Ferill 670. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1098  —  670. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur (EES-reglur, stjórnvaldssektir o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við bætast fjórar nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
                  1.      Dreifingaraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem býður raf- og rafeindatæki fram á markaði. Þetta kemur ekki í veg fyrir að dreifingaraðili geti samtímis talist vera framleiðandi samkvæmt skilgreiningu á framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja.
                  2.      Endurvinnsla skipa: Starfsemi í skipaendurvinnslustöð sem miðar að sundurhlutun skipa, algerri eða að hluta til, til að endurheimta efnisþætti og efni til uppvinnslu, til undirbúnings fyrir endurnotkun eða til endurnotkunar, um leið og séð er til þess að haldið sé utan um efni, bæði hættuleg og önnur, og felur jafnframt í sér ýmsa tengda starfsemi, svo sem geymslu og meðhöndlun efnisþátta og efna á staðnum, en ekki frekari vinnslu þeirra eða förgun í aðskilinni aðstöðu.
                  3.      Miðlari úrgangs: Hvert það fyrirtæki sem sér um endurnýtingu eða förgun úrgangs fyrir hönd annarra, þ.m.t. miðlarar sem taka ekki slíkan úrgang í vörslu sína.
                  4.      Seljandi úrgangs: Hvert það fyrirtæki sem á eigin ábyrgð kaupir úrgang og selur hann síðan aftur, þ.m.t. þeir seljendur sem taka ekki úrganginn í vörslu sína.
     b.      Skilgreiningin Framleiðandi og innflytjandi raf- og rafeindatækja orðast svo: aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð,
              i.      framleiðir raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki eða lætur hanna eða framleiða raf- og rafeindatæki og markaðssetur undir eigin heiti eða vörumerki, í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
              ii.      endurselur raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð; endursöluaðilinn telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið,
              iii.      setur raf- og rafeindatæki frá öðru ríki á markað í atvinnuskyni í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
              iv.      selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda yfir landamæri, eða
              v.      flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sveitarstjórn skal senda Um­hverfisstofnun upplýsingar um útgáfu og veigamiklar endurskoðanir á svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á því formi sem stofnunin leggur til.

3. gr.

    Á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Skyldur framleiðanda úrgangs eða handhafa úrgangs til að endurnýta eða farga úrgangi falla að jafnaði ekki niður þó að úrgangur hafi verið fluttur til opinberra aðila eða einkaaðila.

4. gr.

    6. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Um­hverfisstofnun skal tryggja að birtar séu á vefnum tölulegar upplýsingar sem byggjast á skýrslum rekstraraðila til að uppfylla alþjóðlega samninga.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „fræða almenning um“ í 1. mgr. kemur: úrgangsforvarnir og.
     b.      Á eftir orðunum „gerð upplýsingaefnis um“ í 2. mgr. kemur: úrgangsforvarnir og.

6. gr.

    Í stað orðanna „til ráðherra“ í 3. mgr. 26. gr. laganna kemur: til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      4. málsl. fellur brott.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Til að tryggja yfirsýn og framkvæmd laga og reglugerða um flutning úrgangs milli landa skal Um­hverfisstofnun útbúa eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn. Ákvæði upplýsingalaga og laga um upplýsingarétt um um­hverfismál taka ekki til eftirlitsáætlunarinnar fyrr en að loknum gildistíma hennar.
                      Um eftirlit, sýnatöku, skilgreiningu eftirlitsferða og skoðana og eftirlitsáætlanir skal kveða nánar á í reglugerð.

8. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Um­hverfisstofnun er heimilt að stöðva flutning úrgangs milli landa þegar í stað þegar grunur leikur á að flutningur úrgangs uppfylli ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Um­hverfisstofnun er heimilt að taka ákvörðun til bráðabirgða um stöðvun flutning úrgangs í þessum tilvikum án þess að veita aðila andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en skal í stað þess veita honum færi á að koma sjónarmiðum sínum að um leið og ákvörðun til bráðabirgða hefur verið tekin. Um­hverfisstofnun metur í kjölfarið hvort um ólöglegan flutning úrgangs er að ræða í samræmi við ákvæði þetta þegar allar upplýsingar í málinu liggja fyrir. Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd úrræðisins.

9. gr.

    Á eftir x-lið 43. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: umbúðir og umbúðaúrgang, þ.m.t. um merkingar og auðkenningarkerfi umbúðaefna, kröfur um samsetningu umbúða og möguleika á endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu þeirra, töluleg markmið um úrgangsforvarnir, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu umbúða og umbúðaúrgangs og töluleg markmið fyrir notkun burðarplastpoka.

10. gr.

    Á eftir 44. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 44. gr. a og 44. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (44. gr. a.)

Móttaka lítilla raf- og rafeindatækja í verslunum.

    Í verslunum þar sem sölusvæði raf- og rafeindatækja er a.m.k. 400 m 2 skal tekið á móti litlum raf- og rafeindatækjum (ekkert ytra mál yfir 25 cm) án endurgjalds og skilyrða.
    
    b. (44. gr. b.)

Óheimil förgun án viðeigandi meðhöndlunar.

    Allur raf- og rafeindatækjaúrgangur sem er safnað skal meðhöndlaður á viðeigandi hátt í samræmi við gildandi reglur. Óheimilt er að farga söfnuðum raf- og rafeindatækjaúrgangi án viðeigandi meðhöndlunar.

11. gr.

    Á eftir 2. mgr. 50. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Erlendum framleiðanda raf- og rafeindatækja, sbr. i.–iii. lið skilgreiningar á framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja í 3. gr., er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa sinn hér á landi með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Framleiðandi raf- og rafeindatækja sem selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda í öðru EES-ríki skal tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt tilskipun 2012/19/ESB.

12. gr.

    Orðin „skilakerfa eða“ í 3. mgr. 51. gr. laganna falla brott.

13. gr.

    Við 53. gr. laganna bætast tveir nýir stafliðir, i- og j-liður, svohljóðandi:
     i.      þau raf- og rafeindatæki sem undanþegin eru ákvæðum laga þessara vegna sérstakra aðstæðna,
     j.      þær lágmarkskröfur sem gilda við aðgreiningu notaðra raf- og rafeindatækja og raf- og rafeindatækjaúrgangs við flutning úr landi.

14. gr.

    1. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
    Handhafar spilliefna, og seljendur og miðlarar úrgangs ef við á, skulu halda skrár um magn og gerð spilliefna og tilgreina ráðstöfun þeirra.

15. gr.

    Á eftir XI. kafla laganna kemur nýr kafli, XII. kafli, Endurvinnsla skipa, með tveimur nýjum greinum, 64. gr. a og 64. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast númer kafla samkvæmt því:

    a. (64. gr. a.)

Útgáfa starfsleyfis.

    Starfsemi þar sem fram fer endurvinnsla skipa yfir 500 brúttótonnum skal hafa gilt starfsleyfi. Um­hverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir starfsemina til fimm ára í senn. Að öðru leyti gilda ákvæði 14.–17. gr. um útgáfu starfsleyfa eftir því sem við á.
    Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga veita starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem fram fer endurvinnsla skipa undir 500 brúttótonnum samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Um­hverfisstofnun samþykkir endurvinnsluáætlanir skipa áður en endurvinnsla hefst.

    b. (64. gr. b.)

Reglugerð og gjaldskrá um endurvinnslu skipa.

    Ráðherra skal, að fengnum tillögum Um­hverfisstofnunar, setja reglugerð um endurvinnslu skipa og veitingu starfsleyfis. Í reglugerðinni skal m.a. fjallað um til hvaða skipa reglur um endurvinnslu ná, kröfur til eigenda þeirra skipa, endurvinnsluáætlanir skipa, skipaendurvinnslustöðvar og aðrar kröfur og skilyrði sem útgefandi telur nauðsynlegar og samrýmast markmiðum reglugerðarinnar.
    Ráðherra setur, að fengnum tillögum Um­hverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni stofnunarinnar vegna endurvinnslu skipa. Upphæð gjalda skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu og verkefni.

16. gr.

    7. mgr. 66. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    Á eftir 66. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 66. gr. a og 66. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (66. gr. a.)

Stjórnvaldssektir.

    Um­hverfisstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn:
     1.      Banni við losun úrgangs annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát og opinni brennslu hans, sbr. 3. mgr. 9. gr.
     2.      Ákvæðum um að starfsemi hafi gilt starfsleyfi eða skilyrðum starfsleyfis, sbr. 14., 38., 58., 62. og 64. gr. a.
     3.      Ákvæðum um skýrslugjöf, sbr. 19. gr.
     4.      Skráningar- eða tilkynningarskyldu, sbr. 25. gr.
     5.      Ákvæðum um takmarkanir á flutningi úrgangs, sbr. 26. gr.
     6.      Ákvæðum um skyldur söluaðila rafhlaðna og rafgeyma, sbr. 3. mgr. 33. gr.
     7.      Banni við markaðssetningu rafhlaðna, rafgeyma, raf- og rafeindatækja án greiðslu úrvinnslugjalds, sbr. 4. mgr. 34. gr. og 2. mgr. 45. gr.
     8.      Ákvæðum um upplýsingaskyldu framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna, rafgeyma, raf- og rafeindatækja, sbr. 35. og 46. gr.
     9.      Banni við förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs án viðeigandi meðhöndlunar, sbr. 44. gr. b.
     10.      Ákvæðum um skráningarskyldu framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna, rafgeyma, raf- og rafeindatækja, sbr. 36. og 50. gr.
     11.      Banni við blöndun spilliefna, sbr. 2. mgr. 54. gr.
     12.      Ákvæðum um merkingu spilliefna, sbr. 55. gr.
     13.      Ákvæðum um skráningu spilliefna, sbr. 56. gr.
     14.      Ákvæðum um eftirlit og vöktun með urðunarstöðum, sbr. 60. gr.
     15.      Ákvæðum um lokun urðunarstaðar, sbr. 61. gr.
     16.      Ákvæðum um losunarmörk brennslustöðva, sbr. 64. gr.
    Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins og hvort hægt hafi verið að koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti.
    Um­hverfisstofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þó innan þess ramma sem er ákveðinn í 4. mgr.
    Sektir sem eru lagðar á einstaklinga geta numið frá 10.000–10.000.000 kr. Sektir sem eru lagðar á lögaðila geta numið frá 25.000–25.000.000 kr.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Um­hverfisstofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Um­hverfisstofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
    Heimild Um­hverfisstofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Fyrningarfrestur rofnar þegar Um­hverfisstofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

    b. (66. gr. b.)

Kæra til lögreglu.

    Um­hverfisstofnun er heimilt að kæra brot til lögreglu.
    Ef brot eru meiri háttar ber Um­hverfisstofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Um­hverfisstofnun á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Um­hverfisstofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Um­hverfisstofnunar um að kæra mál til lögreglu.
    Um­hverfisstofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Um­hverfisstofnun er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Um­hverfisstofnun í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Um­hverfisstofnunar sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Um­hverfisstofnunar til meðferðar og ákvörðunar.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara, reglugerða settra samkvæmt þeim eða samþykkta sveitarfélaga sæta kæru til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála.
     b.      3. mgr. fellur brott.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
     a.      5. tölul. orðast svo: Tilskipun 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang sem vísað er til í lið 32fa í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 195/2015.
     b.      6. tölul. fellur brott.
     c.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 og tilskipun 2009/16/EB.

II. KAFLI
Breyting á lögum um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum.
20. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Til viðbótar skilagjaldi skal með sama hætti taka umsýsluþóknun fyrir hverja umbúðaeiningu úr stáli, áli, gleri og plastefni og skal fjárhæð hennar án virðisaukaskatts vera 5,50 kr. fyrir umbúðir úr stáli, 0,20 kr. fyrir umbúðir úr áli, 5,30 kr. fyrir umbúðir úr gleri stærri en 500 ml, 3,90 kr. fyrir umbúðir úr gleri 500 ml og minni, 3,20 kr. fyrir umbúðir úr lituðu plastefni og 1,30 kr. fyrir umbúðir úr ólituðu plastefni.

21. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal b-liður 7. gr. öðlast gildi 1. janúar 2018.
    Ákvæði 2. mgr. 64. gr. a laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, sbr. 15. gr. laga þessara, fellur úr gildi 31. desember 2017.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur er samið í um­hverfis- og auðlindaráðuneytinu að höfðu samráði við helstu stofnanir ráðuneytisins en auk þess var frumvarpið sett í almennt umsagnarferli. Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja að lög um meðhöndlun úrgangs samrýmist þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum, þ.e. innleiðing EES-gerða og lagfæring á þegar innleiddum EES-gerðum.
    Enn fremur eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á sviði úrgangsmála. Fyrst ber að nefna að í frumvarpinu er lagt til að Um­hverfisstofnun fái heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum. Í öðru lagi er lagt til að 19. gr. laga um meðhöndlun úrgangs um opinbera birtingu skýrslna rekstraraðila verði lagfærð til að ákvæðið samrýmist samkeppnislögum. Í þriðja lagi er lagt til að kæruheimild laga um meðhöndlun úrgangs til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála verði lagfærð. Í fjórða lagi er gerð tillaga um að lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, verði breytt til að heimila töku umsýsluþóknunar fyrir ál vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á áli.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni og nauðsyn frumvarpsins er fyrst og fremst innleiðing gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Þetta eru tilskipun 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang, reglugerð (ESB) nr. 660/2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs og innleiðing ákvörðunar 2013/727 um að ákvarða snið til að tilkynna upplýsingar varðandi samþykki og umtalsverðar breytingar á áætlunum um meðhöndlun úrgangs og áætlunum um forvarnir gegn myndun úrgangs. Þá er ætlunin með frumvarpinu að undirbúa innleiðingu á reglugerð (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa en gert er ráð fyrir að gerðin verði tekin upp í EES-samninginn á næstu mánuðum. Að auki hafa nýlegar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA gefið tilefni til að lagfæra innleiðingu rammatilskipunar 2008/98/EB um úrgang. Þær athugasemdir lutu að skorti á innleiðingu á hugtökunum seljendur og miðlarar úrgangs og ákvæði rammatilskipunarinnar um ábyrgð á úrgangsstjórnun.
    Þá er það nýmæli lagt til að stjórnvaldssektum verði beitt til að tryggja að farið verði eftir lögum um meðhöndlun úrgangs. Mikilvægt er að viðurlögum við brotum gegn lögunum sé beitt. Ekki þykir rétt að öll frávik frá lögunum varði refsingu og sekt sem ákveðin er af dómstólum. Hins vegar er mikilvægt að viðurlögum sé beitt gagnvart brotum þar sem óeðlilegt er að unnt sé að hagnast á að fara ekki eftir lögum. Með því að taka upp stjórnvaldssektir er unnt að beita þeim þannig að betur sé tryggt að farið verði eftir lögum. Almennt má segja að aðili sem hefur fengið stjórnvaldssekt, fyrir tiltekið frávik, sé líklegri til þess að fara framvegis eftir lögunum. Við útfærslu á ákvæðum um stjórnvaldssektir var tekið mið af ákvæðum efnalaga, nr. 61/2013, sem aftur tóku mið af lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, og þeim sjónarmiðum sem að baki þeim búa.
    Auk annarra minni háttar breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs þykir rétt að lagfæra sérstaklega 19. gr. laganna um opinbera birtingu skýrslna rekstraraðila sem meðhöndla úrgang í tilefni athugasemda Samtaka iðnaðarins þar um. Einnig er kæruheimild laganna lagfærð í samræmi við ábendingar úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem er gert ráð fyrir að verði lagt fyrir Alþingi samhliða þessu frumvarpi. Að lokum er lögð til breyting á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, til að heimila töku umsýsluþóknunar fyrir ál í ljósi lækkunar á heimsmarkaðsverði á áli og vegna ábendinga Endurvinnslunnar hf. þar um.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarps þessa eru eftirfarandi níu atriði og verður vikið að hverju og einu þeirra í sérstökum köflum hér á eftir.
     1.      Undir­búningur fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa.
     2.      Innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 660/2014 um flutning úrgangs.
     3.      Innleiðing á ákvörðun 2013/727/ESB um að ákvarða snið til að tilkynna upplýsingar varðandi samþykki og umtalsverðar breytingar á áætlunum um meðhöndlun úrgangs og áætlunum um forvarnir gegn myndun úrgangs.
     4.      Lagfæring á innleiðingu rammatilskipunar 2008/98/EB um úrgang.
     5.      Heimild til handa Um­hverfisstofnun til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um meðhöndlun úrgangs.
     6.      Lagfæringar á 19. gr. laga um meðhöndlun úrgangs vegna opinberrar birtingar á skýrslum rekstraraðila.
     7.      Kæruheimild til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála lagfærð.
     8.      Aðrar minni háttar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs.
     9.      Breytingar á lögum um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur til að heimila töku umsýsluþóknunar fyrir ál.

1. Innleiðing tilskipunar 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang er endurútgáfa á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um sama efni. Tilskipunin inniheldur nokkur nýmæli og ber helst að nefna eftirfarandi atriði:
     *      Í tilskipuninni er sett fram ný flokkun á raf- og rafeindatækjum. III. viðauki, yfir sex nýja flokka, tekur gildi 15. ágúst 2018 og I. viðauki, yfir þá tíu flokka sem gilda nú, fellur úr gildi. Þann 15. ágúst 2018 tekur jafnframt gildi IV. viðauki, með lista yfir raf- og rafeindatæki sem falla undir flokkana í III. viðauka, og II. viðauki, með lista yfir raf- og rafeindatæki sem falla undir flokkana í I. viðauka, fellur úr gildi. Á listann yfir raf- og rafeindatæki sem falla ekki undir tilskipunina bætast við ljósaperur með glóðarþræði og fleiri bætast við sem falla ekki undir tilskipunina frá 15. ágúst 2018.
     *      Í tilskipuninni eru sett fram ný markmið um söfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Frá árinu 2016 á söfnunarhlutfallið að vera að lágmarki 45%. Frá árinu 2019 á söfnunarhlutfallið að vera að lágmarki 65% eða 85% af þeim raf- og rafeindatækjaúrgangi sem fellur til í aðildarríkinu.
     *      Jafnframt eru sett fram ný markmið um endurnýtingu í V. viðauka. Frá 15. ágúst 2015 til 14. ágúst 2018 á hlutfall endurnýtingar að vera á bilinu 75–85% og hlutfall endurvinnslu og undirbúnings fyrir endurnotkun á bilinu 55–80%, eftir flokkum raf- og rafeindatækja skv. I. viðauka. Frá 15. ágúst 2018 á hlutfall endurnýtingar að vera á bilinu 75–85% og hlutfall endurvinnslu og undirbúnings fyrir endurnotkun á bilinu 55–80%, eftir flokkum raf- og rafeindatækja samkvæmt III. viðauka.
     *      Aðildarríkin eiga að tryggja að allur safnaður raf- og rafeindatækjaúrgangur fái meðhöndlun við hæfi og banna förgun á söfnuðum raf- og rafeindatækjaúrgangi, sem hefur ekki fengið þá meðhöndlun sem tilgreind er í 8. gr. tilskipunarinnar.
     *      Fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang frá heimilum eiga aðildarríkin að tryggja að dreifingaraðilar smásöluverslana, þar sem sölusvæði tengt raf- og rafeindatækjum er a.m.k. 400 m 2 eða í námunda við það, sjái fyrir söfnun mjög lítilla raf- og rafeindatækja (ekkert ytra mál lengra en 25 cm) án endurgjalds og án nokkurrar skuldbindingar til að kaupa sams konar raf- eða rafeindatæki í staðinn, nema að mat sýni að núverandi söfnunarkerfi séu líklegri til að vera að minnsta kosti jafn áhrifarík.
     *      Í tilskipuninni koma fram auknar kröfur til skráningar í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda. Í kjölfar skráningar á framleiðandi, samkvæmt skilgreiningu í i.–iv. lið f-liðar 1. mgr. 3. gr., að leggja fram þær upplýsingar sem tilteknar eru í A-lið X. viðauka, og síðan þær upplýsingar sem tilteknar eru í B-lið X. viðauka, þegar við á. Framleiðandi á að geta skráð þessar upplýsingar í skráningarkerfið í gegnum netið.
     *      Aðildarríkin eiga að hafa eftirlit með því að ákvæðum tilskipunarinnar sé framfylgt. Eftirlitið á að minnsta kosti að ná yfir upplýsingar sem skráðar eru í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda, flutning, einkum útflutning raf- og rafeindatækja og starfsemi meðhöndlunarstöðva.
     *      Aðildarríkin eiga, við flutning á notuðum raf- og rafeindatækjum þar sem grunur leikur á að um sé að ræða raf- og rafeindatækjaúrgang, að skera úr um að það sé í reynd verið að flytja notuð raf- og rafeindatæki með því að biðja um upplýsingar, sbr. VI. viðauka um lágmarkskröfur fyrir flutning, og eiga jafnframt að fylgjast með slíkum flutningi. Kostn­aður við eftirlit, sýnatöku og geymslu má leggjast á framleiðanda, þriðja aðila á vegum framleiðanda eða flutningsaðila.
     *      Í 17. gr. kemur fram að hvert aðildarríki eigi að tryggja að framleiðandi megi skipa viðurkenndan fulltrúa til að vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans, ef framleiðandinn er með fasta starfsstöð í öðru aðildarríki en því þar sem raf- eða rafeindatækið er sett á markað í. Skipun viðurkennds fulltrúa á að vera með skriflegu umboði.
     *      Nýir viðaukar:
              *      III. viðauki – Flokkar raf- og rafeindatækja.
              *      IV. viðauki – Raf- og rafeindatæki sem falla undir flokkana í III. viðauka.
              *      VI. viðauki – Lágmarkskröfur fyrir flutning.
              *      X. viðauki – Upplýsingar fyrir skráningu og tilkynningarskyldu í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.
               *      XI. viðauki – Tilskipanir sem falla úr gildi og tímamörk á innleiðingu tilskipana í landslög.
     *      Þær breytingar sem gera þarf á lögum nr. 55/2013, um meðhöndlun úrgangs, vegna innleiðingar tilskipunar 2012/19/ESB:
               *      Lagfæra þarf skilgreiningu á framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja í núgildandi lögum (3. gr. tilskipunar).
               *      Gera þarf kröfu um að aðilar, sem ráða yfir sölusvæði tengdu raf- og rafeindatækjum upp á 400 m 2, taki á móti litlum og mjög litlum raf- og rafeindatækjum án endurgjalds og skilyrða, nema mat sýni fram á að núverandi söfnunarkerfi sé a.m.k. jafn áhrifaríkt (5. gr. tilskipunar).
               *      Banna þarf förgun ómeðhöndlaðs raf- og rafeindatækjaúrgangs (1. mgr. 6. gr. tilskipunar).
               *      Kveða þarf á um skipun viðurkennds fulltrúa í ákveðnum tilfellum (17. gr. tilskipunar).
               *      Breyta þarf ákvæði um reglugerðarheimildir í kafla laganna um raf- og rafeindatækjaúrgang (2. gr. tilskipunar og VI. viðauki hennar).
               *      Í kjölfar breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs þarf að breyta reglugerð nr. 442/2015, um raf- og rafeindatækjaúrgang.

2. Undir­búningur fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1257/2013 frá 20. nóvember 2013 um endurvinnslu skipa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 og tilskipun 2009/16/EB hefur að markmiði að fullgilda Hong Kong-samning Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) frá 2009, um endurvinnslu skipa, en hann tekur gildi 24 mánuðum eftir fullgildingu samningsins (þegar a.m.k. 15 ríki samningsins hafa fullgilt hann, auk annarra skilyrða, sem eru uppfyllt, m.a. eftir fullgildingu Evrópusambandsins (sem var 20. nóvember 2013)).
    Reglugerðin tekur til allra skipa skv. 2. gr. sem sigla undir fána aðildarríkja ESB en einnig þeirra skipa sem sigla undir fána þriðju ríkja, sbr. 12. gr. Þó nær reglugerðin hvorki til þeirra skipa sem eru minni en 500 brúttótonn, mælt samkvæmt alþjóðasamningi um mælingar skipa frá 1969, né heldur til þeirra skipa sem sigla einungis í lögsögu fánaríkis skipsins. Í reglugerðinni er lagt bann við notkun tiltekinna efna við smíði og rekstur skipa (I. viðauki). Ný skip skulu útbúa og hafa tilbúinn lista yfir hættuleg efni, sbr. II. viðauka, sem eru í sjálfu skipinu. Eldri skip skulu uppfylla þetta skilyrði að því leyti sem raunhæft er. Skip frá þriðju ríkjum þurfa einnig að hafa lista yfir hættuleg efni komi þau til hafnar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í reglugerðinni eru settar reglur um endurvinnslu skipa. Við niðurrif skipa skal eigandi skips leggja fram listann yfir hættuleg efni. Niðurrifsaðili gerir þá áætlun um hvernig hann hyggst meðhöndla skipið til niðurrifs. Áætlunina þarf að samþykkja af yfirvöldum þar sem niðurrif/endurvinnsla fer fram og senda skriflegt samþykki til endurvinnsluaðila, eiganda skips og stjórnvalda þar sem skip er skráð í hvert sinn. Þegar niðurrifsaðgerð er lokið þarf að senda staðfestingu til yfirvalda sem gáfu út niðurrifsleyfið innan 14 daga um að niðurrifi sé lokið. Henni skal fylgja skýrsla um bæði um­hverfisslys og/eða slys á starfsfólki sem hugsanlega hafa orðið við starfsemina. Niðurrifsaðilar skulu hafa starfsleyfi til skipaendurvinnslu og skal það gilda til fimm ára í senn. Lögbært yfirvald skal taka saman lista yfir aðila sem uppfylla skilyrði þess að geta meðhöndlað skip til niðurrifs og skila til framkvæmdastjórnar ESB.
    Vegna innleiðingar á framangreindri reglugerð þarf að gera breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum á grundvelli laga um nr. 47/2003, um eftirlit með skipum. Bæta þarf við skilgreiningu á endurvinnslu skipa í lög um meðhöndlun úrgangs og mæla fyrir um útgáfu starfsleyfa vegna þeirrar starfsemi og kveða á um reglugerðarheimildir ráðherra. Reglugerðum settum á grundvelli laga um eftirlit með skipum þarf að breyta til að setja inn nýja kröfu um að listi eða birgðaskrá yfir hættuleg efni skuli vera um borð í öllum nýjum skipum (reglugerðarheimildir er að finna í 4. mgr. 1. gr., 5. mgr. 3. gr. og 14. gr. laga nr. 47/2003).

3. Innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 660/2014 um flutning úrgangs.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 frá 15. maí 2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs hefur það aðalmarkmið að efla eftirlit með flutningi úrgangs. Borið hefur á því að gloppur séu á framfylgni og eftirliti í aðildarríkjunum og er breytingunni ætlað að styrkja þá þætti og koma í veg fyrir ólöglegan flutning á úrgangi milli landa. Samkvæmt reglugerðinni skulu aðildarríkin koma sér upp eftirlitsáætlunum sem byggjast á áhættumati fyrir hvern úrgangsstraum eða ólöglegan flutning á úrgangi. Upplýsingar skulu byggðar á greiningum lögregluyfirvalda og tollyfirvalda ef þær liggja fyrir og árlegri skýrslu skal skilað um eftirlitið til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Kveða þarf á um eftirlitsáætlanir í III. kafla laga nr. 55/2003 um flutning úrgangs milli landa og styrkja lagastoðir reglugerða sem setja þarf vegna þessa.
    Til viðbótar við framangreint, en utan við innleiðingu reglugerðar nr. 660/2014, er lagt til að bætt verði ákvæði í kafla laganna um flutning úrgangs milli landa um að Um­hverfisstofnun verði heimilt að stöðva flutning úrgangs þegar í stað þegar grunur leikur á að flutningur úrgangs á milli landa uppfylli ekki skilyrði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Tilefni ákvæðisins er mál sem kom upp á árinu 2014 þar sem erlent skip safnaði brotajárni og spilliefnum hér á landi og reyndi að flytja úrgang úr landi án leyfa.

4. Innleiðing á ákvörðun 2013/727/ESB um snið fyrir upplýsingagjöf um úrgangsmálefni.
    Frumvarp þetta er einnig lagt fram til innleiðingar á framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2013/727/ESB frá 6. desember 2013 um að ákvarða snið til að tilkynna upplýsingar varðandi samþykki og umtalsverðar breytingar á áætlunum um meðhöndlun úrgangs og áætlunum um forvarnir gegn myndun úrgangs. Ákvörðunin fjallar um skil á upplýsingum til framkvæmdastjórnarinnar um útgáfu og þegar gerðar eru veigamiklar breytingar á áætlunum um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir. Áætlanirnar byggjast á ákvæðum 28. og 29. gr. rammatilskipunar 2008/98/EB um úrgang. Skv. 33. gr. tilskipunar 2008/98/EB ber aðildarríkjunum að upplýsa framkvæmdastjórnina þegar þessar áætlanir eru gefnar út og þegar þær eru endurskoðaðar með veigamiklum hætti, m.a. um umfang áætlananna og hvort þær uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Með ákvörðuninni sem hér um ræðir er aðildarríkjunum gert að nota sérstök eyðublöð við þessa upplýsingagjöf. Eyðublað sem á við um áætlanir um meðhöndlun úrgangs er birt í I. viðauka við ákvörðunina og eyðublað sem á við um áætlanir um úrgangsforvarnir í II. viðauka.
    Ákvæði 28. og 29. gr. tilskipunar 2008/98/EB um áætlanir um meðhöndlun úrgangs og um úrgangsforvarnir voru innleidd með 5. og 6. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, þar sem kveðið er á um að ráðherra gefi út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs og almenna stefnu um úrgangsforvarnir og að sveitarstjórnir semji og staðfesti svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs. Til innleiðingar á framkvæmdarákvörðun 2013/727/ESB er lagt til að 6. gr. laga nr. 55/2003 verði breytt með þeim hætti að sveitarstjórnum verði gert skylt að senda Um­hverfisstofnun upplýsingar um útgáfu og veigamiklar endurskoðanir á svæðisáætlunum um meðhöndlun úrgangs. Jafnframt verði sveitarstjórnum gert skylt að senda þessar upplýsingar á því formi sem stofnunin leggur til. Um­hverfisstofnun mundi síðan bera ábyrgð á að skila upplýsingunum áfram til Eftirlitsstofnunar EFTA.

5. Lagfæring á innleiðingu rammatilskipunar um úrgang 2008/98/EB.
    Lokið var að fullu við innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008, um úrgang og niðurfellingu tiltekinna tilskipana, 31. október 2014. Í kjölfar tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA þar um hófust bréfaskipti á milli um­hverfis- og auðlindaráðuneytisins og stofnunarinnar um innleiðingu úrgangstilskipunarinnar í íslenskan rétt. Niðurstaða þeirra bréfaskrifta voru að tvö atriði stóðu út af svo að tilskipunin teldist að fullu innleidd hér á landi.
    Ísland hafði í fyrsta lagi ekki innleitt ákvæði um seljendur og miðlara í 3., 26. og 35. gr. tilskipunarinnar. Skilgreining á seljanda úrgangs og miðlara úrgangs hefur nú verið bætt við 3. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og þessum aðilum gert skylt að sækja um starfsleyfi til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi. Einnig þarf að gera breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs vegna 35. gr. tilskipunar 2008/98/EB, sem lýtur að skráahaldi fyrir hættulegan úrgang, til að skráningarskylda 1. mgr. 56. gr. laganna taki til seljenda og miðlara úrgangs.
    Í öðru lagi hafði 2. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar um ábyrgð á úrgangsstjórnun ekki verið innleidd. Í frumvarpinu hefur verið bætt úr því með breytingu á 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs þar sem kveðið er á um að skyldur framleiðenda úrgangs eða handhafa úrgangs til að endurnýta eða farga úrgangi falla að jafnaði ekki niður þó að úrgangur hafi verið fluttur til opinberra aðila eða einkaaðila. Hugsunin með rammatilskipuninni um úrgang er að sérhver aðili í meðhöndlunarkeðju úrgangs beri ábyrgð á eigin úrgangi. Vegna þessa hafa til dæmis verið sett í úrgangslöggjöfina hér á landi ákvæði um skráningu spilliefna og framleiðendaábyrgð sett fyrir raf- og rafeindatæki, rafhlöður og rafgeyma. Með breytingunni á 9. gr. er ekki verið að gera nýjar eða breyttar kröfur til einkaaðila eða opinberra aðila, heldur ein­göngu verið að leggja áherslu á að allir aðilar halda sinni ábyrgð og ber að fylgja lögum, reglugerðum og samþykktum sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs.

6. Heimildir stjórnvalda til að leggja á stjórnvaldssektir.
    Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að tekið verði upp í lög um meðhöndlun úrgangs ákvæði um heimildir Um­hverfisstofnunar til að leggja stjórnvaldssektir á þann, hvort heldur einstakling eða lögaðila, sem brýtur gegn tilteknum bannákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs eða ákvörðunum teknum samkvæmt þeim. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í mars 2014, Skýrsla um eftirfylgni: Sorpbrennslur með undanþágu frá tilskipun ESB, telur stofnunin mikilvægt að um­hverfis- og auðlindaráðuneytið kanni hvort lögfesta skuli heimildir til beitingar stjórnvaldssekta í lög um meðhöndlun úrgangs. Ákvæði um stjórnvaldssektir á sviði um­hverfisréttar var fyrst leitt í lög með efnalögum nr. 61/2013. Mikilvægt er að viðurlögum við brotum gegn lögunum sé beitt. Ekki þykir rétt að öll frávik frá frumvarpinu varði refsingu og sekt sem ákveðin er af dómstólum. Hins vegar er mikilvægt að viðurlögum sé beitt gagnvart brotum gegn frumvarpinu þar sem óeðlilegt er að unnt sé að hagnast á að fara ekki eftir lögum. Með því að taka upp stjórnvaldssektir er unnt að beita þeim þannig að betur sé tryggt að farið verði eftir lögum. Almennt má segja að aðili sem hefur fengið stjórnvaldssekt, fyrir tiltekið frávik, er líklegri til þess að fara framvegis eftir lögunum.

7. Opinber birting skýrslna rekstraraðila skv. 19. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.
    Ákvæði 19. gr. laga um meðhöndlun úrgangs kveður á um að rekstraraðilar sem meðhöndla úrgang skuli ár hvert skila skýrslu til Um­hverfisstofnunar um teg­undir úrgangs og magn sem meðhöndlað er, uppruna úrgangsins og ráðstöfun hans. Megintilgangur öflunar tölfræðiupplýsinga um úrgang er að uppfylla skyldur íslenskra stjórnvalda samkvæmt EES-samningnum og Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Í lokamálslið 1. mgr. 19. gr. segir að þessar skýrslur skuli gerðar aðgengilegar á heimasíðu Um­hverfisstofnunar. Við meðferð frumvarps til laga um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs á Alþingi vorið 2014 var þessum síðasta málslið 1. mgr. 19. gr. bætt við að tillögu Sambands íslenskra ­sveitarfélaga (sjá breytingartillögu um­hverfis- og sam­göngunefndar, þingskjal 1047 í 215. máli á 143. löggjafarþingi). Í umsögn sambandsins kemur eftirfarandi fram um tillöguna: „Í ljósi þess að í svæðisáætlunum sveitarfélaga á að útfæra nánar stefnumörkun um meðhöndlun úrgangs telur sambandið eðlilegt að upplýsingar um úrgang verði sveitarfélögum aðgengilegar beint, án milli­göngu Um­hverfisstofnunar, til þess að þau geti með viðeigandi hætti sinnt ábyrgðarhlutverki sínu gagnvart söfnun, endurvinnslu og förgun úrgangs.“ Skýringar í nefndaráliti um­hverfis- og sam­göngunefndar með breytingartillögunni (sjá þingskjal 1046 í 215. máli á 143. löggjafarþingi) voru samhljóða þessum skýringum sambandsins.
    Í ágúst 2015 sendu Samtök iðnaðarins erindi til ráðuneytisins þar sem óskað var eftir að ráðherra tæki til skoðunar hvort ekki væri rétt að fella brott 6. málsl. 19. gr. laga nr. 55/2003. Teldu samtökin fullnægjandi að birta samantekt gagnanna og heildartölfræði um einstaka úrgangsflokka en ekki væru um­hverfisleg rök fyrir því að birta gögn frá einstökum fyrirtækjum né þjónaði það hagsmunum almennings. Í gögnunum væru viðkvæmar við­skipta­upplýsingar og gæti birting þeirra skaðað samkeppni í rekstrarum­hverfi þar sem mikil samkeppni ríki. Röksemdir Samtaka iðnaðarins voru m.a. á þá leið að yrðu upplýsingar um uppruna úrgangs birtar yrði að mati Samtakanna auðvelt að sjá markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja á mismunandi svæðum á landinu, skipt niður í 72 mismunandi vöruflokka (úrgangsflokka). Markaðshlutdeild væru viðkvæmar við­skipta­upplýsingar og mundi birting gagnanna hafa veruleg áhrif á markaði þar sem ríki mikil samkeppni. Fyrirtæki gætu nýtt sér upplýsingar um samkeppnisaðila til að breyta sinni markaðssetningu. Einnig gæti þetta haft áhrif á opinber útboð fyrir úrgangsmeðhöndlun og tilboð sem berist. Eitt fyrirtæki á þessu sviði hefur neitað að skila Um­hverfisstofnun skýrslu skv. 19. gr. laga um meðhöndlun úrgangs fyrir árið 2014 þar sem birting hennar á vef Um­hverfissstofnunar mundi skaða við­skipta­hagsmuni fyrirtækisins. Hefur Um­hverfisstofnun tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða gagnvart fyrirtækinu vegna þessa sem fyrirtækið hefur kært til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála.
    Ráðuneytið leitað álits Samkeppniseftirlitsins á umræddu máli. Í svari sínu benti Samkeppniseftirlitið á að í framkvæmd hafi upplýsingar um markaðshlutdeild verið taldar til viðkvæmra við­skipta­upplýsinga af Samkeppniseftirlitinu, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum. Í niðurstöðu eftirlitsins kemur fram að það sé mat Samkeppniseftirlitsins að það kunni hugsanlega að skerða viðskipta- eða samkeppnishagsmuni verði þær upplýsingar sem koma fram í viðkomandi skýrslum skv. 1. mgr. 19. gr. laga um meðhöndlun úrgangs í heild sinni gerðar opinberar. Af þessum sökum væri Samkeppniseftirlitið jákvætt gagnvart því að skoðaðar yrðu leiðir til breytinga á 1. mgr. 19. gr. viðkomandi laga, t.d. með því að upplýsingarnar verði ekki sundurliðaðar eftir fyrirtækjum eða rekstraraðilum. Með öðrum orðum að einungis yrðu birtar samantektir gagnanna og heildartölfræði einstakra úrgangsflokka, svo sem upplýsingar um heildarmagn, hugsanlega skipt eftir landsvæðum. Tillögu í þessum anda er að finna í 4. gr. frumvarpsins.

8. Kæruheimild til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála.
    Í frumvarpinu er lagt til að kæruheimild laga um meðhöndlun úrgangs verði færð til samræmis við aðrar kæruheimildir til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála. Kæruheimild gilandi laga er afar opin þar sem heimilt er að kæra allan ágreining um framkvæmd laganna, reglugerða á grundvelli þeirra eða samþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir stjórnvalda. Telja verður nægjanlegt að almenningi sé heimilt að kæra ákvarðanir stjórnvalda er varða réttindi hans og skyldur, þ.e. svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir. Tillaga þessi um breytingu á lögunum er í samræmi við ábendingar úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála. Nefndin hefur í því sambandi m.a. vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7623/2013 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að frávísun úrskurðarnefndarinnar á kæru er laut að verklagi Um­hverfisstofnunar vegna um­hverfismerkisins Svansins í tengslum við verkefnið „Ágætis byrjun“ hefði ekki verið í samræmi við lög. Í álitinu segir m.a. að af 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina og 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, verði „skýrlega ráðið að ekki aðeins stjórnvaldsákvarðanir sæti kæru til nefndarinnar“. Úrskurðarnefndin hefur bent á að kæruheimild laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sé víðtæk og ekki í samræmi við aðrar kæruheimildir til nefndarinnar. Kæruheimild laga um meðhöndlun úrgangs og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir eru sams konar að þessu leyti. Samhliða þessu frumvarpi verður lagt fram frumvarp til að breyta kæruheimild síðarnefndu laganna og þykir því rétt að leggja til sambærilega breytingu á kæruheimild laga um meðhöndlun úrgangs.

9. Aðrar minni háttar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs.
    Gerðar eru nokkrar minni háttar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs:
     *      Nauðsynlegt þykir að mæla fyrir um skýrari lagastoð fyrir reglugerð nr. 609/1996, um umbúðir og umbúðaúrgang, en hún er sett með stoð í almennum reglugerðarheimildum efnalaga, laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um meðhöndlun úrgangs.
     *      Ákvæði 3. mgr. 26. gr. er lagfært þannig að skýrt sé að kæruheimild er til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála en ekki ráðherra.
     *      Breytingar eru gerðar á 51., 66. og 67. gr. laganna svo að þær endurspegli þær breytingar sem gerðar hafa verið á framleiðandaábyrgð raf- og rafeindatækja (skilakerfi raf- og rafeindatækja og stýrinefnd þeirra voru lögð niður með lögum nr. 63/2014).
     *      Breytingar eru gerðar á 24. gr. laganna svo að hún endurspegli mikilvægi úrgangsforvarna, sem kemur fram í 7. gr. laganna.

10. Umsýsluþóknun fyrir álumbúðir.
    Í frumvarpinu er að lokum lagt til að lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, verði breytt þannig að fyrir ál verði einnig tekin umsýsluþóknun eins og aðrar umbúðir. Samkvæmt lögunum er tekin umsýsluþóknun fyrir stál, gler og plastefni en ekki ál. Umsýsluþóknun er hugsuð sem viðbótargjald við skilagjald á þær drykkjarvöruumbúðir sem ekki bera sig fjárhagslega með tilliti til hlutdeildar í skilagjaldi og útflutningi. Umsýsluþóknun er því raun sú stærð sem hægt er að hreyfa ef útflutningsverð á umbúðum og hlutur í skilagjaldi breytast. Undanfarin missiri hefur álverð farið lækkandi og því er kominn upp sú staða hjá Endurvinnslunni hf. að tekjur vegna áls, þ.e. sala álumbúða, eru minni en kostn­aður fyrirtækisins við meðhöndlun áls. Er því talið rétt að leggja til að umsýsluþóknun verði tekin fyrir álumbúðir en fjárhæðinni verði stillt í hóf.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Að mati ráðuneytisins gefur frumvarpið ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Frumvarpið er m.a. sett fram til að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið, eins og fram hefur komið.

V. Samráð.
    Samráð var haft við Um­hverfisstofnun, Úrvinnslusjóð, innanríkisráðuneytið og Sam­göngustofu við samningu frumvarpsins. Drög að frumvarpinu voru send til umsagnar helstu hagsmunaaðila í janúar 2016 og á sama tíma sett á vef ráðuneytisins. Umsagnir bárust frá Endurvinnslunni hf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála, Eftirlitsstofnun EFTA, Heilbrigðiseftirliti Hafnar­fjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Um­hverfisstofnun, Úrvinnslusjóði, um­hverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og loks barst sam­eigin­leg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Samtök verslunar og þjónustu skiluðu ekki inn umsögn um frumvarpið.
    Samráð við innanríkisráðuneytið og Sam­göngustofu leiddi í ljós að ekki þarf að leggja til breytingar á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, til að setja inn kröfu 5. gr. reglugerðar ESB nr. 1257/2013, um endurvinnslu skipa, um að birgðaskrá yfir hættuleg efni skuli vera um borð í skipum. Reglugerðarheimildir laga nr. 47/2003 nægja til að innleiða framangreinda reglugerð ESB. Úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála kom með gagnlegar ábendingar í umsögn sinni er sneru að orðalagi 1. mgr. 67. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og hafa þær ábendingar verið teknar til greina að fullu. Ábendingar frá Heilbrigðiseftirliti Hafnar­fjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins við 15. gr. frumvarpsins gáfu tilefni til að skýra það ákvæði nánar og skilja á milli starfsemi sem endurvinnur skip yfir 500 brúttótonnum, sem verður starfsleyfisskyld hjá Um­hverfisstofnun, og starfsemi sem endurvinnur skip undir 500 brúttótonnum, sem verður starfsleyfisskyld hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga.
    Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins beindu því til ráðuneytisins að setja inn í lög um meðhöndlun úrgangs ákvæði er tryggi virka samkeppni á úrgangsmarkaði í ljósi fjölmargra kærumála undanfarinna ára og með hliðsjón af tilmælum Samkeppniseftirlitsins í áliti nr. 1/2014. Ráðuneytið hefur haft framangreint álit Samkeppniseftirlitsins til skoðunar og er nú beðið eftir tillögum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að ábyrgðarskiptingu í úrgangsmálum áður en vinnu við framangreint verður fram­haldið. Ábendingar Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins og Úrvinnslusjóðs við 11. gr. frumvarpsins gáfu tilefni til að lagfæra orðalag þess og skýringar í athugasemdum.
    Í umsögn sinni lagði Samband íslenskra sveitarfélaga til breytingar á 4. gr. frumvarpsins sem um­hverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar tók undir. Lagt var til að breytingartillagan yrði svohljóðandi: „Um­hverfisstofnun skal tryggja að birtar séu á vefnum tölulegar upplýsingar sem stofnunin vinnur upp úr skýrslum rekstraraðila sem nauðsynlegar eru fyrir gerð svæðisáætlana og til að uppfylla alþjóðlega samninga.“ Að mati ráðuneytisins er sú tillaga óframkvæmanleg þar sem ekki liggur fyrir nein formleg skilgreining á þeim svæðum sem einstökum svæðisáætlunum er gert að taka til og skiptingin er breytingum háð allt eftir því hvað hentar sveitarstjórnum hverju sinni. Svo óljóst og breytilegt landslag er ekki hægt að nota sem forsendu fyrir vinnslu tölfræðiupplýsinga enda verður að tryggja sambærileika gagna milli ára. Að auki kallar slík breyting á ítarlegri gagnaskráningu hjá rekstraraðilum og umfangsmeiri úrvinnslu hjá Um­hverfisstofnun sem fylgir aukinn kostn­aður. Loks hlýtur að vera óþarft að Um­hverfisstofnun sé milliliður í upplýsingagjöf milli sveitarstjórna og þeirra sem starfa í úrgangsgeiranum þar sem sveitarstjórnir bera ábyrgð á fyrirkomulagi söfnunar heimilis- og rekstrarúrgangs í sveitarfélaginu og ættu að hafa bestu yfirsýnina yfir málaflokkinn á sínu heimasvæði.

VI. Mat á áhrifum.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi teljandi áhrif á stjórnsýslu ríkisins enda til dæmis gert ráð fyrir gjaldtökuheimildum vegna aukinna verkefna hjá Um­hverfisstofnun. Ný markmið verða sett um söfnun, endurnýtingu og endurvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs sem hlýtur að teljast jákvætt í ljósi þess að minna af slíkum úrgangi fer þá til urðunar. Almenningi verður gert auðveldara fyrir með að skila litlum raf- og rafeindatækjaúrgangi beint til verslana, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Strangari reglur verða settar um endurvinnslu og niðurrif skipa sem eru stærri en 500 brúttótonn til að koma í veg fyrir, draga úr eða lágmarka hugsanleg skaðleg áhrif á heilbrigði manna og um­hverfið vegna þessarar starfsemi. Það nýmæli er í frumvarpinu að heimilt verður að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á tilteknum ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs sem vonir standa til að tryggi betri framfylgd laganna.
    Hvað varðar áhrif frumvarpsins á atvinnulífið má nefna að aðilar sem flytja úrgang milli landa verða undir auknu eftirliti, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Í málum sem komið hafa upp og varða meðhöndlun og flutning á úrgangi/spilliefnum úr landi án leyfa hafa eftirlitsskyldir aðilar lagt áherslu á að allir aðilar sem eru í þessari starfsemi uppfylli kröfur og skilyrði, svo að aðilar standi jafnfætis. Þetta er mikilvægt svo að ekki sé skekkt staða þeirra sem uppfylla skilyrði og kröfur gagnvart þeim sem gera það ekki, m.a. með því að vera hvorki með starfsleyfi né útflutningsleyfi, með þeirri umgjörð og kostnaði sem því fylgir. Varðandi meira rauneftirlit með flutningi úrgangs/spilliefna milli landa mætti því ætla að þeir sem eru í þessari starfsemi alla daga, eru með starfsleyfi o.s.frv., vilji gera vel og sjái sér hag í því að fylgst sé almennt meira með þessari starfsemi, því að þá eru meiri líkur á að þrengt sé að þeim sem ekki fara að lögum og reglugerðum.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja að lög um meðhöndlun úrgangs samrýmist þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum, þ.e. innleiðing EES-gerða og lagfæring á þegar innleiddum EES-gerðum. Enn fremur er lögð til breyting á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, þess efnis að heimila tökuumsýsluþóknunar fyrir álumbúðir í ljósi mikillar verðlækkunar á heimsmarkaðsverði á áli og vegna ábendinga Endurvinnslunnar hf. þar um.

Kostn­aður vegna innleiðingar á tilskipun 2012/19/ESB.
    Tilskipunin felur í sér tvenns konar áhrif sem lögð eru til grundvallar í mati þessu. Annars vegar, að tryggt sé að dreifingaraðilar smásöluverslana, þar sem sölusvæði tengt raf- og rafeindatækjum er a.m.k. 400 m 2 eða í námunda við það, sjái fyrir söfnun mjög lítilla raf og rafeindatækja (sbr. 10. gr. frumvarpsins). Það eru ekki margar smásöluverslanir hér á landi sem uppfylla framangreind stærðartakmörk og því ekki líklegt að mikið reyni á þær kröfur sem hér eru gerðar. Enn fremur taka margir sölu- og dreifingaraðilar raf- og rafeindatækja nú þegar við slíkum tækjum án endurgjalds. Því er ólíklegt að þetta muni hafa íþyngjandi áhrif né leiði til aukins kostnaðar fyrir dreifingaraðila. Hins vegar gerir tilskipunin auknar kröfur til þess að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja geti skráð viðhlítandi upplýsingar um sig og vörur sínar í sérstakt skráningarkerfi gegnum netið. Samkvæmt upplýsingum frá Um­hverfisstofnun eru skráningar þær sem hér um ræðir óverulegar. Auk þess berast umræddar skráningar rafrænt og með sjálfvirkum hætti frá íslenskum toll- og skattyfirvöldum. Hjá stofnuninni eru upplýsinga- og skráningarsíður á netinu sem nota má í þessum tilgangi. Kostn­aður er talinn óverulegur og rúmast innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar.

Kostn­aður vegna innleiðingar reglugerðar (ESB) nr. 1257/2013.
    Reglugerðin felur í sér tvenns konar áhrif sem lögð eru til grundvallar í mati þessu. Annars vegar, að samkvæmt reglugerðinni er gerð krafa um að um borð í öllum nýjum skipum sé ávallt listi eða birgðaskrá yfir öll hættuleg efni sem hægt er að vísa til við bæði skráningu og reglubundnar skoðanir skipa sem framkvæmdar eru af Sam­göngustofu. Ekki er talið að sú krafa leiði til kostnaðarauka fyrir Sam­göngustofu sem hefur með höndum eftirlitið heldur falli krafa um lista undir núverandi kröfur sem gerðar eru til skráningar skipa og eftirlits með þeim. Hins vegar, að þeir aðilar sem hyggjast starfa að niðurrifi skipa hér á landi sem eru yfir 500 brúttótonn þurfa að leggja fram niðurrifsáætlun og afla starfsleyfis fyrir starfsemi sinni frá Um­hverfisstofnun. Stofnunin tekur gjald samkvæmt gjaldskrá fyrir útgáfu slíkra starfsleyfa, fyrir eftirlit með starfsemi og vegna samþykktar á niðurrifsáætlun. Að mati stofnunarinnar er umfang þessa afar lítið, eða um eitt til tvö tilfelli á ári, og því ekki þörf á neinum sérstökum úrræðum vegna þess hjá stofnuninni heldur falli það undir reglubundið eftirlit sem nú þegar er til staðar.

Kostn­aður vegna innleiðingar reglugerðar (ESB) nr. 660/2014.
    Talið er að um 25% allra sendinga úrgangs á Evrópska efnahagssvæðinu séu ólöglegar og er eftirlit samkvæmt reglugerðinni til að sporna við því. Reglugerðin gerir kröfu til stjórnvalda um gerð þriggja ára eftirlitsáætlunar vegna flutninga á úrgangi og skila á ítarlegri upplýsingum en nú er gert til Eftirlitsstofnunar EFTA. Enn fremur þarf að framkvæma áhættumiðað eftirlit hjá þeim aðilum þar sem úrgangur er undirbúinn til flutnings, einkum ef um er að ræða flutning á úrgangi á milli landa. Um er að ræða tvenns konar eftirlit. Annars vegar fast reglubundið eftirlit með aðilum sem undirbúa (hættulegan) úrgang til flutnings og hins vegar eftirlit sem byggist á stikkprufueftirliti er nær til undirbúnings á flutningi og flutnings á úrgangi. Undir þetta fellur einnig stikkprufueftirlit með sendingum úrgangs sem koma til landsins eða fara í gegnum íslenska lögsögu. Umrætt stikkprufueftirlit hefur ekki verið framkvæmt áður og er því viðbót við eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Almennt eftirlit með flutningi úrgangs sem heyrir undir Um­hverfisstofnun er fjármagnað með leyfisgjöldum. Umfang er umtalsvert og er talið að 5–7 aðilar annist undirbúning og flutning á hættulegum úrgangi og að fjöldi útgefinna leyfa fyrir slíkum flutningum sé á bilinu 20–28 talsins og nái yfir um 600–800 sendingar á ári. Áætlað er að til að sinna umræddri viðbót á eftirlitshlutverki stofnunarinnar þurfi að koma til vinna er jafngildi um hálfu stöðugildi auk ferðakostnaðar. Áætlað er að kostn­aður vegna þessa nemi alls um 4 m.kr. á ári. Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í gildandi fjárlögum en reiknað er með að þau muni rúmast innan útgjaldaramma ráðuneytisins.

Kostn­aður vegna breytinga á lögum nr. 52/1989 vegna skilaskyldra drykkjarvöruumbúða úr áli.
    Í 4. gr. laganna er kveðið á um að fyrir umbúðir sé tekin umsýsluþóknun og að við ákvörðun hennar sé við það miðað að félagið geti staðið undir kostnaði við starfsemina. Nú bera gler-, stál- og plastumbúðir umsýslugjald til viðbótar skilagjaldi en ekki álumbúðir, sbr. 1. gr. Undanfarin missiri hefur þróun álverðs verið með þeim hætti að tekjur vegna álumbúða standa ekki undir kostnaði við meðhöndlun og því talið nauðsynlegt að heimila Endurvinnslunni hf. að leggja umsýslugjald á álumbúðir. Umsýsluþóknun fyrir álið, sem aldrei hefur verið tekið fyrr, er fyrirhuguð um 20 aurar á einingu. Árið 2015 voru um 62 milljónir eininga af áldósum framleiddar eða fluttar inn. Tekjur af umsýsluþóknun munu því aukast um rúmar 12 m.kr. eða tæplega 2% af heildartekjum fyrirtækisins (644 m.kr.). Þessar 12 m.kr. endurspegla áætlað tap Endurvinnslunnar af meðhöndlun álumbúða sem skýrist einkum af lækkandi heimsmarkaðsverði á áli sem stýrir þeim tekjum sem Endurvinnslan fær fyrir sölu þess. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á umsýslugjaldi vegna annarra umbúðateg­unda og því áætlað að tekjur vegna þeirra haldist óbreyttar. Miðað við óbreytt magn álumbúða frá síðasta ári má áætla að umsýsluþóknun muni skila ríkissjóði um 12 m.kr. tekjum á ári. Samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota drykkjarvöruumbúða hefur ríkissjóður skilað öllum tekjum af umsýsluþóknun til Endurvinnslunnar hf. Ekki er reiknað með þessu aukna umfangi í gildandi fjárlögum og ekki er gert ráð fyrir að það rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins.

Samantekt.
    Samandregin niðurstaða úr mati á áhrifum frumvarpsins er sú að kostnaðaráhrif vegna innleiðingar á tilskipun 2012/19/ESB og reglugerðar (ESB) nr. 1257/2013 séu lítil sem engin, en að innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 660/2014 muni auka útgjöld Um­hverfisstofnunar um 4 m.kr. á ári. Þá er talið að umsýsluþóknun fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir úr áli muni auka tekjur ríkissjóðs og framlag hans til Endurvinnslunnar hf. um 12 m.kr. á ári.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga um meðhöndlun úrgangs þar sem hugtök í lögunum eru skilgreind.
    Í fyrsta lagi er lagt til að bætt verði við skilgreiningu á dreifingaraðila til innleiðingar á g-lið 1. mgr. 3. gr. sömu tilskipunar. Vert er að vekja athygli á öðrum skilgreiningum þessarar tilskipunar, þ.e. að „bjóða fram á markaði“ og „setning á markað“ sem er að finna í j- og k-lið 1. mgr. 3. gr. „Bjóða fram á markaði“ er öll afhending vöru til dreifingar, neyslu eða notkunar á markaði aðildarríkis á meðan á við­skipta­starfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds. „Setning á markað“ er það að bjóða fram vöru í fyrsta sinn á markaði innan yfirráðarsvæðis aðildarríkis í atvinnuskyni.
    Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við skilgreiningu á endurvinnslu skipa til innleiðingar á 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa.
    Í þriðja lagi er að finna skilgreiningu á miðlara og seljanda úrgangs í samræmi við 7. og 8. tölul. 3. gr. tilskipunar 2008/98/EB um úrgang.
    Í fjórða lagi er lögð til breyting á skilgreiningu framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja vegna innleiðingar á f-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2012/19/ESB.

Um 2. gr.

    Til innleiðingar á framkvæmdarákvörðun 2013/727/ESB er lagt til að 6. gr. laganna verði breytt með þeim hætti að sveitarstjórnum verði gert skylt að senda Um­hverfisstofnun upplýsingar um útgáfu og veigamiklar endurskoðanir á svæðisáætlunum um meðhöndlun úrgangs. Jafnframt verði sveitarstjórnum gert skylt að senda þessar upplýsingar á því formi sem Um­hverfisstofnun leggur til. Það form mun vera í samræmi við framangreinda framkvæmdarákvörðun og tilgreint í reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Um­hverfisstofnun ber síðan ábyrgð á að skila upplýsingunum áfram til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er sett til innleiðingar á 2. mgr. 15. gr. rammatilskipunar 2008/98/EB og kveður á um að skyldur framleiðenda úrgangs eða handhafa úrgangs til að endurnýta eða farga úrgangi falla að jafnaði ekki niður þó að úrgangur hafi verið fluttur til opinberra aðila eða einkaaðila. Með breytingunni eru ekki gerðar nýjar eða breyttar kröfur til einkaaðila eða opinberra aðila, heldur er ein­göngu verið að leggja áherslu á að allir aðilar halda ábyrgð á sínum úrgangi og ber að fylgja lögum, reglugerðum og samþykktum sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs. Ein­göngu er raunhæft að ætla að ákvæðið hafi þýðingu fari einstaklingur eða lögaðili, sem hefur ekki starfsleyfi til meðhöndlunar úrgangs, verulega út fyrir regluverkið, t.d. með því að farga hættulegum úrgangi á víðavangi.
    Eðli málsins samkvæmt gildir ákvæðið ekki um úrgang sem er á ábyrgð framleiðanda eða innflytjanda þar sem þessir aðilar hafa tekið ábyrgð á fullri endurnýtingu og förgun úrgangs sem af vöru þeirra stafar. Þetta gildir til dæmis um raf- og rafeindatæki, hjólbarða, ökutæki, pappa-, pappír- og plastumbúðir, rafhlöður, rafgeyma, heyrúlluplast og fleiri vörur, sbr. lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald.

Um 4. gr.

    Eins og fjallað var um í almennum athugasemdum er nauðsynlegt að leggja til breytingu á 6. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna þar sem birting skýrslna rekstraraðila sem meðhöndla úrgang kann hugsanlega að skerða viðskipta- eða samkeppnishagsmuni verði þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunum í heild sinni gerðar opinberar. Ekki verður séð hvernig birting skýrslna frá einstökum rekstraraðilum, þar sem ekki kemur fram landfræðilegur uppruni úrgangsins, þjóni hagsmunum almennings eða um­hverfisins.
    Síðustu árin hafa Um­hverfisstofnun og Hagstofa Íslands birt á vefjum sínum gögn sem unnin eru upp úr skýrslum rekstraraðila sem meðhöndla úrgang en þau eru ávallt samantekin fyrir landið í heild. Með því að breyta orðalagi ákvæðisins úr „Skýrslurnar skulu gerðar aðgengilegar á heimasíðu Um­hverfisstofnunar“ í „Um­hverfisstofnun skal tryggja að birtar séu á vefnum tölulegar upplýsingar sem byggjast á skýrslum rekstraraðila til að uppfylla alþjóðlega samninga“ er komið í veg fyrir óheppilega birtingu gagna. Gert er ráð fyrir að Um­hverfisstofnun birti áfram samantekt gagna og heildartölfræði um úrgangsmál á vef sínum eða Hagstofu Íslands, svo sem upplýsingar um heildarmagn úrgangs í einstökum úrgangsflokkum og aðrar upplýsingar sem stofnunin telur mikilvægt að birta. Í því sambandi gæti stofnunin haft hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þar sem fjallað er um takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna mikilvægra fjárhags- og við­skipta­hagsmuna fyrirtækja og annarra lögaðila. Athuga verður þó að ef um upplýsingar um mengandi losun út í um­hverfið er að ræða, t.d. losun frá urðunarstöðum og sorpbrennslustöðvum, á 8. gr. laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um um­hverfismál, við og á almenningur rétt á þeim upplýsingum þrátt fyrir 9. gr. upplýsingalaga.
    Með breyttu orðalagi er hlutverk Um­hverfisstofnunar gert skýrara og felst það einkum í því að stofnuninni er gert að tryggja birtingu þeirra upplýsinga sem stofnunin sér þegar um að útbúa á hverju ári. Ekki er gert ráð fyrir að stofnunin breyti gagnavinnslu sinni og útbúi ný gögn, ein­göngu til birtingar. Í þessu sambandi má geta þess að gögn frá Um­hverfisstofnun yfir magn og ráðstöfun úrgangs á landsvísu eru nú þegar, og hafa verið til margra ára, birt á vef Hagstofunnar. Hins vegar birtir Um­hverfisstofnun á eigin vef tölulegar upplýsingar um hvernig Ísland stendur gagnvart markmiðum er varða úrgangsmál, sem sett hafa verið í alþjóðlegum samningum. Talið er mikilvægt að halda þessum sveigjanleika um það hvar birtingin fer fram, m.a. vegna þess að vefur Hagstofunnar er nú þegar útbúinn til að birta tiltekin gögn. Með áfram­haldandi birtingu þar er því valin hagkvæmasta leiðin, auk þess sem samfelldni í birtingu er tryggð. Talið er þarflaust að birta sömu gagnasöfnin á vef Um­hverfisstofnunar, til viðbótar við birtingu á vef Hagstofunnar.

Um 5. gr.

    Lagt er til að 1. og 2. mgr. 24. gr. laganna verði breytt til samræmis við það mikilvægi úrgangsforvarna sem birtist í 7. gr. laganna. Sífellt meiri áhersla er nú lögð á úrgangsforvarnir og verður líklega ennþá meiri þegar horft er til framtíðar, m.a. þegar í auknum mæli er stefnt að bættri auðlindanýtingu og stuðlað að myndun hringrásarhagkerfis (e. circular economy). Fræðsla um úrgangsforvarnir er því ekki síður mikilvæg en fræðsla um meðhöndlun úrgangs.

Um 6. gr.

    Lagt er til að orðin „til ráðherra“ falli brott í 3. mgr. 26. gr. laganna og í stað þeirra komi „til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála“. Skv. 67. gr. laganna, eins og lagt er til að ákvæðinu verði breytt með frumvarpi þessu, er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála. Því er ljóst að ráðherra um­hverfis- og auðlindamála úrskurðar ekki um hvort ákvörðun Um­hverfisstofnunar um það hvort um vöru eða úrgang sé að ræða við flutning úrgangs á milli landa skuli standa eða ekki, heldur úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála.

Um 7. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 28. gr. laga um meðhöndlun úrgangs til að innleiða reglugerð (ESB) nr. 660/2014 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs. Markmið reglugerðarinnar er að styrkja eftirlit með flutningi úrgangs og koma í veg fyrir ólöglegan flutning úrgangs milli ríkja. Það skal gert með eftirlitsáætlunum sem byggjast á sérstöku áhættumati og beinast að fyrirtækjum, söfnunaraðilum og flutningsaðilum.
    Reglugerðin gefur tilefni til að styrkja ákvæði um eftirlit og sýnatöku í kafla laganna um flutning úrgangs milli landa. Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Um­hverfisstofnun skuli útbúa eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn en að öðru leyti er gert ráð fyrir að nánari ákvæði um slíkar áætlanir, innihald þeirra og umfang, ásamt viðeigandi skilgreiningum, verði sett í reglugerð ráðherra. Áréttað er að ákvæði upplýsingalaga og laga um upplýsingarétt um um­hverfismál taka ekki til eftirlitsáætlunarinnar fyrr en að loknum gildistíma hennar. Eðlilegt er að slík áætlun verði undanþegin upplýsingarétti almennings þar til áætlunin hefur runnið sitt skeið. Verði áætlunin gerð opinber fyrir fram næst ekki tilætlaður árangur af eftirlitinu. 4. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna er svo færður í nýja 3. mgr. ákvæðisins með viðbót sem hljóðar upp á fleiri atriði sem kveða má á um í reglugerð.

Um 8. gr.

    Lagt er til að bætt verði við ákvæði 31. gr. laga um meðhöndlun úrgangs þannig að Um­hverfisstofnun verði veitt heimild til að stöðva flutning úrgangs þegar í stað þegar grunur leikur á að flutningur úrgangs á milli landa uppfylli ekki skilyrði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Fyrirmynd ákvæðisins er að finna í 57. gr. efnalaga.
    Tilefni ákvæðisins er mál sem kom upp á árinu 2014 þar sem erlent skip safnaði brotajárni og spilliefnum hér á landi og reyndi að flytja úrgang úr landi án leyfa. Um­hverfisstofnun kærði málið eftir að hafa farið í eftirlitsferð í skipið en lögregla vísaði kærunni frá. Málið var leyst með samstarfi Um­hverfisstofnunar, viðkomandi útgerðar, umboðsaðila skipsins á Íslandi og Efnamóttökunnar og viðunandi úrbætur gerðar sem fólust í því að töluvert magn spilliefna var fjarlægt úr skipinu. Tollstjóraembættið gat í þessu tilviki beitt heimildum sínum varðandi tollafgreiðslu til að koma í veg fyrir að skipið sigldi úr landi án leyfa. Þó að framangreint mál hafi verið leyst farsællega er ljóst að sambærileg mál geta komið upp og því vissara að Um­hverfisstofnun hafi heimild til að stöðva flutning úrgangs þegar í stað vakni grunur um að flutningur úrgangs á milli landa uppfylli ekki skilyrði laga eða reglugerða. Er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd úrræðisins.

Um 9. gr.

    Hér er lögð til viðbót við 43. gr. laga um meðhöndlun úrgangs sem lýtur að reglugerðum settum á grundvelli laganna. Nauðsynlegt þykir að mæla fyrir um skýrari lagastoð fyrir reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgang en núgildandi reglugerð er sett með stoð í almennum reglugerðarheimildum efnalaga, laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um meðhöndlun úrgangs.
    Í ákvæðinu er lagt til að heimilt verði að setja reglugerð um töluleg markmið fyrir notkun burðarplastpoka. Á vettvangi Evrópusambandsins hefur verið samþykkt breyting á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang varðandi minnkun á notkun léttra burðarplastpoka. Breytingatilskipunin, tilskipun 2015/720/ESB, hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Tilskipunin leggur skyldur á aðildarríki að minnka notkun á hefðbundnum plastpokum sem nær til burðarpoka úr plasti sem eru minni en 0,05 millimetrar að þykkt, sem eru bæði þunnu grænmetispokarnir og hinir venjulegu innkaupapokar stórverslana. Þó að orðalag e-liðar 43. gr. um að ráðherra setji reglugerð um töluleg markmið um úrgangsforvarnir nái yfir framangreindar breytingar á regluverki ESB þykir skýrara að mæla fyrir um sérstaka reglugerðarstoð fyrir töluleg markmið er varða notkun burðarplastpoka og undirbúa þannig innleiðingu tilskipunar 2015/720/ESB.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að tveimur greinum verði bætt við í kafla laganna sem fjallar um raf- og rafeindatækjaúrgang. Ákvæði 44. gr. a er sett til innleiðingar á c-lið 2. mgr. 5. mgr. tilskipunar 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og 44. gr. b er sett til innleiðingar á 1. mgr. 6. og 8. gr. sömu tilskipunar.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er sett til innleiðingar á 17. gr. tilskipunar 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang. Skv. 1. mgr. 17. gr. skulu aðildarríki tryggja að framleiðanda, eins og hann er skilgreindur í i.–iii. lið f-liðar 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, með staðfestu í öðru aðildarríki, sé heimilt, með undanþágu frá i.–iii. lið f-liðar 1. mgr. 3. gr., að tilnefna lögaðila eða einstakling með staðfestu á yfirráðasvæði þess sem viðurkenndan fulltrúa, sem ber ábyrgð á því að uppfylla skuldbindingar þess framleiðanda samkvæmt tilskipuninni, á yfirráðasvæði þess. Er lagt til að 1. mgr. 17. gr. verði innleidd með ákvæði er verður 3. mgr. 50. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, verði frumvarpið samþykkt. Þar sem allir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja eru sjálfkrafa skráðir í skráningarkerfi raf- og rafeindatækja hér á landi við innflutning tækjanna til landsins og eru um leið skyldugir til að greiða úrvinnslugjald af búnaðinum verður ekki séð að ákvæðið hafi mikla þýðingu hér á landi. Erlendum framleiðendum verður þó að sjálfsögðu heimilt að skrá hjá Um­hverfisstofnun, sem sér um skráningarkerfi framleiðanda og innflytjenda raf- og rafeindatækja, viðurkenndan fulltrúa sinn hér á landi.
    Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 2012/19/ESB skal hvert aðildarríki tryggja að framleiðandi, eins og hann er skilgreindur í iv. lið f-liðar 1. mgr. 3. gr. og með staðfestu á yfirráðasvæði þess, sem selur raf- og rafeindabúnað til annars aðildarríkis þar sem hann er ekki með staðfestu, tilnefni viðurkenndan fulltrúa í því aðildarríki, sem sé ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt tilskipuninni á yfirráðasvæði þess aðildarríkis. Er lagt til að 2. mgr. 17. gr. verði innleidd með ákvæði er verður 4. mgr. 50. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, verði frumvarpið samþykkt. Ekki verður séð að ákvæðið hafi mikla þýðingu hér á landi þar sem íslenskir framleiðendur raf- og rafeindatækja sem selja raf- og rafeindatæki í gegnum netið beint til notenda í öðru EES-ríki eru fáir en sjálfsagt gæti komið til þess síðar að ákvæðið yrði virkt. Tryggja verður að framleiðendur raf- og rafeindatækja hér á landi sem selja beint til notenda í öðru EES-ríki fái upplýsingar um þessa skyldu sína, t.d. af hendi Um­hverfisstofnunar.

Um 12. og 16. gr. og b-lið 18. gr.

    Lagt er til að ákvæði 3. mgr. 51. gr. verði breytt og að 7. mgr. 66. gr. og 3. mgr. 67. gr. laganna falli brott þar sem þau lúta að umsýslu skilakerfa raf- og rafeindatækja. Með lögum nr. 63/2014, um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, var gerð breyting á framleiðendaábyrgð raf- og rafeindatækja þannig að lagt var úrvinnslugjald á þessar vörur og Úrvinnslusjóður falið að tryggja söfnun og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs sem og að ná lágmarksmarkmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Skilakerfi raf- og rafeindatækja, og þar með stýrinefnd þessa úrgangs, voru samhliða lögð niður með lögum nr. 63/2014. Að öllum líkindum hefur farist fyrir að fella ákvæði laganna varðandi þessi atriði brott og er því gerð bragabót á því.

Um 13. gr.

    Lagt er til að tveimur stafliðum verði bætt við reglugerðarákvæði kafla um raf- og rafeindatækjaúrgang. Í fyrsta lagi er i-liður settur til innleiðingar á 3. og 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnað og felur í sér að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um hvaða raf- og rafeindabúnaður er undanþeginn ákvæðum laganna vegna sérstakra aðstæðna. Er hér t.d. átt við glóþráðarperur, búnað sem ætlaður er til sendingar út í geim, stór, föst iðnaðartæki, farartæki til farþega- eða vöruflutninga, færanlegan vélbúnað til nota utan vega í atvinnuskyni, búnað sem sérstaklega er hannaður fyrir rannsóknir og þróunarstarfsemi ein­göngu og lækningatæki. Í öðru lagi er lagt til að j-liður bætist við 53. gr. laganna til að hægt verði að innleiða VI. viðauka tilskipunar 2012/19/ESB með reglugerð ráðherra.

Um 14. gr.

    Lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á 56. gr. laga um meðhöndlun úrgangs þannig að skylda til skráningar spilliefna leggst ekki ein­göngu á handhafa spilliefna heldur einnig á seljendur og miðlara úrgangs í þeim tilfellum sem þessir aðilar koma að spilliefnum. Breytingin er nauðsynleg því að skilgreining seljanda og miðlara úrgangs tekur einnig til fyrirtækja sem taka ekki úrganginn í vörslu sína í reynd og gætu því ekki talist handhafar spilliefna eins og 1. mgr. 56. gr. kveður á um. Breytingin er í samræmi við 35. gr. rammatilskipunar 2008/98/EB um úrgang.

Um 15. gr.

    Hér er lagt til að nýjum kafla um endurvinnslu skipa verði bætt við lög um meðhöndlun úrgangs. Í kafla­num verða tvö ný ákvæði. Annars vegar um að Um­hverfisstofnun veiti starfsleyfi fyrir endurvinnslu skipa (heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fyrir minni skip, sbr. þó gildistökuákvæði) og að Um­hverfisstofnun samþykki endurvinnsluáætlunar skipa. Hins vegar ákvæði um reglugerðarheimildir ráðherra um efnið. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra aðlagi gjaldskrá Um­hverfisstofnunar að þessu nýja verkefni og tekið verði gjald fyrir veitingu starfsleyfa vegna endurvinnslu skipa og samþykki endurvinnsluáætlana. Með ákvæðinu er verið að undirbúa innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa og þá sérstaklega 7. og 14. gr. hennar. Gert er ráð fyrir að ESB-reglugerðin verði að öðru leyti innleidd með reglugerð ráðherra.
    Samkvæmt lið 9.14 í fylgiskjali 2 við reglugerð nr. 785/1998, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, veita heilbrigðisnefndir sveitarfélaga starfsleyfi fyrir viðhaldi og niðurrifi skipa. Reglugerð (ESB) nr. 1257/2013 gildir ein­göngu um skip sem eru stærri en 500 brúttótonn og í frumvarpinu er lagt til að Um­hverfisstofnun veiti starfsleyfi til skipaendurvinnslustöðva sem endurvinna skip yfir 500 brúttótonnum. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisnefndir veiti starfsleyfi til starfsemi þar sem fram fer endurvinnsla skipa undir 500 brúttótonnum og er það í samræmi við 9. gr. aðfaraorða framangreindrar reglugerðar ESB þar sem aðildarríki eru hvött til að samþykkja viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að skip sem eru undanskilin gildissviði reglugerðarinnar séu nýtt á viðeigandi hátt. Þessi starfsleyfi heilbrigðisnefndanna verða þó ein­göngu veitt til og með 31. desember 2017, sbr. gildistökuákvæði. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem fyrirhugað er að leggja fram samhliða þessu frumvarpi, er lagt til að Um­hverfisstofnun skuli gefa út starfsleyfi og að ráðherra hafi heimild til kveða á um skráningarskyldu í stað starfsleyfis. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að einungis Um­hverfisstofnun muni gefa út starfsleyfi frá og með 1. janúar 2018. Ljóst er að undirbúa þarf upptöku skráningarskyldu í stað starfsleyfa. Af þeim sökum er lagt til að óbreytt fyrirkomulag verði á útgáfu starfsleyfa til og með 31. desember 2017.

Um 17. gr.

    Hér er lagt til að tekin verði upp í lög um meðhöndlun úrgangs ákvæði um heimildir Um­hverfisstofnunar til að leggja stjórnvaldssektir á þann, hvort heldur einstakling eða lögaðila, sem brýtur gegn tilteknum bannákvæðum laganna eða ákvörðunum teknum samkvæmt þeim. Einnig er lagt til að tekið verði upp í lögin ákvæði um kæru til lögreglu. Í skýrslu sinni frá því í mars 2014, Skýrsla um eftirfylgni: Sorpbrennslur með undanþágu frá tilskipun ESB, telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að um­hverfis- og auðlindaráðuneytið kanni hvort festa skuli heimildir til beitingar stjórnvaldssekta í lög um meðhöndlun úrgangs. Ákvæði um stjórnvaldssektir á sviði um­hverfisréttar var fyrst leitt í lög með efnalögum, nr. 61/2013. Ekki hefur reynt á notkun stjórnvaldssekta samkvæmt þeim lögum. Fyrirmynd ákvæðisins er að finna í 62.–64. og 67. gr. efnalaga en fyrirmynd þeirra ákvæða er í lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi. Vísað er til skýringa við framangreind ákvæði, að breyttu breytanda.
    Samkvæmt 6. mgr. a-liðar 17. gr. getur aðili máls skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Eins og fram kemur í skýrslu nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra um viðurlög við efnahagsbrotum, dags. 12. október 2006, er mikilvægt að vandað sé til rannsóknar og allrar meðferðar mála hjá stjórnvöldum þegar lagðar eru á stjórnvaldssektir. Þá sé það mikilvægt réttaröryggisúrræði að geta kært ákvörðun um stjórnvaldssektir til æðra stjórnvalds og/eða borið hana undir dómstóla, sérstaklega í ljósi þess að slík málsmeðferð lýtur strangari kröfum en málsmeðferð hjá stjórnvöldum. Er slík málsmeðferð auk þess í samræmi við málsmeðferð í öðrum refsimálum þar sem um sektarviðurlög er að ræða. Á þetta sér fordæmi í ýmsum lögum, svo sem efnalögum, lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
    Samkvæmt 2. mgr. b-liðar 17. gr. frumvarpsins gilda ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga ekki um ákvörðun Um­hverfisstofnunar um að kæra mál til lögreglu. Þetta eru kaflar stjórnsýslulaga sem fjalla um andmælarétt, birtingu ákvörðunar og rökstuðning, afturköllun ákvörðunar og stjórnsýslukæru og geta þeir eðli máls samkvæmt ekki gilt um ákvörðun Um­hverfisstofnunar um að kæra brot til lögreglu. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að um rannsókn lögreglu gilda málsmeðferðarreglur sakamálalaga.

Um a-lið 18. gr.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að kæruheimild til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála verði afmörkuð við stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða samþykkta sveitarfélaga og er orðalagi 67. gr. laganna breytt í þá veru.

Um 19. gr.

    Í greininni er gerð grein fyrir því að frumvarpi þessu er ætlað að innleiða tilskipun 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og reglugerð (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa. Ákvæði 6. tölul. er fellt brott þar sem tilskipun 2003/108/EB um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang er felld niður með tilskipun 2012/19/ESB.

Um 20. gr.

    Hér er lögð til breyting á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn um­hverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, þannig að fyrir ál sé tekin umsýsluþóknun eins og fyrir aðrar umbúðir.
    Samkvæmt 1. gr. laganna skal til viðbótar skilagjaldi taka umsýsluþóknun fyrir hverja umbúðaeiningu úr stáli, gleri og plastefni. Umsýsluþóknun er hugsuð sem viðbótargjald við skilagjald á þær drykkjarvöruumbúðir sem ekki bera sig fjárhagslega með tilliti til hlutdeildar í skilagjaldi og útflutningi. Umsýsluþóknun er því raun sú stærð sem hægt er að hreyfa ef útflutningsverð á umbúðum og hlutur í skilagjaldi breytast. Samkvæmt lögunum bera stál, gler og plastefni umsýslugjald en ekki ál. Væntanlega hefur verið litið svo á að ekki þyrfti að setja slíkt gjald á ál enda verðmæti áls meira en flestra annarra málma sem er safnað og hugsanlegt að ekki hafi verið gert ráð fyrir að skil á álumbúðum væru yfir 90%, eins og þau eru í dag. Undanfarin missiri hefur álverð farið lækkandi og hefur 10% lækkun verið spáð fyrir árið 2016, ofan á þau 10% sem álverð lækkaði árið 2015. Því er komin upp sú staða hjá Endurvinnslunni hf. að tekjur vegna áls, þ.e. sala álumbúða, eru minni en kostn­aður fyrirtækisins við meðhöndlun áls. Til að mæta því hefur umsýsluþóknun verið hækkuð á aðrar umbúðir en ál en slíkt verður að teljast óeðlilegt. Er því talið rétt að leggja til að umsýsluþóknun verði sett á álumbúðir en gjaldinu verði stillt í hóf, 0,20 kr. á hverjar álumbúðir. Það er vilji Endurvinnslunnar hf. og ráðuneytisins að gjaldið taki mið af markaðsverði á áli á hverjum tíma auk þróunar gengis og skila á umbúðum til fyrirtækisins. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að umsýsluþóknun fyrir álumbúðir fari niður í 0 kr., og þá með breytingu á reglugerð, ef aðstæður á markaði breytast.
    Rétt er að leggja áherslu á að eina breytingin sem gerð er á 4. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna varðar töku umsýsluþóknunar fyrir álumbúðir. Skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 52/1989 getur ráðherra kveðið nánar á um upphæðir umsýsluþóknana í reglugerð. Þessa heimild hefur ráðherra nýtt sér, sbr. síðari breytingar á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur, og því gefa upphæðir umsýsluþóknana í 4. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna í lagasafninu ekki rétt mynd af stöðu mála.

Um 21. gr.

    Gert er ráð fyrir að frumvarp þetta, verði það að lögum, öðlist þegar gildi. Þó skal b-liður 7. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Um­hverfisstofnun útbúi eftirlitsáætlanir vegna flutnings úrgangs á milli landa ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 2018 til að stofnunin hafi ráðrúm til að undirbúa verkefnið. Um 2. mgr. ákvæðisins vísast til athugasemda við 15. gr. frumvarpsins.