Ferill 561. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1183  —  561. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (heimildir Fjármálaeftirlitsins til að takmarka tjón á fjármálamarkaði).

Frá meiri hluta efnahags- og við­skipta­nefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Leif Arnkel Skarphéðinsson og Hjörleif Gíslason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitinu.
    Í frumvarpinu er lögð til framlenging á bráðbirgðaákvæði VI við lög um fjármálafyrirtæki. Samhljóða ákvæði var upphaflega sett í lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem oftast ganga undir nafninu „neyðarlögin“. Ákvæðið var síðan lögfest sem bráðabirgðaákvæði VI við lög um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 44/2009 og hefur gildistími þess fjórum sinnum verið framlengdur, fyrst með lögum nr. 75/2010 og síðan með lögum nr. 78/2011, nr. 77/2012 og nr. 29/2014.
    Ákvæðið veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að grípa til sérstakra ráðstafana við ákveðnar aðstæður eða atvik til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Ákvæðið var síðast framlengt til ársloka 2015 en lagt var upp með að fyrir þann tíma yrði frumvarp að nýjum heildarlögum um viðbúnað, skil og slit fjármálafyrirtækja sem innleiðir tilskipun 2014/59/ESB (e. Directive on Bank Recovery and Resolution) orðið að lögum. Tafir hafa hins vegar orðið á innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt sem stafa af ágreiningi á vettvangi Evrópusambandsins og varð þess valdandi að lokaútgáfa tilskipunarinnar frestaðist og því er nauðsynlegt að framlengja bráðabirgðaákvæðið tímabundið. Fram kemur í frumvarpinu að fyrirhugað er að leggja fram frumvarp að nýjum heildarlögum um viðbúnað, skil og slit fjármálafyrirtækja á Alþingi á 146. löggjafarþingi.
    Nefndin vekur athygli á að ekki er langt síðan ákvæðinu var síðast beitt en það var í mars 2015 þegar Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um samruna án skuldaskila þannig að Sparisjóður Vestmannaeyja ses. var sameinaður Landsbankanum hf. með yfirtöku eigna og skulda og sparisjóðnum slitið. Telur nefndin að ef sambærilegar aðstæður koma upp sé nauðsynlegt að hægt sé að grípa fljótt til sérstakra ráðstafana til að takmarka tjón innstæðueigenda og fjárfesta. Því er mikilvægt að slík heimild sé til staðar og þar sem ný heildarlög hafa ekki enn tekið gildi verði að fara þá leið að framlengja bráðabirgðaákvæðið tímabundið.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 18. apríl 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Sigríður Á. Andersen,
frsm.
Vilhjálmur Bjarnason.
Willum Þór Þórsson. Guðmundur Steingrímsson. Katrín Jakobsdóttir.