Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 849  —  436. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu stofnsamnings
um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð H. Helgason og Lilju Sturludóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Maríu Erlu Marelsdóttur og Kristján Andra Stefánsson frá utanríkisráðuneyti og Jón Sigurgeirsson og Lilju Alfreðsdóttur frá Seðlabanka Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Seðlabanka Íslands og Félagi Sameinuðu þjóðanna.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda stofnsamning Innviðafjárfestingabanka Asíu. Ríkisstjórn Íslands ákvað í mars 2015, að tillögu fjármála- og efnahagsráðherra og utanríkisráðherra, að Ísland mundi sækjast eftir því að vera meðal stofnaðila að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Stofnskjöl bankans voru formlega undirrituð af hálfu Íslands og fleiri ríkja hinn 29. júní 2015 í Peking.
    Fram kemur í athugasemdum við þingsályktunartillöguna að Innviðafjárfestingabanki Asíu sé fjölþjóðlegur þróunarbanki sem muni styðja við aðgerðir til að efla innviði í Asíu sem sé sá hluti heimsins þar sem hagvöxtur sé hvað mestur. Þessi þróun kalli m.a. á stóraukna uppbyggingu innviða í Asíu til að auðvelda flæði vöru og þjónustu innan Asíu og milli Asíu og fjarlægari svæða, svo sem Evrópu, Mið-Austurlanda og Afríku. Í stofnsamningi bankans kemur fram að tilgangur hans sé að stuðla að sjálfbærri efnahagsþróun, auka verðmæti og bæta innviðatengingar í Asíu með fjárfestingum í innviðum og öðrum virðisaukandi geirum. Auk þess muni bankinn stuðla að svæðisbundinni samvinnu og samstarfi til að taka á áskorunum í þróunarmálum, með því að vinna í nánu samstarfi við aðrar fjölþjóðlegar og tvíhliða þróunarsamvinnustofnanir.
    Þá kemur fram í athugasemdum við tillöguna að heildarskuldbinding Íslands varðandi stofnfé bankans nemi um 17,6 milljónum bandaríkjadala eða 0,0179% af stofnfé sem samsvari um 2,3 milljörðum kr. Fimmtungur stofnfjárins verði innborgaður en fjórir fimmtu hlutar stofnfjárins innkallanlegt stofnfé.
    Flest Evrópuríki, þ.m.t. öll norrænu ríkin, hafa unnið að stofnun bankans ásamt ríkjum Asíu. Aðild Íslands að innviðafjárfestingabankanum mun styrkja enn frekar góð samskipti Íslands og Asíuríkja og styðja við nýja vaxtarbrodda á viðskiptasviðinu sem getur þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu, auk þess að gera Ísland sýnilegra á stærsta vaxtarsvæði heimsins. Meiri hlutinn styður því aðild Íslands að innviðafjárfestingabankanum og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 16. febrúar 2016.


Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason.
Haraldur Benediktsson. Þorsteinn Sæmundsson.