Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 855  —  436. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu stofnsamnings
um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.


    Minni hluti utanríkismálanefndar getur ekki staðið að samþykkt þessa máls, m.a. vegna þess hvernig að því hefur verið staðið. Með þingsályktunartillögunni er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda stofnsamning Innviðafjárfestingabanka Asíu. Ríkisstjórn Íslands ákvað í mars 2015, að tillögu fjármála- og efnahagsráðherra og utanríkisráðherra, að Ísland mundi sækjast eftir því að vera meðal stofnaðila að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Stofnskjöl bankans voru formlega undirrituð af hálfu Íslands og fleiri ríkja 29. júní 2015 í Peking. Í stað þess að leggja þá þegar um haustið 2015 fram þingsályktunartillögu um fullgildingu stofnsamningsins og ræða málið efnislega var slíkri tillögu ekki útbýtt fyrr en í desember og ekki var mælt fyrir henni á Alþingi fyrr en í janúar 2016. Hér er um að ræða stefnumarkandi ákvörðun sem full ástæða hefði verið til að ræða ítarlega á fyrri stigum á Alþingi.
    Fjárheimild vegna aðildar að bankanum og heimild til að greiða til hans stofnfé var hins vegar veitt í nóvember með fjáraukalögum fyrir árið 2015. Þar með var tekin ákvörðun um fjárskuldbindingu ríkissjóðs upp á 17,6 milljónir bandaríkjadala, eða um 2,3 milljarða íslenskra króna, án þess að nokkur efnisleg umræða ætti sér stað um málið á vettvangi Alþingis. Í ljósi þess að það lá fyrir vorið 2015 að ríkisstjórnin áformaði að sækjast eftir aðild að bankanum telur minni hlutinn þessa aðferð við ákvörðunartöku óásættanlega.
    Markmiðin með stofnaðild Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu eru að mati minni hlutans óljós og jafnvel mótsagnarkennd. Annars vegar er markmiðið að efla tengsl Íslands við Asíumarkaði og greiða þannig götu íslenskra fyrirtækja, sem getur verið ágætt markmið út af fyrir sig, án þess að það hafi verið útskýrt með fullnægjandi hætti við meðferð málsins hvernig stofnaðild að bankanum muni gagnast útflutningshagsmunum Íslands. Hins vegar er markmiðið að Ísland leggi sitt af mörkum á vettvangi þróunarmála í Asíu með stofnaðild sinni. Minni hlutinn leggur áfram ríka áherslu á að framlög til þróunarmála fylgi þeirri stefnumörkun sem Alþingi hefur samþykkt. Fyrir nefndinni kom fram að ekki væri líklegt að fátækari lönd gerðust aðilar að bankanum sem vekur spurningar um hvernig aðildin að bankanum fellur að þróunarsamvinnu Íslands. Enn fremur telur minni hlutinn erfitt að finna umhverfisleg eða samfélagsleg markmið í stofnskrá bankans sem ættu að vera grundvallaratriði allra stofnana sem Ísland gerist aðili að. Ávinningur íslenska ríkisins af því að vera stofnaðili að innviðafjárfestingabankanum er því óljós og því tæpast unnt að réttlæta svo hátt stofnfjárframlag af íslensku almannafé inn í þess háttar stofnun.
    Þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, leggur mat á það hvort stofnframlög til bankans geti talist framlög til þróunarsamvinnu. Minni hlutinn leggur áherslu á að óháð niðurstöðu DAC sé brýnt að framlög íslenska ríkisins til Innviðafjárfestingabanka Asíu verði ekki á kostnað framlags Íslands til hefðbundinnar tvíhliða þróunarsamvinnu. Í því samhengi má rifja upp varnaðarorð sem höfð voru uppi í tengslum við niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar fyrr á þessum vetri, þar sem bent var á mikilvægi þess að þróunarsamvinna ætti sér stað á sínum eigin forsendum en hverfðist ekki um viðskiptahagsmuni þess ríkis er aðstoðina veitir.

Alþingi, 18. febrúar 2016.

Steinunn Þóra Árnadóttir.