Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 749  —  466. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2015.

1. Inngangur.
    Mótun sameiginlegrar vestnorrænnar stefnu um málefni norðurslóða var efst á baugi á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2015. Einnig var aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa að málefnum norðurslóða ofarlega á dagskrá. Þemaráðstefna ráðsins var haldin í janúarlok í Aasiaat á Grænlandi og bar titilinn „Sameiginleg stefna Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum“. Í kjölfarið vann sérstök nefnd ráðsins um málefni norðurslóða, skipuð þingmönnum ráðsins, úr niðurstöðum ráðstefnunnar með það að markmiði að draga fram á hvaða sviðum vestnorrænu löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi norðurskautsmál. Úr niðurstöðum nefndarinnar voru unnar þrjár ályktanir sem ársfundur ráðsins samþykkti og sendi áfram til þjóðþinga landanna þriggja til samþykktar haustið 2015. Um er að ræða ályktanir um að styrkja vestnorrænt samstarf um sjávarútvegsmál, greina sameiginlegan ávinning af vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði og greina möguleika þess að móta sameiginlega langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur- Norðurlöndum. Ályktanirnar voru lagðar fram sem þingsályktunartillögur á Alþingi í upphafi 145. löggjafarþings. Ársfundur ráðsins samþykkti jafnframt fjórar yfirlýsingar. Í þeirri fyrstu er lýst yfir stuðningi við rétt Færeyinga til grindhvalaveiða og réttur vestnorrænu landanna til að nýta allar lifandi sjávarauðlindir hafsins á sjálfbæran hátt undirstrikaður. Í annarri yfirlýsingunni eru menningarmálaráðuneyti landanna hvött til að vinna með sveitarfélögum innan lands að því að skipuleggja árlega vestnorrænan dag á landsbyggðinni. Í þriðju yfirlýsingunni er hvatt til stofnunar svokallaðra eftirskóla (d. efterskole) í vestnorrænu löndunum þar sem ungt fólk frá löndunum þremur getur komið saman og kynnst menningu hvert annars. Loks er í fjórðu yfirlýsingunni lýst yfir stuðningi við stofnun vestnorræns ungmennaráðs sem er nú í undirbúningi.
    Samhliða ársfundi var haldið upp á 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins í Runavík og Þórshöfn. Á afmælishátíð ráðsins í Runavík var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdur heiðursverðlaunum ráðsins sem þar voru veitt í fyrsta sinn. Verðlaunin hlaut forsetinn fyrir að leggja áherslu á sterkari stöðu vestnorræna svæðisins á norðurslóðum, hvetja Vestnorræna ráðið til að auka sýnileika sinn alþjóðlega og vekja athygli á vestnorræna svæðinu í samræðum sínum við leiðtoga annarra ríkja, viðskiptalífið og fræðimenn. Afmælisfund ráðsins í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn ávörpuðu m.a. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, Kim Kielsen, formaður heimastjórnar Grænlands, og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Íslandsdeildar og varaformaður Vestnorræna ráðsins.
    Fyrir hönd Vestnorræna ráðsins tók formaður Íslandsdeildar þess, Unnur Brá Konráðsdóttir, þátt í ráðstefnu Arctic Circle um hafnir og siglingaleiðir sem haldin var í Alaska í ágúst 2015 og ráðstefnu um orkumál á norðurslóðum sem einnig fór fram í Alaska í september. Þá stóð Vestnorræna ráðið fyrir málstofu um lýðræði á norðurslóðum á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu í október 2015, ásamt því að taka þátt í málstofum um loftslagsbreytingar annars vegar og vestnorræna þróun á norðurslóðum hins vegar. Ráðið hélt jafnframt tvo hádegisfundi, annars vegar með þeim þingmönnum sem sóttu ráðstefnuna og hins vegar með fulltrúum úr viðskiptalífinu á Vestur-Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.
    Forsætisnefnd ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, átti sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Brussel í mars. Bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum og málefni norðurslóða voru til umræðu. Þá tók forsætisnefndin þátt í 67. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í október þar sem hún fundaði með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum og samstarfsráðherrum. Til umræðu á fundunum var m.a. aukin áhersla Vestnorræna ráðsins á málefni norðurslóða, brottflutningur kvenna af vestnorræna svæðinu, innflutningur matvæla til eigin nota á milli vestnorrænu landanna og menningarsamstarf landanna þriggja.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í höfuðstað Grænlands, Nuuk, 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á ársfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu og ársfundar. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formanni landsdeildar hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Auk þess getur ráðið skipað vinnunefndir um tiltekin mál.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum ráðsins með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna sem samþykkt eru á ársfundi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt. Jafnframt vinnur Vestnorræna ráðið að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi.
    Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á að formgera slíkt samstarf. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda og árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Síðarnefndi samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt á fundum hvors annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins. Stefnt er að áframhaldandi ráðstefnuhaldi um sameiginleg hagsmunamál vestnorrænu landanna og Norðurlandanna í framtíðinni og hafa ráðin sammælst um að næsta ráðstefna verði á árinu 2015 eða 2016 og fjalli um málefni norðurslóða. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og sótti um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu árið 2014.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Á fyrri hluta árs 2015 voru aðalmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Páll Valur Björnsson, þingflokki Bjartrar framtíðar, og Páll Jóhann Pálsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Framsóknarflokks, Haraldur Einarsson, þingflokki Framsóknarflokks, Svandís Svavarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Óttarr Proppé, þingflokki Bjartrar framtíðar, Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Á þingfundi 24. september 2015 tók Þorsteinn Sæmundsson sæti Vigdísar Hauksdóttur sem aðalmaður og Þórunn Egilsdóttir sæti Ásmundar Einars Daðasonar sem varamaður. Vilborg Ása Guðjónsdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Unnur Brá Konráðsdóttir, tók sem fyrr segir þátt í ráðstefnu Arctic Circle um hafnir og siglingaleiðir í Anchorage í Alaska 23.–25. ágúst 2015 fyrir hönd Vestnorræna ráðsins. Á meðan á ráðstefnunni stóð sat hún, ásamt forseta Íslands, viðskiptafundi m.a. með Bill Walker, ríkisstjóra Alaska, Fran Ulmer, ráðgjafa utanríkisráðherra Bandaríkjanna um málefni norðurslóða, og Nils Andreassen, forstöðumanni Institute of the North. Á síðastnefnda fundinum var Unni Brá boðið að taka þátt í ráðstefnunni Arctic Energy Summit í Fairbanks í Alaska 27. september til 1. október 2015 til að fjalla um starf Vestnorræna ráðsins. Í Fairbanks hélt Unnur erindi og tók þátt í pallborði í umræðu sem bar yfirskriftina „Sjálfbær þróun og svæðisbundin áætlunargerð á sviði orkumála“. Hún fjallaði um starf og stefnu Vestnorræna ráðsins, þar á meðal um sjálfbæra þróun á vestnorræna svæðinu. Samhliða ráðstefnunni tók hún þátt í viðskiptafundum með iðnaðarráðherra Íslands og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, fyrir hönd Vestnorræna ráðsins. Unnur Brá og Páll Valur Björnsson tóku virkan þátt í fjórðu þingmannaráðstefnu Norðlægu víddarinnar í Reykjavík 10.–11. maí 2015. Unnur Brá var fundarstjóri í málstofu um þróun stefnu Norðlægu víddarinnar og formaður nefndar fulltrúa aðildarríkja og áheyrnaraðila um ráðstefnuyfirlýsingu fundarsins. Páll Valur tók þátt í pallborðsumræðum í málstofu um jafnrétti og félagslega velferð í norðri.
    Á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu 16.–18. október 2015 stóð Vestnorræna ráðið fyrir málstofu um lýðræði á norðurslóðum, eins og áður hefur komið fram, ásamt því að taka þátt í málstofum um loftslagsbreytingar annars vegar og vestnorræna þróun á norðurslóðum hins vegar. Þá stóð ráðið fyrir tveimur hádegisfundum, annars vegar með þeim þingmönnum sem sóttu ráðstefnuna og hins vegar með fulltrúum úr viðskiptalífinu á Vestur-Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Formaður Íslandsdeildar, Unnur Brá Konráðsdóttir, leiddi þátttöku Vestnorræna ráðsins í ráðstefnunni. Fyrirlesarar á málstofu ráðsins um lýðræði á norðurslóðum voru Unnur Brá Konráðsdóttir, Kuupik Kleist, fyrrum forsætisráðherra Grænlands, og Dalee Sambo Dorough, lektor við Alaska-háskóla í Bandaríkjunum. Í erindi sínu sagði Unnur Brá það skyldu þjóðkjörinna fulltrúa norðurslóðaríkja að vernda rétt íbúa svæðisins til að hafa áhrif á þróun mála á norðurslóðum. Alþjóðastofnanir, fyrirtæki og embættismenn ættu ekki einir að vísa veginn, heldur þjóðkjörnir fulltrúar svæðisins. Til viðbótar við að skiptast á skoðunum og vitneskju um málefni svæðisins gætu þingmenn haft bein áhrif á ákvarðanatöku framkvæmdarvaldsins um málefni norðurslóða eins og starf Vestnorræna ráðsins sannaði. Nú þegar ríkisstjórnir væru ekki einungis að missa forræði í hnattvæddum heimi heldur einnig að deila valdinu með fjölda aðila væri hlutverk þjóðþinga mjög þýðingarmikið.
    Markmið hádegisfundar þeirra þingmanna sem sóttu Arctic Circle ráðstefnuna í Hörpu var að auka samstarf þingmanna um málefni norðurslóða og hvetja þjóðkjörna fulltrúa til að beita sér fyrir aukinni umræðu um hið mikilvæga hlutverk þjóðþinga þegar kemur að stefnumótun á svæðinu. Fundinn sóttu þingmenn frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Bandaríkjunum, Nunavut í Kanada og Danmörku. Markmið hádegisfundar viðskiptalífsins var að efla tengsl milli fyrirtækja á Vestur-Norðurlöndum og kynna starf Vestnorræna ráðsins. Fulltrúar frá Bandaríkjunum sem höfðu áhuga á að kynna sér viðskiptalíf Vestur-Norðurlanda sóttu einnig fundinn.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2015.
    Þemaráðstefna ársins var haldin í Aasiaat á Grænlandi um mánaðamótin janúar/febrúar og ársfundurinn í Runavík í Færeyjum um miðjan ágúst. Ráðið fagnaði 30 ára afmæli á árinu og hélt af því tilefni afmælishátíð samhliða ársfundi. Forsætisnefnd ráðsins kom þrisvar saman á árinu auk þess sem hún átti fund með Evrópuþinginu í Brussel í mars og fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs, vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum og samstarfsráðherrum Norðurlanda í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í október. Þá fundaði sérstök nefnd ráðsins um sameiginlega vestnorræna stefnu á norðurslóðum í mars og maí.

Þemaráðstefna í Aasiaat á Grænlandi 31. janúar –1. febrúar 2015.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um sameiginlega stefnu Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum var haldin á Sjómannaheimilinu í bænum Aasiaat á Grænlandi 31. janúar – 1. febrúar 2015. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson og Oddný G. Harðardóttir, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Hátt á annan tug sérfræðinga á sviði viðskipta, alþjóðastjórnmála, hagfræði, lögfræði og ferðamála tók þátt í ráðstefnunni, ásamt Jørgen Niclasen, fjármálaráðherra Færeyja, Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands, og Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar var hvernig hægt væri að auka samstarf milli landanna þriggja á norðurslóðum og þá sér í lagi möguleikinn á fríverslunarsamningi milli landanna og sérstöku vestnorrænu viðskiptaráði.
    Ráðstefnunni var skipt í þrjá meginhluta. Í fyrsta hlutanum tóku sjö sérfræðingar á mismunandi sviðum til máls. Sigríður Huld Blöndal, framkvæmdastjóri skrifstofu Arctic Circle, ræddi um möguleika Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum til lengri tíma litið út frá sjónarhorni aðila sem tilheyra ekki svæðinu. Möguleikar tengdir auðlindanýtingu, siglingaleiðum og rannsóknum voru þar efst á baugi. Þá fjallaði Sigríður um þróun Arctic Circle ráðstefnunnar og hvernig hún gæti nýst Vestur-Norðurlöndum.
    Egill Þór Níelsson, framkvæmdastjóri Kínversk-norrænu norðurslóðamiðstöðvarinnar við Heimskautastofnun Kína, fjallaði um stefnur Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum út frá vestnorrænu sjónarmiði með áherslu á samstarfsmöguleika og eins mögulega hagsmunaárekstra. Að hans mati ætti ekki að vera erfitt að koma á auknu samstarfi á sviði samgangna, vöruviðskipta, sjávarútvegs og ferðaþjónustu. Í ljósi þess hversu alþjóðleg málefni norðurslóða væru orðin teldi hann ráð að enska yrði eitt af vinnumálum Vestnorræna ráðsins.
    Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, fjallaði um áhrif fólksfjölgunar, aukinnar iðnvæðingar, aukinnar eftirspurnar eftir hrávöru og nýrra markaðssvæða á norðurslóðir. Þá ræddi hann um mikilvægi hagkvæmra flutningsneta, yfirfærslu þekkingar á milli landa, alþjóðaviðskipta og fríverslunarsamninga. Hann taldi annars vegar góð samgöngunet lykilatriði til að auka viðskipti milli vestnorrænu landanna og hins vegar vel gerða samninga svo að lagaumgjörðin væri sterk og viðskiptin þar með trygg.
    Bugge Thorbjørn Daniel, lektor í þjóðarétti við Syddansk Universitet, Danmörku, ræddi um lagalegar hliðar mögulegs vestnorræns fríverslunarsamnings. Samningurinn gæti orðið að veruleika á þrjá vegu. Grænland gæti gerst aðili að Hoyvíkursamningnum, fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja, óbreyttum, samningnum gæti verið breytt áður en Grænland gerðist aðili eða gerður yrði nýr samningur. Í öllum þremur tilvikum þyrfti að setja á fót stofnanaramma sem skilgreindi hvernig deilur um túlkun og beitingu ákvæða samningsins yrðu leystar.
    Anders Stenbakken, stjórnarmeðlimur Ferðamálasamstarfs Íslands, Færeyja og Grænlands (NATA), fjallaði um markmið samstarfsins sem snúa að því að koma vestnorrænu löndunum á framfæri, markaðssetja svæðið sameiginlega, auka gæði ferðaþjónustu á svæðinu og stuðla að þekkingarmiðlun, vöruþróun og nýsköpun á svæðinu.
    Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og stjórnarmaður í Grænlensk- íslenska viðskiptaráðinu fjallaði um starfsemi Færeysk-íslenska viðskiptaráðsins og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins. Hann sagði tækifærin til að auka viðskipti milli landanna þriggja mörg en í því sambandi væru öflugar samgöngur og góðir innviðir lykilatriði. Möguleikar væru til staðar bæði þegar kæmi að flug- og sjósamgöngum. Hann sagði að stofnun vestnorræns viðskiptaráðs yrði að vera ákvörðun þeirra fyrirtækja sem mynda tvö áðurnefndu viðskiptaráðin. Næsta skref væri að kynna hugmyndina á meðal aðildarfyrirtækja og þróa málið þaðan.
    Lars Thorstrup, framkvæmdastjóri Norræna Atlantshafssamstarfsins (NORA), fjallaði um nýtt frumkvæði norrænu ráðherranefndarinnar um byggðamál, þ.e. vestnorræna þróunaráætlun. Markmið áætlunarinnar er að auka skilvirkni í samstarfi um stefnumarkandi þróunarsvið og tryggja betri nýtingu fjármagns sem veitt er í verkefni sem fram fara á svæðinu.
    Í umræðum benti Lilja Rafney Magnúsdóttir á að ekki væru einungis tækifæri til staðar á norðurslóðum heldur einnig miklar ógnir. Í því sambandi benti hún sérstaklega á hugsanleg mengunarslys í tengslum við auknar siglingar um svæðið og spurði hvernig Vestnorræna ráðið hygðist vinna gegn slíkum ógnum sem og hvernig hægt væri að stuðla að því að fólkið sem byggi á svæðinu nyti ávaxtanna af mögulegum tækifærum en ekki einungis erlendir aðilar. Hún ræddi einnig um þátttöku kvenna í uppbyggingu atvinnulífsins á Vestur-Norðurlöndum og hvort jöfnuður ætti ekki að vera hluti af markmiðum hugsanlegs vestnorræns viðskiptaráðs. Vigdís Hauksdóttir ræddi um lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og hvernig það færi saman við kröfur um að auka hlutfall grænnar orku, þar á meðal með því að rækta bio- eldsneyti en skortur væri á ræktunarlandi í heiminum til þess. Unnur Brá Konráðsdóttir fjallaði um þátttöku Vestnorræna ráðsins á Arctic Circle ráðstefnunni og lagði til að ráðið legði meiri áherslu á réttindi fólksins sem býr á norðurslóðum á fundum erlendis. Almennt væri miklu meira fjallað um tækifærin á norðurslóðum en áhrif breytinga á svæðinu á líf fólksins sem býr þar.
    Í öðrum hluta ráðstefnunnar tóku til máls Jørgen Niclasen, fjármálaráðherra Færeyja, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands, og Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands. Niclasen ræddi um mikilvægi vestnorræns samstarfs og hvatti löndin til að nýta krafta sína til að vinna saman í stað þess að berjast hvert gegn öðru. Saman væru löndin mikilvæg og sterk. Sigurður Ingi lagði áherslu á aukið samstarf á sviði sjávarútvegs sem væri það svið sem helst sameinaði löndin þrjú. Koma þyrfti á formlegum fundum milli ráðherra og ráðuneyta til að stjórnmálin gætu skapað rammann. Svo væri það viðskiptalífið sem tæki við. Qujaukitsoq ræddi afstöðu Grænlands til vestnorræns fríverslunarsamnings og sagði m.a. að há framlög frá Danmörku og Evrópusambandinu til landsins væri eitthvað sem grænlensk stjórnvöld mundu taka tillit til í því samhengi.
    Í þriðja hluta ráðstefnunnar var fundarmönnum skipt í tvo vinnuhópa. Annar fékk það verkefni að ræða um möguleikann á vestnorrænu fríverslunarsvæði og hinn vestnorrænu viðskiptaráði. Hvað vestnorrænan fríverslunarsamning varðaði var niðurstaðan sú að þörf væri á að greina betur hvað mælti með og á móti slíkum samningi. Hvað vestnorrænt viðskiptaráð varðaði var niðurstaðan sú að viðskiptaaðilar frá löndunum þremur ættu að koma saman og meta þörfina á slíku ráði. Það var því lagt til að stofnaður yrði vinnuhópur eða nefnd sem skoðaði viðskipti landanna þriggja sín á milli og við önnur ríki og óskir og þarfir almennings og viðskiptalífsins þegar kæmi að vestnorrænu samstarfi. Í kjölfarið mundi nefndin svo kynna þingmönnum ráðsins tillögur sínar. Lagt var til að nefndin fengi nafnið „Aasiaat-nefndin“.
    Vestnorræna ráðið komst einnig að þeirri niðurstöðu að Grænland hefði ekki áhuga á að gerast aðili að Hoyvíkursamningnum í núverandi mynd þar sem hann væri of víðfeðmur. Grænland hefði frekar áhuga á að stofna tvíhliða fríverslunarsamninga við Ísland annars vegar og Færeyjar hins vegar, eða að setja á fót vestnorrænan samning á milli landanna þriggja. Á fundi forsætisnefndar ráðsins í aðdraganda þemaráðstefnu var ákveðið að framvegis yrði fundur þingmannanefndar um Hoyvíkursamninginn ekki hluti af formlegri dagskrá funda Vestnorræna ráðsins, að beiðni formanns landsdeildar Grænlands. Þingmannanefndin fundaði í kjölfar þemaráðstefnu og tók Brandur Sandoy úr landsdeild Færeyja við formennsku í nefndinni af Unni Brá Konráðsdóttur. Forsætisnefnd ráðsins fundaði einnig með ráðherrunum þremur sem sóttu þemaráðstefnuna og voru þeir sammála um að ekki væri skortur á vilja til að auka viðskipti milli landanna en þörf væri á að greina málefnið nánar og sú vinna ætti að hefjast sem fyrst. Þeir sögðust ætla að leggja niðurstöður þemaráðstefnu fyrir ríkisstjórnir sínar.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og fundur nefndar ráðsins um sameiginlega vestnorræna stefnu á norðurslóðum í Kaupmannahöfn 24.–25. mars 2015.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði í Kaupmannahöfn 24. mars 2015. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sótti fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru umræður um fund með Evrópuþinginu í Brussel tveimur dögum síðar, ársfund ráðsins og hátíðahöld í tengslum við 30 ára afmæli þess í Runavík í Færeyjum 10.–13. ágúst 2015, umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, umræður um fund nefndar ráðsins um hugsanlega sameiginlega vestnorræna stefnu á norðurslóðum daginn eftir, fundi þingmannanefndar um Hoyvíkursamninginn, fríverslunarsamning milli Íslands og Færeyja, þátttöku ráðsins í Arctic Circle ráðstefnunni og beiðni til utanríkisráðherra landanna um að settur yrði á fót vinnuhópur sem kortlegði möguleika og áskoranir mögulegs vestnorræns fríverslunarsamnings.
    Forsætisnefnd byrjaði á að ræða árlegan fund sinn með þingnefnd Evrópuþingsins sem áætlaður var tveimur dögum síðar. Helstu mál á dagskrá voru bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum og samvinna á norðurslóðum. Ákveðið var að ráðið mundi á fundinum gagnrýna harðlega þær breytingar sem kynntar hefðu verið á undanþágu Grænlendinga frá banni Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum. Þá var ákveðið að kynna fyrir Evrópuþinginu vinnu ráðsins um málefni norðurslóða, þar á meðal vinnu nýrrar nefndar ráðsins um hugsanlega sameiginlega vestnorræna stefnu á norðurslóðum, umsókn um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þátttöku í Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu.
    Framkvæmdastjóri ráðsins, Inga Dóra Markussen, kynnti drög að dagskrá ársfundar þess og hátíðahalda í tilefni af 30 ára afmæli ráðsins í Runavík 10.–13. ágúst 2015. Ákveðið var að bjóða forsætisráðherrum og forsetum þjóðþinga landanna þriggja, forseta Íslands, fyrrum framkvæmdastjórum ráðsins ásamt einum heiðursgesti og tveimur ungum stjórnmálamönnum frá hverju landi á afmælishátíðina.
    Forsætisnefnd ræddi um umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu en búist var við svari frá Norðurskautsráðinu 14. maí 2015. Ákveðið var að fylgja umsókninni eftir vikurnar þar á eftir. Þá var ákveðið að fundur nefndarinnar með Evrópuþinginu árið 2016 yrði haldinn á Grænlandi.
    Nefndin ræddi jafnframt þingmannanefnd um Hoyvíkursamninginn en Grænland hefur óskað eftir að fundir nefndarinnar verði ekki hluti af dagskrá funda ráðsins og jafnframt að framkvæmdastjóri ráðsins sinni ekki verkefnum tengdum Hoyvíkursamningnum. Unnur Brá Konráðsdóttir taldi rétt að byrja á því að skoða náið þá samninga sem í gildi væru um þingmannanefndina áður en lengra væri haldið í því sambandi og fara að nýju yfir málið á næsta fundi forsætisnefndar í Reykjavík 13. maí 2015. Þá var ákveðið að Vestnorræna ráðið tæki þátt í Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu haustið 2015 og skoðað yrði að taka þátt í ráðstefnu Arctic Circle um siglingaleiðir á norðurslóðum í Alaska í ágúst 2015. Loks ákvað nefndin að fylgja eftir beiðni til utanríkisráðherra landanna um að setja á fót vinnuhóp sem kortlegði möguleika og áskoranir mögulegs vestnorræns fríverslunarsamnings, en beiðnin var send ráðherrunum 9. mars 2015.
    Nefnd ráðsins um hugsanlega sameiginlega vestnorræna stefnu á norðurslóðum fundaði í færeyska sendiráðinu í Kaupmannahöfn 25. mars 2015 en markmið nefndarinnar er að draga fram á hvaða sviðum vestnorrænu löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi norðurskautsmál. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, og Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Niðurstaða fundarins var að vinna skyldi frekar að tillögum um vestnorrænt fríverslunarsvæði sem fæli í sér frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns, sem og tillögum um aukið samstarf landanna á sviði samgangna og innviða, sjávarútvegs og orkumála. Hvað samgöngur og innviði varðar var áhersla lögð á flug- og sjósamgöngur, siglingaleiðir, umskipunarhafnir, sameiginlegar reglur fyrir skemmtiferðaskip og styrkingu samgangna milli íbúa vestnorrænu landanna. Á sviði sjávarútvegs var áherslan á aukin viðskipti milli landanna, gerð samnings um veiðar á fleiri fisktegundum á fiskveiðistjórnarsvæðum landanna þriggja, sameiginlega markaðssetningu á sjávarútvegsafurðum, sameiginlega vestnorræna gæðastaðla, samstarf við hafrannsóknir og samstarf í tengslum við samningaviðræður við Evrópusambandið. Á sviði orkumála var áherslan lögð á útflutningsmöguleika, til að mynda á raforku í gegnum sæstreng, og rannsóknasamstarf. Loks var ákveðið að landsdeildirnar ynnu drög að ályktunum fyrir næsta fund nefndarinnar í Reykjavík 13. maí 2015, þ.e. Íslandsdeild um aukið samstarf á sviði samgangna og innviða, Grænlandsdeild um samstarf á sviði sjávarútvegs og færeyska landsdeildin um vestnorrænt fríverslunarsvæði.
    Eins og áður sagði fór fundur forsætisnefndar með þingnefnd Evrópuþingsins fram 26. mars 2015. Flugi Íslandsdeildar frá Kaupmannahöfn til Brussel var hins vegar aflýst og því forfölluðust Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, og Vilborg Ása Guðjónsdóttir, ritari.

Fundur nefndar Vestnorræna ráðsins um sameiginlega vestnorræna stefnu á norðurslóðum í Reykjavík 13. maí 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, og Páll Valur Björnsson, í fjarveru Vigdísar Hauksdóttur, varaformanns, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Markmið nefndarinnar var að draga fram á hvaða sviðum vestnorrænu löndin ættu sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi norðurskautsmál. Á fyrri fundi nefndarinnar í Kaupmannahöfn 25. mars 2015 var ákveðið að vinna frekar að tillögum um vestnorrænt fríverslunarsvæði sem og tillögum um aukið samstarf landanna á sviði samgangna og innviða, sjávarútvegs og orkumála. Ákveðið var að landsdeildirnar ynnu drög að ályktunum fyrir fund nefndarinnar í Reykjavík 13. maí, eins og áður kom fram, þ.e. Íslandsdeild um aukið samstarf á sviði samgangna og innviða, Grænlandsdeild um samstarf á sviði sjávarútvegs og færeyska landsdeildin um vestnorrænt fríverslunarsvæði. Á fundinum í Reykjavík kynntu landsdeildirnar tillögur sínar.
    Í ályktunardrögum Íslandsdeildar var lagt til að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands ynnu greiningu á möguleikanum á sameiginlegri vestnorrænni langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði. Landfræðileg lega vestnorræna svæðisins í miðju Norður-Atlantshafi, á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku, með auknum tengingum við Asíu í gegnum flutninga um og yfir norðurskautið, gerði það að verkum að flutningar skiptu sköpum fyrir efnahagslíf landanna. Til að löndin á Vestnorræna svæðinu gætu nýtt þau tækifæri sem væru fyrir hendi á ábyrgan hátt væri mikilvægt að stjórnvöld styddu við aukin umsvif á svæðinu. Samstarf á svæðinu yki samkeppnishæfi landanna þriggja í alþjóðlegu tilliti og sameiginleg stefnumótun um samgöngur og innviði gæti aukið hagsæld á vestnorræna svæðinu. Samstarfið þyrfti að taka mið af stefnumótun hvers og eins lands fyrir sig og styðja vel við hagsmuni þeirra.
    Í ályktunardrögum landsdeildar Færeyja var því beint til stjórnvalda landanna þriggja að stofna vinnuhóp viðeigandi fagaðila sem fengi það verkefni að kortleggja þann sameiginlega ávinning sem vestnorrænn fríverslunarsamningur og vestnorrænt viðskiptaráð gætu falið í sér. Vinnuhópurinn ætti a.m.k. að greina kosti og galla þess að gera vestnorrænan fríverslunarsamning, eða að öðrum kosti tvíhliða samninga milli Grænlands og Íslands annars vegar og Grænlands og Færeyja hins vegar, og að kortleggja á hvaða sviðum löndin hefðu gagnkvæman ávinning af aukinni fríverslun og hvar ekki. Þá væri einnig mjög gagnlegt ef vinnuhópurinn ætti möguleika á að kortleggja kosti og galla þess að mynda vestnorrænt fríverslunarsvæði sem fæli í sér frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns og að skoða hvernig vestnorrænu löndin gætu best nýtt landfræðilega stöðu sína pólitískt sem höfn á norðurslóðum, ásamt því að þróa framtíðarmynd þess hvernig hægt væri að styrkja samgöngunet vestnorrænu landanna. Sömuleiðis væri gagnlegt ef kortlagt yrði hvernig löndin þrjú gætu styrkt samstarf sitt á sviði sjávarútvegs, samgangna og innviða og olíu-, gas- og steinefnarannsókna.
    Í ályktunardrögum Grænlandsdeildar var því beint til stjórnvalda landanna þriggja að styrkja samstarf sitt á sviði sjávarútvegs með því að nýta styrkleika sjávarútvegssvæðis Vestur-Norðurlanda. Þá var mælt með því að löndin ynnu sameiginlega yfirlýsingu um málið sem ætti að vera tilbúin í janúar 2017. Yfirlýsingin ætti a.m.k. að líta til svæðissamstarfs við stjórnun auðlinda, sameiginlegrar markaðssetningar, hafrannsókna, umhverfismála og sjálfbærni, aðgangs að mörkuðum, þar á meðal Evrópusambandsins, markaðsþróunar og sameiginlegrar stefnu og samningsgerðar, ásamt því að kortleggja þau svæði þar sem löndin þrjú standa betur saman en ein sér.
    Það var svo landsdeildanna þriggja að vinna drögin áfram í fullbúnar ályktanir sem ræddar voru og bornar upp til samþykktar á ársfundi Vestnorræna ráðsins í Runavík í Færeyjum 10.–13. ágúst 2015.

Ársfundur í Runavík í Færeyjum 10.–13. ágúst 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Oddný G. Harðardóttir, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru málefni norðurslóða, með áherslu á sjávarútvegsmál, fríverslun, samgöngur og innviði. Samhliða ársfundi var haldið upp á 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins í Runavík og Þórshöfn.
    Á afmælishátíð ráðsins í Runavík var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdur heiðursverðlaunum ráðsins sem þar voru veitt í fyrsta sinn. Verðlaunin hlaut forsetinn fyrir að leggja áherslu á sterkari stöðu vestnorræna svæðisins á norðurslóðum, hvetja Vestnorræna ráðið til að auka sýnileika sinn alþjóðlega og vekja athygli á vestnorræna svæðinu í samræðum sínum við leiðtoga annarra ríkja, viðskiptalífið og fræðimenn.
    Afmælisfund ráðsins í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn ávörpuðu m.a. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, Kim Kielsen, formaður heimastjórnar Grænlands, og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Íslandsdeildar og varaformaður Vestnorræna ráðsins. Í ræðu sinni lýsti Ólafur Ragnar þeirri nýju stöðu sem vestnorrænu ríkin hefðu öðlast vegna aukins mikilvægis norðurslóða og vaxandi áhuga allra helstu forusturíkja heims á þátttöku í þróun nyrsta hluta jarðarinnar. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að löndin bæru gæfu til að nýta vináttu sína, gagnkvæmt traust og sameiginlega reynslu til að efla samstöðuna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði samstarf þjóðanna hafa þróast mikið á undanförnum 30 árum og áherslan væri nú á sameiginlega hagsmuni þjóðanna á norðurslóðum. Breytingar á svæðinu fælu bæði í sér möguleika og áskoranir. Einungis með því að vinna saman gætu vestnorrænu löndin nýtt möguleikana og tekist á við áskoranirnar. Kim Kielsen sagði samstarfið innan Vestnorræna ráðsins sýna hvernig löndin þrjú gætu náð lengra saman en hvert fyrir sig. Hann sæi fram á að ráðið mundi eiga sinn þátt í að auka og dýpka vestnorræna samvinnu enn frekar á næstu árum. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði öflugasta tæki Vestnorræna ráðsins vera að ályktanir þess væru lagðar beint fyrir þjóðþing landanna þriggja til samþykktar. Það væri vopn sem ráðið mætti aldrei láta af hendi. En það væri ekki nóg að hafa sterkan vilja, það yrði einnig að sjá til þess að tillögurnar kæmust til framkvæmda. Þar treystu þingmenn á vilja framkvæmdarvalds landanna þriggja. Fjögur mál mundu brenna heitast á Vestnorræna ráðinu á næstu árum, fríverslun, samgöngur, málefni hafsins og norðurslóðir. Vestnorræna ráðið legði til að ríkisstjórnir landanna þriggja ynnu að því að kortleggja kosti og galla stofnunar vestnorræns fríverslunarsvæðis, sameiginlegrar vestnorrænnar langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði, aukins samstarfs á sviði sjávarútvegs og sameiginlegrar stefnu um málefni norðurslóða. Unnur sagði enn fremur að Vestnorræna ráðið mundi halda áfram að skapa sér sess alþjóðlega, fyrst og fremst með því að vera virkur þátttakandi í Arctic Circle ráðstefnunni. Á þeim vettvangi hefði ráðið rætt og mundi halda áfram að ræða lýðræði á norðurslóðum. Það ættu ekki einungis að vera embættismenn, alþjóðastofnanir og alþjóðafyrirtæki sem vísuðu veginn, heldur fólkið sem byggi á svæðinu. Það væru þjóðkjörnir þingmenn norðurslóða sem bæru ábyrgð á að vernda réttindi íbúa svæðisins. Vestnorræna ráðið gæti verið fyrirmynd að því hvernig þjóðþing geti haft bein áhrif á ákvarðanatöku um málefni norðurslóða.
    Í kjölfar afmælishátíðarhalda setti Bill Justinussen, formaður Vestnorræna ráðsins, ársfund ráðsins í Runavík. Fyrst ávörpuðu fundinn fulltrúar Norðurlandaráðs, norska Stórþingsins, Vestnorræna sjóðsins, Norræna Atlantssamstarfsins, Norræna ungmennafélags Færeyja og Færeyjaháskóla. Í ræðu sinni sagði Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, frá áherslu formennsku Íslands í Norðurlandaráði á öryggis- og varnarmál og norðurslóðir sem í fælist m.a. að stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda. Í tilefni af tíu ára afmæli samstarfssamnings Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs bauð hann Vestnorræna ráðinu til umræðna um endurskoðun á samningnum og lagði til að fyrsti fundur yrði á meðan á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í október 2015 stæði.
    Því næst ávörpuðu fundinn vestnorrænir samstarfsráðherrar Norðurlanda, Eygló Harðardóttir fyrir Íslands hönd, Doris Jakobsen fyrir Grænlands hönd og Elisabeth Franciska, ráðgjafi í utanríkisráðuneyti Færeyja, fyrir hönd Anniku Olsen, samstarfsráðherra Færeyja, sem forfallaðist vegna veikinda. Eygló rifjaði upp vestnorræna kvennaþingið á Egilsstöðum árið 1992 og vakti upp þá hugmynd að endurvekja þingið. Doris Jakobsen sagði samning Vestnorræna ráðsins við Norðurlandaráð hafa verið mikilvæg tímamót og hvatti Vestnorræna ráðið til að nýta betur rétt sinn til að leggja fram tillögur á vettvangi Norðurlandaráðs. Fyrir hönd Anniku Olsen sagði Elisabeth að markmið Vestnorræna ráðsins ætti ekki einungis að felast í því að hafa áhrif á stefnur stjórnvalda landanna heldur einnig á viðskiptalífið. Í umræðum spurði Oddný Harðardóttir ráðherrana um vestnorrænt samstarf um leiðir til að mæta sjálfsmorðstíðni í löndunum. Eygló sagði slíkt samstarf ekki til staðar enn þá en það væri full ástæða til að hefja það. Doris sagði að Grænland hefði komið í framkvæmd forvarnaráætlun gegn sjálfsmorðum. Oddný spurði einnig hvort vestnorrænt samstarf væri um jafnréttismál á grundvelli kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Eygló sagði að íslenska fjármálaráðuneytið héldi áfram þeirri vinnu sem Oddný leiddi í sinni ráðherratíð og að Ísland og fleiri Norðurlönd gætu deilt reynslu sinni og hvatt önnur lönd á norðurslóðum til að taka upp slíka fjárlagagerð. Doris sagði að dregið hefði úr launamisrétti á Grænlandi og að það væru fleiri konur í áhrifastöðum í landinu en áður. Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði ráðherrana m.a. um hvað stjórnvöld landanna hefðu gert til þess að greina ástæður fyrir fækkun kvenna á Vestur-Norðurlöndum. Eygló sagði vandamálið einnig vera til staðar í dreifbýli í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og skoða ætti möguleika á að fá fjármagn frá norrænu ráðherranefndinni í sameiginlega rannsókn á vandanum. Doris sagðist ætla að ræða málið í heimastjórn Grænlands. Lilja spurði einnig um vestnorrænt samstarf í ferðaþjónustu. Eygló sagði að unnið væri að því að bæta samgöngur og samskipti milli landanna. Doris sagði að Grænland þyrfti fyrst og fremst að styrkja innviði í landinu til að geta aukið ferðaþjónustu.
    Samþykkt var að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði á Suðurnesjum í janúar 2016 og að þemaefnið yrði staða lýðræðis á vestnorræna svæðinu. Ársfundurinn samþykkti þrjár ályktanir sem voru sendar áfram til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar og samþykktar. Sú fyrsta beindi því til stjórnvalda landanna að stofna vinnuhóp viðeigandi fagaðila sem fengi það verkefni að kortleggja þann sameiginlega ávinning sem vestnorrænn fríverslunarsamningur og vestnorrænt viðskiptaráð gætu falið í sér. Önnur ályktun beindi því til stjórnvalda landanna að vinna greiningu á möguleikum á sameiginlegri vestnorrænni langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði. Þriðja ályktunin beindi því þá til stjórnvalda landanna að vinna sameiginlega greiningu á því hvernig löndin gætu aukið samstarf sitt á sviði sjávarútvegs. Fundurinn samþykkti einnig fjórar yfirlýsingar. Í þeirri fyrstu var lýst yfir stuðningi við rétt Færeyinga til grindhvalaveiða og réttur vestnorrænu landanna til að nýta allar lifandi sjávarauðlindir hafsins á sjálfbæran hátt undirstrikaður. Í annarri yfirlýsingunni voru menningarmálaráðuneyti landanna hvött til að vinna með sveitarfélögum innan lands að því að skipuleggja árlega vestnorrænan dag á landsbyggðinni. Í þriðju yfirlýsingunni var hvatt til stofnunar svokallaðra eftirskóla (d. efterskole) í vestnorrænu löndunum þar sem ungt fólk frá löndunum þremur gæti komið saman og kynnst menningu hvert annars. Í fjórðu yfirlýsingunni var lýst yfir stuðningi við stofnun vestnorræns ungmennaráðs sem er í undirbúningi. Loks var rætt um umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu sem lögð var inn í ágúst 2014. Framkvæmdastjóri ráðsins skýrði frá því að bréf hefði borist frá formanni æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins (e. Senior Arctic Officials) og í því hefði komið fram að ráðherraráð ráðsins hefði á fundi sínum í apríl 2015 ákveðið að fresta ákvörðunum um umsóknir um áheyrnaraðild til næsta fundar ráðsins árið 2017. Lars Emil Johansen, formaður landsdeildar Grænlands og forseti Grænlandsþings, var þá kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi.

Fundir Vestnorræna ráðsins á 67. Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík 26.–29. október 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Auk fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd fund með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum og samstarfsráðherrum.
    Auk undirbúnings fyrir framangreinda fundi voru helstu mál á dagskrá fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins þemaráðstefna og ársfundur ráðsins árið 2016. Ákveðið var að þemaráðstefnan yrði haldin dagana 28. janúar til 1. febrúar 2016 í Grindavík. Þemaefnið yrði „Lýðræði á Vestur-Norðurlöndum“ með áherslu á málefni norðurslóða. Jafnframt var ákveðið að fá fulltrúa rannsóknarstofnunarinnar Nordregio til að stýra vinnustofu samhliða þemaráðstefnunni, en stofnunin vinnur nú að rannsókn um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Ákveðið var að ársfundur ráðsins yrði haldinn í Qaqortoq á Suður-Grænlandi í lok ágúst 2016 og að samhliða yrði stefnt að því að halda sameiginlega ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs.
    Formaður Íslandsdeildar, Unnur Brá Konráðsdóttir, flutti ræðu undir liðnum almennar umræður á Norðurlandaráðsþinginu. Í máli sínu vakti hún athygli á lítilli þátttöku þjóðþinga í málefnum norðurslóða. Hún sagði það skyldu þjóðkjörinna fulltrúa norðurslóðaríkja að vernda réttindi íbúa svæðisins til að hafa áhrif á þróun mála á norðurslóðum. Nú þegar ríkisstjórnir væru ekki einungis að missa forræði í hnattvæddum heimi heldur einnig að deila valdinu með fjölda aðila væri hlutverk þjóðþinga mjög þýðingarmikið. Alþjóðastofnanir, embættismenn og fyrirtæki ættu ekki ein að vísa veginn, heldur þjóðkjörnir fulltrúar svæðisins. Mikilvægi þróunar á norðurslóðum fyrir Vestur-Norðurlönd væri ótvírætt. Því hefði ráðið lagt mikla vinnu í að kortleggja hvar hagsmunir vestnorrænu landanna lægju saman í málefnum svæðisins og hvatt ríkisstjórnir landanna til að nýta sér þá vinnu til að styrkja vestnorrænt samstarf á svæðinu. Ráðið hefði einnig verið virkt á alþjóðavettvangi varðandi málefni norðurslóða og lagt þar sérstaka áherslu á að auka samstarf þingmanna og hvetja þjóðkjörna fulltrúa til að beita sér fyrir aukinni umræðu um hið mikilvæga hlutverk þjóðþinga í stefnumótun á svæðinu. Á Arctic Circle ráðstefnunni í Reykjavík í október 2015 hefði ráðið bæði staðið fyrir málstofu um málefnið og boðið þeim þingmönnum sem sóttu ráðstefnuna til hádegisfundar til að ræða málefnið. Í starfi sínu á alþjóðavettvangi hefðu fulltrúar ráðsins tekið eftir lítilli þátttöku norrænna þjóðþinga í viðburðum tengdum málefnum norðurslóða. Þingmenn frá öðrum norðurslóðaríkjum, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi, væru hins vegar virkir þátttakendur. Ráðið hvatti þingmenn frá Norðurlöndum til að auka þátttöku sína í málefnum svæðisins. Vestnorræna ráðið stefndi á þátttöku í Arctic Circle ráðstefnum í Québec og Nuuk vorið 2016 og ynni jafnframt að því að slík ráðstefna yrði haldin í Færeyjum.
    Varaforseti Norðurlandaráðs og varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Ólína Þorvarðardóttir, stýrði fundi fulltrúa forsætisnefndar Norðurlandaráðs og forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins. Hún byrjaði fundinn á því að ræða stuttlega helstu áherslur 67. þings Norðurlandaráðs á málefni flóttamanna, umhverfismál, aukið norrænt samstarf og endurbætur á starfi Norðurlandaráðs. Unnur Brá Konráðsdóttir fjallaði um sameiginlega ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs árið 2013 og lagði til að leikurinn yrði endurtekinn á næsta ári samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins. Fyrir hönd forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins lagði hún til umræðuefnið „sjálfbær svæðisbundin þróun á norðurslóðum“, byggt á rannsókn Nordregio um málefnið. Fulltrúar Norðurlandaráðs tóku mjög vel í tillöguna og sögðust mundu leggja hana fyrir forsætisnefnd ráðsins. Því næst kynnti Unnur Brá ályktanir og yfirlýsingar ársfundar Vestnorræna ráðsins frá því í ágúst 2015. Í framhaldinu var samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs til umræðu. Fulltrúar beggja ráða lýstu yfir ánægju sinni með samninginn. Unnur Brá sagði þó að Vestnorræna ráðið væri ósátt við takmarkaðan ræðurétt fulltrúa ráðsins á Norðurlandaráðsþingi. Frá undirritun samningsins hefðu allir þrír fulltrúar ráðsins yfirleitt átt rétt á að ávarpa þingið, undir liðunum „utanríkismál“ og „almennar umræður“. Það hefði breyst í seinni tíð og á þinginu í Reykjavík hefði til að mynda aðeins einn fulltrúi rétt til að ávarpa þingið og þá einungis undir liðnum „almennar umræður“, en heildartími fyrir þann lið hefði einungis verið 30 mínútur. Hún óskaði eftir að Vestnorræna ráðið fengi það fastsett hvernig ræðurétti yrði hagað í framtíðinni og að í honum fælist þátttaka undir báðum fyrrgreindum liðum. Ólína sagði að fara yrði yfir málið í forsætisnefnd. Hún var sammála því að málefni Vestnorræna ráðsins, ekki síst hvað varðaði norðurslóðir, ættu einnig heima undir liðnum „utanríkismál“. Loks sagði Unnur Brá frá fyrirhugaðri þemaráðstefnu ráðsins í Grindavík og ársfundi á Grænlandi sem og fyrirhugaðri þátttöku Vestnorræna ráðsins í Arctic Circle ráðstefnum í Québec og Nuuk vorið 2016.
    Á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með samstarfsráðherrunum Eygló Harðardóttur, Poul Michelsen frá Færeyjum og Doris Jakobsen frá Grænlandi lagði Unnur Brá sérstaka áherslu á mikilvægi þess að þingmenn tækju ríkari þátt í umræðum og ákvarðanatöku um norðurslóðir, ekki síst þingmenn Norðurlanda. Arctic Circle væri aðalmiðstöð umræðu um málefni svæðisins og mikilvægt væri að ekki einungis fyrirtæki, embættismenn, alþjóðastofnanir og fræðimenn tækju virkan þátt heldur einnig fólkið sem byggi á svæðinu. Rætt var um ályktun ráðsins nr. 5/2011 um takmarkanir við innflutning á kjötvöru til eigin nota frá Færeyjum og Grænlandi til Íslands. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að leysa málið og ráðherrarnir sögðust mundu halda áfram að vinna að því. Rætt var um mikilvægi þess að ráðherrar tækju þátt í fundum Vestnorræna ráðsins og að ályktanir ráðsins byggðust á ákveðinni stefnu. Í því samhengi sagði Unnur Brá ráðherrunum frá vinnu ráðsins um aukið vestnorrænt samstarf um málefni norðurslóða og ályktunum ráðsins því tengdum frá ársfundinum í ágúst 2015, um samgöngur og innviði, sjávarútveg og fríverslun. Eygló Harðardóttir tók undir mikilvægi þess að ræða ekki einungis um auðlindir norðurslóða heldur hagsmuni fólksins sem býr á svæðinu. Hún sagðist sakna þess að sjá ekki Vestnorræna ráðið álykta um velferðarmál, t.d. kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi og fjölskyldumál. Doris Jakobsen ræddi um minnkandi kosningaþátttöku á Grænlandi og lagði til að málefnið yrði rætt á næstu þemaráðstefnu ráðsins um lýðræði á Vestur-Norðurlöndum.
    Á fundi forsætisnefndar með mennta- og menningarmálaráðherrunum Illuga Gunnarssyni, Rigmor Dam frá Færeyjum og Nive Olsen frá Grænlandi var rætt um ályktanir ráðsins nr. 3/2013 um brottflutning kvenna frá Vestur-Norðurlöndum og nr. 1/2012 um sameiginleg vestnorræn rithöfundanámskeið. Þá var umræða um mikilvægi þess að Norðurlandabúar geti talað saman á norrænum tungumálum. Rigmor Dam sagði brottflutning kvenna mikið vandamál í Færeyjum og ofarlega á forgangslista nýrrar ríkisstjórnar. Mikilvægast væri að gera konum betur kleift að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf. Nive Olsen sagði málefnið mikið rætt á Grænlandi. Á svæðum þar sem karlar væru í miklum meiri hluta væri áfengismisnotkun meiri en annars staðar. Illugi Gunnarsson sagði þrjú atriði mikilvægust til þess að fá fólk aftur heim í sína byggð eftir námsdvöl annars staðar, atvinnu, skóla fyrir börnin og menningarstarfsemi. Verið væri að leita lausna á vandanum á Íslandi og fjarnám hefði t.d. verið árangursríkt. Hvað sameiginleg rithöfundanámskeið varðaði, hefði Rithöfundasamband Íslands takmarkaðan áhuga á slíku en handritahöfundar væru mun áhugasamari. Ráðherrarnir voru sammála um að vert væri að skoða að skipuleggja námskeið fyrir vestnorræna kvikmynda- og leikritahandritshöfunda. Loks lagði Kári Páll Højgaard, formaður landsdeildar Færeyja, ríka áherslu á mikilvægi þess að Norðurlandabúar gætu áfram talað saman á norrænum tungumálum. Tungumálið væri það sem byndi Norðurlöndin saman. Þá væri til að mynda erfitt að auka vestnorrænt samstarf á sviði heilbrigðismála ef sjúklingar gætu ekki gert sig skiljanlega á dönsku á Íslandi.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem voru samþykktar á ársfundi í Runavík í Færeyjum 10.–13. ágúst 2015.
          Ályktun nr. 1/2015 um greiningu á sameiginlegum ávinningi af vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.
          Ályktun nr. 2/2015 um greiningu á möguleikum þess að móta sameiginlega langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.
          Ályktun nr. 3/2015 um að styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál.

Alþingi, 25. janúar 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Páll Valur Björnsson. Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson.