggi ávallt ljós fyrir áður en fósturvísir verður til. Þá verður að ítreka að niðurstaða máls um yfirfærslu á foreldrastöðu barns í kjölfar staðgöngumæðrunar ræðst ekki af niðurstöðu mannerfðafræðilegra rannsókna, samanborið við það sem gildir í málum til feðrunar barns skv. 17. gr. barnalaga. Þrátt fyrir þetta þykir til öryggis rétt að heimila dómara að taka afstöðu til þess hvort rannsóknir af þessu tagi skuli fara fram enda ekki útilokað að afstaða aðila ráðist af einhvers konar óvissu um þessi atriði og að niðurstöður geti haft óbein áhrif á lyktir máls um hvernig hagsmunum barns verði best borgið. Ákvæði 18. gr. um heimildir til að ljúka máli með dómsátt gildir hér einnig. Eins og áður sagði þykir rétt að nokkur ákvæði VI. kafla gildi að auki um mál af þessu tagi. Er fyrst að nefna 38. gr. til áréttingar á því að málin sæti almennri meðferð einkamála og um frávik frá hinum almennu reglum. Er þar sérstaklega tekið fram að flýta skuli meðferð mála. Þá þykir rétt að dómari skuli reyna sáttaumleitan á öllum stigum máls í samræmi við ákvæði 40. gr. Einnig er lagt til að dómari verði ekki bundinn af málatilbúnaði aðila, sbr. 41. gr. Gert er ráð fyrir að 4. mgr. 43. gr. gildi í málum sem þessum en þar er áréttuð skylda dómara til að tilkynna barnaverndarnefnd um aðstæður barns ef þörf krefur. Rétt er að taka fram að önnur ákvæði 43. gr. sem fjalla um rétt barns til að tjá sig gilda ekki eðli máls samkvæmt í ljósi 24. gr. b, sbr. b-lið 5. tölul. 40. gr. frumvarpsins, um skyldu til að höfða mál innan sex mánaða frá fæðingu barns. Að lokum er lagt til að ákvæði 44. gr. um dómsorð, nafnleynd og birtingu dóms gildi um mál vegna yfirfærslu á foreldrastöðu. Ákvæðið þarfnast ekki sérstakra skýringa hér.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að 11. gr. barnalaga um gjafsókn barni til handa eigi einnig við í þeim tilvikum þegar foreldri/ar eru málsaðilar í málum vegna staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni skv. III. kafla A. Eins og áður hefur verið vikið að getur foreldri/foreldrar almennt höfðað mál í nafni barns og þannig notið gjafsóknar skv. 11. gr. barnalaga, sbr. 24. gr. c, sbr. c-lið 5. tölul. 40. gr. Í ljósi þess að staðgöngumóðir og maki hennar eiga almennt ekki að þurfa að bera útlagðan kostnað af því ferli sem leiðir af staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni þykir mikilvægt að árétta að þau sem foreldrar njóti gjafsóknar sem málsaðilar, hvort svo sem foreldrar eru stefnendur eða stefndu í máli um yfirfærslu á foreldrastöðu barns, án tillits til hvort þau fara með forsjá þess.
     Um d-lið (24. gr. d).
    Í 24. gr. d er gert ráð fyrir að dómari í ágreiningsmáli um yfirfærslu á foreldrastöðu hafi heimild til að úrskurða til bráðabirgða hver af aðilum málsins skuli fara með forsjá, lögheimili barns, umgengni og meðlag eftir því sem barni er fyrir bestu. Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir því skv. 24. gr. frumvarpsins að staðgöngumóðir, og maki hennar eftir atvikum, fari með forsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu nema um annað sé sérstaklega samið. Til að tryggja réttarstöðu barns meðan mál er rekið þykir nauðsynlegt að dómari hafi heimild til að leysa til bráðabirgða ágreining sem kann að rísa um þau atriði sem áður voru talin. Telja verður að helst geti reynt á þetta ef foreldrar hafa falið væntanlegum foreldrum umsjá barns strax eftir fæðingu en neita síðar að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu og krefjast þess að fá barnið aftur til sín. Hefur dómari heimild við þessar aðstæður meðal annars til að úrskurða hver af aðilum skuli fara með forsjá barnsins og hver skuli njóta umgengni. Gera verður ráð fyrir að dómari líti eftir því sem við á til sjónarmiða sem gilda við túlkun 35. gr. barnalaga um úrskurð til bráðabirgða. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu verður meðal annars að líta til hæfis, tengsla og stöðugleika í lífi barnsins auk þess sem æskilegt er að stefna að því að draga úr líkum á að einhver málsaðila öðlist yfirburðastöðu ef mál dregst á langinn.
     Um e-lið (24. gr. e).
    Í ákvæðinu er áréttað að dómari geti sjálfur, ef nauðsynlegt þykir, aflað sönnunargagna. Um gagnaöflun dómara gilda ákvæði 42. gr. eftir því sem við á. Dómari getur því meðal annars lagt fyrir aðila að afla tilgreindra sönnunargagna sem varða aðstæður þeirra eða barnsins eða lagt fyrir aðila að afla sérfræðilegrar álitsgerðar ef hann telur hennar þörf.
    Um f-lið (24. gr. f).
    Í 1. mgr. kemur fram í 1. málsl. að niðurstaða dómara um hvernig foreldrastöðu barns skuli háttað ráðist af því sem barninu er fyrir bestu. Gengið er út frá að í langflestum tilvikum ljúki ferli í tengslum við staðgöngumæðrun með því að sýslumaður staðfesti óskir og samþykki allra aðila fyrir yfirfærslu á foreldrastöðu barns. Erfitt er að setja fram leiðbeiningar um hvaða sjónarmið eigi að ráða úrslitum við mat á hagsmunum barns ef upp kemur ágreiningur þar sem málsatvik verða eflaust með mjög mismunandi sniði. Taka má þó mið af þeim lykilsjónarmiðum sem vikið var að í skýringum við 4. gr. frumvarpsins sem þykja til þess fallin að tryggja börnum þroskavænlegar uppeldisaðstæður. Meðal þeirra atriða sem nauðsynlegt er að líta til eru þarfir barns fyrir trygga umönnun, jákvæð tengsl, stöðugleika og öryggi. Mikilvægt er að leggja áherslu á að umsókn aðila skv. 11. gr. frumvarpsins, samþykki skv. 15. gr. eða viljayfirlýsing skv. 16. gr. ráða ekki úrslitum í máli um yfirfærslu á foreldrastöðu. Þessi atriði kunna þó að hafa umtalsverð áhrif á þá niðurstöðu sem komist verður að. Gera má almennan greinarmun á málum eftir því hvort það eru væntanlegir foreldrar eða foreldrar skv. 6. gr. sem hafna því að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu barns.
    Ef væntanlegir foreldrar óska ekki eftir yfirfærslu á foreldrastöðu er engu síður, í samræmi við ákvæði 3. mgr. nýrrar 6. gr. a, sbr. 3. tölul. 40. gr., og 2. mgr. nýrrar 24. gr. b, sbr. b-lið 5. tölul. 40. gr. frumvarpsins, gert ráð fyrir að foreldrar geti krafist þess að væntanlegir foreldrar taki við foreldrastöðunni enda gerðu þau ekki ráð fyrir að verða foreldrar barnsins til frambúðar. Eins og vikið var að í skýringum við 3. mgr. nýrrar 6. gr. a þykir almennt mega gera ráð fyrir að rofin verði lagatengsl við foreldra og væntanlegum foreldrum gert að þola yfirfærslu á foreldrastöðu við þessar aðstæður. Í kjölfarið er tryggt að umönnun barnsins verði falin einhverjum sem er vel í stakk búinn til að uppfylla þarfir barnsins í samræmi við ákvæði þeirra laga sem um þá ráðstöfun gilda.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er sérstaklega tekið á því þegar samþykki foreldra skortir. Í samræmi við almenn réttindi og skyldur foreldra verður að gera ráð fyrir að foreldrar hafi mjög sterka stöðu í máli af þessu tagi. Þó verður að skoða sérstaklega hvað býr að baki ef annað foreldra samþykkir yfirfærslu á foreldrastöðu en hitt neitar. Í ákvæðinu er tekið fram að dómari geti fallist á kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu þrátt fyrir að samþykki foreldra skorti ef barnið er eða hefur verið í umsjá væntanlegra foreldra og hagir þess mæla eindregið með því. Gera verður ráð fyrir að afhending barns geti haft hér veruleg áhrif með hliðsjón af tengslum og stöðugleika. Er hér vísað til þess sem segir í skýringum við 13. gr. frumvarpsins um áhrif þess að foreldrar afhendi væntanlegum foreldrum barnið.
    Í 2. mgr. er niðurstaða í máli um yfirfærslu á foreldrastöðu barns tengd við þá aðila sem stóðu að umsókn og fengu leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Annars vegar kemur til greina að hafna alfarið kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins og verða þá þeir einstaklingar sem urðu foreldrar barnsins við fæðingu, skv. 1. mgr. nýrrar 6. gr. a, sbr. 6. gr. barnalaga, áfram foreldrar barnsins til frambúðar. Óheimilt er að færa foreldrastöðu barnsins einungis frá öðru þeirra ef um hjón eða sambúðarfólk var að ræða. Ef fallist er á kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu kemur hins vegar til álita að færa foreldrastöðu barnsins til beggja væntanlegra foreldra sem fengu sameiginlega leyfi til staðgöngumæðrunar samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þannig er einnig óheimilt að færa foreldrastöðuna einungis til annars þeirra ef um hjón eða sambúðarfólk var að ræða. Ef væntanlegt foreldri stóð eitt að því að fá leyfi til staðgöngumæðrunar þá má færa foreldrastöðuna til viðkomandi einstaklings.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um heimild dómara í máli um yfirfærslu á foreldrastöðu til að leysa við sérstakar aðstæður úr kröfum aðila um forsjá, lögheimili barns og meðlag, sem og um inntak umgengnisréttar barns í samræmi við niðurstöðu um foreldrastöðu barnsins. Á þetta einungis við annars vegar um innbyrðis kröfur staðgöngumóður og maka hennar sem kunna að hafa skilið og slitið sambúð ef niðurstaðan verður sú að ekki er fallist á yfirfærslu foreldrastöðu og hins vegar um innbyrðis kröfur væntanlegra foreldra sem eins er ástatt um ef niðurstaðan verður sú að fallist er á yfirfærslu á foreldrastöðu. Árétta ber að grundvallarmunur er á þessu ákvæði og ákvæði 24. gr. d um úrskurð til bráðabirgða. Þegar kveðinn er upp endanlegur dómur er þannig ekki gert ráð fyrir að foreldrar og væntanlegir foreldrar fari samhliða með réttindi sem leiðir af foreldrastöðu. Þannig er ekki gert ráð fyrir til dæmis að hafnað verði kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu en væntanlegum foreldrum falin forsjá barns eða að foreldri og væntanlegt foreldri geti farið sameiginlega með forsjá barns. Þá er ekki heldur gert ráð fyrir að almennt megi úrskurða um umgengnisrétt þeirra sem voru foreldrar ef fallist er á yfirfærslu á foreldrastöðu eða umgengnisrétt væntanlegra foreldra ef kröfu um yfirfærslu er hafnað. Vert er þó að geta þess að í undantekningartilvikum gæti umgengnisréttur hugsanlega byggst sjálfstætt á ákvæði 46. gr. a um umgengni barns við nákomna ef sérstök tengsl þættu hafa myndast. Meginrök fyrir því að heimila dómara að leysa innbyrðis ágreining aðila við þessar aðstæður er það hagræði sem felst í að fá úrlausn allra þessara þátta í einu og sama máli. Þar sem niðurstaða máls um yfirfærslu á foreldrastöðu á að ráðast af því sem barni er fyrir bestu er líklegt að dómari hafi nægilega yfirsýn yfir þau atriði sem þarf að taka afstöðu til. Hér er einnig horft til þess að ágreiningur þessara aðila í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita getur verið samofinn afstöðu þeirra til kröfu um yfirfærslu á foreldrastöðu. Lögð er áhersla á að hér er þó einungis um heimild dómara að ræða. Kröfur um forsjá o.fl. mega því ekki verða til að tefja meðferð máls um yfirfærslu á foreldrastöðu og er dómara heimilt að hafna því að ráða þessum atriðum til lykta ef svo ber undir.
     Um g-lið (24. gr. g).
    Hér er fjallað um réttaráhrif dóms. Ákvæðið er efnislega sambærilegt við ákvæði 7. mgr. nýrrar 6. gr. a, sbr. 3. tölul. 40. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við ákvæðið.

Um 41. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, til að mæla fyrir um rétt staðgöngumóður og maka hennar eftir atvikum, sem foreldra barnsins, og rétt væntanlegra foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks, sbr. einnig 23. gr. frumvarpsins. Við túlkun laganna þarf að gæta sérstaklega að því hverjir eru foreldrar barns á hverjum tíma. Hér sem endranær verður staðgöngumóðirin móðir barnsins við fæðingu og maki hennar eftir atvikum faðir þess eða foreldri. Væntanlegir foreldrar verða á hinn bóginn móðir, faðir eða foreldri eftir atvikum eftir yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins.
    Gert er ráð fyrir að móðir og maki hennar, sé hann til staðar, eigi sameiginlegan rétt til tveggja mánaða fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks verði barnið afhent væntanlegum foreldrum eftir fæðingu þess. Væntanlegir foreldrar munu eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks eins og aðrir foreldrar, þ.e. þrjá mánuði hvort um sig og þrjá mánuði sameiginlega, sem stofnast við afhendingu barnsins. Komi ekki til afhendingar barnsins á móðir og maki hennar, ef við á, sama rétt og aðrir foreldrar til töku fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks, þ.e. þrjá mánuði hvort um sig og þrjá mánuði sameiginlega, nema á tímabilinu verði kveðinn upp dómur um yfirfærslu á foreldrastöðu barns.
    Óþarft þykir að skýra allar breytingar sem gerðar eru á lögum um fæðingar- og foreldraorlof en rétt er að víkja að nokkrum sértækum atriðum. Gert er ráð fyrir að væntanlegir foreldrar eigi rétt til almenns fæðingarorlofs/fæðingastyrks, þ.e. þrjá mánuði hvort um sig og sameiginlegan rétt til þriggja mánaða. Er þá gengið út frá því að fallist verði á yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins. Væntanlegir foreldrar öðlast réttinn til fæðingarorlofs/fæðingastyrks við afhendingu barns frá foreldrum og samkvæmt breytingum sem lagðar eru til á 8., 18. og 19. gr. skal afhending barns miðast við þann tíma þegar væntanlegir foreldrar taka við umsjá þess enda staðfesti læknir, ljósmóðir eða aðrir til þess bærir aðilar afhendinguna. Árétta ber að í staðfestingu þessari skulu koma fram nöfn væntanlegra foreldra og staðgöngumóður og maka hennar svo að Fæðingarorlofssjóði berist nauðsynlegar upplýsingar til að greiða út fæðingarorlof eða fæðingarstyrk. Einnig skal þess getið að breytingarnar á fæðingar- og foreldraorlofslögum gera ekki ráð fyrir að væntanlegir foreldrar eigi rétt til fæðingarorlofs/ fæðingarstyrks vegna andvana fæðingar eða fósturláts en skv. 12. og 20. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof ættu staðgöngumóðir og maki hennar rétt til orlofs eða styrks í þessum aðstæðum.
    Ákvæði 16. og 21. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem fjallað er um fjölburafæðingar og lengingu orlofs foreldra vegna þess, gætu átt við um væntanlega foreldra, hafi þau fengið fleiri en eitt barn afhent í kjölfar staðgöngumæðrunar, eða móður og maka hennar, verði ekki af yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins. Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 22. gr. fæðingarorlofslaga þannig að væntanlegir foreldrar, sem fengið hafa afhent barn frá foreldrum, geti sótt um framlengingu fæðingarorlofs/fæðingastyrks vegna alvarlegra veikinda barns eða fötlunar. Áréttað skal að þessi tími getur samanlagt aldrei orðið lengri en sjö mánuðir þegar um staðgöngumæðrun er að ræða. Samkvæmt breytingum sem lagðar eru til á VII. kafla laganna er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar geti átt rétt á foreldraorlofi og að sá réttur stofnist við afhendingu barnsins.
    Samkvæmt breytingu sem lögð er til á 32. gr. fæðingarorlofslaga eiga foreldrar sameiginlega rétt til tveggja mánaða fæðingarorlofs/fæðingastyrks afhendi þau barn í kjölfar staðgöngumæðrunar. Er þetta í samræmi við rétt kynforeldra sem láta frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs. Skv. 3. mgr. 8. gr. laganna skal móðir vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Þessi tími þykir of skammur sem hámarkstími til greiðslu fæðingarorlofs/fæðingarstyrks í tilviki staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Klínísk eftirskoðun nýbakaðra mæðra fer fram sex vikum eftir fæðingu barns og við venjulegar aðstæður á móðir að hafa jafnað sig líkamlega eftir fæðingu á þessum tíma. Þykir því hæfilegt að miða við að staðgöngumóðir og maki hennar eigi sameiginlegan tveggja mánaða rétt til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks í kjölfar staðgöngumæðrunar. Er það í samræmi við þann lágmarkstíma sem lagt er til í breytingum á barnalögum að líði frá fæðingu barns þar til yfirfærsla á foreldrastöðu barns til væntanlegra foreldra getur farið fram.

Um 42. gr.


    Í 4. gr. laga nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu, er fjallað um þau atriði sem almannaskráning byggist á eins og til dæmis tilkynningu um aðsetursskipti og tilkynningu ljósmæðra um fæðingar. Nauðsynlegt þykir að bæta sérstökum tölulið við ákvæðið svo að almannaskráning byggist einnig á tilkynningu sýslumanna og dómstóla um yfirfærslu á foreldrastöðu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga í kjölfar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og tilkynningu um staðfestingu erlendrar ákvörðunar um foreldrastöðu barns skv. 2. mgr. 26. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að árétta að skv. 1. mgr. 19. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu veitir Þjóðskrá Íslands upplýsingar og aðgang að gögnum eftir reglum sem ráðherra setur og skv. 3. mgr. sömu greinar getur ráðherra sett reglugerð um nánari framkvæmd laganna, þar á meðal um aðgang að skránni. Í tilviki staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni mætti hugsa sér að ráðherra setti reglur um hvaða upplýsingar kæmu fram í fæðingarvottorði barns sem alið er af staðgöngumóður og hvort það eigi að innihalda upplýsingar um bæði væntanlega foreldra og staðgöngumóður. Í þessu sambandi er rétt að nefna að þegar barn hefur verið ættleitt koma bæði nöfn kynforeldra þess og kjörforeldra fram á fæðingarvottorði þess. Ljóst er að þetta verklag styður við rétt barnsins til að þekkja uppruna sinn og með því er komið í veg fyrir hjónabönd sem eru bönnuð á grundvelli skyldleika. Fyrirkomulagið hefur aftur á móti verið gagnrýnt fyrir að ekki sé hægt að fá fæðingarvottorðið með öðrum hætti þar sem þau eru nýtt í margvíslegum tilgangi. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands er þetta fyrirkomulag í endurskoðun.
    Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um þjóðskrá voru kynnt á vef innanríkisráðuneytisins rétt áður en starfshópur um staðgöngumæðrun lauk störfum. Ljóst er að gera þarf breytingar á því frumvarpi verði frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni samþykkt á Alþingi.

Um 43. gr.


    Gera þarf breytingar á lögum nr. 45/1996, um mannanöfn, svo að væntanlegir foreldrar geti breytt kenninafni (föður- og móðurnöfn og ættarnöfn) barns sem alið er af staðgöngumóður eftir að yfirfærsla á foreldrastöðu hefur farið fram. Breytingar á eiginnafni barns, t.d. ef staðgöngumóðir hefur nefnt barnið, eru háðar almennum reglum mannanafnalaga.

Um 44. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að erfðalögum verði breytt til að taka af öll tvímæli um erfðarétt barns sem alið er af staðgöngumóður. Lagt er til að lögerfðatengsl milli barns og ættingja þess, þ.e. staðgöngumóður, maka hennar ef við á og ættingja þeirra, falli niður frá fæðingu barnsins enda fari yfirfærsla á foreldrastöðu fram samkvæmt ákvæðum barnalaga, eins og lagt er til að þeim verði breytt í frumvarpi þessu. Barn sem fætt er af staðgöngumóður erfir þá væntanlega foreldra og ættingja þeirra enda fari yfirfærsla á foreldrastöðu fram. Við smíði ákvæðisins var höfð hliðsjón af ákvæði 5. gr. erfðalaga um stöðu kjörbarna við ættleiðingu.

Um 45. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um þá breytingu sem gera þarf á lögum um íslenskan ríkisborgararétt verði frumvarpið að lögum. Breytingin hefur það að markmiði að tryggja barni, sem fætt er af erlendri staðgöngumóður, samkvæmt lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, íslenskt ríkisfang við yfirfærslu á foreldrastöðu enda sé að minnsta kosti annað væntanlegra foreldra íslenskur ríkisborgari. Fái barn, sem alið er af staðgöngumóður, íslenskan ríkisborgararétt frá staðgöngumóður eða maka hennar við fæðingu samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt, en væntanlegir foreldrar eru með erlent ríkisfang, á barnið rétt á því samkvæmt íslenskum lögum að halda íslenska ríkisfanginu við yfirfærslu á foreldrastöðu. Möguleiki á tvöföldum ríkisborgararétti barnsins byggist þó á því hvort það ríki þar sem barnið öðlast ríkisfang heimili tvöfalt ríkisfang. Ef svo er ekki mun viðkomandi ríki væntanlega gera þá kröfu að barnið verði leyst frá íslensku ríkisfangi áður en það öðlast annað ríkisfang.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

    Með frumvarpi þessu er áformað að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Leitast er við að setja staðgöngumæðrun skýran ramma þannig að hún sé eingöngu heimiluð í velgjörðarskyni, barni sé tryggður réttur til að þekkja uppruna sinn og ekki verði haggað við þeirri grunnskilgreiningu laga að sú kona sem elur barn teljist móðir þess. Tilgangur frumvarpsins er að stuðla að vandaðri framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni þar sem fyrst og fremst skal tryggja hag og réttindi barnsins sem fæðist eftir staðgöngumæðrun, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og farsæla aðkomu hinna væntanlegu foreldra. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2017.
    Hvað varðar fjárhagsáhrif þá gerir frumvarpið í fyrsta lagi ráð fyrir að sett verði á fót nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Hlutverk nefndarinnar verði að veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, tryggja umsækjendum faglega ráðgjöf og kanna hagi og aðstæður þeirra til að ganga úr skugga um að barn muni búa við þroskavænleg uppeldisskilyrði. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að réttur til töku fæðingarorlofs verði rýmkaður. Tilgreindur er viðbótarréttur staðgöngumæðra og maka þeirra, eftir atvikum, til töku fæðingarorlofs sem nemur tveimur mánuðum umfram hefðbundinn fæðingarorlofsrétt væntanlegra foreldra. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar greiði fyrir glasafrjóvgunarmeðferð og njóti greiðsluþátttöku ríkisins í meðferðum líkt og ákveðið er á hverjum tíma.
    Í frumvarpinu er sérstök gjaldtökuheimild þar sem lagt er til að innheimt verði gjald úr hendi væntanlegra foreldra vegna ráðgjafar sérfræðinga til væntanlegra foreldra, staðgöngumóður og maka og til að standa straum af kostnaði við framkvæmd mats fagaðila á högum og aðstæðum foreldra og væntanlegra foreldra.
    Gert er ráð fyrir að ríkissjóður standi undir þóknun nefndarmanna, aðsetri nefndarinnar og fleira. Kostnaðaráhrif á ríkissjóð vegna nefndarinnar að frádregnum sértekjum eru metin á tæplega 3,5 m.kr. á fyrsta ári en um 3 m.kr. á ári þar á eftir. Velferðarráðuneytið gerir ráð fyrir að almennur starfsmaður í hlutastarfi aðstoði nefndina í daglegum störfum og að það starfshlutfall verði ekki hátt svo að varla verði þörf fyrir að ráða nýjan starfsmann heldur verði hægt að samnýta starfsmenn sem vinna að öðrum verkefnum, m.a. fyrir aðrar nefndir á vegum ráðuneytisins. Kostnaður við leigu á húsnæði undir nefndina er metinn vera um 500 þ.kr. á ári. Kostnaður á fyrsta ári eftir gildistöku er metinn ívið hærri en komandi ára þar sem unnið yrði á uppsafnaðri þörf fyrir staðgöngumæðrun en gert er ráð fyrir að staðgöngumæðranir verði 15 á fyrsta ári en síðan 10 á ári. Ætla má að fæðingarorlofsgreiðslur vegna aukins réttar til töku fæðingarorlofs aukist en að það verði þó óverulegt miðað við veltu Fæðingarorlofssjóðs en útgjöld sjóðsins eru fjármögnuð að fullu með hlutdeild í almennu tryggingagjaldi. Erfitt er að meta hver greiðsluþátttaka ríkisins vegna glasafrjóvgunarmeðferða verður en ekki virðist ástæða til að ætla að þau útgjöld verði teljandi miðað við þá fjármuni sem er varið í þann málaflokk. Óbeinir kostnaðarliðir eru m.a. ferðakostnaður sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands sem og lyfjakostnaður. Um þá gilda sérstakar reglugerðir sem eru kostnaðarmetnar sérstaklega við gildistöku. Auk þess má vænta að frumvarpið leiði af sér einhverja fjölgun verkefna hjá sýslumönnum og dómstólum vegna yfirfærslu á foreldrastöðu barns sem fæðist í kjölfar staðgöngumæðrunar en sú vinna ætti að rúmast innan núverandi starfsemi þessara stofnana.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs hækki um 4 m.kr. árið 2017 en um 3,5 m.kr. á ári til frambúðar eftir það. Ekki hefur verið gert sérstaklega ráð fyrir þessum útgjöldum í útgjaldaramma velferðarráðuneytisins í fjárlögum.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Áfangaskýrsla vinnuhóps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun, heilbrigðisráðuneytið, 5. febrúar 2010, bls. 2.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Sjá skýrslu: Ættleiðingar á Íslandi, í þágu hagsmuna barns, innanríkisráðuneytið, mars 2011.
Neðanmálsgrein: 3
    3 S.H. o.fl. gegn Austurríki, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 3. nóvember 2011 í máli nr. 57813/00.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Hague Conference on Private International Law: A Preliminary Report on the Issues Arising from International Surrogacy Arrangements (mars 2012) og Hague Conference on Private International Law: Private International Law Issues Surrounding the Status of Children, Including Issues Arising from International Surrogacy Arrangements (mars 2011).
Neðanmálsgrein: 5
    5 Upplýsingar eru fengnar úr skýrslu Evrópuþingsins, A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, bls. 206–211.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Sjá meðal annars vef Human Fertilisation Embryology Authority, www.hfea.gov.uk.
Neðanmálsgrein: 7
    7 Sjá „Guidance for Parental Order Reporters“, Children and Family Court Advisory and Support Service, www.cafcass.gov.uk/media/6721/Parental%20Order%20Guidance%20050412.pdf.
Neðanmálsgrein: 8
    8 Karen Busby, Of Surrogate Mother Born: Parentage Determinations in Canada and Elsewhere, Canadian Journal of Women and the Law, 25(2) 2013, bls. 307.
Neðanmálsgrein: 9
    9 Sjá skýrslu Evrópuþingsins, A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, bls. 62.
Neðanmálsgrein: 10
    10 Sjá vef Human Fertilisation Embryology Authority, www.hfea.gov.uk/7962.html.
Neðanmálsgrein: 11
    11 Upplýsingar eru fengnar úr skýrslu Evrópuþingsins, A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, bls. 42–48 og 277–293.
Neðanmálsgrein: 12
    12 Upplýsingar eru fengnar úr skýrslu Evrópuþingsins, A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, bls. 302–306.
Neðanmálsgrein: 13
    13 K. Svitnev, Legal control of surrogacy – international perspectives:
www.jurconsult.ru/publications/ethical_dillemas/13_Legal%20control%20of%20surrogacy%20- %20international%20perspectives.pdf.
Neðanmálsgrein: 14
    14 Eins og sést af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 27. janúar 2015 í máli Paradiso og Campanelli g. Ítalíu í máli nr. 25358/12 getur orðið misbrestur á þessu. Í málinu hafði ítalskt par nýtt sér þjónustu staðgöngumóður í Rússlandi í þeirri trú að kynfrumur þeirra hefðu verið notaðar en við síðari mannerfðafræðilega rannsókn kom í ljós að barnið hafði engin líffræðileg tengsl við þau.
Neðanmálsgrein: 15
    15 Upplýsingar eru fengnar úr skýrslu Evrópuþingsins, A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, bls. 333–338.
Neðanmálsgrein: 16
    16 Upplýsingar eru fengnar frá Karen Busby, Of Surrogate Mother Born: Parentage Determinations in Canada and Elsewhere, Canadian Journal of Women and the Law, 25(2) 2013, bls. 293, Áfangaskýrslu vinnuhóps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun, heilbrigðisráðuneytið, 5. febrúar 2010, sjá bls. 14 og Ukrainian Family Law: www.familylaw.com.ua/index.php.
Neðanmálsgrein: 17
    17 Darr L. Hofman, Mama's Baby, Daddy's Maybe: A State-by-state Survey of Surrogacy Laws and their Disparate Gender Impact, William Mitchell Law Review, 35 (2008–2009), bls. 454. Radhika Rao, Surrogacy Law in the United States: The Outcome of Ambivalence í Surrogate Motherhood: International Perspectives (Rachel Cook, Shelley Day Sclater og Felicity Kaganas, 2003), bls. 23–34. Austin Caster, Don't Split the Baby: How the U.S. Could Avoid Uncertainty and Unnecessary Litigation and Promote Equality by Emulating the British Surrrogacy Law Regime, Connecticut Public Interest Law Journal, 10 (2010–2011), bls. 486–489.
Neðanmálsgrein: 18
    18 Darr L. Hofman, Mama's Baby, Daddy's Maybe: A State-by-state Survey of Surrogacy Laws and their Disparate Gender Impact, William Mitchell Law Review, 35 (2008–2009), bls. 460 og 463–464.
Neðanmálsgrein: 19
    19 Upplýsingar eru fengnar úr skýrslu Evrópuþingsins, A comparative study on the regime of surrogacy in EU Member States, bls. 49–52.
Neðanmálsgrein: 20
    20 Upplýsingar eru fengnar frá Karen Busby og úr grein hennar Of Surrogate Mother Born: Parentage Determinations in Canada and Elsewhere, Canadian Journal of Women and the Law, 25(2) 2013.
Neðanmálsgrein: 21
    21 Government of India, Law Commission of India: Need for legislation to regulate assisted reproductive technology clinics as well as rights and obligations of parties to a surrogacy, Report No. 228, August 2009.
Neðanmálsgrein: 22
    22 Jwala D. Thapa: The 'Babies M': The Relevance of Baby Manji Yamada v. Union of India (UOI) and in the Matter of Baby "M", Journal of Indian Law and Society, Vol. 2 (Winter 2010), bls. 107–108.
Neðanmálsgrein: 23
    23 Réttarstaða barns við staðgöngumæðrun – ýmis álitaefni, dómsmála- og mannréttindaráðuneytið: www.innanrikisraduneyti.is/verkefni-raduneytis/barnalog/upplysingar/nr/24354.
Neðanmálsgrein: 24
    24 Surrogati – barnas juridiske status etter barneloven og adopsjonsloven – orientering om gjeldende rett og saksbehandling, Barne-, likestillings- og inkluderingsdepartementet, dags. 9. október 2011 en síðast uppfært 25. júní 2013.
Neðanmálsgrein: 25
    25 Mennesson og Labassee gegn Frakklandi, dómar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 26. júní 2014 í málum nr. 65192/11 og 65941/11. Báðir dómarnir teljast endanlegir skv. 2. mgr. 44. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Neðanmálsgrein: 26
    26 Paradiso og Campanelli g. Ítalíu, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 27. janúar 2015 í máli nr. 25358/12.
Neðanmálsgrein: 27
    27 Áfangaskýrsla vinnuhóps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun, heilbrigðisráðuneytið, 5. febrúar 2010, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 28
    28 Sjá Áfangaskýrslu vinnuhóps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun, heilbrigðisráðuneytið, 5. febrúar 2010.
Neðanmálsgrein: 29
    29 Sjá skýrslu NordForsk: Legislation on biotechnology in the Nordic countries – an overview 2014, bls. 7.