Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 862  —  543. mál.
Prentað upp.




Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu bókunar um aðild Lýðveldisins Gvatemala
að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna
og Mið-Ameríkuríkjanna.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd bókun um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna, sem undirrituð var 22. júní 2015 í Schaan í Liechtenstein.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á bókun um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna. Bókunin kveður á um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna Kostaríka og Panama sem tók gildi hvað Ísland varðar hinn 5. september 2014. Meginmál bókunarinnar er prentað sem fylgiskjal með tillögu þessari, en viðaukar við bókunina, sem og texti fyrrgreinds fríverslunarsamnings ásamt viðaukum við hann, verða sendir utanríkismálanefnd og birtir á vef Alþingis.
    EFTA-ríkin hófu í febrúar 2012 viðræður um fríverslunarsamning við fjögur ríki Mið-Ameríku, þ.e. Kostaríka, Panama, Gvatemala og Hondúras. Í desember sama ár lauk viðræðum við Kostaríka og Panama og var fríverslunarsamningur við þau ríki undirritaður í júní 2013. Hins vegar tókst ekki að ljúka viðræðum við Gvatemala og Hondúras á sama tíma. Viðræður um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningnum héldu hins vegar áfram og lauk þeim í október 2014. Aðild Gvatemala var síðan samþykkt af sameiginlegri nefnd aðila fríverslunarsamningsins hinn 22. júní 2015 og var bókun þess efnis undirrituð í Schaan í Liechtenstein sama dag.

Nánar um efni fríverslunarsamningsins milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna.
    Alþingi samþykkti á 143. löggjafarþingi þingsályktun þar sem ríkisstjórninni var heimilað að fullgilda umræddan fríverslunarsamning fyrir Íslands hönd hvað varðar Mið-Ameríkuríkin Kostaríka og Panama. Enda þótt efni samningsins hafi því þegar verið borið undir Alþingi með tillögu til þeirrar þingsályktunar þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir helstu efnisþáttum hans.
    Í formálsorðum samningsins er gerð grein fyrir ýmsum forsendum og markmiðum samningsaðila við gerð samningsins. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
          Lýst er yfir vilja samningsaðila til að efla tengsl milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Mið-Ameríkuríkjanna hins vegar og auka viðskiptalega og efnahagslega samvinnu þeirra á milli. Sett eru markmið um að skapa ný atvinnutækifæri, bæta lífskjör og greiða fyrir viðskiptum og tryggja fyrirsjáanleika í þeim. Einnig er áréttuð skylda ríkjanna til að berjast gegn spillingu og styðja meginreglur um gagnsæi og góða opinbera stjórnunarhætti.
          Stefnt er að sjálfbærri þróun og mikilvægi samræmis og gagnkvæmrar eflingar viðskipta og umhverfis- og atvinnumála viðurkennt. Réttindi og skuldbindingar ríkjanna samkvæmt milliríkjasamningum um umhverfismál eru ítrekaðar og sett markmið um að vernda umhverfið og tryggja hagkvæmustu nýtingu náttúruauðlinda í samræmi við markmiðið um sjálfbæra þróun.
          Áréttaður er stuðningur ríkjanna við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingarinnar. Einnig staðfesta ríkin grundvallarreglur varðandi atvinnu manna sem settar eru fram í samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem þau eiga aðild að.
    Í 1. og 2. kafla og I.–VIII. viðauka samningsins er að finna almenn ákvæði og ákvæði um niðurfellingu og lækkun tolla af iðnaðarvörum og sjávarafurðum milli ríkjanna. Tollar af öllum iðnaðarvörum og sjávarafurðum falla niður í viðskiptum milli ríkjanna og njóta Mið-Ameríkuríkin allt að 15 ára aðlögunartímabils vegna eigin tollaniðurfellinga. Einnig er þar að finna ákvæði um m.a. ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna, tæknilegar reglur, viðskiptaliprun, ríkisrekin fyrirtæki á sviði verslunar, styrki og jöfnunarráðstafanir, ráðstafanir gegn undirboðum og verndarráðstafanir.
    Í 3. kafla og IX.–XIV. viðauka samningsins er fjallað um viðskipti með unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Kveðið er á um gagnkvæmar tollaívilnanir fyrir slíkar vörur í viðskiptum milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og einstakra Mið-Ameríkuríkja hins vegar. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna þar sem kveðið er á um tollfríðindi fyrir óunnar landbúnaðarvörur í samningnum sjálfum en ekki í tvíhliða landbúnaðarsamningum einstakra EFTA-ríkja.
    Í 4. kafla og XV.–XVII. viðauka samningsins er fjallað um þjónustuviðskipti. Skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum byggjast á tilboði sem Ísland lagði fram innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar árið 2005 og grundvallast á íslenskum lögum, þar á meðal lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga. Nokkur svið þjónustuviðskipta eru alfarið undanskilin samningnum, svo sem opinber þjónusta og þjónusta á sviði heilbrigðis- og menntamála.
    Í 5. kafla og XVIII. viðauka samningsins er fjallað um fjárfestingar. Skuldbindingar Íslands á þessu sviði rúmast innan íslenskrar löggjafar um erlendar fjárfestingar.
    Í 6. kafla og XIX. viðauka samningsins eru ákvæði um vernd hugverkaréttar. Byggjast þau á ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS).
    Í 7. kafla og XX. viðauka samningsins er fjallað um opinber innkaup og gagnkvæman rétt til þátttöku í útboðum yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum af hálfu opinberra aðila í ríkjunum. Byggt er á samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup sem Ísland er aðili að. Engar breytingar eru á íslenskum reglum hvað þessi mál varðar.
    Í 8. kafla er kveðið á um samkeppnismál. Kveðið er á um samvinnu og samstarf milli samningsaðila á því sviði sem tekur til tilkynninga, upplýsingaskipta, tæknilegrar aðstoðar og samráðs.     9. kafli fjallar um viðskipti og sjálfbæra þróun. Aðilar samnings viðurkenna að efnahagsleg þróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd séu sjálfstæðir þættir sem styðja með gagnkvæmum hætti við sjálfbæra þróun. Þeir árétta skuldbindingar sínar samkvæmt fjölþjóðlegum samningum og grundvallarreglum tengdum umhverfi og vinnumarkaði og ábyrgjast að viðhalda verndarstigi þeirra, jafnframt sem aðilar samnings viðurkenna rétt hvorir annarra til þess að setja eigin umhverfis- og vinnuverndarlöggjöf. Tekið er fram að samningsaðilar árétti þær skyldur sínar að virða, efla og framkvæma þær meginreglur um grundvallarréttindi sem er að finna í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og í áréttingu hennar sem Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti árið 1998.
    Í 10. kafla er kveðið á um samstarf samningsaðila og tækniaðstoð sem EFTA-ríkin veita Mið-Ameríkuríkjunum. Samstarfið skal m.a. hafa að markmiði að ýta undir og skapa ný viðskipta- og fjárfestingartækifæri, auka samkeppnishæfni og stuðla að nýsköpun.
    Í 11.–13. kafla og XXI. viðauka eru ákvæði um m.a. framkvæmd samningsins, lausn deilumála, breytingar á samningnum og gildistöku hans. Sett er á stofn sameiginleg nefnd ríkjanna sem ætlað er að fjalla um framkvæmd samningsins, t.d. einstök vandamál í viðskiptum milli ríkjanna. Kveðið er á um lausn ágreinings um túlkun og beitingu samningsins í formi sáttaumleitana, eða eftir atvikum með stofnun gerðardóms ef samkomulag næst ekki með öðrum hætti.

Nánar um ákvæði bókunarinnar um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna.
    Í bókuninni og viðaukum við hana er kveðið á um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningnum og þann gagnkvæma markaðsaðgang fyrir vörur og þjónustu milli EFTA-ríkjanna og Gvatemala og önnur réttindi og skyldur sem af aðildinni leiðir. Fram kemur að bókunin öðlast gildi 60 dögum eftir að samningsaðilar hafa tilkynnt um fullgildingu hennar.
    Með aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA við Mið-Ameríkuríkin batnar mjög aðgangur íslenskra útflytjenda að markaði Gvatemala. Þannig falla tollar niður af hvers kyns sjávarafurðum og af langflestum iðnaðarvörum. Niðurfelling tollanna fer þó að hluta til fram á allt að 15 ára aðlögunartímabilum. Hvað landbúnaðarvörur varðar þá falla tollar niður af útflutningi frá Íslandi á lambakjöti, lifandi hestum og hrossakjöti auk þess sem tollar falla niður eða lækka af ýmsum öðrum unnum og óunnum landbúnaðarafurðum. Af Íslands hálfu eru tollar af hvers kyns sjávarafurðum og iðnaðarvörum felldir niður þegar í stað og einnig eru tollar lækkaðir og felldir niður af ýmsum landbúnaðarvörum.
    Enginn útflutningur hefur verið frá Íslandi til Gvatemala á undanförnum árum og innflutningur hefur verið mjög lítill. Með lækkun og niðurfellingu tolla skapast betri aðstæður fyrir viðskipti milli landanna.

Fylgiskjal.


BÓKUN UM AÐILD LÝÐVELDISINS GVATEMALA AÐ FRÍVERSLUNARSAMNINGI MILLI EFTA-RÍKJANNA OG MIÐ-AMERÍKURÍKJANNA


    Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Ríkjasambandið Sviss (hér á eftir nefnd „EFTA-ríkin“), Lýðveldið Kostaríka og Lýðveldið Panama (hér á eftir nefnd „Mið-Ameríkuríkin“)

og

Lýðveldið Gvatemala (hér á eftir nefnt „Gvatemala“),

hér á eftir nefnd hvert og eitt „samningsaðili“ eða sameiginlega „samningsaðilarnir“,

    sem hafa hliðsjón af fríverslunarsamningnum milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Mið-Ameríkuríkjanna hins vegar (hér á eftir nefndur „samningurinn“) sem var undirritaður í Þrándheimi 24. júní 2013,
    
    sem hafa hliðsjón af þátttöku Gvatemala í samningaviðræðum um samninginn sem aðili að Efnahagssamvinnukerfi Mið-Ameríku,
    
    sem hafa hliðsjón af samkomulaginu (MoU) um tvíhliða áætlun um viðskiptasamstarf milli Efnahagsskrifstofu Svissneska ríkjasambandsins og efnahagsráðuneytis Gvatemala,
    
    sem hafa hliðsjón af grein 13.4 í samningnum þar sem kveðið er á um að hverjum aðila að Efnahagssamvinnukerfi Mið-Ameríku sem er sé heimilt að gerast aðili að samningnum, samþykki sameiginlega nefndin aðild hans,
    
    sem hafa hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu nefndar EFTA-Mið-Ameríku nr. 1/2015, þar sem skilmálar og skilyrði fyrir aðild Gvatemala, sem eru sett fram hér á eftir, eru samþykkt,
    
    hafa samþykkt að ganga frá eftirfarandi bókun um aðild Gvatemala (hér á eftir nefnd „bókunin“):
    
1.     Í formálsorðum samningsins komi „ ,“ í stað orðsins „og“ á eftir orðunum „Lýðveldið Kostaríka“ og orðunum „og Lýðveldið Gvatemala“ skal skotið inn á eftir orðunum „og Lýðveldið Panama“.

2.     Í stað orðanna „IV. og V. viðauka“ í 1. mgr. greinar 2.3 í samningnum og „IV., V. og IX. til XIV. viðauka“ í 5. mgr. greinar 2.17 í samningnum komi „IV., V. og XXII. viðauka“ og „IV., V., XXII., IX. til XIV. og XXIII. til XXV. viðauka“.

3.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á grein 3.2 í samningnum:

        Þremur nýjum málsgreinum, 7–9, skal skotið inn og eru þannig orðaðar:
        „7.      Gvatemala skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar á Íslandi, eins og tilgreint er í 1. lið XXIII. viðauka við samning þennan. Ísland skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar í Gvatemala, eins og tilgreint er í 2. lið XXIII. viðauka við samning þennan.

        8.     Gvatemala skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar í Noregi, eins og tilgreint er í 1. lið XXIV. viðauka við samning þennan. Noregur skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar í Gvatemala, eins og tilgreint er í 2. lið XXIV. viðauka við samning þennan.
    
        9.     Gvatemala skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar í Sviss 1, eins og tilgreint er í 1. lið XXV. viðauka við samning þennan. Sviss skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar í Gvatemala, eins og tilgreint er í 2. lið XXV. viðauka við samning þennan.

         1 Eins og fram kemur í grein 1.4 í samningnum skal skilja allar tilvísanir til tollaívilnana, sem eru veittar Sviss eða af hálfu Sviss, þannig að taki bæði til Sviss og Liechtenstein.“

4.     Í stað orðanna „III., IV., V., IX., X., XI., XII., XIII. og XIV. viðauka“ í a-lið 3. mgr. greinar 11.1 í samningnum komi „III., IV., V., IX., X., XI., XII., XIII., XIV., XXII., XXIII., XXIV. og XXV. viðauka“.

5.     Textanum, sem er settur fram í 1. viðauka við bókun þessa og fjallar um sundurliðun Gvatemala á tollum vegna vara sem eru ekki landbúnaðarafurðir, skal bætt við sem nýjum XXII. viðauka við samninginn.

6.     Textanum, sem er settur fram í 2. viðauka við bókun þessa og fjallar um tollaívilnanir vegna landbúnaðarafurða milli Gvatemala og Íslands, skal bætt við sem nýjum XXIII. viðauka við samninginn.

7.     Textanum, sem er settur fram í 3. viðauka við bókun þessa og fjallar um tollaívilnanir vegna landbúnaðarafurða milli Gvatemala og Noregs, skal bætt við sem nýjum XXIV. viðauka við samninginn.

8.     Textanum, sem er settur fram í 4. viðauka við bókun þessa og fjallar um tollaívilnanir vegna landbúnaðarafurða milli Gvatemala og Sviss, skal bætt við sem nýjum XXV. viðauka við samninginn.

9.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á I. viðauka við samninginn:

     a)      Orðinu „og“ í öðrum málslið undirliðar b) í 1. gr. skal eytt og eftirfarandi texta skotið inn á eftir þriðja málslið undirliðarins:
        „og að því er varðar Gvatemala, Dirección de Administración del Comercio Exterior del Ministerio de Economía, vegna útgáfu EUR.1-flutningsskírteina til þess að veita stöðu samþykkts útflytjanda og vegna sannprófunar upprunasannana, eða síðari handhafi réttinda þeirrar stofnunar.“

     b)      Í undirlið h) í 1. gr. skal orðinu „Gvatemala“ skotið inn á eftir orðinu „Panama“.

     c)      Í 5. mgr. 6. gr. komi „ ,“ í stað orðsins „eða“ milli Kostaríka og Panama og orðunum „eða Gvatemala“ skal skotið inn á eftir orðinu „Panama“.

10.     Eftirfarandi breyting er gerð á 1. viðbæti við I. viðauka við samninginn:

     a)      1. mgr. athugasemdar um túlkun skal breytt og verði þannig:

        „1. Viðbætirinn inniheldur fjóra lista í röð eins og hér er talið upp:

               (a)      Sértækar reglur um vörur, 1.–24. kafli EFTA-Kostaríka, bls. 3.
        
               (b)      Sértækar reglur um vörur, 1.–24. kafli EFTA-Panama, bls. 7.
        
               (c)      Sértækar reglur um vörur, 1.–24. kafli EFTA-Gvatemala, bls. 11.
        
               (d)      Sértækar reglur um vörur, 25.–97. kafli EFTA-Mið-Ameríka, bls. 16.“

     b)      Töflunni, sem er sett fram í 5. viðauka við bókun þessa og inniheldur sértækar upprunareglur um vörur vegna viðskipta milli EFTA og Gvatemala, skal skotið inn á eftir listanum um sértækar reglur um vörur sem gilda milli EFTA og Panama.

11.     Orðinu „Gvatemala“ skal skotið inn í 2. neðanmálsgrein í 2. viðbæti við I. viðauka við samninginn á eftir orðinu „Kostaríka“ og bókstöfunum „GT“ skal skotið inn á eftir bókstöfunum „CR“.

12.     Í stað orðsins „og“ á eftir „Kostaríka“ í 1. mgr. 5. viðbætis við I. viðauka við samninginn komi „ ,“ og orðunum „og Gvatemala“ skal skotið inn á eftir orðinu „Panama“.

13.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 1. mgr. 4. gr. í II. viðauka við samninginn:

     a)      Nýrri undirgrein c) skal skotið inn og er orðuð þannig: „c) fyrir Lýðveldið Gvatemala, Ministerio de Economía.

     b)      Eftirfarandi númerabreyting er gerð: Undirgreinar c til f verði undirgreinar d til g.

14.     Taflan, sem er sett fram í 6. viðauka við bókun þessa og varðar þær vörur sem ekki eru landbúnaðarvörur og falla undir samninginn, komi í stað töflunnar sem er sett fram í b-lið III. viðauka við samninginn.

15.     Eftirfarandi málsgreinum skal skotið inn í VI. viðauka við samninginn:

    „3. Að því er varðar Gvatemala gildir ákvæði 1. mgr. greinar 2.4 ekki um framlag sem gerð er krafa um vegna kaffiútflutnings samkvæmt kaffilögum, tilskipun þings Lýðveldisins Gvatemala nr. 19–69 og endurbótum á henni, tilskipun stjórnanda ríkisins nr. 114–63 og lagatilskipun stjórnanda ríkisins nr. 111–85.

    4. Lækki Gvatemala eða afnemi útflutningsframlög sín, eftir að samningur þessi öðlast gildi, til ríkis sem er ekki aðili að samningnum, skal Gvatemala láta EFTA-ríkin sitja við sama borð.“     

16.     Eftirfarandi málslið skal skotið inn í 3. neðanmálsgrein í VII. viðauka við samninginn á eftir fyrsta málslið í þeirri neðanmálsgrein: „Að því er varðar Gvatemala er viðkomandi lögbært stjórnvald Dirección de Administración del Comercio Exterior del Ministerio de Economía eða síðari handhafi réttinda þeirrar stofnunar.“

17.     Í stað orðanna „I., III., IV., V., VI. og VII. viðauki“ í 2. mgr. VIII. viðauka við samninginn komi „I., III., IV., V., VI., VII. og XXII. viðauki“.

18.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á XV. viðauka við samninginn:

     a)      Þeim texta sem settur er fram í 7. viðauka við bókun þessa og fjallar um skrár um sérstakar skuldbindingar Gvatemala skal bætt við sem 7. viðbæti við XV. viðauka.

     b)      Í skránni fyrir Sviss í 6. viðbæti komi orðin „Kostaríka, Panama eða Gvatemala“ í stað orðanna „Kostaríka eða Panama“ alls staðar þar sem þau birtast.

     c)      Í skránni fyrir Sviss í 6. viðbæti komi orðin „Kostaríka, Panama og Gvatemala“ í stað orðanna „Kostaríka og Panama“ alls staðar þar sem þau birtast.

19.     Þeim texta sem settur er fram í 8. viðauka við bókun þessa og inniheldur listann yfir undanþágur Gvatemala frá bestukjarameðferð skal bætt við sem 7. viðbæti við XVI. viðauka.

20.     Þeim texta sem settur er fram í 9. viðauka við bókun þessa og inniheldur listann yfir fyrirvara Gvatemala skal bætt við sem 7. viðbæti við XVIII. viðauka.

21.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á XIX. viðauka við samninginn:

     a)      Í 1. neðanmálsgrein skal orðinu „Gvatemala“ skotið inn á eftir orðinu „Kostaríka“.

     b)      Í 2. neðanmálsgrein skal orðinu „Gvatemala“ skotið inn á eftir orðinu „Kostaríka“.

22.     Þeim texta sem er settur fram í 10. viðauka við bókun þessa og fjallar um ríkisstofnanir skal bætt við sem c-lið A-hluta 1. viðbætis við XX. viðauka við samninginn.

23.     Þeim texta sem er settur fram í 11. viðauka við bókun þessa og fjallar um undirstofnanir hjá ríkinu skal bætt við sem c-lið A-hluta 2. viðbætis við XX. viðauka við samninginn.

24.     Þeim texta sem er settur fram í 12. viðauka við bókun þessa og fjallar um aðrar tilgreindar stofnanir skal bætt við sem c-lið A-hluta 3. viðbætis við XX. viðauka við samninginn.

25.     Nýjum lið c í A-hluta 4. viðbætis við XX. viðauka við samninginn skal skotið inn og er þannig orðaður:

        „ c. Gvatemala
             Ákvæði 7. kafla samnings þessa gilda um allar vörur, sem þær stofnanir sem eru taldar upp í 1. til 3. viðbæti við þennan viðauka kaupa, með fyrirvara um athugasemdir við viðkomandi viðbæta, um hinar almennu athugasemdir og að því undanskildu að annað sé tekið fram.“

26.     Þeim texta sem er settur fram í 13. viðauka við bókun þessa og fjallar um þjónustu-starfsemi skal bætt við sem c-lið A-hluta 5. viðbætis við XX. viðauka við samninginn.

27.     Nýjum lið c í A-hluta 6. viðbætis við XX. viðauka við samninginn skal skotið inn og er þannig orðaður:

        „ c. Gvatemala
             Ákvæði 7. kafla samnings þessa gilda um alla þjónustu á sviði byggingaframkvæmda, sem þær stofnanir sem eru taldar upp í 1. til 3. viðbæti við þennan viðauka kaupa, með fyrirvara um athugasemdir við viðkomandi viðbæta og um hinar almennu athugasemdir. Ákvæði kaflans taka ekki til kaupa á þjónustu á sviði byggingaframkvæmda sem er undanskilin fyrir hinn samningsaðilann. Öll þjónusta á sviði byggingaframkvæmda, sem ákvæði þessa viðbætis gilda um, er með fyrirvara um skrárnar um sérstakar skyldur (1. til 7. viðbætir við XV. viðauka).“

28.     Eftirfarandi texta skal skotið inn í 7. viðbæti við XX. viðauka við samninginn, eftir þeirri birtingaraðferð sem Panama notar:

        „ Gvatemala

        Löggjöf: lög, stjórnsýsluúrskurðir og -meðferð:

                  1.      Diario de Centroamérica (Órgano oficial de publicación),
                  2.      Congreso de la República de Guatemala www.congreso.gob.gt.

        Réttarframkvæmd:

            Corte de Constitucionalidad
            Vefsetur: www.cc.gob.gt
    
    Auglýsingar um innkaup:

                  1.      Diario de Centroamérica, (Órgano oficial de publicación)
                  2.      Sistema de Información de Contrataciones y Adquisiciones del Estado de Guatemala GUATECOMPRAS (www.guatecompras.gt)“

29.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 9. viðbæti við XX. viðauka við samninginn:

     a)      Í þriðja málslið 1. mgr. A-hluta skal skjóta inn orðunum „og Gvatemala“ á eftir orðinu „Kostaríka“.

     b)      Í 2. mgr. A-hluta skal orðinu „Gvatemala“ skotið inn á eftir orðinu „Kostaríka“.

30.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 11. viðbæti við XX. viðauka við samninginn:

     a)      Þeim texta sem er settur fram í 14. viðauka við bókun þessa og fjallar um viðbótarathugasemdir Gvatemala skal bætt við sem c-lið A-hluta.

     b)      Sú númerabreyting er gerð að d-liður A-hluta, sem varðar viðbótarathugasemdir Panama, verður b-liður.

31.     Vakin er athygli á því að skilgreining innflutningstolla, eins og hún er sett fram í grein 2.3 í samningnum, hefur ekki áhrif á möguleika samningsaðila til þess að beita ráðstöfunum í samræmi við greinar 2.14 og 2.15 í samningnum.

32.     Bókun þessi öðlast gildi 60 dögum eftir að Gvatemala afhendir skjal sitt um aðild til vörslu eða eftir að núverandi samningsaðilar afhenda skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki bókunar þessarar til vörslu, hvort sem síðar verður. Jafnhliða því að bókun þessi öðlast gildi, gerist Gvatemala aðili að samningnum og verður við það samningsaðili.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað bókun þessa.

Gjört í Schaan 22. júní 2015 í tveimur frumritum, einu á ensku og einu á spænsku, og eru báðir textarnir jafngildir. Ef ágreiningur rís um túlkun skal enski textinn ráða. Afhenda skal vörsluaðilanum frumritin til vörslu sem aftur sendir öllum samningsaðilunum staðfest endurrit.



Fyrir hönd Íslands Fyrir hönd Lýðveldisins Kostaríka



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtensteins


Fyrir hönd Lýðveldisins Panama



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs

Fyrir hönd Lýðveldisins Gvatemala



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.