Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 734  —  415. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um aðgerðir í loftslagsmálum.


     1.      Hvernig verður sóknaráætlun í loftslagsmálum fylgt eftir?
    Í kynningu á sóknaráætlun var greint frá því að settir yrðu ábyrgðarmenn fyrir verkefnin sextán sem þar er að finna og að óskað yrði eftir framvinduskýrslu um hvert verkefni árið 2016. Beðið var með frekari vinnu við skipulagningu eftirfylgni þar til fjármögnun verkefna lægi fyrir. Hún liggur nú fyrir og verður gengið frá ábyrgð og útfærslu flestra eða allra verkefna í áætluninni í janúarmánuði. Ráðuneytið mun síðan óska eftir stuttri framvinduskýrslu síðar á árinu. Ráðuneytið mun hafa eftirfylgni með verkefnunum til að tryggja að þau nái tilætluðum árangri og að fjármunir séu nýttir sem best.

     2.      Hvernig er áformað að sóknaráætlun í loftslagsmálum og gildandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum spili saman?
    Ekki er gert ráð fyrir að sóknaráætlunin komi í staðinn fyrir aðgerðaáætlun til að draga úr nettólosun frá 2010, sem er ætlað að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt Kýótó-bókuninni til 2020. Sóknaráætlun er nú sett til skemmri tíma, eða þriggja ára, og þar eru verkefni sem setja aukinn kraft í loftslagsmál. Sum þeirra styðja beint við aðgerðaáætlunina frá 2010 og munu stuðla að samdrætti í nettólosun á Íslandi. Önnur verkefni taka á þáttum sem eru utan verksviðs aðgerðaáætlunarinnar og munu efla innviði í loftslagsmálum og starf á alþjóðavísu. Þannig er m.a. í fyrsta sinn sett formlegt verkefni á laggirnar um aðlögun að loftslagsmálum. Í aðgerðaáætluninni 2010 voru ekki settir fjármunir til að framkvæma aðgerðir. Varðandi sum verkefni hefur það ekki áhrif en öðrum er erfitt að fylgja eftir án fjármagns. Verkefni í sóknaráætlun fá flest fjárveitingu til 1–3 ára og munu þau því setja stóraukinn kraft í vinnu í loftslagsmálum frá því sem var. Það skiptir ekki síður máli að í mörgum verkefnanna eru fleiri fengnir að vinnunni en áður, svo sem fulltrúar sem tengjast atvinnulífinu. Sóknaráætlun var sett fram í tengslum við Parísarfund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, þar sem náðist tímamótasamningur um loftslagsmál og er áætluninni m.a. ætlað að sýna í verki vilja íslenskra stjórnvalda til að taka þátt í alþjóðlegu átaki gegn loftslagsbreytingum og búa í haginn fyrir væntanlegar hertar kröfur um losun eftir 2020.

     3.      Hvernig er háttað samstarfi við sveitarfélögin og Samband sveitarfélaga í loftslagsmálum?
    Fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á sæti í samstarfshóp um framkvæmd aðgerðaáætlunar frá 2010, ásamt fulltrúum fimm ráðuneyta.

     4.      Hvernig er háttað samstarfi í loftslagsmálum við:
                  a.      landbúnaðinn,
                  b.      sjávarútveginn,
                  c.      ferðaþjónustuna,
                  d.      nýsköpunarfyrirtæki,
                  e.      aðra aðila?
    Unnið er að styrkingu stjórnsýslu á sviði loftslagsmála en loftslagsmál snerta flestar atvinnugreinar og fleiri þætti, svo sem samgöngur og landnotkun. Ráðuneytið hefur kallað til sín fulltrúa frá félagasamtökum og atvinnulífi við gerð stefnumörkunar og áætlana, m.a. stefnumörkunarinnar frá 2007, aðgerðaáætlunar um minnkun nettólosunar frá 2010 og tilkynningar um landsmarkmið eftir 2020, sem send var til skrifstofu samningsins í júní 2015. Þá hefur ráðuneytið reglubundið samráð við Samtök atvinnulífsins og fulltrúa frá stóriðju og flugrekstri um framkvæmd laga um evrópskt viðskiptakerfi (ETS).
    Sóknaráætlun í loftslagsmálum er m.a. ætlað að efla samstarf við atvinnulífið og efla aðkomu þess að raunhæfum verkefnum til að draga úr losun. Tvö verkefni verða sett á fót um gerð vegvísa um minnkun losunar, annars vegar í landbúnaði en hins vegar í sjávarútvegi. Verkefnið um sjávarútveg verður unnið á vegum Hafsins – öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, þar sem fulltrúar frá sjávarútvegi eiga m.a. sæti; drög að slíku verkefni liggja fyrir. Vegvísir um minnkun losunar í landbúnaði er kominn skemmra á veg, en hann verður unninn á vegum stjórnvalda og Bændasamtakanna.
    Ekki hefur verið neitt formlegt samstarf við samtök eða aðila í ferðaþjónustu í loftslagsmálum til þessa. Rætt hefur verið óformlega við nýsköpunarfyrirtæki, sem vinna saman innan Samtaka iðnaðarins undir heitinu CleanTech Iceland, en þar starfa mörg fyrirtæki á sviði loftslagsvænnar tækni.

     5.      Hvert er hlutverk hverrar og einnar stofnunar sem heyrir undir ráðuneytið í loftslagsmálum?
    Fjórar stofnanir hafa lögbundin verkefni í loftslagsmálum samkvæmt lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál: Umhverfisstofnun, Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins og Úrvinnslusjóður. Að auki hefur ráðuneytið falið Veðurstofu Íslands ákveðin verkefni á sviði loftslagsmála með formlegum hætti. Segja má líka að allar stofnanir ráðuneytisins komi að einhverju leyti að loftslagsmálum, þar sem þau ná m.a. til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Hér á eftir verður fjallað sérstaklega um verkefni Umhverfisstofnunar – sem er meginstofnun ráðuneytisins varðandi framkvæmd laga um loftslagsmál og framkvæmd á skyldum Íslands samkvæmt loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og EES-samningnum – og síðan stuttlega um verkefni annarra stofnana. Hér er ekki gefið tæmandi yfirlit yfir allt starf þeirra sem tengist loftslagsmálum, heldur einungis nefnd nokkur helstu atriði.
    Umhverfisstofnun fer með framkvæmd laga nr. 70/2012, um loftslagsmál, og tekur stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum. Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir og landsstjórnandi vegna skráningarkerfis íslenska ríkisins, sem heldur utan um losunarheimildir. Stofnunin hefur umsjón með losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði og flugi, það er losun frá flugi bæði innlendra og erlendra flugrekenda sem Ísland er umsjónarríki fyrir, nú eru það alls 240 flugrekendur. Einnig hefur stofnunin umsjón með reikningum skráningarkerfisins sem eru í eigu ríkisins og einkaaðila sem lúta lögsögu íslenska ríkisins. Umhverfisstofnun heldur bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á því sviði, vegna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, Kýótó-bókunarinnar og EES-samningsins, og sér einnig um uppgjör losunarheimilda vegna þess. Þetta bókhald er mjög umfangsmikið og krefst vöktunar og innleggs frá fjölda stofnana og fyrirtækja. Árlega er skilað inn tölum og samsvarandi skýrslu til loftslagssamningsins. Öflugra eftirlit er af hálfu samningsins með þessu bókhaldi en með nokkrum öðrum sambærilegum skuldbindingum á sviði umhverfismála. Skýrslur Íslands eru teknar út árlega og hingað koma sérstakar úttektarnefndir reglulega á vegum samningsins til að fara yfir bókhaldið og leggja til umbætur. Starfsmenn Umhverfisstofnunar eru einnig fulltrúar Íslands í margvíslegu norrænu, evrópsku og alþjóðlegu samstarfi í loftslagsmálum.

Verkefni stofnana ráðuneytisins á sviði loftslagsmála.

Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, vinnur að verkefnum og rannsóknum á sviði náttúrufars og orkumála. Starf ÍSOR að jarðhita skiptir máli hvað loftslagsmál varðar, þar sem jarðhiti er loftslagsvænn orkugjafi með mikla möguleika á heimsvísu.
Landgræðsla ríkisins Landgræðsla ríkisins vinnur að stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar, endurheimt landgæða og gróðurvernd. Auk bættra landgæða er með þessum aðgerðum bundið kolefni í jarðvegi og gróðri og dregið úr styrk kolefnis í andrúmslofti. Binding kolefnis í jarðvegi skiptir mjög miklu máli þar sem um langtímabindingu er að ræða. Kolefnisbinding með landgræðslu er m.a. viðurkennd mótvægisaðgerð í Kýótó-bókuninni. Landgræðsla ríkisins hefur lögbundið hlutverk varðandi bókhald um losun og kolefnisbindingu gagnvart Kýótó-bókuninni og ber að skila árlega gögnum þar um til Umhverfisstofnunar.
Landmælingar Íslands Landmælingar Íslands reka hæðar- og hnitakerfi landsins sem eru undirstaða vöktunar á náttúru og náttúruvá á Íslandi. Auk þess kortleggur og vaktar stofnunin breytingar á yfirborði lands, svo sem gróðurfari, jöklum og sjávarstöðu með notkun fjarkönnunargagna og landmælinga. Stofunin er aðaltengiliður íslenskra stjórnvalda við Copernicus-áætlun ESB sem m.a. sér um vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga með notkun gervitungla og fjarkönnunartækni.
Mannvirkjastofnun Bætt orkunýtni í byggingum er stórmál á heimsvísu, þar sem orka til hitunar eða kælingar veldur stórum hluta losunar. Þetta skiptir minna máli hér á landi, þar sem húshitun er með jarðhita víðast hvar, en engu að síður þarf að huga að loftslagsþættinum við hönnun og rekstur mannvirkja.
Náttúrufræðistofnun Íslands Náttúrufræðistofnun Íslands er lykilstofnun á sviði vöktunar á náttúru Íslands og stundar rannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði. Eðli málsins samkvæmt hafa loftslagsbreytingar miklar breytingar í för með sér á náttúru Íslands og hafsins í kring. Náttúrufræðistofnun vaktar m.a. breytingar á lífríkinu og hefur hugað sérstaklega að áhrifum loftslags í þeim efnum. M.a. hefur stofnunin tekið þátt í alþjóðlega vöktunarnetinu GLORIA, þar sem fylgst er með áhrifum hlýnunar við mismunandi loftslagsskilyrði í mismunandi heimshlutum. Stofnunin hefur komið að gerð vísindaskýrslna sem ráðuneytið hefur látið vinna um afleiðingar loftslagsbreytinga.
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn Náttúrurannsóknastöðin vaktar lífríki Mývatns og Laxár, sem er viðkvæmt fyrir hvers kyns breytingum, m.a. á hitastigi og loftslagi.
Skipulagsstofnun Skipulagsstofnun er ráðherra til ráðgjafar og annast eftirlit með framkvæmd skipulagslaga, laga um umhverfismat áætlana og laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Skipulagsgerð sveitarfélaga og umhverfismat á áætlunum og framkvæmdum er vettvangur til að takast á við loftslagsmál, bæði til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda og aðlagast breytingum. Í skipulagi er mörkuð stefna um m.a. þéttleika byggðar, samgönguinnviði, skógrækt, landgræðslu og votlendi, sem hefur áhrif á losun. Þá þarf í skipulagi að taka ákvarðanir um nýja byggð og innviði með tilliti m.a. til hækkandi sjávarstöðu og flóðahættu. Í tillögu að landsskipulagsstefnu er fjallað um þessi efni. Þá skal fjallað um loftslagsbreytingar við umhverfismat áætlana og framkvæmda.
Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt Skógrækt ríkisins hefur lögbundið hlutverk varðandi bókhald um losun og kolefnisbindingu og skilar upplýsingum árlega um það til Umhverfisstofnunar. Skógræktin vinnur að vernd birkiskóga, nýskógrækt og umsjón með skógum, sem fellur undir bókhaldskröfur Kýótó- bókunarinnar og stuðlar að minnkun losunar og aukinni upptöku kolefnis úr andrúmslofti. Landshlutaverkefni í skógrækt stuðla einnig að kolefnisbindingu með sínu starfi. Ráðuneytið stefnir að því að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefnin í eina stofnun, sem væri enn betur í stakk búin til að vinna að skógrækt í þágu loftslagsmarkmiða.
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar Stofnunin stundar rannsóknir á norðurslóðum og tekur þátt í alþjóðasamstarfi á því sviði. Hlýnun á Norðurslóðum er um tvöfalt meiri en að meðaltali á heimsvísu og hefur mikil áhrif á náttúrufar og samfélag. Stofnunin hefur m.a. ritstýrt sérstökum kafla um heimskautsvæðin í skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um áhrif loftslagsbreytinga, sem kom út 2014, og verið í forsvari fyrir vinnu við þróunarskýrslur Norðurslóða (2004 og 2014) þar sem m.a. er fjallað um áhrif veðurfarsbreytinga á mannlíf og samfélag.
Úrvinnslusjóður Úrvinnslusjóður hefur sem lögbundið hlutverk að skila ákveðnum upplýsingum til Umhverfisstofnunar vegna losunarbókhalds. Um 5% losunar frá Íslandi verður til vegna meðferðar úrgangs og betri flokkun og endurnýting úrgangs dregur úr losun.
Vatnajökulsþjóðgarður Vatnajökulsþjóðgarður hefur innan sinna marka stærsta jökul Íslands, sem hefur hopað á undanförnum árum vegna hlýnunar eins og aðrir jöklar á Íslandi. Skriðjöklar úr Vatnajökli eru sýnilegir vísar um áhrif loftslagsbreytinga og hafa sem slíkir mikið vísindalegt gildi og fræðslugildi. Eitt verkefna í sóknaráætlun miðar að því að efla vöktun á búskap jökla og miðlun á upplýsingum til almennings og verður unnið í samvinnu Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands.
Veðurstofa Íslands Veðurstofa Íslands vaktar m.a. lofthjúpinn, vatnafar og afkomu jökla, þar sem áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum koma hvað skýrast fram. Mikið af þekkingu á veðurfarsbreytingum á síðustu öldum kemur frá veðurmælikerfum stofnunarinnar og er þetta gagnasafn grundvöllur skilnings á framtíðarbreytingum á loftslagi. Á Veðurstofunni hefur lengi verið unnið að rannsóknum á sviði loftslagsbreytinga og á áhrifum þeirra á vatnafar og jökla og eru nokkur verkefni af því tagi í gangi. Ráðuneytið fól Veðurstofunni fyrir nokkrum árum að vera tengiliður Íslands við vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Ráðuneytið hefur einnig falið Veðurstofunni að hafa forystu um gerð vísindaskýrslna um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og er gert ráð fyrir að 3. skýrslan af þessu tagi komi út nú á árinu 2016. Í sóknaráætlun í loftslagsmálum er gert ráð fyrir að Veðurstofan stýri verkefni sem snýr að mati á aðlögunarþörf íslensks samfélags að væntanlegum loftslagsbreytingum.

     6.      Hvernig er háttað skipulegu samstarfi stofnana sem heyra undir ráðuneytið hvað loftslagsmál varðar?
    Umhverfisstofnun hefur samkvæmt lögum samstarf við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og Úrvinnslusjóð vegna loftslagsbókhalds, auk stofnana sem heyra undir önnur ráðuneyti. Veðurstofan hefur samstarf við Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun og eftir atvikum aðrar stofnanir við gerð vísindaskýrslna um afleiðingar loftslagsbreytinga.

     7.      Hvernig er háttað samstarfi ráðuneytisins um loftslagsmál við samgönguyfirvöld, annars vegar innanríkisráðuneyti og hins vegar Samgöngustofu?

    Innanríkisráðuneytið á fulltrúa í samstarfshópi um minnkun nettólosunar gróðurhúsalofttegunda og í samninganefnd Íslands í loftslagsmálum. Samgöngustofa ber lögbundnar skyldur til að skila upplýsingum til Umhverfisstofnunar vegna losunarbókhalds.

     8.      Hvernig verður háttað vinnu við að útfæra losunarmarkmið Íslands gagnvart sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins?

    Gengið var frá tvíhliða samningi Íslands við ESB og aðildarríki þess um aðild Íslands að sameiginlegu markmiði 29 ríkja á 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar (2013–2020) vorið 2015 og þar liggur fyrir að setja þarf upp samráðsnefnd Íslands og ESB til að sjá um framkvæmd samningsins. Ísland hefur einnig, líkt og Noregur, lýst yfir vilja til að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um losun til 2030. ESB hefur tekið vel í þá málaleitan í bréfi, en ekki hefur verið rætt um hvernig málið verður rætt áfram og hvaða form verður á því. Það mun væntanlega skýrast á næstu vikum, þegar ríki taka til við að skipuleggja verkefni sem tengjast eftirfylgni Parísarsamkomulagsins.