Ferill 617. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1019  —  617. mál.



Frumvarp til laga

um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna
refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um afhendingu á manni milli Íslands og aðildarríkja Evrópusambandsins og milli Íslands og annarra norrænna ríkja fyrir refsiverðan verknað á grundvelli handtökuskipunar. Maður sem er eftirlýstur á grundvelli handtökuskipunar skal handtekinn og afhentur til þess ríkis sem gaf handtökuskipunina út samkvæmt ákvæðum þessara laga.
    Til að fá mann handtekinn og afhentan til Íslands vegna meðferðar á sakamáli eða til fullnustu á refsingu er hægt að gefa út handtökuskipun samkvæmt ákvæðum þessara laga.

2. gr.
Tengsl við lög um meðferð sakamála.

    Þegar annað er ekki tekið fram í lögum þessum gilda ákvæði laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.

3. gr.
Skilgreining hugtaka.

    Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Evrópsk handtökuskipun: Ákvörðun sem tekin er í einu aðildarríki Evrópusambandsins, Íslandi eða Noregi um að biðja eitthvert þessara ríkja um að handtaka og afhenda eftirlýstan mann vegna meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í ríkinu sem hefur gefið handtökuskipunina út eða til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu.
     2.      Norræn handtökuskipun: Ákvörðun sem tekin er í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi eða Svíþjóð um að biðja eitthvert þessara ríkja um að handtaka og afhenda eftirlýstan mann vegna meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í ríkinu sem hefur gefið handtökuskipunina út eða til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu.
     3.      Handtökuskipun: Samheiti um norræna og evrópska handtökuskipun.
     4.      Framsal: Framsal á sakamönnum fyrir refsiverða verknaði samkvæmt lögum nr. 13/ 1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, eða sambærilegar reglur í erlendu ríki.

4. gr.

Hlutverk ríkissaksóknara.

    Handtökuskipun frá erlendu ríki skal send ríkissaksóknara.
    Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um afhendingu á eftirlýstum manni samkvæmt ákvæðum laga þessara. Hann tekur jafnframt aðrar ákvarðanir í tengslum við afhendingu nema annað sé tekið fram í lögunum.
    Ákvarðanir ríkissaksóknara samkvæmt ákvæðum laga þessara eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

5. gr.
Íslenskir ríkisborgarar.

    Ákvæði laga þessara gilda einnig um afhendingu íslenskra ríkisborgara.

6. gr.
Form og innihald handtökuskipunar.

    Handtökuskipun skal rituð á samræmt eyðublað og innihalda upplýsingar um:
     a.      nafn, heimilisfang, síma- og bréfsímanúmer og netfang þess sem hefur gefið handtökuskipunina út,
     b.      persónuauðkenni og ríkisfang þess eftirlýsta,
     c.      hvort til staðar sé fullnustuhæfur dómur, handtökuskipun dómara eða önnur dómsniðurstaða sem hefur sömu réttaráhrif,
     d.      eðli afbrotsins með vísun til þeirra refsiákvæða sem við eiga um verknaðinn,
     e.      við hvaða aðstæður afbrot var framið, hvar og hvenær og hver þáttur þess eftirlýsta var í því,
     f.      dæmda refsingu eða refsiramma sem gildir um afbrotið í því ríki sem gaf handtökuskipunina út, og
     g.      aðrar afleiðingar afbrotsins eftir því sem unnt er.
    Handtökuskipun sem gefin er út til Íslands skal vera rituð á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku eða henni skal fylgja þýðing á eitt af framangreindum tungumálum.
    Nú eru verulegir ágallar á handtökuskipun og telst hún þá ekki handtökuskipun samkvæmt lögum þessum. Í slíkum tilvikum skal ríkissaksóknari hafna beiðni, en áður en slíkt er gert skal gefa þeim sem gaf hana út færi á lagfæringu.

II. KAFLI
Skilyrði afhendingar frá Íslandi samkvæmt evrópskri handtökuskipun.
7. gr.
Lágmarksrefsirammi eða dæmd refsing.

    Heimilt er að afhenda mann til aðildarríkis í Evrópusambandinu á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar:
     a.      til meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í minnst eitt ár í ríkinu sem gaf handtökuskipunina út, eða
     b.      til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu þegar dæmd refsing eða ákvörðun um aðra frjálsræðissviptingu er minnst fjórir mánuðir.
    Nú er handtökuskipun gefin út vegna fleiri en eins refsiverðs verknaðar og skal þá afhenda eftirlýstan mann þótt skilyrði fyrir afhendingu séu einungis til staðar varðandi einn af verknuðunum.

8. gr.
Tvöfalt refsinæmi.

    Það er skilyrði fyrir afhendingu manns samkvæmt evrópskri handtökuskipun að verknaður sem er forsenda eftirlýsingar, eða sambærilegur verknaður, sé jafnframt refsiverður samkvæmt íslenskum lögum.
    Skilyrðið um tvöfalt refsinæmi skv. 1. mgr. gildir ekki þegar tilgreindur verknaður í handtökuskipun er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og verknaðurinn fellur undir:
     a.      hryðjuverk eða skylt afbrot sem tilgreint er í 1. og 2. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum og 1., 2., 3. og 4. gr. rammaákvörðunar Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um baráttu gegn hryðjuverkum,
     b.      ólöglega verslun með fíkniefni og skynvilluefni,
     c.      manndráp,
     d.      alvarlega líkamsárás,
     e.      mannrán, ólöglega frelsissviptingu eða gíslatöku,
     f.      nauðgun,
enda varði verknaðurinn fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í minnst eitt ár eða meira í því ríki sem gaf handtökuskipunina út. Gildir þá einu hvort viðkomandi hafi tekið þátt í raunverulegri framkvæmd verknaðarins enda hafi aðild hans verið með ásetningi og framkvæmd með þeirri vitneskju að þátttaka hans stuðli að því að hin skipulögðu brotasamtök nái markmiði starfsemi sinnar.
    Tvöfalt refsinæmi skv. 1. mgr. er ekki skilyrði ef tilgreindur verknaður í handtökuskipun getur varðað fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í þrjú ár eða lengri tíma í því ríki sem gaf handtökuskipunina út, enda geri það ríki ekki kröfu um tvöfalt refsinæmi vegna afhendingar manns til Íslands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar, og verknaðurinn fellur undir:
     a.      þátttöku í brotasamtökum,
     b.      hryðjuverk,
     c.      mansal,
     d.      kynferðislega misnotkun á börnum og barnaklám,
     e.      ólögleg viðskipti með ávana- og fíkniefni og skynvilluefni,
     f.      ólögleg viðskipti með vopn, skotfæri og sprengiefni,
     g.      spillingu,
     h.      svik, þ.m.t. svik sem skaða fjárhagslega hagsmuni Evrópubandalaganna í skilningi samningsins frá 26. júlí 1995 um verndun fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna,
     i.      þvætti ávinnings af afbrotum,
     j.      peningafölsun,
     k.      tölvubrot,
     l.      umhverfisbrot, þ.m.t. ólögleg viðskipti með dýr, plöntur og yrki í útrýmingarhættu,
     m.      aðstoð við ólöglega komu til ríkis og búsetu,
     n.      morð og alvarlega líkamsárás,
     o.      ólögleg viðskipti með líffæri og vefi úr mönnum,
     p.      mannrán, frelsissviptingu og gíslatöku,
     q.      kynþáttafordóma og útlendingahatur,
     r.      skipulagt eða vopnað rán,
     s.      ólögleg viðskipti með menningarverðmæti, þ.m.t. forngripi og listaverk,
     t.      fjársvik,
     u.      fjárkúgun,
     v.      eftirlíkingu og ólöglega nýtingu á vörum,
     w.      fölsun á opinberum skjölum og viðskipti með slík skjöl,
     x.      fölsun greiðslumiðla,
     y.      ólögleg viðskipti með hormónaefni og aðra vaxtarhvata,
     z.      ólögleg viðskipti með kjarnakleyf eða geislavirk efni,
     aa.      viðskipti með stolin ökutæki,
     bb.      nauðgun,
     cc.      brennu,
     dd.      afbrot sem heyra undir lögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins,
     ee.      skips- eða flugrán,
     ff.      eignaspjöll.

9. gr.
Skyldubundnar synjunarástæður.

    Synja skal um afhendingu á eftirlýstum manni samkvæmt evrópskri handtökuskipun þegar:
     a.      veitt hefur verið sakaruppgjöf vegna sama verknaðar hér á landi,
     b.      hann getur ekki vegna aldurs borið refsiábyrgð vegna verknaðarins hér á landi,
     c.      hann hefur verið dæmdur fyrir sama verknað hér á landi með endanlegum dómi og refsingin hefur þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki er lengur unnt að fullnusta hana,
     d.      hér á landi liggur fyrir endanlegur dómur þar sem beitt hefur verið öryggisráðstöfunum gagnvart honum vegna sama verknaðar og þeim hefur þegar verið aflétt, verið er að framkvæma þær eða ekki er lengur unnt að framkvæma þær,
     e.      hér á landi liggur fyrir endanleg viðurlagaákvörðun vegna sama verknaðar sem þegar hefur verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki er lengur unnt að fullnusta hana,
     f.      mál gegn honum vegna sama verknaðar hefur verið afgreitt með ákærufrestun hér á landi,
     g.      ríkissaksóknari hefur upplýsingar um að honum hafi verið refsað fyrir sama verknað með endanlegum dómi í aðildarríki Evrópusambandsins eða ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu eða hefur verið refsað með annarri endanlegri ákvörðun í slíku ríki sem kemur í veg fyrir frekari málsmeðferð vegna sama verknaðar og að slík ákvörðun hafi verið fullnustuð, verið sé að fullnusta hana eða ekki sé lengur unnt að fullnusta hana,
     h.      málsmeðferð er í gangi eða endanlegur dómur eða önnur endanleg niðurstaða liggur fyrir hjá alþjóðadómstól sem hindrar frekari málsmeðferð hér á landi og þegar þessi viðurlög hafa þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta þau eða ekki er lengur unnt að fullnusta þau,
     i.      verknaðurinn hefur verið framinn að hluta eða í heild hér á landi eða á svæði sem fellur undir íslenska refsilögsögu og hann er annaðhvort ekki refsiverður eða refsiábyrgð eða réttur til að fullnusta refsingu hefur fyrnst samkvæmt íslenskum lögum.
    Einnig skal synja um afhendingu manns samkvæmt handtökuskipun er greinir í 1. mgr. ef afhending á manni samkvæmt henni er í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og þeirra samningsviðauka sem hafa lagagildi hér á landi.

10. gr.
Heimilar synjunarástæður.

    Heimilt er að synja beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni samkvæmt evrópskri handtökuskipun þegar:
     a.      rannsókn vegna sama verknaðar er í gangi hér á landi og hún beinist að hinum eftirlýsta,
     b.      ríkissaksóknari hefur vitneskju um að honum hafi verið refsað fyrir sama verknað með endanlegum dómi í ríki utan Evrópusambandsins og Schengen-samstarfsins, refsingin hafi þegar verið fullnustuð, verið sé að fullnusta hana eða hún sé fallin niður samkvæmt lögum viðkomandi ríkis,
     c.      handtökuskipunin varðar fullnustu refsivistar samkvæmt dómi og sá sem er eftirlýstur er búsettur eða dvelur á Íslandi eða er íslenskur ríkisborgari og íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að fullnusta refsingu dómsins eða ákvörðun um frjálsræðissviptingu samkvæmt honum,
     d.      handtökuskipunin varðar beiðni um að afhenda íslenskan ríkisborgara og er gefin út af ríki sem afhendir ekki eigin ríkisborgara til Íslands.
    Áður en beiðni um afhendingu er synjað samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal gefa eftirlýstum manni kost á að tjá sig.

11. gr.
Stjórnmálaafbrot.

    Heimilt er að synja um afhendingu á manni sem er eftirlýstur í evrópskri handtökuskipun vegna stjórnmálaafbrota.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við þegar tilgreindur verknaður í handtökuskipun fellur undir:
     a.      afbrot sem um getur í 1. og 2. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum,
     b.      afbrot sem felast í samsæri eða samanteknum ráðum, sem svara til lýsingar á því framferði sem um getur í 2. mgr. 8. gr., að fremja eitt eða fleiri þeirra afbrota sem um getur í 1. og 2. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum, eða
     c.      1., 2., 3. og 4. gr. rammaákvörðunar frá 13. júní 2002 um baráttuna gegn hryðjuverkum.

12. gr.
Dómur kveðinn upp án þess að eftirlýstur maður sé til staðar.

    Þegar evrópsk handtökuskipun felur í sér beiðni um afhendingu á manni til fullnustu á fangelsisrefsingu eða öðrum viðurlögum um frjálsræðissviptingu sem dæmd eru án nærveru eftirlýsts manns og án þess að hann hafi verið upplýstur um tíma og stað fyrir málsmeðferðina, skal beiðni hafnað nema ríkið sem gaf hana út tryggi að eftirlýstur maður geti krafist nýrrar málsmeðferðar þar sem hann eigi rétt á að vera til staðar.
    Sú trygging sem um ræðir í 1. mgr. skal liggja fyrir áður en héraðsdómur úrskurðar um hvort skilyrði fyrir afhendingu séu til staðar.

III. KAFLI
Málsmeðferð vegna evrópskrar handtökuskipunar.
13. gr.
Handtaka og skýrslutaka.

    Nú telur ríkissaksóknari að skilyrði 6. gr. sé fullnægt og skal hann þá krefjast handtöku hins eftirlýsta svo fljótt sem unnt er. Við handtöku skal hinn eftirlýsti upplýstur um handtökuskipunina.
    Við skýrslutöku í kjölfar handtöku skal eftirlýstum manni gefinn kostur á að samþykkja afhendingu og skal hann upplýstur um þýðingu samþykkis. Skal honum skipaður verjandi.
    Ef eftirlýstur maður samþykkir afhendingu skv. 2. mgr. skal hann einnig spurður, ef við á, hvort hann samþykki málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða en þess sem er grundvöllur handtökuskipunarinnar og sem framdir voru fyrir afhendingu.

14. gr.
Gæsluvarðhald og beiting annarra þvingunarráðstafana.

    Nú telur ríkissaksóknari nauðsynlegt að eftirlýstur maður sé í haldi vegna meðferðar málsins og skal hann þá leggja fram beiðni um gæsluvarðhald í héraðsdómi. Við mat á slíkri beiðni skal dómur leggja til grundvallar upplýsingar í handtökuskipuninni nema þær séu augljóslega rangar.
    Gæsluvarðhaldi skal ekki markaður lengri tími en fjórar vikur, sem heimilt er að framlengja um sama tíma í hvert sinn.
    Beita má vægari þvingunarráðstöfunum þegar þær teljast fullnægjandi til að koma í veg fyrir að eftirlýstur maður komi sér undan málsmeðferð.
    Með bókun í þingbók skal héraðsdómur staðfesta hvort samþykki skv. 2. og 3. mgr. 13. gr. liggi fyrir. Að gengnum úrskurði er eigi unnt að afturkalla samþykki fyrir afhendingu.
    Frestur til að kæra úrskurð um gæsluvarðhald eða beitingu annarra þvingunarráðstafana til Hæstaréttar er einn sólarhringur.

15. gr.
Ákvörðun um afhendingu.

    Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni. Ríkissaksóknari skal leggja þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun til grundvallar ákvörðun sinni nema þær séu augljóslega rangar. Ef eftirlýstur maður hefur samþykkt afhendingu skal endanleg ákvörðun um afhendingu tekin innan tíu daga frá því að samþykki liggur fyrir. Ef eftirlýstur maður samþykkir ekki afhendingu skal ríkissaksóknari taka ákvörðun um afhendingu innan 20 daga frá handtöku hins eftirlýsta manns.
    Ef eftirlýstur maður hefur ekki samþykkt afhendingu getur hann krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga fyrir afhendingu séu fyrir hendi. Ríkissaksóknari skal, jafnframt því sem hann tilkynnir manninum um ákvörðun sína og rök fyrir henni, láta hann vita um heimild þessa. Krafa um úrskurð skal berast ríkissaksóknara eigi síðar en sólarhring eftir að þeim sem óskast afhentur er tilkynnt um að orðið hafi verið við beiðni um afhendingu. Ef sérstakar ástæður mæla með getur ríkissaksóknari leyft að ákvörðun um afhendingu sé borin undir dómstól þótt framangreindur frestur sé liðinn. Hafi úrskurðar verið krafist innan lögmælts frests eða undanþága leyfð skal afhending ekki fara fram fyrr en endanlegur dómsúrskurður hefur verið kveðinn upp.
    Upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun skulu lagðar til grundvallar úrskurði héraðsdóms nema þær séu augljóslega rangar. Héraðsdómur skal kveða upp úrskurð innan 40 daga frá handtöku hins eftirlýsta. Heimilt er að kæra úrskurð til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum um meðferð sakamála að öðru leyti en því að kærufrestur er einn sólarhringur. Kæra frestar afhendingu. Hæstiréttur skal kveða upp dóm innan 60 daga frá handtöku hins eftirlýsta.
    Nú liggur endanleg ákvörðun um afhendingu fyrir og skal ríkissaksóknari þá þegar tilkynna það þeim aðila sem gaf handtökuskipunina út. Um málsmeðferð afhendingar fer skv. 30. gr.
    Nú nýtur eftirlýstur maður forréttinda eða friðhelgi hér á landi, sbr. 26. gr., vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni og byrjar frestur þá ekki að líða fyrr en forréttindin eða friðhelgin hefur verið afnumin. Hafi eftirlýstur maður áður verið framseldur eða afhentur til Íslands og frekari afhending krefst samþykkis frá því ríki sem framseldi eða afhenti hann, byrjar frestur ekki að líða fyrr en viðkomandi ríki hefur veitt samþykki sitt.
    Nú er ekki unnt að taka ákvörðun í máli innan tilgreinds frests og skal ríkissaksóknari þá strax skýra þeim sem gaf handtökuskipunina út frá því.
    

16. gr.
Samþykki fyrir málsmeðferð fyrir annan refsiverðan verknað
og til áframhaldandi afhendingar eða framsals.

    Þegar þess er farið á leit er heimilt að samþykkja beiðni frá aðildarríki Evrópusambandsins sem fengið hefur mann afhentan á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar til:
     a.      málsmeðferðar eða fullnustu refsingar gagnvart viðkomandi manni fyrir annan verknað en þann sem var forsenda afhendingar og sem var framinn fyrir afhendingu,
     b.      að afhenda viðkomandi mann áfram til annars aðildarríkis Evrópusambandsins eða Noregs fyrir verknað framinn fyrir afhendinguna,
     c.      að framselja viðkomandi mann til ríkis utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins fyrir verknað framinn fyrir afhendinguna enda sé hann ekki íslenskur ríkisborgari.
    Beiðni um samþykki vegna tilvika sem greinir í a- og b-lið 1. mgr. skal vera í samræmi við ákvæði 6. gr. og skal hún send ríkissaksóknara. Veita skal samþykki ef skilyrði til afhendingar eru til staðar fyrir verknaðinn sem beiðnin fjallar um með þeim skilyrðum og skilmálum er leiðir af lögum þessum. Afhentur maður á rétt á verjanda í þessum tilvikum. Ákvæði 15. gr. gilda eftir því sem við á. Verjandi afhents manns getur krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði til afhendingar séu fyrir hendi. Ákveði héraðsdómur ekki annað sætir beiðni þessi skriflegri málsmeðferð. Endanleg ákvörðun skal liggja fyrir innan 30 daga frá því að beiðnin var móttekin.
    Beiðni um samþykki vegna tilviks sem greinir í c-lið 1. mgr. skal send ráðherra og fer um meðferð slíkrar beiðni samkvæmt lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

IV. KAFLI
Skilyrði afhendingar frá Íslandi samkvæmt norrænni handtökuskipun.
17. gr.
Lágmarksrefsirammi eða dæmd refsing.

    Heimilt er að afhenda mann til norræns ríkis á grundvelli norrænnar handtökuskipunar:
     a.      til meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í ríkinu sem gaf handtökuskipunina út, eða
     b.      til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu.
    Nú er handtökuskipunin gefin út vegna fleiri en eins refsiverðs verknaðar og skal þá afhenda eftirlýstan mann þótt skilyrði fyrir afhendingu séu einungis uppfyllt varðandi einn af verknuðunum.

18. gr.
Skyldubundnar synjunarástæður.

    Synja skal beiðni um afhendingu á manni sem eftirlýstur er í norrænni handtökuskipun þegar til staðar eru þær synjunarástæður er greinir í a–h-lið 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. sömu greinar.

19. gr.
Heimilar synjunarástæður.

    Heimilt er að hafna beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni samkvæmt norrænni handtökuskipun:
     a.      þegar þær aðstæður er greinir í 1. mgr. 10. gr. eru til staðar, eða
     b.      verknaðurinn hefur verið framinn að hluta eða í heild hér á landi eða á svæði sem fellur undir íslenska refsilögsögu og hann er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum.
    Áður en beiðni um afhendingu er synjað samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal gefa eftirlýstum manni kost á að tjá sig.

V. KAFLI
Málsmeðferð vegna norrænnar handtökuskipunar.
20. gr.
Handtaka og skýrslutaka.

    Nú telur ríkissaksóknari að skilyrði 6. gr. sé fullnægt og skal hann þá krefjast handtöku hins eftirlýsta svo fljótt sem unnt er. Við handtöku skal hinn eftirlýsti upplýstur um handtökuskipunina.
    Við skýrslutöku í kjölfar handtöku skal eftirlýstum manni gefinn kostur á að samþykkja afhendingu og skal hann upplýstur um þýðingu samþykkis. Skal honum skipaður verjandi.
    Ef eftirlýstur maður samþykkir afhendingu skv. 2. mgr. skal hann einnig spurður, ef við á, hvort hann samþykki málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða sem framdir voru fyrir afhendingu.

21. gr.
Gæsluvarðhald og beiting annarra þvingunarráðstafana.

    Nú telur ríkissaksóknari nauðsynlegt að eftirlýstur maður sé í haldi vegna meðferðar málsins og skal hann þá leggja fram beiðni um gæsluvarðhald í héraðsdómi. Við mat á slíkri beiðni skal dómur leggja til grundvallar upplýsingar í handtökuskipuninni nema þær séu augljóslega rangar.
    Gæsluvarðhaldi skal ekki markaður lengri tími en tvær vikur, sem heimilt er að framlengja um sama tíma í hvert sinn. Þessi tímamörk gilda ekki þegar til staðar eru fleiri ósamrýmanlegar handtökuskipanir eða framsalsbeiðnir eða viðkomandi hefur verið framseldur hingað til lands frá ríki utan Evrópusambandsins eða Norðurlandanna.
    Beita má vægari þvingunarráðstöfunum þegar þær teljast fullnægjandi til að koma í veg fyrir að eftirlýstur maður komi sér undan málsmeðferð.
    Með bókun í þingbók skal héraðsdómur staðfesta hvort samþykki skv. 2. og 3. mgr. 20. gr. liggi fyrir. Unnt er að afturkalla samþykki. Samþykki fyrir málsmeðferð vegna annars refsiverðs verknaðar verður einungis afturkallað ef samþykki fyrir afhendingu er jafnframt afturkallað.
    Frestur til að kæra úrskurð um gæsluvarðhald eða beitingu annarra þvingunarráðstafana til Hæstaréttar er einn sólarhringur.

22. gr.
Ákvörðun um afhendingu.

    Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni. Ríkissaksóknari skal leggja þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun til grundvallar ákvörðun sinni nema þær séu augljóslega rangar. Nú samþykkir eftirlýstur maður afhendingu og skal ríkissaksóknari innan þriggja virkra daga frá því að samþykki var gefið taka ákvörðun um hvort skilyrði fyrir afhendingu séu til staðar. Ef eftirlýstur maður samþykkir ekki afhendingu skal ríkissaksóknari taka ákvörðun um afhendingu innan tíu daga frá handtöku hins eftirlýsta manns.
    Ef eftirlýstur maður hefur ekki samþykkt afhendingu getur hann krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga fyrir afhendingu séu fyrir hendi. Ríkissaksóknari skal, jafnframt því sem hann tilkynnir manninum um ákvörðun sína og rök fyrir henni, láta hann vita um heimild þessa. Krafa um úrskurð skal berast ríkissaksóknara eigi síðar en sólarhring eftir að þeim sem óskast afhentur er tilkynnt um að orðið hafi verið við beiðni um afhendingu. Ef sérstakar ástæður mæla með getur ríkissaksóknari leyft að ákvörðun um afhendingu sé borin undir dómstól þótt framangreindur frestur sé liðinn. Hafi úrskurðar verið krafist innan lögmælts frests eða undanþága leyfð skal afhending ekki fara fram fyrr en endanlegur dómsúrskurður hefur verið kveðinn upp.
    Upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun skulu lagðar til grundvallar úrskurði héraðsdóms nema þær séu augljóslega rangar. Héraðsdómur skal kveða upp úrskurð innan 20 daga frá handtöku hins eftirlýsta. Heimilt er að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum um meðferð sakamála að öðru leyti en því að kærufrestur er einn sólarhringur. Kæra frestar afhendingu. Hæstiréttur skal kveða upp dóm innan 30 daga frá handtöku hins eftirlýsta.
    Nú liggur endanleg ákvörðun um afhendingu fyrir og skal ríkissaksóknari þá þegar tilkynna það til þess aðila sem gaf handtökuskipunina út. Um málsmeðferð afhendingar fer skv. 30. gr.
    Nú nýtur eftirlýstur maður forréttinda eða friðhelgi hér á landi, sbr. 26. gr., vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipun og byrjar frestur í slíkum tilvikum ekki að líða fyrr en forréttindi eða friðhelgi hefur verið afnumin. Nú hefur eftirlýstur maður verið afhentur eða framseldur hingað til lands og afhending áfram krefst samþykkis frá því ríki sem afhenti eða framseldi hann byrjar frestur ekki að líða fyrr en viðkomandi ríki hefur samþykkt afhendinguna.
    Nú er ekki unnt að taka ákvörðun í máli innan tilgreinds frests og skal ríkissaksóknari þá strax skýra þeim sem gaf handtökuskipunina út frá því.

23. gr.
Samþykki fyrir málsmeðferð eða fullnustu refsingar fyrir annan refsiverðan verknað.

    Nú hefur afhending á eftirlýstum manni samkvæmt norrænni handtökuskipun átt sér stað og það ríki sem fékk manninn afhentan biður um samþykki til málsmeðferðar eða fullnustu refsingar fyrir annan verknað sem framinn var áður en handtökuskipunin var gefin út og skal slík beiðni þá samþykkt nema til staðar séu skyldubundnar synjunarástæður skv. 18. gr. Einnig er heimilt að synja beiðni þegar valkvæð synjunarástæða skv. b-lið 1. mgr. 19. gr. er til staðar.
    Beiðni um samþykki skal vera í samræmi við ákvæði 6. gr. og skal hún send ríkissaksóknara. Ákvæði 22. gr. gilda eftir því sem við á. Afhentur maður á rétt á verjanda í þessum tilvikum. Verjandi afhents manns getur krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði til afhendingar séu fyrir hendi. Ákveði héraðsdómur ekki annað sætir beiðni þessi skriflegri málsmeðferð. Endanleg ákvörðun skal liggja fyrir innan 30 daga frá því að beiðnin var móttekin.

24. gr.
Samþykki til áframhaldandi afhendingar eða framsals.

    Heimilt er að samþykkja að maður sem afhentur er til norræns ríkis samkvæmt norrænni handtökuskipun verði afhentur áfram til aðildarríkis Evrópusambandsins utan Norðurlandanna fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna. Samþykkja skal slíka beiðni ef fallist hefði verið á beiðni um afhendingu fyrir verknaðinn samkvæmt evrópskri handtökuskipun. Í þessum tilvikum gilda ákvæði 2. mgr. 23. gr.
    Um beiðni um samþykki til áframhaldandi framsals til ríkis utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins fer samkvæmt ákvæðum í lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

VI. KAFLI
Sameiginleg ákvæði um norrænar og evrópskar handtökuskipanir.
25. gr.
Móttaka og framsending á handtökuskipunum til afhendingar frá Íslandi.

    Nú skráir stjórnvald þátttökuríkis eftirlýstan mann í Schengen-upplýsingakerfið eða annað kerfi fyrir eftirlýsingar á mönnum grunuðum um refsiverð afbrot og skal slík skráning þá jafngilda norrænni eða evrópskri handtökuskipun þar til handtökuskipun berst þótt skráningin hafi ekki að geyma allar þær upplýsingar sem greinir í 6. gr.
    Handtökuskipun frá öðru ríki skal send ríkissaksóknara. Nú berst handtökuskipun til annars stjórnvalds hér á landi og skal það þá strax framsenda hana til ríkissaksóknara og tilkynna þeim sem gaf handtökuskipunina út um framsendinguna.

26. gr.
Forréttindi og friðhelgi.

    Njóti eftirlýstur maður forréttinda eða friðhelgi með tilliti til málsmeðferðar eða fullnustu refsingar sem íslensk stjórnvöld geta aflétt skal ríkissaksóknari án dráttar beina því til réttra stjórnvalda að upphefja forréttindin eða friðhelgina. Þegar það er háð samþykki stjórnvalda í erlendu ríki eða alþjóðlegum stofnunum skal ríkissaksóknari þegar upplýsa það ríki sem gaf handtökuskipunina út um að ekki sé hægt að afhenda eftirlýstan mann samkvæmt henni fyrr en forréttindunum eða friðhelginni hefur verið aflétt.

27. gr.
Skilyrt afhending.

    Þegar handtökuskipun varðar afhendingu eftirlýsts manns vegna málsmeðferðar og hann er búsettur hér á landi eða er íslenskur ríkisborgari er heimilt að setja það skilyrði fyrir afhendingu að hann verði sendur aftur hingað til lands til að afplána hugsanlega refsingu. Eftirlýstum manni skal gefinn kostur á að tjá sig áður en slíkt skilyrði er sett.
    Setja skal það skilyrði fyrir afhendingu á íslenskum ríkisborgara að afhending á honum áfram til annars þátttökuríkis fyrir verknað, sem framinn er áður en afhending átti sér stað, skuli ekki eiga sér stað án samþykkis íslenskra stjórnvalda afhendi það ríki ekki eigin ríkisborgara til Íslands. Jafnframt skal setja það skilyrði að óheimilt sé að framselja viðkomandi áfram til þriðja ríkis.

28. gr.
Handtökuskipun vegna eftirlýsts manns sem afhentur
eða framseldur hefur verið til Íslands.

    Nú hefur eftirlýstur maður verið afhentur hingað til lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar og er þá heimilt að afhenda hann áfram til annars norræns ríkis á grundvelli norrænnar handtökuskipunar vegna refsiverðs verknaðar sem framinn var fyrir afhendingu hingað til lands. Afhending áfram til annars ríkis í Evrópusambandinu utan Norðurlandanna er heimil í þeim tilvikum er greinir í a-, c-, d- og e-lið 2. mgr.
    Eftirlýstur maður, sem hefur verið afhentur til Íslands samkvæmt evrópskri handtökuskipun, skal ekki afhenda áfram til annars aðildarríkis Evrópusambandsins eða Noregs fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna. Þó er heimilt að afhenda hann áfram ef:
     a.      eftirlýstur maður á dómþingi samþykkir skriflega áframhaldandi afhendingu til málsmeðferðar vegna verknaðarins,
     b.      eftirlýstur maður hefur samþykkt að vera afhentur til Íslands og í því samhengi einnig samþykkt að sæta málsmeðferð eða fullnustu refsingar fyrir verknað framinn fyrir afhendinguna,
     c.      eftirlýstur maður hefur ekki yfirgefið landið þótt hann hafi átt þess kost í 45 daga,
     d.      eftirlýstur maður hefur sjálfviljugur farið aftur til landsins eftir að hafa yfirgefið það,
     e.      ríkið sem afhenti eftirlýstan mann til Íslands samþykkir áframhaldandi afhendingu.
    Þegar ríki, sem afhent hefur eftirlýstan mann hingað til lands, setur skilyrði um samþykki þess fyrir áframhaldandi afhendingu skal ríkissaksóknari senda viðkomandi ríki beiðni um að það samþykki afhendinguna. Beiðnin skal vera í samræmi við ákvæði 32. gr. og skal send því stjórnvaldi í ríkinu sem afhenti viðkomandi og sem bært er til að taka ákvörðun.
    Áframhaldandi afhending skal ekki eiga sér stað ef það er í andstöðu við sérstök skilyrði sem sett voru fyrir afhendingu.
    Þegar eftirlýstur maður er framseldur til Íslands frá ríki utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins skal viðkomandi ekki afhentur áfram í andstöðu við skilyrði sem sett voru fyrir framsalinu. Þegar afhending áfram krefst samþykkis frá því ríki sem framseldi manninn skulu þar til bær stjórnvöld tryggja að því ríki verði án dráttar send beiðni um slíkt samþykki.

29. gr.
Ákvörðun um afhendingu þegar beiðnum lýstur saman.

    Nú liggja fleiri en ein handtökuskipun fyrir varðandi sama mann og ákveður ríkissaksóknari þá við hvaða beiðni verði orðið.
    Þegar framsalsbeiðni frá ríki utan Norðurlandanna og Evrópusambandinu liggur fyrir til viðbótar við eina eða fleiri handtökuskipun ákveður ráðherra við hvaða beiðni verði orðið eða eftir atvikum synjað. Ríkissaksóknari kannar hvort skilyrði til afhendingar séu til staðar áður en málið er sent ráðuneytinu til ákvörðunar.
    Við mat á því við hvaða handtökuskipun eða framsalsbeiðni skuli orðið skal taka tillit til grófleika afbrots, hvar það var framið, hvenær handtökuskipanirnar eða framsalsbeiðnirnar voru gefnar út og hvort þær eru gefnar út vegna málsmeðferðar eða til fullnustu refsingar.

30. gr.
Frestur til afhendingar.

    Þegar endanleg ákvörðun um afhendingu á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar liggur fyrir skal afhenda eftirlýstan mann eins fljótt og unnt er og í síðasta lagi tíu sólarhringum eftir að ákvörðunin var tekin. Þegar um norræna handtökuskipun er að ræða er fresturinn fimm sólarhringar. Nú er ekki unnt vegna sérstakra aðstæðna að afhenda eftirlýstan mann innan framangreindra tímamarka og skal ríkissaksóknari þá strax semja um nýjan frest við þann sem gaf handtökuskipunina út.
    Heimilt er að fresta afhendingu ef ríkar mannúðarástæður mæla með því. Þegar þessar ástæður eru ekki lengur til staðar semur ríkissaksóknari um nýjan frest til afhendingar við þann sem gaf handtökuskipunina út. Afhending skal þá eiga sér stað innan tíu sólarhringa frá því að þær ástæður sem komu í veg fyrir afhendingu eru ekki lengur til staðar.
    Eftirlýstur maður, sem er í gæsluvarðhaldi vegna eftirlýsingar í handtökuskipun, skal látinn laus ef afhending á sér ekki stað innan tímamarka 1. og 2. mgr.

31. gr.
Frestur og tímabundin afhending.

    Heimilt er að fresta afhendingu eftirlýsts manns vegna málsmeðferðar hér á landi gegn honum sökum annars refsiverðs verknaðar eða vegna fullnustu refsingar sökum annars afbrots.
    Í stað þess að fresta afhendingu er heimilt að afhenda eftirlýstan mann tímabundið samkvæmt skilyrðum sem samið er um í skriflegu samkomulagi milli ríkissaksóknara og þess sem gaf handtökuskipunina út.

VII. KAFLI
Afhending til Íslands.
32. gr.
Útgáfa evrópskrar handtökuskipunar.

    Ríkissaksóknari gefur út evrópska handtökuskipun:
     a.      vegna málsmeðferðar gagnvart eftirlýstum manni, enda liggi fyrir handtökuskipun gefin út af dómstól fyrir verknað sem getur varðað fangelsisrefsingu í a.m.k. eitt ár, eða
     b.      vegna fullnustu refsingar, enda liggi fyrir endanlegur dómur sem felur í sér fangelsisrefsingu eða aðra frjálsræðissviptingu í a.m.k. fjóra mánuði.
    Í handtökuskipun má tilgreina verknaði sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. ef einn verknaðurinn uppfyllir þau. Í slíku tilviki er nægilegt vegna útgáfu handtökuskipunar til málsmeðferðar að fyrir liggi handtökuskipun dómstóls vegna eins af verknuðunum.
    Efni og form handtökuskipunarinnar skal vera í samræmi við 1. mgr. 6. gr. Þegar verknaðurinn getur varðað a.m.k. þriggja ára fangelsisrefsingu og hann telst verknaður sem greinir í a–ff-lið 3. mgr. 8. gr. skal það tekið fram. Sama gildir þegar ákvæði 2. mgr. 8. gr. eiga við.
    Handtökuskipunin skal rituð eða þýdd á tungumál þess ríkis sem hún er send til eða á annað tungumál sem það ríki samþykkir.

33. gr.
Útgáfa norrænnar handtökuskipunar.

    Ríkissaksóknari gefur út norræna handtökuskipun:
     a.      vegna málsmeðferðar gagnvart eftirlýstum manni þegar grunur leikur á að hann hafi framið refsiverðan verknað sem getur varðað fangelsisrefsingu, eða
     b.      vegna fullnustu refsingar þegar til staðar er endanlegur dómur sem felur í sér fangelsisrefsingu eða aðra frjálsræðissviptingu.
    Efni og form handtökuskipunar skal vera í samræmi við 1. mgr. 6. gr. og skal hún rituð á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku.
    Í handtökuskipun má tilgreina verknaði sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. ef einn verknaðurinn uppfyllir þau.

34. gr.
Sending handtökuskipunar.

    Handtökuskipun skal skráð í Schengen-upplýsingakerfið eða annað kerfi fyrir eftirlýsingar á mönnum sem eru grunaðir um að hafa framið refsiverða verknaði. Þær upplýsingar sem greinir í 1. mgr. 6. gr. og ekki er unnt að skrá í Schengen-upplýsingakerfið skulu eins fljótt og unnt er sendar því stjórnvaldi í ríkinu þar sem maðurinn hefur fundist og sem er bært til að taka á móti handtökuskipuninni.
    Þegar vitað er hvar eftirlýstur maður dvelur er til viðbótar einnig hægt að senda handtökuskipunina því stjórnvaldi í dvalarríkinu sem er bært til að taka á móti handtökuskipuninni.

35. gr.
Frádráttur gæsluvarðhalds við fullnustu refsingar.

    Nú er eftirlýstur maður sendur hingað til lands vegna fullnustu á refsingu hér á landi og skal þá draga frá refsingunni þann tíma sem hann var sviptur frjálsræði vegna meðferðar beiðninnar um afhendingu í því ríki sem tók á móti handtökuskipuninni. Sama gildir þegar eftirlýstur maður er afhentur vegna málsmeðferðar verði hann dæmdur í fangelsisrefsingu hér á landi vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni.

36. gr.
Málsmeðferð vegna annars refsiverðs verknaðar.

    Ekki er heimilt að sækja til saka eða fullnusta refsingu gagnvart þeim sem afhentur hefur verið hingað til lands frá aðildarríki Evrópusambandsins vegna eftirlýsingar í evrópskri handtökuskipun fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn var fyrir afhendinguna en þann sem tilgreindur er í handtökuskipuninni.
    Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki þegar:
     a.      viðkomandi samþykkir eftir afhendingu málsmeðferð eða fullnustu refsingar fyrir tilgreindan verknað sem framinn var fyrir afhendingu; samþykki skal gefið fyrir dómi, skráð í þingbók og undirritað,
     b.      viðkomandi samþykkti að verða afhentur hingað til lands og samþykkti í því samhengi einnig að sæta málsmeðferð eða fullnustu refsingar gegn sér fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna,
     c.      eftirlýstur maður hefur ekki yfirgefið Ísland þótt hann hafi átt þess kost í 45 daga,
     d.      eftirlýstur maður hefur sjálfviljugur komið aftur til Íslands eftir að hafa yfirgefið landið,
     e.      verknaðurinn sem framinn var fyrir afhendinguna sætir einungis sektarrefsingu, eða
     f.      ríkið sem afhenti eftirlýstan mann hingað til lands samþykkir málsmeðferð eða fullnustu refsingar fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendingu.
    Sækja má þann til saka eða fullnusta refsingu gagnvart þeim sem afhentur hefur verið hingað til lands frá öðru norrænu ríki vegna eftirlýsingar í norrænni handtökuskipun fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn var fyrir afhendinguna en þann sem tilgreindur er í handtökuskipuninni nema:
     a.      í því ríki sem afhenti viðkomandi séu til staðar þau atriði er greinir í a–f-lið 1. mgr. 9. gr. eða fyrir liggi upplýsingar um atriði er greinir í g- eða h-lið sömu greinar, eða
     b.      verknaðurinn sé að hluta eða í heild framinn á landsvæði þess ríkis sem afhenti viðkomandi eða á stað sem jafna megi til þess og verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt löggjöf þess ríkis nema það ríki samþykki málsmeðferðina.
    Þrátt fyrir að skilyrði b-liðar 3. mgr. séu uppfyllt er heimilt að sækja þann til saka sem afhentur er hingað til lands vegna afbrots sem framið var fyrir afhendinguna þegar ákvæði c- og d-liðar 2. mgr. eiga við eða hann hefur fyrir eða eftir afhendinguna samþykkt málsmeðferð vegna annars verknaðar.
    Beiðni um samþykki skv. f-lið 2. mgr. og b-lið 3. mgr. skal send þar til bæru stjórnvaldi í því ríki sem afhenti viðkomandi í samræmi við ákvæði 32. og 33. gr.

37. gr.
Áframhaldandi framsal.

    Nú er maður afhentur til Íslands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar og skal þá ekki framselja hann áfram til ríkis utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna án samþykkis þess ríkis sem afhenti hann, enda leiði ekki annað af samþykki fyrir afhendingu.
    Eftirlýstan mann, sem hefur verið afhentur til Íslands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar, má einungis framselja áfram til ríkis utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna ef viðkomandi samþykkir framsalið eða ákvæði c-, d- og f-liðar 2. mgr. 36. gr. eiga við.
    Ráðherra tekur ákvörðun um áframhaldandi framsal samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/ 1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

38. gr.
Endursending manns sem er afhentur til Íslands.

    Nú er eftirlýstur maður afhentur hingað til lands vegna málsmeðferðar með því skilyrði að hann verði fluttur aftur til þess ríkis sem afhenti hann að málsmeðferð lokinni og skal ríkissaksóknari þá sjá til þess að það verði gert.
    Nú sætir sá sem afhenda á til baka ekki gæsluvarðhaldi, er þá heimilt að handtaka hann og úrskurða í gæsluvarðhald sé það talið nauðsynlegt til að unnt sé að senda hann til baka. Viðkomandi skal ekki úrskurðaður í lengra gæsluvarðhald en tíu daga og ekki lengra gæsluvarðhald en fimm daga ef afhenda á hann til baka til annars norræns ríkis. Þegar sérstakar aðstæður koma í veg fyrir afhendingu innan þeirra fresta sem hér greinir er heimilt að framlengja gæsluvarðhald um tíu daga, en fimm daga ef afhenda á viðkomandi til baka til annars norræns ríkis.

VIII. KAFLI
Önnur ákvæði varðandi afhendingu.
39. gr.
Haldlagning og afhending muna.

    Ríkissaksóknari skal láta leggja hald á mun og afhenda hann þegar munurinn telst hafa þýðingu sem sönnunargagn í málinu sem tilgreint er í handtökuskipun eða er ágóði af refsiverða verknaðinum. Sama gildir um aðra hluti eða ágóða sem heimilt er að gera upptæka samkvæmt ákvæðum VII. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þegar ríkið sem gefið hefur handtökuskipunina út krefst þess og þeir mundu sæta upptöku samkvæmt lögum þess ríkis sem gaf handtökuskipunina út.
    Ákvæði 1. mgr. gilda þótt eftirlýstur maður sé látinn eða horfinn.
    Ríkissaksóknari getur látið halda mun skv. 1. mgr. eða afhent hann tímabundið þegar hann telst hafa þýðingu vegna sönnunar í tengslum við mál sem rekið er hér á landi.
    Afhending hefur ekki áhrif á gildandi réttindi varðandi muninn. Heimilt er að setja skilyrði fyrir afhendingu ef það er nauðsynlegt til að verja slík réttindi.

40. gr.
Tímabundin afhending.

    Nú er til staðar handtökuskipun um handtöku og afhendingu á eftirlýstum manni vegna málsmeðferðar og getur ríkissaksóknari þá samkvæmt kröfu samþykkt tímabundna afhendingu á honum til yfirheyrslu í ríkinu sem gaf handtökuskipunina út.
    Óheimilt er að samþykkja tímabundna afhendingu þegar ljóst er að synjað verður um afhendingu á eftirlýstum manni eða nauðsynlegt er talið að viðkomandi sé hér á landi vegna meðferðar sakamáls eða meðferðar á handtökuskipuninni. Við mat á því hvort samþykkja skuli tímabundna afhendingu skal m.a. taka tillit til þess hvort afhendingin muni lengja frjálsræðissviptingu á eftirlýstum manni. Eftirlýstur maður á rétt á því að tjá sig um málið áður en ákvörðun er tekin.
    Ríkissaksóknari ákveður tímasetningu afhendingar og setur þau skilyrði sem hann telur nauðsynleg.

41. gr.
Gegnumflutningur.

    Heimilt er að flytja þann sem afhentur er frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð til eins af þessum ríkjum um íslenskt yfirráðasvæði án sérstaks samþykkis.
    Ráðherra skal heimila gegnumflutning eftirlýsts manns á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar um íslenskt yfirráðasvæði, enda hafi íslensk stjórnvöld móttekið upplýsingar um persónuauðkenni og ríkisfang hins eftirlýsta manns, eðli afbrotsins og hvaða refsiákvæði eigi við það, við hvaða aðstæður afbrotið var framið, þ.m.t. hvar og hvenær. Þegar afhending er til ríkis sem ekki afhendir eigin ríkisborgara hingað til lands skal synja um gegnumflutning ef eftirlýstur maður er íslenskur ríkisborgari. Í öðrum tilvikum þegar eftirlýstur maður er íslenskur ríkisborgari er heimilt að binda samþykkið skilyrðum.
    Ákvæði 2. mgr. gilda eftir því sem við á þegar framselja á mann frá ríki utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins til aðildarríkis í Evrópusambandinu eða Noregs.

IX. KAFLI
Gildistaka.
42. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi, að því er varðar norræna handtökuskipun, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla brott lög nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun) frá 25. febrúar 2010.
    Lög þessi, að því er varðar evrópska handtökuskipun, öðlast gildi við gildistöku samnings milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs. Ráðherra skal birta auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistöku laganna að þessu leyti.

43. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög nr. 69/1963, um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl.: 6. gr. laganna orðast svo:
                 Nú er maður fluttur samkvæmt ákvæðum 5. gr. til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar til að afplána fangelsisrefsingu þar og gilda þá ákvæði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar um málsmeðferð, fullnustu refsingar og um afhendingu og áframhaldandi framsal fyrir aðra verknaði sem framdir eru fyrir afhendinguna.
     2.      Lög nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, með áorðnum breytingum:
                  a.      Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um afhendingu á milli Íslands og aðildarríkja Evrópusambandsins og milli Íslands og annarra norrænna ríkja á manni vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar gilda ákvæði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.
                  b.      3. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
                      Samþykki til að viðkomandi maður verði framseldur áfram til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar er þó heimilt að veita ef skilyrði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar eru til staðar.
                  c.      21. gr. laganna fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Nú er beiðni um afhendingu sakamanns til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar móttekin fyrir gildistöku laga þessara og fer þá um meðferð hennar samkvæmt lögum nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
    Nú er beiðni um framsal sakamanns til ríkis í Evrópusambandinu móttekin fyrir gildistöku laga þessara og fer þá um meðferð hennar samkvæmt lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi (463. mál) en var ekki afgreitt og er nú endurflutt óbreytt efnislega. Frumvarpið er samið á vegum innanríkisráðuneytisins.
    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um heildarlöggjöf um skilyrði handtöku og afhendingar manna vegna refsiverðrar háttsemi á milli Íslands annars vegar og Norðurlandanna og aðildarríkja Evrópusambandsins hins vegar. Upphaflega stóð til að með frumvarpinu yrði gerð breyting á lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, en eftir gildistöku laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), hinn 16. október 2012 var ákveðið að sameina í eina löggjöf ákvæði fyrrgreindra laga og nýrra lagaákvæða er leiða af skuldbindingum Íslands vegna hinnar svokölluðu evrópsku handtökuskipunar.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sameinuð verði í einni löggjöf ákvæði laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), og ný lagaákvæði er leiða af skuldbindingum Íslands vegna hinnar svokölluðu evrópsku handtökuskipunar, sbr. samning milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs, sem undirritaður var 28. júní 2006. Með framangreindum lögum nr. 12/2010 voru samþykkt ný lög um framsal (afhendingu) sakamanna á milli norrænu ríkjanna og leystu þau af hólmi lög nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Með lögunum var fyrirkomulag um afhendingu sakamanna á milli norrænu ríkjanna gert bæði einfaldara og skilvirkara og byggjast lögin á samningi um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun) sem undirritaður var 15. desember 2005.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga að nýju fyrirkomulagi varðandi afhendingu sakamanna milli ríkja sem kemur í stað hefðbundins framsalsfyrirkomulags og byggist á gagnkvæmri viðurkenningu og trausti ríkja á réttarkerfum hvers annars. Þörfin á nýju fyrirkomulagi um framsal byggist m.a. á því að í auknum mæli eru afbrot skipulögð og ganga þvert á landamæri. Árangursrík barátta gegn afbrotum á svæði þar sem frjáls för fólks ríkir gerir þá kröfu að eitt ríki setji ekki upp hindranir vegna rannsóknar eða málsmeðferðar í sakamálum. Afhendingarfyrirkomulagið á þannig að vera árangursríkara tæki í baráttu gegn afbrotum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Eins og fyrr greinir er með frumvarpi þessu lagt til að sameinuð verði í einni löggjöf ákvæði laga nr. 12/2010, um norræna handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða, og ný lagaákvæði er leiða af skuldbindingum Íslands vegna hinnar svokölluðu evrópsku handtökuskipunar.

A. Evrópsk handtökuskipun.
    Hinn 28. júní 2006 var undirritaður í Vín samningur milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs. Á 133. löggjafarþingi (þskj. 971 í 652. máli) var lögð fram þingsályktunartillaga um staðfestingu samninga milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs og gagnkvæma réttaraðstoð og staðfestingu ákvörðunar ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 2003/169/JHA. Þar var m.a. lagt til að Alþingi ályktaði að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd framangreindan samning. Tillögunni var vísað til utanríkismálanefndar til umfjöllunar. Með nefndaráliti 6. mars 2007 lagði nefndin til að tillagan yrði samþykkt og að lokum heimilaði Alþingi ríkisstjórninni að staðfesta samninginn með samþykkt á Alþingi þann 16. mars 2007. Með frumvarpi þessu eru lagðar til lagabreytingar til að unnt verði að fullgilda framangreindan samning.
    Á síðustu tveimur áratugum hefur samstarf aðildarríkja Evrópusambandsins á sviði dóms- og innanríkismála stóraukist. Meðal annars hefur verið lögð áhersla á að auka samvinnu á sviði gagnkvæmrar réttaraðstoðar í sakamálum, þ.m.t. framsali sakamanna. Árið 1995 gerðu aðildarríki Evrópusambandsins samning sín á milli um einfaldaða málsmeðferð við framsal sakamanna sín á milli og árið 1996 gerðu þau samning um framsal sakamanna. Meginmarkmið þessara tveggja samninga var að einfalda og hraða framkvæmd framsalsmála. Þá samþykkti ráðherraráð Evrópusambandsins í júní 2002 rammaákvörðun nr. 2002/584/JHA um evrópsku handtökuskipunina. Í henni felast ákveðnar grundvallarbreytingar á framkvæmd framsalsmála á milli aðildarríkja Evrópusambandsins.
    Í Schengen-samningnum frá 1990 eru ákvæði um gagnkvæma réttaraðstoð og framsal sakamanna. Þróun samstarfs um þessi atriði meðal aðildarríkja Evrópusambandsins hefur því bein áhrif á framkvæmd Schengen-samstarfsins. Þrátt fyrir það hefur það verið afstaða Evrópusambandsins að samstarf aðildarríkjanna á þessu sviði falli aðeins að hluta til undir Schengen-samstarfið. Í ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 2003/169/JHA kemur fram hvaða ákvæði framsalssamninganna frá 1995 og 1996 teldust vera þróun á Schengen- gerðunum samkvæmt samningnum um þátttöku lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. Þar kemur fram að hluti ákvæða framangreindra framsalssamninga teljist vera þróun á Schengen-gerðunum og skuli af þeim sökum gilda einnig gagnvart Íslandi og Noregi. Aftur á móti taldi Evrópusambandið að rammaákvörðun ráðherraráðsins nr. 2002/584/JHA um evrópsku handtökuskipunina teldist í engu tengjast Schengen-gerðunum.
    Af þessu leiðir að einungis hluti af þeim reglum sem gilda meðal aðildarríkja Evrópusambandsins um framsal sakamanna fellur undir Schengen-samstarfið. Hin nánu tengsl á milli Schengen-ríkjanna á sviði landamæravörslu gera það að verkum að þessi ríki eiga mikla hagsmuni af samvinnu í baráttunni gegn afbrotum. Aukið samstarf milli Schengen-ríkjanna á sviði framsalsmála er til þess fallið að styrkja aðgerðir stjórnvalda í þessum ríkjum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Af þessum sökum var það sameiginleg niðurstaða aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs að hefja samningaviðræður um nánara samstarf á þessu sviði. Niðurstaðan var sérstakur samningur um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs sem undirritaður var í Vín 28. júní 2006 og er grundvöllur frumvarps þessa.
    Efni samningsins er á flestum sviðum hliðstætt rammaákvörðun Evrópusambandsins um hina evrópsku handtökuskipun. Felur það m.a. í sér að leitast er við að einfalda málsmeðferð vegna meðferða á beiðnum um afhendingu sakamanna.
    Í fyrsta lagi er meginreglan um tvöfalt refsinæmi framfylgt í samningnum sem þýðir að brot sem stendur að baki afhendingarbeiðni verður að vera refsivert í báðum þeim ríkjum sem hlut eiga að máli. Með sérstakri yfirlýsingu er þó heimilt að hverfa frá þessari meginreglu að því er varðar tiltekin afbrot, eins og þeim er nánar lýst í 4. mgr. 3. gr. samningsins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að slík yfirlýsing verði gefin af hálfu Íslands. Íslensk yfirvöld þurfa því ekki að athuga skilyrðið um tvöfalt refsinæmi þegar brot sem handtökuskipun grundvallast á er eitt þeirra brota sem talin eru upp í 4. mgr. 3. gr. samningsins og þegar sá verknaður getur varðað fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í þrjú ár eða lengri tíma í því ríki sem gaf handtökuskipunina út. Þess má þó geta að þau afbrot sem eru talin upp í ákvæðinu eru nú þegar refsiverð samkvæmt íslenskum lögum og því hefur þetta takmarkaða þýðingu að þessu leyti. Þá má einnig taka fram að samningurinn um evrópska handtökuskipun gerir ráð fyrir því að ekki verði synjað um afhendingu á grundvelli tvöfalds refsinæmis vegna tiltekinna alvarlegra brota sem teljast til hryðjuverka, þegar þau eru framin af samtökum manna í þeim tilgangi sem getið er um í Evrópusamningi um varnir gegn hryðjuverkum og rammaákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002, sbr. 3. mgr. 3. gr. samningsins og 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi er í samningnum gert ráð fyrir þeirri meginreglu að ríki afhendi eigin ríkisborgara. Í samningaviðræðum Íslands og Noregs við Evrópusambandið um aðkomu ríkjanna tveggja að hinni evrópsku handtökuskipun var af hálfu Íslands lögð áhersla á að ekki yrði fallist á afhendingu íslenskra ríkisborgara. Var því sett heimild í samninginn um að frá framangreindri meginreglu mætti víkja með sérstakri yfirlýsingu. Við undirbúning að smíði og gerð frumvarpsins leitaði ráðuneytið álits refsiréttarnefndar hvort ástæða væri til að endurskoða framangreinda afstöðu sem mótuð var af hálfu íslenskra yfirvalda í samningaviðræðunum um aðild Íslands að evrópsku handtökuskipuninni, þ.e. um bann við afhendingu íslenskra ríkisborgara. Í umsögn nefndarinnar kemur fram að framsalsreglur hafa sögulega þróast í samskiptum ríkja og eiga þær að fela í sér gagnkvæma viðurkenningu á nauðsyn virkrar aðstoðar og samstarfs á sviði refsimála til að markmið innlendrar refsivörslu nái í hvívetna tilgangi sínum. Með vísan til athugasemda við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, (Alþt. 1983–84, A-deild, bls. 793–794), telur refsiréttarnefnd að það kunni að vera rökrétt og nauðsynlegt fyrir hið íslenska refsivörslukerfi að þróun í alþjóðlegu samstarfi ríkja, sem Ísland er aðili að, hafi eftir atvikum áhrif við mat á hvort ástæða sé til að breyta þeim efnisreglum sem íslensk framsalslöggjöf hefur stuðst við undanfarna áratugi. Vaxandi samgangur og samstarf á milli landa kann því að auka þörfina fyrir breytingar sem leiða til aukins samræmis á milli framsalsreglna hér á landi og í þeim ríkjum sem eru þátttakendur í slíku samstarfi. Þá bendir refsiréttarnefnd jafnframt á að vegna sameiginlegra refsivörslusjónarmiða hefur verið talið mikilvægt að gæta verulegs samræmis við mótun og þróun framsalsreglna hér á landi og sambærilegra reglna á hinum Norðurlöndunum. Þá má ráða af framangreindum athugasemdum við 2. gr. laga nr. 13/1984 að það var sjálfstæð röksemd fyrir banni við framsali íslenskra ríkisborgara að slíkt bann væri einnig að finna í löggjöf hinna Norðurlandanna með þó þeirri undantekningu sem fólst í heimildum til að framselja norræna ríkisborgara á milli Norðurlandanna. Nú hefur slíkt bann verið afnumið í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð með þátttöku þeirra að evrópsku handtökuskipuninni sem aðildarríki að Evrópusambandinu. Þá hafa Norðmenn ákveðið að nýta sér ekki þessa undanþágu í samningnum og munu því einnig afhenda eigin ríkisborgara á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar. Það er því afstaða refsiréttarnefndar að hvorki stjórnskipuleg né sérstök refsiréttarleg rök standi því í vegi að horfið sé í einhverjum mæli frá hinu fortakslausa banni við framsali íslenskra ríkisborgara til annarra ríkja en Norðurlandanna sem nú er í gildi. Nefndin bendir þó á að ákvörðun af því tagi verði hverju sinni að taka nægilegt mið af grundvallarsjónarmiðum um réttaröryggi íslenskra ríkisborgara og erlendra sakamanna og mannúðarsjónarmiðum sem búa að baki gildandi fyrirkomulagi í þessum efnum. Því verði að meta í hverju tilviki þann ávinning sem felst í rýmkun á reglum af þessu tagi fyrir íslenskt refsivörslukerfi og af þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggæslu, svo sem um evrópska handtökuskipun. Þá skiptir máli hvernig fyrirkomulagi og málsmeðferð framsalsmála sé háttað, m.a. með tilliti til réttaröryggis sakamanna, sem samið er um á vettvangi slíks samstarfs og ástands refsivörslu í einstökum aðildarríkjum, m.a. hvað varðar grundvallarreglur refsiréttar. Efnis- og málsmeðferðarreglur um framsal íslenskra ríkisborgara verða sem fyrr að tryggja að lagt verði á það mat hvort tilefni sé til að verða við beiðni um framsal frá ríki innan Evrópusambandsins að virtu réttaröryggi sakamanna.
    Á undanförnum áratugum hefur þörfin fyrir alþjóðlegt samstarf við rannsókn og meðferð sakamála aukist til muna. Skipulögð brotastarfsemi er í eðli sínu alþjóðleg og fer fram þar sem ávinnings má vænta. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari þróun en opinberar skýrslur síðastliðinna ára lýsa umtalsverðri aukningu skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi. Færst hefur í vöxt að hérlendir glæpahópar séu í tengslum við alþjóðleg glæpasamtök sem stunda skipulagða brotastarfsemi víða um heim. Skipulögð brotasamtök stunda margvíslega glæpi, en hér á landi hafa þau einkum verið tengd við stórtæk fíkniefnabrot, gróft ofbeldi, fjárkúganir, hótanir, frelsissviptingar, mansal, vændi, vopnalagabrot og svokallaða handrukkun. Þegar skipulögð brotastarfsemi teygir anga sína yfir landamæri er þörf á alþjóðlegri samvinnu löggæsluyfirvalda hlutaðeigandi ríkja og mikilvægt er að eitt ríki setji ekki upp hindranir vegna rannsóknar eða málsmeðferðar í sakamálum. Miðað við hina norrænu og evrópsku þróun framsalsreglna sem rakin hefur verið hér að framan kann sú afstaða Íslands mjög að orka tvímælis að afhenda ekki eigin ríkisborgara, enda kann slíkt að spilla fyrir lögreglusamvinnu og rannsóknum sakamála við önnur Evrópuríki. Ef ákveðið verður að nýta undantekninguna um bann við afhendingu eigin ríkisborgara þá er öðrum ríkjum, sem taka þátt í evrópsku handtökuskipuninni, heimilt að beita gagnkvæmni við framkvæmd handtökuskipunar og synja um afhendingu ríkisborgara sinna til Íslands. Ljóst er að með slíku fyrirkomulagi mun þátttaka Íslands að hinni evrópsku handtökuskipun takmarkast að verulegu leyti enda er meginreglan um afhendingu eigin ríkisborgara ein grundvallarregla samstarfsins. Þá felur framangreind meginregla ekki einungis í sér skyldu til að afhenda eigin ríkisborgara heldur einnig rétt á að í ríkara mæli fá afhenta hingað til lands, til málsmeðferðar við rannsókn sakamála eða til fullnustu íslenskra dóma, erlenda glæpamenn sem komist hafa af landi brott. Að lokum ber að nefna að evrópska handtökuskipunin tekur einungis til samstarfs aðildarríkja Evrópusambandsins og því verður áfram óheimilt að framselja íslenska ríkisborgara til ríkja utan þess, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Með vísan til alls framangreinds gerir frumvarpið ekki ráð fyrir að yfirlýsing verði gefin af hálfu Íslands um að við afhendum ekki eigin ríkisborgara, sbr. 2. mgr. 7. gr. samningsins.
    Í þriðja lagi er samkvæmt samningnum óheimilt að synja um afhendingu á grundvelli stjórnmálaafbrota. Heimilt er að gefa út yfirlýsingu um að framangreind meginregla gildi einungis í tengslum við hryðjuverkabrot eins og þeim er nánar lýst í 6. gr. samningsins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að slík yfirlýsing verði gefin af hálfu Íslands. Í samningnum eru að öðru leyti ákvæði um form og efni afhendingarbeiðna, málsmeðferð þeirra og fresti til ákvörðunartöku, en áhersla er lögð á að ákvörðun dragist ekki úr hófi fram. Einnig er mælt fyrir um hvernig staðið skuli að afhendingu viðkomandi einstaklings og innan hvaða tímamarka afhending skuli fara fram.

B. Norræn handtökuskipun.
    Með lögum nr. 7/1962, um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, voru fyrstu lögin sett hér á landi um framsal sakamanna á milli Norðurlandanna. Ákveðið var að endurskoða framsalsfyrirkomulagið á milli Norðurlandanna eftir að Danmörk, Finnland og Svíþjóð samþykktu rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópska handtökuskipun og málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkjanna (2002/584/RA) sem hefur verið nefnd evrópska handtökuskipunin og var reifuð hér að framan. Vilji stóð til að gera framsalsfyrirkomulagið á milli Norðurlandanna a.m.k. jafn víðtækt og árangursríkt og það fyrirkomulag sem komið hefði verið á á milli aðildarríkja Evrópusambandsins með evrópsku handtökuskipuninni. Í framhaldinu var samningur um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar (norræn handtökuskipun) undirritaður í Kaupmannahöfn 15. desember 2005. Hinn 16. febrúar 2010 samþykkti Alþingi lög nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), og tóku þau gildi 16. október 2012.
    Samningurinn um norræna handtökuskipun leggur á nokkrum sviðum víðtækari skyldur á samningsaðila en evrópska handtökuskipunin í þeim tilgangi að gera málsmeðferð vegna afhendingar skilvirkari og árangursríkari. Má þar nefna að krafan um tvöfalt refsinæmi er aflögð sem þýðir að ríki sem tekur á móti norrænni handtökuskipun getur ekki neitað afhendingu á þeirri forsendu að verknaðurinn sem tilgreindur er í beiðninni sé ekki refsiverður í viðkomandi ríki. Þá er ekki lengur gerð krafa um að verknaður varði tilgreindri lágmarksrefsingu, ekki er gerður greinarmunur á eigin ríkisborgurum og erlendum, valfrjálsar synjunarástæður eru færri, styttri frestir eru til ákvörðunar og afhendingar og í ríkari mæli er hægt að sækja þann sem er afhentur til saka fyrir önnur afbrot sem framin eru fyrir afhendingu.
    Í 4. kafla samningsins eru ákvæði um sérstakar reglur um afhendingu til og frá Íslandi. Þar eru ákvæði um að þrengja megi gildissvið samningsins eins og það er skýrt í 2. gr. hans þegar um er að ræða afhendingu milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar að því leyti að synja megi um afhendingu nema eftirlýstur maður hafi, síðastliðin tvö ár fyrir refsiverðan verknað, verið búsettur í landinu sem gaf handtökuskipunina út eða verknaðurinn eða sambærilegur verknaður varði þyngri refsingu en 4 ára fangelsi. Þá megi synja um afhendingu á íslenskum ríkisborgurum vegna stjórnmálabrota og ríkisborgurum annarra ríkja vegna stjórnmálaafbrota nema verknaðurinn eða sambærilegur verknaður sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann. Í samræmi við ákvæði laga nr. 12/2010 gera ákvæði frumvarpsins ekki ráð fyrir að heimilt verði að synja um afhendingu á eftirlýstum manni þó að þessar aðstæður séu til staðar. Þá var því lýst yfir við staðfestingu samningsins að íslensk stjórnvöld muni ekki beita takmörkunum á afhendingu á eftirlýstum mönnum samkvæmt þessum ákvæðum samningsins.

C. Uppbygging frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í níu kafla og eru heiti kaflanna þessi:
         I.     Almenn ákvæði.
         II.     Skilyrði afhendingar frá Íslandi samkvæmt evrópskri handtökuskipun.
         III.     Málsmeðferð vegna evrópskrar handtökuskipunar.
         IV.     Skilyrði afhendingar frá Íslandi samkvæmt norrænni handtökuskipun.
         V.     Málsmeðferð vegna norrænnar handtökuskipunar.
         VI.     Sameiginleg ákvæði um norrænar og evrópskar handtökuskipanir.
         VII.     Afhending til Íslands.
         VIII.     Önnur ákvæði varðandi afhendingu.
         IX.     Lokaákvæði.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins verður ekki talið stangast á við stjórnarskrá og samrýmist að fullu alþjóðlegum skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur gengist undir.
    Í 1. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segir að íslenskum ríkisborgara verði ekki meinað að koma til landsins né verði honum vísað úr landi. Í því felst þó ekki bann við að íslenskir ríkisborgarar verði framseldir til annars ríkis vegna gruns um refsiverða háttsemi eða til afplánunar á erlendum refsidómi, enda hefur verið heimilt að framselja íslenska ríkisborgara frá árinu 1962, sbr. lög nr. 7/1962, um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, og síðar lög nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun). Þá er innleiðing evrópsku og norrænu handtökuskipunarinnar liður í að fullgilda alþjóðasamninga sem íslenska ríkið hefur undirgengist.

V. Samráð.
    Frumvarpið var samið á vegum innanríkisráðuneytisins að höfðu samráði við embætti ríkissaksóknara. Eins og rakið hefur verið var frumvarpið lagt fram á 144. löggjafarþingi (463. mál) en ekki afgreitt. Frumvarpið hafði áður verið kynnt á vef ráðuneytisins, auk þess sem sérstaklega var óskað eftir umsögnum frá ríkislögreglustjóra, lögregluembættum landsins, Fangelsismálastofnun og embætti ríkissaksóknara. Auk þess var refsiréttarnefnd falið að veita umsögn varðandi afhendingu á íslenskum ríkisborgurum. Umsagnir bárust frá ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara.

VI. Mat á áhrifum.
    Hið nýja fyrirkomulag sem kveðið er á um í frumvarpi þessu er í nokkrum grundvallaratriðum ólíkt því sem nú er. Í fyrsta lagi er hugtakinu „framsal“ skipt út fyrir orðið „afhending“ til að leggja áherslu á að um fljótvirkara kerfi er að ræða, en það er í samræmi við orðanotkun í evrópsku handtökuskipuninni þar sem orðið „surrender“ er notað í staðinn fyrir „extradition“. Í öðru lagi gilda styttri tímafrestir um málsmeðferð og afhendingu. Í þriðja lagi koma þau ráðuneyti sem fara með dómsmál ekki að málsmeðferðinni þar sem í samningunum er miðað við að ákæruvaldið eða önnur stjórnvöld í réttarkerfinu sem tilnefnd eru skuli gefa handtökuskipun út, taka á móti henni og fjalla um hana og taka ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu eða ekki. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ríkissaksóknari muni gegna því hlutverki hér á landi. Í fjórða lagi er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir því að rýmkuð verði heimild til þess að afhenda íslenska ríkisborgara til annarra ríkja en Norðurlandaríkjanna og mun heimildin nú einnig ná til ríkja sem standa að hinni evrópsku handtökuskipun.
    Gert er ráð fyrir að embætti ríkissaksóknara þurfi 6,4 millj. kr. til að geta ráðið í hálft stöðugildi aðstoðarsaksóknara þar sem útgáfa á handtökuskipunum verður í höndum þess sem felur í sér aukið vinnuálag. Innsendar handtökuskipanir verða settar í forgang og allir frestir verða mjög stuttir. Mál sem varða handtökuskipanir verða því að vera framar öðrum forgangsmálum og starfsmaður ríkissaksóknara þarf að vera tiltækur. Á móti kemur að verkefni sem áður hafa verið unnin á aðalskrifstofu innanríkisráðuneytisins í tengslum við ákvarðanir um framsal og svara til 0,25 stöðugildis færast nú til embættis ríkissakskóknara. Við það er gert ráð fyrir að framlög til innanríkisráðuneytisins lækki um 2,5 millj. kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist um 3,9 millj. kr. en ekki hefur verið gert ráð fyrir því í útgjaldaramma gildandi fjárlaga. Því mun þurfa að finna þessum útgjöldum stað í útgjaldaramma þessa málaflokks innanríkisráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun sem og í fjárlögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að lögin gilda annars vegar um afhendingu á manni milli Íslands og aðildarríkja Evrópusambandsins og hins vegar milli Íslands og annarra norrænna ríkja fyrir refsiverðan verknað á grundvelli handtökuskipunar. Þá kemur einnig fram í ákvæðinu sú meginregla að ríki sem tekur á móti handtökuskipun ber skylda til að handtaka og afhenda eftirlýstan mann því ríki sem gaf beiðnina út, nema til staðar séu nánar tilgreindar synjunarástæður, sbr. 9. og 10. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um að þegar ekki er annað tekið fram gildi ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Í frumvarpinu eru tiltekin frávik frá lögum um meðferð sakamála. Þau mikilvægustu eru að lagt er til að kærufrestur vegna úrskurðar um gæsluvarðhald eða beitingu annarra þvingunarráðstafana í tengslum við meðferð beiðni um afhendingu, sbr. 14. og 21. gr. frumvarpsins, verði einn sólarhringur í stað þriggja.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er að finna skilgreiningu á því hvað felst í hugtökunum evrópsk handtökuskipun, norræn handtökuskipun, handtökuskipun og framsal.
    Með hugtakinu evrópsk handtökuskipun er átt við handtökuskipun samkvæmt samningnum milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs, sem undirritaður var í Vín 28. júní 2006. Evrópsk handtökuskipun er ákvörðun sem tekin er í einu aðildarríki Evrópusambandsins, Íslandi eða Noregi í þeim tilgangi að eitthvert hinna ríkjanna handtaki eftirlýstan mann vegna málsmeðferðar eða fullnustu fangelsisrefsingar og afhendi hann til þess ríkis sem tók ákvörðunina.
    Skilgreiningin á hugtakinu norræn handtökuskipun svarar til 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. samningsins um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar (norræn handtökuskipun), sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 15. desember 2005. Norræn handtökuskipun er ákvörðun sem tekin er í norrænu ríki í þeim tilgangi að annað norrænt ríki handtaki eftirlýstan mann vegna málsmeðferðar eða vegna fullnustu fangelsisrefsingar eða annarrar ákvörðunar um frjálsræðissviptingu og afhendi hann til þess ríkis sem tók ákvörðunina.
    Þegar hugtakið handtökuskipun er notað eitt og sér þá er átt við bæði norræna og evrópska handtökuskipun.
    Með hugtakinu framsal er átt við framsal á mönnum fyrir refsiverða verknaði samkvæmt lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, þ.e. framsal til ríkja sem hvorki eru aðilar að evrópsku né norrænu handtökuskipuninni.

Um 4. gr.

    Það er málefni hvers einstaks ríkis að ákveða hvaða stjórnvöld séu bær til að gefa út og taka á móti handtökuskipun. Í samræmi við 1. og 2. mgr. 3. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 9. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun er í greininni lagt til að ríkissaksóknari taki á móti handtökuskipun hér á landi. Þá er skv. 32. og 33. gr. frumvarpsins lagt til að ríkissaksóknari gefi einnig út handtökuskipun hérlendis.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ákvarðanir ríkissaksóknara samkvæmt ákvæðum frumvarpsins séu endanlegar. Það þýðir að þær verða ekki kærðar til annars stjórnvalds.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram sú meginregla frumvarpsins að heimilt sé að afhenda íslenska ríkisborgara samkvæmt frumvarpi þessu. Ítarlega er fjallað um þetta í almennum athugasemdum við frumvarpið og vísast til þeirrar umfjöllunar.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar eru tilgreind þau atriði sem skulu koma fram í handtökuskipun og svara til ákvæða 7. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 11. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun. Skal handtökuskipun innihalda þær upplýsingar er greinir í a–g-lið og sem fram koma í formi fyrir handtökuskipun, en formin eru fylgiskjöl með samningunum. Það stjórnvald sem gefur út handtökuskipun skal sjá til þess að formin séu réttilega útfyllt. Þó ekki séu allar upplýsingar tilgreindar leiðir það ekki til þess að synja beri um framkvæmd skipunarinnar. Móttökuríki handtökuskipunar skal hafa samband við ríkið sem gaf hana út og biðja um þær upplýsingar sem á skortir, sbr. 3. mgr. Tímafrestir í frumvarpinu byrja fyrst að líða þegar móttökuríkið hefur fengið viðbótarupplýsingarnar.
    Í 2. mgr. kemur fram á hvaða tungumálum beiðnin skuli vera. Málsgreinin á einungis við um innsendar handtökuskipanir, en um handtökuskipanir sem gefnar eru út hérlendis gilda þær kröfur sem gerðar eru um tungumál í lögum móttökuríkis.
    Verulegir ágallar eru á handtökuskipun þegar hún inniheldur ekki þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 1. mgr. Sem dæmi um verulegan galla má nefna þegar forsendur handtökuskipunar, sbr. c-lið 1. mgr., eru ekki tilgreindar eða refsirammi eða dæmd refsing er ekki tilgreind, sbr. f-lið 1. mgr. Áður en handtökuskipun er hafnað á þessum forsendum skal gefa því ríki sem gaf hana út færi á að bæta úr ágöllum. Ákvarðanir samkvæmt þessari málsgrein skulu vera skriflegar.

Um 7. gr.

    Heimilt er að afhenda mann á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar í tveimur tilvikum. Annars vegar til meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í minnst eitt ár í ríkinu sem gaf handtökuskipunina út. Það að verknaður varði fangelsisrefsingu þýðir að brot á viðeigandi refsiákvæði geti varðað fangelsisrefsingu en tekur ekki til mats á því hvort líkur séu á því að verknaðurinn leiði til skilorðsbundinnar eða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar verði viðkomandi sakfelldur. Ef hingað berst handtökuskipun þar sem verknaður varðar eingöngu sektarrefsingu í ríkinu sem gaf hana út skal henni hafnað. Hins vegar er heimilt að gefa út evrópska handtökuskipun til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu þegar dæmd refsing eða ákvörðun um aðra frjálsræðissviptingu er minnst 4 mánuðir. Þessi skilyrði 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins byggjast á þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 3. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að ef handtökuskipun er gefin út vegna fleiri en eins refsiverðs verknaðar þá sé nægilegt að einungis einn verknaður uppfylli skilyrði um afhendingu.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um hvaða kröfur eru gerðar til eðlis þess afbrots sem er forsenda þess að afhending manns til aðildarríkis Evrópusambandsins geti átt sér stað. Skv. 1. mgr. ákvæðisins kemur fram sú meginregla að það er skilyrði fyrir afhendingu manns samkvæmt evrópskri handtökuskipun að verknaður sem er forsenda eftirlýsingar, eða sambærilegur verknaður, sé jafnframt refsiverður samkvæmt íslenskum lögum. Framkvæma skal kröfuna um tvöfalt refsinæmi með sveigjanleika. Ef verknaður sem lýst er í handtökuskipuninni er að hluta eða heild sambærilegur við verknað sem er refsiverður samkvæmt íslenskum lögum telst krafan um tvöfalt refsinæmi uppfyllt.
    Í 2. mgr. kemur fram að meginreglan um tvöfalt refsinæmi skv. 1. mgr. gildir ekki þegar tilgreindur verknaður í handtökuskipun er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og verknaðurinn fellur undir þau tilvik sem talin eru upp í a–f-lið og verknaðurinn varðar fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í minnst eitt ár eða meira í því ríki sem gaf handtökuskipunina út. Þá er einnig tekið fram að það gildir einu hvort viðkomandi hafi tekið þátt í raunverulegri framkvæmd verknaðarins enda hafi aðild hans verið með ásetningi og framkvæmd með þeirri vitneskju að þátttaka hans stuðli að því að hin skipulögðu brotasamtök nái markmiði starfsemi sinnar. Með starfsemi skipulagðra brotasamtaka í þessari málsgrein er átt við hóp manna sem í sameiningu hyggst fremja eitt eða fleiri afbrot, sbr. 3. mgr. 3. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Samkvæmt 3. mgr. gildir meginreglan um tvöfalt refsinæmi ekki heldur ef tilgreindur verknaður í handtökuskipun getur varðað fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í þrjú ár eða lengri tíma í því ríki sem gaf handtökuskipunina út og verknaðurinn fellur undir eitt þeirra afbrota er greinir í a–ff-lið. Er þá átt við að refsirammi viðkomandi ákvæðis sé a.m.k. þriggja ára fangelsi, en dæmd refsing þarf ekki að vera þriggja ára fangelsi. Til þess að tryggja gagnkvæmni þá er einnig skilyrði að það ríki sem óskar eftir afhendingu geri ekki kröfu um tvöfalt refsinæmi vegna afhendingar manns til Íslands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar. Þessi málsgrein er í samræmi við upptalningu í 4. mgr. 3. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.

Um 9. gr.

    Í greininni eru ákvæði um það hvenær synja beri um afhendingu á manni sem er eftirlýstur á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar. Ákvæði greinarinnar byggjast á ákvæðum 4. og 5. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í a-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu ef sakaruppgjöf hefur verið veitt vegna sama verknaðar hér á landi. Forsenda ákvæðisins er að íslensk stjórnvöld hafi verið bær til að ákveða að málið sætti meðferð hér á landi í samræmi við íslensk lög. Í umfjöllun um c–g- lið er skýrt út hvað átt er við þegar vísað er til „sama verknaðar“.
    Í b-lið kemur fram að synja beri um framkvæmd handtökuskipunar ef eftirlýstur maður getur ekki vegna aldurs borið refsiábyrgð vegna verknaðarins hér á landi. Er hér átt við sakhæfisaldur skv. 14. gr. almennra hegningarlaga.
    Í c–g-lið eru ákvæði um að synja beri um framkvæmd handtökuskipunar í þeim tilvikum þegar málsmeðferð er í andstöðu við bann við endurtekinni málsmeðferð, þ.e. réttur til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis (l. ne bis in idem).
    Þegar meta á hvort synja beri um afhendingu á eftirlýstum manni á þeirri forsendu að um endurtekna málsmeðferð sé að ræða þarf að vera til staðar beiðni um afhendingu til málsmeðferðar eða fullnustu refsingar vegna „sama verknaðar“. Með þessu er ekki átt við að refsiákvæðin í báðum löndunum þurfi að vera með sambærilegu orðalagi. Það er hinn raunverulegi verknaður og háttsemi sem skiptir höfuðmáli þegar skilgreint er hvort um sama verknað er að ræða en ekki lögfræðileg skilgreining hans.
    Í 4. gr. 7. viðauka við samning Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og 7. tölul. 14. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eru ákvæði um bann við endurtekinni málsmeðferð. Þessi ákvæði gilda einungis innan eins og sama ríkis og verður því ekki beitt í málum þar sem höfðað er nýtt sakamál í öðru ríki en þar sem dómur var kveðinn upp.
    Í c-lið er fjallað um skyldu til að synja um afhendingu þegar dæmt hefur verið fyrir sama verknað hér á landi með endanlegum dómi. Bæði dómar um sakfellingu og sýknu hindra afhendingu. Þegar um sakfellingu er að ræða og refsing dæmd er þess þó krafist að refsingin hafi verið fullnustuð, verið sé að fullnusta hana eða ekki sé lengur unnt að fullnusta hana. Þegar talað er um að verið sé að fullnusta refsingu er bæði átt við að verið sé að undirbúa fullnustu með nauðsynlegri undirbúningsvinnu, svo sem boðun dómþola í afplánun og að afplánun sé hafin.
    Í d-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu á eftirlýstum manni þegar hér á landi liggur fyrir endanlegur dómur þar sem beitt hefur verið öryggisráðstöfunum vegna verknaðarins og þeim hefur þegar verið aflétt, verið er að framkvæma þær eða ekki er lengur unnt að framkvæma þær.
    Í e-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu ef endanleg viðurlagaákvörðun vegna verknaðarins hefur þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki er lengur unnt að fullnusta hana.
    Í f-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu ef máli hefur lokið með ákærufrestun. Almennt kemur ákærufrestun í veg fyrir frekari málsmeðferð vegna sama verknaðar og eftirlýstur maður skal því ekki heldur í þessu tilviki afhentur til annars ríkis.
    Í g-lið er fjallað um þá stöðu þegar eftirlýstum manni hefur verið refsað með endanlegum dómi eða annarri endanlegri ákvörðun sem kemur í veg fyrir frekari málsmeðferð í aðildarríki Evrópusambandsins eða öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. Í slíkum tilvikum kemur 54. gr. Schengen-samningsins í veg fyrir frekari málsmeðferð vegna verknaðarins hér á landi og í öðrum ríkjum og því er ekki heimilt að afhenda viðkomandi einstakling. Skilyrði er að refsingunni hafi verið fullnægt, verið sé að fullnusta hana eða það sé ekki lengur heimilt.
    Sú staða getur verið uppi að ríkissaksóknari hafi ekki upplýsingar um að fyrir liggi dómur eða önnur ákvörðun sem komi í veg fyrir frekari málsmeðferð í öðru ríki. Í ákvæðinu segir því að einungis beri að hafna beiðni um afhendingu þegar ríkissaksóknari hafi slíkar upplýsingar. Það hvílir engin rannsóknarskylda á ríkissaksóknara í þessum tilvikum. Aftur á móti ber að kanna málið þegar upplýsingar benda til að svo sé, svo sem þegar eftirlýstur maður veitir upplýsingar um málið. Í slíkum tilvikum ber að fresta afhendingu þar til málið hefur verið kannað og hugsanlega staðfest að eftirlýstum manni hafi verið refsað fyrir viðkomandi verknað með endanlegum hætti.
    Í h-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu ef málsmeðferð er í gangi eða endanlegur dómur eða önnur endanleg niðurstaða liggur fyrir hjá alþjóðadómstól sem hindrar frekari málsmeðferð hér á landi og þegar þessi viðurlög hafa þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta þau eða ekki lengur unnt að fullnusta þau.
    Í i-lið er lagt til að eftirlýstur maður verði ekki afhentur þegar viðkomandi verknaður hefur verið framinn að hluta eða í heild hér á landi eða á svæði sem fellur undir íslenska refsilögsögu og hann er annaðhvort ekki refsiverður eða refsiábyrgð eða réttur til að fullnusta refsingu hefur fyrnst samkvæmt íslenskum lögum. Er þetta í samræmi við ákvæði í d- og g-lið 1. mgr. 5. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í 2. mgr. greinarinnar er að lokum lagt til að eftirlýstur maður verði ekki afhentur ef afhendingin er í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og þeim samningsviðaukum sem hafa lagagildi hér á landi.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er fjallað um í hvaða tilvikum heimilt er að synja um afhendingu á eftirlýstum manni samkvæmt evrópskri handtökuskipun. Þegar aðstæður þær er greinir í a–c-lið eru fyrir hendi er heimilt að hafna afhendingu. Það hvílir engin skylda á stjórnvöldum að synja um afhendingu á þessum forsendum, heldur metur ríkissaksóknari það í hverju einstöku tilviki þegar þessi atvik eru til staðar hvort hafna beri afhendingu samkvæmt eftirlýsingu í handtökubeiðni.
    Í a-lið er fjallað um það tilvik þegar rannsókn er hafin hér á landi sem beinist að eftirlýsta manninum vegna sama verknaðar og greinir í handtökuskipuninni. Vísað er til athugasemda við 9. gr. um hvað átt er við með sama verknaði. Í samningnum eru engar leiðbeiningar um það hvað miða eigi við þegar sagt er að verknaður sæti rannsókn. Miðað er við að það teljist nægilegt að rannsókn sé hafin og hún á einn eða annan hátt beinist að eftirlýsta manninum. Með orðalaginu að rannsókn beinist að eftirlýstum manni felst ekki að það sé skilyrði að sá eftirlýsti sé grunaður eða kærður í málinu þó það sé oftast raunin. Það er nægjanlegt að rannsókn í orði eða verki eða á annan hátt beinist að hinum eftirlýsta. Það getur oft verið álitamál hvort málsmeðferð eigi að fara fram hér á landi eða í öðru ríki þegar málið tengist fleiri ríkjum. Hvort synja beri um afhendingu á eftirlýstum manni af þessum ástæðum byggist á ýmsum atvikum, svo sem hversu langt rannsóknin er komin, hvar meginhluta sönnunargagna er að finna, hvar vitni eru stödd o.s.frv. Ef rannsókn vegna verknaðarins sem tilgreind er í handtökuskipuninni er langt komin væri út frá fjárhagssjónarmiðum og með hliðsjón af hraðri málsmeðferð óheppilegt ef skylt væri að afhenda eftirlýstan mann. Þetta á enn frekar við ef sá eftirlýsti er einn af fleirum sem er meðal grunaðra vegna verknaðarins sem tilgreindur er í handtökuskipuninni eða ef verknaðurinn er hluti af stærra máli. Í slíkum tilvikum væri líklegt að íslensk stjórnvöld væru betur í stakk búin til að fylgja málinu eftir en ríkið sem biður um afhendingu. Ríkissaksóknari verður m.a. að skoða og meta þessi atriði þegar hann ákveður hvort orðið verði við handtökubeiðni eða ekki.
    Í b-lið er fjallað um það tilvik þegar til staðar er endanlegur dómur vegna sama verknaðar í ríki sem hvorki tekur þátt í Schengen-samstarfinu né er aðildarríki í Evrópusambandinu, en um slík tilvik er fjallað í e-lið 1. mgr. 5. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun. Hvorki Schengen-samningurinn né samningurinn um evrópska handtökuskipun taka á því hvort heimilt sé að endurtaka málsmeðferð í slíkum tilvikum. Hvort taka eigi málsmeðferð upp í slíkum tilvikum er háð ýmsum atvikum, m.a. alvarleika og eðli afbrotsins, hvort málsmeðferðin hafi verið fullnægjandi og hversu þung refsing hafi verið dæmd þegar um sakfellingu var að ræða. Í slíkum tilvikum verður að telja eðlilegt að stjórnvöld í því ríki sem gaf handtökuskipunina út meti þessi atriði. Það getur þó komið til þess að íslensk stjórnvöld hafni beiðni um afhendingu í þessum tilvikum, t.d. vegna þess að viðkomandi hafi verið hér á landi um lengri tíma og ljóst virðist að viðkomandi hafi áður afplánað viðeigandi refsingu vegna verknaðarins.
    Í c-lið er fjallað um það þegar handtökuskipun varðar fullnustu refsingar samkvæmt dómi og eftirlýstur maður er búsettur eða dvelst hér á landi eða er íslenskur ríkisborgari. Í slíkum tilvikum er lagt til að heimilt verði að hafna afhendingu gegn því að fullnusta refsinguna hér á landi. Ákvæðið er í samræmi við f-lið 1. mgr. 5. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun. Þegar afhendingu er hafnað á þessum forsendum skal fara með framhald málsins eftir lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga.
    Í d-lið er fjallað um að heimilt sé að hafna beiðni um að afhenda íslenskan ríkisborgara ef hún er gefin út af ríki sem afhendir ekki eigin ríkisborgara til Íslands.
    Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki nánari skýringar.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. þessarar greinar er veitt heimild til þess að synja um afhendingu samkvæmt evrópskri handtökuskipun á grundvelli þess að tilgreindur verknaður í handtökuskipun teljist vera stjórnmálaafbrot. Hugtakið stjórnmálaafbrot í frumvarpi þessu er efnislega samhljóða hugtakinu í ákvæði 5. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Ítarlega umfjöllun um hugtakið stjórnmálaafbrot og notkun þess er að finna í athugasemdum við framangreinda 5. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. er óheimilt að synja um afhendingu skv. 1. mgr. þegar tilgreindur verknaður í handtökuskipun varðar þau afbrot sem eru talin upp í a–c-lið. Takmörkun þessi er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 6. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.

Um 12. gr.

    Í     1. mgr. þessarar greinar er lagt til að afhending manns til fullnustu á refsingu samkvæmt útivistardómi þar sem viðkomandi er dæmdur til fangelsisrefsingar eða annarra viðurlaga um frjálsræðissviptingu verði aðeins heimil að fyrirkall til þinghalds hafi verið birt fyrir honum persónulega eða viðkomandi hafi á annan hátt fengið tilkynningu um tíma og stað til þinghalds. Í ákvæðinu er þó lagt til að afhending geti átt sér stað þó viðkomandi hafi ekki verið boðaður persónulega til viðkomandi þinghalds þar sem hann var dæmdur fjarstaddur til fangelsisrefsingar eða annarrar frjálsræðissviptingar ef hann getur óskað eftir að málið verði endurupptekið í viðkomandi ríki og hafi þá möguleika á að vera viðstaddur ný réttarhöld. Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við 8. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sú trygging sem um ræðir í 1. mgr. skuli liggja fyrir áður en héraðsdómur úrskurðar um hvort skilyrði fyrir afhendingu séu til staðar. Í þessum tilvikum er það almennt fullnægjandi til að heimilt sé að afhenda eftirlýstan mann að viðeigandi stjórnvöld í því ríki sem biður um afhendingu veiti upplýsingar um að dómþoli hafi möguleika á að fá málið endurupptekið og til að vera viðstaddur ný réttarhöld í málinu.

Um 13. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um skyldu til að handtaka eftirlýstan mann og skyldu til að fjalla strax um málið, sbr. 14., 15. og 1. mgr. 20. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun. Við handtöku skal upplýsa þann sem er eftirlýstur um handtökuskipunina. Þetta er árétting á ákvæðum 1. mgr. 93. gr. laga um meðferð sakamála. Þegar það er augljóst að synja beri um afhendingu manns samkvæmt evrópskri handtökuskipun, sbr. 9. gr. frumvarpsins, er ekki gert ráð fyrir að eftirlýstur maður verði handtekinn.
    Í samræmi við 16. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun er í 1. málsl. 2. mgr. lagt til að við skýrslutöku í kjölfar handtöku skuli eftirlýstum manni gefinn kostur á að samþykkja afhendingu og skal hann jafnframt upplýstur um þýðingu samþykkis. Skv. 2. málsl. 2. mgr. skal skipa eftirlýstum manni verjanda. Um slíka skipun fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um að eftirlýstur maður geti samþykkt málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða sem framdir voru fyrir afhendingu og þar með afsala sér réttinum til þess að nýta sér sérregluna, sbr. 1. mgr. 16. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.

Um 14. gr.

    Í greininni er lagt til að í þágu rannsóknar og til að tryggja afhendingu á eftirlýstum manni verði heimilt að beita þvingunarráðstöfunum samkvæmt lögum um meðferð sakamála með sambærilegum hætti og vegna rannsóknar á sambærilegum verknaði sem sætir málsmeðferð hér á landi, enda geti viðkomandi verknaður sem tilgreindur er í handtökuskipuninni leitt til afhendingar samkvæmt frumvarpi þessu.
    Í 1. mgr. er fjallað um gæsluvarðhald. Þar sem eftirlýstur maður er ekki afhentur í beinu framhaldi af handtöku er gert ráð fyrir að heimilt sé að úrskurða hann í gæsluvarðhald. Í samræmi við meginregluna um gagnkvæma viðurkenningu skal dómur í sinni ákvörðun um gæsluvarðhald leggja þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun til grundvallar nema þær séu augljóslega rangar. Sama gildir nú skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1962, um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, og 15. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Þetta þýðir að ekki er gert ráð fyrir að dómstólar staðreyni raunverulegar eða lagalegar forsendur sem handtökuskipunin byggist á.
    Í 2. mgr. eru sömu tímamörk og gilda samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
    Með vægari þvingunarráðstöfunum í 3. mgr. er aðallega átt við beitingu farbanns skv. 100. gr. laga um meðferð sakamála. Með hliðsjón af meðalhófsreglunni og reynslu íslenskra stjórnvalda af framsalsmálum má gera ráð fyrir því að þessu úrræði verði að jafnaði beitt í afhendingarmálum, nema viðkomandi einstaklingur sé eftirlýstur fyrir mjög alvarlegt brot eða mikil hætta sé á því að hann reyni að komast úr landi.
    Í 4. mgr. er lagt til að héraðsdómur skuli staðfesta með bókun í þingbók hvort samþykki skv. 13. gr. frumvarpsins liggi fyrir. Að gengnum úrskurði verður eigi unnt að afturkalla samþykki fyrir afhendingu.
    Til að flýta málsmeðferð er lagt til í 5. mgr. að kærufrestur á úrskurði um gæsluvarðhald eða beitingu annarra þvingunarráðstafana til Hæstaréttar verði einn sólarhringur í stað þriggja samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

Um 15. gr.

    Í 1. mgr. þessarar greinar er lagt til að ríkissaksóknari taki ákvörðun hér á landi um afhendingu samkvæmt evrópskri handtökuskipun. Í slíkri ákvörðun felst m.a. að ákveða hvort setja þurfi einhver skilyrði fyrir afhendingu skv. 27. gr. frumvarpsins eða hvort fresta eigi afhendingu vegna málsmeðferðar eða fullnustu refsingar hér á landi, sbr. 31. gr. frumvarpsins. Ríkissaksóknari skal leggja til grundvallar þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun nema þær séu augljóslega rangar. Þá eru íslensk stjórnvöld skyldug, án frekari könnunar á sönnunaratriðum, að leggja erlendan dóm eða ákvörðun um handtöku eða fangelsun til grundvallar við meðferð málsins. Þegar eftirlýstur maður samþykkir afhendingu skal ríkissaksóknari þá þegar og í síðasta lagi innan 10 sólarhringa taka ákvörðun um afhendingu. Þegar eftirlýstur maður samþykkir hins vegar ekki afhendingu skal ríkissaksóknari þá þegar og í síðasta lagi innan 20 sólarhringa taka ákvörðun um afhendingu.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um það þegar ríkissaksóknari telur að afhenda eigi eftirlýstan mann í samræmi við beiðni í handtökuskipun en hann samþykkir ekki afhendingu. Í slíkum tilvikum getur eftirlýstur maður krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga fyrir afhendingu séu fyrir hendi.
    Samkvæmt 3. mgr. ber héraðsdómi að leggja til grundvallar þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun nema þær séu augljóslega rangar. Héraðsdómur skal kveða upp úrskurð innan 40 sólarhringa frá handtöku hins eftirlýsta. Úrskurð er heimilt að kæra til Hæstaréttar í samræmi við almennar reglur um kæru í sakamálum að öðru leyti en því að lagt er til að kærufrestur verði einn sólarhringur. Kæra frestar afhendingu. Hæstiréttur skal kveða upp dóm innan 60 sólarhringa frá handtöku hins eftirlýsta.
    Í samræmi við 25. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun er í 4. mgr. lagt til að þegar endanleg ákvörðun um afhendingu liggur fyrir skv. 3. mgr. skal ríkissaksóknari þá þegar tilkynna það til þess aðila sem gaf handtökuskipunina út.
    Í 5. mgr. eru ákvæði um upphafstíma fresta. Þar kemur annars vegar fram að þegar eftirlýstur maður nýtur forréttinda eða friðhelgi hér á landi vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni þá byrjar frestur ekki að líða fyrr en forréttindin eða friðhelgin hefur verið afnumin. Nánari ákvæði um forréttindi og friðhelgi eftirlýsts manns er að finna í 26. gr. frumvarpsins. Hins vegar kemur fram að hafi eftirlýstur maður áður verið framseldur eða afhentur til Íslands og frekari afhending krefst samþykkis frá því ríki sem framseldi eða afhenti hann, sbr. 28. gr. frumvarpsins, þá byrjar frestur ekki að líða fyrr en viðkomandi ríki hefur veitt samþykki sitt.
    Í 6. mgr. eru ákvæði um að þegar ekki er í sérstöku tilvikum hægt að taka ákvörðun um afhendingu innan tilgreinds frests skuli ríkissaksóknari strax skýra þeim sem gaf handtökuskipun út frá því. Þetta á helst við þegar aflétta þarf forréttindum eða friðhelgi eða leita samþykkis frá þriðja ríki fyrir afhendingu. Hér er bæði átt við frest hjá ríkissaksóknara og hjá dómstólum.

Um 16. gr.

    Í greininni er fjallað um hvaða heimildir ríki, sem fær mann afhentan frá Íslandi, hefur til málsmeðferðar eða fullnustu refsingar gegn honum eða til afhendingar eða framsals á honum til ríkis utan norrænu ríkjanna og Evrópusambandsins vegna verknaðar sem framinn var fyrir afhendinguna frá Íslandi. Þegar sú staða kemur upp skal ríkið senda beiðni þess efnis og óska eftir samþykki íslenskra stjórnvalda. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun í þeim tilvikum er greinir í a- og b-lið 1. mgr. en um meðferð mála skv. c-lið 1. mgr. fer samkvæmt lögum nr. 13/1984 og skal því send ráðherra.

Um 17. gr.

    Heimilt er að gefa út norræna handtökuskipun í tveimur tilvikum. Annars vegar til meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í ríkinu sem gaf handtökuskipunina út. Það að verknaður varði fangelsisrefsingu þýðir að brot á viðeigandi refsiákvæði geti varðað fangelsisrefsingu en það hefur ekkert með mat á því að gera hvort líkur séu á því að verknaðurinn leiði til skilorðsbundinnar eða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar verði viðkomandi sakfelldur. Ef hingað berst handtökuskipun þar sem verknaður varðar eingöngu sektarrefsingu í ríkinu sem gaf hana út verður henni hafnað. Hins vegar er heimilt að gefa út norræna handtökuskipun til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu.
    Ólíkt sambærilegu ákvæði 7. gr. frumvarpsins þá er í þessari grein ekki gerð krafa um ákveðinn lágmarkstíma sem viðkomandi verknaður eða dæmd fangelsisrefsing þarf að varða. Þá er ekki heldur gerð krafa um tvöfalt refsinæmi með norrænni handtökuskipun. Þessi skilyrði 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins byggjast á þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. samningsins um norræna handtökuskipun.
    Í samræmi við 2. mgr. 2. gr. samningsins um norræna handtökuskipun er í 2. mgr. greinarinnar lagt til að ef handtökuskipun er gefin út vegna fleiri en eins refsiverðs verknaðar þá sé nægilegt að einungis einn verknaður uppfylli skilyrði fyrir afhendingu.

Um 18. gr.

    Samkvæmt greininni skal synja beiðni um afhendingu á manni sem eftirlýstur er í norrænni handtökuskipun þegar til staðar eru þær synjunarástæður er greinir í a–h-lið 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins og 2. mgr. sömu greinar. Ákvæði i-liðar 1. mgr. 9. gr. gildir því ekki um norræna handtökuskipun. Ákvæði greinarinnar byggjast á ákvæðum 4. gr. og að hluta til á 3. og 4. mgr. 5. gr. samningsins um norræna handtökuskipun.
    Að því er varðar f-lið 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er vakin athygli á að skv. 4. mgr. 5. gr. samningsins um norræna handtökuskipun er ákærufrestun valkvæð synjunarástæða. Það að máli hafi lokið með ákærufrestun er því ekki skyldubundin synjunarástæða í samningnum. Ástæða þess að lagt er til að ákærufrestun verði skyldubundin synjunarástæða hér á landi er að hér er um afgreiðslu sakamáls að ræða sem staðfestir sekt viðkomandi og um er að ræða refsiréttarlega afgreiðslu máls sem er endanleg standist viðkomandi skilorð. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 9. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Samkvæmt greininni er heimilt að synja beiðni um afhendingu á manni sem eftirlýstur er í norrænni handtökuskipun þegar til staðar eru þær synjunarástæður er greinir í 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins eða þegar verknaðurinn er að hluta eða öllu leyti framinn á íslensku yfirráðasvæði eða í íslenskri refsilögsögu. Í slíkum tilvikum er heimilt að hafna afhendingu ef verknaðurinn er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samningsins. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 10. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.

    Hér vísast til athugasemda við 13. gr. frumvarpsins sem er efnislega samhljóða þessari grein.

Um 21. gr.

    Hér vísast til athugasemda við 14. gr. frumvarpsins sem er að mestu leyti efnislega samhljóða þessari grein, með nokkrum undantekningum þó.
    Í 2. mgr. er lagt til að gæsluvarðhaldi verði ekki markaður lengri tími en tvær vikur, sem þó verði heimilt að framlengja um tvær vikur í hvert sinn teljist það nauðsynlegt. Þegar til staðar eru ósamrýmanlegar handtökuskipanir samkvæmt frumvarpi þessu eða framsalsbeiðnir samkvæmt lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, er ekki hægt að segja til um það hvort unnt sé að afgreiða málið innan þeirra tímamarka er greinir í 15. og 22. gr. frumvarpsins. Sama gildir þegar viðkomandi hefur verið framseldur hingað til lands frá þriðja ríki utan Evrópusambandsins eða Norðurlandanna og leita þarf samþykkis frá því ríki fyrir afhendingu. Í slíkum tilvikum eru ekki forsendur til að hafa ákveðna stutta hámarkslengd á tímamörkum gæsluvarðhalds, heldur gilda þá um það almennar reglur laga um meðferð sakamála eða laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
    Í 4. mgr. er lagt til að héraðsdómur skuli staðfesta með bókun í þingbók hvort samþykki skv. 20. gr. frumvarpsins liggi fyrir. Unnt er að afturkalla samþykki og er heimilt að gera það hvenær sem er fram að ákvörðun ríkissaksóknara um afhendingu, sbr. 22. gr. frumvarpsins. Það er ekki skilyrði að afturköllun sé formbundin. Þá eru í málsgreininni ákvæði um að unnt sé að afturkalla samþykki fyrir málsmeðferð vegna annars refsiverðs verknaðar sem framinn var fyrir afhendingu, sbr. 3. mgr. 20. gr. frumvarpsins, en þó einungis þegar samþykki fyrir afhendingu er afturkallað.

Um 22. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að það verði ríkissaksóknari sem taki ákvörðun hér á landi um afhendingu samkvæmt norrænni handtökuskipun. Í slíkri ákvörðun felst m.a. að ákveða hvort setja þurfi einhver skilyrði fyrir afhendingu skv. 27. gr. frumvarpsins eða hvort fresta eigi afhendingu vegna málsmeðferðar eða fullnustu refsingar hér á landi, sbr. 31. gr. frumvarpsins. Ríkissaksóknari skal leggja til grundvallar þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun nema þær séu augljóslega rangar. Þá eru íslensk stjórnvöld skyldug, án frekari könnunar á sönnunaratriðum, að leggja erlendan dóm eða ákvörðun um handtöku eða fangelsun til grundvallar við meðferð málsins. Þegar eftirlýstur maður samþykkir afhendingu skal ríkissaksóknari, innan þriggja virkra daga frá því samþykki var gefið, taka ákvörðun um afhendingu. Þegar eftirlýstur maður samþykkir hins vegar ekki afhendingu skal ríkissaksóknari taka ákvörðun um afhendingu innan tíu sólarhringa.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um það þegar ríkissaksóknari telur að afhenda eigi eftirlýstan mann í samræmi við beiðni í handtökuskipun en hann samþykkir ekki afhendingu. Í slíkum tilvikum getur eftirlýstur maður krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga fyrir afhendingu séu fyrir hendi.
    Samkvæmt 3. mgr. ber dómstól að leggja til grundvallar þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun nema þær séu augljóslega rangar. Héraðsdómur skal kveða upp úrskurð innan 20 sólarhringa frá handtöku hins eftirlýsta. Úrskurð er heimilt að kæra til Hæstaréttar í samræmi við almennar reglur um kæru í sakamálum að öðru leyti en því að lagt er til að kærufrestur verði einn sólarhringur. Kæra frestar afhendingu. Í lok málsgreinarinnar er ákvæði um að Hæstiréttur skuli kveða upp dóm innan 30 sólarhringa frá handtöku hins eftirlýsta.
    Í samræmi við 18. gr. samningsins um norræna handtökuskipun er í 4. mgr. lagt til að þegar endanleg ákvörðun um afhendingu liggur fyrir skv. 3. mgr. skal ríkissaksóknari þá þegar tilkynna það til þess aðila sem gaf handtökuskipunina út.
    Ákvæði 5. og 6. mgr. eru efnislega samhljóða 5. og 6. mgr. 15. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við þá grein.

Um 23. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um hvaða heimildir það norræna ríki sem eftirlýstur maður er afhentur til hefur til að hefja málsmeðferð eða fullnusta refsingu vegna verknaðar sem framinn var fyrir afhendinguna frá Íslandi. Meginreglan er að samþykkja skal slíka beiðni nema til staðar séu skyldubundnar synjunarástæður skv. 18. gr. frumvarpsins. Einnig er heimilt að synja beiðni þegar valkvæð synjunarástæða skv. b-lið 1. mgr. 19. gr. er til staðar.
    Samkvæmt 2. mgr. er það ríkissaksóknari sem tekur ákvörðun í þessum tilvikum.

Um                                                                                24. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um hvaða heimildir það norræna ríki sem eftirlýstur maður er afhentur til hefur til að afhenda viðkomandi áfram til aðildarríkis Evrópusambandsins utan Norðurlandanna fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna. Meginreglan er að samþykkja skal slíka beiðni ef fallist hefði verið á beiðni um afhendingu fyrir verknaðinn samkvæmt evrópskri handtökuskipun. Þá er lagt til að ákvæði 2. mgr. 23. gr. frumvarpsins gildi í þessum tilvikum.
    Í 2. mgr. er lagt til að beiðni um samþykki til áframhaldandi framsals til ríkis utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins fari samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að eftirlýsing í Schengen-upplýsingakerfið eða annað sambærilegt kerfi jafngildi norrænni eða evrópskri handtökuskipun þar til hin eiginlega handtökuskipun berst. Í flestum tilvikum berst handtökuskipun mjög fljótt í kjölfar þess að eftirlýstur maður hefur verið staðsettur hér á landi. Ákvæðið tryggir að málsmeðferð samkvæmt frumvarpi þessu getur farið af stað þó einhver seinkun verði á afhendingu á handtökuskipun. Ekki er skilyrði að skráningin hafi að geyma allar þær upplýsingar sem greinir í 6. gr. frumvarpsins. Með þátttökuríki í 1. mgr. er átt við þau ríki sem eru þátttakendur að norrænu og evrópsku handtökuskipuninni.
    Í 2. mgr. er lagt til að ef handtökuskipun berst til annars stjórnvalds en ríkissaksóknara skuli það strax framsenda beiðnina til ríkissaksóknara og tilkynna þeim sem gaf handtökuskipunina út um framsendinguna.

Um 26. gr.

    Þegar eftirlýstur maður nýtur forréttinda eða friðhelgi hér á landi með tilliti til málsmeðferðar eða fullnustu refsingar vegna viðkomandi verknaðar er ekki unnt að afhenda hann nema forréttindin eða friðhelgin séu upphafin. Þegar íslensk stjórnvöld eru til þess bær að upphefja friðhelgina ber ríkissaksóknara þegar að senda viðkomandi stjórnvöldum beiðni um að upphefja forréttindin eða friðhelgina. Verði forréttindin eða friðhelgin upphafin sætir handtökuskipunin í framhaldi af því meðferð samkvæmt almennum reglum frumvarpsins. Þegar það er háð samþykki stjórnvalda í erlendu ríki eða alþjóðlegum stofnunum er það hlutverk þess stjórnvalds sem gaf handtökuskipunina út að fara þess á leit að þau verði upphafin. Í slíkum tilvikum ber ríkissaksóknara að upplýsa það stjórnvald sem gaf handtökuskipunina út um að ekki sé unnt að verða við henni fyrr en forréttindunum eða friðhelginni hafi verið aflétt. Frestir til að taka ákvörðun um afhendingu byrja ekki að líða í framangreindum tilvikum fyrr en forréttindunum eða friðhelginni hefur verið aflétt, sbr. 5. mgr. 15. gr. og 5. mgr. 22. gr. frumvarpsins. Ákvæði greinarinnar byggist á 16. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 23. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt verði að setja það skilyrði fyrir afhendingu vegna málsmeðferðar, þegar eftirlýstur maður er búsettur hér á landi eða er íslenskur ríkisborgari, að hann verði sendur aftur hingað til lands til að afplána hugsanlega refsingu. Eftirlýstum manni skal gefinn kostur á að tjá sig áður en slíkt skilyrði er sett. Ákvæðið er í samræmi við 6. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 3. tölul. 8. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í 2. mgr. er lagt til að setja skuli það skilyrði fyrir afhendingu á íslenskum ríkisborgara að afhending á honum áfram til annars þátttökuríkis fyrir verknað sem framinn er áður en afhending átti sér stað skuli ekki eiga sér stað án samþykkis íslenskra stjórnvalda afhendi það ríki ekki eigin ríkisborgara til Íslands. Jafnframt skal setja það skilyrði að óheimilt sé að framselja viðkomandi áfram til þriðja ríkis. Seinna skilyrðið er í samræmi við 2. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Með þátttökuríki er átt við þau ríki sem eru þátttakendur að norrænu og evrópsku handtökuskipuninni.

Um 28. gr.

    Í þessari grein er fjallað um þá stöðu þegar eftirlýstur maður hefur verið afhentur eða framseldur til Íslands frá öðru ríki. Í slíkum tilvikum geta verið takmarkanir á heimildum til að afhenda viðkomandi einstakling vegna refsiverðra verknaða sem framdir voru fyrir afhendinguna.
    Í 1. mgr. er fjallað um það þegar eftirlýstur maður hefur verið afhentur hingað til lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar. Í slíkum tilvikum er skv. 1. mgr. heimilt að afhenda hann áfram til annars norræns ríkis vegna refsiverðs verknaðar sem framinn var fyrir afhendinguna. Afhending áfram til annars ríkis í Evrópusambandinu utan Norðurlandanna er hins vegar aðeins heimil í þeim tilvikum er greinir í a-, c-, d- og e-lið 2. mgr. þessa ákvæðis.
    Í 2. mgr. er fjallað um það þegar eftirlýstur maður hefur verið afhentur hingað til lands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar. Í slíkum tilvikum skal ekki afhenda hann áfram til annars aðildarríkis Evrópusambandsins eða Noregs fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna, nema í þeim tilvikum er greinir í a–e-lið 2. mgr.
    Í 3. mgr. er lagt til að þegar ríki sem afhent hefur eftirlýstan mann hingað til lands setur skilyrði um samþykki þess fyrir áframhaldandi afhendingu skuli það vera hlutverk ríkissaksóknara að senda viðkomandi ríki beiðni um að það samþykki afhendinguna. Slík beiðni skal vera í samræmi við 32. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 4. mgr. skal áframhaldandi afhending ekki eiga sér stað ef hún er í andstöðu við sérstök skilyrði sem sett voru fyrir afhendingu.
    Samkvæmt 5. mgr. skal eftirlýstur maður, sem framseldur hefur verið hingað til lands frá ríki utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins, ekki afhentur áfram í andstöðu við skilyrði sem sett voru fyrir framsalinu. Þegar afhending áfram krefst samþykkis frá því ríki sem framseldi manninn skal ráðuneytið, sbr. lög nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, senda viðkomandi ríki beiðni um að það samþykki afhendinguna.

Um 29. gr.

    Í greininni eru ákvæði um málsmeðferð þegar beiðnum um afhendingu eða framsal lýstur saman og svara þau til ákvæða 15. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 19. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í 1. mgr. er fjallað um það þegar fleiri en ein handtökuskipun liggur fyrir. Í slíkum tilvikum skal ríkissaksóknari taka ákvörðun um við hvaða beiðni verði orðið.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um það þegar framsalsbeiðni frá ríki utan Norðurlandanna og Evrópusambandinu liggur fyrir til viðbótar við eina eða fleiri handtökuskipanir. Í slíkum tilvikum tekur ráðherra ákvörðun um við hvaða beiðni skuli orðið. Í slíkum tilvikum ber ríkissaksóknara, áður en málið er sent ráðuneytinu til ákvörðunar, að kanna hvort skilyrði til afhendingar séu til staðar, m.a. kanna hvort eftirlýstur maður samþykki afhendingu og ef ekki að leggja fyrir dómstól að meta hvort skilyrði afhendingar séu til staðar. Jafnframt ber ríkissaksóknara að meta hvort hann telji að beita eigi valkvæðum synjunarástæðum. Meðferð framsalsbeiðninnar er í þessum tilvikum í samræmi við almennar reglur samkvæmt lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.
    Í 3. mgr. eru síðan ákvæði um það á hvaða atriði skuli leggja áherslu þegar metið er við hvaða beiðni skuli orðið. Þau atriði sem talin eru upp í málsgreininni eru ekki tæmandi. Samningarnir um evrópska og norræna handtökuskipun hafa engin áhrif á skyldur Íslands samkvæmt samþykktum um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, sbr. lög nr. 43/2001. Þegar ósamrýmanlegar beiðnir liggja fyrir frá ríki og Alþjóðlega sakamáladómstólnum ber að verða við beiðninni frá Alþjóðlega sakamáladómstólnum.

Um 30. gr.

    Í 1. mgr. eru ákvæði um að afhenda skuli eftirlýstan mann eins fljótt og unnt er eftir að endanleg ákvörðun um afhendingu liggur fyrir. Þegar um evrópska handtökuskipun er að ræða skal afhenda í síðasta lagi innan tíu sólarhringa frá endanlegri ákvörðun. Þegar um norræna handtökuskipun er að ræða er fresturinn fimm sólarhringar. Þegar ekki er unnt vegna sérstakra aðstæðna að afhenda eftirlýstan mann innan framangreindra tímamarka skal ríkissaksóknari strax semja um nýjan frest við þann sem gaf handtökuskipunina út.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um heimild til að fresta afhendingu þegar ríkar mannúðarástæður mæla með því. Miðað er við að hér sé um þrönga undantekningarreglu að ræða sem fyrst og fremst tekur til þess að afhending geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir líf eða heilsu eftirlýsts manns. Aðrar persónulegar aðstæður geta einnig komið til álita, svo sem aldur, fjölskyldustaða o.fl., sem þó geta einungis frestað afhendingu í mjög sérstökum tilvikum. Tillit til eftirlýsts manns ber að meta á móti hagsmunum þess ríkis sem gaf handtökuskipunina út að fá eftirlýsta manninn. Í slíkum tilvikum getur komið til álita hversu langt sé um liðið frá verknaði sem handtökuskipun fjallar um. Sama gildir um tegund og alvarleika afbrots. Þegar afhendingu er frestað á þessum grundvelli ber að framkvæma hana um leið og aðstæður til frestunar eru ekki lengur til staðar. Það er hlutverk ríkissaksóknara að semja um nýjan frest til afhendingar við þann sem gaf handtökuskipunina út og skal afhending þá eiga sér stað innan tíu sólarhringa frá því að þær ástæður sem komu í veg fyrir afhendingu eru ekki lengur til staðar.
    Í 3. mgr. kemur fram að sé eftirlýstur maður í gæsluvarðhaldi vegna eftirlýsingar í handtökuskipun skal hann látinn laus ef afhending á sér ekki stað innan tímamarka 1. og 2. mgr.
    Ákvæði greinarinnar byggjast á 19. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 26. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.

Um 31. gr.

    Í greininni eru ákvæði um frestun á afhendingu eftirlýsts manns eða um tímabundna afhendingu hans í þeim tilvikum að hann sæti málsmeðferð eða afpláni refsingu hér á landi. Þessi atriði koma fyrst til athugunar þegar ákveðið hefur verið að afhenda eftirlýstan mann. Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við 20. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 27. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun. Eins og um önnur atriði er varða framkvæmd afhendingar samkvæmt frumvarpi þessu er það ríkissaksóknari sem ákveður hvort afhendingu skuli frestað eða hvort eftirlýstur maður skuli afhentur tímabundið.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um að heimilt sé að fresta afhendingu eftirlýsts manns vegna málsmeðferðar hér á landi gegn honum vegna annars refsiverðs verknaðar eða fullnustu refsingar vegna annars afbrots. Í þessum tilvikum er ekki heimilt að synja um afhendingu af þessum ástæðum heldur einungis að fresta henni. Þegar málsmeðferð eða afplánun er lokið ber að afhenda eftirlýsta manninn.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að í stað þess að fresta afhendingu sé heimilt við framangreindar aðstæður að afhenda eftirlýstan mann tímabundið. Um skilyrðin fyrir slíkri afhendingu, þar á meðal um hvenær viðkomandi skuli fluttur til baka, skal samið skriflega á milli ríkissaksóknara og þess stjórnvalds sem gaf handtökuskipunina út.

Um 32. gr.

    Í þessari grein er lagt til að það verði ríkissaksóknari sem gefi út evrópska handtökuskipun fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Skal slík beiðni að efni og formi vera í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 6., 7. og 8. gr. frumvarpsins.

Um 33. gr.

    Í þessari grein er lagt til að það verði ríkissaksóknari sem gefi út norræna handtökuskipun fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Skal slík beiðni að efni og formi vera í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 6. og 17. gr. frumvarpsins.

Um 34. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um að handtökuskipun skuli skráð í Schengen-upplýsingakerfið, sbr. lög nr. 16/2000 um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, eða annað kerfi fyrir eftirlýsingar á mönnum sem eru grunaðir um að hafa framið refsiverða verknaði. Til að tryggja persónuvernd við skráningu í upplýsingakerfið er einungis leyfilegt að skrá ákveðnar upplýsingar, sbr. 4. gr. laga nr. 16/2000. Það getur því komið upp sú staða að sumar upplýsingar sem greinir í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins sé ekki unnt að skrá í Schengen-upplýsingakerfið. Er því kveðið á um í 1. mgr. að í slíkum tilvikum skulu þessar upplýsingar sendar eins fljótt og unnt er því stjórnvaldi í ríkinu þar sem maðurinn hefur fundist og sem er bært til að taka á móti handtökuskipuninni.
    Í 2. mgr. kemur fram að þegar eftirlýstur maður hefur fundist sé einnig hægt að senda handtökuskipunina því stjórnvaldi í dvalarríkinu sem er bært til að taka á móti handtökuskipuninni.

Um 35. gr.

    Í þessari grein er fjallað um það að þegar maður sætir gæsluvarðhaldi í öðru norrænu ríki eða aðildarríki Evrópusambandsins vegna handtökuskipunar sem gefin er út hér á landi skuli það koma til frádráttar afplánun þegar viðkomandi er sendur hingað til lands vegna fullnustu refsingar. Sama gildir þegar viðkomandi er afhentur vegna málsmeðferðar og hann er dæmdur í fangelsisrefsingu hér á landi vegna verknaðarins sem tilgreindur er í handtökuskipuninni. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði 22. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 29. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.

Um 36. gr.

    Í þessari grein er fjallað um það í hvaða tilvikum er heimilt að sækja til saka eða fullnusta refsingu gagnvart þeim, sem afhentur hefur verið hingað til lands, fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn var fyrir afhendinguna en þann sem tilgreindur var í handtökuskipuninni. Ákvæði greinarinnar svara til ákvæða 23. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 30. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í 1. og 2. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar viðkomandi hefur verið afhentur hingað til lands frá aðildarríki Evrópusambandsins vegna eftirlýsingar í evrópskri handtökuskipun. Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að slík málsmeðferð sé ekki heimil. Í a–f-lið 2. mgr. er að finna undantekningarnar.
    Í 3. og 4. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar viðkomandi hefur verið afhentur hingað til lands frá norrænu ríki vegna eftirlýsingar í norrænni handtökuskipun. Skv. 3. mgr. er slík málsmeðferð heimil, nema þar til greindar aðstæður í a- og b-lið 3. mgr. eigi við. Í 4. mgr. kemur síðan fram að þrátt fyrir að skilyrði b-liðar 3. mgr. séu uppfyllt, er heimilt að sækja þann til saka sem afhentur er hingað til lands vegna afbrots sem framið var fyrir afhendinguna þegar ákvæði c- og d-liðar 2. mgr. eiga við eða hann hefur fyrir eða eftir afhendinguna samþykkt málsmeðferð vegna annars verknaðar.
    Í 5. mgr. er lagt til að beiðni um samþykki skv. f-lið 2. mgr. og b-lið 3. mgr. skuli send þar til bæru stjórnvaldi í því ríki sem afhenti viðkomandi í samræmi við ákvæði 32. og 33. gr. frumvarpsins.

Um 37. gr.

    Í þessari grein er fjallað um í hvaða tilvikum heimilt sé að framselja mann, sem afhentur hefur verið hingað til lands á grundvelli handtökuskipunar, til ríkis utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins fyrir verknað sem framinn var fyrir afhendinguna.
    Í 1. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar viðkomandi hefur verið afhentur hingað til lands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar. Meginreglan er að ekki skuli framselja viðkomandi áfram án samþykkis þess ríkis sem afhenti hann, enda leiði ekki annað af samþykki fyrir afhendingu.
    Í 2. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar viðkomandi hefur verið afhentur hingað til lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar. Meginreglan er að annaðhvort þurfi viðkomandi sjálfur að samþykkja framsalið eða ákvæði c-, d- og f-liða 2. mgr. 36. gr. eigi við.
    Í 3. mgr. segir að það sé ráðherra sem taki ákvörðun um áframhaldandi framsal samkvæmt ákvæðum í almennum lögum um framsal sakamanna.

Um 38. gr.

    Í þessari grein er fjallað um tímabundna afhendingu til Íslands.
    Í 1. mgr. kemur fram að það sé hlutverk ríkissaksóknara að sjá til þess, þegar málsmeðferð hér á landi er lokið, að viðkomandi verði fluttur aftur til þess ríkis sem afhenti hann.
    Í 2. mgr. er veitt heimild til þess að handtaka og úrskurða í gæsluvarðhald þann sem afhenda á til baka, sé það talið nauðsynlegt til að unnt sé að senda hann til baka. Viðkomandi skal ekki úrskurðaður í lengra gæsluvarðhald en tíu daga ef afhenda á hann til baka til aðildarríkis Evrópusambandsins en í fimm daga ef það er til annars norræns ríkis. Þegar ekki er unnt að afhenda innan framangreindra fresta er heimilt að framlengja um sama tíma í eitt skipti.

Um 39. gr.

    Í greininni eru ákvæði um haldlagningu og afhendingu á mun í tengslum við handtökuskipun sem talinn er hafa þýðingu sem sönnunargagn í málinu eða er ávinningur af þeim refsiverða verknaði sem greinir í handtökuskipuninni. Ákvæði greinarinnar byggjast á 25. gr. samningsins um norræna handtökuskipun og 32. gr. samningsins um evrópska handtökuskipun.
    Í 1. mgr. er ákvæði um að ríkissaksóknari skuli láta leggja hald á mun sem telst hafa þýðingu sem sönnunargagn í málinu sem tilgreint er í handtökuskipuninni eða er ágóði af þeim refsiverða verknaði. Þá skuli sama gilda um aðra hluti eða ágóða sem heimilt er að gera upptæka samkvæmt ákvæðum VII. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þegar ríkið sem gefið hefur handtökuskipunina út krefst þess og þeir mundu sæta upptöku samkvæmt lögum þess ríkis sem gaf handtökuskipunina út. Framangreind skylda í 1. mgr. tekur einungis til þess munar sem ríkissaksóknara er kunnugt um vegna meðferðar málsins. Í ákvæðinu felst engin frumkvæðis- eða rannsóknarskylda vegna afhendingarmála.
    Samkvæmt 2. mgr. er skyldan um afhendingu einnig til staðar þótt eftirlýstur maður sé horfinn eða látinn.
    Í 3. mgr. er ákvæði um að í stað þess að afhenda mun sé unnt að afhenda hann tímabundið þegar hann telst hafa þýðingu sem sönnunargagn í sakamáli hér á landi.
    Í 4. mgr. er ákvæði um að afhending hafi ekki áhrif gagnvart réttindum þriðja manns varðandi muninn og að unnt sé að setja skilyrði fyrir afhendingu til að verja slík réttindi.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einungis þegar lagt er hald á mun í tengslum við útgefna handtökuskipun sem unnt er að verða við samkvæmt ákvæðum í frumvarpi þessu.

Um 40. gr.

    Í þessari grein er fjallað um tímabundna afhendingu frá Íslandi.
    Í 1. mgr. kemur fram að ríkissaksóknari geti samkvæmt kröfu samþykkt tímabundna afhendingu á eftirlýstum manni til yfirheyrslu í ríkinu sem gaf handtökuskipunina út. Eðli málsins samkvæmt á þetta ákvæði einungis við þegar handtökuskipun er vegna málsmeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 7. gr. og a-lið 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. kemur fram að óheimilt sé að samþykkja tímabundna afhendingu þegar ljóst er að synjað verði um afhendingu á eftirlýstum manni eða nauðsynlegt sé talið að viðkomandi sé hér á landi vegna meðferðar sakamáls eða meðferðar á handtökuskipuninni. Þá er tekið fram að við mat á því hvort samþykkja ætti tímabundna afhendingu skuli m.a. taka tillit til þess hvort afhendingin muni lengja frjálsræðissviptingu á eftirlýstum manni. Að lokum skal eftirlýstur maður eiga rétt á því að tjá sig um málið áður en ákvörðun um tímabundna afhendingu er tekin.
    Í 3. mgr. kemur fram að það sé hlutverk ríkissaksóknara að ákveða tímasetningu afhendingar og að setja þau skilyrði sem hann telur nauðsynleg.

Um 41. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um það að þegar verið er að afhenda eftirlýstan mann milli annarra Norðurlanda samkvæmt norrænni handtökuskipun sé heimilt án sérstaks samþykkis að flytja hann um íslenskt yfirráðasvæði.
    Samkvæmt 2. mgr. skal ráðherra heimila gegnumflutning eftirlýsts manns á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar um íslenskt yfirráðasvæði. Skilyrði er þó að íslensk stjórnvöld hafi móttekið upplýsingar um persónuauðkenni og ríkisfang hins eftirlýsta manns, eðli afbrotsins og hvaða refsiákvæði eigi við og við hvaða aðstæður afbrotið var framið, þar með talið hvar og hvenær. Þegar afhending er til ríkis sem ekki afhendir eigin ríkisborgara hingað til lands skal synja um gegnumflutning ef eftirlýstur maður er íslenskur ríkisborgari. Í öðrum tilvikum þegar eftirlýstur maður er íslenskur ríkisborgari er heimilt að binda samþykkið skilyrðum.
    Í 3. mgr. kemur fram að ákvæði 2. mgr. gilda eftir því sem við á þegar framselja á mann frá ríki utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins til aðildarríkis í Evrópusambandinu eða Noregs á grundvelli framsalsbeiðni.

Um 42. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að lög þessi, að því er varðar norræna handtökuskipun, öðlist þegar gildi. Þá er lagt til að við gildistöku laganna að þessu leyti falli brott lög nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
    Í 2. mgr. er lagt til að lög þessi, að því er varðar evrópska handtökuskipun, öðlist gildi við gildistöku samnings milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs, sem undirritaður var í Vín 28. júní 2006. Skv. 4. mgr. 38. gr. samningsins öðlast samningurinn gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir þann dag sem aðalframkvæmdastjóri ráðs Evrópusambandsins staðfestir að öllum formkröfum um samþykki af hálfu aðila að þessum samningi hefur verið fullnægt. Skal ráðherra birta auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistöku laganna að þessu leyti.

Um 43. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um breytingar sem gera þarf á lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69/1963, og lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. er lagt til að berist beiðni um framsal sakamanns til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar fyrir gildistöku laganna fari um meðferð þeirrar beiðni samkvæmt lögum nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
    Í 2. mgr. er lagt til að berist beiðni um framsal sakamanns til ríkis í Evrópusambandinu fyrir gildistöku laganna fari um meðferð þeirrar beiðni samkvæmt lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.



Fylgiskjal I.


SAMNINGUR

MILLI EVRÓPUSAMBANDSINS OG LÝÐVELDISINS ÍSLANDS OG KONUNGSRÍKISINS NOREGS UM MÁLSMEÐFERÐ VIÐ AFHENDINGU MILLI AÐILDARRÍKJA EVRÓPUSAMBANDSINS OG ÍSLANDS OG NOREGS



EVRÓPUSAMBANDIÐ
annars vegar og

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND
og

KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR
hins vegar,

sem nefnast hér á eftir „samningsaðilar“,

HAFA HUG Á að bæta réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs, sbr. þó ákvæði um verndun einstaklingsfrelsis.

HAFA Í HUGA að núverandi tengsl samningsaðilanna gera það að verkum að nauðsynlegt er að vinna náið saman að því að berjast gegn afbrotum.

LÁTA Í LJÓS gagnkvæma trú sína á skipulagi og starfsemi réttarkerfa sinna og getu allra samningsaðila til að tryggja sanngjörn réttarhöld.

HAFA Í HUGA að Ísland og Noregur hafa lagt fram ósk um að gerður verði samningur er geri þeim kleift að hraða fyrirkomulagi við afhendingu grunaðra og sakfelldra manna gagnvart aðildarríkjum Evrópusambandsins og að beita megi málsmeðferð við afhendingu gagnvart þeim.

HAFA Í HUGA að Evrópusambandið lítur einnig svo á að æskilegt sé að gera slíkan samning.

HAFA Í HUGA að af þeim sökum er rétt að koma á fót fyrirkomulagi fyrir málsmeðferð við afhendingu.

HAFA Í HUGA að öll aðildarríkin og Konungsríkið Noregur og lýðveldið Ísland eiga aðild að nokkrum samningum er varða framsal, þ.m.t. Evrópusamningur um framsal sakamanna frá 13. desember 1957 og Evrópusamningur um varnir gegn hryðjuverkum frá 27. janúar 1977. Á Norðurlöndum gilda samræmd lög um framsal sakamanna þar sem sami skilningur ríkir um það sem felst í hugtakinu „framsal sakamanns“.

HAFA Í HUGA að halda ber áfram samstarfi samkvæmt samningi ESB frá 10. mars 1995 um einfaldaða málsmeðferð við framsal og samningi ESB frá 27. september 1996 um framsal, ef ekki er unnt að auka það.

HAFA Í HUGA að fullnægjandi eftirlit skal haft með ákvörðunum um framkvæmd handtökuskipunar, eins og hún er skilgreind í þessum samningi, sem merkir að dómsmálayfirvald í ríkinu, þar sem eftirlýstur maður hefur verið handtekinn, verður að taka ákvörðun um afhendingu hans.

HAFA Í HUGA að hlutverk miðlægra yfirvalda við framkvæmd handtökuskipunar, eins og hún er skilgreind í þessum samningi, skal takmarkað við hagnýta og stjórnsýslulega aðstoð.

HAFA Í HUGA að í þessum samningi eru grundvallarréttindi virt, einkum Evrópusáttmálinn um verndun mannréttinda og mannfrelsis.
Þessi samningur kemur ekki í veg fyrir að ríki beiti stjórnarskrárákvæðum sínum um tilhlýðilega málsmeðferð, félagafrelsi, prentfrelsi, tjáningarfrelsi í öðrum miðlum og frelsisbaráttumenn.

HAFA Í HUGA að ekki ætti að afhenda ríki mann ef veruleg hætta er á að hann verði látinn sæta dauðarefsingu, pyntingum eða annarri ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.

HAFA Í HUGA að þar sem öll ríkin hafa fullgilt samning Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, skulu þær persónuupplýsingar sem eru unnar í tengslum við framkvæmd þessa samnings njóta verndar í samræmi við meginreglur þess samnings.

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI:

1. KAFLI
ALMENNAR MEGINREGLUR
1. gr.
Markmið og tilgangur.

1. Samningsaðilar skuldbinda sig til að bæta, í samræmi við ákvæði samnings þessa, málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkjanna annars vegar og Konungsríkisins Noregs og lýðveldisins Íslands hins vegar vegna saksóknar eða fullnustu dóma og hafa að lágmarki hliðsjón af skilmálum samningsins frá 27. september 1996 um framsal milli aðildarríkja Evrópusambandsins.
2. Samningsaðilar skuldbinda sig, í samræmi við ákvæði þessa samnings, til að sjá til þess að framsalskerfi milli aðildarríkjanna annars vegar og Konungsríkisins Noregs og lýðveldisins Íslands hins vegar sé byggt á fyrirkomulagi við afhendingu samkvæmt handtökuskipun í samræmi við skilmála þessa samnings.
3. Þessi samningur hefur ekki áhrif til breytingar á skuldbindingu um að virða grundvallarréttindi og meginreglur laga eins og þær birtast í Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis eða, að því er varðar framkvæmd dómsvalds í aðildarríki, meginreglunum sem um getur í 6. gr. sáttmála Evrópusambandsins.
4. Ekkert í þessum samningi skal túlkað á þann veg að óheimilt sé að synja um afhendingu manns sem handtökuskipun, eins og hún er skilgreind í þessum samningi, hefur verið gefin út á ef ástæða er til að ætla, á grundvelli hlutlægra þátta, að handtökuskipunin hafi verið gefin út í þeim tilgangi að sækja til saka eða refsa manni á grundvelli kyns, kynþáttar, trúar, þjóðernis, ríkisfangs, tungumáls, stjórnmálaskoðana eða kynhneigðar, eða að stöðu hans kunni að vera stefnt í hættu af einhverri þessara ástæðna.

2. gr.
Skilgreiningar.

1. „Samningsaðilar“: Evrópusambandið og Konungsríkið Noregur og lýðveldið Ísland.
2. „Aðildarríki“: aðildarríki Evrópusambandsins.
3. „Ríki“: aðildarríki, Konungsríkið Noregur eða lýðveldið Ísland.
4. „Þriðja ríki“: hvert það ríki annað en ríki sem er skilgreint í 3. mgr.
5. „Handtökuskipun“: dómsúrskurður sem ríki gefur út með það fyrir augum að annað ríki handtaki eða afhendi eftirlýstan mann svo að unnt sé að sækja hann til saka eða framfylgja úrskurði um refsivist eða öryggisráðstöfun.

3. gr.
Gildissvið.

1. Heimilt er að gefa út handtökuskipun vegna verknaða, sem eru refsiverðir samkvæmt lögum útgáfuríkisins, þar sem hámarkstímabil refsivistar eða öryggisráðstöfunar er a.m.k. 12 mánuðir eða, ef refsing hefur verið ákvörðuð eða úrskurður um öryggisráðstöfun liggur fyrir, ekki styttra en fjórir mánuðir.
2. Afhending skal, með fyrirvara um 3. og 4. mgr., fara fram með því skilyrði að þeir verknaðir, sem handtökuskipunin grundvallast á, feli í sér brot á lögum framkvæmdarríkisins, hver sem málsatvik eru eða hvernig sem því er lýst.
3. Með fyrirvara um 4. gr., 5. gr. (b- til g-liður 1. mgr.), 6. gr., 7. gr. og 8. gr. skal ríki í engu tilviki synja um framkvæmd handtökuskipunar sem gefin er út í tengslum við framferði manns, sem tekur þátt í athæfi hóps manna sem í sameiningu hyggjast fremja eitt eða fleiri afbrot er teljast til hryðjuverka og um getur í 1. og 2. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum og 1., 2., 3. og 4. gr. rammaákvörðunar frá 13. júní 2002 um baráttuna gegn hryðjuverkum, til ólöglegra viðskipta með fíkniefni og geðvirk efni eða morðs, alvarlegra líkamsmeiðinga, mannráns, ólöglegs halds, gíslatöku og nauðgunar, sem varðar frelsissviptingu eða öryggisráðstöfun og skal hámarktímabil þessa vera a.m.k. 12 mánuðir, og gildir þá einu hvort viðkomandi hafi tekið þátt í raunverulegri framkvæmd afbrotsins eða afbrotanna enda hafi aðild hans verið með ásetningi og framkvæmd á grundvelli þeirrar vitneskju að þátttaka hans stuðli að því að samtökin nái markmiði afbrotastarfsemi sinnar.
4. Noregur og Ísland annars vegar og ESB hvaða aðildarríkja sinna sem er hins vegar geta lagt fram yfirlýsingu um að á grundvelli gagnkvæmni verði skilyrðinu um tvöfalt refsinæmi, sem um getur í 2. mgr., ekki beitt við þær aðstæður sem lýst er hér á eftir. Eftirtalin afbrot skulu, ef þau varða að hámarki a.m.k. þriggja ára refsivist eða öryggisráðstöfun í útgáfuríkinu og eins og þau eru skilgreind í lögum útgáfuríkisins, samkvæmt skilmálum þessa samnings og án þess að tvöfalt refsinæmi verknaðarins hafi verið sannreynt, vera tilefni afhendingar samkvæmt handtökuskipun:
          þátttaka í glæpasamtökum,
          hryðjuverk,
          mansal,
          kynlífsnotkun á börnum og barnaklám,
          ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni,
          ólögleg viðskipti með vopn, skotfæri og sprengiefni,
          spilling,
          svik, þ.m.t. svik sem hafa áhrif á fjárhagslega hagsmuni Evrópubandalaganna í skilningi samningsins frá 26. júlí 1995 um verndun fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna,
          þvætti ávinnings af afbrotum,
          peningafölsun, þ.m.t. á evrum,
          afbrot tengd tölvum,
          umhverfisafbrot, þ.m.t. ólögleg viðskipti með dýr, plöntur og yrki í útrýmingarhættu,
          aðstoð við óheimila komu til lands og búsetu,
          morð, alvarlegar líkamsmeiðingar,
          ólögleg viðskipti með líffæri og vefi úr mönnum,
          mannrán, ólöglegt hald og gíslataka,
          kynþátta- og útlendingahatur,
          skipulagt eða vopnað rán,
          ólögleg viðskipti með menningarverðmæti, þ.m.t. forngripi og listaverk,
          svindl,
          fjárglæfrar og fjárkúgun,
          eftirlíkingar og ólögleg nýting á vörum,
          fölsun opinberra skjala og viðskipti með þau,
          fölsun greiðslumiðla,
          ólögleg viðskipti með hormónaefni og aðra vaxtarhvata,
          ólögleg viðskipti með kjarnakleyf eða geislavirk efni,
          viðskipti með stolin ökutæki,
          nauðgun,
          íkveikja,
          afbrot sem heyra undir lögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins,
          ólögmæt taka loftfars/skips,
          skemmdarverk.

4. gr.
Ástæður fyrir því að framkvæma ekki handtökuskipun.

Ríkin skulu leggja þá skyldu á herðar dómsmálayfirvaldinu sem annast framkvæmdina að synja um framkvæmd handtökuskipunar í eftirtöldum tilvikum:
1)    ef afbrotið, sem handtökuskipunin er grundvölluð á, fellur undir almenna sakaruppgjöf í framkvæmdarríkinu, hafi þetta ríki lögsögu til að sækja til saka fyrir afbrotið samkvæmt refsilöggjöf sinni,
2)    ef dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, fær upplýsingar um að fullnaðardómur ríkis yfir hinum eftirlýsta vegna sama verknaðar hafi gengið, að því tilskildu, hafi refsing verið ákvörðuð, að afplánun sé lokið eða standi yfir eða ekki sé lengur heimilt að fullnusta dóminn samkvæmt lögum dómsríkisins,
3)    ef óheimilt er samkvæmt lögum framkvæmdarríkisins að láta þann sem handtökuskipunin er gefin út á sæta refsiábyrgð vegna verknaðarins, sem handtökuskipunin er grundvölluð á, sakir aldurs hans.

5. gr.
Aðrar ástæður fyrir því að framkvæma ekki handtökuskipun.

1. Ríki geta lagt þá skyldu á herðar dómsmálayfirvaldinu, sem annast framkvæmdina, eða heimilað því þann valkost að synja um framkvæmd handtökuskipunar í eftirtöldum tilvikum:
a)    ef verknaðurinn, sem handtökuskipunin er grundvölluð á, telst ekki vera afbrot samkvæmt lögum framkvæmdarríkisins í öðru þeirra tilvika sem um getur í 2. mgr. 3. gr.; ekki skal þó synja um framkvæmd handtökuskipunar í tengslum við skatta eða gjöld, tolla og gjaldeyrisviðskipti af þeirri ástæðu að lög framkvæmdarríkisins kveða ekki á um sams konar skatta eða gjöld eða það hefur ekki sams konar reglur varðandi skatta og gjöld, tolla og gjaldeyrisviðskipti og er að finna í lögum útgáfuríkisins,
b)    ef verið er að sækja manninn, sem handtökuskipunin er gefin út á, til saka í framkvæmdarríkinu fyrir sama verknað og handtökuskipunin er grundvölluð á,
c)    ef dómsmálayfirvöld í framkvæmdarríkinu hafa ákveðið annaðhvort að sækja ekki til saka fyrir afbrotið sem handtökuskipunin er grundvölluð á eða stöðva saksókn, eða fullnaðardómur hafi verið kveðinn upp í ríki gagnvart hinum eftirlýsta vegna sömu verknaða sem kemur í veg fyrir frekari málsmeðferð,
d)    ef saksókn eða refsing gagnvart eftirlýsta manninum er fyrnd samkvæmt lögum framkvæmdarríkisins og verknaðirnir falla undir lögsögu þess ríkis samkvæmt refsilöggjöf þess,
e)    ef dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, fær upplýsingar um að fullnaðardómur þriðja ríkis yfir hinum eftirlýsta hafi gengið vegna sama verknaðar, að því tilskildu, hafi refsing verið ákvörðuð, að afplánun sé lokið eða standi yfir eða ekki sé lengur heimilt að fullnusta dóminn samkvæmt lögum dómsríkisins,
f)    ef handtökuskipun hefur verið gefin út í þeim tilgangi að framfylgja úrskurði um refsivist eða öryggisráðstöfun og eftirlýstur maður dvelur, er ríkisborgari eða er búsettur í framkvæmdarríkinu og það ríki tekur að sér að framfylgja refsidóminum eða öryggisráðstöfuninni í samræmi við landslög sín,
g)    ef handtökuskipunin varðar afbrot:
    i)        sem litið er svo á samkvæmt lögum framkvæmdarríkisins að hafi verið framin í heild eða að hluta til á yfirráðasvæði þess ríkis eða á stað sem litið er á sem slíkan
            eða
    ii)    sem voru framin utan yfirráðasvæðis útgáfuríkisins og óheimilt er samkvæmt lögum framkvæmdarríkisins að sækja til saka fyrir þau sömu afbrot þegar þau eru framin utan yfirráðasvæðis þess.
2. Sérhvert ríki skal upplýsa aðalskrifstofu ráðsins um það af hvaða ástæðum í 1. mgr., sem leiða til þess að handtökuskipun er ekki framkvæmd, það skyldar eigin dómsmálayfirvöld, sem annast framkvæmdina, að synja um framkvæmd handtökuskipunar. Aðalskrifstofan skal sjá til þess að öll ríkin og framkvæmdastjórnin fái þessar upplýsingar.

6. gr.
Undantekning vegna stjórnmálaafbrota.

1. Óheimilt er að synja um framkvæmd handtökuskipunar á grundvelli þess að framkvæmdarríkið kunni að líta á afbrotið sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot sem sprottið er af stjórnmálaástæðum.
2. Noregur og Ísland annars vegar og Evrópusambandið hvaða aðildarríkja sinna sem er hins vegar geta lagt fram yfirlýsingu um að 1. mgr. gildi einungis í tengslum við:
a)    afbrotin sem um getur í 1. og 2. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum,
b)    afbrot sem felast í samsæri eða samanteknum ráðum, sem svara til lýsingarinnar á því framferði sem um getur í 3. mgr. 3. gr., að fremja eitt eða fleiri þeirra afbrota sem um getur í 1. og 2. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum
    og
c)    1., 2., 3. og 4. gr. rammaákvörðunar frá 13. júní 2002 um baráttuna gegn hryðjuverkum.
3. Ef ríki, sem hefur gefið út yfirlýsingu sem um getur í 2. mgr., eða ríki, þar sem aðrir hafa annast útgáfu slíkrar yfirlýsingar fyrir þess hönd, gefur út handtökuskipun er framkvæmdarríkinu heimilt að beita gagnkvæmni.

7. gr.
Undantekning vegna ríkisfangs.

1. Óheimilt er að synja um framkvæmd handtökuskipunar á grundvelli þess að maðurinn, sem óskað er eftir, er ríkisborgari í framkvæmdarríkinu.
2. Noregur og Ísland annars vegar og Evrópusambandið hvaða aðildarríkja sinna sem er hins vegar geta lagt fram yfirlýsingu um að þau muni ekki afhenda eigin ríkisborgara eða afhenda þá einungis við sérstakar, tilgreindar kringumstæður.
3. Ef ríki, sem hefur gefið út yfirlýsingu sem um getur í 2. mgr., eða ríki, þar sem aðrir hafa annast útgáfu slíkrar yfirlýsingar fyrir þess hönd, gefur út handtökuskipun er hverju hinna ríkjanna sem er heimilt að beita gagnkvæmni við framkvæmd handtökuskipunar.

8. gr.
Tryggingar sem útgáfuríki ber að veita í vissum tilvikum.

Heimilt er að setja eftirfarandi skilyrði fyrir framkvæmd dómsmálayfirvalds á handtökuskipun:
1)    ef handtökuskipunin er gefin út til að framfylgja refsidómi eða öryggisráðstöfun á grundvelli ákvörðunar sem er tekin í fjarveru þess sem hún beinist gegn og hafi hlutaðeigandi ekki verið stefnt persónulega eða á annan hátt fengið upplýsingar um hvaða dag og hvar skýrslutakan, sem leiddi til ákvörðunar í fjarveru hans, skyldi fara fram er heimilt að setja það skilyrði fyrir afhendingu að dómsyfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, veiti fullnægjandi tryggingu fyrir því að sá sem handtökuskipunin varðar fái tækifæri til að óska eftir því að réttað verði í málinu að nýju í útgáfuríkinu og úrskurður felldur í viðurvist hans,
2)    ef afbrotið, sem handtökuskipunin er gefin út fyrir, varðar ævilangri refsivist eða ævilangri öryggisráðstöfun er heimilt að binda framkvæmd handtökuskipunarinnar því skilyrði að útgáfuríkið veiti fullnægjandi tryggingu fyrir því, að mati framkvæmdarríkisins, að það muni endurskoða uppkveðna refsingu eða ráðstöfun komi fram beiðni þar um eða eigi síðar en eftir 20 ár eða hvetja til beitingar vægari ráðstafana sem viðkomandi á rétt á samkvæmt lögum eða venjum útgáfuríkisins sem miða að því að slík refsing eða ráðstöfun komi ekki til framkvæmda,
3)    ef maður, sem handtökuskipun vegna saksóknar varðar, er ríkisborgari eða búsettur í framkvæmdarríkinu er heimilt að setja það skilyrði fyrir afhendingu að hann skuli sendur aftur til framkvæmdarríkisins að lokinni skýrslutöku til að afplána þar refsivist eða sæta öryggisráðstöfun sem kveðin var upp gegn honum í útgáfuríkinu.

9. gr.
Ákvörðun um hvaða dómsmálayfirvald telst vera lögbært.

1. Dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, skal vera það dómsmálayfirvald í útgáfuríkinu sem er til þess bært að gefa út handtökuskipun samkvæmt lögum þess ríkis.
2. Dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, skal vera það dómsmálayfirvald í framkvæmdarríkinu sem er til þess bært að annast framkvæmd handtökuskipana samkvæmt lögum þess ríkis. Þegar tilkynningin, sem um getur í 1. mgr. 39. gr., er lögð fram er heimilt að tilnefna dómsmálaráðherra sem lögbært yfirvald við framkvæmd handtökuskipunar hvort sem hann telst vera dómsmálayfirvald samkvæmt lögum þess ríkis eða ekki.
3. Samningsaðilar skulu tilkynna hver öðrum um lögbær yfirvöld sín.

10. gr.
Leitað til miðlægs yfirvalds.

1. Samningsaðilum er heimilt að senda hver öðrum tilkynningar um miðlægt yfirvald hvers ríkis, hafi það verið tilnefnt, eða, ef gert er ráð fyrir því samkvæmt réttarkerfi viðkomandi ríkis, um fleiri en eitt miðlægt yfirvald sem skal vera lögbærum dómsmálayfirvöldum til aðstoðar.
2. Jafnframt er samningsaðilum heimilt að greina frá því að á grundvelli skipulags dómskerfis í viðkomandi ríkjum beri miðlæga yfirvaldið eða yfirvöldin ábyrgð á sendingu og móttöku stjórnsýslunnar á handtökuskipunum og öll önnur opinber bréfaskipti þar að lútandi. Þessar upplýsingar eru bindandi fyrir öll yfirvöldin í útgáfuríkinu.

11. gr.
Efni og framsetning handtökuskipunar.

1. Í handtökuskipun skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar sem eru settar fram í samræmi við framsetningu í viðaukanum við þennan samning:
a)     deili á hinum eftirlýsta og ríkisfang hans,
b)     nafn, heimilisfang, síma- og bréfsímanúmer og netfang dómsmálayfirvaldsins sem gefur handtökuskipunina út,
c)     sönnun þess að aðfararhæfur dómur hafi verið kveðinn upp, handtökuskipun gefin út eða að fyrir hendi sé önnur aðfararhæf dómsniðurstaða sem hefur sömu áhrif og fellur undir gildissvið 2. og 3. gr.,
d)     eðli afbrots og vísun til refsiákvæða, einkum að því er varðar 3. gr.,
e)     lýsing á því við hvaða aðstæður afbrotið var framið, þ.m.t. hvenær og hvar það var framið og hversu stóran þátt hinn eftirlýsti átti í því,
f)     ákvörðun refsingar ef fullnaðardómur hefur gengið eða hvaða refsiramma mælt er fyrir um vegna afbrotsins samkvæmt lögum útgáfuríkisins,
g)     aðrar afleiðingar afbrotsins, ef unnt er.
2. Þýða verður handtökuskipunina á opinbert tungumál eða eitt af opinberum tungumálum framkvæmdarríkisins. Samningsaðila er heimilt, við gerð þessa samnings eða síðar, að gefa út yfirlýsingu um að hann muni samþykkja þýðingu á eitt eða fleiri opinber tungumál ríkis.

2. KAFLI
MÁLSMEÐFERÐ VIÐ AFHENDINGU
12. gr.
Sending handtökuskipunar.

1. Þegar dvalarstaður eftirlýsts manns er kunnur getur dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, sent hana beint til dómsmálayfirvaldsins sem annast framkvæmdina.
2. Dómsmálayfirvaldinu, sem gefur handtökuskipunina út, er í öllum tilvikum heimilt að skrá eftirlýstan mann í Schengen-upplýsingakerfið (SIS).
Færa skal slíka skráningu í samræmi við viðeigandi ákvæði laga Evrópusambandsins um skráningu einstaklinga vegna afhendingar í Schengen-upplýsingakerfið. Skráning í Schengen-upplýsingakerfið skal jafngilda handtökuskipun með þeim upplýsingum sem eru settar fram í 1. mgr. 11. gr.
3. Skráningin skal á aðlögunartímabili, þar til Schengen-upplýsingakerfið getur sent allar þær upplýsingar sem lýst er í 11. gr., jafngilda handtökuskipun þar til dómsmálayfirvaldinu, sem annast framkvæmdina, berst frumritið með tilhlýðilegum og viðeigandi hætti.

13. gr.
Ítarleg málsmeðferð við sendingu handtökuskipunar.

1. Ef dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, hefur ekki upplýsingar um það hvaða lögbært dómsmálayfirvald skuli annast framkvæmdina skal það senda nauðsynlegar fyrirspurnir til að afla upplýsinga um það frá framkvæmdarríkinu.
2. Ef ekki reynist unnt að nýta þjónustu Schengen-upplýsingakerfisins er dómsmálayfirvaldinu, sem gefur handtökuskipunina út, heimilt að leita til Alþjóðasambands sakamálalögreglu (Interpol) um sendingu handtökuskipunarinnar.
3. Dómsmálayfirvaldinu, sem gefur handtökuskipunina út, er heimilt að senda hana skriflega eftir hverri þeirri leið sem telst örugg og gerir framkvæmdarríkinu kleift að ganga úr skugga um áreiðanleika handtökuskipunarinnar.
4. Öll vandamál varðandi sendingu eða áreiðanleika hvers konar skjala sem þarf til að framkvæma handtökuskipunina skal leysa beint milli hlutaðeigandi dómsmálayfirvalda eða, ef við á, með aðkomu miðlægra yfirvalda ríkjanna.
5. Ef það yfirvald sem fær handtökuskipun í hendur er ekki til þess bært að framkvæma hana skal það þegar í stað senda handtökuskipunina til lögbærs yfirvalds í eigin ríki og tilkynna dómsmálayfirvaldinu, sem gef handtökuskipunina út, um það.

14. gr.
Réttur eftirlýsts manns.

1. Þegar eftirlýstur maður er handtekinn skal dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, upplýsa hann, í samræmi við landslög, um handtökuskipunina og efni hennar og að hann eigi þess kost að samþykkja að vera afhentur dómsmálayfirvaldinu sem gefur handtökuskipunina út.
2. Eftirlýstur maður, sem er handtekinn vegna framkvæmdar handtökuskipunar, hefur rétt til aðstoðar lögfræðings og túlks í samræmi við landslög framkvæmdarríkisins.

15. gr.
Gæsluvarðhald.

Þegar maður er handtekinn á grundvelli handtökuskipunar skal dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, ákveða hvort honum skuli haldið í gæsluvarðhaldi í samræmi við lög framkvæmdarríkisins. Heimilt er að sleppa manninum hvenær sem er til bráðabirgða í samræmi við landslög framkvæmdaríkisins, að því tilskildu að lögbært yfirvald í því ríki geri allar ráðstafanir sem það telur nauðsynlegar til að koma í veg fyrir hann komist undan.

16. gr.
Samþykki fyrir afhendingu.

1. Ef hinn handtekni gefur til kynna samþykki sitt fyrir afhendingu skal slíkt samþykki og, ef við á, skýlaust afsal á réttinum til að nýta sér sérregluna sem um getur í 2. mgr. 30. gr. gefið frammi fyrir dómsmálayfirvaldinu, sem annast framkvæmdina, í samræmi við landslög framkvæmdarríkisins.
2. Hvert ríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að samþykki og, eftir atvikum, afsal, eins og um getur í 1. mgr., sé gefið með þeim hætti að ljóst sé að sá sem í hlut á hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja og verið kunnugt um afleiðingarnar. Eftirlýstur maður skal, í því skyni, eiga rétt á ráðgjöf lögfræðings.
3. Bóka skal formlega samþykkið og, eftir atvikum, afsalið sem um getur í 1. mgr. í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í landslögum framkvæmdarríkisins.
4. Að meginreglu til er samþykkið óafturkallanlegt. Hvert ríki getur kveðið á um að samþykki og, eftir atvikum, afsal megi afturkalla í samræmi við landslög. Í því tilviki er tímabilið frá því að tilkynnt er um samþykki til þess að tilkynnt er um afturköllun þess ekki talið með þegar frestir, sem mælt er fyrir um í 20. gr., eru ákveðnir. Noregur og Ísland annars vegar og Evrópusambandið fyrir hönd hvaða aðildarríkja sinna sem er hins vegar geta lagt fram yfirlýsingu, á sama tíma og tilkynninguna sem kveðið er á um í 1. mgr. 38. gr., um að þau óski eftir því að geta nýtt sér þennan möguleika og skulu þau tilgreina hvaða málsmeðferð skuli gilda um slíka afturköllun samþykkis og hvers kyns breytingar á þeirri málsmeðferð.

17. gr.
Skýrslutaka af eftirlýstum manni.

Ef hinn handtekni samþykkir ekki afhendingu, eins og um getur í 16. gr., skal hann eiga rétt á að tekin sé af honum skýrsla fyrir dómsmálayfirvaldinu sem annast framkvæmdina, í samræmi við lög framkvæmdarríkisins.

18. gr.
Ákvörðun um afhendingu.

1. Dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, skal ákveða, innan þess frests og með þeim skilyrðum sem skilgreind eru í þessum samningi, hvort maður skuli afhentur.
2. Telji dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, þær upplýsingar sem útgáfuríkið sendi ekki nægja til að það geti tekið ákvörðun um afhendingu skal það biðja um að nauðsynlegar viðbótarupplýsingar, einkum að því er varðar 4.–6. gr., 8. gr. og 11. gr., verði látnar í té hið bráðasta og getur það sett frest fyrir móttöku þeirra, þar sem tillit er tekið til þess að virða beri frestinn í 20. gr.
3. Dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, getur hvenær sem er framsent hverjar þær viðbótarupplýsingar til dómsmálayfirvaldsins, sem annast framkvæmdina, sem komið geta að gagni.

19. gr.
Ákvörðun þegar margar beiðnir eru lagðar fram.

1. Ef tvö ríki eða fleiri hafa gefið út evrópska handtökuskipun eða handtökuskipun á hendur sama manni skal dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, taka ákvörðun um hver þeirra skuli koma til framkvæmda og að teknu tilhlýðilegu tilliti til allra aðstæðna og þá einkum alvarleika afbrots og hvar það var framið, hvenær hver handtökuskipun var gefin út og hvort handtökuskipun hafi verið gefin út vegna saksóknar eða til að framfylgja úrskurði um refsivist eða öryggisráðstöfun.
2. Dómsmálayfirvald aðildarríkis, sem annast framkvæmdina, getur leitað ráða hjá Evrópsku réttaraðstoðinni (Eurojust) vegna ákvörðunarinnar sem um getur í 1. mgr.
3. Ef ágreiningur er um hvort handtökuskipun og framsalsbeiðni þriðja ríkis gangi framar skal lögbært yfirvald í framkvæmdarríkinu taka ákvörðun um það hvort skuli hafa forgang að teknu tilhlýðilegu tilliti til allra aðstæðna, einkum þeirra sem um getur í 1. mgr. og þeirra sem getið er í viðeigandi samningi.
4. Þessi grein er með fyrirvara um skuldbindingar ríkja samkvæmt samþykkt Alþjóðlega sakamáladómstólsins.

20. gr.
Frestir og málsmeðferð við töku ákvörðunar um að framkvæma handtökuskipun.

1. Fjalla skal um og framkvæma handtökuskipun eins fljótt og auðið er.
2. Ef eftirlýstur maður hefur samþykkt afhendingu sína skal endanleg ákvörðun um framkvæmd handtökuskipunar tekin innan 10 daga frá því að samþykki liggur fyrir.
3. Í öðrum tilvikum skal endanleg ákvörðun um framkvæmd handtökuskipunar tekin innan 60 daga frá því að eftirlýstur maður er handtekinn.
4. Ef ekki er unnt, í sérstökum tilvikum, að framkvæma handtökuskipun innan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. eða 3. mgr. skal dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, þegar í stað tilkynna það dómsmálayfirvaldinu, sem gefur handtökuskipunina út, og tilgreina ástæður fyrir töfinni. Í því tilviki er heimilt að framlengja frestinn um 30 daga.
5. Evrópusambandinu, fyrir hönd hvaða aðildarríkis síns sem er, er heimilt að leggja fram, á sama tíma og tilkynninguna sem kveðið er á um í 1. mgr. 38. gr., yfirlýsingu þar sem fram kemur í hvaða tilvikum 3. og 4. mgr. eigi ekki við. Noregi og Íslandi er heimilt að beita gagnkvæmni í tengslum við hlutaðeigandi aðildarríki.
6. Dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, skal sjá til þess að nauðsynlegum efnislegum skilyrðum varðandi afhendingu sé áfram fullnægt þar til það tekur endanlega ákvörðun um handtökuskipunina.
7. Færa skal rök fyrir synjun um framkvæmd handtökuskipunar.

21. gr.
Ákvörðunar beðið.

1. Hafi handtökuskipun verið gefin út vegna saksóknar verður dómsmálayfirvaldið sem annast framkvæmdina:
a)    annaðhvort að samþykkja að eftirlýstur maður fái að gefa skýrslu í samræmi við 22. gr.,
b)    eða samþykkja tímabundinn flutning hins eftirlýsta.
2. Dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, og dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, skulu komast að gagnkvæmu samkomulagi um það hvaða skilyrði skulu gilda um tímabundinn flutning og í hversu langan tíma hann má standa.
3. Ef maðurinn er fluttur annað tímabundið verður að gera honum kleift að snúa aftur til framkvæmdarríkisins til að vera við skýrslutökur sem hann varða og eru hluti af málsmeðferð við afhendingu.

22. gr.
Skýrslutaka af manni á meðan ákvörðunar er beðið.

1. Dómsmálayfirvald skal taka skýrslu af hinum eftirlýsa og njóta til þess aðstoðar annars einstaklings sem er tilnefndur í samræmi við lög ríkisins þar sem dómstóllinn, sem fer fram á afhendinguna, er staðsettur.
2. Taka skal skýrslu af hinum eftirlýsta í samræmi við lög framkvæmdarríkisins og með þeim skilyrðum sem dómsmálayfirvaldið sem gefur handtökuskipunina út og dómsmálayfirvaldið sem annast framkvæmdina komast að gagnkvæmu samkomulagi um.
3. Lögbæra dómsmálayfirvaldinu, sem annast framkvæmdina, er heimilt að tilnefna annað dómsmálayfirvald í sama ríki til að taka þátt í skýrslutöku af hinum eftirlýsta í því skyni að tryggja rétta beitingu þessarar greinar og þeirra skilyrða sem mælt er fyrir um.

23. gr.
Sérréttindi og friðhelgi.

1. Ef eftirlýstur maður nýtur sérréttinda eða friðhelgi að því er varðar lögsögu eða fullnustu í framkvæmdarríkinu hefst fresturinn, sem um getur í 20. gr., ekki fyrr en þann dag sem dómsmálayfirvaldinu, sem annast framkvæmdina, er tilkynnt um að sérréttindi og friðhelgi hafi verið felld niður.
2. Framkvæmdarríkið skal sjá til þess nauðsynlegum efnislegum skilyrðum varðandi afhendingu sé fullnægt þegar eftirlýstur maður nýtur ekki lengur sérréttinda eða friðhelgi.
3. Ef yfirvald í framkvæmdarríkinu hefur vald til að fella niður sérréttindi eða friðhelgi skal dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, fara fram á að það nýti sér það vald þegar í stað. Ef yfirvald í öðru ríki eða alþjóðastofnun hefur vald til að fella niður sérréttindi eða friðhelgi skal dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, fara fram á að það nýti sér það.

24. gr.
Árekstur milli alþjóðlegra skuldbindinga.

Þessi samningur hefur ekki áhrif á skuldbindingar framkvæmdarríkisins þegar þriðja ríki framselur eftirlýstan mann til þess ríkis og viðkomandi nýtur verndar samkvæmt sérreglum í því fyrirkomulagi sem framsalið er grundvallað á. Framkvæmdarríkið skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að fá þegar í stað samþykki ríkisins sem framselur hinn eftirlýsta þannig að afhenda megi hann ríkinu sem gaf handtökuskipunina út. Fresturinn, sem um getur í 20. gr., hefst ekki fyrr en daginn sem beitingu þessara sérreglna er hætt.
Framkvæmdarríkið skal sjá til þess að nauðsynlegum efnislegum skilyrðum fyrir afhendingu sé áfram fullnægt á meðan beðið er ákvörðunar ríkisins sem framselur hinn eftirlýsta.

25. gr.
Tilkynning um ákvörðun.

Dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, skal tilkynna dómsmálayfirvaldinu, sem gefur handtökuskipunina út, þegar í stað um það þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvort handtökuskipun kemur til framkvæmdar.

26. gr.
Frestur til að afhenda eftirlýstan mann.

1. Afhenda skal eftirlýstan mann við fyrsta tækifæri á degi sem hlutaðeigandi yfirvöld koma sér saman um.
2. Afhending hans skal fara fram eigi síðar en 10 dögum eftir að endanleg ákvörðun um framkvæmd handtökuskipunar liggur fyrir.
3. Ef aðstæður, sem ríkin ráða ekki við, leiða til þess að ekki er unnt að afhenda eftirlýstan mann innan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. skal dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, og dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, þegar í stað hafa samband hvort við annað og koma sér saman um annan afhendingardag. Í því tilviki skal afhending fara fram innan 10 daga frá nýju dagsetningunni sem ákveðin er.
4. Í undantekningartilvikum er heimilt að fresta afhendingu tímabundið af brýnum mannúðarástæðum, t.d. ef veruleg ástæða er til að líta svo á að afhending myndi augljóslega stofna lífi eða heilsu hins eftirlýsta í hættu. Handtökuskipun skal koma til framkvæmdar um leið og þessar ástæður er ekki lengur fyrir hendi. Dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, skal þegar í stað upplýsa dómsmálayfirvaldið, sem gefur handtökuskipunina út, um það og skulu þau koma sér saman um annan afhendingardag. Í því tilviki skal afhending fara fram innan 10 daga frá nýju dagsetningunni sem ákveðin er.
5. Ef eftirlýstur maður er enn í haldi þegar fresturinn, sem um getur í 2.–4. mgr., rennur út skal láta hann lausan.

27. gr.
Afhendingu frestað eða hún bundin skilyrðum.

1. Dómsmálayfirvaldi, sem annast framkvæmdina, er heimilt að fresta afhendingu eftirlýsts manns eftir að ákvörðun um að framkvæma handtökuskipunina hefur verið tekin þannig að unnt sé að sækja hinn eftirlýsta til saka í framkvæmdarríkinu eða, ef refsing hefur þegar verið ákvörðuð, hann geti afplánað dóm á yfirráðasvæði þess fyrir annan verknað en þann sem um getur í handtökuskipuninni.
2. Dómsmálayfirvaldinu, sem annast framkvæmdina, er heimilt, í stað þess að fresta afhendingu, að afhenda eftirlýstan mann tímabundið til útgáfuríkisins samkvæmt skilyrðum sem dómsmálayfirvaldið sem annast framkvæmdina og dómsmálayfirvaldið sem gefur handtökuskipunina út komast að gagnkvæmu samkomulagi um. Samkomulagið skal vera skriflegt og skilyrði þess bindandi fyrir öll yfirvöldin í útgáfuríkinu.

28. gr.
Gegnumflutningur.

1. Hvert ríki skal heimila gegnumflutning eftirlýsts manns, sem er sendur til afhendingar, um yfirráðasvæði sitt, að því tilskildu að það fái upplýsingar um:
a)    deili á þeim sem handtökuskipunin er gefin út á og ríkisfang hans,
b)    að fyrir liggi handtökuskipun,
c)    eðli afbrots og vísun til refsiákvæða,
d)    lýsing á því við hvaða aðstæður afbrotið var framið, þ.m.t. hvenær og hvar það var framið.
Ríki, sem yfirlýsing er gefin út fyrir í samræmi við 2. mgr. 7. gr. um að ríkisborgarar þess verði ekki afhentir eða einungis afhentir undir sérstökum, tilgreindum kringumstæðum, getur á sama hátt synjað um gegnumflutning eigin ríkisborgara um yfirráðasvæði sitt eða sett sömu skilyrði um sérstakar, tilgreindar kringumstæður.
2. Samningsaðilar skulu tilkynna hver öðrum um það hvaða yfirvald hvert ríki hefur tilnefnt til að taka við beiðnum um gegnumflutning og nauðsynlegum skjölum þar að lútandi og annast önnur opinber samskipti sem varða beiðnir um gegnumflutning.
3. Heimilt er að beina beiðni um gegnumflutning og upplýsingunum, sem getið er í 1. mgr., til yfirvalds, sem er tilnefnt skv. 2. mgr., skriflega eftir hvaða leið sem er og skilur eftir sig staðfestingu. Gegnumflutningsríkið skal tilkynna um ákvörðun sína eftir sömu málsmeðferð.
4. Þessi samningur á ekki við um flutninga í lofti án áætlaðrar millilendingar. Ef lent er engu að síður utan áætlunar skal útgáfuríkið láta yfirvaldinu, sem er tilnefnt skv. 2. mgr., í té þær upplýsingar sem kveðið er á um í 1. mgr.
5. Ef gegnumflutningur varðar mann sem framselja á frá þriðja ríki til ríkis gildir þessi grein að breyttu breytanda. Þannig skal litið svo á að í stað orðsins „handtökuskipun“, eins og það er skilgreint í þessum samningi, komi „framsalsbeiðni“.

3. KAFLI
ÁHRIF AFHENDINGAR
29. gr.
Gæsluvarðhaldstími í framkvæmdarríkinu dreginn frá.

1. Útgáfuríkið skal draga frá allan gæsluvarðhaldstíma sem rekja má til framkvæmdar handtökuskipunar frá þeim heildartíma refsingar sem viðkomandi ber að afplána í útgáfuríkinu á grundvelli úrskurðar um refsivist eða öryggisráðstöfun.
2. Í þessu skyni skal dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, eða miðlæga yfirvaldið, sem er tilnefnt skv. 10. gr., senda dómsmálayfirvaldinu, sem gefur handtökuskipunina út, við afhendingu allar upplýsingar um tímalengd gæsluvarðhalds eftirlýsts manns á grundvelli handtökuskipunar.

30. gr.
Möguleg saksókn vegna annarra afbrota.

1. Noregi og Íslandi annars vegar og Evrópusambandinu hvaða aðildarríkja sinna sem hins vegar er heimilt að tilkynna hverju öðru um að litið sé svo á að í samskiptum ríkjanna við önnur ríki, sem sama tilkynning tekur til, liggi fyrir samþykki um saksókn, ákvörðun refsingar eða varðhalds með það í huga að framfylgja úrskurði um refsivist eða öryggisráðstöfun fyrir afbrot, annað en það sem leiddi til afhendingar viðkomandi, sem er framið áður en afhending á sér stað, nema dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, taki annað fram, í tilteknu tilviki, í ákvörðun sinni um afhendingu.
2. Óheimilt er að sækja mann, sem er afhentur, til saka, dæma hann til refsingar eða svipta hann að öðru leyti frelsi sínu fyrir afbrot, annað en það sem hann var afhentur fyrir, sem var framið áður en til afhendingar kom, nema í þeim tilvikum sem um getur í 1. og 3. mgr.
3. Ákvæði 2. mgr. á ekki við í eftirfarandi tilvikum:
a)    ef viðkomandi hefur haft tækifæri til að fara frá yfirráðasvæði ríkisins, þangað sem hann hefur verið afhentur, en hefur ekki gert það innan 45 daga frá því hann var endanlega látinn laus eða ef hann hefur komið aftur á yfirráðasvæðið eftir að hafa yfirgefið það,
b)    ef afbrotið leiðir hvorki til refsivistar né öryggisráðstöfunar,
c)    ef meðferð sakamáls gefur ekki tilefni til að beita ráðstöfunum til að skerða persónulegt frelsi hans,
d)    ef honum er gert að sæta viðurlögum eða ráðstöfun sem felur ekki í sér frjálsræðissviptingu, þ.m.t. fésektir eða ráðstafanir í þeirra stað, jafnvel þótt þær kunni að skerða persónulegt frelsi hans,
e)    ef viðkomandi hefur gefið samþykki sitt fyrir afhendingu og, eftir atvikum, afsalað sér réttinum til að nýta sér sérregluna í samræmi við 16. gr.,
f)    ef hann hefur, eftir að hafa verið afhentur, skýlaust afsalað sér réttinum til að nýta sér sérregluna að því er varðar tiltekin afbrot sem hann framdi áður en hann var afhentur. Viðkomandi skal afsala sér þessum rétti frammi fyrir lögbærum dómsmálayfirvöldum í útgáfuríkinu og skal það skráð í samræmi við landslög í því ríki. Afsalið skal skráð með þeim hætti að ljóst sé að viðkomandi hafi gefið það af fúsum og frjálsum vilja og sé kunnugt um afleiðingarnar. Einstaklingurinn skal, í því skyni, eiga rétt á ráðgjöf lögfræðings,
g)    ef dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina og afhendir einstaklinginn, gefur samþykki sitt í samræmi við 4. mgr.
4. Leggja skal beiðni um samþykki fyrir dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, ásamt þeim upplýsingum sem um getur í 1. mgr. 11. gr. og þýðingu eins og um getur í 2. mgr. 11. gr. Veita skal samþykki ef afbrotið, sem beiðni um samþykki varðar, leiðir sjálft til afhendingar í samræmi við ákvæði þessa samnings. Synja skal um samþykki af þeim ástæðum sem um getur í 4. gr. en að öðru leyti má einungis synja um það af þeim ástæðum sem um getur í 5. gr., 6. gr. (2. mgr.) og 7. gr. (2. mgr.). Ákvörðun skal tekin eigi síðar en 30 dögum eftir móttöku beiðninnar. Við þær aðstæður sem getið er í 8. gr. verður útgáfuríkið að veita þær tryggingar sem kveðið er á um þar.

31. gr.
Afhending eða framsal síðar.

1. Noregi og Íslandi annars vegar og Evrópusambandinu hvaða aðildarríkja sinna sem er hins vegar er heimilt að greina hvert öðru frá því, að því er varðar samskipti ríkjanna við önnur ríki sem sama tilkynning á við um, að fyrir liggi samþykki um afhendingu manns til ríkis, annars en framkvæmdarríkisins, samkvæmt handtökuskipun sem er gefin út vegna annars afbrots en þess sem afhending varðar, nema dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, taki annað fram, í tilteknu tilviki, í ákvörðun sinni um afhendingu.
2. Í öllu falli getur maður, sem hefur verið afhentur útgáfuríkinu samkvæmt handtökuskipun, í eftirfarandi tilvikum fengið sig afhentan öðru ríki en framkvæmdarríkinu, án samþykkis framkvæmdarríkisins, samkvæmt handtökuskipun sem er gefin út vegna afbrots sem framið var áður en til afhendingar kom:
a)    ef hinn eftirlýsti hefur haft tækifæri til að fara frá yfirráðasvæði ríkisins, þangað sem hann var afhentur, en hefur ekki gert það innan 45 daga frá því hann var endanlega látinn laus eða ef hann hefur komið aftur á yfirráðasvæðið eftir að hafa yfirgefið það,
b)    ef hinn eftirlýsti samþykkir að vera afhentur til annars ríkis en framkvæmdarríkisins samkvæmt handtökuskipun. Viðkomandi skal gefa samþykki sitt frammi fyrir lögbærum dómsmálayfirvöldum í útgáfuríkinu og skal það skráð í samræmi við landslög í því ríki. Það skal vera skráð með þeim hætti að ljóst sé að hann hafi gefið það af fúsum og frjálsum vilja og sé kunnugt um afleiðingarnar. Hinn eftirlýsti skal, í því skyni, eiga rétt á ráðgjöf lögfræðings,
c)    ef hinn eftirlýsti fellur ekki undir sérregluna í samræmi við a-, e-, f- og g-lið 3. mgr. 30. gr.
3. Dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, samþykkir afhendingu til annars ríkis í samræmi við eftirfarandi reglur:
a)    beiðni um samþykki skal lögð fram í samræmi við 12. gr., ásamt þeim upplýsingum sem um getur í 1. mgr. 11. gr. og þýðingu eins og um getur í 2. mgr. 11. gr.,
b)    veita skal samþykki ef afbrotið, sem beiðni um samþykki varðar, leiðir sjálft til afhendingar í samræmi við ákvæði þessa samnings,
c)    ákvörðun skal tekin eigi síðar en 30 dögum eftir móttöku beiðninnar,
d)    synja skal um samþykki af þeim ástæðum sem um getur í 4. gr. en að öðru leyti má einungis synja um það af þeim ástæðum sem um getur í 5. gr. eða 6. gr. (2. mgr.) og 7. gr. (2. mgr.).
Við þær aðstæður sem getið er í 8. gr. skal útgáfuríkið veita þær tryggingar sem kveðið er á um þar.
4. Þrátt fyrir 1. mgr. skal ekki framselja mann, sem búið er að afhenda samkvæmt handtökuskipun, þriðja ríki án samþykkis lögbærs yfirvalds í ríkinu sem afhenti hann. Gefa skal slíkt samþykki í samræmi við þá samninga sem það ríki er bundið af og landslög þess.

32. gr.
Afhending hluta.

1. Dómsmálayfirvaldið, sem annast framkvæmdina, skal, að beiðni dómsmálayfirvaldsins, sem gefur handtökuskipunina út, eða að eigin frumkvæði, í samræmi við landslög, leggja hald á og afhenda hluti sem:
a)    gæti þurft sem sönnunargögn eða
b)    hinn eftirlýsti hefur aflað með afbroti sínu.
2. Hlutur, sem um getur í 1. mgr., skal afhentur enda þótt handtökuskipun verði ekki framkvæmd vegna andláts eða flótta hins eftirlýsta.
3. Ef heimilt er að leggja hald á hlutina sem um getur í 1. mgr. eða gera þá upptæka á yfirráðasvæði framkvæmdarríkisins getur það, ef nota þarf hlutina vegna sakamáls sem er til meðferðar, haldið þeim tímabundið eða afhent þá útgáfuríkinu með því skilyrði að þeim verði skilað.
4. Haldast skulu sérhver réttindi sem framkvæmdarríkið eða þriðju aðilar kunna að hafa öðlast í hlutunum sem um getur í 1. mgr. Þegar um slík réttindi er að ræða skal útgáfuríkið skila hlutunum til framkvæmdarríkisins um leið og meðferð sakamáls lýkur og án endurgjalds.

33. gr.
Kostnaður.

1. Framkvæmdarríkið skal greiða allan kostnað við framkvæmd handtökuskipunar sem til fellur á yfirráðasvæði þess.
2. Útgáfuríkið ber allan annan kostnað.

4. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI
34. gr.
Tengsl við aðra lagagerninga.

1. Við gildistöku þessa samnings skal hann koma í stað samsvarandi ákvæða eftirtalinna samninga sem gilda um framsal milli Noregs og Íslands annars vegar og aðildarríkjanna hins vegar, með fyrirvara um beitingu þeirra í samskiptum ríkjanna og þriðju ríkja:
a)    ákvæða Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. desember 1957, viðbótarsamnings við hann frá 15. október 1975, annars viðbótarsamnings við hann frá 17. mars 1978 og Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum frá 27. janúar 1977, að því er varðar framsal, eins og honum var breytt með bókun frá 2003 þegar hún öðlast gildi,
b)    ákvæða 4. kafla III. bálks samningsins frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum,
c)    ákvæða er varða Schengen í framsalssamningum ESB frá 1995 og 1996 að því marki sem þeir eru í gildi.
2. Ríkjunum er heimilt að beita áfram tvíhliða eða marghliða samningum eða samkomulagi sem eru í gildi við gerð þessa samnings að því marki sem slíkir samningar eða samkomulag er víðtækari en markmið þessa samnings og stuðla að því að einfalda eða greiða fyrir málsmeðferð við afhendingu manna sem handtökuskipun hefur verið gefin út á. Samningsaðilar skulu tilkynna hver öðrum um slíka samninga eða samkomulag.
3. Ríkjunum er heimilt að gera tvíhliða eða marghliða samninga eða samkomulag eftir gildistöku þessa samnings ef slíkir samningar eða samkomulag víkka út eða auka við efni þessa samnings og stuðlar að því að einfalda eða greiða fyrir málsmeðferð við afhendingu manna sem handtökuskipun hefur verið gefin út á, einkum með því að setja styttri fresti en þá sem um getur í 20. gr., bæta við skrána yfir afbrot sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 3. gr., takmarka enn frekar möguleika á synjun sem eru settir fram í 4. og 5. gr. eða með því að lækka refsirammann sem kveðið er á um í 1. eða 4. mgr. 3. gr.
Í engu tilviki mega samningar og samkomulag, sem um getur í fyrstu undirgrein, hafa áhrif á samskipti við ríki sem eiga ekki aðild að þeim.
Samningsaðilar skulu enn fremur tilkynna hver öðrum um nýjan slíkan samning eða samkomulag sem um getur í fyrstu undirgrein innan þriggja mánaða frá undirritun.
4. Ef þeir samningar, sem um getur í 1. mgr., taka til yfirráðasvæða ríkjanna eða yfirráðasvæða sem ríki annast utanríkismál fyrir og þessi samningur tekur ekki til skulu þessir gerningar gilda áfram um samskipti milli þessara yfirráðasvæða og hinna ríkjanna.

35. gr.
Bráðabirgðaákvæði.

1. Fyrirliggjandi gerningar um framsal skulu áfram gilda um framsalsbeiðnir sem berast fyrir gildistökudag þessa samnings. Þessi samningur gildir um beiðnir sem berast eftir þann dag.
2. Noregi og Íslandi annars vegar og Evrópusambandinu hvaða aðildarríkja sinna sem er hins vegar er heimilt að leggja fram, á sama tíma og tilkynninguna sem kveðið er á um í 1. mgr. 38. gr., yfirlýsingu þar sem greint er frá því að ríkið muni, sem framkvæmdarríki, halda áfram að beita, í tengslum við verknaði sem framdir voru fyrir þann dag sem þau tilgreina, því framsalskerfi sem gilti fyrir gildistöku þessa samnings. Þennan dag má ekki bera upp eftir gildistöku þessa samnings. Heimilt er að draga yfirlýsinguna til baka hvenær sem er.

36. gr.
Lausn deilumála.

Deiluaðila er heimilt að vísa sérhverjum ágreiningi, sem rís milli Íslands eða Noregs og aðildarríkis Evrópusambandsins varðandi túlkun eða beitingu samnings þessa, til fundar fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs með það fyrir augum að leysa deiluna innan sex mánaða.

37. gr.
Dómaframkvæmd.

Til að ná því markmiði að ná eins samræmdri beitingu og túlkun og unnt er á ákvæðum þessa samnings skulu samningsaðilar fylgjast stöðugt með dómaframkvæmd Dómstóls Evrópubandalaganna og einnig dómaframkvæmd þar til bærra dómstóla Íslands og Noregs varðandi slík ákvæði og ákvæði svipaðra samninga um afhendingu. Í þessu skyni skal koma á sérstöku fyrirkomulagi til að tryggja reglubundna og gagnkvæma miðlun slíkrar dómaframkvæmdar.

38. gr.
Tilkynningar, yfirlýsingar, gildistaka.

1. Samningsaðilar skulu tilkynna hver öðrum þegar nauðsynlegri málsmeðferð er lokið um að þeir samþykki að vera bundnir af þessum samningi.
2. Við afhendingu tilkynninga sinna skv. 1. mgr. skulu samningsaðilar leggja fram þær tilkynningar eða yfirlýsingar sem kveðið er á um í 5. gr. (2. mgr.), 9. gr. (3. mgr.), 28. gr. (2. mgr.) og 34. gr. (2. mgr.) þessa samnings og geta einnig lagt fram þær tilkynningar eða yfirlýsingar sem kveðið er á um í 3. gr. (4. mgr.), 6. gr. (2. mgr.), 7. gr. (2. mgr.), 10. gr. (1. mgr.), 11. gr. (2. mgr.), 16. gr. (4. mgr.), 20. gr. (5. mgr.), 30. gr. (1. mgr.), 31. gr. (1. mgr.), og 35. gr. (2. mgr.) þessa samnings. Heimilt er að leggja fram þær yfirlýsingar eða tilkynningar sem um getur í 3. gr. (4. mgr.), 10. gr. (1. mgr.) og 11. gr. (2. mgr.) hvenær sem er. Heimilt er að breyta þeim yfirlýsingum eða tilkynningum sem um getur í 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 28. gr. og draga til baka þær sem um getur í 5. gr. (2. mgr.), 6. gr. (2. mgr.), 7. gr. (2. mgr.), 10. gr. (1. mgr.), 16. gr. (4. mgr.), 20. gr. (5. mgr.), 34. gr. (2. mgr.) og 35. gr. (2. mgr.) hvenær sem er.
3. Ef Evrópusambandið leggur fram slíkar yfirlýsingar eða tilkynningar skal það gera grein fyrir því til hvaða aðildarríkja þess yfirlýsingin tekur.
4. Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir þann dag sem aðalframkvæmdastjóri ráðs Evrópusambandsins staðfestir að öllum formkröfum um samþykki af hálfu aðila að þessum samningi hefur verið fullnægt.

39. gr.
Aðild.

Aðild nýrra aðildarríkja Evrópusambandsins felur í sér réttindi og skyldur samkvæmt þessum samningi milli þeirra ríkja og Íslands og Noregs.

40. gr.
Sameiginleg endurskoðun.

Samningsaðilar samþykkja að endurskoða þennan samning sameiginlega eigi síðar en 5 árum eftir gildistöku hans og þá einkum yfirlýsingarnar sem gefnar eru skv. 3. gr. (4. mgr.), 6. gr. (2. mgr.), 7. gr. (2. mgr.) og 20. gr. (5. mgr.) þessa samnings. Ef yfirlýsingarnar, sem um getur í 2. mgr. 7. gr., eru ekki endurnýjaðar falla þær úr gildi 5 árum eftir gildistöku þessa samnings. Endurskoðunin skal einkum taka á hagnýtri framkvæmd, túlkun og þróun samningsins og getur einnig varðað málefni á borð við afleiðingar af frekari þróun Evrópusambandsins fyrir efni þessa samnings.

41. gr.
Uppsögn.

1. Samningsaðilum er heimilt að segja samningi þessum upp. Segi annaðhvort Ísland eða Noregur samningi þessum upp gildir hann áfram milli Evrópusambandsins og samningsaðilans sem hefur ekki sagt honum upp.
2. Uppsögn samningsins skv. 1. mgr. öðlast gildi sex mánuðum eftir að tilkynning um uppsögn er lögð fram. Hver sú málsmeðferð vegna beiðna um afhendingu sem bíður úrlausnar á þeim degi skal lokið í samræmi við ákvæði þessa samnings.

42. gr.
Vörsluaðili.

1. Aðalframkvæmdastjóri ráðs Evrópusambandsins skal vera vörsluaðili samnings þessa.
2. Vörsluaðili skal birta opinberlega upplýsingar um hverja þá tilkynningu eða yfirlýsingu sem varðar samning þennan.

Gjört í Vín hinn 28. júní 2006 í einu eintaki á íslensku, norsku, dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, írsku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, portúgölsku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku og eru allir textarnir jafngildir.


FYRIR HÖND EVRÓPUSAMBANDSINS

FYRIR HÖND LÝÐVELDISINS ÍSLANDS

FYRIR HÖND KONUNGSRÍKISINS NOREGS



FYLGISKJAL

EVRÓPSK HANDTÖKUSKIPUN


Lögbært dómsmálayfirvald gefur þessa handtökuskipun út. Farið er fram á að sá einstaklingur, sem getið er hér á eftir, verði handtekinn og afhentur til að unnt sé að sækja hann til saka eða vegna fullnustu dóms um refsivist eða öryggisráðstöfun.

A) Upplýsingar um hinn eftirlýsta
Kenninafn:
Eiginnafn/-nöfn:
Meyjarnafn, ef við á:
Dulnefni, ef við á:
Kyn:
Ríkisfang:
Fæðingardagur og -ár:
Fæðingarstaður:
Búsetustaður og/eða þekkt heimilisfang:
Tungumál, eitt eða fleiri, sem hinn eftirlýsti skilur (ef það er vitað):
Sérkenni/lýsing á hinum eftirlýsta:
Ljósmynd og fingraför af hinum eftirlýsta ef þau liggja fyrir og unnt er að senda þau eða upplýsingar um hvernig hafa má samband við þann sem getur útvegað þessi gögn eða gögn um DNA-eiginleika (ef unnt er að leggja þessi gögn fram hafi þau ekki fylgt).
B) Ákvörðun sem handtökuskipun grundvallast á
1. Handtökuskipun eða dómsúrskurður sem hefur sömu áhrif:
Tegund:
2. Aðfararhæfur dómur:
Tilvísun:
C) Upplýsingar um lengd refsingar
1. Leyfileg hámarkslengd refsivistar eða öryggisráðstöfunar fyrir afbrotið/afbrotin:
2. Uppkveðin lengd refsivistar eða öryggisráðstöfunar:
Refsing sem enn á eftir að afplána:
D) Úrskurður var kveðinn upp í fjarveru viðkomandi einstaklings og:
– hann tók sjálfur við stefnu eða fékk með öðrum hætti upplýsingar um hvaða dag og hvar skýrslutaka skyldi fara fram sem leiddi til þess að úrskurður var kveðinn upp í fjarveru hans
eða
– hann tók hvorki sjálfur við stefnu né fékk með öðrum hætti upplýsingar um hvaða dag og hvar skýrslutaka skyldi fara fram sem leiddi til þess að úrskurður var kveðinn upp í fjarveru hans en fékk eftirfarandi lagalegar tryggingar að lokinni afhendingu (hægt er að veita slíkar tryggingar fyrir fram)
Tilgreinið lagalegar tryggingar:
E) Afbrot:
Þessi handtökuskipun varðar alls: .................. afbrot.
Lýsing á því við hvaða aðstæður afbrotið eða afbrotin voru framin, þ.m.t. hvenær og hvar þau voru framin og hversu stóran þátt hinn eftirlýsti átti í þeim
Eðli afbrots og vísun til refsiákvæða og viðeigandi lagaákvæði/-reglur:
I. Eftirfarandi gildir einungis ef bæði útgáfuríki og framkvæmdarríki hafa lagt fram yfirlýsingu skv. 4. mgr. 3. gr. samningsins: Ef við á skal merkja við eitt eða fleiri afbrot sem varða, í útgáfuríkinu, að hámarki a.m.k. 3 ára refsivist eða öryggisráðstöfun eins og skilgreint er í lögum þess ríkis:
     *      þátttaka í glæpasamtökum,
     *      hryðjuverk,
     *      mansal,
     *      kynlífsnotkun á börnum og barnaklám,
     *      ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni,
     *      ólögleg viðskipti með vopn, skotfæri og sprengiefni,
     *      spilling,
     *      svik, þ.m.t. svik sem hafa áhrif á fjárhagslega hagmuni Evrópubandalaganna í skilningi samningsins frá 26. júlí 1995 um verndun fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna,
     *      þvætti ávinnings af afbrotum,
     *      peningafölsun, þ.m.t. á evrum,
     *      afbrot tengd tölvum,
     *      umhverfisafbrot, þ.m.t. ólögleg viðskipti með dýr, plöntur og yrki í útrýmingarhættu,
     *      aðstoð við óheimila komu til lands og búsetu,
     *      morð, alvarlegar líkamsmeiðingar,
     *      ólögleg viðskipti með líffæri og vefi úr mönnum,
     *      mannrán, ólöglegt hald og gíslataka,
     *      kynþátta- og útlendingahatur,
     *      skipulagt eða vopnað rán,
     *      ólögleg viðskipti með menningarverðmæti, þ.m.t. forngripi og listaverk,
     *      svindl,
     *      fjárglæfrar og fjárkúgun,
     *      eftirlíkingar og ólögleg nýting á vörum,
     *      fölsun opinberra skjala og viðskipti með þau,
     *      fölsun greiðslumiðla,
     *      ólögleg viðskipti með hormónaefni og aðra vaxtarhvata,
     *      ólögleg viðskipti með kjarnakleyf eða geislavirk efni,
     *      viðskipti með stolin ökutæki,
     *      nauðgun,
     *      íkveikja,
     *      afbrot sem heyra undir lögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins,
     *      ólögmæt taka loftfars/skips,
     *      skemmdarverk.
II. Ítarleg lýsing á afbroti eða afbrotum sem falla ekki undir I. hluta hér að framan:
F) Aðrar kringumstæður sem varða málið (valkvæðar upplýsingar):
(ATH.: Þetta gætu verið athugasemdir um úrlendisrétt, rof á tímafrestum og aðrar afleiðingar brots)
G) Þessi handtökuskipun tekur einnig til halds og afhendingar á eignum sem kunna að vera nauðsynlegar sem sönnunargögn:
Þessi handtökuskipun tekur einnig til halds og afhendingar á eignum sem hinn eftirlýsti hefur aflað með afbroti sínu.
Lýsing á eigninni (og staðsetningu hennar) (ef það er vitað):
H) Ef afbrot, eitt eða fleiri, sem handtökuskipunin er gefin út fyrir, varðar ævilanga refsivist eða ævilanga öryggisráðstöfun eða úrskurður um slíkt þegar fallinn:
veitir útgáfuríkið, að beiðni framkvæmdarríkisins, tryggingu fyrir því að það muni:
– endurskoða uppkveðna refsingu eða ráðstöfun komi fram beiðni þar um eða eigi síðar en eftir 20 ár,
og/eða
– hvetja til beitingar vægari ráðstafana sem viðkomandi á rétt á samkvæmt lögum eða venjum útgáfuríkisins sem miða að því að slík refsing eða ráðstöfun komi ekki til framkvæmda.
I) Dómsmálayfirvaldið sem gaf handtökuskipunina út:
Opinbert heiti:
Nafn fulltrúa þess1:
Staða (titill/röðun):
Tilvísun í skjal:
Heimilisfang:
Símanúmer: (landsnúmer) (svæðis-/borgarnúmer)(…)
Bréfsímanúmer (landsnúmer) (svæðis-/borgarnúmer)()
Tölvupóstur:
Leiðir til að ná sambandi við tengilið varðandi nauðsynlegar ráðstafanir við afhendingu:
Ef miðlægt yfirvald ber ábyrgð á sendingum og móttöku stjórnsýslunnar á handtökuskipunum:
Heiti miðlægs yfirvalds:
Tengiliður ef við á (titill, röðun og nafn):
Heimilisfang:
Símanúmer: (landsnúmer) (svæðis-/borgarnúmer)(…)
Bréfsímanúmer: (landsnúmer)(svæðis-/borgarnúmer)(…)
Tölvupóstur:
Undirritun dómsmálayfirvaldsins sem gefur handtökuskipunina út og/eða fulltrúa þess:
Nafn:
Staða (titill/röðun):
Dagsetning:
Opinber stimpill (ef hann er til)


Fylgiskjal II.


Samningur um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna 1
(norræn handtökuskipun).

Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:

Formáli

(1)        Samkvæmt niðurstöðum fundar norrænna dómsmálaráðherra á Svalbarða í júní 2002 2 ber að endurskoða núgildandi fyrirkomulag á framsali milli Norðurlandanna og afnema hina formlegu málsmeðferð við framsal milli Norðurlandanna.
(2)        Koma skal á fyrirkomulagi um gagnkvæma viðurkenningu ákvarðana um frelsissviptingu.
(3)        Yfirlýst markmið Norðurlandanna um enn þá þjálli löggjöf á þessu sviði hefur leitt til óskar um afnám núverandi fyrirkomulags á framsali og innleiðingu málsmeðferðar sem byggir á norrænni handtökuskipun um gagnkvæma viðurkenningu, og að afhendingin fari síðan fram samkvæmt henni, nema fyrir hendi séu einhverjar þeirra synjunarástæðna sem í samningnum greinir. Enn fremur mun innleiðing nýs fyrirkomulags varðandi afhendingu á dæmdum eða grunuðum mönnum með tilliti til refsifullnustu eða saksóknar gera það kleift að einfalda hið flókna ferli sem leiðir af gildandi málsmeðferð við framsal, þ. á m. varðandi hina evrópsku handtökuskipun.
(4)        Samningur þessi byggir á meginreglum um frelsi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarréttindum ásamt meginreglunni um réttarríki, en þessar meginreglur eru sameiginlegar öllum norrænu löndunum. Samningurinn virðir grundvallarréttindi, eins og þau eru tryggð með Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem undirritaður var í Róm 4. nóvember 1950, og virðir þjóðarsérkenni norrænu landanna.
(5)        Þessi samningur kemur ekki í veg fyrir að Norðurlöndin geti beitt eigin stjórnskipunarreglum um rétt til réttlátrar málsmeðferðar, félagafrelsis, prentfrelsis og tjáningarfrelsis í öðrum fjölmiðlum.
(6)        Ekki má flytja, senda, afhenda eða framselja eða afhenda áfram menn til lands þar sem nærlæg hætta er á að þeirra bíði dauðarefsing, pyndingar eða önnur ómannúðleg eða niðurlægjandi meðferð eða refsing.
(7)        Nægjanlegt eftirlit skal vera með ákvörðunum er varða fullnustu norrænnar handtökuskipunar, en í því felst að dómsmálayfirvöld í því landi sem hinn eftirlýsti er handtekinn í, skulu taka ákvörðun um afhendingu hlutaðeigandi.
(8)        Hlutverk miðlægra stjórnvalda varðandi fullnustu norrænnar handtökuskipunar skal takmarkast við hagnýta umsjón og aðstoð.
(9)        Fyrirkomulagið með norrænu handtökuskipuninni hvílir á því mikla trausti sem ríkir milli Norðurlandanna.
(10)    Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa innleitt rammaákvörðun ráðsins frá 13. júní 2002 um evrópsku handtökuskipunina varðandi málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkjanna (2002/584/RIA). Öll norrænu löndin hafa gerst aðilar að mörgum samningum er gilda á þessu sviði, t.d. Evrópusamningi frá 13. desember 1957 um framsal og Evrópusamningi frá 27. janúar 1977 um varnir gegn hryðjuverkum.
(11)    Norræna handtökuskipunin kemur í stað fyrri löggerninga um framsal milli Norðurlandanna.

1. KAFLI
ALMENNAR MEGINREGLUR
1. gr.
Skilgreining á skyldunni til að framfylgja norrænni handtökuskipun.

1.     Norræna handtökuskipunin er ákvörðun stjórnvalds í réttarkerfinu sem tekin er í norrænu landi með það fyrir augum að annað norrænt land handtaki og afhendi eftirlýstan mann með tilliti til saksóknar eða fullnustu fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar.
2.     Líta ber á evrópska handtökuskipun, sem gefin er út í Danmörku, Finnlandi eða Svíþjóð og byggist á rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópsku handtökuskipunina og um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkjanna, sem norræna handtökuskipun samkvæmt samningi þessum.
3.     Löndin skulu framfylgja sérhverri norrænni handtökuskipun á grundvelli meginreglna um gagnkvæma viðurkenningu og í samræmi við ákvæði þessa samnings.

2.     gr.
Gildissvið norrænnar handtökuskipunar.

1.     Gefa má út norræna handtökuskipun vegna háttsemi sem samkvæmt löggjöf þess lands sem gefur hana út er refsiverð þannig að varðað geti fangelsisrefsingu eða annarri frelsissviptingu (saksókn), eða þegar dæmd hefur verið fangelsisrefsing eða ákveðin annars konar frelsissviptingarráðstöfun (refsifullnusta).
2.     Afhending til saksóknar eða refsifullnustu vegna tveggja eða fleiri refsiverðra verknaða getur átt sér stað þó svo að skilyrði 1. mgr. séu aðeins uppfyllt varðandi einn verknaðinn.
3.     Afbrot, eins og þau eru skilgreind í löggjöf þess lands sem gefur handtökuskipun út, leiða til fullnustu á grundvelli norrænnar handtökuskipunar með þeim skilmálum sem kveðið er á um í þessum samningi og án þess að tvöfalt refsinæmi sé kannað.

3.      gr.
Ákvörðun um bær dómsmálayfirvöld o.fl. svo og skilgreining á þriðja landi.

1.     Dómsmálayfirvald sem gefur út handtökuskipun er það stjórnvald í réttarkerfinu í landinu er gefur hana út sem samkvæmt löggjöf þess lands er bært til að gefa út norræna handtökuskipun.
2.     Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu handtökuskipunar er það stjórnvald í réttarkerfinu í landinu sem fær beiðni um fullnustu sem samkvæmt löggjöf þess lands er bært til þess að framfylgja norrænni handtökuskipun.
3.     Sérhvert landanna útnefnir eitt miðlægt stjórnvald til þess að vera dómsmálayfirvöldum innan handar.
4.     Sérhvert landanna skýrir frá því við fullgildingu þessa samnings hvaða dómsmálayfirvöld séu bær stjórnvöld samkvæmt þeirra eigin löggjöf, svo og hvort miðlægt stjórnvald hafi verið útnefnt.
5.     Í þessum samningi telst „þriðja land“ vera sérhvert land utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins.

4. gr.
Ástæður sem skylda til synjunar á fullnustu norrænnar handtökuskipunar.

Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu skal synja um fullnustu norrænnar handtökuskipunar í eftirfarandi tilvikum:
1)    Ef afbrotið, sem norræna handtökuskipunin grundvallast á, getur sætt sakaruppgjöf í landinu sem beðið er um fullnustu og þetta land er valdbært til saksóknar vegna afbrotsins samkvæmt eigin löggjöf.
2)    Hafi sá eftirlýsti verið endanlega dæmdur fyrir sömu verknaði í norrænu landi eða aðildarríki ESB, að því tilskildu að refsing samkvæmt áfellisdómi hafi verið fullnustuð, sé til fullnustu eða að ekki sé lengur unnt að fullnægja henni samkvæmt löggjöf landsins sem dæmdi málið.
3)    Ef ekki er unnt að leggja á manninn, sem norræn handtökuskipun tekur til, refsiábyrgð á grundvelli löggjafar landsins sem beðið er um fullnustu vegna aldurs hans með tilliti til þeirra verknaða sem norræna handtökuskipunin grundvallast á.

5. gr.
Valfrjálsar ástæður til að synja um fullnustu norrænnar handtökuskipunar.

Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu getur synjað um fullnustu norrænnar handtökuskipunar:
1)    Ef maðurinn, sem norræna handtökuskipunin tekur til, hefur þegar verið sóttur til saka í fullnustulandinu vegna sömu háttsemi og norræna handtökuskipunin grundvallast á.
2)    Ef háttsemin sem norræna handtökuskipunin grundvallast á telst samkvæmt löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu að öllu eða nokkru leyti framin á landsvæði þessa lands eða á stað, sem jafnast á við það, og háttsemin flokkast ekki sem afbrot samkvæmt lögum landsins sem beðið er um fullnustu.
3)    Hafi hinn eftirlýsti verið dæmdur endanlega vegna sömu verknaða í þriðja landi, að því tilskildu að sakfelling í tilviki áfellisdóms hafi verið fullnustuð, sé til fullnustu eða er ekki lengur fullnustuhæf samkvæmt löggjöf landsins sem dæmdi málið.
4)    Hafi dómsmálayfirvöld í landinu sem beðið er um fullnustu ákveðið annaðhvort að hefja ekki saksókn vegna afbrotsins sem norræna handtökuskipunin grundvallast á eða hætta við saksókn sem hafin er, eða hafi hinn eftirlýsti hlotið endanlegan dóm í öðru norrænu landi vegna sömu háttsemi sem kemur í veg fyrir frekari saksókn.
5)    Sé norræn handtökuskipun gefin út með tilliti til fullnustu refsidóms eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar og hinn eftirlýsti dvelur í, er ríkisborgari í eða er búsettur í landinu sem beðið er um fullnustu, og þetta land skuldbindur sig til þess sjálft að annast fullnustu refsingarinnar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar samkvæmt eigin landslögum.

6. gr.
Skilyrt afhending.

Nú er norræn handtökuskipun gefin út með tilliti til saksóknar og maðurinn sem handtökuskipunin tekur til er ríkisborgari í eða er búsettur í landinu sem beðið er um fullnustu og má þá gera afhendinguna skilyrta því að viðkomandi verði, eftir að honum hefur verið gefinn kostur á að tjá sig, skilað aftur til landsins sem beðið var um fullnustu í því skyni að afplána þar fangelsisrefsinguna eða aðra frelsissviptingarráðstöfun sem viðkomandi verður dæmdur í í landinu sem gaf handtökuskipunina út.

7. gr.
Efni og form norrænu handtökuskipunarinnar.

1.     Norræna handtökuskipunin skal innihalda eftirfarandi upplýsingar í samræmi við eyðublaðið sem er að finna sem fylgiskjal:
a)    persónukenni og þjóðerni hins eftirlýsta,
b)    nafn, heimilisfang, síma- eða bréfasímanúmer og netfang dómsmálayfirvaldsins í landinu sem gefur handtökuskipunina út,
c)    tilgreiningu á því hvort fyrir liggi fullnustuhæfur dómur, handtökuskipun eða önnur fullnustuhæf ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif og nefnd er í 1. og 2. gr.
d)    hverrar tegundar afbrotið er og lögfræðilega skilgreiningu á því,
e)    lýsingu á því við hvaða aðstæður afbrotið var framið, þ.á m. hvenær það átti sér stað, hvar og hver þáttur hins eftirlýsta var í því,
f)    dæmda refsingu, ef um endanlegan dóm er að ræða, eða þann refsiramma sem er ákveðinn fyrir viðkomandi afbrot í lögum landsins sem gefur út handtökuskipunina,
g)    aðrar afleiðingar afbrotsins eftir því sem kostur er.
2.     Hafi handtökuskipunin verið gefin út vegna tveggja eða fleiri refsiverðra verknaða er nægilegt að fyrir liggi handtökuskipun eða gæsluvarðhaldsákvörðun vegna eins þeirra.

2. KAFLI
MÁLSMEÐFERÐ VIÐ AFHENDINGU
8. gr.
Sending norrænnar handtökuskipunar.

1.     Þegar dvalarstaður hins eftirlýsta er kunnur getur dómsmálayfirvaldið sem gefur út handtökuskipunina sent norrænu handtökuskipunina beint til dómsmálayfirvaldsins sem beðið er um fullnustu.
2.     Ef dvalarstaður hins eftirlýsta er ókunnur getur landið sem gefur handtökuskipunina út beðið eitt eða fleiri af hinum norrænu löndunum um að lýsa eftir viðkomandi í samræmi við eftirlýsingarreglur hlutaðeigandi landa. Þegar upplýst er um dvalarstaðinn skal senda norrænu handtökuskipunina svo fljótt sem verða má til viðkomandi lands.
3.     Dómsmálayfirvaldið sem gefur út handtökuskipunina getur í samræmi við 95. gr. samnings frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samningsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum ákveðið að tilkynna um hinn eftirlýsta í Schengen-upplýsingakerfinu. Tilkynning sem send er inn í Schengen-upplýsingakerfið svarar til norrænnar handtökuskipunar, en með skulu fylgja upplýsingar er greinir í 1. mgr. 7. gr. Tilkynningin mun í tiltekinn bráðabirgðatíma, á meðan Schengen-upplýsingakerfið er ekki fært um að senda allar þær upplýsingar sem greinir í 7. gr., jafngilda norrænni handtökuskipun, uns dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu hefur í samræmi við fyrirmæli veitt handtökuskipuninni móttöku.
4.     Sé stjórnvaldið sem tekur við norrænu handtökuskipuninni ekki bært til að fjalla um hana sendir það hana án tafar áfram til bærs stjórnvalds í landi sínu og tilkynnir dómsmálayfirvaldinu sem gaf hana út um það.

9. gr.
Réttindi hins eftirlýsta.

1.     Nú er eftirlýstur maður handtekinn og skal þá dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu, í samræmi við eigin landslög, upplýsa hlutaðeigandi um norrænu handtökuskipunina og efni hennar og möguleikann á því að gefa samþykki sitt til að hann verði afhentur því dómsmálayfirvaldi sem gaf handtökuskipunina út.
2.     Eftirlýstur maður, sem handtekinn er með tilliti til fullnustu samkvæmt norrænni handtökuskipun, á rétt á aðstoð réttargæslumanns og túlks í samræmi við löggjöf landsins sem beðið var um fullnustu.

10. gr.
Gæsluvarðhald yfir manni.

1.     Þegar maður er handtekinn á grundvelli norrænnar handtökuskipunar skal dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu taka ákvörðun um hvort viðkomandi skuli sæta gæsluvarðhaldi áfram í samræmi við lög landsins sem beðið er um fullnustu. Hinn handtekna má láta lausan tímabundið á hvaða stigi málsins sem er í samræmi við lög landsins sem beðið er um fullnustu, að því tilskildu að bært stjórnvald í því landi geri þær ráðstafanir sem teljast nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að hlutaðeigandi strjúki.
2.     Til þess að greiða fyrir rannsókn og til að tryggja afhendingu má beita þeim réttarúrræðum sem tiltæk eru samkvæmt reglum einstakra landa.

11. gr.
Samþykki til afhendingar o.fl.

1.     Gefi sá handtekni til kynna að hann veiti samþykki sitt til afhendingar, þar á meðal, eftir því sem við á, til saksóknar vegna annarra afbrota sem voru framin á undan afbroti því sem afhendingin tekur til, sbr. b-lið 2. mgr. 23. gr., skal samþykkið látið dómsmálayfirvaldinu í té sem beðið er um fullnustu í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.
2.     Löndin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að samþykkis skv. 1. mgr. verði aflað með þeim hætti að fram komi að hlutaðeigandi hafi gefið það af frjálsum vilja og með fullri vitneskju um hvað það hafi í för með sér. Í tengslum við þetta á hinn handtekni rétt á réttargæslumanni.
3.     Samþykki skal færa til bókar í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.
4.     Samþykki má afturkalla í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.

12. gr.
Yfirheyrsla yfir hinum eftirlýsta.

Hafi hinn handtekni ekki veitt samþykki sitt til afhendingar sem fjallað er um í 11. gr. á hlutaðeigandi rétt á að verða yfirheyrður af dómsmálayfirvaldi sem beðið er um fullnustu í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.

13. gr.
Ákvörðun um afhendingu.

1.     Dómsmálayfirvaldið sem fær beiðni um fullnustu tekur ákvörðun um afhendingu hlutaðeigandi manns innan þeirra tímamarka og með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í samningi þessum.
2.     Nú telur dómsmálayfirvaldið sem fær beiðni um fullnustu að upplýsingarnar, sem landið sem gaf út handtökuskipunina hefur sent, séu ekki nægjanlegar til þess að unnt sé að taka ákvörðun um afhendinguna og skal það þá beiðast þess að fá nauðsynlegar viðbótarupplýsingar án tafar getur sett frest til þess vegna nauðsynjar þess að tímamörk 14. gr. verði haldin.
3.     Dómsmálayfirvaldið sem gaf handtökuskipunina út getur hvenær sem er sent gagnleg viðbótargögn til dómsmálayfirvaldsins sem var beðið um fullnustu.

14. gr.
Frestir og málsmeðferð í tengslum við ákvörðun
um fullnustu norrænnar handtökuskipunar.

1.     Meðferð og fullnusta norrænnar handtökuskipunar skal sæta flýtimeðferð.
2.     Í þeim tilvikum þegar hinn eftirlýsti veitir samþykki sitt til afhendingar skal taka endanlega ákvörðun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar eigi síðar en 3 dögum eftir að þetta samþykki er veitt.
3.     Í öðrum tilvikum ber að taka endanlega ákvörðun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar eigi síðar en 30 dögum eftir handtöku hins eftirlýsta.
4.     Í einstökum málum, þegar ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun innan þeirra fresta sem í 2. og 3. mgr. getur, ber dómsmálayfirvaldinu sem beðið var um fullnustu þegar í stað að tilkynna dómsmálayfirvaldinu sem gaf út handtökuskipunina um það og ástæður þess. Þegar svo ber við skal ákvörðunin tekin án tafar.
5.     Á meðan dómsmálayfirvaldið sem beðið var um fullnustu hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar ber því að tryggja að efnisleg skilyrði fyrir afhendingu verði áfram fyrir hendi.
6.     Sérhverja synjun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar ber að rökstyðja.

15. gr.
Ákvörðun í þeim tilvikum þegar beiðnum lýstur saman.

1.     Hafi fleiri en eitt hinna norrænu landa gefið út handtökuskipun á hendur sama manni tekur dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu ákvörðun um hverri af handtökuskipununum skuli fullnægt, að teknu tilliti til allra aðstæðna, þar á meðal sérstaklega grófleika afbrotsins og hvar það var framið, dagsetninga á útgáfu handtökuskipananna, auk þess hvort handtökuskipanirnar eru gefnar út með saksókn fyrir augum eða til að framfylgja fangelsisrefsingu eða annarri frelsissviptingarráðstöfun.
2.     Ljósti saman norrænni handtökuskipun og evrópskri handtökuskipun eða beiðni um framsal frá þriðja landi eða aðildarríki Evrópusambandsins ákveður bært stjórnvald í landinu sem beðið er um fullnustu hvort það er norræna handtökuskipunin, evrópska handtökuskipunin eða framsalsbeiðnin sem skuli hafa forgang, að teknu hæfilegu tilliti til allra atvika, þar á meðal atvika sem nefnd eru í 1. mgr., auk þeirra sem getið er í samningi eða samkomulagi sem kann að vera fyrir hendi.
3.     Grein þessi snertir ekki skuldbindingar norrænu landanna samkvæmt samþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn eða sem tengjast alþjóðadómstólunum vegna brota gegn alþjóðlegum mannúðarlögum.

16. gr.
Forréttindi og friðhelgi.

1.     Njóti hinn eftirlýsti forréttinda eða friðhelgi að því er varðar fullnustu eða saksókn í landinu sem beðið er um fullnustu byrja frestirnir sem nefndir eru í 14. gr. fyrst að líða frá því tímamarki þegar forréttindin eða friðhelgin eru niður fallin og dómsmálayfirvaldinu í landinu sem beðið var um fullnustu hefur verið tilkynnt um það. Landið sem beðið er um fullnustu tryggir að efnisleg skilyrði fyrir afhendingu séu uppfyllt ef hinn eftirlýsti nýtur ekki lengur slíkra forréttinda eða slíkrar friðhelgi.
2.     Ef það er á valdsviði stjórnvalds í landinu sem beðið er um fullnustu að fella niður forréttindi eða friðhelgi ber dómsmálayfirvaldinu sem beðið er um fullnustu þegar í stað að biðja hlutaðeigandi stjórnvald um það. Hvíli niðurfellingin á forréttindum eða friðhelgi á stjórnvaldi í öðru landi eða alþjóðastofnun er það í verkahring dómsmálayfirvaldsins sem gefur handtökuskipunina út að fara þessa á leit.

17. gr.
Alþjóðlegar skuldbindingar sem lýstur saman.

Þessi samningur hefur ekki áhrif á skuldbindingar landsins sem beðið er um fullnustu, þegar hinn eftirlýsti er afhentur eða framseldur því frá aðildarríki ESB eða þriðja landi, og hlutaðeigandi nýtur verndar gegn því að vera framseldur áfram samkvæmt þeim reglum sem framsalið átti sér stað eftir. Landið sem beðið er um fullnustu gerir allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess þegar í stað að biðja um samþykki frá því aðildarríki ESB eða þriðja landi sem hefur afhent eða framselt hinn eftirlýsta þannig að unnt verði að afhenda viðkomandi til landsins sem gaf út handtökuskipunina. Frestirnir sem nefndir eru í 14. gr. byrja fyrst að líða frá þeim degi þegar þessar sérstöku reglur falla brott.

18. gr.
Tilkynning um ákvörðun.

Dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu tilkynnir þegar í stað dómsmálayfirvaldinu sem gefur handtökuskipunina út að hve miklu leyti hinni norrænu handtökuskipun verði framfylgt.

19. gr.
Frestur til þess að afhenda hinn eftirlýsta.

1.     Afhenda skal hinn eftirlýsta jafnskjótt og verða má á degi sem stjórnvöldin sem í hlut eiga koma sér saman um.
2.     Afhenda skal hlutaðeigandi eigi síðar en 5 dögum eftir að endanleg ákvörðun um að framfylgja skuli norrænni handtökuskipun hefur verið tekin.
3.     Ef ókleift reynist af sérstökum ástæðum að afhenda hinn eftirlýsta innan þess frests sem greinir í 2. mgr. skulu dómsmálayfirvaldið sem beðið var um fullnustu og dómsmálayfirvaldið sem gaf handtökuskipunina út þegar hafa samband hvort við annað og koma sér saman um nýja dagsetningu varðandi afhendinguna. Afhending skal fara fram innan 5 daga frá því að fresturinn skv. 2. mgr. rennur út.
4.     Nú skapast þær aðstæður, sem hvorugu landanna verður um kennt, að ógerlegt reynist að afhenda hinn eftirlýsta innan frestsins sem kveðið er á um í 3. mgr. og skulu þá dómsmálayfirvaldið sem beðið var um fullnustu og dómsmálayfirvaldið sem gaf handtökuskipunina út þegar hafa samband hvort við annað og koma sér saman um nýja dagsetningu varðandi afhendinguna.
5.     Í undantekningartilvikum er heimilt að fresta afhendingu þegar fyrir liggja mjög gildar mannúðarástæður, t.d. þegar rík ástæða er til að ætla að afhending myndi augljóslega stofna lífi eða heilsu hins eftirlýsta í hættu. Framfylgja skal norrænni handtökuskipun þegar þessar ástæður eru ekki lengur fyrir hendi. Dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu tilkynnir þegar í stað dómsmálayfirvaldinu sem gaf út handtökuskipunina um þetta og koma þau sér saman um nýja dagsetningu varðandi afhendinguna.
6.     Ef hlutaðeigandi er enn þá í gæsluvarðhaldi að liðnum frestum skv. 2.–5. mgr. skal hann látinn laus.

20. gr.
Frestun á afhendingu eða tímabundin afhending.

1.     Dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu getur, þegar það hefur ákveðið að framfylgja norrænni handtökuskipun, frestað því að afhenda hinn eftirlýsta í því skyni að unnt verði að sækja hann til refsingar í landinu sem annast fullnustuna, eða, hafi hlutaðeigandi þegar verið dæmdur, til þess að láta hann afplána refsingu á landsvæði sínu vegna annars brots en þess sem liggur til grundvallar norrænu handtökuskipuninni.
2.     Í stað þess að fresta afhendingu getur dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu, tímabundið afhent hinn eftirlýsta til landsins sem gaf handtökuskipunina út með þeim skilmálum sem dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu og dómsmálayfirvaldið sem gefur handtökuskipun út koma sér saman um. Samkomulagið skal vera skriflegt og skilmálarnir eru bindandi fyrir öll stjórnvöld í landinu sem gaf handtökuskipunina út.

21. gr.
Gegnumflutningur.

Menn sem á að afhenda frá einu norrænu landi til annars má flytja án sérstakrar heimildar yfir eða í gegnum eitt eða fleiri af hinum norrænu löndunum.

3. KAFLI
RÉTTARÁHRIF AFHENDINGAR
22. gr.
Frádráttur á lengd gæsluvarðhalds í landinu sem annast fullnustu.

1.     Landinu sem gefur út handtökuskipun ber að draga frá allan þann tíma, sem hinn eftirlýsti hefur setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við fullnustu á norrænni handtökuskipun, þegar reiknuð er heildarlengd þess tíma sem hlutaðeigandi á að afplána í landinu sem gaf hana út á grundvelli dæmdrar fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar.
2.     Í því sambandi skal dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu jafnhliða afhendingunni veita dómsmálayfirvaldinu sem gefur út handtökuskipun allar upplýsingar um tímalengd gæsluvarðhalds sem hinn eftirlýsti hefur sætt á grundvelli norrænu handtökuskipunarinnar.

23. gr.
Hugsanleg saksókn vegna annarra afbrota.

1.     Mann sem afhentur er á grundvelli norrænnar handtökuskipunar til saksóknar eða afplánunar samkvæmt refsidómi eða annarri frelsissviptingarráðstöfun má draga til ábyrgðar fyrir önnur afbrot, sem hann framdi áður en til afhendingarinnar kom, en það sem hann er afhentur fyrir, nema
a)    afhending hefði ekki getað átt sér stað vegna viðkomandi afbrots skv. 4. gr.,
b)    afhendingunni hefði verið hafnað samkvæmt landslögum skv. 27. gr., eða
c)    synja hefði mátt um afhendingu vegna viðkomandi afbrots skv. 2. eða 4. mgr. 5. gr. og landið sem beðið var um fullnustuna neitar að veita samþykki sitt.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. má draga mann til refsiábyrgðar, sem samkvæmt norrænni handtökuskipun er afhentur til saksóknar eða til að afplána refsidóm eða aðra frelsissviptingarráðstöfun, fyrir önnur afbrot, sem hann framdi áður en til afhendingar kom, en það sem hann er afhentur fyrir, ef
a)    hlutaðeigandi hefur, þrátt fyrir að hafa átt möguleika á að yfirgefa norrænt land sem hann var afhentur til, látið það hjá líða í 45 daga eftir að hann var endanlega látinn laus eða hefur snúið aftur til þessa lands eftir að hafa yfirgefið það, eða
b)    hlutaðeigandi hefur fyrir eða eftir afhendinguna veitt samþykki sitt til saksóknar vegna annarra afbrota.

24. gr.
Afhending áfram eða framsal áfram.

1.     Mann sem hefur verið afhentur til annars norræns lands til saksóknar eða afplánunar á refsidómi eða annarri frelsissviptingarráðstöfun má afhenda áfram til annars norræns lands en landsins sem fær beiðni um fullnustu samkvæmt norrænni handtökuskipun, sem gefin var út vegna afbrots sem var framið fyrir afhendinguna, nema afhendingu frá landinu, sem upphaflega gaf út handtökuskipunina til þess lands sem nú gefur út handtökuskipun, hefði verið hafnað samkvæmt eigin lögum þess lands á grundvelli 26. eða 27. gr.
2.     Mann sem afhentur er til annars norræns lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar má afhenda eða framselja áfram einhverju aðildarríki ESB eða framselja áfram til þriðja lands í samræmi við reglur í löggjöf þess lands sem gaf handtökuskipunina út, vegna afbrots sem framið var fyrir afhendinguna, ef:
a)    hlutaðeigandi hefur sjálfur gefið samþykki sitt til þess,
b)    hlutaðeigandi hefur, þrátt fyrir að hafa átt möguleika óhindrað í 45 daga á að yfirgefa landið sem hann var afhentur til, látið það hjá líða eða, eftir að hann yfirgaf landið af fúsum og frjálsum vilja, hefur snúið aftur, eða
c)    landið sem fær beiðni um fullnustu veitir samþykki sitt til þess. Samþykki skal aðeins veita ef afhending vegna umrædds verknaðar hefði getað átt sér stað á grundvelli reglna í löggjöf landsins sem fær beiðni um fullnustu.

25. gr.
Afhending muna.

1.     Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu skal í samræmi við eigin landslög og að fenginni beiðni frá dómsmálayfirvaldi sem gaf handtökuskipun út, eða að eigin frumkvæði, leggja hald á og afhenda muni:
a)    sem eru nauðsynlegir sem sönnunargögn, eða
b)    sem hinn eftirlýsti hefur aflað með afbrotinu.
2.     Muni þá sem nefndir eru í 1. mgr. skal afhenda þó svo að ekki sé unnt að framfylgja norrænni handtökuskipun vegna þess að hinn eftirlýsti er látinn eða hefur strokið.
3.     Ef hald er lagt á muni eða þeir eru gerðir upptækir, sem nefndir eru í 1. mgr. og finnast á landsvæði landsins sem beðið er um fullnustu, getur það land í tengslum við sakamál sem er þar til meðferðar haldið þeim tímabundið eða afhent þá til þess lands, sem gaf beiðnina út, með því skilyrði að þeim verði skilað síðar.
4.     Sérhver réttindi, sem landið sem beðið er um fullnustu eða þriðji maður kann að eiga til þeirra muna sem nefndir eru í 1. mgr., haldast. Ef um slík réttindi er að ræða skal landið sem gaf út beiðnina þegar í stað að lokinni saksókn skila mununum endurgjaldslaust til landsins sem beðið var um fullnustu.

4. KAFLI
SÉRSTAKAR REGLUR UM AFHENDINGU TIL/FRÁ ÍSLANDI
26. gr.
Gildissvið – eigin ríkisborgarar.

1.     Gildissvið norrænnar handtökuskipunar, sem skilgreind er í 2. gr. samningsins, gildir ekki um afhendingu milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar, þegar um er að ræða afhendingu á eigin ríkisborgurum, sbr. 2.–4. mgr.
2.     Synja má um afhendingu frá Íslandi á íslenskum ríkisborgara til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar, nema hinn eftirlýsti hafi síðastliðin 2 ár fyrir hinn refsiverða verknað verið búsettur í landinu sem gaf handtökuskipunina út, eða ef verknaðurinn eða sambærilegur verknaður samkvæmt íslenskum lögum getur varðað þyngri refsingu en fangelsi í 4 ár.
3.     Synja má um afhendingu frá heimalandi dansks, finnsks, norsks eða sænsks ríkisborgara til Íslands, nema hinn eftirlýsti hafi síðastliðin 2 ár fyrir hinn refsiverða verknað verið búsettur á Íslandi, eða ef verknaðurinn eða sambærilegur verknaður samkvæmt lögum þess lands sem beðið er um fullnustu getur varðað þyngri refsingu en fangelsi í 4 ár.
4.     Afhending til saksóknar eða refsifullnustu vegna tveggja eða fleiri refsiverðra verknaða getur átt sér stað þrátt fyrir að skilyrði 2. eða 3. mgr. séu aðeins uppfyllt varðandi einn þeirra.

27. gr.
Gildissvið – stjórnmálaafbrot.

1.     Gildissvið hinnar norrænu handtökuskipunar, sem skilgreind er í 2. gr. samningsins, nær heldur ekki til afhendingar milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar, þegar um er að ræða stjórnmálaafbrot, sbr. 2.–5. mgr.
2.     Synja má um afhendingu frá Íslandi á íslenskum ríkisborgara til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot.
3.     Synja má um afhendingu frá heimalandi dansks, finnsks, norsks eða sænsks ríkisborgara til Íslands vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot.
4.     Synja má um afhendingu útlendings frá Íslandi til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot, nema sambærilegur verknaður sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann.
5.     Synja má um afhendingu útlendings frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð til Íslands vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot, nema sambærilegur verknaður sé refsiverður í landinu sem beðið er um fullnustu eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann.

5. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI
28. gr.
Tengsl við aðra löggerninga.

1.     Þessi samningur gildir á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.
2.     Ákvæði samningsins hafa ekki áhrif á skuldbindingar norrænu landanna samkvæmt rammaákvörðuninni um evrópsku handtökuskipunina né öðrum löggerningum er varða framsal til þriðja lands.
3.     Norðurlöndin geta gert tvíhliða eða marghliða samninga eða aðra löggerninga við aðildarríki Evrópusambandsins eða þriðju lönd eftir að samningurinn hefur öðlast gildi. Slíkir samningar eða aðrir löggerningar mega ekki hafa áhrif á samskiptin við þau norrænu lönd sem ekki eru aðilar að þeim.

29. gr.
Gildistaka.

1.     Samningslöndin geta gerst aðilar að þessum samningi með
a)    undirritun án fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu, eða
b)    undirritun með fyrirvara um eftirfarandi fullgildingu eða staðfestingu.
2.     Fullgildingarskjölin skulu varðveitt í danska utanríkisráðuneytinu.
3.     Danska utanríkisráðuneytið sendir staðfest endurrit af fullgildingarskjölum til dómsmálaráðuneyta samningslandanna.
4.     Samningur þessi öðlast gildi 3 mánuðum eftir að öll norrænu löndin hafa í samræmi við 1. mgr. veitt samþykki sitt til að vera bundin af samningnum. Samningurinn tekur þó fyrst gildi að því er varðar Grænland og Færeyjar 3 mánuðum eftir að danska dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytum hinna landanna að samningurinn skuli gilda að því er varðar Grænland og/eða Færeyjar.
5.     Áður en öll löndin hafa veitt samþykki sitt til að vera bundin af samningnum geta þau lönd, sem til þess gefa samþykki sitt, komist að samkomulagi um að samningurinn skuli taka gildi þeirra á milli frá fyrra tímamarki en því sem leiðir af 4. mgr.
6.     Með beiðnir um framsal, sem mótteknar eru áður en samningurinn tekur gildi, skal farið eftir gildandi framsalsreglum. Beiðnir, sem tekið er á móti eftir að samningurinn hefur tekið gildi, skulu lúta reglum sem norrænu löndin hafa samþykkt samkvæmt þessum samningi.

Gjört í Kaupmannahöfn hinn 15. desember 2005 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku sem öll eru jafngild.

Fyrir ríkisstjórn Danmerkur

Fyrir ríkisstjórn Finnlands

Fyrir ríkisstjórn Íslands

Fyrir ríkisstjórn Noregs

Fyrir ríkisstjórn Svíþjóðar


FYLGISKJAL

NORRÆN HANDTÖKUSKIPUN


Þessi handtökuskipun er gefin út af bæru dómsmálayfirvaldi. Þess er farið á leit að neðangreindur maður verði handtekinn og afhentur með tilliti til saksóknar eða til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri frelsissviptingarráðstöfun.

A) Upplýsingar um persónukenni hins eftirlýsta

Kenninafn:
Eiginnöfn:
Kenninafn konu fyrir giftingu, ef um það er að ræða:
Gælunafn, ef um það er að ræða:
Kyn:
Þjóðerni:
Fæðingardagur:
Fæðingarstaður:
Lögheimili og/eða þekkt heimilisfang:
Tungumál sem hinn eftirlýsti skilur (ef það er vitað):
Sérstök auðkenni/lýsing á hinum eftirlýsta:

Ljósmynd og fingraför hins eftirlýsta, ef þau liggja fyrir og sem má afhenda áfram, eða nafn og heimilisfang o.fl. þess manns sem hafa á samband við til þess að útvega ljósmynd og fingraför eða dna-kenniskrá (ef afhenda má þessi gögn áfram og þau eru ekki hjálögð).

B) Ákvörðunin sem handtökuskipunin grundvallast á
1. Handtökuskipun eða önnur fullnustuhæf ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif:
    Tegund:
2. Fullnustuhæfur dómur:
    Mál nr.

C) Lengd refsingarinnar
1. Hámarkslengd fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar sem dæma má fyrir afbrotið eða afbrotin:
2. Lengd hinnar raunverulega dæmdu fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar:
    Sá hluti refsingarinnar sem ekki hefur verið afplánaður:


D) Afbrotin
Þessi handtökuskipun varðar alls afbrot.
Lýsing á aðstæðunum þegar afbrotið eða afbrotin voru framin, þar á meðal tímasetning (dagur og stund), staður og þáttur hins eftirlýsta í afbrotinu eða afbrotunum:
Tegund og lögfræðileg skilgreining á afbrotinu eða afbrotunum, ásamt tilvísun til viðeigandi laga eða réttarreglna:
Önnur atriði sem kunna að hafa þýðingu í málinu:


E) Haldlagning og afhending muna
Þessi handtökuskipun tekur einnig til haldlagningar og afhendingar á munum sem nauðsynlegir eru sem sönnunargögn:
Þessi handtökuskipun tekur einnig til haldlagningar og afhendingar á munum sem hinn eftirlýsti hefur aflað sér með afbrotinu:
Lýsing á mununum og hvar þeir eru niður komnir (ef vitað er):


F) Stjórnvaldið sem gefur handtökuskipunina út
Dómsmálayfirvaldið sem hefur gefið handtökuskipunina út:
Nafn fulltrúa dómsmálayfirvaldsins:
Starfsheiti (titill/staða):
Málsnúmer:
Heimilisfang:
Símnúmer (landsnúmer) (svæðisnúmer):
Bréfasímanúmer (landsnúmer) (svæðisnúmer):
Netfang:
Nafn og heimilisfang o. fl. þess manns sem hafa á samband við í tengslum við framkvæmd afhendingarinnar:


G) Undirskriftir o.fl.
Undirskrift dómsmálayfirvaldsins sem gefur handtökuskipun út og/eða undirskrift fulltrúa þess:
Nafn:
Starfsheiti (titill/staða):
Dagsetning:
Opinber stimpill (ef hann er fyrir hendi):


Neðanmálsgrein: 1
1     Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð.
Neðanmálsgrein: 2
2     Sbr. fundargerð Norrænu ráðherranefndarinnar (dómsmálaráðherra) frá 25. júní 2002 (mál nr. 71001.15. 001/02).