Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 874  —  546. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (kennitöluflakk).

Flm.: Karl Garðarsson, Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Páll Jóhann Pálsson, Elsa Lára Arnardóttir, Haraldur Einarsson, Þórunn Egilsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Brynhildur Pétursdóttir, Helgi Hjörvar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


I. KAFLI

Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. laganna bætist: og ekki hafa á síðustu þremur árum verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem hafa orðið gjaldþrota.

2. gr.

    Við 66. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar mega ekki á síðustu þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem hafa orðið gjaldþrota.

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. laganna bætist: og ekki hafa á síðustu þremur árum verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem hafa orðið gjaldþrota.

4. gr.

    Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar mega ekki á síðustu þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem hafa orðið gjaldþrota.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, í því skyni að koma í veg fyrir kennitöluflakk.
    Engum dylst að kennitöluflakk er mikil meinsemd og af einhverjum ástæðum hefur það fylgt íslensku atvinnulífi í áraraðir. Þó svo ekki sé til einhlít lagaleg skilgreining á því hvað felist í kennitöluflakki má telja að flestum sem koma að atvinnurekstri með einum eða öðrum hætti sé það nokkuð ljóst. Kennitöluflakk felur í sér misnotkun eigenda og stjórnenda á félagaforminu sem veitir þeim skjól vegna þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem eigendur bera á skuldbindingum félagsins. Þannig er skuldum vegna atvinnurekstrar safnað í eitt félag og síðan þegar félagið er komið í rekstrarleg vandræði er snarlega stofnað nýtt félag í sama atvinnurekstri með nýrri kennitölu og reksturinn færður þangað. Í gamla félaginu eru þá skildar eftir skuldbindingar sem að jafnaði fást ekki greiddar við gjaldþrotaskipti félagsins.
Oft er um að ræða skuldir við hið opinbera, vanskil á sköttum og gjöldum, en einnig skuld­bindingar við aðra einkaaðila, birgja og fleiri, sem og vangoldin laun. Þessi háttsemi felur í sér samfélagslegt tjón þar sem skuldbindingar fást ekki greiddar og jafnframt bitnar hátt­semin á þeim sem standa heiðarlega að sínum rekstri og fylgja leikreglum. Háttsemin er til þess fallin að ýta undir vantraust í garð atvinnulífsins og samkeppnisstaða þeirra sem fylgja leikreglum skekkist. Háttsemin eykur kostnað atvinnulífsins þar sem viðbrögð stjórnvalda eru að jafnaði að auka eftirlit og með því eykst kostnaður atvinnulífsins. Í heild tapar sam­félagið.
    Starfshópur á vegum ríkisskattstjóra hefur á undanförnum missirum kannað umfang skattaundanskota í atvinnustarfsemi hér á landi. Niðurstaða þeirrar könnunar er að um 80 milljarða kr. vanti upp á þær skatttekjur sem umsvif í þjóðfélaginu gefa vísbendingar um hverjar ættu að vera. Um miklar fjárhæðir er að ræða sem skiptu ríkissjóð miklu máli ef þær mundu innheimtast og þó ekki væri nema hluti þeirra. Ýmsar lagabreytingar hafa verið gerðar á síðustu árum með það að markmiði að sporna við kennitöluflakki en þrátt fyrir þær er háttsemin enn við lýði og því ljóst að þær lagabreytingar hafa ekki náð tilgangi sínum fylli­lega. Ástæður þess kunna að vera margvíslegar en ljóst er þó að ákveðin hætta kann að vera á því að lagabreytingar sem ætlað er að koma í veg fyrir kennitöluflakk reynist of íþyngjandi fyrir atvinnulífið og hamli þar eðlilegri þróun. Þá þarf einnig að horfa til þess að ekki sé gengið of nærri atvinnufrelsi manna sem varið er af atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnar­skrárinnar, en það er mat flutningsmanna að með tillögum þeim sem lagðar eru til í þessu frumvarpi sé það ekki gert. Það verður að telja eðlilegt að settar séu ákveðnar skorður við því hversu oft einstaklingar geti á tilteknu tímabili keyrt fyrirtæki í þrot og stofnað ný á grunni þeirra gömlu með tilheyrandi tjóni fyrir atvinnulífið sem fjallað hefur verið um hér að framan. Það varðar almannahagsmuni samfélagsins í heild að komið sé í veg fyrir þessa hátt­semi og því nauðsynlegt að gripið sé til viðeigandi aðgerða. Í frumvarpinu er gætt meðalhófs í því að um tiltekinn fjölda fyrirtækja er að ræða á ákveðnu tímabili. Þannig er ekki horft fram hjá því að eðlilegar ástæður kunna að vera fyrir gjaldþrotum fyrirtækja og í þeim til­vikum eðlilegt að stjórnendur og eigendur fái ný tækifæri til atvinnurekstrar en gerist það ítrekað á skömmu tímabili í stjórn sömu einstaklinganna má ætla að eitthvað óeðlilegt sé á seyði. Tilgangur þessa frumvarps er því að leggja til leiðir til að draga úr kennitöluflakki og reyna þannig að sporna við undanskotum í skattkerfinu, samfélaginu öllu til hagsbóta. Aðilar vinnumarkaðarins hafa á undanförnum árum komið fram með margvíslegar tillögur til að sporna við kennitöluflakki og í frumvarpinu er stuðst við tillögur frá Alþýðusambandi Íslands sem er að finna í greinargerð sambandsins um aðgerðir gegn kennitöluflakki frá október 2013.
    Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995. Er þar lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjald­þrota. Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfarar­stjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot. Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla. Skv. 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga skal tilkynningu um stofnun hluta­félags til hlutafélagaskrár fylgja staðfesting á því að stofnendur uppfylli skilyrði 3. gr. laganna og að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri uppfylli skilyrði 66. gr. laganna. Skv. 150. gr. laganna skal synja félagi skráningar ef tilkynning um stofnun þess uppfyllir ekki skilyrði laganna.
    Í 3. og 4. gr. frumvarpsins eru síðan lagðar til samsvarandi breytingar á lögum um einka­hlutafélög og lagðar eru til á lögum um hlutafélög í 1. og 2. gr. Í 3. mgr. 122. gr. laga um einkahlutafélög er samsvarandi ákvæði og í 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga um að tilkynn­ingu um stofnun félags skuli fylgja staðfesting á hæfi stofnenda, stjórnarmanna og fram­kvæmdastjóra.