Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1041  —  625. mál.
Flutningsmenn. Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um athugun á sjálfbærni og líftíma jarðgufuvirkjana.


Flm.: Róbert Marshall, Birgitta Jónsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Svandís Svavarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræð­inga sem rannsaki til hlítar og geri úttekt á jarðhitasvæðum sem nýtt eru til raforkufram­leiðslu og jarðgufuvirkjunum á Íslandi, m.a. með tilliti til sjálfbærni og líftíma. Hópurinn hafi það að leiðarljósi að niðurstöður hans nýtist sem grundvöllur mats á því hvort endurmeta þurfi nýtingarflokk núgildandi rammaáætlunar og/eða endurskoða ákvæði raforkulaga eða ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum til að tryggja að nýting jarðvarma sé sem hagkvæm­ust og gangi ekki á auðlindina. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang málsins á haustþingi 2016.

Greinargerð.

    Á Íslandi eru starfræktar sjö jarðgufuvirkjanir: Bjarnarflagsstöð, Hellisheiðarvirkjun, Húsavíkurvirkjun, Kröfluvirkjun, Nesjavallavirkjun, Reykjanesvirkjun og Svartsengi. Um 14 km breitt svæði skilur að tvær síðasttöldu virkjanirnar. Um miðbik svæðisins liggja Eldvörp, sem eru skilgreind sem virkjunarkostur fyrir jarðvarma og staðsett í orkunýtingar­flokki núgildandi rammaáætlunar. Þar standa yfir tilraunaboranir sem ætlað er að sannreyna hæfi svæðisins til vinnslu og skapa grundvöll fyrir áætlanagerð um vinnsluholur. Samkvæmt upplýsingum frá HS Orku hf. hefur ein djúp rannsóknarhola þegar verið boruð og til stendur að bora fleiri.
    Gunnlaugur H. Jónsson, eðlisfræðingur og fyrrum starfsmaður Orkustofnunar, lýsti þeirri skoðun sinni í grein sem birtist í Fréttablaðinu 13. ágúst 2015 að rammaáætlun hefði farið út af sporinu þegar tiltölulega litlum landsvæðum, sem hvert væri í eðli sínu aðeins einn virkjunarkostur, var skipt upp í marga virkjunarkosti. Ætti þetta m.a. við um Reykjanesið þar sem nú er fyrirhuguð þriðja virkjunin á 14 km breiðum kafla, eins og áður greinir. Gunn­laugur lýsti því einnig hvernig Hengilssvæðið væri þegar ofnýtt og að Hellisheiðarvirkjun stæðist ekki skilyrði um sjálfbæra vinnslu jarðvarma og væri því ósjálfbær samkvæmt skil­greiningu. Svipaða sögu væri að segja um fleiri svæði og virkjanakosti sem væru í nýtingar­flokki núgildandi rammaáætlunar.
    Grein Gunnlaugs var gagnrýnd í grein eftir Ólaf G. Flóvenz og Guðna Axelsson sem birtist í Fréttablaðinu 27. ágúst 2015. Þar var því haldið fram að sjónarmið Gunnlaugs byggð­ust á misskilningi. Óveruleg tengsl væru á milli jarðhitasvæðanna í Svartsengi og á Reykja­nesi og þótt greið tengsl væru milli Svartsengis og Eldvarpa yrði ekki ljóst hvort auka mætti heildarorkuframleiðsluna á þessum svæðum með vinnslu í Eldvörpum fyrr en látið yrði á það reyna með borunum. Þá væri ályktun Gunnlaugs um Hellisheiðarvirkjun röng, þar sem sú staðreynd að raforkuframleiðsla hennar félli nú um 2% árlega hefði ekkert að gera með sjálfbærni vinnslunnar til lengri tíma. Þó gæti vel verið að núverandi vinnsla virkjunarinnar ætti eftir að reynast ósjálfbær þegar fram í sækti. Engin hætta væri þó á að jarðhitasvæðið sjálft skaðaðist, það jafnaði sig með tímanum.
    Ljóst er að menn greinir á um eðli nýtingar jarðhitasvæða á Íslandi. Auk framangreindra greinarskrifa hefur verið bent á að í raun sé óréttmætt að ræða um sjálfbærni nýtingar jarð­hita, en að nýting sem gangi lítið á auðlind sé sem næst því að vera í anda sjálfbærrar þróun­ar. Þá sagði Stefán Arnórsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, í viðtali við Spegilinn 20. ágúst 2015 að háhitasvæði hefðu verið ofnýtt til raforkuframleiðslu síðan farið var að virkja með raforkusölu til stórkaupenda í huga. Erfitt væri að réttlæta þá ofnýtingu, enda hefði hún ekki stafað af þekkingarleysi. Þá væri það ekki rétt, sem fram kæmi í raforkulögum, nr. 65/2003, að jarðhiti endurnýjaði sig í sífellu, auk þess sem ákvæði laganna um samkeppni í raforkuframleiðslu með almannahagsmuni að leiðarljósi væru á villigötum.
    Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er ljóst af framanrituðu að þörf er á gagngerri úttekt og greiningu á málefnum sem varða jarðvarmavinnslu á Íslandi. Sterkar vísbendingar séu um óskynsamlega nýtingu auðlindarinnar sem krefjist þess að gripið sé í taumana. Þá sé ágreiningur milli sérfræðinga merki um að vafi virðist vera til staðar sem sé bagalegt og kalli á ítarlegar rannsóknir og úttektir á jarðhitasvæðum og jarðgufuvirkjunum áður en lengra er haldið. Ákvarðanir um framtíðarnýtingu verði að taka á upplýstari grunni en nú er. Því er lagt til að ráðherra hlutist til um að fram fari ítarleg rannsókn og úttekt á málefninu sem verði grunnur að framtíðarskipulagi jarðvarmavinnslu á Íslandi.
    Til að tryggja marktækni niðurstaðna þess starfshóps sem skipaður verður, verði tillaga þessi samþykkt, er lykilatriði að hann sé skipaður óháðum sérfræðingum, þ.e. aðilum sem í senn hafa nægilega sérfræðiþekkingu á málaflokknum og eru með öllu óháðir bæði stjórn­málaflokkum og hagsmunaaðilum í orkuiðnaðinum. Ráðherra er eftirlátið að ákveða nánar tilhögun framkvæmdarinnar, svo sem hve margir sérfræðingar skulu skipa starfshópinn og með hvaða hætti óhæði þeirra verði tryggt. Lagt er til að ráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang mála á haustþingi 2016 þar sem fram komi m.a. upplýsingar um skipun starfs­hópsins og tímaáætlun um verklok hans.