Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 994  —  101. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015–2026.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Fjólu Sigurðardóttur og Írisi Bjargmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur og Einar Jónsson frá Skipulagsstofnun, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Aðalbjörgu Birnu Guttormsdóttur og Ólaf Arnar Jónsson frá Umhverfisstofnun, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Guðmund Inga Guðbrandsson frá Landvernd, Önnu Dóru Sæþórsdóttur frá Háskóla Íslands, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökunum og Eirík Bjarnason og Jónas Snæbjörnsson frá Vegagerðinni. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Akureyrarkaupstað, Bláskógabyggð, Bændasamtökum Íslands, Ferðamálastofu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Fljótsdalshéraði, Herði Einarssyni, Ísafjarðarbæ, Landmælingum Íslands, Landsneti, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum ferðaþjónustunnar, Skipulagsstofnun, Skógrækt ríkisins, Skorradalshreppi, Skútustaðahreppi, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.
    Tillagan er endurflutt frá síðasta þingi (689. mál). Nefndin fjallaði þá um tillöguna með gestum og fékk umsagnir en ekki tókst að afgreiða hana. Samkvæmt 10. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, leggur ráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til tólf ára innan tveggja ára frá alþingiskosningum og í tillögunni skal felast endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar og á síðasta þingi er sú fyrsta sinna tegundar og því er ekki til staðar gildandi landsskipulagsstefna. Skv. 2. mgr. 10. gr. skipulagslaga skal í landsskipulagsstefnu samþætta áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og skal hún útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og til grundvallar landsskipulagsstefnu skal leggja markmið skipulagslaga auk þeirra sérlaga sem gilda um framangreindar áætlanir. Eftir því sem við á skal hafa svæðis- og aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga til hliðsjónar. Landsskipulagsstefna skal taka til landsins alls, einstakra landshluta og efnahagslögsögunnar og í henni skal ávallt vera uppfærð stefna um skipulagsmál á miðhálendi Íslands. Að þessu leyti tekur landsskipulagsstefna við af svæðisskipulagi miðhálendisins, sbr. 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í skipulagslögum. Skv. 4. mgr. 10. gr. skulu sveitarfélög taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana eða breytinga á þeim og, eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana getur hún skilað rökstuðningi þar um til Skipulagsstofnunar og fylgir hann með tillögu að skipulagsáætlun sem er ekki í samræmi við landsskipulagsstefnu.
    Í tillögugreininni koma fram hvaða þættir eru lagðir til grundvallar landsskipulagsstefnu, auk markmiða skipulagslaga, en þeir eru að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun, að skipulag byggðar og landnotkunar sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum, að það stuðli að lífsgæðum fólks og að það styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta. Verður nú vikið að einstökum þáttum landsskipulagsstefnunar og samráðsferlisins við vinnu hennar að því leyti sem nefndin hefur fjallað sérstaklega um þá þætti en tillögunni fylgir ítarleg greinargerð þar sem hvert atriði stefnunnar er skýrt skilmerkilega.

Málsmeðferð og samráðsferli.
    Í 11. gr. skipulagslaga kemur ítarlega fram hvernig málsmeðferð að gerð tillögu til landsskipulagsstefnu skuli háttað. Kemur þar fram að ráðherra feli Skipulagsstofnun að vinna tillögur að landsskipulagsstefnu en skuli áður en vinna hefst hverju sinni skipa sjö fulltrúa í ráðgjafarnefnd sem verði Skipulagsstofnun og ráðherra til samráðs og ráðgjafar við undirbúning stefnunnar. Skipulagsstofnun skal vinna lýsingu á verkefninu þar sem helstu áherslur koma fram og skal hún kynnt opinberlega og samráð haft við ráðgjafanefndina og hagsmunaaðila. Við gerð stefnunnar skal Skipulagsstofnun hafa samráð við sveitarfélög sem kunna að breyta skipulagsáætlunum sínum vegna landsskipulagsstefnu og hlutaðeigandi stjórnvöld og hagsmunaaðila eftir því sem við á. Þegar drög að landsskipulagsstefnu liggja fyrir lætur ráðherra vinna umhverfismat vegna stefnunnar og þegar það liggur fyrir skal Skipulagsstofnun setja stefnuna ásamt umhverfismati í opið umsagnarferli og hún vinnur síðan úr þeim umsögnum sem berast og leggur eftir atvikum til breytingar á stefnunni. Að því búnu skilar stofnunin tillögu að landsskipulagsstefnu til ráðherra.
    Samráðsferlið við gerð landsskipulagsstefnu er því viðamikið og mikilvægt enda um samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum að ræða. Rágjafafyrirtækið Capacent gerði nýverið úttekt á samráðsferlinu og voru helstu niðurstöður þeirrar úttektar að um vel heppnað ferli hafi verið að ræða. 1 Kemur þar m.a. fram að upplifun nær allra þeirra sem Capacent ræddi við var sú að ferlinu hafi verið skipt upp í skýrt skilgreinda og tímasetta áfanga þar sem tilgangur og markmið voru skýr og að í hvert sinn hafi markvisst verið leitað sjónarmiða sem nýst gætu inn í næstu skref ferlisins. Framkvæmd samráðsins hafi verið markviss og framvindan skýr þó svo nefnt hafi verið að tímaskortur kunni að hafa háð ferlinu nokkuð. Nefndin fagnar þeirri vönduðu vinnu sem liggur til grundvallar tillögu að landsskipulagsstefnu og áréttar mikilvægi opins samráðsferlis við vinnu að stefnu sem þessari.

Framfylgd landsskipulagsstefna og samræming við aðrar opinberar áætlanir.
    Landsskipulagsstefna hefur þann helsta tilgang að að setja fram samræmda stefnu um landnotkun sem byggist á almennri stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum. Landsskipulagsstefnu verður fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga en samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags og taka almennt mið af henni við gerð skipulagsáætlana. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. skipulagslaga skulu sveitarstjórnir samræma skipulagsáætlanir sínar landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar og telji sveitarstjórn að henni beri ekki að taka mið af samþykktri landsskipulagsáætlun skal hún gera rökstudda grein fyrir því og skal rökstuðningurinn fylgja með tillögu að skipulagsáætlun þegar hún er send Skipulagsstofnun. Telji Skipulagsstofnun að synja beri staðfestingu á skipulagsáætlun vegna ósamræmis við landsskipulagsstefnu og fallist þar með ekki á rökstuðning sveitarfélags, skal stofnunin senda tillögu um það til ráðherra innan fjögurra vikna frá því að tillaga að skipulagsáætlun barst henni og skal tillögunni fylgja rökstudd greinargerð og skal ráðherra leita umsagnar sveitarfélags, eða svæðisskipulagsnefndar í tilviki svæðisskipulags, áður en ákvörðun er tekin í málinu, sbr. 5. mgr. 25. gr. og 4. mgr. 32. gr. skipulagslaga. Nefndin bendir hér á að sveitarstjórn skal þegar að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort ástæða sé til að endurskoða gildandi aðalskipulag, sbr. 35. gr. skipulagslaga.
    Samkvæmt framansögðu áréttar nefndin að um stefnumörkun er að ræða sem er ekki beinlínis bindandi fyrir sveitarfélög við gerð skipulagsáætlana heldur ber sveitarfélögum að taka mið af henni. Að öðru leyti vísast til athugasemda með tillögunni þar sem fjallað er um framfylgd hennar í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Að sama skapi fjallaði nefndin nokkuð um það hvernig samræma skuli landsskipulagsstefnu og aðrar opinberar skipulagsáætlanir. Lýstu nokkrir umsagnaraðilar yfir áhyggjum af þeim þætti en nefndin bendir á að í 10. gr. skipulagslaga, sem og þeim sérlögum sem um aðrar opinberar áætlanir gilda, eru ákvæði um reglulega endurskoðun áætlananna og þannig gefst tækifæri til að laga þær að öðrum áætlunum ef þær verða ekki taldar vera í innbyrðis samræmi.

Umhverfismat landsskipulagsstefnu.
    Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. skipulagslaga skal unnið umhverfismat fyrir landsskipulagsstefnu samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Við gerð umhverfismats landsskipulagsstefnu eru markmið og aðgerðir stefnunnar borin saman við umhverfisviðmið sem skilgreind voru í lýsingu landsskipulagsstefnu 2015–2026 og mælikvarðar sem liggja til grundvallar landsskipulagsstefnu eru settir fram í skýrslunni Skipulagsmál á Íslandi 2014 – lykilmælikvarðar og fyrirliggjandi áætlanir, sem er fylgiskjal með landsskipulagsstefnunni. Niðurstaða umhverfismatsins er í megindráttum sú að stefnan er í samræmi við skilgreind umhverfisviðmið og almennt leiðir stefnan til jákvæðra áhrifa á umhverfið og stefna um öll viðfangsefni landsskipulagsstefnu styður almennt við umhverfisviðmið um sveigjanleika og þanþol gagnvart umhverfisbreytingum og breyttum þörfum samfélagsins. Varðandi stefnu um skipulag miðhálendisins þá styður landsskipulagsstefna umhverfisviðmið um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, vernd náttúru- og menningarminja og viðheldur og eflir sérstöðu hálendisins. Stefna um búsetumynstur og dreifingu byggðar styður almennt við umhverfisviðmið um heilsusamlegt umhverfi og að nokkru leyti við markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda þegar til langs tíma er litið og stefnan styður við umhverfisviðmið um sjálfbærar samgöngur og fjölbreytta ferðamáta.

Náttúruvernd í landsskipulagsstefnu.
    Náttúruvernd skipar eðli málsins samkvæmt mikinn sess í skipulagsmálum hér á landi. Náttúruvernd og sjálfbær þróun eru ákveðin leiðarstef í flestum köflum landsskipulagsstefnunnar og þá sérstaklega kaflana um skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli og skipulag á haf- og strandsvæðum.
    Nefndin telur rétt að árétta að með gildistöku nýrra náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, sbr. lög nr. 109/2015, urðu ýmsar breytingar á skilyrðum þess að náttúruminjum sem njóta verndar samkvæmt lögunum verði raskað vegna framkvæmda. Skilyrðin voru hert og tiltekið að brýna nauðsyn verði að bera til að raska megi náttúruminjum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laganna og náttúruminjum á náttúruminjaskrá, sbr. 37. gr. laganna. Þá var varúðarreglan lögfest í fyrsta sinn í íslenskri löggjöf en reglan er ein af meginreglum umhverfisréttar, sbr. 9. gr. laganna. Reglan kemur einnig fyrir í 13. gr. skipulagslaga og 13. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010. Reglan hefur þannig með beinum hætti áhrif á skipulagsmál sveitarfélaganna en í stuttu máli felst í henni að ef óvissa ríkir um afleiðingar framkvæmdar á náttúru skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón sem annars kunni að verða. Í þessu sambandi má einnig nefna regluna um fyrirbyggjandi áhrif sem lög um mat á umhverfisáhrifum eru öðrum þræði byggð á. Nefndin áréttar því að lög um náttúruvernd og þær kröfur og málsmeðferð sem þar er gert ráð fyrir gilda vegna framkvæmda sem kunna að raska náttúru eða náttúruminjum sem njóta verndar samkvæmt þeim lögum. Hafa ber það í huga þegar almennur texti landsskipulagsstefnu er rýndur nánar.

Skipulag á miðhálendi Íslands.
    Í 1. kafla landsskipulagsstefnu er fjallað um skiplag á miðhálendi Íslands. Eins og áður kom fram mun kaflinn taka við af svæðisskipulagi miðhálendisins verði tillagan samþykkt. Í því felst að sveitarfélögum á miðhálendinu ber að gæta að því að skipulagsáætlanir þeirra séu í samræmi við ákvæði landsskipulagsstefnu sem varða skipulag á miðhálendinu. Í kaflanum eru settar fram ákveðnar meginreglur og leiðarljós sem fylgja skuli við gerð skipulagsáætlana sem taka til miðhálendisins og tiltekin nokkur verkefni sem stjórnvöldum ber að vinna að. Í fyrsta lagi kemur fram sú stefnumörkun að staðinn skuli vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og að uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi verndunar miðhálendisins og að öll uppbygging innviða, hvort sem það er í þágu nýtingar, verndunar eða vegna ferðaþjónustu, verði í sátt við náttúru og umhverfi og þannig að það falli vel að umhverfinu og sýni því virðingu og að vandað verði til verka í allri hönnun. Hið sama á við um vegaframkvæmdir. Í þessu sambandi er vert að nefna þá umræðu sem er uppi um að gera miðhálendið að einum þjóðgarði. Nefndin tekur ekki afstöðu til þeirrar tillögu við afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu en í ljósi umræðunnar bendir nefndin á að hugmyndin um þjóðgarð á miðhálendinu felur ekki í sér skilyrðislaust bann við framkvæmdum og starfsemi heldur er um ákveðið stjórntæki að ræða sem hægt er að nota til að ákveða hvernig verndun náttúru miðhálendisins verði nánar háttað og hvar og undir hvaða kringumstæðum sé viðeigandi að ráðast í framkvæmdir eða starfsemi. Grunninntak hugmyndarinnar um þjóðgarð felur þó í sér sterka náttúruvernd sem er leiðarstef fyrir skipulag á miðhálendinu skv. 1. kafla landsskipulagsstefnu.
    Í köflum 1.1.3 og 1.1.4 er fjallað um hverfisverndun víðerna og viðkvæmra svæða og kortlagningu víðerna, en í síðarnefnda ákvæðinu eru Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun falið að hafa forgöngu um að uppfærð séu uppfærð kort af umfangi og þróun víðerna á miðhálendinu og að í því verkefni felist að ákveða viðmið fyrir mat á umfangi víðerna út frá skipulagssjónarmiðum og að hafa kort sem uppfærð eru reglulega um umfang víðerna aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila. Nefndin bendir á að í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð tillögunnar er vísað til skilgreiningar á óbyggðum víðernum í náttúruverndarlögum. Í 19. tölul. 5. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, eru óbyggð víðerni skilgreind þannig að þau séu svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum. Nefndin leggur áherslu á að gætt sé samræmis við vinnuna og að til grundvallar henni verði lögð framangreind skilgreining á óbyggðum víðernum í náttúruverndarlögum.
    Önnur mikilvæg verkefni sem stjórnvöldum er falið í landsskipulagsstefnu varðandi miðhálendið eru m.a. kortlagning mannvirkja og þjónustu, sbr,. kafla 1.2.2, mat á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja, sbr. kafla 1.2.3, og að halda kortagrunn um vegi, sbr. kafla 1.3.2. Nefndin leggur til breytingu á köflum 1.3.1, 1.3.2, 2.6.3 og 2.6.4 sem allir fjalla um kortagrunn yfir vegi, annars vegar á miðhálendinu og hins vegar í dreifbýli. Í 32. gr. náttúruverndarlaga er ákvæði um skrá yfir vegi í náttúru Íslands. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að Vegagerðin skuli halda skrá í stafrænum kortagrunn um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja sé heimil og skv. 2. mgr. skulu sveitarfélög gera tillögu að vegum í skrána innan sinna marka við gerð aðalskipulags og hljóti tillagan samþykkt samhliða afgreiðslu aðalskipulags eða breytinga á aðalskipulagi. Tillagan er háð samþykki Umhverfisstofnunar, eða annarra stjórnvalda þegar við á, á landsvæðum sem liggja innan friðlýstra svæða og þjóðgarða. Sveitarfélög skulu hafa samráð við Umhverfisstofnun og önnur stjórnvöld eftir því sem við á auk samtaka útivistarfélaga, náttúru- og umhverfisverndarsamtök, Bændasamtökin og Samtök ferðaþjónustunnar. Nefndin leggur til breytingu á framangreindum köflum til samræmis við ákvæði 32. gr. náttúruverndarlaga.

Skipulag í dreifbýli.
    Í 2. kafla landsskipulagsstefnu er fjallað um skipulag í dreifbýli. Er þar sett fram það meginviðmið að skipulag í dreifbýli gefi kost á fjölbreyttri nýtingu lands, svo sem til ræktunar, ferðaþjónustu og útivistar, í sátt við náttúru og landslag. Eru í kaflanum sett fram önnur meginviðmið um skipulagsgerð í dreifbýli, m.a. um sjálfbærni, auk verkefna stjórnvalda. Þau verkefni eru m.a. flokkun landbúnaðarlands, sbr. kafla 2.3.2, og um skrá yfir vegi, sbr. kafla 2.6.4. Nefndin bendir á mikilvægi þess að fjarskipti verð tryggð í dreifbýli enda eru góðar samgöngur og trygg fjarskipti forsenda byggðar í hinum dreifðu byggðum landsins, sbr. kafla 2.7.

Búsetumynstur og dreifing byggðar.
    Í 3. kafla stefnunnar er fjallað um búsetumynstur og dreifingu byggðar og tekur kaflinn til skipulags í þéttbýli. Er þar í upphafi sett fram það viðmið að skipulag byggðar stuðli að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri, samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags og að uppbygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis verði í samræmi við þarfir samfélagsins á hverjum tíma og til framtíðar. Meðal verkefna stjórnvalda samkvæmt kaflanum eru greining á vinnusóknar- og þjónustusvæðum á hendi Skipulagsstofnunar í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sveitarfélaga, sbr. kafla 3.1.2, að bæta upplýsingaskráningu, miðlun og greiningu upplýsinga um húsnæðismál með tilliti til skipulagsákvarðana, sem verður á höndum Þjóðskrár í samstarfi við Skipulagsstofnun og samtök sveitarfélaga, sbr. kafla 3.2.3, og að hafa forgöngu um úrlausn ágreiningsmála um innviði, sbr. kafla 3.5.3.
    Í kafla 3.5 er fjallað um sjálfbærar samgöngur. Kemur þar fram að skipulag byggðar og landnotkunar eigi að fela í sér samþætta stefnu um byggð og samgöngur með áherslu á greiðar, öruggar og vistvænar samgöngur og fjölbreytta ferðamáta. Í kafla 3.5.1 kemur fram það markmið að við skipulag byggðar og samgangna verði miðað við að sem flestir íbúar komist til næsta meginkjarna á innan við einni klukkustund og í kafla 3.5.4 kemur fram að við mótun samgönguáætlunar verði tekið mið af áherslum landsskipualgsstefnu varðandi sjálfbærar samgöngu í þéttbýli.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að samgöngur milli þéttbýliskjarna verði greiðar og hagkvæmar fyrir almenning. Ljóst er að innanlandsflug skiptir þar meginmáli í tengingu höfuðborgarsvæðisins við stærstu byggðakjarna á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri gegnir í þessu sambandi lykilhlutverki og ástæða til að hnykkja á því að í samgönguáætlun eru skilgreindir alþjóðaflugvellir í grunnneti og eru það Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur. Eins og áður hefur verið fjallað um eru í landsskipulagsstefnu samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun. Innanlandsflug gegnir mikilvægu hlutverki varðandi samgöngur og byggðamál og miðstöð innanlandsflugs er á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri. Þar sem í samgönguáætlun eru sett fram markmið stjórnvalda í samgöngumálum þarf landsskipulagsstefna að taka mið af henni.

Skipulag á haf- og strandsvæðum.
    Í 4. kafla er fjallað um skipulag á haf- og strandsvæðum. Er þar sett fram það meginviðmið að skipulag haf- og strandsvæða veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu á haf- og strandsvæðum um leið og viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland. Helsta verkefni stjórnvalda er að ljúka vinnu við gerð frumvarps til laga um skipulagsmál haf- og strandsvæða sem unnið er að í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Frumvarpið mun marka með nánari hætti stefnu í skipulagsmálum haf- og strandsvæða og vonandi skapa í þeim efnum ný tækifæri fyrir skilvirka stjórnsýslu og sjálfbæra nýtingu.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


     1.      2. málsl. kafla 1.3.1 orðist svo: Jafnframt geri þau grein fyrir og marki stefnu um aðra vegi en þjóðvegi á miðhálendinu í aðalskipulagi í samræmi við lög um náttúruvernd.
     2.      Kafli 1.3.2 orðist svo ásamt fyrirsögn:
             1.3.2 Skrá yfir aðra vegi en þjóðvegi í náttúru Íslands.
                      Á hverjum tíma skal Vegagerðin veita aðgang að skrá í stafrænum kortagrunn um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands. Í samræmi við lög um náttúruvernd skal hún byggð á tillögum sveitarfélaga og samráð haft við einstakar stofnanir eða samþykki þeirra aflað þegar um er að ræða friðlýst svæði og þjóðgarða.
     3.      Kafli 2.6.3 orðist svo ásamt fyrirsögn:
             2.6.3 Skipulag annarra vega en þjóðvega í náttúru Íslands.
                      Sveitarfélög geri grein fyrir og marki stefnu um aðra vegi en þjóðvegi í aðalskipulagi í samræmi við lög um náttúruvernd.
     4.      Kafli 2.6.4 orðist svo ásamt fyrirsögn:
             2.6.4 Skrá yfir aðra vegi en þjóðvegi í náttúru Íslands.
                      Á hverjum tíma skal Vegagerðin veita aðgang að skrá í stafrænum kortagrunn um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands. Í samræmi við lög um náttúruvernd skal hún byggð á tillögum sveitarfélaga og samráð haft við einstakar stofnanir eða samþykki þeirra aflað þegar um er að ræða friðlýst svæði og þjóðgarða.

    Katrín Júlíusdóttir og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Elín Hirst var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. mars 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir,
með fyrirvara.
Haraldur Einarsson.
Birgir Ármannsson. Ásta Guðrún Helgadóttir,
með fyrirvara.
Svandís Svavarsdóttir,
með fyrirvara.
Róbert Marshall,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.
Neðanmálsgrein: 1
1 www.landsskipulag.is/media/landsskipulagsstefna/Capacent-2016-Uttekt-a-samradsferli- landsskipulagsstefnu.pdf