Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 815  —  452. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni
um kostnað heilbrigðiskerfisins af umferðarslysum.


1.      Hversu mörg sjúkrarúm eru árlega í notkun í heilbrigðiskerfinu vegna afleiðinga umferðarslysa og hvert er hlutfallið af heildarfjölda rúma?
    Innan heilbrigðisþjónustunnar er megináhersla lögð á skráningu áverka þeirra sem þangað leita vegna slysa. Til að skrá ytri orsakir slyss þarf að skrá sérstakan slysakóða í sjúkraskrárkerfi heilbrigðisstofnana. Þar sem það hefur ekki verið gert um landið allt liggja orsakir innlagna vegna slysa ekki fyrir á landsvísu. Slysadeildir Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri hafa hins vegar skráð sérstaka slysakóða.
    Á árunum 2013, 2014 og 2015 var meðallegutími vegna afleiðinga umferðarlsysa 7,3 dagar á þessum tveimur sjúkrahúsum sem samsvarar að meðaltali 2,2 rýmum á Landspítala allt árið síðastliðin þrjú ár og 0,2 rýmum á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það samsvarar 0,3% af heildarfjölda sjúkrarýma á Landspítala og 0,2% á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

2.      Hvernig er hlutfallsleg skipting sjúklinga á spítölum eftir
                  a.      afleiðingum umferðarslysa,
                  b.      afleiðingum annarra slysa,
                  c.      helstu sjúkdómum,
                  d.      öðrum ástæðum?
Svar við a-lið.

    Komur og innlagnir samtals vegna umferðarslysa samsvara 8% af komum og innlögnum á Landspítala og 1,3% af komum og innlögnum á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Komur eftir umferðarslys og hlutfall þeirra af innlögn á bráðadeild/móttöku
Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri árið 2015.

Komur án innlagna
eftir umferðarslys
Innlagnir eftir umferðarslys Hlutfall umferðarslysa
af heildarbráðakomum
Landspítali 2.377 106 8%
Sjúkrahúsið á Akureyri 197 17 1,3%
Samtals 2.574 123

Svar við b-lið.
    Komur og innlagnir samtals vegna vegna annarra slysa svara til 84% af komum og innlögnum á bráðadeild Landspítala og 22% af komum og innlögnum á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Komur og hlutfall vegna annarra slysa á bráðadeild/móttöku
LSH og SAk árið 2015.

Komur vegna
annarra slysa
Innlagnir vegna annarra slysa Hlutfall annarra slysa
af heildarbráðakomum 1
Landspítali 24.702 1.340 84%
Sjúkrahúsið á Akureyri 3.716 216 22%
Samtals 28.418 1.556

Svar við c-lið.
    Í töflunni má sjá hlutfall fimm algengustu sjúkdómaflokka sem eru ástæða innlagnar sjúklinga á öllum sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum landsins og hlutfall í hverjum flokki (þungun, barnsburður og sængurlega ekki tekin með). Tölurnar eru fyrir árið 2014.

Helstu sjúkdómaflokkar við innlögn og
hlutfall þeirra af heild árið 2014.

Sjúkdómar í blóðrásarkerfi 13,0%
Æxli 11,5%
Geð- og atferlisraskanir 10,2%
Áverki, eitrun og aðrar tilteknar afleiðingar ytri orsaka 9,7%
Sjúkdómar í meltingarfærum 8,9%
Samtals hlutfall af heildarlegum 53,3%

Svar við d-lið.
    Helsta ástæða fyrir legu sjúklinga á sjúkrahúsum eða heilbrigðisstofnunum fyrir utan sjúkdóma og slys eru bið eftir færni- og heilsumati og bið eftir varanlegu úrræði þegar það mat liggur fyrir.

3.      Hve margir eru að jafnaði á endurhæfingardeildum vegna umferðarslysa og hvert er hlutfall þeirra af heildarfjölda á endurhæfingardeildum?
    Á Landspítalanum voru alls 19 einstaklingar skráðir á endurhæfingardeild spítalans vegna afleiðinga umferðarslysa árið 2015 eða 1%. Þeir voru ýmist lagðir inn á deild eða komu í dagdeildar- eða í göngudeildarmeðferð.
    Á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa nær engir sjúklingar verið lagðir inn á endurhæfingardeild vegna umferðarslysa síðastliðin ár. Þeir sjúklingar sem lenda í alvarlegum umferðarslysum eru sendir á Landspítalann og fá yfirleitt endurhæfingu þar.
    Á Reykjalundi hafa á árabilinu 2010–2015 komið 90–100 sjúklingar á ári til endurhæfingar í kjölfar umferðarslysa. Það svarar til 10% af heildarfjölda sjúklinga sem koma til meðferðar á Reykjalundi árlega. Á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði liggja ekki fyrir upplýsingar um hlutfall sjúklinga sem koma vegna afleiðinga umferðarslysa.

4.      Hve margir fara árlega á örorkubætur vegna umferðarslysa og hvert er hlutfallið af heildarfjölda þeirra sem fara á örorkubætur?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun eru umferðarslys ekki sérstaklega skráð sem orsök fyrir örorku og því er ekki hægt að nálgast tölur um fjölda þeirra sem fara árlega á örorkubætur án þess að skoða hvert mál fyrir sig. Auk þess er það ekki þannig að allir örorkuþegar sem hafa lent í umferðarslysi séu öryrkjar vegna slyssins. Við örorkumat er færniskerðing vegna sjúkdóma eða slysa metin en ekki er alltaf hægt að greina áhrif einstakra örorkuvalda til færniskerðingarinnar. Því hefur Tryggingastofnun hvorki haldbærar tölur um fjölda þeirra sem fara á örorkubætur eingöngu vegna umferðarslysa né hlutfall þeirra af heildarfjölda örorkuþega vegna umferðarslysa.

5.      Hvað kosta umferðarslys heilbrigðiskerfið árlega?
    Velferðarráðuneytið hefur ekki tekið slíkar upplýsingar saman en benda má á tvær skýrslur um málið. Í skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2012 2 var reiknað út að kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa árið 2009 hefði verið 700 millj. kr. eða sem svarar til 930 millj. kr. á núverandi verðlagi. Í nýrri skýrslu frá 2014 3 er áætlaður heildarkostnaður á verðlagi 2013 vegna umferðarslysa 48.486 millj. kr fyrir árið 2015 ef undan eru skilin óhöpp án meiðsla. Sjúkrakostnaður er ekki skilgreindur sérstaklega í þeim tölum en ályktað er í skýrslunni að sjúkrakostnaðurinn sé líklega metinn allt of lágur í tölum Hagfræðistofnunar HÍ.
    Vísað er til umræddra skýrslna til frekari upplýsinga um þetta atriði.

6.      Hvað kostar hvert banaslys og alvarlegt slys heilbrigðiskerfið?
    Samkvæmt útreikningum í fyrrnefndri skýrslu frá 2014 á heildarkostnaði við hverja tegund slysa er kostnaðurinn 659,6 millj. kr. fyrir hvert banaslys og 86,4 millj. kr. fyrir hvert alvarlegt slys. Sjúkrakostnaði hefur ekki verið haldið aðskildum sérstaklega fyrir þessi slys.
Neðanmálsgrein: 1
1     Kostnaður við umferðarslys á Íslandi árið 2009. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C12:04, desember 2012.
Neðanmálsgrein: 2
2     Sama heimild.
Neðanmálsgrein: 3
3     Kostnaður umferðarslysa. Haraldur Sigþórsson og Vilhjálmur Hilmarsson. Rannsóknarverkefni við Háskólann í Reykjavík, maí 2014.