Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1307  —  682. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 293/2015 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 293/2015 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/34/ESB frá 26. júní 2013 um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og tilheyrandi skýrslur tiltekinna tegunda fyrirtækja, um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og niðurfellingu tilskipana ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE.
    Tilskipun 2013/34/ESB fjallar um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð og er ætlað að draga úr umsýslukostnaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, bæta viðskiptaumhverfi fyrirtækja og auka gæði og samanburðarhæfni birtra upplýsinga. Með tilskipuninni eru gerðar breytingar á stærðarmörkum fyrirtækja og því hvernig lítil, meðalstór og stór fyrirtæki eru skilgreind. Ríkari kröfur eru gerðar til ársreikningsskila stærri fyrirtækja en þeirra smærri. Í tilskipuninni er að finna sérstakan valkvæðan kafla um örfyrirtæki eða örfélög. Ákveði aðildarríki að innleiða þann kafla gerir það þeim kleift að bæta enn frekar viðskiptaumhverfi þessara minnstu fyrirtækja. Á fundi utanríkismálanefndar kom fram að um 98% fyrirtækja á Íslandi teljast lítil fyrirtæki eða örfyrirtæki. Meiri hluti þeirra er örfyrirtæki og falla um 80% fyrirtækja hér á landi undir þá skilgreiningu.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, og hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra þegar lagt fram frumvarp þess efnis (456. mál). Í því er að finna ákvæði um örfélög og þar með stefnt að því að lögfesta valkvæð ákvæði tilskipunarinnar. Frumvarpið er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.
    Vilhjálmur Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Össur Skarphéðinsson og Óttarr Proppé voru einnig fjarverandi en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 19. maí 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Karl Garðarsson. Frosti Sigurjónsson.
Elín Hirst. Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Össur Skarphéðinsson.