Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 834  —  422. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um umsóknir Albana um hæli og dvalarleyfi.


     1.      Hversu margir Albanir hafa sótt um hæli hér á landi sl. þrjú ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum og niðurstöðum mála, hjá Útlendingastofnun og æðra stjórnvaldi, þ.e. hvort umsókn um hæli var synjað eða samþykkt.

    Frá 1. janúar 2013 til og með 18. desember 2015 bárust Útlendingastofnun 166 umsóknir um hæli frá albönskum ríkisborgurum. Flestar umsóknir bárust árið 2015 en 18. desember sl. höfðu 108 einstaklingar frá Albaníu óskað eftir hæli. Árið 2014 bárust 18 umsóknir en 40 árið 2013. Í 98 tilvikum var umsókn synjað, sjö mál voru ekki tekin til efnislegrar meðferðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 16 umsóknir voru dregnar til baka á tímabilinu. Þá voru 45 umsóknir enn í vinnslu hjá stofnuninni 18. desember sl. Nánari upplýsingar um fjölda og lyktir mála eftir árum má sjá í meðfylgjandi töflu.

Umsóknir um hæli
Ár Umsóknir Synjun Veitingar Dublin Dregið til baka Í vinnslu
2015* 108 48 0 1 14 45
2014 18 16 0 1 1 0
2013 40 34 0 5 1 0
Samtals 166 98 0 7 16 45
*Til og með 18. desember.

    Á árinu 2013 bárust innanríkisráðuneytinu 35 kærur vegna synjunar á umsóknum albanskra ríkisborgara um hæli og dvalarleyfi skv. 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga. Voru kveðnir upp 29 úrskurðir þar sem staðfest var synjun um hæli og dvalarleyfi skv. 12. gr. f laga nr. 96/2002. Ein kæra var afturkölluð.
    Á árinu 2014 bárust innanríkisráðuneytinu tvær kærur vegna synjunar um hæli og dvalarleyfi skv. 12. gr. f laga nr. 96/2002. Voru kveðnir upp þrír úrskurðir þar sem staðfest var synjun um hæli og dvalarleyfi skv. 12. gr. f laga nr. 96/2002. Sjö kærur voru afturkallaðar. Eitt mál var flutt til kærunefndar útlendingamála.
    Kærunefnd útlendingamála tók til starfa 1. janúar 2015. Til 22. desember sl. hafði hún fengið til meðferðar 52 kærur vegna hælismála albanskra ríkisborgara, þar af 49 efnismeðferðarmál og þrjú Dyflinnarmál. Af 49 efnismeðferðarmálum hafa 11 kærur verið afturkallaðar og 19 lokið með úrskurði. Eftir standa 19 mál og er það elsta frá 16. október sl. Af þremur Dyflinnarmálum hafa tvær kærur verið afturkallaðar. Eitt mál er í vinnslu en það barst 30. nóvember sl.
    Öllum afgreiddum hælismálum albanskra ríkisborgara, 19 talsins, hefur lokið með staðfestingu á ákvörðun Útlendingastofnunar, þ.e. höfnun á umsókn um hæli. Beiðnum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða var einnig hafnað í öllum tilvikum.

     2.      Hversu margir Albanir hafa sótt um hæli annars staðar á Norðurlöndunum sl. þrjú ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir móttökuríkjum, árum og niðurstöðum mála, þ.e. hvort umsókn um hæli var synjað eða samþykkt.
    Í Danmörku sóttu 67 albanskir ríkisborgarar um hæli árið 2013, 61 árið 2014 og árið 2015 höfðu 77 umsóknir verið skráðar um miðjan desember. Öllum umsóknum albanskra ríkisborgara um hæli í Danmörku var hafnað þessi þrjú ár.
    Í Finnlandi sótti 51 albanskur ríkisborgari um hæli árið 2013, 109 árið 2014 og um miðjan desember höfðu 754 albanskir ríkisborgarar sótt um hæli. Flestar umsóknir bárust sumarið 2015 en þeim fór fljótlega fækkandi eftir ítrekaðar neikvæðar niðurstöður. Árið 2013 lauk einu máli með veitingu hælis, árið 2014 lauk tveimur með veitingu hælis en um miðjan desember 2015 hafði engri umsókn lokið með jákvæðri niðurstöðu.
    Í Svíþjóð sóttu 1.156 albanskir ríkisborgarar um hæli árið 2013, 1.699 árið 2014 og 2.580 höfðu sótt um hæli um miðjan desember 2015. Árið 2013 lauk 3% mála með jákvæðri niðurstöðu, eða veitingu hælis (32/1.043), árið 2014 lauk 1% mála með veitingu hælis (19/1.399) og í lok nóvember sl. hafði 1% lokið með veitingu hælis (27/2.385).
    Í Noregi óskuðu 185 albanskir ríkisborgarar eftir hæli árið 2013, 204 árið 2014 og 431 árið 2015. Árið 2013 lauk 167 umsóknum með synjun og 14 voru dregnar til baka, árið 2014 lauk 205 með synjun og átta voru dregnar til baka, árið 2015 lauk 307 með synjun og 111 voru dregnar til baka.
    Upplýsingar frá öðrum Norðurlandaþjóðum eru veittar með fyrirvara um endanlegt uppgjör fyrir árið 2015.
    
     3.      Hversu margir Albanir hafa sótt um dvalarleyfi hér sl. þrjú ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum, tegund dvalarleyfis og niðurstöðum mála, hjá Útlendingastofnun og æðra stjórnvaldi, þ.e. hvort umsókn um dvalarleyfi var synjað eða samþykkt.

    Frá 1. janúar 2013 til og með 18. desember 2015 bárust Útlendingastofnun 16 umsóknir frá albönskum ríkisborgurum um framlengingu dvalarleyfis. Í öllum tilvikum var framlenging á dvalarleyfi veitt fyrir utan tvær umsóknir sem enn voru í vinnslu í desember 2015. Sundurliðun eftir tegund dvalarleyfis og ári er í meðfylgjandi töflu. Á sama tímabili bárust 28 umsóknir um fyrsta dvalarleyfi. Þar af var dvalarleyfi veitt í 16 tilvikum, fimm dvalarleyfisumsóknum var synjað, ein umsókn var dregin til baka og í desember 2015 voru enn sex umsóknir um dvalarleyfi í vinnslu hjá stofnuninni. Oftast var um að ræða umsóknir um dvalarleyfi til aðstendanda Íslendinga en 13 slíkar umsóknir bárust stofnuninni á tímabilinu. Af þeim voru átta umsóknir samþykktar en þremur synjað. Tvær dvalarleyfisumsóknir voru enn í vinnslu í desember 2015. Nánari upplýsingar um fjölda umsókna, veitinga og synjana eftir árum er að finna í meðfylgjandi töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kærunefnd útlendingamála bárust kærur tveggja albanskra ríkisborgara vegna synjunar um dvalarleyfi árið 2015. Annarri þeirra lauk með synjun og hin er enn til meðferðar. Báðar umsóknirnar eru á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara.

     4.      Hvaða gögn, upplýsingar og sjónarmið liggja almennt til grundvallar ákvörðunum Útlendingastofnunar eða úrskurðum æðra stjórnvalds við synjun á umsóknum Albana um hæli hér á landi?

    Samkvæmt Útlendingastofnun er við úrlausn hælismála, hvort sem um er að ræða umsækjendur frá Albaníu eða frá öðrum ríkjum, annars vegar byggt á gögnum í málinu, þ.e. umsókn umsækjanda og öðrum gögnum sem hafa safnast við meðferð málsins hjá stofnuninni. Viðtal við umsækjanda er eitt mikilvægasta gagnið í því samhengi en með því gefst umsækjanda tækifæri til að greina frá aðstæðum sínum, svo sem hvaða ástæður liggi að baki flótta, og öðrum upplýsingum sem skipta máli varðandi umsóknina. Þá er umsækjanda einnig boðið að leggja fram gögn sem snerta persónulegar aðstæður og rennt geta stoðum undir frásögn hans. Að öðru leyti er samkvæmt Útlendingastofnun ekki gerð krafa um að fólk færi sönnur á frásögn sína eða persónulega hagi en aðstæður fólks sem sækir um hæli eru oft á þann hátt að ekki er auðvelt að sanna með óyggjandi hætti atvik mála. Meta verður trúverðugleika hverrar frásagnar og við það mat byggir Útlendingastofnun einkum á skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, frá árinu 2013 og aðferðafræði varðandi trúverðugleikamat sem í henni er að finna.
    Hins vegar byggir Útlendingastofnun ákvarðanatöku á ýmsum skýrslum og öðrum upplýsingum um aðstæður í heimaríki umsækjanda sem teknar eru saman af alþjóðasamtökum og stofnunum annarra ríkja. Sem dæmi um slíkar skýrslur má nefna skýrslur utanríkisráðuneyta Bandaríkjanna og Bretlands um stöðu mannréttindamála í viðkomandi ríki, skýrslur norrænna systurstofnana Útlendingastofnunar og annarra norrænna og evrópskra stjórnvalda (svonefndar „Fact finding“-skýrslur) um aðstæður í tilteknum ríkjum, skýrslur alþjóða- og mannréttindastofnana, til að mynda leiðbeinandi sjónarmið Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, skýrslur Amnesty International og Alþjóðabankans (the World Bank), auk fjölda annarra skýrslna. Liggi fyrir svokallaðar „eligibility guidelines“ frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um viðkomandi ríki vega þær alla jafna mjög þungt við úrlausn mála. Þessar skýrslur og upplýsingar eru iðulega aðgengilegar á vefsíðum viðkomandi stofnana eða samtaka en einnig er hægt að nálgast umfangsmiklar upplýsingar í sérstökum gagnabanka Flóttamannastofnunarinnar, www.refworld.com. Þá er Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna ávallt höfð að leiðarljósi við úrlausn mála. Auk þess sem hér hefur verið nefnt hefur Útlendingastofnun aðgang að Landinfo, gagnagrunni norskra stjórnvalda sem hefur að geyma umfangsmiklar upplýsingar um ríki til að nota við ákvarðanatöku í hælismálum.
    Útlendingastofnun lítur til ýmissa sjónarmiða við ákvarðanatöku í hælismálum þegar umsækjendur frá Albaníu eiga í hlut. Má nefna í því sambandi að flóttamanna- og hæliskerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Til þess að eiga rétt á hæli að lögum og samkvæmt alþjóðasáttmálum þarf fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu. Þetta leiðir bæði af flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum sem sett eru á grundvelli hans.
    Hefur það verið mat Útlendingastofnunar að frásagnir albanskra hælisleitenda af aðstæðum sínum beri í flestum tilfellum ekki með sér að þeir sæti ofsóknum yfirvalda eða annarra aðila eða að þeir séu í hættu en albönsk yfirvöld séu ófær um eða ekki viljug að koma til aðstoðar. Áðurnefndar skýrslur og upplýsingar um aðstæður í Albaníu beri með sér að þar ríki hvorki stríðsástand né ógnarstjórn. Fátækt sé mikil en mannréttindi séu almennt virt og eftirfylgni vegna glæpa og afbrota sé góð, yfirvöld séu fær um að vernda borgara sína og veita þeim aðstoð. Þó að atvik í hverju máli séu sérstök og hvert mál sé metið einstaklingsbundið eru þessi sjónarmið almennt höfð til hliðsjónar í hælismálum albanskra ríkisborgara hjá Útlendingastofnun.
    Þá lítur Útlendingastofnun svo á að efnahagslegar aðstæður feli ekki í sér aðsteðjandi hættu, um það séu alþjóðasáttmálar og lög skýr. Því geti slíkar aðstæður ekki verið grundvöllur verndar. Veikindi og skortur á meðferð vegna þeirra feli að sama skapi ekki í sér ofsóknir á hendur fólki nema annað og meira komi til, t.d. að fólki sé kerfisbundið neitað um lífsnauðsynlega læknismeðferð á grundvelli kynþáttar. Beri hælisleitandi því við að hann eigi ekki kost á bráðnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu kemur til greina, að mati Útlendingastofnunar, að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.
    Kærunefnd útlendingamála byggir úrskurði sína á gögnum og upplýsingum úr ýmsum áttum. Grundvöllur kærumála er, samkvæmt kærunefndinni, ávallt framburður kærenda og staðhæfingar þeirra um aðstæður sínar. Sá framburður kemur fram í viðtölum hjá Útlendingastofnun og lögreglu, greinargerðum kærenda og framburði þeirra fyrir kærunefndinni. Þá byggir kærunefndin á skýrslum mannréttindasamtaka eins og Human Rights Watch, Amnesty International, Freedom House o.fl. skýrslum sem önnur ríki hafa unnið um upprunaland viðkomandi hælisleitenda (algengastar eru skýrslur unnar í Bretlandi, Bandaríkjunum og Noregi) og skýrslum alþjóðastofnana eins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Evrópuráðsins. Jafnframt er starfandi fjöldi samtaka sem vinnur að réttindum flóttamanna og hælisleitenda og skýrslur þeirra eru skoðaðar í tengslum við mál sem eru til meðferðar hjá nefndinni eftir því sem við á.
    Þau sjónarmið sem liggja til grundvallar úrskurðum kærunefndar á umsóknum Albana um hæli eru samkvæmt kærunefndinni þau sömu og allra annarra umsækjenda, þ.e. ákvæði útlendingalaganna, sérstaklega 44. gr. og 44. gr. a. Sú staðreynd að Albanía er eitt af umsóknarríkjum ESB (candidate country) og á lista yfir örugg upprunaríki skiptir samkvæmt kærunefndinni máli við þetta mat en er ekki úrslitaatriði. Umsóknir Albana fá, eins og önnur mál, fulla skoðun á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda.

     5.      Til hvaða gagna, upplýsinga eða sjónarmiða er litið við rannsókn stjórnvalda á hvort umsækjandi um hæli frá Albaníu eigi möguleika á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu? Óskað er eftir upplýsingum um hvort litið sé til vottorða og mats lækna við slíka rannsókn.
    Hvað varðar vottorð og mat lækna lítur Útlendingastofnun til þess er varðar heilbrigðisástand viðkomandi umsækjanda, m.a. með tilliti til þess hvort forsvaranlegt sé að rjúfa yfirstandandi meðferð. Vottorð eða aðrar læknaskýrslur veita upplýsingar um heilsufar viðkomandi umsækjanda en veita hins vegar ekki upplýsingar um gæði heilbrigðisþjónustu í heimalandi hans. Því er ekki hægt að byggja á vottorðum einstakra lækna varðandi það hvernig heilbrigðisþjónustu er háttað í viðkomandi ríki. Í núverandi kerfi er ekki gert ráð fyrir því að einstakir læknar votti um heilbrigðisþjónustu í heimaríki hælisleitanda. Í þeim efnum verður að styðjast við alþjóðlegar skýrslur.
    Þegar kannaður er aðgangur að heilbrigðisþjónustu í heimalandi umsækjanda um hæli lítur Útlendingastofnun til skýrslna um aðstæður í heimalandi umsækjanda og þá sérstaklega til skýrslna er fjalla um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðiskerfið í viðkomandi ríki. Slíkar skýrslur og upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðum viðkomandi stofnana eða samtaka og í sumum tilfellum í gagnabanka Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Má sem dæmi nefna vefsíður World Health Organization (WHO), Child Health International, UN Children´s Fund (UNICEF) og skýrslur bandarísku og bresku utanríkisráðuneytanna ásamt skýrslum Alþjóðabankans um heilbrigðiskerfið í viðkomandi landi. Í nýlegum ákvörðunum Útlendingastofnunar er vísað til skýrslna þessara samtaka og stofnana í mati á því hvort veita beri dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða af heilsufarsástæðum. Á grundvelli framangreindra upplýsinga er metið hvort umsækjanda bjóðist nauðsynleg þjónusta og hvort hún teljist fullnægjandi fyrir aðstæður hans.
    Í skýrslum og öðrum upplýsingum um heilbrigðisþjónustu í Albaníu kemur að sögn Útlendingastofnunar fram að heilbrigðiskerfið sé að mestu í höndum hins opinbera og allir íbúar landsins séu skyldugir til að hafa sjúkratryggingu. Slík sjúkratrygging veiti aðgang að allri grundvallarheilbrigðisþjónustu ásamt því að lyf séu greidd niður af ríkinu. Af þeim sökum og í ljósi ákvæða 12. gr. f útlendingalaga, sem og athugasemda við ákvæðið í greinargerð með lögunum, hefur það hingað til verið mat Útlendingastofnunar og æðri stjórnvalda að albönskum hælisleitendum, sem bera við heilbrigðisástæðum, bjóðist fullnægjandi aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi.
    Þegar kærunefnd útlendingamála metur hvort heimilt er að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða (vegna heilbrigðisástæðna) á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga kannar nefndin skýrslur um ástand heilbrigðisþjónustu í viðkomandi landi. Oft er um að ræða skýrslur staðbundinna félagasamtaka, en stundum starfar nefndin í nánu samráði við alþjóðasamtök, svo sem UNICEF eða WHO. Nefndin leitar að sérhæfðum upplýsingum um meðhöndlun á þeim sjúkdómi sem um ræðir. Nefndin kannar hvort tiltekin lyf eru fáanleg og hvort þau eru niðurgreidd af ríkinu. Skortur á traustum upplýsingum háir þó slíkri rannsókn og setur henni takmörk. Nefndin leitar ekki beint til stjórnvalda upprunaríkis, en skoðar vefsíður heilbrigðisyfirvalda. Rannsókn kærunefndar styðst við læknisvottorð og læknaskýrslur frá íslenskum læknum og læknum sem meðhöndlað hafa umsækjanda fyrr. Kærunefndin fær lækni umsækjanda í fyrirtöku þegar metin er heimild til veitingar dvalarleyfis skv. 12. gr. f útlendingalaganna.