Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 549  —  403. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með síðari breytingum (B-gatnagerðargjald).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Í stað „31. desember 2015“ í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 31. desember 2017.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er unnið í innanríkisráðuneytinu að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með frumvarpinu er lagt til að gildistími heimildar til álagningar og innheimtu svokallaðs B-gatnagerðargjalds, sem veitt er í 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 153/2006, verði framlengdur um tvö ár, til ársloka 2017. Er það gert í þeim tilgangi að veita þeim sveitarfélögum sem ekki hafa enn lokið framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á eldri götur aukið svigrúm til að ljúka því verkefni og fjármagna það með álagningu og innheimtu þessa gjalds. Bráðabirgðaákvæðið hefur verið í lögum frá setningu laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, og gildir það aðeins um lóðir sem var úthlutað eða veitt byggingarleyfi á fyrir 1. janúar 1997. Heimild til töku gjaldsins var framlengd við gildistöku núgildandi laga nr. 153/2006, en átti að falla úr gildi í árslok 2009. Í kjölfar efnahagshrunsins var gildistími bráðabirgðaákvæðisins framlengdur til ársloka 2012 með lögum nr. 6/2009 til að auðvelda sveitarfélögum að bregðast við áföllum vegna tekjumissis og þyngri greiðslubyrði af lánum og laga framkvæmdahraða að efnahagsástandinu. Enn var gildistími ákvæðisins framlengdur með lögum nr. 136/2012 til ársloka 2015 þar sem fram höfðu komið um það eindregnar óskir frá sveitarfélögum á landsbyggðinni sem ekki sáu fram á að geta lokið þessum gatnagerðarframkvæmdum í tíma. Ástæða þess að enn er óskað eftir framlengingu á gildistíma ákvæðisins er sú að komið hafa fram um það óskir frá sveitarfélögum sem vegna erfiðrar fjárhagsstöðu munu ekki ná að ljúka umræddum gatnagerðarframkvæmdum fyrir lok árs 2015. Eftir könnun á stöðu þessara framkvæmda hjá sveitarfélögunum er það mat Sambands íslenskra sveitarfélaga að enn þurfi að framlengja gildistímann um að minnsta kosti tvö ár til að tryggja sveitarfélögunum nægjanlegt svigrúm til að ljúka framkvæmdum. Innanríkisráðuneytið fellst á þau sjónarmið. Ráðuneytið væntir þess að sveitarfélög leggi fram áætlun um lok gatnagerðarframkvæmda samkvæmt þessu ákvæði og að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi milligöngu um að kynna ráðuneytinu þær áætlanir.



Fylgiskjal I.


Innanríkisráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími þeirrar heimildar til álagningar og innheimtu svokallaðs B-gatnagerðargjalds, sem veitt er í 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 153/2006, verði framlengdur um tvö ár, til ársloka 2017. Er það gert í þeim tilgangi að veita þeim sveitarfélögum sem ekki hafa enn lokið framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á eldri götur aukið svigrúm til að ljúka því verkefni og fjármagna það með álagningu og innheimtu þessa gjalds. Samkvæmt könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga eiga sjö sveitarfélög enn ólokið framkvæmdum sem heimilt er að fjármagna með B-gatnagerðargjaldi. Þau eru Akraneskaupstaður, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Norðurþing, Seyðisfjarðarkaupstaður, Strandabyggð og Vesturbyggð. Samtals eiga þessi sveitarfélög eftir að leggja bundið slitlag á um 20 götur en framkvæmdir eru hafnar í tveimur sveitarfélaganna. Þrjú sveitarfélög telja það vera raunhæft að ljúka framkvæmdum á árinu 2016 en fjögur telja það ekki raunhæft. Samkvæmt upplýsingum frá sambandinu má áætla að kostnaður við þessar framkvæmdir geti í heild numið á bilinu 150–200 m.kr. Ráðuneytið væntir þess að sveitarfélög leggi fram áætlun um lok gatnagerðarframkvæmda samkvæmt þessu ákvæði og að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi milligöngu um að kynna ráðuneytinu þær áætlanir. Þessi niðurstaða hefur verið borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við hana.



Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með síðari breytingum (B-gatnagerðargjald).

    Frumvarpi þessu er ætlað að auka svigrúm þeirra sveitarfélaga sem hafa átt við fjárhagslega örðugleika að etja og þurft að skera niður í rekstri sínum og ekki haft fjármuni til að ljúka gatnagerðarframkvæmdum. Er hér um að ræða álagningu og innheimtu svokallaðs B-gatnagerðargjalds á grundvelli eldri laga nr. 51/1974, en með bráðabirgðaákvæði í gildandi lögum hefur sveitarfélögum verið veitt heimild til að nýta nefnd ákvæði eldri laga.
    Samkvæmt fyrirliggjandi kostnaðarmati innanríkisráðuneytis er gert ráð fyrir að þau sveitarfélög sem geti nýtt sér umrædda heimild og innheimt til áramóta yfirstandandi árs samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu verði af um 150–200 m.kr. tekjum komi ekki til framangreindrar lagabreytingar.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á fjárhag ríkissjóðs.