Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 294  —  267. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,
með síðari breytingum (veiting starfs).

Flm.: Sigríður Á. Andersen, Birgir Ármannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Jón Gunnarsson, Elín Hirst.


1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Óheimilt er að skipa mann eða ráða til embættis ef hann hefur á síðustu tólf mánuðum verið settur til þess að gegna því.

2. gr.

    2. málsl. 24. gr. laganna fellur brott.


3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 141. löggjafarþingi (387. mál) og er nú endurflutt óbreytt. Því fylgdi eftirfarandi greinargerð:
    Ákvæði um setningu manns til embættis á vegum ríkisins komu fyrst í lög með gildistöku laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en í eldri lögum, nr. 38/1954, var slíkt ákvæði ekki að finna. Slík heimild getur verið mjög til hagræðis þegar sess verður skyndilega laus um stundarsakir vegna þeirra ástæðna sem taldar eru upp í 24. gr. laga nr. 70/ 1996. Hefur tímabundin setning manns í embætti, sem annar er skipaður til, einnig þann almenna kost að fleiri menn öðlast reynslu af starfinu sem nýst getur þeim annars staðar síðar. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er ekki hróflað við hinni almennu heimild til að setja mann til að gegna embætti heldur eingöngu settar skorður við því að hinn setti maður verði skipaður til þess sama embættis á sama tíma eða skömmu eftir að hann gegnir setningunni.
    Við setningu manns til embættis er að jafnaði einfaldari undirbúningur en við skipun hans til þess, auk þess sem stór hópur vænlegra einstaklinga hefur ekki tök á að gegna setningu, með þeirri röskun sem slíkt er á högum þeirra. Með setningunni öðlast hinn setti hins vegar forskot á aðra væntanlega umsækjendur þegar til þess kemur að embættið verður auglýst laust til skipunar. Þá er fyrir hendi sú hætta að reynt sé að styrkja stöðu hugsanlegs framtíðarumsækjanda með því að afla honum reynslu í embættið sem aðrir hafa ekki sömu möguleika á að afla sér. Er ekki ástæða til að ætla að handhafar veitingarvalds einir freistist til slíks en á sumum sviðum mun fyrst og fremst farið að setningartillögum frá þeim sem starfa á viðkomandi sviði. Áhrifin á það hverjir eru settir til embættis geta þannig veitt þeim sem ekki eiga að fara með veitingarvaldið óeðlileg áhrif á það hverjir hljóta að lokum skipun til embættis. Loks skapar núverandi fyrirkomulag þá hættu að þegar auglýst verður eftir skipun í embætti þar sem settur maður er fyrir verði auglýsingin sniðin að hagsmunum þess sem settur hefur verið og fengið hefur tækifæri til að koma ár sinni fyrir borð.
    Gegn þeirri reglu sem hér er lögð til mætti halda fram að hún yrði til þess að þeir sem hygðu á skipun til embættis mundu framvegis afþakka setningu til þess. Þannig færi ríkið á mis við menn sem fengur væri að. Telja verður að sú hætta sé þó ekki sérstaklega alvarleg en vel heppnuð setning til embættis mundi væntanlega nýtast metnaðargjörnum manni vel þótt hann yrði að bíða í eitt ár eftir því að hljóta skipun til nákvæmlega þeirrar stöðu sem í hlut á.
    Til viðbótar því sem áður var rakið er þess að geta að með reglu 1. gr. frumvarpsins er átt við að maður verði ekki skipaður til þess sérstaka starfs sem hann hefur verið settur til að gegna umræddan tíma. Maður gæti fengið skipun til að vera forstjóri einnar ríkisstofnunar þótt hann hefði innan frestsins verið settur forstjóri allt annarrar stofnunar og maður gæti fengið skipun til einstaks sýslumannsembættis þótt hann hefði verið settur til annars á fresttímanum en hvert og eitt sýslumannsembætti er sjálfstætt talið upp í 2. gr. laga nr. 92/1989. Við mat á því hvort embætti sem maður hefði fengið setningu til væri í raun hið sama og hann sæktist eftir skipun til yrði fyrst og fremst horft til þess hvort á ferð væru sjálfstæð mismunandi embætti, svo sem hvort flytja mætti embættismann úr öðru þeirra í hitt samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996.