Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 366  —  172. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um
sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki
(nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja).

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Annar minni hluti fagnar því ef árangur næst í að losa um gjaldeyrishöftin. Stór áfangi á þeirri leið er að gera upp við kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja. Forsenda þess uppgjörs var tillaga ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingar á gjaldeyrislögum sem knúin var í gegn með lögum nr. 17 frá 13. mars 2012 og læstu innan íslenskrar lögsögu alla gjaldeyriseign slitabúanna. Í ljósi þess að sú breyting er alger forsenda þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin er nú að ráðast í er óhjákvæmilegt að rifja upp að enn er óútskýrt af hverju sömu flokkar treystu sér ekki til að styðja þá mikilvægu lagasetningu og annar þeirra, Sjálfstæðisflokkurinn, barðist gegn þeim. Í atkvæðaskýringu um það frumvarp sagði formaður Sjálfstæðisflokksins, núverandi fjármálaráðerra, m.a.: „Það er fullkomlega ótrúverðugt þegar sama ríkisstjórnin sendir á fárra daga tímabili út þau skilaboð að gjaldmiðillinn sé ónýtur og hins vegar að það sé verið að herða höftin til að við getum bráðum farið að afnema þau.“ Enn þá er gjaldmiðillinn jafn ónýtur sem undirstrikar að lögin eru forsenda þess að nú fást umtalsverðar upphæðir frá kröfuhöfum inn í þjóðarbúið.
    Alþingi samþykkti 3. júlí lög nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, þar sem heimilað er að leggja 39% skatt á eignir slitabúanna. Það er skýr og gagnsæ leið. Samtímis var lögum um tekjuskatt breytt til að slitabúin gætu gengið frá nauðasamningum fyrir árslok og losnað þannig við að greiða stöðugleikaskatt. Ríkisstjórnin hefur hins vegar haldið því stíft fram að báðar leiðirnar, þ.e. stöðugleikaskatturinn og afsláttarleiðin, sem gefur 450 milljarða kr. afslátt frá stöðugleikaskattinum, væru jafngildar leiðir. Í því ljósi hefur afsláttarleiðin, sem kom út úr samningum við kröfuhafa, sem stjórnvöld neita þó að hafi farið fram, verið gagnrýnd. Enn er óútskýrt af hverju leiðin sem var valin er sú sem gefur kröfuhöfum meiri afslátt, ef báðar eru jafn gildar og halda jafn vel gagnvart lögum og alþjóðlegum skuldbindingum.
    Frumvarp þetta fjallar um frekari breytingar á tekjuskattslögum sem miða að því að auðvelda slitabúum að ljúka nauðasamningum í tæka tíð til að þau geti notið afsláttarins. Forusta ríksstjórnarinnar hafnaði því alfarið í vor að eiga í samningaumleitunum við kröfuhafana. Ljóst er af því frumvarpi sem hér er fjallað um að þær samningaumleitanir fóru raunverulega fram og að þær standa í raun enn yfir. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að í Icesave II lagðist núverandi forsætisráðherra og flokkur hans algerlega gegn samningaleiðinni, sem nú er komið í ljós að kostaði eitthvað á bilinu 30–55 milljarða kr., en sparaði hins vegar á móti miklu hærri upphæðir, þar sem samningar þá hefðu flýtt afnámi gjaldeyrishafta um 2–3 ár. Að mati Viðskiptaráðs kostar hvert ár undir höftum 80 milljarða kr. Forsætisráðherra og flokkur hans skulda því skýringar á því hvers vegna þeir telja að samningaleiðin, sem að þeirra mati stappaði landráðum næst þegar Icesave II samningurinn var í deiglu, er nú heppilegasta leiðin.
    Annar minni hluti tekur fram að hann er alls ekki mótfallinn því að ágreiningur sé leystur með samningum, svo sem lagt var til við Icesave II samninginn. Samningaleiðin er oftast öruggari og hættuminni. Samningar ryðja m.a. úr vegi lagalegri óvissu og eðlilegt getur verið að gefa afslátt af kröfum til að geta staðið föstum fótum. Við umfjöllun málsins kom í fyrsta skipti fram hjá ríkisstjórninni að hún kysi samningaleiðina fram yfir dómstólaleiðina, sbr. orð fjármálaráðherra á fundi nefndarinnar en þar sagði hann að leið stöðugleikaskatts gæti leitt til málaferla og tafið ferlið verulega. Sama skoðun kom fram á glæru í kynningu fjármálaráðherra á niðurstöðunni. Ótti við dómstólaleiðina er skýr í bréfi Seðlabankans frá 27. október um áhrif fallinna fjármálafyrirtækja á greiðslujöfnuð og fjármálastöðugleika, þar sem sagt er: „Leið nauðasamninga á grundvelli stöðugleikaskilyrða er mun áhættuminni en skattaleiðin þar sem girt er fyrir áhættu með margvíslegum ráðstöfunum og áhætta vegna dómstóla verður mun minni.“ Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt annað en gagnálykta að ríkisstjórnin hafi blekkt þing og þjóð þegar hún hélt því fram mánuðum saman að báðar leiðir væru jafngildar.
    Annar minni hluti gagnrýnir jafnframt kynninguna á þeirri leið sem er farin og þeim fjármunum sem hún muni skila inn í íslenskt þjóðarbú. Einbeitt viðleitni virðist vera til að gera upphæðir sem kröfuhafar gefa eftir sem allra hæstar og þá um leið afslátt slitabúanna frá stöðugleikaskatti sem allra lægstan. Þessi framsetning veldur tortryggni sem hefði mátt komast hjá. Sérstaka athygli vekur að Íslandsbanki er færður á bókfærðu verði og engin tilraun gerð til að meta raunverulegt virði bankans. Breyting á skilmálum láns LBI er talin til tekna þó að í raun sé frekar um skriffinnsku að ræða en raunverulega úrlausn. Einnig eru taldir til stöðugleikaframlags 60 milljarðar kr. sem þegar hafa verið greiddir í ríkissjóð í formi bankaskatts. Fleira af sama toga mætti nefna.
    Ein af meginforsendum sem ríkisstjórnin kynnti í upphafi var að allir, slitabúin, jafnt sem einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir, nytu jafnræðis. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar virðast hins vegar erlendir kröfuhafar njóta algers forgangs. Annar minni hluti hefur skilning á því að gjaldeyrishöftum er lyft af slitabúum með talsverðum afföllum en gagnrýnir harðlega að engin tilraun er gerð til að setja fram áætlun um hvenær eða hvernig unnt verði að lyfta gjaldeyrishöftum af lífeyrissjóðum, íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi. Ljóst er að þeir 10 milljarðar kr. sem í áætlunum er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir geti fjárfest fyrir erlendis á næstu árum svara á engan hátt þörf þeirra til ávöxtunar fjár.
    Þá tekur annar minni hluti fram að í umfjöllun nefndarinnar hefur ekki verið svarað til hlítar þeirri gagnrýni In Defence að eins og stöðugleikaframlög og tengdar aðgerðir sem fram koma í nauðasamningum eru hannaðar virðast þær til þess fallnar að skjóta umtalsverðum hluta vandans á frest fremur en leysa til fullnustu. Ef rétt reynist kann það að fresta um mjög langan tíma afnámi gjaldeyrishafta gagnvart öðrum en slitabúunum. Það er síst í anda fyrrnefnds jafnræðis, sem ríkisstjórnin lagði fram sem eina meginforsendu aðgerðanna.
    Almenn gagnrýni á málatilbúnaðinn fremur en athugasemdir við einstakar lagagreinar eru ástæða þess að þessu séráliti er skilað. Annar minni hluti vill þó sérstaklega benda á eftirfarandi: Á fundum nefndarinnar komu ekki fram haldbærar skýringar á nauðsyn þess að fella burt afdráttarskattinn og í ljósi tvísköttunarsamninga sem í gildi eru virðist sú aðgerð koma best út fyrir aðila sem eiga kröfur í eylöndum sem gera út á skattasniðgöngu, svo sem Tortólu, Cayman-eyjum og öðrum slíkum.

Alþingi, 3. nóvember 2015.

Valgerður Bjarnadóttir.