Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1334  —  618. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum (framlenging gildistíma, hækkun á hlutfalli endurgreiðslu o.fl).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Gunnarsdóttur, Helgu Haraldsdóttur og Þórð Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Fahad Fal Jabali og Sigríði Rósu Bjarnadóttur frá Félagi kvikmyndagerðarmanna, Arnar Guðmundsson og Einar Hansen Tómasson frá Íslandsstofu, Alexander G. Edvardsson frá KPMG, Jón Óskar Hallgrímsson frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Ólaf Magna Sverrisson frá embætti ríkisskattstjóra, Björgu Ástu Þórðardóttur og Katrínu Þóru Þorsteinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Hilmar Sigurðsson frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Helgu Margréti Reykdal og Leif B. Dagfinnsson frá Truenorth ehf. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi kvikmyndagerðarmanna, Íslandsstofu, KPMG ehf., ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtökum iðnaðarins (sameiginleg umsögn) og Truenorth Ísland ehf.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að endurgreiðsluhlutfallið hækki úr 20% í 25%. Einnig er lagt til að sjálfstæð nefnd taki við og afgreiði umsóknir á grundvelli laganna og verða ákvarðanir hennar þá kæranlegar til ráðuneytisins eða til yfirskattanefndar skv. 4. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að lögin gildi til 31. desember 2021 en að óbreyttu féllu þau úr gildi 31. desember 2016.
    Nefndin leggur til viðbót við 2. gr. frumvarpsins. Annars vegar er lögð til breyting á c-lið 1. mgr. 4. gr. laganna sem mælir fyrir um að stofna skuli sérstakt félag um viðkomandi framleiðslu. Nefndin telur þetta skilyrði laganna leiða til mikils kostnaðar fyrir framleiðendur og leggur til að kveðið verði á um að bókhald og uppgjör skuli aðgreint og það verði því ekki skilyrði fyrir endurgreiðslu að stofnað sé félag um hvert verkefni eða framleiðslu. Jafnframt er lagt til að ráðherra geti nánar kveðið á um aðgreiningu bókhalds í reglugerð. Hins vegar er lagt til að við j-lið 1. mgr. 4. gr. laganna bætist málsliður þess efnis að leggja skuli fram gögn um staðgreiðslu opinberra gjalda eða um undanþágu frá skattskyldu hér á landi. Fram kom við meðferð málsins að vinnuálag geti verið mikið við kvikmyndagerð og var því m.a. haldið fram að dæmi væru um að hvíldartími væri ekki virtur og öryggi á tökustað kynni að vera ábótavant. Nefndin telur miður ef sú er raunin og tekur undir að það orki tvímælis að ráðstafa fé úr opinberum sjóðum ef svo háttar til. Nefndin hvetur til þess að málið verði tekið upp á vettvangi aðila vinnumarkaðarins en breytingartillögu nefndarinnar við j-lið 1. mgr. 4. gr. laganna er ætlað að koma að nokkru leyti til móts við réttindi launafólks.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni var vísað til mikilvægis þess að ganga vel um náttúru landsins. Nefndin tekur undir þetta og telur að það eigi við um kvikmyndagerð sem aðra starfsemi að fylgja beri lögum og reglum á sviði umhverfisverndar, fara eftir útgefnum leyfum og umgangast náttúruna af virðingu að öðru leyti.
    Björt Ólafsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      2. gr. orðist svo:
              Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
              a.      C-liður 1. mgr. orðast svo: að bókhald og uppgjör hvers verkefnis sé sérstaklega aðgreint frá öðrum verkefnum þannig að ávallt sé unnt að greina þann kostnað sem tilheyrir hverju verkefni fyrir sig.
              b.      Við j-lið 1. mgr. bætist ný málsliður, svohljóðandi: leggja skal fram gögn um greidda staðgreiðslu eða um undanþágu frá skattskyldu hér á landi.
              c.      Í stað orðsins „ráðuneytinu“ í 2. mgr. kemur: nefnd um endurgreiðslur.
     2.      5. gr. orðist svo:
             Síðari málsliður 7. gr. laganna orðast svo: Í henni skal m.a. kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir nefndar um endurgreiðslur til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, aðgreiningu bókhalds skv. c-lið 4. gr., umsóknir, afgreiðslu umsókna og um ákvörðun um endurgreiðslu.

Alþingi, 12. maí 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, frsm. Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Kristján L. Möller. Willum Þór Þórsson.
Þorsteinn Sæmundsson. Hjálmar Bogi Hafliðason.