Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 282  —  94. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um aukatekjur presta þjóðkirkjunnar.


     1.      Hvernig hefur þóknun fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, sbr. gildandi gjaldskrá í 2. gr. reglugerðar nr. 729/2014, þróast undanfarin 10 ár?
    Samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, ber prestum þóknun fyrir aukaverk eftir gjaldskrá sem ráðuneytið setur til 10 ára í senn. Samkvæmt gjaldskrá nr. 668/2003 miðuðust greiðslur fyrir aukaverk presta við ákveðinn fjölda eininga. Jafngilti hver eining 1/10 hluta gjalds fyrir borgaralega hjónavígslu á hverjum tíma samkvæmt gildandi lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þóknanir fyrir aukaverk voru fastar fjárhæðir tilgreindar í krónum. Með gjaldskrá nr. 908/2013 hækkuðu greiðslur fyrir aukaverk presta, sbr. eftirfarandi töflu. Frá setningu núgildandi gjaldskrár, nr. 729/2014, hefur gjaldskráin verið uppfærð í samræmi við ákvarðanir kjararáðs um almennar launahækkanir. Miðast þóknun fyrir aukaverk presta við einingar sem kjararáð ákvarðar þeim sem undir það heyra. Hver eining er 1% af launaflokki 132 í launatöflu kjararáðs nr. 502 og er nú 7.153 kr.
    Meðfylgjandi tafla sýnir breytingar á gjaldskrá fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar frá árinu 2003:

Athöfn/verkefni Gjaldskrá 668/2003 (kr.) Gjaldskrá 908/2013 (kr.) Gjaldskrá 729/20141) (einingar) Gjaldskrá 729/20141) (kr.)
Skírn2) 3.500 4.100 0,7 ein. 5.007
Ferming 9.300 11.000 2,0 ein. 14.307
Hjónavígsla 6.500 7.700 1,3 ein. 9.299
Greftrun með ræðu 13.900 16.500
Útför 2,6 ein. 18.599
Kistulagning 4.000 4.700 0,8 ein. 5.723
Greftrun án ræðu 5.000 6.000
Athöfn vegna jarðsetningar duftkers eða kistu3) 0,8 ein. 5.723
Embættisvottorð 650 770 0,2 ein. 1.431
1)     Þóknun fyrir hvert aukaverk prests er metin sem hlutfall af einingu kjararáðs skv. 3. mgr. 1. gr. gjaldskrárinnar og enn fremur tilgreind í krónutölu.
2)     Ókeypis ef skírn er við guðsþjónustu.
3)     Kirkjugarðsstjórn greiðir ekki þóknun fyrir jarðsetningu duftkers eða kistu ef athöfn er í beinu framhaldi af útför.

     2.      Hversu miklar hafa tekjur presta verið vegna þóknunar fyrir aukaverk á fyrrgreindu 10 ára tímabili? Óskað er sundurliðunar eftir prófastsdæmum, árum, tegund athafna og fjölda athafna.
    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Biskupsstofu, Prestafélagi Íslands, Kirkjugarðasambandi Íslands, Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.
    Í svari Biskupsstofu kemur fram að hún hafi ekki upplýsingar um hversu miklar tekjur presta eru af aukaverkum. Hvert prestsembætti annist innheimtu teknanna á grundvelli gjaldskrár fyrir aukaverk presta án atbeina Biskupsstofu. Prestafélag Íslands hefur ekki heldur upplýsingar um aukatekjur presta. Félagið bendir á hinn bóginn á að erfitt geti verið að áætla tekjur presta af aukaverkum út frá stærð sókna sem þeir þjóna vegna þeirrar venju að fólki hefur verið frjálst að velja sér prest til að þjóna við þær athafnir sem teljast aukaverk, með þeirri undantekningu að ferming fer yfirleitt fram við sóknarkirkju fermingarbarns. Einnig segir í svari Prestafélagsins að það sé algengt í fámennari prestaköllum að prestar innheimti ekki fyrir aukaverk enda sé um óverulegar tekjur að ræða. Þá sé nokkuð um það í öllum prestaköllum að prestar innheimti aldrei gjald vegna skírnar.
    Aftur á móti liggja fyrir upplýsingar eftir prófastsdæmum um greiðslur vegna kistulagningar og útfara hjá Kirkjugarðasambandi Íslands. Greiðsla kostnaðar vegna prestsþjónustu vegna þessara athafna byggir á reglugerð nr. 155/2005 um greiðslu kostnaðar vegna prestsþjónustu við útfarir, grafartöku og árlegt viðhald legstaða. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar ber kirkjugörðum eða kirkjugarðasjóði að greiða kostnað vegna prestsþjónustu við útfarir og grafartöku. Þar á meðal er þóknun til prests og annar kostnaður samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma fyrir kistulagningarbæn og útför. Kirkjugarðasambandið hefur annast greiðslu þessa kostnaðar á landsvísu undanfarin fjögur ár en fyrir þann tíma sáu kirkjugarðar landsins hver um sig um þessar greiðslur. Ekki tókst að afla upplýsinga yfir tíu ára tímabil, en samkvæmt upplýsingum frá Kirkjugarðasambandinu má sjá fjölda athafna tengda útförum og greiðslur til presta sundurliðaðar eftir prófastsdæmum undanfarin fjögur ár í meðfylgjandi töflu.
    Til að fá vísbendingu um umfang annarra aukaverka aflaði ráðuneytið upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands um fjölda skírna og hjónavígslna sem prestar þjóðkirkjunnar önnuðust síðastliðin tíu ár. Upplýsingarnar eru á landsvísu, sjá eftirfarandi töflu:

Athafnir skráðar í þjóðskrá sem
þjóðkirkjuprestar önnuðust.

Ár Hjónavígslur Skírnir
2005–2014 11.200 31.181
2005 1.325 3.231
2006 1.321 3.367
2007 1.322 3.268
2008 1.180 3.438
2009 1.022 3.378
2010 1.077 3.369
2011 985 2.961
2012 1.056 2.883
2013 1.010 2.717
2014 902 2.569

    Einnig var aflað upplýsinga um skírnir, fermingar og hjónavígslur síðastliðin tíu ár hjá Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, sem telur í dag um 27% íbúa landsins. Þær upplýsingar sem þar eru tíundaðar ættu að gefa vísbendingu um fjölda ferminga yfir allt landið, sbr. eftirfarandi töflu:

Fjöldi skírna, ferminga og giftinga í
Reykjavíkurprófastsdæmi eystra 2005–2014.

Ár Skírnir Fermingar Giftingar
2005 1040
2006 810 1100 283
2007 851 1091 213
2008 868 1026 222
2009 883 1002 174
2010 881 1039 219
2011 819 1002 169
2012 768 1003 218
2013 731 929 211
2014 718 999 177

     3.      Hvaða eftirlit hefur ráðuneytið eða yfirstjórn kirkjunnar með þeim greiðslum sem prestar þiggja fyrir aukaverk sín?
    Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu felst eftirlitið einvörðungu í því að bregðast við kvörtunum ef upp koma, en að öðru leyti er ekki um skipulagt eftirlit að ræða með greiðslum sem prestar þiggja fyrir aukaverk sín, enda liggi fyrir gjaldskrá sem sé birt opinberlega í Stjórnartíðindum. Biskupsstofa upplýsir hins vegar presta ávallt um breytingar sem verða á gjaldskránni. Eftirlitsskylda ráðuneytisins kann að lúta að því hvort gjaldtaka presta fyrir aukaverk sé að forminu til heimil, hún sé í samræmi við lög og eftir atvikum óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki almennt eftirlit með innheimtu gjaldsins en ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því lögum samkvæmt hvernig tekjur eru taldar fram til skatts.

     4.      Er ráðuneytinu kunnugt um að prestar hafi tekið þóknun fyrir aukaverk umfram það sem greinir í reglugerð nr. 729/2014? Sé svo, til hvaða ráðstafana hefur ráðuneytið eða yfirstjórn kirkjunnar gripið og hvað hefur verið gert til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki?
    Ráðuneytinu hafa ekki borist erindi þar um og samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu er henni ekki kunnugt um að prestar hafi tekið þóknun fyrir aukaverk umfram það sem greinir í gjaldskrá nr. 729/2014.

     5.      Er ráðuneytinu kunnugt um að misbrestur hafi orðið á að prestar gefi greiðslur vegna aukaverka og tekjur af kirkjujörðum upp til skatts? Sé svo, til hvaða ráðstafana hefur ráðuneytið eða yfirstjórn kirkjunnar gripið og hvað hefur verið gert til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki?
    Ráðuneytið hefur ekki eftirlit með því hvernig tekjur þessar eru taldar fram til skatts. Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því lögum samkvæmt en skattamál heyra undir verksvið fjármála- og efnahagsráðherra.