Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 552  —  406. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988,
með síðari breytingum (útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björt Ólafsdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Við 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er útleiga veiðiréttar skattskyld, svo og sala veiðileyfa þegar um er að ræða fast gjald, óháð veiðifeng.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Til ársloka 2017 skal virðisaukaskattur af útleigu veiðiréttar og sölu veiðileyfa þegar um er að ræða fast gjald, óháð veiðifeng, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr., vera 11%.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2016.

Greinargerð.

    Lagt er til að virðisaukaskattsskyld verði útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa sem ekki er bundin aflamagni á þann hátt að líta verði á hana sem virðisaukaskattsskylda vörusölu. Skatthlutfall verður fyrstu 18 mánuðina eftir gildistöku samkvæmt neðra þrepi 2. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt. Þar eftir verður það samkvæmt efra þrepi 1. mgr. 14. gr. laganna. Með því verður undanþágan sem stangveiði hefur notið frá því að greiða virðisaukaskatt afnumin.
    Tekjurnar af sölu lax- og silungsveiðileyfa eru áætlaðir tæplega 2 milljarðar kr. Ætla má að niðurfelling undanþágunnar geti numið rúmum milljarði króna í tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin muni hafa veruleg áhrif á skattstofninn.