Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1100  —  672. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar (sameining stofnana).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um skógrækt, nr. 3/1955.
1. gr.

    Í stað orðanna „Skógrækt ríkisins“ í 1. mgr. 1. gr. og „Skógræktar ríkisins“ í fyrirsögn greinarinnar og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingar­falli: Skógræktin.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við samþykkt þessa ákvæðis skal ráðherra undirbúa stofnun Skógræktarinnar. Skógræktin tekur við eignum, réttindum og skyldum Skógræktar ríkisins frá og með 1. júlí 2016. Skóg­ræktin skal jafnframt taka yfir alla ráðningarsamninga starfsmanna Skógræktar ríkisins.
    Starfsmenn kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Að öðru leyti fer um réttindi starfsmanna vegna skipulagsbreyt­inganna eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Ráðherra skal flytja skógræktarstjóra Skógræktar ríkisins í embætti skógræktarstjóra Skóg­ræktarinnar, sbr. 36. gr. laga nr. 70/1996, sem undirbýr starfsemi hinnar nýju stofnunar, þ.m.t. starfsmannahald.

II. KAFLI
Breyting á lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006.
3. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Í því skyni að skapa skógarauðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf skal Skógræktin eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum hverju sinni veita fé til skógræktar á lögbýlum í öllum landshlutum.

4. gr.

    3. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skógrækt á lögbýlum.

    Skógræktinni er heimilt eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum hverju sinni að veita fé til skógræktar á lögbýlum.


5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skógræktin skal vinna sérstaka áætlun vegna skógræktar á lögbýlum fyrir hvern landshluta.
     b.      Í stað orðsins „landshlutaverkefnunum“ í 2. mgr. kemur: til skógræktar á lögbýlum.

6. gr.

    5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Samráð.

    Skógræktin skal hafa samráð við Félag skógarbænda á viðkomandi svæði varðandi áherslur og framkvæmd skógræktar á lögbýlum og skal fundað í þeim tilgangi eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Skógræktin skal leita umsagnar Landssamtaka skógareigenda við ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Landshlutaverkefni á hverju svæði“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Skóg­ræktin.
     b.      Í stað orðanna „Skógræktar ríkisins“ í 2. mgr. kemur: Skógræktarinnar.

8. gr.

    Í stað orðsins „verkefnisstjórn“ í 2. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 8. gr. og „verkefnis­stjórnar“ í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Skógræktin.

9. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Þátttaka ríkissjóðs í skógrækt á lögbýlum greiðist með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir Skógræktina.
    Skógræktin greiðir undirbúnings- og rekstrarkostnað og laun starfsmanna. Enn fremur greiðir Skógræktin allt að 97% af samþykktum kostnaði við skógrækt.

10. gr.

    10. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Skógræktin tekur við eignum, réttindum og skyldum landshlutaverkefna í skógrækt frá og með 1. júlí 2016. Skógræktin skal jafnframt taka yfir alla ráðningarsamninga starfsmanna hjá landshlutaverkefnum í skógrækt.
    Starfsmenn kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Að öðru leyti fer um réttindi starfsmanna vegna skipulags­breytinganna eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eða eftir atvikum ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002.

12. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um skógrækt á lögbýlum.

III. KAFLI
Breyting á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.
13. gr.

    Í stað orðanna „Skógrækt ríkisins“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: Skógræktinni.

IV. KAFLI
Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.
14. gr.

    Í stað orðanna „Skógræktar ríkisins“ í 2. mgr. 39. gr. laganna kemur: Skógræktarinnar.

V. KAFLI
Breyting á efnalögum, nr. 61/2013.
15. gr.

    Í stað orðanna „Skógrækt ríkisins“ í 1. mgr. 34. gr. laganna kemur: Skógræktina.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965.
16. gr.

    Í stað orðanna „Skógrækt ríkisins“ í 6. gr. laganna kemur: Skógræktin.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum.
17. gr.

    Í stað orðanna „Skógrækt ríkisins“ í b-lið 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Skógræktin.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015.
18. gr.

    Í stað orðanna „Skógrækt ríkisins“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: Skógræktina.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, með síðari breytingum.
19. gr.

    Í stað orðanna „Skógrækt ríkisins“ í 2. mgr. 15. gr. laganna, og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Skógræktin.

20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2016. Þó öðlast ákvæði 2. og 11. gr. þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um viðauka við lög nr. 3/1955, um skógrækt, nr. 22/1966.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Í júní 2015 ákvað umhverfis- og auðlindaráðherra að hefja vinnu við skoðun á sameiningu alls skógræktarstarfs á vegum ríkisins í eina stofnun, þ.e. Skógræktar ríkisins og landshluta­verkefna í skógrækt; Vesturlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum, Norðurlandsskóga, Héraðs- og Austurlandsskóga og Suðurlandsskóga, auk umsjónar með Hekluskógum.
    Talið var mikilvægt að samhæfa starf ráðuneytisins á sviði skógræktar, meðal annars með það markmið að leiðarljósi að gera stjórnsýslu skógræktarmála skilvirkari og samræmdari, auka faglega getu og yfirsýn og styrkja byggð, meðal annars með því að styrkja starfsstöðvar í héraði. Ráðuneytið taldi að ávinningur þess að færa yfirstjórn skógræktar á vegum ríkisins í eina stofnun gæti verið margþættur og vildi því taka það til frekari skoðunar. Gert var ráð fyrir því í upphafi að stofnun á sviði skógræktar hefði höfuðstöðvar á Fljótsdalshéraði og ræki starfsstöðvar í öllum landshlutum. Þannig mætti sameina starfsstöðvar Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt í landshlutunum.
    Skipaður var starfshópur til að vinna að greiningu á þeirri samlegð sem væri fólgin í sam­einingu alls skógræktarstarfs ríkisins og skila greinargerð um ávinning og þær áskoranir sem felast í því. Hópurinn hafði náið samráð við Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands.
    Starfshópurinn skilaði greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra 24. september 2015. Niðurstaða hans var að sameining landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins í eina stofnun væri æskileg og skapaði tækifæri fyrir framþróun og eflingu skógræktar í landinu. Meðal helstu verkefna stofnunarinnar yrðu skipulag og ráðgjöf við nýræktun skóga, umhirðu og nýtingu, umsjón þjóðskóga eins og Hallormsstaðaskógar og Vaglaskógar, rannsóknir í skógrækt og fræðsla og kynning.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarps þessa er að starfshópur skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra komst að þeirri niðurstöðu að sameining landshlutaverkefna í skógrækt og Skógræktar ríkisins í eina nýja stofnun væri æskileg og að slík sameining mundi skapa tækifæri fyrir framþróun og eflingu skógræktar í landinu. Sameining mundi auðvelda innleiðingu og fram­kvæmd stefnumörkunar um skógrækt, stjórnsýsla yrði einfaldari og sterkari, svæðisstöðvar yrðu öflugri og margþætt samlegð mundi skapast varðandi ráðgjöf, fræðslu- og kynningarmál og þróun og eftirlit. Fjárhagsleg samlegð nýrrar stofnunar liggur í stoðþjónustu eins og fjár­málastjórnun og umsýslu fjármála og því ætti að verða til staðar aukið fjármagn til kjarna­starfsemi, svo sem nýræktunar skóga. Meiri geta ætti að verða til að sinna mannauðsmálum, svo sem endurmenntun, og aukin tækifæri til starfsþróunar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar sem gera verður á lögum um skógrækt, nr. 3/1955, lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006, og ýmsum öðrum lögum þar sem Skógrækt ríkisins hefur hlutverk, en að mestu leyti eru um að ræða nafnabreytingar í lögum þar sem vísað er til Skógræktar ríkisins.
    Með sameiningunni mun sá mannauður sem starfar við skógrækt á vegum ríkisins nýtast betur til að ná markmiðum skógræktar um uppbyggingu skógarauðlindar og verndun og sjálfbæra nýtingu skóga. Í frumvarpinu er lagt til að landshlutaverkefni í skógrækt verði hluti af annarri starfsemi Skógræktarinnar. Í lögum nr. 95/2006 er það gert að skilyrði fyrir þátt­töku í landshlutaverkefnum í skógrækt að um sé að ræða lögbýli. Þar sem ekki er ætlunin að útvíkka þátttöku ríkisins í skógrækt meira en nú þegar er í frumvarpinu er lagt til að Skógræktinni verði eingöngu heimilt að styrkja skógrækt á lögbýlum.
    Eins gerir frumvarpið ráð fyrir að í stað ákvæðis um skipun stjórna landshlutaverkefna verði kveðið á um samráð við félög skógarbænda varðandi áherslur og framkvæmd við­komandi landshlutaverkefnis og landssamtök skógareigenda varðandi ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Breytingar á lögum um skógrækt, nr. 3/1955, eru tvenns konar. Annars vegar er um að ræða nauðsynlegar breytingar sem snúa að því að ný stofnun, Skógræktin, tekur við öllum verkefnum Skógræktar ríkisins og hins vegar er um að ræða breytingar er snúa að því að eitt af verkefnum Skógræktarinnar verður að reka landshlutaverkefni í skógrækt samkvæmt lögum nr. 95/2006. Að auki er að finna í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða er snýr að réttindum og skyldum starfsmanna Skógræktar ríkisins.
    Breytingar á lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006, snúa einkum að yfir­stjórn verkefnanna. Landshlutaverkefni í skógrækt eru lögbundin verkefni og eru fjármunir þeirra ákveðnir í fjárlögum hverju sinni. Ráðherra skipar stjórn fyrir hvert verkefni sem hefur á hendi yfirstjórn verkefnisins og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir þess. Stjórn ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur. Við sameiningu landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins mun ný stofnun taka yfir hlutverk stjórnanna, Skógræktin Ekki verða lengur skipaðar stjórnir yfir verkefnunum, en í stað þess er lagt til að nýtt ákvæði um samráð við félög skógarbænda og Landssamtök skógareigenda verði bætt við lögin. Landshluta­verkefnin verða ekki lengur nefnd í lögunum, en gert er ráð fyrir að stofnunin muni sinna þeim verkefnum sem landshlutaverkefnin sinntu áður. Að auki er lagt til sambærilegt ákvæði til bráðabirgða er snýr að réttindum og skyldum starfsmanna lands-hlutaverkefnanna og er lagt til í breytingum á lögum um skógrækt, nr. 3/1955.
    Breytingar á öðrum lögum eru eingöngu nafnabreytingar þar sem lagt er til að ný stofn-un, Skógræktin, taki við verkefnum sem áður voru á hendi Skógræktar ríkisins. Að lokum er í frumvarpinu lagt til að lög um viðauka við lög nr. 3/1955, um skógrækt, nr. 22/1966, falli niður, þar sem fjallað er um skógræktarverkefni í lögum um landshlutaverkefni í skógrækt.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til þess að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Í júní 2015 tók til starfa starfshópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem falið var að hefja vinnu við skoðun á sameiningu skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun, en skógræktarstarfið er í dag í höndum Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt, þ.e. Vesturlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum, Norðurlandsskóga, Héraðs- og Austur­landsskóga og Suðurlandsskóga, auk Hekluskóga.
    Starfshópurinn fundaði alls sex sinnum og meðal annars með fulltrúum Landssamtaka skógareigenda og fulltrúum Skógræktarfélags Íslands. Að auki var haldinn samráðsfundur með helstu hagaðilum 1. september 2015, en þar mættu alls 44 fulltrúar frá sextán hagaðilum. Á þeim samráðsfundi voru kynntar helstu tillögur starfshópsins og í framhaldi af því fóru fram umræður. Eins og fram kemur í greinargerð starfshópsins töldu flestir að með sameiningu skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun yrði til sterkari og skilvirkari stofnun, aukinn stuðningur við rannsóknir og síðast en ekki síst öflugra skógræktarstarf á vegum hins opinbera.
    Greinargerð starfshópsins var skilað til ráðherra 24. september 2015. Á sama tíma var framkvæmdastjórum landshlutaverkefnanna og skógræktarstjóra falið að upplýsa starfsfólk um innihald hennar. Í kjölfarið var vinna sett af stað í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu við undirbúning að frumvarpi til að gera nauðsynlegar lagabreytingar sem sameiningin kallar á. Við vinnslu frumvarpsins var meðal annars fundað með framkvæmdastjórum landshluta­verkefnanna og skógræktarstjóra sem upplýstu starfsfólk sitt um áframhaldandi vinnu við fyrirhugaða sameiningu. Þá var haft samráð við kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efna­hagsráðuneytisins vegna ákvæða er tengjast réttindum og skyldum starfsmanna Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna.
    Vinna við sameininguna er leidd af skógræktarstjóra og hefur verið myndaður stýrihópur sem hann situr í ásamt framkvæmdastjórum landshlutaverkefnanna, fjórum starfsmönnum Skógræktar ríkisins og fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku starfsmanna Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt í sameiningar­ferlinu. Ráðgjafi með sérþekkingu á breytingastjórnun mun jafnframt aðstoða við starfið fram undan.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið taldi ekki þörf á frekara samráði um efni frumvarps-ins, en mat ráðuneytisins var að tillögurnar gæfu ekki tilefni til þess að auglýsa efni frumvarpsins til umsagnar opinberlega.

VI. Mat á áhrifum.
    Samþykkt frumvarpsins mun hafa í för með samþættingu verkefna skógræktar undir eina stofnun. Með þeirri sameiningu má reikna með betri innleiðingu og framkvæmd stefnu­mörkunar um skógrækt þar sem stjórnsýslan verður einfaldari, sterkari og aðgengilegri. Svæðisstöðvar um allt land verða öflugri og þannig verður til sterkara bakland fyrir alla þá aðila sem sinna skógrækt. Meira jafnræði verður á milli landshluta þar sem sömu reglur gilda um afgreiðslu fjárframlaga vegna þátttöku í skógræktarverkefnum í öllum landshlutum. Margþætt samlegð verður varðandi ráðgjöf, fræðslu- og kynningarmál, þróun og eftirlit. Ráð­gjöf verður markvissari auk þess sem opinbert eftirlit með skógrækt verður einfaldara, sterkara og faglegra. Auka má samþættingu rannsókna og styrkja faglega vinnu við korta- og áætlanagerð en sameining skógræktarstarfs ríkisins á hendi einnar stofnunar getur auðveldað úrvinnslu- og markaðsmál varðandi nýtingu skóga.
    Fjárhagsleg samlegð nýrrar stofnunar liggur í stoðþjónustu eins og fjármálastjórnun og umsýslu fjármála. Stjórnunarkostnaður ætti að lækka og aukið fjármagn því að vera til kjarna­starfsemi, svo sem nýræktunar skóga. Meiri geta verður til að sinna mannauðsmálum með öflugri starfsmannastefnu og endurmenntun starfsmanna og auknum sveigjanleika í starf­seminni. Meiri geta verður einnig til að sinna gæðamálum, upplýsingatækni og tæknilegri stoðþjónustu.
    Ráðgert er að Skógræktin taki yfir alla ráðningarsamninga, hvort heldur sem er starfs­manna Skógræktar ríkisins eða starfsmanna einstakra landshlutaverkefna í skógrækt. Eins gerir frumvarpið ráð fyrir að í stað ákvæðis um skipun stjórna landshlutaverkefna verði kveðið á um samráð við félög skógarbænda varðandi áherslur og framkvæmd skógræktar á lögbýlum og landssamtök skógareigenda varðandi ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu sam­þykkts kostnaðar. Það, ásamt öðrum samlegðaráhrifum sameiningar, leiðir til lækkunar á kostnaði við yfirstjórn sem nýta má til kjarnastarfsemi stofnunarinnar og til styrkingar á ýmiss konar stoðþjónustu. Meginniðurstaðan við mat á heildarkostnaði ríkissjóðs er að verði frumvarpið að lögum feli það hvorki í sér breytingar á tekjum eða gjöldum stofnunarinnar né kostnað eða aukin árleg útgjöld fyrir ríkissjóð þar sem engar breytingar verða á tekjustofnum eða rekstrarkostnaði stofnunarinnar frá því sem nú er. Af framansögðu má því gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt.
    Að öðru leyti snertir sameining alls skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun einkum þá starfsmenn sem starfa í dag hjá Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefnunum í skógrækt. Gert er ráð fyrir að ný stofnun taki yfir alla ráðningarsamninga, bæði starfsmanna Skógræktar ríkisins og starfsmanna einstakra landshlutaverkefna í skógrækt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 1. gr. laga um skógrækt. Í a-lið er lögð til nafnabreyt­ing á þann veg að í stað „Skógræktar ríkisins“ komi Skógræktin. Nafnabreytingin er liður í sameiningu skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um skógrækt. Í ákvæðinu kemur fram að Skógræktin taki við eignum, réttindum og skyldum Skógræktar ríkisins frá og með 1. júlí 2016, sem og gildandi ráðningarsamningum stofnunarinnar ásamt öllum þeim réttindum og skyldum sem á þeim byggjast. Gert er ráð fyrir að ráðherra undirbúi starfsemi nýrrar stofnunar, svo sem með því að veita forstöðumanni heimildir til að skipu­leggja starfsemi nýrrar stofnunar þannig að hún taki til starfa á þeim tíma sem frumvarpið fyrir ráð fyrir. Starfsmenn kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í sam­ræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Að lokum er lagt til að ráðherra skuli flytja skóg­ræktarstjóra Skógræktar ríkisins í embætti skógræktarstjóra Skógræktarinnar, sbr. 36. gr. laga nr. 70/1996, en þar segir í 1. málsl. 1. mgr. að stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, geti flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Nýr skógræktar­stjóri var skipaður 1. janúar 2016 og meðal fyrstu verkefna hans er meðal annars að vinna að undirbúningi sameiningar alls skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun.

Um 3. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 1. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt er fjallar um tilgang og markmið laganna. Með breytingunum mun það verða hlutverk nýrrar stofnunar, Skógræktarinnar, að veita fé til skógræktar á lögbýlum í öllum landshlutum eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum hverju sinni. Lagt er til að tekin verði úr ákvæðinu til­vísun í sérstök landshlutaverkefni, en eftir sameininguna munu landshlutaverkefnin ekki lengur vera til heldur verður allt skógræktarstarf ríkisins á höndum einnar stofnunar, Skóg­ræktarinnar. Því er mikilvægt að breyta orðalagi laganna þannig að ekki sé vísað til lands­hlutaverkefna heldur skógræktar á lögbýlum.

Um 4. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt. Breytingarnar leiðir af því að verkefni landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins færast til nýrrar stofnunar, Skógræktarinnar. Breytingarnar miða einnig að því að í stað þess að vísað sé til sérstakra landshlutaverkefna mun í lögunum verða talað um skógrækt á lögbýlum.

Um 5. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 4. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt. Eftir sameiningu skógræktarstarf ríkisins í nýja stofnun mun það verða hlutverk þeirrar stofnunar að vinna áætlanir vegna skógræktar á lögbýlum fyrir hvern landshluta.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að í stað ákvæðis 5. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt, um stjórn og rekstur landshlutaverkefnanna, verði kveðið á um samráð Skógræktarinnar, annars vegar við Félag skógarbænda á viðkomandi svæði og hins vegar við Landssamtök skógar­eigenda, um málefni er snúa meðal annars að framkvæmd skógræktar á lögbýlum. Félag skógarbænda á viðkomandi svæði á í dag fulltrúa í stjórn hvers landshlutaverkefnis, en aðrir stjórnarmeðlimir eru tilnefndir af Skógrækt ríkisins og án tilnefningar. Þar sem verkefnis­stjórnin verður lögð niður við sameiningu skógræktarstarfsins þykir mikilvægt að skapa samráðsvettvang þar sem skógarbændur fá að koma að ákvörðunum um áherslur og fram­kvæmd viðkomandi verkefna, auk þess sem skógareigendur hafi umsagnarhlutverki að gegna við ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar.

Um 7. gr.

    Í greininni er lögð til nafnabreytingar í 6. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006. Annars vegar er um að ræða hlutverk sem landshlutaverkefnin höfðu áður, og verða í höndum Skógræktarinnar, og hins vegar er um að ræða hlutverk sem Skógrækt ríkisins hafði áður en verður eftir sameininguna í höndum nýju stofnunarinnar. Ekki er um eiginlega efnis­lega breytingu að ræða á ákvæðinu aðra en þá er snýr að sameiningu skógræktarstarfsins.

Um 8.–10. gr.

    Hér er lögð til breyting er snýr að því að Skógræktin tekur yfir verkefni landshlutaverk­efnanna, en skv. 6. gr. frumvarpsins fellur ákvæði um stjórnir þeirra brott. Þau verkefni sem áður voru á höndum verkefnisstjórnar verða því á höndum nýrrar stofnunar, Skógræktarinnar. Að auki er í 10. gr. frumvarpsins lagt til að 10. gr. laganna falli brott, en það ákvæði kveður á um gerð ársskýrslna og ársreikninga fyrir hvert og eitt landshlutaverkefni. Þar sem ný stofnun mun sinna skógrækt á lögbýlum munu ársreikningar og ársskýrslur verða hluti af árs­skýrslum og ársreikningum stofnunarinnar og er því ákvæðið óþarft.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um landshlutaverkefni í skógrækt. Í ákvæðinu kemur fram að Skógræktin taki við eignum, réttindum og skyldum landshluta­verkefna í skógrækt frá og með 1. júlí 2016 sem og gildandi ráðningarsamningum stofnunar­innar ásamt öllum þeim réttindum og skyldum sem á þeim byggjast. Starfsmenn kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Þá er vísað til laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, ólíkt því sem er í 2. gr. frumvarpsins, en ástæðan er sú að ráðningarform starfsmanna lands­hlutaverkefna kann að vera í einhverjum tilvikum frábrugðið ráðningarformi starfsmanna Skógræktar ríkisins. Er hér aðeins um varúðarráðstöfun að ræða til að fyrirbyggja að réttindi tapist með einhverjum hætti.

Um 12. gr.

    Í greininni er lagt til að heiti laga nr. 95/2006, um landshlutaverkefna í skógrækt, verði lög um skógrækt á lögbýlum. Með sameiningu alls skógræktarstarfs ríkisins verða landshluta­verkefnin ekki lengur til og mun Skógræktin taka yfir þau verkefni sem landshlutaverkefnin sinntu áður, þ.e. hún mun sinna skógrækt á lögbýlum eins og lög nr. 95/2006 munu kveða á um.

Um 13.–19. gr.

    Í greinunum er um að ræða breytingar sem leiðir af því að verkefni Skógræktar ríkisins eru flutt til nýrrar stofnunar, Skógræktarinnar.

Um 20. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.