Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 246  —  230. mál.




Beiðni um skýrslu



frá utanríkisráðherra um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja.



Frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Birgittu Jónsdóttur, Heiðu Kristínu Helgadóttur,
Helga Hrafni Gunnarssyni, Katrínu Júlíusdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur,
Óttari Proppé, Svandísi Svavarsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um áhrif hvalveiða hér við land á samskipti Íslands og umheimsins. Meðal þess sem óskað er eftir að fram komi í skýrslunni er eftirfarandi:
     1.      Áhrif ákvarðana forseta Bandaríkjanna um að beita Ísland diplómatískum refsiaðgerðum vegna hvalveiða í atvinnuskyni 1 , sem var fyrst beitt í september 2011 í kjölfar staðfestingarkæru viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Garys Locke, um að hvalveiðistefna Íslands veikti verndaraðgerðir Alþjóðahvalveiðiráðsins, og aftur í apríl 2014 2 í kjölfar staðfestingarkæru innanríkisráðherrans, Sally Jewell, þess efnis að útflutningur íslensks fyrirtækis á hvalkjöti til Japans veikti aðgerðir samkvæmt CITES-samningnum gegn verslun með dýr í útrýmingarhættu.
     2.      Mat á þeim lagaramma sem gildir um hvalveiðar í Bandaríkjunum, einkum áhrif hins svokallaða Pelly-viðauka (Pelly Amendment) við lög um fiskveiðistjórnun frá árinu 1967 og hvort einhverjar líkur séu á að Bandaríkjaþing felli Pelly-viðaukann úr gildi í fyrirsjáanlegri framtíð. Fram komi hversu ríkar heimildir ákvæðið gefi forseta Bandaríkjanna til að grípa til aðgerða, svo sem hvort það heimili að beitt sé þvingunaraðgerðum og þá hvers eðlis þær megi vera. Óskað er eftir að upplýst verði hvort forseti Bandaríkjanna hafi árin 2011 og 2014 farið að öllum tillögum ráðherranna um aðgerðir og ef ekki, hvaða tillögum hann hafi ekki farið eftir.
     3.      Mat á stefnu Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, gegn alþjóðlegri verslun með dýr í útrýmingarhættu, sbr. ákvörðun hans frá 1. apríl 2014. 3 Jafnframt verði fjallað um hvort ástæðan fyrir því að bandarískir ráðherrar hafa ekki heimsótt Ísland um margra ára skeið, eða frá því Condoleezza Rice kom hingað til lands árið 2008, tengist hvalveiðum Íslendinga, hvort veiðarnar hafi skaðað diplómatísk samskipti Íslands og Bandaríkjanna, og ef svo er, hvort efnahagslegt mikilvægi veiðanna réttlæti framhald þeirra.
     4.      Óskað er eftir að í skýrslunni verði birtur listi yfir öll þau ríki heims sem hafa opinberlega mótmælt veiðum á hrefnu og langreyði við Ísland og fjallað verði um utanríkispólitíska hagsmuni Íslands í þessu sambandi Jafnframt verði lagt mat á hvort einhverjar vísbendingar séu um að banni CITES-samingsins við alþjóðlegri verslun með langreyðarkjöt verði aflétt í fyrirsjáanlegri framtíð.
     5.      Mat á því hvort alþjóðleg verslun Íslands með hvalaafurðir hafi haft áhrif á sölu og markaðssetningu íslenskra gæðamatvæla í verslunum erlendis, svo sem Whole Foods Market og sambærilegum verslunum, og hvort eitthvað bendi til að kynningarherferðir Íslands um hvalveiðar, t.d. í Bandaríkjunum og ríkjum Evrópusambandsins, hafi borið árangur sé horft til þeirra diplómatísku aðgerða gegn Íslandi sem forseti Bandaríkjanna hefur fyrirskipað og banns Evrópusambandsins við hvalveiðum. Jafnframt verði upplýst hver kostnaður ríkisins við þessar kynningarherferðir hafi verið.
     6.      Mat á því hvort orðspor Íslands í ríkjum sem eru aðilar að CITES-samningnum hafi skaðast vegna alþjóðlegrar verslunar með hvalaafurðir, er þá einkum vísað til þess að skipafélög og flugfélög neita nú alfarið að flytja vörur sem eru á lista samningsins yfir dýr í útrýmingarhættu og aukinnar áherslu aðildarríkjanna á að stöðva slíka verslun.

Neðanmálsgrein: 1
1     Á ensku commercial whaling.
Neðanmálsgrein: 2
2     Sjá: www.whitehouse.gov/the-press-office/2014/04/01/memorandum-pelly-certification-and-icelandic-whaling
Neðanmálsgrein: 3
3     Sjá: www.whitehouse.gov/sites/default/files/docs/nationalstrategywildlifetrafficking.pdf
     www.whitehouse.gov/blog/2015/02/11/launching-plan-combat-wildlife-trafficking
     www.whitehouse.gov/blog/2015/08/05/us-takes-new-steps-combat-wildlife-trafficking