Ferill 669. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1341  —  669. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum (brunaöryggi vöru, EES-reglur).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.

    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hafstein Pálsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Ingibjörgu Halldórsdóttur frá Mannvirkjastofnun og Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Nefndinni barst umsögn um málið frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Með frumvarpinu er lagður grunnur að innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti. Eldri tilskipun var innleidd með reglugerð á grundvelli laga um Rafmagnseftirlit ríkisins, nr. 60/1979, en réttara þykir nú að tilskipunin verði innleidd á grundvelli laga um brunavarnir. Í tilskipuninni eru skilgreindar grunnkröfur sem vara skal uppfylla eftir því hversu mikil sprengihætta er í aðstæðum. Til að tryggja grunnkröfurnar skulu vörur vera CE-merktar. Mannvirkjastofnun annast eftirlit með framkvæmd laganna og skoðanir á grundvelli þeirra en getur falið faggiltri skoðunarstofu það verkefni, sbr. 2. mgr. c-liðar 1. gr. frumvarpsins (25. gr. b). Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um það hvaða vörur falla undir þær kröfur sem gerðar eru um brunaöryggi í frumvarpinu.
    Nefndinni bárust athugasemdir Samtaka verslunar og þjónustu varðandi stöðu faggildingar á Íslandi. Nefndinni hafa áður borist samsvarandi athugasemdir frá samtökunum og tekur undir með þeim um að pottur virðist brotinn í málaflokknum þar sem íslensk faggildingaryfirvöld hafa ekki farið í gegnum svokallað jafningjamat á grundvelli 10. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 765/2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum, þar sem m.a. er sannreynt og staðfest að starf faggildingaryfirvalda uppfylli kröfur sem til þeirra eru gerðar. Faggildingar sem gefnar eru út hér á landi af íslenskum faggildingaryfirvöldum teljast því ekki gildar á EES-svæðinu fyrr en jafningjamatið hefur farið fram. Þetta hefur skapað innlendum aðilum kostnað og fyrirhöfn þar sem þeir hafa þurft að leita til aðila erlendis varðandi faggildingu. Nefndin tekur því undir með samtökunum um að brýnt sé að koma málefnum faggildingar hér á landi í gott horf og að veita þurfi fjármuni til þess.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    3. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Ásta Guðrún Helgadóttir og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. maí 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form.
Katrín Júlíusdóttir,
frsm.
Haraldur Einarsson.
Birgir Ármannsson. Elín Hirst. Svandís Svavarsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.