Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 493  —  239. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um aðgang að lækningalind Bláa lónsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur reglum um aðgang psoriasissjúklinga að lækningalind Bláa lónsins verið breytt á síðustu tveimur árum? Ef svo er, í hverju felast breytingarnar?

    Svarið miðast eingöngu við þjónustu sem veitt er á grundvelli samnings milli Sjúkratrygginga Íslands og Bláa lónsins hf. Um er að ræða húðmeðferð og gistingu í tengslum við meðferð. Varðandi aðgengi að lækningalind að öðru leyti er vísað til Bláa lónsins hf.
    Opnunartími hefur ekki breyst þann tíma sem spurt er um, en þjónustan skal vera í boði sex daga vikunnar alls 32 klst. samkvæmt ákvæðum samninga. Þeim meðferðaskiptum sem bjóðast áður en færa þarf rök fyrir frekari þjónustu hefur fækkað á því tímabili sem spurt er um. Árið 2013 lækkaði viðmiðið úr 50 skiptum í 25 skipti. Var það gert til að stuðla að markvissari notkun á þjónustunni og til að halda kostnaði innan marka fjárlaga. Þá hefur gistinóttum sem Sjúkratryggingar Íslands semja um kaup á fækkað undanfarin ár vegna áherslu á að verja takmörkuðum fjármunum frekar til kaupa á meðferð.
    Á fjárlögum fyrir árið 2014 lækkuðu framlög til húðmeðferða úr 50 millj. kr. í 25 millj. kr. sem leiddi til þess að gera varð breytingar á samningi um þjónustuna. Í nýjum samningi var í fyrsta skipti heimilað að tekið væri gjald af sjúkratryggðum fyrir meðferð. Gjaldtökuheimildin var fyrst nýtt á haustdögum 2015 og er nú tekið 260 kr. gjald fyrir hverja meðferð á grundvelli reglugerðar um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við meðferð húðsjúkdóma, nr. 208/2014. Þá var í nýjum samningi tekin upp ítarlegri húðmeðferð með líkamsvafningum sem miðast við 12 meðferðarskipti áður en rökstyðja þarf frekari meðferð. Skilmerki og ábendingar fyrir húðmeðferð voru gerð ítarlegri þannig að fleiri skilyrði þarf að uppfylla til að eiga rétt á þjónustu.