Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1126  —  539. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur
um umskurð á börnum.


     1.      Liggja fyrir upplýsingar um umskurð á börnum hér á landi og ef svo er, hversu margar slíkar aðgerðir hafa verið gerðar undanfarinn áratug? Aldur barna og kyn óskast tilgreint í svarinu og hvort aðgerðirnar hafi verið framkvæmdar af heilsufarsástæðum eða trúar- eða félagslegum ástæðum.
    Embætti landlæknis safnar ekki reglubundið upplýsingum um umskurð á börnum hér á landi. Um er að ræða einstök tilvik en umskurður á kynfærum stúlkna er óheimill samkvæmt ákvæði 218. gr. a. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Samkvæmt sömu lögum telst umskurður á kynfærum stúlkna til líkamsárásar. 1 Embætti landlæknis hefur aflað eftirfarandi upplýsinga: Á Barnaspítala Hringsins hefur ein aðgerð verið framkvæmd á dreng af læknisfræðilegum ástæðum á sl. þremur árum. Á spítalanum eru slíkar aðgerðir ein­göngu gerðar í læknisfræðilegum tilgangi. Tveir sjálfstætt starfandi barnaskurðlæknar eru á landinu og hefur engin aðgerð verið framkvæmd hjá þeim á sl. tveimur árum. Þegar leitað var í gagnagrunnum embættisins fyrir árin 2009–2014 kom í ljós að ein aðgerð var framkvæmd árið 2009 og ein árið 2012.

     2.      Hver er stefna stjórnvalda varðandi það hvort umskurður barna vegna trúarlegra eða félagslegra ástæðna skuli leyfður eða bannaður? Kemur til greina að setja um slíkt reglur á borð við „Vejledning om omskæring af drenge“ sem í gildi eru í Danmörku?
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland á að vera fjölskylduvænt land þar sem börn búa við öryggi og jöfn tækifæri og njóta lögvarinna réttinda líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Heilbrigðisráðherra telur mikilvægt að skurðaðgerðir sem framkvæmdar eru á líkama barna séu framkvæmdar af heilbrigðisstarfsmönnum sem heyra undir lög nr. 34/2012 og þannig sé tryggt að haft sé eftirlit með gæðum og öryggi við framkvæmd þeirra aðgerða, sbr. ákvæði laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þar sem fjallað er um eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Ráðuneytið telur því vel koma til greina að settar verði sambærilegar leiðbeiningar og gert hefur verið Danmörku og mun hafa samráð við embætti landlæknis í því skyni.

     3.      Eru í gildi starfsreglur eða leiðbeiningar til starfsfólks mennta- og heilbrigðisstofnana og eftir atvikum annarra aðila sem sinna börnum um viðbrögð við vitneskju um ólögmætan umskurð barna og hvað fela þær þá í sér?
    Ekki eru í gildi slíkar starfsreglur eða leiðbeiningar á heilbrigðisstofnunum samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis. Ákvæði barnaverndarlaga, nr. 80/2002, gilda hins vegar um heilbrigðisstarfsmenn eins og aðra. Í 16. gr. laganna segir m.a. að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafi ástæðu til að ætla að barn verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

     4.      Hafa stjórnvöld á einhvern hátt brugðist við tilmælum Norðurlandaráðs nr. 35/2008 um alþjóðlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir limlestingu á kynfærum?
    Íslensk stjórnvöld hafa stutt þá umræðu og vinnu sem farið hefur fram á alþjóðavettvangi, svo sem á vegum Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, og varðar aðgerðir til að koma í veg fyrir limlestingu á kynfærum. Ísland var til að mynda eitt þeirra ríkja sem lagði fram ályktun sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2012 og kallar eftir efldu alþjóðlegu átaki til að útrýma limlestingum á kynfærum kvenna.

Neðanmálsgrein: 1
1     Á 131. löggjafarþingi voru samþykktar breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, þess efnis að banna umskurð á kynfærum stúlkna. Umskurður á kynfærum stúlkna telst, samkvæmt almennum hegningarlögum, til líkamsárásar samkvæmt ákvæði 218. gr. a. en þar segir að hver sem með líkamsárás valdi tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skuli sæta fangelsi allt að 6 árum.