Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 487  —  362. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (lenging verndartíma hljóðrita).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    43. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Nú er um verk að ræða sem ákvæði 7. gr. taka til og skal þá telja greint 70 ára tímabil frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir.
    Höfundaréttur að tónverki með texta, þar sem bæði texti og tónverk eru samin sérstaklega fyrir hlutaðeigandi tónverk með texta, helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess sem lengst lifir af eftirtöldum aðilum:
     1.      Textahöfundar.
     2.      Tónskáld.
    Höfundaréttur að kvikmyndaverkum helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess sem lengst lifir af eftirgreindum höfundum kvikmyndaverks:
     1.      Aðalleikstjórar.
     2.      Handritshöfundar, þ.m.t. höfundar samtalstexta.
     3.      Tónhöfundar sé tónlistin sérstaklega samin til afnota í kvikmyndaverkum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ef upptaka listflutnings skv. 1. mgr., sem ekki er hljóðrit, er gefin út eða gerð aðgengileg almenningi innan þess tímamarks sem þar er tiltekið varir verndin þó uns 50 ár eru liðin frá því sem fyrr gerist, lok útgáfuárs eða þegar upptaka var gerð aðgengileg almenningi.
                      Ef hljóðrit listflutnings skv. 1. mgr. er gefið út eða gert aðgengilegt almenningi innan þess tíma sem þar er nefndur varir verndin þó uns 70 ár eru liðin frá því sem fyrr gerist, lok útgáfuárs eða þegar upptaka var gerð aðgengileg almenningi.

3. gr.

    Í stað orðanna „50 ár“ í 2. málsl. 1. mgr. 46. gr. laganna kemur: 70 ár.

4. gr.

    Á eftir 47. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 47. gr. a – 47. gr. c, svohljóðandi:

    a. (47. gr. a.)
    Listflytjandi getur sagt upp samningi um framsal réttinda til hljóðrits af listflutningi sínum til framleiðanda hljóðrits þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu þess eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá að það var birt, ef framleiðandinn gerir ekki fullnægjandi ráðstafanir til:
     1.      að bjóða eintök af hljóðriti í sölu í nægilegu magni eða
     2.      að gera hljóðritið aðgengilegt almenningi á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 2. gr.
    Um uppsögn listflytjanda á samningi skv. 1. mgr. gildir eins árs uppsagnarfrestur. Uppsögn samnings tekur gildi að liðnum uppsagnarfresti hafi framleiðandi hljóðrits ekki gert viðeigandi ráðstafanir skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. Ógilt er afsal flytjanda á uppsagnarrétti samkvæmt þessari grein.
    Við uppsögn samnings skv. 1. mgr. falla niður réttindi framleiðanda skv. 46. gr. til viðkomandi hljóðrits.

    b. (47. gr. b.)
    Hafi listflytjandi framselt framleiðanda hljóðrits rétt sinn til hljóðrits listflutnings fyrir eingreiðslu á hann rétt á árlegri viðbótarþóknun frá framleiðanda hljóðrits fyrir hvert heilt ár eftir að 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðritsins eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðritið var gert aðgengilegt almenningi. Ógilt er afsal listflytjanda á rétti til árlegrar viðbótarþóknunar.
    Framleiðandi hljóðrits skal leggja til hliðar fjárhæð til greiðslu viðbótarþóknunar skv. 1. mgr. Samanlögð fjárhæð sem lögð er til hliðar skal samsvara 20% af tekjum framleiðandans fyrir næstliðið ár. Viðbótarþóknun skv. 1. mgr. reiknast af tekjum framleiðanda hljóðrits vegna eintakagerðar, dreifingar eintaka og því að hljóðrit er gert aðgengilegt almenningi frá því að 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
    Umsýsla og útborgun viðbótarþóknunar skv. 1. mgr. er á hendi samtaka rétthafa sem hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytisins.
    Eftir kröfu frá listflytjanda eða viðurkenndum samtökum skv. 3. mgr. ber framleiðanda hljóðrits að láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja greiðslu árlegrar viðbótarþóknunar.
    Ráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar samtaka skv. 3. mgr.

    c. (47. gr. c.)
    Hafi listflytjandi framselt framleiðanda hljóðrits rétt sinn á hljóðriti listflutnings og samið um reglulegar greiðslur skal réttur til árlegrar viðbótarþóknunar ekki rýrður vegna fyrirframgreiðslu eða samningsbundins frádráttar þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

5. gr.

    Í stað orðanna „sbr. 3. mgr. 45. gr.“ í 59. gr. laganna kemur: sbr. 5. mgr. 45. gr.

6. gr.

    Á eftir 2. mgr. 63. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Samningar listflytjanda um framsal réttinda á hljóðriti listflutnings sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013 halda gildi sínu eftir það tímamark í þeim tilvikum þegar verndartími þess telst útrunninn samkvæmt eldri reglum nema á annan veg sé mælt fyrir um í samningi.
    Að því marki sem samningar um framsal réttinda listflytjanda á hljóðriti sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013 veita listflytjanda rétt til reglulegra greiðslna er heimilt að semja um þær að nýju þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

7. gr.

    Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, svohljóðandi:
    Með lögum þessum eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda. Tilskipunin var tekin upp í XVII. viðauka (hugverkaréttindi) við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 frá 3. maí 2013 sem tók gildi 1. ágúst 2014.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. laga þessara gildir um tónverk með texta þar sem tónverk eða texti nýtur verndar í aðildarríki EES-svæðisins 1. nóvember 2013 og um tónverk með texta sem verða til eftir það tímamark. Ákvæði 1. gr. hefur ekki áhrif á hagnýtingu tónverka með texta sem hefur orðið til fyrir 1. nóvember 2013.
    Ákvæði 3.–6. gr. laga þessara gilda um réttindi listflytjenda og framleiðenda til hljóðrita sem í gildi voru 1. nóvember 2013 og sem verða til eftir það tímamark.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við höfundaréttarnefnd sem er mennta- og menningarmálaráðherra til ráðgjafar í höfundaréttarmálum skv. 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Frumvarpið var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi, 701. mál. Á þingmálaskrá ríkisstjórnar fyrir 145. löggjafarþing Alþingis eru fimm frumvörp um breytingar á höfundalögum. Þrjú frumvarpanna varða innleiðingu tilskipana á sviði höfundaréttar, þar á meðal þetta frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda (hér eftir einnig nefnd „verndartímatilskipunin“ og „tilskipunin“). Önnur frumvörp sem ráðgert er að lögð verði fram á yfirstandandi löggjafarþingi eru frumvarp um innleiðingu tilskipunar 2012/28/ESB (tiltekin leyfileg afnot munaðarlausra verka), frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum, frumvarp um tilteknar breytingar á 11. gr. höfundalaga um eintakagerð til einkanota að ósk samtaka rétthafa sem fara með innheimtu höfundaréttargjalds skv. 6. mgr. 11. gr. laganna og frumvarp um breytingar á I. kafla höfundalaga og endurskoðun á fyrirkomulagi svonefndra samningskvaðaleyfa. Síðastnefnda frumvarpið er liður í heildarendurskoðun höfundalaga.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Lagafrumvarpi þessu er ætlað að leiða í íslensk lög hluta af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda. Tilskipunin var tekin upp í XVII. viðauka (hugverkaréttindi) við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 frá 3. maí 2013 sem tók gildi 1. ágúst 2014. Skv. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar bar að innleiða hana í aðildarríkjum Evrópusambandsins eigi síðar en 1. nóvember 2013 en EES/EFTA-ríkjunum var veittur frestur til 1. ágúst 2014 til að innleiða tilskipunina. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af innleiðingu verndartímatilskipunarinnar í öðrum norrænum ríkjum.
    Alþingi fjallaði um innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt áður en hún var tekin upp í EES-samninginn, sbr. umsögn allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í fundargerð, dags. 15. október 2012. Þá var fjallað um tilskipunina í athugasemdum við tillögu þá sem varð þingsályktun Alþingis 3/143 frá 4. desember 2013 (77. þingmál á 143. löggjafarþingi, sbr. tillögu til þingsályktunar á þingskjali 77).
    Frumvarp um innleiðingu tilskipunarinnar var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á 143. löggjafarþingi en var ekki lagt fram. Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi og var í kjölfar 1. umræðu afgreitt frá allsherjar- og menntamálanefnd með nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar, dags. 9. júní 2015, en hlaut ekki frekari afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram öðru sinni.
    Íslenskum stjórnvöldum barst formleg tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA um ákvörðun, dags. 12. nóvember 2014, (495/14/COL) þar sem byrjað er tafamál vegna dráttar á innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Stofnunin gaf út rökstutt álit um samningsbrot Íslands gagnvart ákvæðum EES-samningsins 8. apríl 2015 fyrir að láta hjá líða að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt (106/15/COL). Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnti 4. nóvember 2015 þá ákvörðun að Íslandi yrði stefnt fyrir EFTAdómstólinn vegna fyrrgreinds brots á EES-samningnum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að tilskipunin verði innleidd með breytingu á 43. gr., 45. gr. 46. gr. og 63. gr. gildandi höfundalaga. Auk þess er lagt til að við lögin verði bætt þremur nýjum greinum sem verði 47. gr. a – 47. gr. c. Tilskipun um verndartíma er byggð á frumvarpi að breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram 16. júlí 2008 (2008/464/EB). Þær breytingar sem lagðar eru til á höfundalögum í frumvarpi þessu taka til eftirfarandi atriða:
     1.      Lagt er til að útreikningur á verndartíma tónverka með texta verði samræmdur þannig að verndartími tónlistar og söngtexta haldist uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess höfundar sem lengur lifir, hvort sem það er tónskáld eða textahöfundur.
     2.      Í frumvarpinu felst tillaga um lengdan verndartíma á hljóðritum á eftirfarandi hátt:
                  a.      Að verndartími fyrir rétt flytjenda til hljóðrita af listflutningi þeirra sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi lengist úr 50 árum í 70 ár, reiknað frá útgáfudegi eða þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
                  b.      Sama breyting er lögð til á rétti framleiðenda hljóðrita til hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi.
     3.      Framlengingu verndartíma hljóðrita fylgir nýtt ákvæði um rétt listflytjenda til árlegrar viðbótarþóknunar á framlengdum verndartíma. Viðbótarþóknunin skal samsvara 20% af þeim tekjum sem framleiðandi hljóðrits hefur af því að á framlengdum verndartíma.
     4.      Frumvarpið felur í sér nýtt ákvæði sem heimilar listflytjanda að segja upp samningi um framsal réttinda ef umsamin réttindi eru ekki nýtt í nægilegum mæli.
     5.      Loks er í frumvarpinu sérstakt ákvæði um gildistöku sem segir til um í hvaða mæli hinum breyttu reglum verður beitt um gildandi réttindi og framsalssamninga.

IV. Bakgrunnur frumvarpsins.
1. Vernd tónverka með texta.
1.1 Gildandi réttur.
    Í 1. kafla höfundalaga er fjallað um andlag og innihald höfundaréttar. Þar er einnig kveðið á um hvers konar verk falla undir höfundalög og hvað felist í höfundaréttarvernd.
    Tónverk með texta felur í sér tvenns konar höfundaverk sem unnt er að hagnýta hvort um sig, tónlist og texta. Slík verk teljast vera samsett verk í skilningi höfundaréttar og njóta sem slík ekki sérstakrar stöðu samkvæmt höfundalögum sökum þess að hægt er að aðskilja tónlist og texta og vernda sem sjálfstæð verk, sbr. 1. gr. höfundalaga.
    Samsettum verkum má ekki blanda saman við safnverk en um þau gilda sérstök ákvæði skv. 6. gr. höfundalaga. Safnverk eru samsafn margra verka eða hluta af þeim, t.d. smásagnasöfn, sálmabækur, gagnagrunnar og tímarit. Hver smásaga um sig nýtur sjálfstæðrar verndar og fellur ekki undir 6. gr. laganna. Það er einungis samsetningin sem nýtur verndar skv. 6. gr.
    Samsettum verkum má heldur ekki blanda saman við sameiginleg höfundaverk sem njóta verndar skv. 7. gr. höfundalaga. Slík verk eru verk tveggja samhöfunda eða fleiri þar sem höfundaframlag hvers um sig verður ekki aðgreint sem sjálfstætt verk. Það sem skilur á milli er hvort þátt hvers og eins höfundar má hagnýta sérstaklega sem sjálfstætt verk. Ef svo er telst ekki vera um sameiginlegt höfundaverk að ræða. Þótt tónverk með texta sem við það er tengdur feli í sér tónlist og texta sem er sérstaklega saminn til samhliða notkunar beggja verkhlutanna er hægt að skilja þessi höfundaverk að, t.d. er unnt að prenta söngtexta sérstaklega.
    Mælt er fyrir um gildistíma (verndartíma) höfundaréttar í IV. kafla höfundalaga. Af 43. gr. laganna leiðir að höfundaréttur að verki helst þar til 70 ár eru liðin frá andlátsári höfundar. Sökum þess að tónverk með texta er hægt að aðgreina í tvenns konar sjálfstæð verk reiknast verndartíminn sjálfstætt fyrir hvort verk. Í því felst að mislangur verndartími getur verið á tónverki og texta miðað við mismunandi andlátsár tónhöfundar og textahöfundar. Ef tónverk með texta er samið af tónhöfundi sem andast 1950 og textahöfundi sem andast 1970 verður þannig 20 ára tímabil þar sem aðeins söngtextinn nýtur verndar eða öfugt ef textahöfundur andast á undan tónhöfundi.

1.2 Aðdragandi frumvarps að tilskipun 2011/77/ESB.
    Í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar um verndartíma höfundaréttar og skyldra réttinda kemur fram að verndartími tónverka, að meðtöldum texta, gildi í 70 ár eftir andlátsár þess höfundar sem lengst lifir, tónskáld eða textahöfundur, að því gefnu að framlag hvors um sig hafi verið ætlað til notkunar með viðkomandi tónverki með texta. Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að þetta ákvæði tilskipunarinnar verði innleitt í 43. gr. höfundalaga.
    Í athugasemdum með drögum að tilskipun 2011/77/ESB kemur fram að tónverk með texta eigi sér oft fleiri en einn höfund. Þegar um er að ræða óperur eru höfundar tónlistar og texta iðulega sitt hvor aðilinn. Innan hryntónlistar er einnig algengt að hið skapandi ferli fari fram í samstarfi innan hóps tónlistarmanna. Í frumvarpi að tilskipuninni er einnig vísað til þess að vinsælustu lögin í Bretlandi á árunum 1912–2003 hafi í 61% tilvika átt sér fleiri en einn höfund.
    Fram til þessa hefur útreikningur á verndartíma tónverka með texta verið mismunandi innan EES-ríkjanna. Í sumum aðildarríkjum hefur verið miðað við sama verndartíma fyrir tónlist og texta reiknað frá andlátsári þess höfundar sem lengst lifir. Með þeim hætti hefur framkvæmdin verið hér á landi, án þess að það hafi þó átt sér beina lagastoð. Í öðrum ríkjum hefur verndartími tónlistar og texta verið reiknaður sjálfstætt fyrir hvorn verkhluta um sig. Slíkt ósamræmi á milli aðildarlanda EES-samningsins er til þess fallið að valda vandkvæðum við greiðslu þóknunar fyrir afnot af tónverkum með texta.

1.3 Innleiðing í höfundalög.
    Gildandi höfundalög hafa ekki að geyma sérstök ákvæði um samsett verk eins og tónverk með texta. Í tilefni af innleiðingu tilskipunar um verndartíma hefur verið hugleitt hvor nauðsynlegt teljist að bæta nýrri tegund verka, samsettum verkum, í 1. kafla höfundalaga eða hvort nægilegt sé að setja í höfundalög sérreglu um útreikning verndartíma fyrir samsett tónverk með texta.
    Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar skal samræma útreikning verndartíma tónverka með tilheyrandi texta þannig að verndin standi í 70 ár frá andlátsári þess höfundar sem lengst lifir, tónskálds eða textahöfundar, að því tilskildu að höfundaframlag hvors um sig hafi verið sérstaklega búið til fyrir tónverkið með texta. Að þessu leyti hefur tilskipunin aðeins áhrif á útreikning verndartíma slíkra samsettra tónverka með texta.
    Af þessum sökum felur frumvarpið aðeins í sér breytingu á gildandi ákvæðum höfundalaga um útreikning verndartíma á þann hátt að útreikningur verndartíma fyrir tónverk með texta er samræmdur fyrir þá tvo verkhluta sem um ræðir. Verkhlutarnir tveir njóta eftir sem áður verndar sem sjálfstæð verk með þeirri breytingu einni að útreikningur verndartíma beggja verkhluta er samræmdur.
    Ef um er að ræða tvo höfunda að söngtexta og aðkomu tveggja tónskálda eða fleiri að tónverki ber að líta á höfundaframlag hvers um sig sem verk samhöfunda. Í slíkum tilvikum er það andlátsár þess höfundar sem lengst lifir sem er grundvöllur fyrir útreikningi á eftirfarandi 70 ára verndartíma.
    Ef upp kemur vafi í hve miklum mæli tónverk og texti er samið hvort fyrir annað ber hlutaðeigandi höfundum að leysa úr því, hugsanlega með aðkomu dómstóla ef um ágreining er að ræða. Í slíku deilumáli yrði fjallað um framlengingu réttinda og sönnun þar að lútandi, sem dómstólar skera úr um.
    Sú aðferð á útreikningi verndartíma sem hér er lögð til á sér fyrirmynd við útreikning á verndartíma kvikmyndaverka þar sem margir höfundar koma jafnan við sögu, þ.e. aðalleikstjórar, handritshöfundar og tónhöfundar, og er þá verndartími kvikmyndaverks bundinn við 70 ár frá andlátsári þess höfundar sem lengst lifir, sbr. 43. gr. höfundalaga.

2. Lenging verndartíma fyrir listflytjendur.
2.1 Gildandi lög.
    Í 1. mgr. 1. gr. gildandi höfundalaga er kveðið á um að höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eigi eignarrétt á því. Samhliða höfundarétti eru tvenns konar skyld réttindi, þ.e. réttur listflytjenda sem verndar listflutning bókmenntaverks eða listaverks (45. gr.), einnig nefndur flutningsréttur, og réttur framleiðanda hljóðrits (46. gr.), einnig nefndur framleiðandaréttur, sbr. eftirfarandi umfjöllun um rétt framleiðenda hljóðrita í 3. kafla.
    Listflytjendur, hvort sem um er að ræða aðalflytjendur eins og einleikara eða söngvara eða aukaflytjendur eins og meðleikara eða bakraddasöngvara, hafa rétt til verndar á flutningi sínum. Í því felst m.a. að upptökur eru aðeins heimilar með samþykki listflytjanda, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 45. gr. laganna. Þar að auki felst í rétti listflytjenda að eintakagerð af upptökum listflutnings og það að gera þær aðgengilegar fyrir almenning er háð samþykki listflytjanda. Mælt er fyrir um verndartíma listflutnings í 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu á listflytjandi rétt til verndar á listflutningi sínum uns 50 ár eru liðin frá lokum þess árs þegar flutningurinn fór fram. Hafi upptaka listflutnings verið gefin út eða birt innan þessa tímamarks miðast upphaf verndartímans þó við 50 ár frá lokum útgáfuárs eða þegar upptakan var birt, eftir því hvort hefur gerst fyrr. Vernd skv. 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. höfundalaga tekur til upptöku á hvers konar flutningi bókmenntaverka og listaverka, þ.m.t. tónlistarflutningi, leikuppfærslu, listdansi, upplestri bókmenntaverka o.s.frv. Gildandi höfundalög fjalla því ekki sérstaklega um útreiking á verndartíma fyrir hljóðrit þar sem þau falla undir heildarhugtakið „upptaka listflutnings“. Þar að auki er vert að benda á að ákvæði 45. gr. laganna eru óháð tækni í þeim skilningi að flutningur er verndaður óháð því hvers konar miðlar eru notaðir til upptöku (band, filma eða annar búnaður). Þegar verndartíminn er útrunninn eru afnot hins verndaða verks heimil, t.d. í hljóðvarpi og sjónvarpi og á netinu, án heimildar frá listflytjanda og greiðslu flutningsgjalda.

2.2 Forsaga tillögunnar.
    Af a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar leiðir að ef hljóðrit listflutnings er gefið út eða á annan hátt gert aðgengilegt almenningi innan 50 ára frá því að listflutningurinn fór fram lengist verndartími listflytjanda uns 70 ár eru liðin frá lokum þess árs þegar hljóðrit var fyrst gefið út eða birt opinberlega, eftir því hvort gerist fyrr.
    Hugtakið hljóðrit er skilgreint í Rómarsamningi um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana 1 í b-lið 3. gr. sem „sérhver upptaka, sem einungis geymir hljóð, á listflutningi eða öðrum hljómum“. Í samræmi við skilgreiningu í alþjóðasamningum á sviði höfundaréttar er hugtakið „hljóðrit“ notað um hljóðupptöku í höfundalögum. Rétt er að hafa í huga að frumvarpið og tilskipunin varða framlengdan verndartíma hljóðrita en ekki myndrita. Hljóðrit listflutnings getur verið upptaka tónlistarflutnings, upptaka leikrits eða upplestur hljóðbókar.
    Markmið tilskipunarinnar er einkum að bæta skilyrði fyrir listflytjendur á hljóðritum, þ.e. hljóðfæraleikara og söngvara. Í því frumvarpi sem varð að tilskipuninni sem kynnt var 2008 er miðað við að ferill margra listflytjenda úr hópi tónlistarmanna og söngvara hefjist upp úr tvítugsaldri. Það þýðir að þegar gildandi verndartíma listflutnings er náð, 50 árum, eru þessir listflytjendur um sjötugt og missa þar með mikilvægan tekjustofn seint á starfsævinni þegar greiðslum til þeirra frá plötuútgefendum og greiðslum fyrir flutningsrétt á hljóðritum í hljóðvarpi og sjónvarpi lýkur. Þetta á einkum við um svonefnda aukaflytjendur (meðleikara eða bakraddarsöngvara) sem ráðnir eru til einstakra verkefna þar sem þeir fara ekki með höfundarétt að tónlistinni. Að liðnum verndartíma flytjendaréttarins eiga þeir ekki lengur rétt á tekjum af sölu hljóðritsins. Í þessu felst einnig að listflytjendur missa réttinn til að stjórna því hvort upptakan er notuð á þann hátt sem vegur að listamannsheiðri þeirra. Með lengingu verndartímans um 20 ár dregur úr hættunni á að listflytjendur missi þessa tekjulind síðar á æviskeiði sínu og að upptökur listflutnings sem eru ekki lengur verndaðar verði notaðar á þann hátt að vegið sé að listamannsheiðri þeirra.

2.3 Álitaefni og efni frumvarps.
    Gildandi reglur um útreikning á verndartíma flutningsréttar listflytjenda koma fram í 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. höfundalaga og er þar ekki gerður greinarmunur á hljóðupptöku og annars konar upptöku, t.d. hljóð- og myndupptöku og margmiðlunarverki. Í verndartímatilskipuninni felst að í höfundalögum þarf framvegis að gera greinarmun á verndartíma fyrir hljóðrit og annars konar upptökur. Vegna þessarar aðgreiningar er lagt til að fella brott 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. laganna. Lengdur verndartími á aðeins við um hreinar hljóðupptökur eins og t.d. tónlistarupptökur en lengdur verndartími tekur þó einnig til hljóðbóka. Aftur á móti falla hljóð- og myndupptökur, þ.m.t. kvikmyndaverk og hljóð- og myndmiðlaútsendingar, utan hins lengda verndartíma. Frumvarpið felur annars vegar í sér nýja 2. mgr. 45. gr. höfundalaga, um verndartíma fyrir upptökur sem eru ekki hljóðupptökur og hafa verið gefnar út eða gerðar aðgengilegar almenningi, og hins vegar nýja 3. mgr. 45. gr. sem á við um hljóðrit eingöngu sem eru gefin út eða gerð aðgengileg almenningi. Þar sem frumvarpið felur í sér lengingu á verndartíma kunna að vakna álitaefni um réttindi á hljóðritum sem eru eldri en 50 ára en þó yngri en 70 ára. Rétturinn að þessum hljóðritum telst útrunninn samkvæmt gildandi reglum. Til að leysa úr álitaefnum þessu tengdum er í frumvarpinu mælt fyrir um það í 2. mgr. gildistökuákvæðis 8. gr. að lenging verndartíma skv. 3.–6. gr. frumvarpsins hafi áhrif á réttindi listflytjenda og framleiðenda á hljóðritum sem í gildi voru 1. nóvember 2013 og verða til eftir það tímamark. Af þessu leiðir að réttindi sem voru útrunnin 1. nóvember 2013 verða ekki endurvakin.

3. Lenging verndartíma fyrir hljóðritaframleiðendur.
3.1 Gildandi réttur.
    Líkt og listflytjendur eiga framleiðendur hljóðrita einnig rétt á vernd á hljóðriti sem framleitt er, svonefndan framleiðandarétt. Í þeim rétti felst að hljóðrit má ekki afrita eða gera aðgengileg almenningi án samþykkis framleiðanda. Um verndartíma þessara réttinda er nú mælt fyrir í 1. mgr. 46. gr. höfundalaga. Samkvæmt málsgreininni gildir framleiðandarétturinn uns 50 ár eru liðin frá lokum þess árs þegar frumupptaka hljóðrits fór fram. Ef hljóðrit er gefið út eða dreift til almennings á annan hátt innan verndartímans gildir framleiðandarétturinn þó uns 50 ár eru liðin frá lokum þess árs þegar hljóðriti var fyrst dreift. Þegar verndartími er útrunninn eru afnot hljóðrit frjáls í t.d. hljóðvarpi, sjónvarpi og á netinu, án þess að leita þurfi heimildar eða greiða endurgjald til framleiðanda hljóðritsins.

3.2 Grundvöllur frumvarpsins.
    Af b-lið 2. mgr. 1. gr. verndartímatilskipunarinnar leiðir að verndartími fyrir réttindi framleiðenda hljóðrita lengist úr 50 árum eins og nú gildir í 70 ár, að því tilskildu að hljóðrit hafi verið gefið út eða gert aðgengilegt almenningi á annan hátt innan 50 ára frá því tímamarki þegar listflutningur fór fram. Hinn lengdi verndartími reiknast frá því tímamarki þegar hljóðrit var fyrst gefið út eða gert aðgengilegt almenningi hafi það ekki verið gefið út. Ákvæðið er þannig hliðstætt ákvæði tilskipunarinnar um lengdan verndartíma hljóðrita í þágu listflytjenda eins og gerð er grein fyrir hér að framan.
    Í frumvarpi að verndartímatilskipuninni sem kynnt var 2008 kom fram að hljómplötuiðnaðurinn hefði orðið fyrir tekjutapi og gæti þar af leiðandi í minna mæli en áður sett fjármuni í að styðja við útgáfu hjá upprennandi tónlistarmönnum. Í rökstuðningi með frumvarpinu kom fram að lenging verndartíma mundi auka tekjur hljómplötuframleiðenda á nýjan leik og þannig styðja við að fjármunir væru settir í að styrkja tónlistarferil hjá nýju hæfileikafólki.

3.3 Álitaefni og efni frumvarps.
    Verndartími fyrir framleiðendarétt að hljóðritum er nú ákveðinn í 1. mgr. 46. gr. höfundalaga. Í frumvarpinu er lögð til breyting á verndartíma fyrir framleiðendur hljóðrita. Í breytingunni felst að framleiðandarétturinn gildir í 70 ár frá fyrstu dreifingu ef upptöku er dreift til almennings innan 50 ára frá lokum þess árs þegar frumupptaka fór fram. Hafi hljóðrit hvorki verið gefið út né gert aðgengilegt almenningi gildir áfram núverandi 50 ára verndartími, talið frá lokum þess árs þegar frumupptaka fór fram.
    Þar sem frumvarpið felur í sér lengingu verndartíma kunna að koma upp álitaefni um stöðu framleiðandaréttar gagnvart hljóðritum sem eru eldri en 50 ára en yngri en 70 ára. Rétturinn að þessum hljóðritum telst útrunninn samkvæmt gildandi reglum. Til að leysa úr álitaefnum þessu tengdum er í frumvarpinu í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar mælt fyrir um það í 2. mgr. gildsitökuákvæðis 8. gr. að lenging verndartíma skv. 3.– 6. gr. frumvarpsins hafi áhrif á réttindi listflytjenda og framleiðenda til hljóðrita sem í gildi voru 1. nóvember 2013 og verða til eftir það tímamark. Af þessu leiðir að réttindi sem voru útrunnin 1. nóvember 2013 verða ekki endurvakin.

4. Uppsögn framsalssamnings.
4.1 Gildandi réttur.
    Um framsal höfundaréttinda gilda almennar reglur fjármunaréttarins. Listflytjendum er því frjálst að framselja réttindi sín til hljómplötuframleiðenda gegn eingreiðslu eða reglulegu endurgjaldi. Höfundalög hafa ekki að geyma sérstakt ákvæði sem mælir fyrir um rétt listflytjenda til að segja upp framsalssamningi. Almennir samningsskilmálar um framsal höfundaréttar koma fram í 27.–32. gr. og eru þeir frávíkjanlegir með samningi milli aðila, að undanskildum ákvæðum 27. gr., nema annað leiði af öðrum ákvæðum laganna. Réttur listflytjanda til að segja upp framsalssamningi ræðst af almennum reglum um samninga á sviði fjármunaréttar. Ákvæði 36. gr. höfundalaga hefur að geyma heimild til uppsagnar útgáfusamnings hafi tónverk ekki verið gefið út innan fjögurra ára frá því að útgefandi fékk í hendur fullgert handrit eða annað eintak sem nota skal til eftirgerðar og er höfundi þá, ef ekki hefur verið samið um lengri frest til útgáfu, heimilt að segja upp útgáfusamningi, enda þótt skilyrði til riftunar eftir almennum réttarreglum séu ekki fyrir hendi. Sama gildir ef upplag hefur selst upp og útgefandi, sem fengið hefur rétt til nýrrar útgáfu, hefur ekki gefið verkið út að nýju innan tveggja ára frá því að höfundur krafðist þess. Þessu ákvæði verður þó ekki beitt um réttindi listflytjenda þar sem 36. gr. er ekki getið meðal ákvæða í 3. mgr. 45. gr. laganna sem eiga við um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings.
    Markmiðið með endurheimt réttar listflytjanda skv. a-lið 4. gr. frumvarpsins (sem verður 47. gr. a í lögunum) er að tryggja að framsalshafi réttindanna geti ekki lagt „hina dauðu hönd“ á hið verndaða verk með því að varna því að verkið, t.d. tónlistarupptaka, verði notað. Notkunarleysi á framseldu verki er talið ganga gegn hagsmunum höfundar og samfélagsins.
    Ákvæði a-liðar 4. gr. frumvarpsins felur í sér að framsalshafa réttindanna er skylt að nota verkið í samræmi við efni framsalssamningsins. Á hvern hátt skal hagnýta verkið veltur þannig á framsalssamningnum en ekki ákvæðum höfundalaga. Ákvæði a-liðar 4. gr. frumvarpsins er ófrávíkjanlegt með samningi að því er varðar breytingu á tímafrestum fyrir hagnýtingu og aðlögunartíma.

4.2 Grundvöllur frumvarpsins.
    Í c-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar (2a) er ákvæði sem á ensku hefur verið nefnt ”use it or loose it”-ákvæði eða „notaðu eða misstu“-ákvæði. Samkvæmt ákvæðinu getur listflytjandi sagt upp framsalssamningi að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í fyrsta lagi þarf framsalssamningurinn að fjalla um réttindi á hljóðupptöku sem er gefin út fyrir 50 árum eða, ef ekki er um útgáfu að ræða, að hljóðupptakan hafi verið gerð opinber fyrir 50 árum. Í öðru lagi má segja upp framsalssamningi ef framleiðandi hljóðrits gerir ekki eitt af eftirtöldu: býður eintök af hljóðupptöku til sölu í nægilegum fjölda eða gerir hljóðupptöku aðgengilega almenningi á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að henni á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Í þriðja lagi er sett það skilyrði að listflytjandi gefi hljóðritaframleiðanda eins árs aðlögunartíma þar sem framleiðandinn á þess kost að hrinda í framkvæmd báðum hagnýtingarráðstöfunum og komast þannig hjá uppsögn framsalssamningsins.
    Markmiðið með ákvæði tilskipunarinnar er að veita listflytjanda færi á að ganga að nýju inn í flutningsréttindi á hljóðriti og að gera hljóðritið aðgengilegt almenningi að nýju ef það er ekki lengur gefið út eða á annan hátt gert aðgengilegt 50 árum eftir fyrstu útgáfu og hafi hljóðritið ekki verið gefið út 50 árum eftir að það var fyrst gert aðgengilegt almenningi. Þegar framsalssamningi hefur verið sagt upp leiðir skýrt af orðalagi c-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar að samhliða framleiðandaréttur á hljóðritinu fellur brott. Með þessu móti er girt fyrir að hljóðritaframleiðandi leggi „hina dauðu hönd“ á hljóðritið og hindri að það verði gert aðgengilegt almenningi.

4.3 Álitaefni og efni frumvarps.
    Á framangreindum grundvelli er lagt til að sett verði nýtt ákvæði í höfundalög með framangreindum tímafrestum um rétt listflytjanda til að segja upp framsalssamningi um hljóðrit sem eru 50 ára eða eldri. Í frumvarpinu er lagt til að hið nýja ákvæði verði 47. gr. a í V. kafla laganna.
    Í a-lið 4. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að listflytjandi geti sagt upp samningi um framsal réttinda þegar liðin eru 50 ár frá fyrstu útgáfu eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var fyrst gert aðgengilegt almenningi. Uppsögn framsalssamnings er háð skilyrði um að hljóðritaframleiðandi hafi á umræddu tímamarki ekki hagnýtt hljóðritið með þeim hætti sem nefnt er í ákvæðinu. Ef framleiðandi hljóðrits aðhefst annað af eftirtöldu getur listflytjandi ekki sagt upp framsalssamningi: annaðhvort býður hann eintök hljóðritsins til sölu í nægilegu magni eða gerir hljóðritið aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.
    Í 2. mgr. a-liðar 4. gr. frumvarpsins (sem verður 2. mgr. 47. gr. a ef frumvarpið verður að lögum) er kveðið á um að listflytjandi skuli veita hljóðritaframleiðanda eins árs frest áður en uppsögn tekur gildi. Hljóðritaframleiðandi hefur þannig eitt ár til að hrinda í framkvæmd hagnýtingu hljóðrits eftir framangreindum leiðum. Hafi það ekki verið gert fyrir lok frestsins tekur uppsögnin gildi. Samkvæmt ákvæðinu getur listflytjandi ekki afsalað sér rétti til uppsagnar á framsalssamningi. Samningsákvæði sem fela slíkt í sér teljast því ógild þar sem reglan er ófrávíkjanleg. Vegna sönnunar þarf uppsögn skv. 1. mgr. a-liðar 4. gr. frumvarpsins (1. mgr. 47. gr. a ef frumvarpið verður að lögum) að vera skrifleg.
    Hljóðritaframleiðanda er þannig ætlað að hrinda í framkvæmd tveimur samhliða hagnýtingarráðstöfunum innan uppsagnarfrestsins. Í fyrsta lagi er hljóðritaframleiðanda ætlað að bjóða eintök af hljóðriti til sölu í nægilegu magni. Í öðru lagi ber að gera hljóðrit aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.
    Framboð sölueintaka hljóðrits í nægilegum fjölda á að fullnægja skilgreiningu í Rómarsamningi um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana (d-liður 3. gr. samningsins), þar sem „útgáfa“ verks telst hafa átt sér stað þegar eintök hafa verið boðin almenningi til sölu „í álitsverðum fjölda“. Krafa verður ekki gerð um að framleiðandinn selji tiltekinn fjölda eintaka, aðeins að eintök hafi verið boðin til sölu og hljóðritið hafi þar með verið gert aðgengilegt almenningi.
    Á sama hátt er krafan um að hljóðrit hafi verið gert aðgengilegt almenningi á þann hátt að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs uppfyllt með því að framleiðandinn bjóði nytjaleyfi fyrir slíka hagnýtingu með sanngjörnum skilmálum.
    Ef skilmálar nytjaleyfis gera það viðskiptalega séð óaðgengilegt kunna þeir að fela í sér sniðgöngu ákvæðisins og standa þá ekki í vegi fyrir að listflytjandi segi framsalssamningi upp.
    Þrátt fyrir framsal er ekki víst að framleiðandi hafi tekið við öllum réttindum listflytjanda á hljóðritinu. Hafi framleiðandi hljóðrits t.d. ekki öðlast réttinn til að gera það aðgengilegt getur hann eðli málsins samkvæmt ekki nýtt það á þann hátt að gera það aðgengilegt. Framleiðanda hljóðrits verður einungis gert að gera þær ráðstafanir til hagnýtingar þess í þeim mæli sem hann hefur öðlast réttindi til. Þegar um er að ræða framsal að hluta veltur uppsögn framsalssamnings ekki á því hvort hljóðritaframleiðandinn hafi láti hjá líða að semja um hagnýtingu sem fellur utan þeirra réttinda sem hann hefur öðlast yfir hljóðritinu.
    Af því ákvæði sem hér er mælt fyrir um leiðir að þegar framsalssamningi er slitið falla niður samhliða réttindi framleiðanda á því hljóðriti sem fellur undir framsalssamninginn. Í þessu felst að ef listflytjandi segir upp framsalssamningi og leysir þannig réttindin til sín á ný styttist verndartíminn í raun fyrir framleiðandann hvað varðar hans eigin réttindi á því hljóðriti sem um ræðir. Hafi framsalssamningi verið slitið tekur uppsögnin aðeins til þeirra réttinda sem tilgreind voru í framsalssamningnum og ekki til fyrri hljóðrita listflutnings sama listflytjanda (e. back catalogue).
    Ákvæði frumvarpsins veitir listflytjanda einnig rétt til að segja upp framsalssamningi um hljóðrit sem hafa aðeins verið gerð opinber. Slík hljóðrit er til að mynda að finna í safni Ríkisútvarpsins og af þeirri ástæðu er fyrirsjáanlegt að frumvarpið muni hafa áhrif á stöðu þess. Í því sambandi ber að vekja athygli á að sú breyting sem felst í ákvæðinu hefur aðeins áhrif á hljóðrit eins og upptöku tónlistarflutnings, hljóðvarpsútsendingar eða útvarpsleikrit en ekki mynd- og hljóðrit eins og kvikmyndir og sjónvarpsútsendingar þar sem hljóð er tekið upp samhliða mynd.
    Standi vilji Ríkisútvarpsins til þess að komast hjá uppsögn framsalssamnings ber því áður en ársfresturinn rennur út að gera ráðstafanir til að semja um tvenns konar hagnýtingu hljóðrits. Í þessu felst undantekning miðað við venjulega hagnýtingu á hljóðritum í safni Ríkisútvarpsins þar sem slík hljóðrit eru almennt ekki boðin til sölu. Eðli málsins samkvæmt getur Ríkisútvarpið ekki samið um hagnýtingu hafi það ekki öðlast slíkan rétt annaðhvort með beinum samningum við listflytjanda eða með heildarsamningi við hagsmunasamtök listflytjenda. Í þeim tilvikum þar sem Ríkisútvarpið hefur ekki öðlast rétt til að gera hljóðrit aðgengilegt almenningi veltur réttur listflytjanda til uppsagnar ekki á því hvort Ríkisútvarpið hafi látið hjá líða að hagnýta hljóðritið með slíkum hætti, enda hefur það ekki heimild til að gera svo.
    Rétturinn til að segja upp framsalssamningi tekur til allra framsalssamninga óháð því hvort listflytjandi hafi framselt réttindi sín gegn eingreiðslu eða með jöfnum greiðslum.
    Af verndartímatilskipuninni leiðir að ef hljóðrit hefur að geyma flutning fleiri en eins listflytjanda geta þeir sagt upp samningum sínum við hljóðritaframleiðanda í samræmi við gildandi landslög.
    Ákvæðið segir ekki til um á hvern hátt listflytjandi kann að hagnýta sér þau réttindi sem hann hefur öðlast að nýju. Algengt er að um sé að ræða hljóðrit sem gerð eru með öðrum rétthöfum, t.d. tónleikar í útvarpssal, og ný hagnýting verður þannig að fara fram að teknu tilliti til annarra rétthafa.

5. Ákvörðun árlegs viðbótarframlags til listflytjenda.
5.1 Gildandi réttur.
    Gildandi höfundalög kveða ekki á um hvernig greiðsla skuli fara fram þegar listflytjandi framselur réttindi sín til tónlistarupptöku. Greiðsla fyrir slíkt framsal er ákveðin í samningi milli aðila í samræmi við almennar reglur fjármunaréttarins. Greiðsla fyrir framsal réttinda er annaðhvort eingreiðsla eða jafnaðargreiðslur. Ef ósamkomulag er um þá fjárhæð sem samið var um fyrir framsalið er hægt að skjóta slíkum ágreiningi til dómstóla.
    Höfundalögin hafa að geyma nokkur ákvæði sem mæla fyrir um óframseljanlegar kröfur til þóknunar fyrir tiltekin afnot verndaðra verka. Ákvæði 3. mgr. 41. gr. höfundalaga mælir fyrir um óframseljanlegt endurgjald við útleigu á mynd- og hljóðritum. Hafi listflytjandi framselt rétt sinn til útleigu hljóðrits til hljóðritaframleiðandans leiðir af fyrrgreindu ákvæði að listflytjandinn á rétt á sanngjarnri þóknun fyrir útleiguna frá framleiðandanum. Réttur til þóknunar verður aðeins sóttur í gegnum samtök rétthafa og verður honum ekki afsalað með samningi.
    Á sambærilegan hátt hefur 45. gr. höfundalaga að geyma reglur um endurgjald fyrir afnot hljóðrita til útsendinga í hljóðvarpi og sjónvarpi. Af 1. mgr. 47. gr. höfundalaga leiðir að listflytjendur og framleiðendur hljóðrita eiga rétt á endurgjaldi fyrir notkun útgefinna hljóðrita í hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingum og við annan opinberan flutning, þó ekki við hljóð- og myndmiðlun eftir pöntun. Krafa um endurgjald verður aðeins gerð af hálfu samtaka rétthafa sem fara bæði með innheimtuumboð fyrir listflytjendur og framleiðendur hljóðrita. Rétthafasamtökin Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SFH, hafa hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að gegna þessu hlutverki. Rétti til endurgjaldsins verður ekki afsalað með samningi.
    Ef aðilum tekst ekki að semja um fjárhæð endurgjaldsins skv. 45. gr. a eða 47. gr. laganna getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið fyrir þriggja manna úrskurðarnefnd sem mennta- og menningarmálaráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd tilnefnir, sbr. 57. gr. höfundalaga. Ákvörðun úrskurðarnefndarinnar er fullnaðarúrskurður í málinu á stjórnsýslustigi. Rétt er að vekja athygli á að í öðru frumvarpi um breytingar á höfundalögum sem ráðgert er að lagt verði fram á yfirstandandi þingi er mælt fyrir um breytingar á hlutverki nefndarinnar á þann veg að ágreiningur vegna beitingar samningskvaðaheimilda getur fallið undir verksvið hennar.
    Í gildandi lögum eru engin ákvæði um að listflytjandi eigi eftir tiltekinn árafjölda kröfu á viðbótarendurgjaldi sem endurspeglar þær tekjur sem framleiðandi hljóðrits hefur haft af dreifingu, eintakagerð og því að gera hljóðrit aðgengilegt eftir tiltekinn árafjölda.

5.2 Forsendur frumvarpsins.
    Í stafliðum 2b–2e í c-lið 2. mgr. 1. gr. verndartímatilskipunarinnar kemur fram að listflytjandi sem hefur framselt rétt sinn til framleiðanda hljóðrits gegn eingreiðslu skuli eiga rétt á árlegu viðbótarframlagi. Greiðsla þess skal hefjast þegar liðin eru 50 ár frá fyrstu útgáfu hljóðrits eða, ef það hefur ekki verið gefið út, frá þeim tíma þegar hljóðritið var birt.
    Rétturinn til árlegs viðbótarframlags er samkvæmt tilskipuninni virkur út verndartíma hljóðritsins og verður ekki vikið frá honum með samningi.
    Framangreint ákvæði er eitt þeirra úrræða sem ætlað er að tryggja að listflytjendur hagnist raunverulega á hinum lengda verndartíma þrátt fyrir að þeir hafi framselt rétt sinn á hljóðriti, sbr. formálsgrein 10 í verndartímatilskipuninni.
    Af þessari ástæðu hefur tilskipunin einnig að geyma ákvæði sem kveður svo á um að hafi listflytjandi framselt rétt sinn gegn reglulegum greiðslum er óheimilt að draga þær frá þeim greiðslum sem inntar eru af hendi eftir lok hins upphaflega samningstíma. Líta ber á þetta atriði í samhengi við önnur ákvæði tilskipunarinnar um lengingu á verndartímanum og framlengingu á gildistíma framsalssamningsins.

5.3 Mat og tillögur mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Með hliðsjón af framansögðu leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að bætt verði við nýrri grein í höfundalög, sbr. b-lið 4. gr. frumvarpsins (sem verður 47. gr. b verði frumvarpið að lögum) þar sem í 1. mgr. er mælt fyrir um rétt listflytjanda til árlegrar viðbótarþóknunar þegar um er að ræða framsal til framleiðanda hljóðrits gegn eingreiðslu. Rétturinn til árlegrar viðbótargreiðslu gildir fyrir hvert heilt ár eftir að 50 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá þeim tíma þegar hljóðrit var gert opinbert.
    Af 2. mgr. b-liðar 4. gr. frumvarpsins (sem verður 2. mgr. 47. gr. b verði frumvarpið að lögum) leiðir að framleiðanda hljóðrits ber að leggja til hliðar 20% af árlegum tekjum sem til falla á hinum lengda verndartíma af dreifingu, eintakagerð og því að hljóðrit er gert aðgengilegt almenningi. Tekna sem aflað er á grundvelli 47. gr. höfundalaga (endurgjald fyrir afnot hljóðrita í hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingum), ásamt bótum fyrir eintakagerð til einkanota skv. 3. mgr. 11. gr. laganna, teljast ekki með í samanlögðum tekjum af hljóðriti. Í þessu sambandi skal bent á að í formálsgrein 11 í verndartímatilskipuninni segir að með orðinu „tekjur“ sé átt við tekjur að frádregnum kostnaði.
    Með framleiðanda hljóðrits er í þessu samhengi átt við það fyrirtæki eða einstakling sem hefur forgöngu um efnahagslega hagnýtingu hljóðritsins. Að jafnaði er um að ræða það fyrirtæki eða einstakling sem er skráður rétthafi hljóðritsins hjá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda samkvæmt árituðu vörumerki samtakanna á þau eintök hljóðritsins sem seld eru. Ef aðrir en framleiðandi hljóðritsins annast dreifingu, eintakagerð eða gerir það aðgengilegt á grundvelli samnings við framleiðanda hljóðritsins ber framleiðandanum að leggja til hliðar 20% tekna sinna af þeim samningi.
    Framleiðanda hljóðrits ber einungis að leggja 20% tekna sinna til hliðar að því leyti sem um er að ræða hljóðrit þar sem listflytjandi hefur framselt rétt sinn til framleiðandans. Tekjur sem framleiðandinn aflar með öðrum hljóðritum falla utan b-liðar 4. gr. frumvarpsins. Framleiðanda hljóðritsins ber að leggja til hliðar 20% tekna sinna hjá þeim samtökum sem annast umsýslu skv. 3. mgr. b-liðar 4. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til í 3. mgr. b-liðar 4. gr. (sem verður 3. mgr. 47. gr. b verði frumvarpið að lögum) að umsýsla og útborgun árlegrar viðbótarþóknunar sé á hendi rétthafasamtaka sem hlotið hafa viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í 5. mgr. b-liðar 4. gr. frumvarpsins (sem verður 5. mgr. 47. gr. b verði frumvarpið að lögum) kemur fram að mennta- og menningarmálaráðherra setji nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar slíkra rétthafasamtaka. Heimild til útgáfu sambærilegra reglna er þegar fyrir hendi í 53. gr. a í höfundalögum fyrir innheimtusamtök sem starfa m.a. á grundvelli 2. mgr. 47. gr. en engar slíkar reglur hafa enn verið settar á þeim grundvelli. Í öðru frumvarpi til breytinga á höfundalögum sem ráðgert er að verði lagt fram á þessu þingi er gerð tillaga um að fella þetta ákvæði niður og að fjallað verði um viðurkenningu rétthafasamtaka í nýju almennu lagaákvæði.
    Í c-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að bæta við nýrri grein, 47. gr. c, þar sem kveðið er á um þau tilvik þar sem listflytjandi hefur framselt réttindi sín til framleiðanda hljóðrits gegn reglulegum greiðslum. Samkvæmt ákvæðinu er lagt til að í þeim tilvikum megi hvorki draga fyrirframgreiðslu eða samningsbundinn frádrátt frá þeim greiðslum sem listflytjandi á rétt til á framlengdum verndartíma.
    Tilgangur ákvæðisins er að skapa jafnræði í samningum þar sem listflytjendur hafa framselt einkaréttindi sín til framleiðanda hljóðrits gegn þóknun á þann hátt að listflytjandi geti notið til fulls hins lengda verndartíma. Það er gert þannig að listflytjandi sem hefur fengið jafnar greiðslur fær „hreint borð“. Óheimilt er draga fyrirframgreiðslur og samningsbundinn frádrátt frá þeim jafnaðargreiðslum sem listflytjandi þiggur á framlengdum verndartíma.
    Með hliðsjón af réttaröryggi er í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins (sem verður 3. mgr. 63. gr., verði frumvarpið að lögum) sérstök lagaskilaregla þar sem mælt er fyrir um að efnisákvæði 3.–6. gr. frumvarpsins skuli gilda um samninga milli listflytjenda og framleiðenda hljóðrita um framsal réttinda á hljóðriti listflutnings sem gerðir voru fyrir 1. nóvember 2013 og skuli eftir þann tíma gilda áfram um réttindi listflytjanda sem ella hefðu runnið út samkvæmt fyrri 50 ára verndartímareglu. Þetta á við ef ekki er skýrt kveðið á um annað í framsalssamningi.
    Markmið ákvæðisins er einnig að tryggja að samningar um framsal réttinda listflytjenda á hljóðriti af listflutningi til framleiðanda hljóðrits, sem ekki gefa færi á að taka tillit til hins lengda verndartíma, séu áfram í gildi á lengdum verndartíma. Slík sjálfkrafa framlenging gildir þó ekki ef samningurinn hefur að geyma ákvæði sem gefa annað skýrt til kynna. Í því sambandi getur hugsast að samningur sé tímabundinn og verður hann þá ekki sjálfkrafa framlengdur.
    Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins (sem verður 4. mgr. 63. gr. verði frumvarpið að lögum) er einnig að finna lagaskilareglu um að framsalssamningar sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013 og veita listflytjanda rétt til reglulegra greiðslna skuli teknir upp að nýju þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
    Sú endurskoðun framsalssamnings sem heimilt er að krefjast á að vera til hagsbóta fyrir listflytjendur. Í því sambandi má benda á að útreikningsákvæði upphaflegs samnings kunna að vera úrelt með tilliti til nýrra notkunarleiða þar sem tilkostnaður er annar en eftir eldri leiðum. Einnig getur skipt máli við endurskoðun samnings að framleiðandi hljóðrits fær 20 ára lengingu á verndartíma og að tilkostnaður framleiðanda hefur þegar verið afskrifaður þegar samningur er endurskoðaður. Loks getur endurskoðun samnings skipt máli í þeim tilgangi að uppfæra samning þannig að hann endurspegli breytingar á reglum um fyrirframgreiðslu og samningsbundinn frádrátt sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.
    Ef aðilar ná ekki samkomulagi um endurskoðun framsalssamnings má bera slíkan ágreining undir úrlausn dómstóla. Við úrlausn deilu um eignarhald á réttindum til hljóðrits listflutnings reynir að jafnaði á sönnun og skera dómstólar þar úr. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins er óhentugt að leggja slíkan ágreining undir úrskurðarnefnd um höfundaréttarmál þar sem í því fælist veruleg breyting á verksviði nefndarinnar. Úrskurðarnefnd um höfundaréttarmál fjallar um ágreining milli notenda og rétthafa um fjárhæð þóknunar fyrir afnot réttinda. Í framsalssamningi milli tveggja rétthafa er bæði fjallað um framsal réttinda og endurgjald vegna þess. Ágreiningur um skilmála framsalssamnings er í eðli sínu ólíkur þeim deilumálum sem falla undir úrskurðarnefndina samkvæmt gildandi lögum.

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem fela í sér innleiðingu á ákveðnum þáttum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og ákveðin skyld réttindi. Frumvarpið hefur að öðru leyti ekki gefið tilefni til mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

VI. Samráð.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við helstu hagsmunaaðila eins og Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samband tónskálda og textahöfunda, höfundaréttarnefnd og Höfundaréttarfélag Íslands. Engar athugasemdir komu fram um efni frumvarpsins þegar það var kynnt í opnu samráðsferli á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.

VII. Mat á áhrifum.
1. Áhrif frumvarpsins á hið opinbera.
    Með samþykkt frumvarpsins lengist verndartími hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi um 20 ár. Að því leyti sem ríki og sveitarfélög nýta umrædd hljóðrit með þeim hætti að það leiðir til greiðslu þóknunar til höfunda og rétthafa lengist að sama skapi tíminn sem ber að greiða fyrir afnotin. Aðeins verður þó um aukin útgjöld að ræða að svo miklu leyti sem ríki og sveitarfélög nýta hljóðrit sem voru gefin út eða gerð opinber fyrir meira en 50 árum og fram til þess tíma að 70 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu eða þeim tíma að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
    Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins munu áhrif frumvarpsins einkum koma fram hjá almenningsbókasöfnum vegna útláns hljóðrita og því telst um óverulega útgjaldaaukningu að ræða.

2. Áhrif frumvarpsins á atvinnulífið.
    Með samþykkt frumvarpsins lengist verndartími fyrir hljóðrit sem hafa verið gerð aðgengileg eða gefin út um 20 ár. Að því leyti sem atvinnulífið nýtir umrædd hljóðrit á þann hátt að það leiðir til greiðslu þóknunar til höfunda og rétthafa lengist að sama skapi tíminn sem ber að greiða fyrir afnotin. Aðeins verður þó um aukin útgjöld að ræða að svo miklu leyti sem atvinnulífið nýtir hljóðrit sem voru gefin út eða gerð opinber fyrir meira en 50 árum og fram til þess tíma að 70 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu eða þeim tíma að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
    Fjárhæð þeirrar þóknunar ræðst ekki af höfundalögum heldur er hún ákveðin með samningi. Áhrif frumvarpsins á atvinnulífið ráðast af þeim samningum sem áður hafa verið gerðir milli notenda hljóðrita og höfunda og rétthafa og umfangi afnota hinna vernduðu verka á framlengdum verndartíma. Eðli málsins samkvæmt liggja ekki fyrir upplýsingar um slíka samninga og umfang notkunar þeirra hljóðrita sem falla munu undir ákvæði frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er sú skylda lögð á framleiðanda hljóðrits að leggja til hliðar 20% af tekjum sínum af eintakagerð, dreifingu og því að gera aðgengileg almenningi hljóðrit sem eru eldri en 50 ára. Viðbótarþóknunin dreifist til listflytjenda í gegnum rétthafasamtök þeirra. Fjárhagsleg áhrif þessara viðbótargreiðslna munu velta á umfangi tekna af hljóðritunum eftir að 50 ár eru liðin frá því að þau voru gerð aðgengileg almenningi eða gefin út.
    Frumvarpið felur einnig í sér að tekjur rétthafa munu aukast þar sem greiðslur fyrir afnot hljóðrita kunna að greiðast í lengri tíma. Því til viðbótar kemur að listflytjendur sem hafa framselt réttindi sín til framleiðanda hljóðrits gegn eingreiðslu munu eiga rétt til árlegrar viðbótarþóknunar og þar með hafa auknar tekjur af þeim hljóðritum sem eru 50–70 ára gömul. Frumvarpið mun því að nokkru leyti fela í sér breytta skiptingu tekna af hljóðritum.
    Gert er ráð fyrir að hinar nýju reglur muni í upphafi taka til takmarkaðs fjölda hljóðrita þar sem tækniframfarir í gerð hljóðrita hafa einkum orðið á síðustu 40 árum. Upplýsingar liggja ekki fyrir um fjölda þeirra hljóðrita sem orðin eru 50 ára eða eldri og hafa enn þá viðskiptalegt gildi.
    Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það mat mennta- og menningarmálaráðuneytisins að gildissvið frumvarpsins hafi ekki neikvæðar efnahagslegar og stjórnsýslulegar afleiðingar sem hafa þýðingu fyrir atvinnulífið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 43. gr. laganna. Með breytingunni verður samræmdur verndartími tónverks og texta þar sem bæði texti og tónverk eru samin sérstaklega fyrir hlutaðeigandi tónverk með texta. Af breytingunni leiðir að verndartími tónverka skal reiknast sem 70 ár frá dánarári þess höfundar sem lengst lifir, hvort sem það er tónhöfundur eða textahöfundur, að því tilskildu að framlag beggja hafi verið tileinkað hlutaðeigandi tónverki með texta. Tónverk með texta teljast að öðru leyti til svonefndra samsettra verka sem felur í sér að hægt er að skilja frá hvorn verkhluta um sig og njóta þeir sjálfstæðrar höfundaréttarverndar. Ákvæðið tekur aðeins til tónverka og texta sem eru sérstaklega samin fyrir hvort um sig. Ef annar tónhöfundur semur nýtt tónverk fyrir upphaflegan texta leiðir það ekki til lengingar á verndartíma textans þar til 70 ár eru liðin frá dánarári hins nýja tónhöfundar. Ástæða þessa er að textinn er ekki saminn sérstaklega fyrir hið nýja tónverk heldur upprunalega tónverkið. Ákvæði frumvarpsins um tónverk með texta taka til tónverka með texta þar sem tónverkið eða textinn nutu verndar í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu 1. nóvember 2013 og þau tónverk með texta sem orðið hafa til eftir þá dagsetningu. Í gildistökuákvæði frumvarpsins felst að til þess kann að koma í nokkrum mæli að réttindi sem höfðu fallið niður fyrir 1. nóvember 2013 verði endurvakin. Um það atriði vísast til nánari umfjöllunar um gildistökuákvæði 8. gr. Hinar nýju reglur um samræmingu á útreikningi verndartíma fyrir tónverk með texta, þar sem bæði tónverk og texti er samið fyrir hvort annað, gildir einnig í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá túlkun leiðir af reglunni um innlenda meðferð í alþjóðlegum sáttmálum, sbr. 61. gr. a í höfundalögum. Sama á einnig við um endurvakningu réttinda. Erlent samsett tónverk með texta mun þannig falla undir 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem verður 2. mgr. 43. gr. laganna, án tillits til þess hvort tónverkið eða textinn var fallinn úr vernd í heimalandi verksins. Nægilegt er að hið samsetta verk í heild sinni hafi ekki verið fallið úr vernd í heimalandinu.

Um 2. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til er að miklu leyti frekari útfærsla á 45. gr. gildandi höfundalaga. Í því felst að 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. laganna fellur brott og á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar. Hin nýja 2. mgr. kveður á um verndartímann fyrir þær upptökur listflutnings sem hafa verið gefnar út eða gerðar aðgengilegar almenningi, sem ekki eru hljóðrit, heldur teljast mynd- og hljóðupptökur eða kvikmyndaverk. Verndartími fyrir slíkar upptökur helst óbreyttur í 50 ár, reiknað frá fyrstu útgáfu eða þegar upptaka var gerð aðgengileg almenningi, eftir því hvort gerðist fyrr. Í nýrri 3. mgr. er kveðið á um lengingu verndartíma fyrir hljóðrit sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi. Hér er um að ræða breytingu miðað við gildandi lög þar sem verndartíminn lengist í 70 ár reiknað frá því tímamarki þegar fyrsta útgáfa var gerð eða hljóðrit gert aðgengilegt almenningi, eftir því hvort gerðist fyrr. Hinn lengdi verndartími hefur bæði áhrif á hljóðrit sem hafa þegar verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi, þ.m.t. þau hljóðrit sem útvarps- og sjónvarpsfyrirtæki hafa framleitt og gert aðgengileg almenningi, t.d. eigin framleiðsla Ríkisútvarpsins á hljóðvarpsútsendingum. Hin lengdi verndartími tekur ekki til hljóð- og myndefnis eins og kvikmynda og sjónvarpsútsendinga.

Um 3. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til á 46. gr. gildandi höfundalaga fela í sér að verndartími fyrir réttindi hljóðritaframleiðanda á hljóðritum sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi lengist í 70 ár talið frá því tímamarki þegar hljóðrit var fyrst gefið út eða, hafi hljóðrit ekki verið gefið út, frá því tímamarki þegar það var fyrst gert aðgengilegt almenningi. Samsvörun er á milli þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á 46. gr. laganna við breytingar á 45. gr. um verndartíma fyrir rétt listflytjenda til hljóðrita. Hafi hljóðrit ekki verið gefið út eða gert aðgengilegt almenningi heldur framleiðandi hljóðrits núverandi 50 ára verndartíma talið frá þeirri stundu er upptaka var gerð.

Um 4. gr.

    Í þeirri breytingu sem lögð er til í a-lið 4. gr. frumvarpsins, sem verður 47. gr. a laganna, er lagt til að listflytjandi sem hefur framselt réttindi sín á hljóðriti til framleiðanda þess hafi rétt til að segja framsalssamningi upp hafi framleiðandi hljóðrits ekki hagnýtt hljóðritið á a.m.k. á einhvern þann hátt sem nefndir eru í ákvæðinu. Rétturinn til uppsagnar á framsalssamningi verður einungis nýttur þegar liðin eru 50 ár frá fyrstu útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, frá þeim tíma þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi. Ef framleiðandi hljóðrits hagnýtir ekki hljóðrit sem er yngra en 50 ára getur listflytjandi ekki sagt upp framsalssamningi. Af 3. mgr. leiðir að ef samningi er sagt upp falla niður þau réttindi sem framleiðandi á til hljóðritsins, sbr. 46. gr. laganna. Ef framsalssamningi er sagt upp sökum þess að framleiðandi hljóðrits hefur ekki nýtt hin framseldu réttindi í nægilegum mæli getur hljóðritaframleiðandinn þannig ekki haldið áfram að nýta þau réttindi sem hann hafði áður yfir hljóðritinu. Af þeim sökum getur framleiðandi hljóðritsins ekki hindrað að listflytjandi geri í kjölfar uppsagnar hljóðritið aðgengilegt almenningi.
    Í b-lið 4. gr. frumvarpsins, sem verður 47. gr. b laganna, er kveðið á um að listflytjendur sem hafa framselt réttindi sín til framleiðanda hljóðrita og samið um rétt til endurgjalds í formi eingreiðslu eigi rétt til árlegrar viðbótarþóknunar þegar liðin eru 50 ár frá fyrstu útgáfu hljóðrits, eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar liðin eru 50 ár frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi. Réttinum til árlegrar viðbótarþókunar verður ekki vikið til hliðar með samningi.
    Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytis er Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SFH, þar til bær rétthafasamtök sem gætu verið til þess fallin að hafa með höndum umsýslu og úthlutun árlegrar viðbótarþóknunar til listflytjenda. SFH hefur nú þegar umsýslu með og úthlutar framlagi til listflytjenda vegna opinbers flutnings hljóðrita og hefur vegna þess komið upp umfangsmiklu gagnasafni með upplýsingum um auðkenni listflytjenda á þeim hljóðritum sem eru grundvöllur úthlutunar hjá sambandinu. Af þessum sökum má ætla að SFH muni ráða við hið nýja verkefni, enda heldur SFH nú þegar skrá yfir þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að geta úthlutað hinu árlega viðbótarframlagi á einstaklingsgrundvelli. Hið árlega viðbótarframlag greiðist til listflytjenda sem hafa framselt réttindi sín gegn eingreiðslu. Hér er algengt að um sé að ræða meðleikara í hljóðveri og aðra listamenn sem ekki eru skráðir flytjendur listflutnings á hljóðriti. Rétthafasamtökum sem ráðstafa viðbótarframlaginu er ætlað að gera það á einstaklingsgrundvelli a.m.k. einu sinni á ári. Ef ekki tekst að bera kennsl á þá meðleikara og listamenn sem ekki eru skráðir flytjendur hljóðrits kann að reyna á að gildandi reglur um úthlutun framlags vegna höfundalausra verka (verka sem ekki er vitað hver samdi, svokallaðra munaðarlausra verka) við árlega úthlutun framlagsins. Gert er ráð fyrir að þau rétthafasamtök sem annast munu úthlutun samkvæmt ákvæðinu geti í samþykktum sínum m.a. kveðið á um hvernig hljóðritaframleiðandi gerir grein fyrir tekjum sínum af hljóðritum. Þau rétthafasamtök sem ætlað er að hafa með höndum umsýslu og úthlutun árlegs viðbótarframlags munu geta reiknað sér ákveðinn umsýslukostnað sem dregst frá úthlutuðu framlagi. Verndartímatilskipunin veitir færi á að setja ákveðin vikmörk sem undanþiggja tiltekna hljóðritaframleiðendur frá því að fylgja reglum um að setja til hliðar ákveðna upphæð vegna útgreiðslu árlegrar viðbótarþóknunar. Hér á landi eru annars vegar fá stór fyrirtæki á sviði hljóðritaútgáfu og fjölmargir smærri aðilar. Ef sett eru ákveðin vikmörk um hvaða hljóðritaframleiðendur geti verið undanþegnir ákvæðinu er ljóst að verulegur hluti smærri útgefenda yrði undanþeginn tilskipuninni. Af því gæti leitt að stór hluti íslenskra listamanna fengi ekki notið greiðslu árlegrar viðbótarþóknunar. Í þessu ljósi telur mennta- og menningarmálaráðuneyti ekki skynsamlegt að innleiða áðurnefnd vikmörk. Í 4. mgr. b-liðar 4. gr., sem verður 4. mgr. 47. gr. b laganna, kemur fram að framleiðandi hljóðrits skuli eftir kröfu frá listflytjanda láta af hendi hverjar þær upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að vera til að tryggja greiðslu hins árlega viðbótarframlags. Til að tryggja skilvirka umsýslu árlegs viðbótarframlags er í ákvæðinu kveðið á um rétt samtaka, sem hlotið hafa viðurkenningu til umsýslunnar, til að krefjast sömu upplýsinga. Gera má ráð fyrir að það verði þessi samtök sem hafi fyrirliggjandi upplýsingar og yfirsýn um þær viðbótarupplýsingar sem nauðsynlegt er að aflað verði frá hljóðritaframleiðanda. Í þessu samhengi er rétt að benda á að hagfellt kann að vera fyrir báða aðila að semja um reglulega upplýsingagjöf vegna umsýslu með árlegri viðbótarþóknun til listflytjenda.
    Í c-lið 4. gr. frumvarpsins, sem verður 47. gr. c laganna, er kveðið á um að réttur listflytjanda til árlegrar viðbótarþóknunar skuli ekki rýrður vegna fyrirframgreiðslu eða samningsbundins frádráttar ef listflytjandi hefur framselt framleiðanda hljóðrits rétt sinn á hljóðriti listflutnings og samið um reglulegar greiðslur þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi, þ.e. á hinum lengda verndartíma. Með þessu móti er tryggt að listflytjendur fái „hreint borð“ þegar kemur að greiðslum fyrir réttindi yfir hljóðriti á framlengdum verndartíma þess.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins, sem verður 3. mgr. 63. gr. laganna, er kveðið á um að samningar um framsal réttinda listflytjanda yfir hljóðriti sem gerðir voru fyrir 1. nóvember 2013 haldi áfram gildi sínu eftir gildistöku laganna í þeim tilvikum þar sem verndartími réttinda listflytjanda teldist annars vera útrunninn. Slíkir samningar framlengjast þar með sjálfkrafa nema annað sé skýrlega gefið til kynna í samningi aðila. Hér verður ekki um að ræða endurvakningu samninga um réttindi sem voru útrunnir 1. nóvember 2013.
    Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins, sem verður 4. mgr. 63. gr. laganna, er kveðið á um að heimilt verði að endursemja um efni samninga um yfirfærslu eða framsal réttinda listflytjenda á hljóðriti sem gerðir voru fyrir 1. nóvember 2013 og veita listflytjanda rétt til reglulegra greiðslna þegar liðin eru 50 ár frá fyrstu útgáfu hljóðrits, eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að það var gert aðgengilegt almenningi. Í ákvæðinu felst að listflytjendur sem hafa framselt réttindi sín á hljóðriti gegn reglulegum greiðslum fá tækifæri til að gera nýjan framsalssamning vegna hins lengda verndartíma.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Gengið er út frá því að þær breytingar sem mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins og varða 43. gr. laganna um tónverk með texta hafi áhrif á verndartíma slíkra verka þegar annaðhvort tónverkið eða textinn, að lágmarki, naut verndar í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins 1. nóvember 2013. Þá tekur ákvæði 1. gr. frumvarpsins einnig til tónverka með texta sem verða til eftir þann dag.
    Vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ber að veita réttindum listflytjenda og framleiðenda vernd skv. 3.–6. gr. frumvarpsins miðað við 1. nóvember 2013 í samræmi við ákvæði verndartímatilskipunarinnar. Ákvæðið tekur til réttinda listflytjenda og framleiðenda á hljóðritum sem í gildi voru 1. nóvember 2013 og verða til eftir það tímamark. Ekki verður um að ræða endurvakningu réttinda sem voru útrunnin 1. nóvember 2013.
    Í verndartímatilskipuninni felst ákveðin endurvakning réttinda sem voru útrunnin 1. nóvember 2013 hvað varðar tónverk með texta, án tillits til þess hvort slík réttindi hafi verið útrunnin samkvæmt fyrri reglum aðildarlanda Evrópska efnahagssvæðisins. Skv. 6. tölul. 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er afgerandi fyrir endurvakningu réttinda að annaðhvort tónverkið eða textinn, að lágmarki, hafi verið verndað í aðildarríki 1. nóvember 2013, að því tilskildu að verkin hafi birst fyrir þann dag. Ef svo er gilda ákvæði tilskipunarinnar um samræmingu á verndartíma í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins án tillits til verndartímans í einstökum ríkjum sem kann að hafa verið útrunninn samkvæmt þágildandi reglum. Gera má ráð fyrir að tónverk með texta sem hafa birst fyrir 1. nóvember 2013 njóti 70 ára verndartíma á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, miðað við dánarár þess höfundar sem lengst lifir. Í íslenskum höfundarétti kann því að koma til þess að höfundaréttur að tónverki með texta verði endurvakinn þar sem framlag annars höfundarins var verndað í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins 1. nóvember 2013. Af ákvæðinu leiðir að þær breytingar sem lagðar eru til á 43. gr. laganna hafa ekki áhrif á samninga um afnot verka sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013.



Fylgiskjal I.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi höfundalögum.

GILDANDI LÖG

BREYTING, VERÐI FRUMVARPIÐ AÐ LÖGUM


     IV. kafli. Gildistími höfundaréttar.
    43. gr. Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Nú er um verk að ræða sem ákvæði 7. gr. taka til og skal þá telja greint 70 ára tímabil frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir. Höfundaréttur að kvikmyndaverkum helst þó aðeins í 70 ár eftir dánarár þess sem lengst lifir af eftirgreindum höfundum kvikmyndaverks:
    1. Aðalleikstjórar.
    2. Handritshöfundar, þar með taldir höfundar samtalstexta.
    3. Tónhöfundar sé tónlistin sérstaklega samin til afnota í kvikmyndaverkum.

    IV. kafli. Gildistími höfundaréttar.
    43. gr. Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Nú er um verk að ræða sem ákvæði 7. gr. taka til og skal þá telja greint 70 ára tímabil frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir. [úrfelling]
    Höfundaréttur að tónverki með texta, þar sem bæði texti og tónverk eru samin sérstaklega fyrir hlutaðeigandi tónverk með texta, helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess sem lengst lifir af eftirtöldum aðilum:
    1.     Textahöfundur, eða
    2.     Tónskáld.
    Höfundaréttur að kvikmyndaverkum helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess sem lengst lifir af eftirgreindum höfundum kvikmyndaverks:
    1. Aðalleikstjórar.
    2. Handritshöfundar, þar með taldir höfundar samtalstexta.
    3. Tónhöfundar sé tónlistin sérstaklega samin til afnota í kvikmyndaverkum.


    V. kafli. Ýmis réttindi, skyld höfundarétti.
    45. gr. Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
    1. Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
    2. Útvarp á beinum listflutningi.
    3. Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
    4. Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu hennar.
    Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr. …
    Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.
    Sama rétt og listflytjandi samkvæmt þessari grein hefur flytjandi þjóðmenningarlegs efnis.


    V. kafli. Ýmis réttindi, skyld höfundarétti.
    45. gr. Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
    1. Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
    2. Útvarp á beinum listflutningi.
    3. Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
    4. Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. [úrfelling]
    Ef upptaka listflutnings skv. 1. mgr., sem ekki er hljóðrit, er gefin út eða gerð aðgengileg almenningi innan þess tímamarks sem þar er tiltekið varir verndin þó uns 50 ár eru liðin frá því sem fyrr gerist, lok útgáfuárs eða þegar upptaka var gerð aðgengileg almenningi.
    Ef hljóðrit listflutnings skv. 1. mgr. er gefin út eða gerð aðgengileg almenningi innan þess tíma sem þar er nefndur varir verndin þó uns 70 ár eru liðin frá því sem fyrr gerist, lok útgáfuárs eða þegar upptaka varð gerð aðgengileg almenningi.
    Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr. …
    Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.
    Sama rétt og listflytjandi samkvæmt þessari grein hefur flytjandi þjóðmenningarlegs efnis.



    46. gr. Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 24. gr.


    46. gr. Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 70 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 24. gr.
    47. gr. a. Listflytjandi getur sagt upp samningi um framsal réttinda til hljóðrits af listflutningi sínum til framleiðanda hljóðrits þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu þess eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá að það var birt, ef framleiðandinn gerir ekki fullnægjandi ráðstafanir til:
    1.     að bjóða eintök af hljóðriti í sölu í nægilegu magni eða
    2.     að gera hljóðritið aðgengilegt almenningi á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 2. gr.
    Um uppsögn listflytjanda á samningi skv. 1. mgr. gildir eins árs uppsagnarfrestur. Uppsögn samnings tekur gildi að liðnum uppsagnarfresti hafi framleiðandi hljóðrits ekki gert viðeigandi ráðstafanir skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. Ógilt er afsal flytjanda á uppsagnarrétti samkvæmt þessari grein.
    Við uppsögn samnings skv. 1. mgr. falla niður réttindi framleiðanda skv. 46. gr. til viðkomandi hljóðrits.

    47. gr. b. Hafi listflytjandi framselt framleiðanda hljóðrits rétt sinn til hljóðrits listflutnings fyrir eingreiðslu á hann rétt á árlegri viðbótarþóknun frá framleiðanda hljóðrits fyrir hvert heilt ár eftir að 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðritsins eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðritið var gert aðgengilegt almenningi. Ógilt er afsal listflytjanda á rétti til árlegrar viðbótarþóknunar.
    Framleiðandi hljóðrits skal leggja til hliðar fjárhæð til greiðslu viðbótarþóknunar skv. 1. mgr. Samanlögð fjárhæð sem lögð er til hliðar skal samsvara 20% af tekjum framleiðandans fyrir næstliðið ár. Viðbótarþóknun skv. 1. mgr. reiknast af tekjum framleiðanda hljóðrits vegna eintakagerðar, dreifingar eintaka og því að hljóðrit er gert aðgengilegt almenningi frá því að 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
    Umsýsla og útborgun viðbótarþóknunar skv. 1. mgr. er á hendi samtaka rétthafa sem hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytisins.
    Eftir kröfu frá listflytjanda eða viðurkenndum samtökum skv. 3. mgr. ber framleiðanda hljóðrits að láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja greiðslu árlegrar viðbótarþóknunar.
    Ráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar samtaka skv. 3. mgr.

    47. gr. c. Hafi listflytjandi framselt framleiðanda hljóðrits rétt sinn á hljóðriti listflutnings og samið um reglulegar greiðslur skal réttur til árlegrar viðbótarþóknunar ekki rýrður vegna fyrirframgreiðslu eða samningsbundins frádráttar þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

    VII. kafli. Refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl.
    59. gr. Brot á lögum þessum sæti ákæru, en jafnan skal málshöfðun heimil þeim sem misgert er við.
    Nú er höfundur látinn og getur þá enn fremur tilsjónaraðili, sem nefndur hefur verið eftir 2. mgr. 31. gr., en ella eiginmaður eða eiginkona hins látna, foreldrar, börn og systkin, krafist þess að ákæra verði gefin út eða höfðað mál út af brotum gegn 1. og 2. mgr. 4. gr., 2. og. 3. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmælum höfundar samkvæmt 2. mgr. 31. gr. eða listflytjanda samkvæmt sama ákvæði, sbr. 3. mgr. 45. gr.
    Mál út af brotum gegn ákvæðum 53. gr. sæta saksókn eftir kröfu ráðherra.
    VII. kafli. Refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl.
    59. gr. Brot á lögum þessum sæti ákæru, en jafnan skal málshöfðun heimil þeim sem misgert er við.
    Nú er höfundur látinn og getur þá enn fremur tilsjónaraðili, sem nefndur hefur verið eftir 2. mgr. 31. gr., en ella eiginmaður eða eiginkona hins látna, foreldrar, börn og systkin, krafist þess að ákæra verði gefin út eða höfðað mál út af brotum gegn 1. og 2. mgr. 4. gr., 2. og. 3. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmælum höfundar samkvæmt 2. mgr. 31. gr. eða listflytjanda samkvæmt sama ákvæði, sbr. 5. mgr. 45. gr.
    Mál út af brotum gegn ákvæðum 53. gr. sæta saksókn eftir kröfu ráðherra.
    VIII. kafli. Gildissvið laganna.
    63. gr. Ákvæði laga þessara skulu einnig taka til bókmenntaverka og listaverka sem orðið hafa til fyrir gildistöku laganna. Sama gildir um listflutning, hljóðrit og myndrit, sbr. V. kafla laganna.
    Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki um ráðstafanir sem hafa átt sér stað eða áunnin réttindi þriðja aðila á grundvelli eldri laga. Heimil er áframhaldandi dreifing til almennings eða opinber sýning á eintökum verks eða listflutnings ef gerð eintakanna var frjáls á þeim tíma er dreifing eða sýning þeirra fór fram, þó þannig að ákvæði 24. gr. um bann við leigu og útláni á verkum haldi gildi sínu.
    Ef eintakagerð verks eða listflutnings, sem ekki nýtur verndar samkvæmt áðurgildandi lögum, er hafin fyrir gildistöku laganna eða verulegur undirbúningur slíkrar eintakagerðar er hafinn er heimilt að ljúka áætlaðri, nauðsynlegri og venjubundinni eintakagerð, þó í síðasta lagi 1. janúar árið 2000. Heimilt er að dreifa eintökum sem þannig eru gerð til almennings eða sýna þau opinberlega.
    Nú er verk eða listflutningur hluti upptöku til flutnings í útvarpi sem gerð er meðan verkið eða listflutningurinn nýtur ekki verndar eða fer fram á grundvelli heimildar í 3. mgr. og er þá heimilt að nýta slíkar upptökur til útvarpsflutnings fram til 1. janúar árið 2000. Sama á við um opinbera birtingu kvikmyndaverka.
    Ef verndartími verks eða listflutnings verður styttri á grundvelli breytts verndartíma samkvæmt lögum þessum en hann hefði verið samkvæmt áður gildandi lögum fer um verndartíma samkvæmt áður gildandi lögum. Þetta gildir þó ekki ef ákvæði 3. mgr. 44. gr. eiga við.
    Vernd gagnagrunna skv. 50. gr. sem gerðir eru á tímabilinu frá 1. janúar 1983 til gildistöku laganna helst til 1. janúar 2016.
    VIII. kafli. Gildissvið laganna.
    63. gr. Ákvæði laga þessara skulu einnig taka til bókmenntaverka og listaverka sem orðið hafa til fyrir gildistöku laganna. Sama gildir um listflutning, hljóðrit og myndrit, sbr. V. kafla laganna.
    Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki um ráðstafanir sem hafa átt sér stað eða áunnin réttindi þriðja aðila á grundvelli eldri laga. Heimil er áframhaldandi dreifing til almennings eða opinber sýning á eintökum verks eða listflutnings ef gerð eintakanna var frjáls á þeim tíma er dreifing eða sýning þeirra fór fram, þó þannig að ákvæði 24. gr. um bann við leigu og útláni á verkum haldi gildi sínu.
    Samningar listflytjanda um framsal réttinda á hljóðriti listflutnings sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013 halda gildi sínu eftir það tímamark í þeim tilvikum þegar verndartími þess telst útrunninn samkvæmt eldri reglum nema á annan veg sé mælt fyrir um í samningi.
    Að því marki sem samningar um framsal réttinda listflytjanda á hljóðriti sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013 veita listflytjanda rétt til reglulegra greiðslna er heimilt að semja um þær að nýju þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
    Ef eintakagerð verks eða listflutnings, sem ekki nýtur verndar samkvæmt áðurgildandi lögum, er hafin fyrir gildistöku laganna eða verulegur undirbúningur slíkrar eintakagerðar er hafinn er heimilt að ljúka áætlaðri, nauðsynlegri og venjubundinni eintakagerð, þó í síðasta lagi 1. janúar árið 2000. Heimilt er að dreifa eintökum sem þannig eru gerð til almennings eða sýna þau opinberlega.
    Nú er verk eða listflutningur hluti upptöku til flutnings í útvarpi sem gerð er meðan verkið eða listflutningurinn nýtur ekki verndar eða fer fram á grundvelli heimildar í 3. mgr. og er þá heimilt að nýta slíkar upptökur til útvarpsflutnings fram til 1. janúar árið 2000. Sama á við um opinbera birtingu kvikmyndaverka.
    Ef verndartími verks eða listflutnings verður styttri á grundvelli breytts verndartíma samkvæmt lögum þessum en hann hefði verið samkvæmt áður gildandi lögum fer um verndartíma samkvæmt áður gildandi lögum. Þetta gildir þó ekki ef ákvæði 3. mgr. 44. gr. eiga við.
    Vernd gagnagrunna skv. 50. gr. sem gerðir eru á tímabilinu frá 1. janúar 1983 til gildistöku laganna helst til 1. janúar 2016.


Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (lenging verndartíma hljóðrita).

    Megintilgangur lagafrumvarpsins er að leiða í íslensk lög hluta af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/EB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda. Frumvarpið er eitt af fimm frumvörpum sem gert er ráð fyrir að leggja fram samhliða um breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, á þessu þingi og er fjallað um málavexti og fjárhagsáhrif þeirra í umsögn um hvert frumvarp fyrir sig.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á höfundalögum til innleiðingar á tilskipuninni og taka þær til nokkurra þátta. Í fyrsta lagi er lagt til að útreikningur á verndartíma tónverka með texta verði samræmdur þannig að verndartími tónlistar og söngtexta verði 70 ár frá dánarári þess höfundar sem lengur lifir, hvort sem um er að ræða tónskáld eða textahöfund. Í öðru lagi er lagt til að verndartími fyrir rétt flytjenda til hljóðrita af listflutningi þeirra sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi lengist úr 50 árum í 70 ár. Samsvarandi breyting er lögð til á rétti framleiðenda hljóðrita til hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi. Framlengingu á verndartíma hljóðrita fylgir nýtt ákvæði um rétt listflytjenda til árlegrar viðbótarþóknunar á framlengdum verndartíma. Skal þessi viðbótarþóknun samsvara 20% af þeim tekjum sem framleiðandi hljóðrits hefur af því á framlengdum verndartíma. Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér nýtt ákvæði sem heimilar listflytjanda að segja upp samningi um framsal réttinda ef umsamin réttindi eru ekki nýtt í nægilegum mæli. Í fjórða lagi eru í frumvarpinu ákvæði um gildistöku sem segja til um í hvaða mæli þeim breyttu reglum sem hér eru lagðar til verði beitt um gildandi réttindi og framsalssamninga.
    Með samþykkt frumvarpsins lengist verndartími hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi um 20 ár. Að því leyti sem ríki og sveitarfélög nýta umrædd hljóðrit með þeim hætti að það leiði til greiðslu þóknunar til höfunda og rétthafa lengist tíminn sem ber að greiða fyrir afnotin í þeim mæli sem verndartími lengist. Einungis er þó um aukin útgjöld að ræða að svo miklu leyti sem ríki og sveitarfélög nýta hljóðrit sem voru gefin út eða gerð opinber fyrir meira en 50 árum og fram til þess tíma að 70 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu eða þeim tíma að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Alþjóðasamningur um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana, gerður í Róm 26. október 1961, sbr. auglýsingu nr. 2/1994 í C-deild Stjórnartíðinda.