Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 628  —  265. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um brottfall laga um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Veru Sveinbjörnsdóttur frá innanríkisráðuneyti og Björn Geirsson og Þorleif Jónasson frá Póst- og fjarskiptastofnun. Þá bárust nefndinni þrjár umsagnir um málið frá IMC Ísland ehf., Nova ehf. og Póst- og fjarskiptastofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að lög um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005, falli brott. Í lögunum er kveðið á um úthlutun ákveðinna tíðna til starfrækslu farsímaneta, um kvaðir um lágmarksútbreiðslu, um tíðnigjald og útboð til að fá úthlutað tíðnum. Lögin einskorðast við þriðju kynslóð farsíma og því eru tíðnir sem mælt er fyrir um í lögunum fráteknar fyrir þá tækni. Síðan lögin voru sett hefur orðið mikil framþróun í farsímatækni og fjórðu kynslóðar farsímatækni orðin meira áberandi. Tilgangur og markmið frumvarpsins með brottfalli laga um þriðju kynslóð farsíma er að gera tíðnisviðið tæknilega hlutlaust eins og það er á EES- svæðinu, og mæta þannig alþjóðlegum skuldbindingum og þörfum markaðarins. Með því að gera tíðnisviðið tæknilega hlutlaust má nota ólíka farsímatækni, 2G, 3G eða 4G, yfir sama sendinn séu sömu tíðnibönd notuð. Með brottfalli laganna munu almenn ákvæði laga um fjarskipti, nr. 81/2003, og ákvæði reglugerðar nr. 1047/2011, um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum, gilda um úthlutun þeirra tíðna sem nú falla undir lög nr. 8/2005, sem felur m.a. í sér að hægt verður að notast við uppboð í stað útboðs þegar tíðnum er ráðstafað og ekki verður þörf á kvöðum um lágmarksútbreiðslu sem þegar hefur verið náð.
    Í athugasemdum við frumvarpið er ítarlega fjallað um áhrif laga nr. 8/2005 og hvaða áhrif það muni hafa að fella þau úr gildi. Almenn sátt er um efni frumvarpsins og í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að við samráð Póst- og fjarskiptastofnunar um framtíðarnýtingu tíðnisviða fyrir næstu kynslóða farnetsþjónustu, þ.m.t. 2100 MHz tíðni sem fellur undir lög nr. 8/2005, kom fram að allir hagsmunaaðilar voru sammála um að ekkert mælti á móti því að fella lögin úr gildi og að flestir hagsmunaaðilar mundu sækja um lausar tíðnir á 2100 MHz sviðinu.
    Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að tíðniheimildir sem gefnar hafa verið út á grundvelli laganna haldi gildi sínu til loka gildistíma heimildanna eða til 30. mars 2022. Þannig munu skilmálar og kvaðir sem felast í heimildunum halda gildi sínum þann tíma, m.a. kvaðir um útbreiðslu þjónustu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgir Ármannsson og Ásta Guðrún Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. desember 2015.


Höskuldur Þórhallsson,
form.
Katrín Júlíusdóttir,
frsm.
Haraldur Einarsson.
Elín Hirst. Svandís Svavarsdóttir. Róbert Marshall.
Vilhjálmur Árnason.